150. löggjafarþing — 56. fundur
 3. feb. 2020.
þjónusta við eldra fólk.
fsp. ÓGunn og GBr, 462. mál. — Þskj. 674.

[16:46]
Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmenn erum fersk úr umræðunni áðan um málefni eldra fólks og þess vegna er ágætt að halda áfram að vissu leyti að höggva í sama knérunn, þó með svolítið öðrum hætti. Núna erum við að tala um þjónustu sem er meira fyrir þá eldri íbúa þessa lands sem þurfa orðið mikla heilbrigðisþjónustu, mikinn stuðning við athafnir daglegs lífs og fleira. Ég hef oft reifað það áður að við erum föst í tilteknu fyrirkomulagi, tilteknu þjónustumódeli fyrir eldra fólk. Af því leiðir í rauninni fyrsta spurningin, þ.e. hvernig ráðherra hyggist bregðast við fyrirsjáanlegri fjölgun eldra fólks og fyrirsjáanlega aukinni þjónustuþörf. Ég kom inn á það áðan að þjónustuaukningin verður ekki línuleg en við þurfum samt að komast út úr þeim kassa að svarið sé alltaf að byggja eitt hjúkrunarheimilið í viðbót, að svarið sé alltaf að nota meiri steinsteypu þegar það er kannski ekki málið. Það væri fróðlegt að heyra svör ráðherra við því.

Þá er líka mikilvægt að reyna að átta sig á því hver kostnaðurinn kynni að verða ef við héldum okkur við sama módelið. Í þeim staðreyndum sem þar eru á bak við ætti að vera nægilega mikill fælingarmáttur til að þvinga okkur til að fara aðrar leiðir.

Mig langar líka að vita um þjónustuna á hjúkrunarheimilunum eins og hún er í dag, hvernig hæstv. ráðherra sjái þessa þjónustu í til að mynda samhengi við friðhelgi einkalífs og mannhelgi. Hvernig virðum við sjálfsákvörðunarrétt fólks þegar það er sett inn í eitthvert form þar sem það þarf nánast, eins og staðan er í dag, að vakna á tilteknum tíma, borða morgunmat á tilteknum tíma, fara í bað á tilteknum tíma og það er ekki á þeim tíma sem viðkomandi ákveður sjálfur, a.m.k. ekki í þeim mæli sem við sem yngri erum myndum vilja?

Að lokum er spurningin um sameiningar sveitarfélaga vegna þess að við vitum að sum verkefni sem við erum að velta fyrir okkur í öldrunarþjónustunni eru svo stór að lítil, óburðug sveitarfélög munu aldrei geta sinnt þeim sjálf en hins vegar mun annaðhvort samstarf sveitarfélaga í stórum stíl eða sameiningar (Forseti hringir.) vonandi geta haft áhrif í jákvæða átt. Mér þætti gaman að heyra skoðanir ráðherra á þessum spurningum.



[16:50]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn Ólafur Þór Gunnarsson og Guðjón S. Brjánsson hafa beint til mín munnlegri fyrirspurn í fjórum liðum sem hér hefur verið farið yfir.

Í fyrsta lagi er spurt hvernig brugðist verði við fyrirsjáanlegri fjölgun eldra fólks og fyrirsjáanlega aukinni þjónustuþörf. Því er til að svara að með hækkandi aldri aukast líkur á langvinnum sjúkdómum. Slíkir sjúkdómar eru mesta heilbrigðisógn vestrænna samfélaga og þess vegna hljóta forvarnir og heilsuefling, eins og kom fram í fyrri umræðu, að vera einn mikilvægasti þátturinn í nútímaheilbrigðiskerfi. Á fjölsóttu heilbrigðisþingi sem var haldið í nóvember sl. bar kröfuna um aukið vægi forvarna í forgangsröðun heilbrigðisþjónustunnar eiginlega hæst. Þær eru ekki bara fjárhagslega skynsamlegasta leiðin heldur sparar sú leið líka fólki þjáningar og eykur lífsgæði sem seint verður verðlagt í krónum. Nú þegar eru áherslur á auknar forvarnir farnar að tala sínu máli og undir lok síðasta árs lagði ég 130 milljónir til aukinnar heimahjúkrunar og 200 milljónir til uppbyggingar heilsueflandi móttaka á heilsugæslustöðvum en þær viðbætur eru til þess fallnar að bæta þjónustu við aldraða. Við höfum gert samninga um sveigjanlega dagdvöl, viljum hafa miklu meiri fjölbreytni í þjónustu við aldrað fólk af því að aldrað fólk er alls konar fólk og aldrað fólk er líka á mismunandi aldri við mismunandi heilsu.

