150. löggjafarþing — 86. fundur
 2. apríl 2020.
um fundarstjórn.

þingfundir og umræður.

[10:33]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við upplifum nú fordæmalausa tíma og á slíkum stundum skipta viðbrögð og tímasetning þeirra öllu máli. Viðbrögð markast af hugmyndum sem æskilegt er að komi úr sem flestum áttum, ekki síst frá stjórnmálamönnum, hvernig bregðast skuli við einstaka vandamálum og ástandinu yfir höfuð. Þeim mun meiri líkur eru á að viðbrögð séu rétt og gagnist sem best og sem flestum. Nú um stundir er samfélagið og reyndar heimsbyggðin öll meira og minna í frjálsu falli efnahagslega séð og staðan tekur breytingum daglega, ef ekki á skemmri tíma. Enginn veit í raun hvernig útlitið verður eftir mánuð svo ég nefni ekki lengri tíma.

Því nefni ég nú, herra forseti, að þó að ég hafi fullan skilning á að störfum þingsins sé haldið í algjöru lágmarki tel ég mikilvægt að heimila hér meiri umræður, t.d. sérstakar umræður og umræður um störf þingsins. Þar er ekki um langan tíma að ræða og kallar ekki á mikla nálægð eða smithættu. Umræður eru kannski aldrei eins mikilvægar og nú, herra forseti. Til að mynda eru fjölmörg mál sem vert væri að ræða, t.d. er þörf á að ræða þær stéttir sem standa í eldlínunni og margar hverjar eru með lausa samninga við ríkið. Ég nefni lögreglumenn og hjúkrunarfræðinga.



[10:34]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég beini því til herra forseta að fram fari sérstök umræða í þinginu um stöðuna sem komin er upp í baráttunni við kórónuveiruna. Ríkisstjórnin lítilsvirðir hjúkrunarfræðinga, þá sem við þurfum mest á að halda á hættutímum. Skilaboð ríkisstjórnarinnar með konu í stóli forsætisráðherra og konu í stóli heilbrigðisráðherra til hjúkrunarfræðinga, stærstu kvennastéttar landsins, og það á tímum heimsfaraldurs eru þessi: Við höfum engan áhuga á að semja við ykkur þó svo að samningar hafi verið lausir í eitt ár. Við lækkuðum launin við ykkur um mánaðamótin og við felldum tillögu á Alþingi um að færa ykkur sérstaka álagsgreiðslu.

Herra forseti. Alþingi þarf að grípa inn í og stoppa þessa dæmalausu framkomu ríkisstjórnarinnar. Þetta alvarlega mál þarf að ræða strax og á þessum vettvangi verður að taka á því. Ég leita liðsinnis herra forseta.



[10:35]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vekur athygli á því að þessi fundur er boðaður til að hafa óundirbúinn fyrirspurnatíma og hvorki hæstv. forsætisráðherra né hæstv. heilbrigðisráðherra eru til svara í dag. Fundarhaldið hér fer fram algjörlega samkvæmt samþykkt forsætisnefndar frá 19. mars sl.