150. löggjafarþing — 107. fundur.
aukin skógrækt.
fsp. KGH, 785. mál. — Þskj. 1386.

[17:54]
Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi fagna því að fá tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. umhverfisráðherra um skógrækt. Ég hef reyndar gert það áður þannig að ég held áfram að hamra.

Ég er með tvær spurningar til hæstv. ráðherra. Sú fyrri er: Telur ráðherra að aukin skógrækt gæti nýst til að bæta úr bágu atvinnuástandi nú um stundir? Sú síðari er: Telur ráðherra unnt að flýta skógræktarverkefnum með skömmum fyrirvara? Hvaða verkefni kæmu þar helst til greina?

Ég er sem sagt að spyrja hæstv. ráðherra um ástandið núna, þ.e. aukið atvinnuleysi, með tilliti til þess að stjórnvöld hafa beitt fjármagni til að styrkja atvinnulífið á ýmsum sviðum. Af því tilefni spyr ég hæstv. ráðherra þeirra spurninga hvort skógrækt sé ekki einmitt tilvalið verkefni til að fara í á þessum tímum. Ég geri mér einnig grein fyrir því að ekki er hægt að planta trjám ef ekki er búið að ala plönturnar upp áður. Ég geri mér fulla grein fyrir því en spyr hvort ekki séu ýmis önnur verkefni sem unnt er að fara í með skömmum fyrirvara á sviði skógræktar, eins og t.d. að grisja þá skóga sem fyrir eru sem þarfnast grisjunar. Grisjun eykur vöxt þeirra trjáa sem eftir eru og eykur verðmæti þeirra og gæði og er því innlegg til framtíðar til að auka verðmæti þeirra skóga sem fyrir eru. Ég veit um mörg svæði þar sem þetta hefur farist svolítið fyrir og ekki verið unnið að. Það er eitt verkefni sem ég hef í huga.

Svo má nefna mörg önnur verkefni eins og auðvitað útplöntun á ungplöntum í sumar, stígagerð, fræsöfnun og snyrtingu í þeim skógum sem fyrir eru. Ég held að það sé tilvalið núna og spyr ráðherra hvort ekki sé einmitt tilvalið núna að fara í slík verkefni. Ég minni á, eins og ég hef áður gert, að skógrækt er fjárfesting til langrar framtíðar. Skógrækt er ekki atvinnugrein sem sveiflast til eftir einhverjum hagsveiflum í heiminum eða hér á landi heldur getur hún bara beðið og nýst þegar menn kjósa svo. Það er hægt að bíða með að höggva skóg ef trjáverð er lágt. Það er hægt að geyma það til framtíðar og það er hægt að nýta skóginn þegar menn kjósa. Ég hef mikinn áhuga á að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til þessara spurninga.



[17:57]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina og líka fyrir það hversu ötullega hann ræðir um skógræktarmál á Alþingi. Stutta svarið við spurningunum er: Já og já.

Lengra svarið er þetta: Þegar spurt er hvort ráðherra telji að aukin skógrækt geti nýst til að bæta úr bágu atvinnuástandi nú um stundir er aukin skógrækt einmitt ein af þeim aðgerðum sem ég setti af stað vegna þess ástands sem nú er uppi í þjóðfélaginu á grundvelli fjárauka sem samþykktur var á þingi í lok mars. Sú aðferðafræði sem við beittum í ráðuneytinu var að leita til stofnana okkar, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar, um verkefni sem þyrftu að geta hafist, eins og krafist er í fjáraukanum, fyrir 1. september og vera lokið fyrir 1. apríl á næsta ári. Það þrengir talsvert að því sem hægt er að gera en ég mun þá ræða aðeins þær aðgerðir sem við erum að ráðast í varðandi aukna skógrækt sem byggja á tillögum frá Skógræktinni. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir auknum verkefnum í þágu endurheimtar birkiskóga með gróðursetningu á a.m.k. 0,5 milljónum birkiplantna sem beint verður í gegnum skógrækt á lögbýlum og vinnu t.d. skólafólks og verktaka. Í það voru settar 60 millj. kr.

Þá má nefna að Skógræktin hratt af stað átaki í söfnun á birkifræi fyrir tæpum tveimur árum og hyggst Skógræktin ráðast í átak í frætínslu birkis á komandi hausti og verða verktakar ráðnir til þess starfs. Áætlað er að setja um 5 millj. kr. í þetta.

