150. löggjafarþing — 62. fundur.
leiga skráningarskyldra ökutækja, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 386. mál (stjórnvaldssektir). — Þskj. 499.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:54]

[16:51]
Ólafur Ísleifsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál er viðbrögð við alvarlegu hneyksli sem fólst í því að bílaleigufyrirtæki skrúfaði niður, eins og það heitir, ökumæla fjölda bifreiða um allt að tugþúsundir kílómetra. Það er talað um 148 bíla. Viðbrögð stjórnvalda við þessu hafa verið linkuleg, svo ekki sé meira sagt, og viðbrögðin í þessu frumvarpi eru það áfram. Við Miðflokksmenn í atvinnuveganefnd, við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson, fluttum frávísunartillögu sem fjallaði um að þetta mál færi aftur til ríkisstjórnarinnar sem ynni það betur.

Við Miðflokksmenn munum ekki leggjast gegn þessu máli út af fyrir sig en við munum heldur ekki greiða því atkvæði.



Frv.  samþ. með 41 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AFE,  AIJ,  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BHar,  GBr,  GuðmT,  HSK,  HallM,  HKF,  HVH,  JónG,  JSV,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  NTF,  OH,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  RBB,  SÁA,  SilG,  SMc,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞorstV,  ÞórP,  ÞórdG,  ÞSÆ.
8 þm. (BergÓ,  BirgÞ,  GIK,  IngS,  KGH,  ÓÍ,  SDG,  SPJ) greiddu ekki atkv.
14 þm. (AKÁ,  ÁÓÁ,  BN,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HHG,  JÞÓ,  KJak,  LínS,  LE,  SIJ,  ÞKG,  ÞorS) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[16:52]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Alvarleiki þessa máls þykir mér vera af slíku kalíberi, ef ég má sletta aðeins, að það er eiginlega ekki nokkur einasta leið að greiða því atkvæði. Það er alveg með ólíkindum að senda þau skilaboð út í samfélagið að menn megi í rauninni brjóta gegn almennum hegningarlögum og hvaðeina og ljúga, svíkja og pretta og það í risavís með einbeittan brotavilja og það eina sem á að gera er að slá aðeins á puttann og segja: Ef þú svindlar nokkrum sinnum í viðbót ertu löngu búinn að vinna þér nóg inn með svindlinu til að borga þá litlu sekt sem við ætlum að leggja á þig.

Ég bara verð að segja að ef ég fengi að ráða, sem ég geri ekki, hefði ég svipt þessa bílaleigu rekstrarleyfi á stundinni í einhvern ákveðinn tíma og sent henni skýr skilaboð: Svona gera menn ekki.



[16:53]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mikils misskilnings gætir hjá hv. þingmanni sem talaði á undan mér. Það eru hegningarlög í landinu sem snúa að því að ef um stórfelld brot er að ræða taka hegningarlög á því. Þetta mál, mál 386, snýr raunverulega að ökutækjaleigum þar sem verið er að segja: Það er bannað að skrúfa niður kílómetratöluna. Það eru fullkomin lög í landinu um hegningarlagabrot og annað. Það er rannsókn í gangi þannig að ég skil ekki það fussumsvei um málið sem kom fram hér.