150. löggjafarþing — 60. fundur.
samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki, fyrri umræða.
þáltill. ÞorstV o.fl., 267. mál. — Þskj. 295.

[19:10]
Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þessa tillögu enda er hún til þess að gera einföld og hefur verið flutt hér áður. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta vinna heildstæða úttekt á löggjöf og regluverki hér á landi með hliðsjón af áhrifum á virka samkeppni á markaði. Við vinnuna verði leitað eftir samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina. Heimilt verði að skipta úttektinni í áfanga en henni skuli að fullu lokið fyrir árslok 2022.“

Tillagan var flutt áður á 149. löggjafarþingi og er nú lögð fram að nýju óbreytt. Rétt er að geta þess að þegar er yfirstandandi úttekt sem þessi af hálfu atvinnuvegaráðuneytisins hvað varðar starfsumhverfi ferðaþjónustu og byggingariðnaðar, ef ég man rétt, og er mjög jákvætt að sjá stjórnvöld stíga þessi skref. En hér er lagt til að gengið verði lengra og allt regluverkið endurskoðað með þessi markmið að leiðarljósi. Það má benda á fjölda ríkja sem hafa gert þetta. Ástralir þykja hvað fremstir á þessu sviði, hafa markvisst undanfarna tvo áratugi hið minnsta gert reglulega úttekt á regluverki sínu til þess einmitt að ryðja samkeppnishindrunum úr vegi og telja sig geta rakið a.m.k. 0,5–1% hagvaxtarauka á ári hverju á þessu tímabili til þeirra aðgerða einna og sér, þ.e. að hafa aukið samkeppni á markaði heima fyrir. Hér á landi er því miður oft eins og samkeppni sé litin hornauga. Við erum með sérstakar undanþágur frá samkeppnislögum þegar kemur t.d. að landbúnaðarvörum. Oft er deilt mjög á samkeppnisumhverfi og vissulega er það svo að við erum lítill markaður og með einkenni fákeppni á mörgum vöru- og þjónustumörkuðum hér á landi. En það er samt svo, og kemur ágætlega fram í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu, að grundvallarmunur er á verðlagsþróun þeirra vara sem eru í virkri samkeppni hér á landi og þeirra vara sem búa við einokun eða hreina undanþágu frá samkeppni. Það kemur m.a. ágætlega fram á mynd 3 í greinargerðinni, sem sýnir verðbreytingar nokkurra vöruflokka frá 1997 yfir mjög langt tímabil, meðalhækkun þessara vara á ári. Þar kemur m.a. fram að föt og skór sem eru innflutt vara í óheftri samkeppni og símaþjónusta, sem reyndar var losuð úr samkeppnishömlum á þessu tímabili, hafa hækkað langminnst á þessu viðmiðunartímabili, að jafnaði um eða innan við 1% á ári á sama tíma og þjónustuflokkar eins og t.d. póstur eða póstþjónusta, sem lengst af þessu tímabili hefur verið háð einokun hins opinbera eða einkarétti, og akstur leigubifreiða hafa hækkað umtalsvert meira eða á bilinu 6–7% að jafnaði á ári og uppsöfnuð hækkun yfir þetta langa viðmiðunartímabil, liðlega 20 ára tímabil, er þá t.d. í tilfelli póstþjónustu, og eru þá ekki síðustu hækkanir meðtaldar, rúmlega 300% hækkun á röskum tveimur áratugum á sama tíma og símaþjónusta hefur hækkað óverulega yfir þetta heildartímabil. Það sýnir sig að það á ekkert síður við hér á landi en annars staðar að samkeppni skilar árangri, skilar ávinningi fyrir neytendur sem er auðvitað það sem á endanum skiptir langmestu máli. Ég held að við eigum fjölmörg tækifæri til að efla hér samkeppnismarkaði og ryðja óþarfa samkeppnishindrunum úr vegi. Oft og tíðum er verið að leggja stein í götu nýrra fyrirtækja með óþarfa regluverki og gera það óþarflega flókið að stofna eða hefja rekstur á viðkomandi mörkuðum.

