150. löggjafarþing — 107. fundur.
ákvæði laga um vegi og aðra innviði.
fsp. ÁsF, 632. mál. — Þskj. 1065.

[19:41]
Fyrirspyrjandi (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir að taka þátt og svara fyrirspurn minni hér á eftir. Það verður ekki horft fram hjá því að uppi er gríðarlegur vandræðagangur við uppbyggingu og viðhald raforku og vegakerfis í landinu. Okkur hefur tekist að skapa sérlega verndað umhverfi þar sem einstaka sveitarfélög, hagsmunasamtök og einstaklingar geta leyft sér að troða á hagsmunum samfélagsheildarinnar fyrir málefnalegan rökstuðning um nauðsyn þess að byggja upp grunninnviði okkar og viðhalda þeim, borgurunum til heilla. Við erum tala um ára- og áratugatafir á framkvæmdum. Vegagerðin og Landsnet hafa það lögbundna hlutverk að vinna að þróun og endurbótum á vegakerfinu og flutningskerfi raforku á sem hagkvæmastan hátt eftir því sem almannahagsmunirnir og þarfir samfélagsins krefjast. En uppbygging innviða getur bæði verið kostnaðarsöm og áhættusöm. Þá áhættu tekur eigandi innviðanna, sem í langflestum tilfellum er ríkið eða sveitarfélög.

Mig langar að spyrja ráðherrann þriggja spurninga.

1. Hvaða innviði telur ráðherra nauðsynlega með tilliti til almannahagsmuna? Telur ráðherra skynsamlegt að skilgreina þá innviði sérstaklega í lögum? Hér á ég við vegi, flugvelli og flutningskerfi.

2. Hvaða skilning leggur ráðherra í 3. mgr. 28. gr. vegalaga um heimild til að krefja sveitarfélög um kostnaðarmun vegna lagningar þjóðvega? Er ráðherra reiðubúinn að beita því ákvæði?

3. Telur ráðherra að endurskoða þurfi lög um mat á umhverfisáhrifum þannig að hlutar samgöngukerfisins, sem falla nú undir ákvörðunarvald sveitarstjórna, verði færðir á hærra stjórnsýslustig þannig að ábyrgð færist alfarið á hendur ríkisins sem síðan muni leiða til þess að kærur heyri sögunni til?

Virðulegur forseti. Ég kalla eftir því að við einföldum leyfiskerfið og þeir sem af ásetningi tefja framkvæmdir geti það ekki lengur með úreltu kerfi. Ég hlakka til að heyra svör ráðherrans.



[19:44]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverðar spurningar. Varðandi skilgreiningu á innviðum eru allir innviðir mikilvægir að mati okkar í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, eðli máls samkvæmt, með tilliti til almannahagsmuna. Þeir eru allir skilgreindir í lögum, fjarskiptalögum, vegalögum, hafnalögum og lögum um loftferðir. Það er ekki tilgreint nákvæmlega hvar þessir innviðir eiga að vera eða liggja heldur hvernig þeir þurfa að vera til að uppfylla skilyrði hvers flokks. Nánari útfærsla er síðan jafnan í reglugerðum. Til að mynda er hægt að fella vegi af vegaskrá, hægt er að leggja niður flugvelli o.s.frv. Það er rétt að tiltaka sérstöðu hafna, en þær eru á forræði sveitarfélaga sem taka ákvarðanir um gerð þeirra og starfsemi.

Þeir innviðir sem teljast mikilvægastir á samgöngusviðinu eru sérstaklega tilgreindir sem grunnnet samgangna í samgönguáætlun þannig að það má kannski að leggja einhverja vigt í það.