Í þriðja lagi verður unnið að friðun lands til skógræktar með stækkun girðinga og í fjórða lagi ráðist í grisjunarátak, sem hv. þingmaður spurði einmitt eftir, í nytjaskógum innan skógræktar á lögbýlum. Voru settar um 20 millj. kr. í það verkefni.

Í fimmta lagi var skrifað undir samstarfssamning við Vistorku á Akureyri um fjölbreytt verkefni við nýtingu á moltu, m.a. til skógræktar í nágrenni Akureyrar og á Hólasandi. Að verkefninu koma, auk ráðuneytisins og Vistorku, Akureyrarbær, Orkusetur, Molta, Skógræktin, Landgræðslan og Landbúnaðarháskóli Íslands. Um er að ræða verkefni sem kostar alls rúmlega 45 millj. kr. og ráðuneytið setur þriðjung í það, 15 milljónir.

Síðan er ég spurður hvort unnt sé að flýta skógræktarverkefnum með skömmum fyrirvara. Það er hægt að flýta fjölbreyttum skógræktarverkefnum víða um land með skömmum fyrirvara, svo lengi sem til eru plöntur ef verið er að tala um að gróðursetja. Ég nefndi áðan líka átak í frætínslu og varðandi grisjun og stækkun girðinga og ætla svo sem ekki að endurtaka það.

Innan skógræktar á lögbýlum liggja fyrir samningar um skógrækt þar sem auka má hraða verkefna. Því liggur fyrir að bændur geta tekið að sér fleiri verkefni og með skömmum fyrirvara teljum við að ýmsum verkefnum, sérstaklega við endurheimt birkiskóga, mætti hraða þar sem áherslan er á að byggja upp á ný eydd eða hnignuð vistkerfi. Dæmi um slík samstarfsverkefni Skógræktarinnar og Landgræðslunnar eru Hekluskógar, Þorláksskógar og Hólasandur. Við erum líka að skoða fleiri svæði sem gætu fallið í þennan flokk verkefna. Með eins skömmum fyrirvara og við vorum að tala um í ár erum við kannski fyrst og fremst að tala um endurheimtarverkefni, birki, víði og annað slíkt en til lengri tíma, ef við horfum aðeins lengra inn í framtíðina, væri hægt að skoða fleiri verkefni.

Ég vil líka geta þess að við þurfum alltaf að hafa í huga að mínu mati samlegðaráhrif af aðgerðum í þágu loftslagsmála sem varða kolefnisbindinguna og aðgerðum á sviði gróður- og jarðvegsverndar. Ég hef lagt áherslu á að við vinnum að mörgum mikilvægum markmiðum í einu og að samlegð skuldbindinga okkar með alþjóðlegum samningum um loftslagsmál, líffræðilega fjölbreytni og varnir gegn eyðimerkurmyndun sé tryggð svo dæmi séu nefnd.



[18:02]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þetta eru góðar umræður og ég þakka málsaðilum fyrir að halda þeim uppi. Mig langar aðeins að enduróma ákall heimsbyggðarinnar um aukna skógrækt hvarvetna og hvetja til hennar á Íslandi með öllum ráðum.

Við vitum þátt trjáa í kolefnisbindingu. Kolefnisjöfnun er annað hugtak sem við getum notað. Þar eru hagrænar aðgerðir oft heppilegar. Fyrir þinginu liggur þingmannafrumvarp um að 0,85% tekna megi taka undan skatti, ef svo má að orði komast, til kolefnisjöfnunar. Vonandi tekst að afgreiða það hér.

Þegar við tölum um skóga er verið að tala um nytjaskóga. Nytjar eru margvíslegar en það er líka verið að tala um (Forseti hringir.) íslensku frumskógana sem eru birkiskógar og reyniviðartré. Ég hvet til þess að við látum virkilega reyna á framgang í þeim efnum.



[18:03]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég blanda mér í þessa umræðu eins og fleiri til að taka undir mikilvægi skógræktar. Skógrækt er verkefni sem krefst margra handa og er mikilvægt á tímum eins og núna, eins og jafnframt á öðrum tímum. Ég vil sérstaklega draga fram að yfirráðamenn um 650 jarða í landinu hafa gert samninga um nytjaskógrækt. Það er sennilega búið að planta í u.þ.b. helming landsins sem búið er að taka frá í þessu skyni, búið að leggja vinnu í að skipuleggja þannig að þarna eru mikil tækifæri.