Hér hefur verið talað um raforkumarkaðinn. Í langri umræðu síðasta vor var m.a. bent á að samkeppnisumhverfi þessa markaðar væri enn fjarri því fullkomið og mætti ýmislegt gera til að bæta þar úr. Þess vegna held ég að tillagan myndi skila miklum ávinningi næði hún fram að ganga og íslensk stjórnvöld réðust í endurskoðun á laga- og regluverki með þessum hætti. Ég vona svo sannarlega að þessi tillaga hljóti góðan hljómgrunn í þinginu og þeirri nefnd sem fær hana til umfjöllunar. Ég vonast til þess að hún komist hér til síðari umræðu þegar nálgast vor.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, ég hlakka bara til að takast á við umræðuna hér í þinginu.



[19:15]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir framsöguna. Í texta þingsályktunartillögunnar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta vinna heildstæða úttekt á löggjöf og regluverki hér á landi með hliðsjón af áhrifum á virka samkeppni á markaði.“

Þetta hljómar alveg ágætlega en við í Miðflokknum höfum ýtt úr vör verkefni innan húss hjá okkur sem við höfum fengið mikil viðbrögð við sem við höfum kallað „Báknið burt“. Úttektin á ferðaþjónustunni og byggingarmarkaðnum — ég skildi það þannig, það má vera að það sé misminni hjá mér, að það væri úttekt á regluverkinu til einföldunar þess, það væri ekki sérstakur fókus á samkeppnishlutann per se. Mig langar því að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort það sé samkeppnisatriðið sem þingmaðurinn álíti kjarnaatriðið í þessu eða einföldun regluverksins, sem má þá hengja á hattinn „Báknið burt“, ef svo má segja.

Þingmaðurinn kom inn á það í ræðu sinni, flækjustig í tæknilegum útfærslum og fleira slíkt, en mig langar til að heyra það frá þingmanninum hvort hann metur samkeppnisvinkilinn mikilvægari í þessu. Þá má segja, alla vega horfir það þannig við mér, að það þrengi kannski aðeins þá markaði sem þetta mál tekur til eða hvort þetta sé svona allsherjarleið að því að einfalda regluverkið og minnka báknið, eins og við köllum það.



[19:17]
Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Stutta svarið er: Ég legg þetta algerlega að jöfnu, þ.e. „Báknið burt“ og að ryðja burt samkeppnishindrunum, það er bara nákvæmlega sami hluturinn. Það er miklu þægilegra fyrir fyrirtækin sem fyrir eru á markaði að starfa í flóknu regluumhverfi en fyrir ný fyrirtæki sem þekkja ekki inn á leikreglur hins opinbera á viðkomandi sviði. Það er miklu auðveldara fyrir stærri fyrirtæki að takast á við flókið regluverk og mikið bákn, fyrirtæki sem geta haft lögfræðinga á sínum snærum, en fyrir lítil sprotafyrirtæki að komast inn á slíka markaði með ærnum tilkostnaði. Það helst algjörlega í hendur að einfalda regluverkið einföldunarinnar vegna, einmitt til að gera fyrirtækjum og almenningi þægilegra að athafna sig á viðkomandi mörkuðum, og örva um leið samkeppni. Allar rannsóknir á þessu sviði sýna að flókið, tyrfið regluverk gagnast helst stórum fyrirtækjum sem liggja fyrir á fleti, ef svo má segja, á viðkomandi markaði. Þess vegna hjálpar þetta nýjum fyrirtækjum til að hasla sér völl og örvar samkeppni en dregur um leið úr viðskiptakostnaði og einfaldar þeim fyrirtækjum sem þegar eru starfandi að starfa. Ágætisdæmi er t.d. byggingarmarkaðurinn þar sem við sjáum að helsta tregðan er hversu langan tíma það tekur að fá útgefin byggingarleyfi, að ljúka skipulagsvinnu og annað þess háttar sem er ærinn kostnaður og miklu erfiðara fyrir lítil og kannski oft vanfjármögnuð fyrirtæki en stöndug og fjársterk fyrirtæki sem fyrir eru þannig að þetta helst algjörlega í hendur.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og viðskn.