Spurt er hvort ráðherra telji eðlilegt að krefja sveitarfélögin um kostnaðarmun vegna lagningar þjóðvega ef ágreiningur er þar á milli, hvort ráðherra sé tilbúinn að beita því ákvæði. Þá er rétt að geta þess að vegir eru lagðir í samræmi við skipulag sveitarfélaga, samanber 28. gr. vegalaga og skipulagslaga. Þjóðvegum skal valinn staður í samráði við Vegagerðina og er mikilvægt að gætt sé að því samráði. Vegagerðin gerir síðan tillögur að legu þjóðvega út frá tæknilegu mati með tilliti til umferðaröryggis og hagkvæmni. Ákvæði 3. mgr. 28. gr. vegalaga, sem þingmaðurinn vísar til í spurningu sinni, hefur ekki verið beitt til þessa, en Vegagerðin hefur hins vegar áskilið sér rétt til að beita ákvæðinu í einstaka tilvikum. Helst kemur til greina að beita því þegar skipulag leiðir til þess að ekki er fylgt ráðleggingum og tillögum Vegagerðarinnar um legu vega eða lögbundin samráðsskylda ekki virt. Það leiðir til minna umferðaröryggis og aukins framkvæmdakostnaðar. Ákvæðið gefur sveitarfélögunum svigrúm til að kjósa annan valkost en Vegagerðin leggur til, en þau greiða þá þann kostnað sem af hlýst.

Mín skoðun er sú að hvorki sé ástæða til að taka þetta val af sveitarfélögum né að láta aukinn kostnað lenda á ríkinu, haldi sveitarfélög sig við annan valkost en þann sem Vegagerðin telur heppilegri út frá kostnaði og umferðaröryggi. Ég tel sem sagt að þetta ákvæði eigi að vera þarna og því eigi að beita ef þær aðstæður koma upp.

Varðandi þörf á að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum og færa ákvörðunarvald sveitarstjórna á hærra stjórnsýslustig vil ég segja að að uppfylltum ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum kveða skipulagslög á um legu vega, gerð hafna o.s.frv. Ákvarðanir um að heimila framkvæmdir eru síðan teknar á grunni þeirrar löggjafar. Ákvörðun um að færa slíkar ákvarðanir til ríkisins væri jafnframt ákvörðun um að taka ákvörðunarvald og skipulagsvald frá sveitarfélögum. Það er stór ákvörðun sem ekki yrði tekin án umræðu. En ég vil nefna að við erum með nokkuð sem heitir landsskipulagsstefna og í þeim tilfellum þar sem við tölum um grunnkerfið, hringveginn eða einhverja slíka vegi eða meginstofnlínur raforkukerfisins eða eitthvað slíkt sem varðar landsmenn alla, er það mín skoðun að það ætti að hafa ríkari sess í landsskipulagsstefnu en ella. Það þarf vissulega að taka þá umræðu við sveitarfélögin, en ég er á þeirri skoðun að við ættum að horfa til Norðurlandanna, sem við berum okkur oft saman við. Þar hefur landsskipulagsstefnan miklu meira vægi. Hún segir meira til um hvernig sveitarfélögin eiga að að koma aðalskipulagi sínu á.

Ég vil líka benda á að við erum vissulega með í gangi heildarendurskoðun á mati á umhverfisáhrifum. Ég vil líka nefna að í tengslum við óveðrið í vetur var settur á laggirnar starfshópur og á mjög stuttum tíma fann sá hópur út einfaldari leið þar sem ágreiningur kemur upp um til að mynda línulagnir. Þar var beitt skipulagshugsun þar sem sveitarfélög gætu komið sér saman um eitthvað í svæðisskipulagi. Reyndin hefur verið sú að þau fara síðan heim til sín og breyta aðalskipulaginu ekki endilega í samræmi við svæðisskipulagið, en þarna var kominn á einhvers konar samráðsvettvangur til tryggja að þau gerðu það. Það er millileikur sem hjálpar sannarlega til. Ég er á þeirri skoðun að landsskipulagsstefna þurfi að taka af öll tvímæli um meginlínur í vegakerfi, raforkukerfi og þeim leiðum sem varða almenning allan í landinu, ekki bara einstaklinga í einstöku sveitarfélagi.