Í öðru lagi er spurt hvort til sé í ráðuneytinu mat á kostnaðinum við að notast áfram við sama fyrirkomulag, þ.e. búsetu á hjúkrunarheimili, einkum þegar horft er til þeirrar fjölgunar sem verður í hópi 85 ára og eldri og lengdra ævilíka. Ráðuneytið hefur greint þennan kostnað sem óbreytt notkun hjúkrunarheimila með tilliti til búsetu og aldurssamsetningar mun hafa í för með sér. Núvirði kostnaðar við rekstur hjúkrunarheimila miðað við þessar forsendur væri orðið 51,4 milljarðar kr. á ári árið 2030, 73 milljarðar kr. árið 2040 og 89 milljarðar kr. árið 2050. Þessi framtíðarsýn leiðir skýrt í ljós að áherslubreytinga er þörf í þjónustu við aldraða þó að það væri bara þetta. Fjölgun hjúkrunarrýma dugir ekki ein og sér til að standa undir þjónustunni, þó að við þurfum sannarlega að fjölga hjúkrunarrýmum, heldur verður að auka þjónustuna utan stofnana og að því er unnið í heilbrigðisráðuneytinu á hverjum degi. Eitt mikilvægasta skrefið er að styðja við sjálfstæða búsetu með því að horfa á auknar forvarnir og þá fyrst og fremst heilsueflingu í öllum mögulegum skilningi. Þar með erum við líka að seinka þörf fyrir hjúkrunarrými.

Í þriðja lagi spyrja hv. þingmenn hvaða mat sé lagt á fyrirkomulag núverandi þjónustu á hjúkrunarheimilum hvað varðar sjálfsákvörðunarrétt og einnig hvað varðar þá þjónustu sem þar er í boði. Skýr áhersla er lögð á að aldraðir, jafnt og aðrir, haldi sjálfræði sínu með sjálfstæðri búsetu eins lengi og verða má og að þjónustuþörf þeirra sé mætt með heilsugæslu, heimahjúkrun, heimaþjónustu, dagdvöl og hvíldarinnlögnum. Flutningur á hjúkrunarheimili á að vera síðasta úrræðið og einungis notað þegar sýnt er að þörf sé á hjúkrun allan sólarhringinn. Hjúkrunarheimili eru því fyrst og fremst stofnanir sem veita einstaklingshæfða hjúkrun á síðustu misserum af ævi fólks og loks líknandi hjúkrun. Til að styðja enn betur við sjálfstæða búsetu aldraðra er því nauðsynlegt að laga þjónustuna sem best að stigvaxandi þörf hins aldraða fyrir þjónustuna, frá forvarnarstarfi með heilsueflingu og fyrsta stuðningi heima og til dvalar á hjúkrunarheimili.

Loks spyrja hv. þingmenn hvort ráðherra telji að með sameiningu sveitarfélaga skapist forsendur til að flytja þjónustu við eldra fólk í meira mæli til þeirra. Samþætting heilbrigðis- og félagsþjónustu er eitt mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í þjónustu við aldraða. Það sem eykur flækjustigið er að þjónustan er á hendi ýmissa aðila, bæði ríkis og sveitarfélaga, ólíkt því sem er annars staðar á Norðurlöndunum þar sem þjónusta við aldraða er á vegum sveitarfélaganna. Sameining sveitarfélaganna í stærri og sterkari einingar er nauðsyn fyrir íslenskt samfélag til að þróa nærþjónustuna og það einfaldlega verður að tryggja að sveitarfélögin verði stærri og öflugri til að geta sinnt þessum mikilvægu verkefnum og að íbúarnir njóti þessarar þjónustu jafnt óháð búsetu. Þegar hefur verið kallað eftir aukinni samvinnu við sveitarfélög á þessum vettvangi og vonir standa til að það samstarf geti hafist innan skamms. Ég á reglulega fundi með Sambandi íslenskra sveitarfélaga um aukna samhæfingu þjónustunnar. Ýmis verkefni eru í gangi víða um land til að bæta þjónustu við aldraða og þá á vettvangi hvers svæðis um sig, til að mynda á Akureyri, og það eru allt verkefni til góðs. Það sem myndi gera mest gagn í þessum efnum er að sameina og efla sveitarfélög.



