150. löggjafarþing — 107. fundur.
olíu- og eldsneytisdreifing.
fsp. ATG, 573. mál. — Þskj. 940.

[19:26]
Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Olía er enn meginorkugjafi í samgöngum og sums staðar í raforkuframleiðslu, þá er það oftast varaafl en getur líka verið eina aflið sem fæst sem rafafl á stöðum eins og Grímsey. Vonandi breytist það með tíð og tíma með orkuskiptum hér á landi. Dreifing á olíu um landið er á fárra höndum, tveggja aðila eða svo, og það kom fyrir í vetur þegar mikil óveður gengu yfir að ýmiss konar vandræði urðu varðandi olíunotkun og olíubirgðir. Ég ætla ekki að tíunda það, það væri of langt mál, en hægt er að draga lærdóm af því sem ekki gekk vel þá. Sums staðar gekk þetta ágætlega. Ýmiss konar önnur náttúruvá gæti hindrað olíuflutninga og gert að verkum að við þurfum að hugsa vel fyrir olíubirgðum í landinu, dreifðum um landið. Þá er spurning hvort það skuli vera með öðrum hætti en í gegnum það sem við getum kallað markaðsstýringu, með þeim fyrirtækjum á markaði sem annast þetta og dreifa olíunni, hvort það þurfi jafnvel að vera með einhvers konar birgðir í umsjón eða eign ríkisins á mikilvægum stöðum o.s.frv. Þetta hef ég fært í búning sem hljóðar einhvern veginn svona:

Er olíudreifing og önnur eldsneytisdreifing á landi og sjó í samræmi við kröfur um flutningsöryggi, geymslu í héraði miðað við þarfir og þjóðaröryggisstefnu?

Hvaða lærdóma má draga af stöðu olíudreifingar og annarrar eldsneytisdreifingar í fárviðrinu í desember 2019?

Þriðja spurningin snýst um öryggi. Nú getur orðið mengun af olíunotkun og olíuslysum. Viðbrögðin snúa auðvitað að Umhverfisstofnun, olíufélögunum sjálfum, heilbrigðisnefndum í héraði o.s.frv., en ég er meira að spá í áhrif mengunarslysa á umhverfið. Það þarf einhverja eftirfylgni, fylgjast með því hvað gerist ef það verða meiri háttar olíuslys, og þá er spurning hvernig viðbrögðum er háttað. Er nægilega vel búið um það eða fylgst með þegar eitthvað slíkt hefur gerst?

Þetta eru frekar viðamiklar spurningar, ég geri mér grein fyrir því, en ég veit að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er snaggaralegur maður.[19:30]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fínar spurningar. Svörin eru því miður nokkuð tæknileg en spurningarnar kalla kannski á það. Það er spurt um olíudreifingu og aðra eldsneytisdreifingu á landi og sjó og þær kröfur sem flutningsöryggi kallar á og hvernig geymslan er og þarfir vegna þjóðaröryggisstefnu.

Þörf á geymslu og eldsneytisdreifingu í héraði út frá þjóðaröryggisstefnu er mat sem þarf að fara fram í ljósi óveðranna. Ég segi þarf, af því að það hefur ekki verið gert. Þjóðaröryggisráð framfylgir þjóðaröryggisstefnunni og er því á forræði þess að hafa eftirlit með því og meta þau málefni sem heyra undir stefnuna. Hins vegar hafa Samgöngustofa, Vinnueftirlitið og vegaeftirlit lögreglu það hlutverk að tryggja að flutningar á hættulegum farmi fari fram á öruggan hátt. Þessar stofnanir vinna eftir reglugerð um að tryggja að flutningur á hættulegum farmi fari fram á öruggan hátt og í reglugerðinni er kveðið á um að ökutæki sem flytja hættulegan farm skuli merkt sérstaklega þannig að það sjáist að um hættulegan farm sé að ræða. Einnig er kveðið á um tiltekinn öryggisbúnað sem skal vera í ökutækinu, slökkvitæki, hlífðarbúnað fyrir ökumann og aðstoðarmann og viðvörunarmerki. Þá eru ítarleg ákvæði um ábyrgð og skyldur sendanda og flutningsaðila hættulegs farms, sem sagt upplýsingar um vöruna.

Í samræmi við forsetaúrskurð frá 2018, um skiptingu stjórnarmálefna, fer samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið með samgöngur, samgönguöryggi og farmflutninga og málefni Samgöngustofu, en Vinnueftirlitið er hjá félagsmálaráðuneytinu og málefni lögreglu hjá dómsmálaráðuneyti. Hlutverk Samgöngustofu er að viðurkenna og skrá ökutækin sem notuð eru til flutnings á hættulegum farmi, halda námskeið fyrir þá sem öðlast heimild til að flytja slík efni, viðurkenna öryggisráðgjafa sem þessum aðilum er skylt að hafa og öryggisráðgjafar sjá til þess að farið sé að reglum og veita ráðgjöf, gefa skýrslur auk annarra atriða.

Vinnueftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar að því er varðar flokkun efna, viðurkenningu umbúða, prófanir og viðurkenningar sem tilgreindar eru í tilskipun 68/2008.

Vegaeftirlit lögreglu hefur augljóslega umsjón með eftirliti á vegum úti með ökutækjum sem flytja hættulegan farm í samræmi við reglur um sérstakt vegaeftirlit lögreglu. Lögreglan setur jafnframt reglur um takmarkanir á flutningi á hættulegum farmi um jarðgöng. Ef ökutæki eða búnaður ökutækis er ekki í samræmi við reglur þar að lútandi er lögreglu heimilt að stöðva flutning þess eða senda ökutækið á tilgreindan stað þar sem það er lagfært áður en akstri er haldið áfram.

Við á Íslandi búum almennt við stöðugleika og öryggi en brýnt er að stjórnvöld sýni aðgát þannig að öryggi við flutning hættulegs farms sé tryggt. Regluverk á Íslandi um öryggi slíkra flutninga er í fullu samræmi við Evrópureglur og að því leyti tryggt eins og kostur er, svo fremi að við sinnum öllu eftirlitinu sem þær reglur segja okkur.

Hvaða lærdóm má draga af stöðu dreifingarinnar í fárviðrinu í desember? Þá verður bara að segja eins og er að ekkert í okkar ferlum eða reglugerðum segir okkur að upplýsingar skuli teknar saman, hvorki magn, fjöldi né eitthvað slíkt, þannig að við höfum ekki tölulegar upplýsingar. Það er kannski eitt af því sem við ættum að draga lærdóm af.

Varðandi lærdóm og viðbrögð hafa starfsmenn og verktakar Vegagerðarinnar útbúið varúðarviðmið vegna vinds fyrir stór ökutæki. Það mætti hins vegar skoða hvort ekki sé tilefni til að kynna viðmiðin betur fyrir ökumönnum og jafnvel hvort tilefni sé til að uppfæra þau viðmið og taka sérstakt tillit til hættulegs farms. Söfnun gagna um innflutning, geymslu og sölu á jarðefnaeldsneyti er á verkefnasviði atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins og Orkustofnunar, þar með talin málefni er varða innflutning, geymslu og sölu jarðefnaeldsneytis og eftirlit, og verður ekki fjallað um þau atriði hér.

Það breytir þó ekki því að mikilvægt er að draga lærdóm af stöðunni sem kom upp í óveðrum vetrarins. Ég tel að við getum öll dregið lærdóm af því hvernig mætti koma í veg fyrir slíkt ófremdarástand sem skapaðist þegar fárviðri geisaði eins og þá, víða rafmagnslaust, sums staðar hitalaust, fjarskiptakerfið datt út og menn gátu jafnvel ekki nálgast olíu. Aðgerðastjórnun á heimavelli getur hér skipt sköpum og væntanlega geta almannavarnir, þ.e. þær reglur sem menn setja heima í héraði, tekið á nokkrum af þessum þáttum sem við gætum lært af og nýtt okkur.

Áhrif mengunarslysa á umhverfið, ef átt er við slík slys vegna flutninga, eru málefni er varða umhverfisvernd á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytis samkvæmt 9. gr. forsetaúrskurðar, eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur því ekki upplýsingar um áhrif mengunarslysa hér á landi. Þau eru sem betur fer fátíð og aftur vísast til þess öryggiskerfis sem við erum með og regluverks. En auðvitað er alltaf hægt að gera betur og það væri líka áhugavert að heyra hvernig það hefur gengið þar sem slík slys hafa átt sér stað, hvaða áhrif þau hafa haft á umhverfið.[19:35]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrr í þessum mánuði mælti samgönguráðherra fyrir frumvarpi um svæðisbundna flutningsjöfnun olíuvara og niðurlagningu flutningsjöfnunarsjóðs. Umsýslan var færð til hinnar ágætu Byggðastofnunar líkt og með svæðisbundna flutningsjöfnun. Lögin eru að uppistöðu til frá árinu 2011 og ætlað að jafna aðstöðumun á landsbyggðinni. Ráðherra fullyrti að með þessu yrði síður en svo dregið úr jöfnunarþættinum, hann væri mikilvægur. Í stað sérstaka gjaldsins á olíuvörur á nú að koma beint framlag úr ríkissjóði til svæðisbundinnar flutningsjöfnunar sem verður samkvæmt frumvarpinu 175 millj. kr. sem er fjármagnað með sérstöku vörugjaldi á olíuvörur. Upphæðin sem fer í þessa jöfnun á árinu 2020 samkvæmt fjárlögum er hins vegar 375 milljónir.