[19:49]
Fyrirspyrjandi (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherranum fyrir greinargóð svör. Það var einmitt ferð hæstv. ráðherra norður þegar línurnar lágu allar niðri þar, og viðtal við hann í sjónvarpinu sem varð kveikjan að þessari fyrirspurn. Þar kom fram að kannski þyrfti að einfalda kerfið. Það vill þannig til að í dag birtist eftir mig grein í Morgunblaðinu þar sem ég fjalla um þessi mál. Hæstv. ráðherra talar um að þessir hlutir varði allan almenning og að við gerum okkur grein fyrir því og sveitarfélögin ekki síst. En kæruleiðirnar sem í boði eru á Íslandi til að koma í veg fyrir framkvæmdir og seinka þeim, eru náttúrlega með ólíkindum. Af því að hæstv. ráðherra talaði um Norðurlöndin og nágrannalöndin þá er himinn og haf þar á milli og hvað Íslendingar, sveitarfélög og einstaklingar, hafa margar leiðir til að kæra slíkar framkvæmdir. Í grein minni kemur fram að hægt er að kæra slíkar framkvæmdir allt upp í sjö skipti og koma í veg fyrir að þær nái fram að ganga. En annars staðar á Norðurlöndunum, Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, og síðan Skotlandi, í löndunum sem eru næst okkur, er kannski hægt að kæra slíka framkvæmd á einu stigi. Það er nokkuð sem við þurfum að skoða.

Ég vil að nefna það hér, af því að ég hef nokkrar sekúndur, að verið er að ljúka hönnun á Reykjanesbraut og færa til stuttan kafla, 5 km kafla á 50 km langri braut. Það þarf allt að fara aftur í umhverfismat og dýrar umhverfisáætlanir þó að það liggi alveg ljóst fyrir að umhverfismat getur nú ekki breytt mjög miklu varðandi 5 km vegspotta sem vantar inn í 50 km braut.

En ég þakka kærlega fyrir.



[19:52]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að segja um landsskipulagsstefnuna og sveitarfélögin að þessi umræða þarf að eiga sér stað. Hún hefur átt sér stað, sveitarfélögin hafa verið mjög upptekin af því. Sjálfur var ég í sveitarstjórn á þeim tíma og var upptekinn af því að viðhalda ákvörðunarvaldi sveitarfélags í skipulagsmálum hjá sveitarfélaginu. Ég var hræddur við landsskipulagsstefnuna, en hún hefði til að mynda hjálpað okkur á árunum 2005 og 2006 og 2007 við að byggja ekki endalaust af íbúðum úti um allt, sem leiddi síðan til gríðarlegs offramboðs. Það verður bara að viðurkennast að það þarf samræmda skipulagsstefnu og enginn annar en ríkið getur haft hana í landsskipulagsstefnu. Auðvitað þarf að hafa mikið samráð við aðila. Þar getum við tryggt að menn fari ekki efnahagslega mjög illa að ráði sínu. Við þekkjum einstök dæmi um framkvæmdir sem lent hafa uppi á skeri og verið þar jafnvel áratugum saman út af sambærilegum deilum, jafnvel þó að allir segi að það sé skynsamlegasta leiðin út frá almannahagsmunum. Ég held að við þurfum að ræða meira saman um þetta og tel að landsskipulagsstefnan verði að vera ríkari.

Varðandi aðkomu almennings er mjög mikilvægt að almenningur eigi möguleika á að koma að framkvæmdum. Það er mikilvægt að framkvæmdaraðilar kynni þær í upphafi. Við erum með sama regluverkið og annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er meira og minna samevrópskt regluverk og þess vegna er merkilegt ef útfærslan hjá okkur er eitthvað allt öðruvísi og endar öðruvísi. Það hlýtur vera grundvöllur þessarar heildarendurskoðun á því.

Ég vil taka undir það sem þingmaðurinn kom inn í lokin. Til að mynda er sú túlkun Skipulagsstofnunar upp á síðkastið, að lagfæringar á vegum og breikkun þeirra kalli á umhverfismat, mjög þröng túlkun á lagatexta og virðist ekki vera í samræmi við þá túlkun sem við höfum séð annars staðar. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég held að menn þurfi virkilega að skoða við heildarendurskoðun á mati á umhverfisáhrifum.