[16:55]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í þessari góðu umræðu. Það er mikill sómi að því og ánægja að fá að taka þátt í fyrirspurninni með hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni. Þetta er mikilvægur málaflokkur eins og við vitum og það er keppikefli okkar allra að verða sem elst og það er hlutskipti okkar flestra sem betur fer. Því er spáð að lífslíkur okkar muni áfram vaxa og aukast, að við munum lifa lengur, að jafnvel árið 2050 muni ævin hafa lengst að meðaltali um átta ár og að við getum náð níræðisaldri að jafnaði. Þetta hefur mikil áhrif í samfélaginu og auðvitað koma upp í hugann tvö atriði í því sambandi, heilbrigðisþjónusta og eftirlaun. Að jafnaði eykst kostnaður vegna hækkandi aldurs og þess að við höfum aukna þörf fyrir heilsugæslu.

Ég vildi aðeins velta þessum þáttum upp með endurskoðun (Forseti hringir.) eftirlaunaaldursins.



[16:56]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þær umræður sem hafa verið hérna í dag sem eru bæði skemmtilegar og nauðsynlegar. Það er talað um eflingu sveitarstjórnarstigsins til að það geti tekið að sér umrædda þjónustu en þá vil ég nefna þjónustu sem er veitt víðs vegar í sveitarfélögum þótt þau séu hvorki stór né burðug en sem skiptir gríðarlega miklu máli og það er félagsleg þjónusta eins og heimsóknaþjónusta. Víða í litlum samfélögum úti á landi eru aðstandendur eldri borgara fluttir í burtu og eru eldri borgararnir orðnir einir eftir en eru samt svo heilsugóðir að þeir þurfa ekki að fara inn á hjúkrunarheimili. Heimsóknaþjónustan skiptir alveg gríðarlega miklu máli og er nauðsynleg vegna þess að við erum, eins og hefur komið fram, ekkert endilega tilbúin að fara inn á hjúkrunarheimili þegar við höfum þokkalega heilsu en þurfum að fá aðstoð heima og heimsóknir, bæði á félagslegum grunni (Forseti hringir.) og til að sinna ýmsum þörfum. Það skiptir miklu máli.



[16:58]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Þeirri staðreynd að þjóðin er að eldast er fagnað í aðra röndina en þegar kemur að því að mæta þeim fögnuði með gjörðum og efndum breytist hljóðið. Þá er þessi hækkun á meðalaldri karla og kvenna orðin vandamál. Ég spyr: Af hverju? Af hverju er ekki sú staðreynd uppi að stjórnvöld hafi þá skýru stefnu að mæta þessari þróun sem er ekkert að byrja í dag eða í gær? Þessi þróun sem ætti að vera fagnaðarefni alveg í gegn, að eldri borgarar séu að ná hærri aldri, er löngu byrjuð. Þar af leiðandi finnst mér að það ætti að vera alveg uppi á borðinu að því væri mætt með fögnuði í gjörðum og efndum að þessi staðreynd er uppi.



[16:59]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tel mjög mikilvægt að eldra fólk fái að eldast í sinni heimabyggð og ég held að það væri fróðlegt að vita hvort einhver könnun hafi verið gerð á því hve margir hafi þurft að flytjast búferlum sökum þess að nægilega góð úrræði væru ekki til staðar til að mæta þörfum fólks þegar það eldist. Komið hefur verið inn á heimahjúkrun og félagslega þjónustu sem ég tel mjög mikilvægt að sé til staðar svo fólk geti verið í sjálfstæðri búsetu sem lengst. Hjúkrunarheimili eru vissulega stigið í lokin og það þarf líka að vera til staðar en fólki þarf að gefast kostur á að minnka við sig húsnæði, fara í þjónustuíbúðir eða íbúðir við hæfi miðað við aldur og heilsu. Heilsuefling er virkilega stór þáttur í því að fólk treysti sér til að vera sem lengst heima, sem ég held að sé markmiðið sem við þurfum að stefna að og horfa til Norðurlandanna í þeim efnum. Þar erum við eftirbátar en við þurfum að setja markið að vera sambærileg og gerist (Forseti hringir.) á Norðurlöndunum í þeim efnum.