Er ekki augljóst, virðulegur forseti, að hér verður um stórfelldan niðurskurð til flutningsjöfnunar að ræða og enn frekar íþyngjandi fyrir landsbyggðina? Ráðherra sagði: Nei, gamla kerfið var kostnaðarsamt og úrelt og nýja kerfið á að skila því sama. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Er ég að misskilja eitthvað (Forseti hringir.) eða vill hæstv. ráðherra vera svo elskulegur að leiða mig í ljósið?[19:36]
Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þessar umræður yfir höfuð eru allar ágætar að stofni til. Aðeins um fáein atriði. Ég held að þjóðaröryggisráð eða vinna á þess vegum sé hinn rétti vettvangur til þess að koma skikki á það sem ég kalla birgðastöðu í landinu. Ég er ekki að tala um daglega eða vikulega eða mánaðarlega notkun á þessum orkugjafa heldur þær birgðir, varabirgðir, sem þurfa að vera, yfirlit yfir þær, staðsetning, magn og annað slíkt. Það þarf að vera heildrænt skipulag þannig að ef eitthvað gerist eins og gerðist í vetur, sé hægt að bregðast við með réttum hætti.

Að lokum varðandi eftirfylgni vegna olíuslysa. Til eru viðbragðsáætlanir af ýmsu tagi við mengunarslysum. Það eru þá yfirleitt fyrstu viðbrögð. En það sem er jafn mikilvægt í raun og veru til að koma í veg fyrir sem allra mest tjón af völdum slíkra mengunarslysa er að eftirfylgni eða eftirlit sé líka skipulagt með einhverjum hætti; að tekin séu sýni, að fylgst sé með, við skulum segja grunnvatni, ám eða öðru slíku, gróðurfari eða hvaðeina. Þarna er ákveðið verk að vinna eins og ég held að atburðirnir í vetur hafi kennt okkur. Eins og ég nefndi þarf ekki mikla framsýni til að sjá að snjóflóð, skriðuföll, eldgos, jarðskjálftar eða annað slíkt gera það að verkum að það reynir á birgðastöðu vegna raforkuframleiðslu, hita og annars slíks í húsum og fleira. Þannig að hér er verk að vinna.[19:39]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom eru þessir málaflokkar á mjög mörgum stöðum og fyrir vikið er ég sammála hv. þingmanni um að mikilvægt sé að greina málið. Ég er líka sammála því að þjóðaröryggisráð hljóti að eiga að fara ofan í það annars vegar hve mikið magn er til í landinu og að það sé dreift um landið, upp á það öryggi sem tilheyrir. Ég held hins vegar að almannavarnir í héraði þurfi að fara meira yfir það hvaða tæki menn hafa og aðgang til að mynda að eldsneyti. Það kom í ljós þegar rafmagnsleysið var að menn höfðu ekki möguleika á að sækja eldsneyti þótt nóg væri til af því að það voru einfaldlega ekki til handdælur. Það eru slíkir hlutir sem ég held að heimamenn þurfi að fara yfir.

Varðandi mengunarslys og afleiðingar þeirra held ég að mjög áhugavert væri að skoða það. Við þekkjum auðvitað nokkur dæmi þar sem náttúran hefur orðið fyrir ótrúlegu áfalli, síldin í Kolgrafafirði þar sem menn héldu að þar yrði allt dautt um aldir og fóru jafnvel að kenna samgöngumannvirkjum um. Svo kom í ljós að það voru nokkrir árgangar af síld sem höfðu ruglast í höfðinu og fóru alltaf á sama stað og drápust þar, því miður. En staðreyndin er sú að fljótlega eftir það virtist náttúran hafa ævintýralega getu til að endurvinna stöðuna. Sama gilti um díoxínmengun í Engidal þar sem menn lokuðu brennslustöð og héldu að þessi dalur væri ónýtur um aldir, en það mældist ekkert bara einu ári, að ég held, eftir að brennslustöðinni var lokað. Þannig að geta náttúrunnar er ótrúlega mikil og ég held að það væri áhugavert að lesa það.

Varðandi ágætt innlegg hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar held ég að hann hafi misskilið eitthvað, en ég skal taka umræðu um flutningsjöfnun hvenær sem er. Hann misskildi ekki að hugmyndafræðin er sú að 175 milljónir eru taldar duga í flutningsjöfnun til að tryggja sömu áhrif og við höfum í dag, af því að markaðurinn sér einfaldlega um hina jöfnunina. Það er svarið. En við getum tekið betri umræðu um það við betra tækifæri.