150. löggjafarþing — 107. fundur.
fagháskólanám fyrir sjúkraliða.
fsp. ÁÓÁ, 619. mál. — Þskj. 1045.

[21:07]
Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Það hefur sjaldan verið eins ljóst og núna hversu mikilvægir sjúkraliðar eru okkur sem samfélagi. Þetta er stétt í framlínunni. Þetta er stétt sem bókstaflega hættir lífi sínu og í raun sinna nánustu bara við að sinna vinnunni sinni. Þetta er stétt sem er með hjartað í starfinu. Þetta er stétt sem þarf á okkur að halda, okkur sem erum hér í þessum sal. Sjúkraliðar hafa núna beint þeirri sjálfsögðu kröfu til okkar að opnuð verði 60 eininga diplómagráða á háskólastigi, nám sem verði á fagháskólastigi.

Þetta er svo eðlileg krafa að ég ætla bara að spyrja hæstv. ráðherra beinnar spurningar, hvort þetta verði einfaldlega ekki gert strax í haust. Ég ætla að þrýsta á ráðherrann að gera það án nokkurs hiks. Þetta væri í samræmi við kjarasamning stéttarinnar sem rétt náðist núna í vor. Þetta væri í samræmi við yfirlýsingar stjórnvalda um nemendafjölgun á háskólastigi vegna Covid-faraldursins. Þetta væri í samræmi við vöntun á sjúkraliðum með sérnám í heilbrigðiskerfinu og væri í samræmi við vilja sjúkraliða í landinu.

Herra forseti. Formaður Sjúkraliðafélags Íslands, Sandra B. Franks, benti nýverið í grein á að hér væri á ferðinni dauðafæri fyrir ríkisstjórnina. Ég er talsmaður þess að við nýtum okkur öll þau færi sem við höfum á að efla og bæta stöðu sjúkraliða í landinu.

Sendum í dag, akkúrat núna, sterk skilaboð til sjúkraliða um að við stöndum með þeim — þau standa með okkur — og gerum það sem þau eru að biðja okkur um að gera hér í dag. Það er hagur okkar allra.



[21:10]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa gagnlegu og áhugaverðu fyrirspurn. Að auki vil ég þakka sjúkraliðum sérstaklega fyrir alla þá vinnu sem þeir hafa lagt á sig í kjölfarið á Covid-faraldrinum. Án þeirra hefði aldrei tekist svona vel til. Það er alveg ljóst að allt heilbrigðiskerfið stóð saman að því að vinna að því kraftaverki sem ég tel að hafi átt sér stað. Það er ekkert annað um málið að segja en það. Ég vildi hefja mál mitt á því að minnast á þetta og segja hvað störf þeirra skipta gríðarlega miklu máli.

Undanfarin fjögur ár hefur verið unnið að undirbúningi fagháskólanáms í samstarfi ráðuneytisins, háskólanna og framhaldsskólanna og aðila vinnumarkaðarins. Sem hluti af aðgerðum stjórnvalda til að mæta nemendafjölgun í háskólum næsta haust í kjölfar efnahagsáhrifa heimsfaraldurs verður boðið upp á styttri námsleiðir sem draga úr færnibili á vinnumarkaði og mæta þörfum atvinnulífsins fyrir menntað starfsfólk í undirmönnuðum starfsgreinum ásamt fleiri starfsgreinum. Sérstök áhersla verður á fagháskólanám í heilbrigðis- og tæknigreinum. Að auki leggjum við líka mikla áherslu á starfs-, verk- og iðnnám vegna þess að það er mikil eftirspurn eftir fólki með þá þekkingu.

Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram að fagháskólanám tekur við að loknu námi í framhaldsskóla og er skipulagt í samstarfi við ýmsa fræðsluaðila. Náminu er ætlað að greiða nemendum með önnur lokapróf en stúdentspróf leið til náms sem leitt geti til námsgráðu á háskólastiginu. Náminu er enn fremur ætlað að hafa hliðsjón af síbreytilegum þörfum fyrirtækja og stofnana í atvinnulífinu fyrir nýsköpun og nýja þekkingu. Undirbúningur að fagháskólanámi felur m.a. í sér fyrirhugaða breytingu á lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla. Einnig verður haft til hliðsjónar af því að endurskoða reiknilíkan háskólans til að koma til móts við aukna áherslu á fagháskólanám.