[17:00]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér í umræðu um þjónustu við eldra fólk og þakka fyrir að þessi umræða er á dagskrá í dag. Fyrirspyrjandi ræddi um mikilvægi nýrrar hugsunar og nýsköpunar og hæstv. ráðherra kom inn á mikilvægi forvarna og sveigjanleika. Ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði en ég hef oft velt fyrir mér af hverju við erum ekki með meiri samvinnu og teymisvinnu í þjónustu við aldraða þar sem sá aldraði væri hugsanlega teymisstjórinn og að umönnuninni gætu komið starfsmenn sveitarfélaga og heilbrigðiskerfisins og ættingjar ef því er að skipta því að eins íþyngjandi og það getur verið að bera alla umönnunarbyrðina eru líka ákveðin lífsgæði í því að geta tekið þátt í umönnun aldraðra ættingja.



[17:01]
Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Hún hefur verið skemmtileg. Eins og við komum inn á hér fyrr í dag munu sennilega forvarnir og heilbrigður lífsstíll á endanum skila okkur einna mestu í því hvernig við getum tekist á við þetta verkefni — ekki vandamál — vegna þess að auðvitað viljum við sem samfélag halda utan um allar þegnana og tryggja að allir búi við þau lífsgæði sem þeir hafa vilja og getu til. Það er fagnaðarefni að heyra hjá hæstv. ráðherra að auðvitað ætlum við ekki að eyða tæplega 90 milljörðum á ári í rekstur hjúkrunarheimila árið 2050. Það er uppörvandi að heyra að þá ætlum við ekki að vera komin á þann stað að eyða jafn miklum eða meiri fjármunum í að reka hjúkrunarheimili og við gerum í dag í að reka Landspítalann og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til samans. Það er gott að heyra. Það er einmitt miklu betra að tryggja að fólk fái stuðning við búsetu heima hjá sér með aukinni heimahjúkrun og samþætting þjónustunnar er þar algjört lykilatriði. Þess vegna er svo mikilvægt að stór og sterk og burðug sveitarfélög geti raunverulega tekið að sér verkefni eins og hæstv. ráðherra kom inn á, sérstaklega þegar kemur að þessari þjónustu. Þess vegna er mikilvægt, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að þessir samningar við sveitarfélögin haldi áfram og að það verði gert í æ ríkara mæli og tryggt þannig að fólk fái þjónustuna þangað sem það vill fá hana. Við viljum auðvitað að fyrirkomulagið sé eins og þjónustunotendurnir vilja hafa það en ekki (Forseti hringir.) eins og þjónustuveitendurnir vilja veita það.



[17:04]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég neita því ekki að sem sérstakur áhugamaður um þingstörf hef ég mjög gaman af þeirri nýbreytni að tveir þingmenn séu saman um spurningar og ekki síður vegna þess að þeir eru hvor sínum megin gljúfursins milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það sýnir okkur nákvæmlega undir þessum dagskrárlið að þetta er mál sem varðar okkur öll, algjörlega óháð því hvernig ríkisstjórn er sett saman á hverjum tíma.

Það er rétt að taka saman í lokin að heilbrigðiskerfi sögunnar, alveg sama hvort við erum að tala um 19. eða 20. öld og þegar þau eru í raun og veru að byggjast upp, byggjast upp vegna þarfa samfélaganna vegna smitsjúkdóma sem voru ein helsta heilbrigðisváin á þeim tímum. Aðstæðurnar sem við sjáum núna eru svo mikið breyttar þegar þær heilbrigðisógnir sem við erum að glíma við og þau viðfangsefni — svo ég taki hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson mér til fyrirmyndar, að tala um verkefni en ekki vandamál — eru langvinnir sjúkdómar. Með hækkandi aldri aukast líkur á langvinnum sjúkdómum og þá erum við farin að tala um ákveðnar flekahreyfingar í því hvert eðli þjónustunnar er, aukin áhersla á ábyrgð á eigin heilsu, aukin áhersla á lífsstíl, meiri forvarnir, meiri upplýsingar og meiri heilsueflingu í kerfinu. Mér finnst spennandi sem hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir talaði um varðandi forystu þess sem þjónustunnar nýtur af því að stundum gleymir maður því hversu mikilvægt það er, og ekki síður út frá sjálfsákvörðunarrétti og mannlegri reisn, að sá sem þjónustunnar nýtur sé sá sem stendur í stafni og byggir upp þjónustuna sem breytist síðan stig af stigi eftir því sem þörfin eykst (Forseti hringir.) og tímanum vindur fram.

Ég þakka fyrir þessa góðu umræðu.