Síðan vil ég bara draga fram að ég er mjög ánægð með styrkinn til grisjunar sem getur skapað atvinnu og ný verðmæti en hvet líka til þess að við notum þessa tíma (Forseti hringir.) til að bæta aðstöðu í þjóðskógunum, göngustíga og skiltagerð.



[18:05]
Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans ágætu svör og jákvæðni gagnvart spurningum mínum. Ég er reyndar með nokkrar athugasemdir. Ég ætla að tala um kolefnisjöfnun sem ég gerði ekki í minni fyrri ræðu. Nú leita menn allra leiða til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda til að koma í veg fyrir áhrif þeirra á loftslag á hnettinum að sögn. Ekki ætla ég að gera lítið úr þeirri viðleitni, alls ekki, en það augljósa fyrir okkur Íslendinga er vitaskuld að kolefnisjafna allan okkar útblástur með því að láta trén um að binda þessi efni í arðbærum viði. Ræktun skóga er mikilvægasta og skilvirkasta náttúrulega aðferðin sem heimsbyggðin hefur tiltæka til kolefnisbindingar. Þar eigum við að nota sem mest af þeim trjátegundum sem binda mest.

Hæstv. ráðherra talar ítrekað um birki. Að meðaltali bindur ræktaður íslenskur skógur um 10 tonn af kolefni á hektara per ár hér á landi á meðan góður birkiskógur bindur í besta falli 3 tonn. Asparskógur getur bundið allt að 23 tonn á hverjum hektara á ári. Hvað er augljósara? Það þarf ekki nema 2% á landinu til að binda allt kolefni sem við losum. Eftir hverju eru menn að bíða? Ég er kannski ekki að tala um að fara í þetta á augabragði, en eftir hverju eru menn að bíða? Eru menn að bíða eftir því að þurfa að kaupa upp rándýrar losunarheimildir eftir örfá ár? Ætla þeir að bíða eftir að birkið sjái um þetta? Ég hef ekkert á móti birki, birkiskógarnir okkar eru fallegir, en til þess að uppfylla samningsskyldur okkar samkvæmt Parísarsamningnum þurfum við að binda kolefni. Við ætlum ekki að fara að borga og kaupa (Forseti hringir.) losunarheimildir eftir örfá ár dýrum dómum þegar við erum í öllum færum með að binda allt okkar kolefni sjálf hér á landi. Förum að byrja á því.



[18:07]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og öðrum þingmönnum sem blönduðu sér í umræðuna fyrir þessa ágætu umræðu. Hv. þingmaður kemur inn á kolefnisbindingu sem mikilvæga leið til að vinna að loftslagsmálum. Ég tek alveg heils hugar undir það með hv. þingmanni, hún er afskaplega mikilvæg, en þegar kemur að losun og því að draga úr losun getur kolefnisbindingin aldrei komið í staðinn fyrir að draga úr losun. Hún getur komið sem uppbót þannig að við náum enn þá meiri árangri. Við munum aldrei geta árið 2021 dregið úr allri losun í heiminum, við vitum það, en við getum dregið að hluta til úr henni og þá kemur kolefnisbindingin á eftir ef við reynum að ná kolefnishlutleysi og jafna það sem við getum ekki dregið úr losuninni. Þegar kemur að losuninni er samdráttur í losun meginstefið í Parísarsamningnum, þ.e. að við verðum að draga úr losuninni. Það skiptir miklu máli upp á það að til lengri framtíðar horfum við á hagkerfi sem er ekki drifið áfram af jarðefnaeldsneyti heldur hagkerfi sem er drifið áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum. Til þess þarf að draga úr losuninni, til þess þarf að umbylta orkukerfunum okkar þannig að við séum með í höndunum orkukerfi sem nýta endurnýjanlega orkugjafa en ekki þá sem valda þeirri losun sem nú verður.

Kolefnisbindingin skiptir vissulega máli, hún skiptir miklu máli en hún kemur ekki í staðinn fyrir það að draga úr losun.

Ég vil bara að lokum segja að það er mikilvægt að við getum haldið áfram að setja fjármagn inn í þessa þætti, bæði landgræðslu og skógrækt, enda eru þeir þættir og endurheimt votlendis (Forseti hringir.) mjög mikilvægur þáttur í loftslagsstefnu stjórnvalda og Íslands. Ég þakka hv. þingmanni aftur kærlega fyrir að vekja máls á þessu.