Háskólinn á Akureyri hefur unnið að því í samráði við hagsmunaaðila að framhaldsnám verði í boði fyrir sjúkraliða innan námsbrautar í hjúkrunarfræði. Þar er um að ræða sérhæfða áfanga vegna geð- og öldrunarþjónustu. Vonast er til að námið geti nýst sjúkraliðum til frekara náms innan námsbrautar í hjúkrunarfræði en það er algerlega stefnt að því að í haust verði í boði fagháskólanám fyrir sjúkraliða. Þetta er einn af þeim áhersluþáttum sem sjúkraliðar hafa lagt áherslu á í kjarasamningum og það er mikill vilji í mínu ráðuneyti og hjá Háskólanum á Akureyri til þess að sjúkraliðar geti hafið fagháskólanám í haust.



[21:13]
Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin og ég vil fagna sérstaklega þeirri yfirlýsingu sem hér næst fram um að það verði boðið upp á þetta nám fyrir sjúkraliða, eins og ég skil orð hæstv. ráðherra. Það er mikið fagnaðarefni. Þetta er búið að vera baráttumál sjúkraliða í talsverðan tíma, sérstaklega eftir að þetta nám var fellt niður á sínum tíma í fjölbrautaskólanum. Ég held að hér séu á ferðinni tímamót sem sjúkraliðar muni taka eftir og er virkilega ánægjulegt og sýnir í verki að okkur er annt um þessa stétt og við hlustum á hana, sama hvar við stöndum í pólitík. Þetta er eitt af þeim málum sem við getum svo sannarlega verið öll sammála um að þurfi að gera vel og gera í fullkomnu samræmi við vilja stéttarinnar.

Orðum ráðherrans um að námið muni hefjast strax í haust fagna ég sérstaklega. Ég hvet hæstv. ráðherra sömuleiðis, ef á þarf að halda, til að tryggja fjármagn og ég treysti því að ráðherrann staðfesti það hér á eftir að fjármagn fylgi þessu. Eitthvað kostar þetta þó að í stóra samhenginu sé það ekki mikið miðað við þann ávinning sem við fáum út úr náminu. Það skiptir máli að við sýnum að þetta séu ekki bara orðin tóm heldur að fjármagn fylgi þessum fyrirheitum. Við erum með alls konar aðgerðapakka hér, við erum að ræða um fjárauka og fjárlög, við erum að endurskoða fjármálaáætlun og það væri óskandi og eðlilegt að það sæist í þeim skjölum að við séum hér að fylgja eftir óskum sjúkraliða og stuðla að því að staðið verði myndarlega að þessu námi. Þetta skiptir miklu máli og ég held að þrýstingur bæði innan þings og utan skipti máli.

Ég tek undir orð ráðherra um að við þurfum að hugsa hlýlega til þessarar stéttar og ég vil úr þessum ræðustól sömuleiðis færa mínar bestu þakkir fyrir þá vinnu sem sjúkraliðar hafa sinnt í því fordæmalausa ástandi sem þjóðin hefur búið við. Þetta er lykilstétt sem við getum ekki verið án og við þurfum svo sannarlega að líta oftar til hagsmuna sjúkraliða.



[21:16]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Fram kom í máli hv. þingmanns að fjármunir þurfi að fylgja með. Já, ég get staðfest það að ríkisstjórnin ætlar sér að auka fjármuni inn í menntakerfið, m.a. vegna þess ástands sem uppi er í kjölfar veirunnar. Það er ljóst að aukin aðsókn er í starfsnám, í iðnnám og inn á háskólastigið og ég held að það sé kjörið tækifæri fyrir fólkið í landinu, sem hefur áhuga á því að bæta við sig færni eða hæfni, að nýta okkar öfluga menntakerfi til þess. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að auka færni og þekkingu sjúkraliða og þeir hafa haft frumkvæði að því að hefja fagháskólanámið og lagt mikið á sig til þess og það hefur átt sér stað góð og öflug stefnumótun hjá heilbrigðisráðherra sem er að efla sérþekkingu hjá sínum fagstéttum. Eins er þetta í takt við þá menntastefnu sem ég mun kynna í þingsályktunartillögu í haust, ég ákvað að fresta henni vegna þess að ég vildi kynna hana og hafa betra rými fyrir hana á haustdögum. En ég get glatt hv. þingmann með því að segja að við erum með sömu áherslur hvað þetta varðar.