150. löggjafarþing — 110. fundur
 29. maí 2020.
atkvæðaskýringar þingmanna.

[12:21]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill, áður en að atkvæðagreiðslu kemur, minna á að hvatt er til þess að þingmenn hafi tímamörk í huga þegar þeir sitja eða standa mjög þétt saman. Þar af leiðandi er æskilegt að atkvæðagreiðslur eða samfelldar atkvæðagreiðslur taki ekki mjög langan tíma. Forseti mun gera hlé á þessari atkvæðagreiðslu ef hún dregst mjög mikið umfram það sem þegar er orðið, einfaldlega til þess að þingmenn geti þá dregið sig svolítið í sundur. Þetta nefnir forseti í tengslum við það þegar hv. þingmenn biðja í stórum stíl um orðið um atkvæðagreiðsluna, sem að sjálfsögðu er heimilt samkvæmt þingsköpum en getur leitt til þess, eins og það ákvæði er útfært í þingsköpum, að upp hefjist efnisumræða og skoðanaskipti jafnvel inni í eða áður en atkvæðagreiðsla hefst og það jafnvel þó að 3. umr. sé eftir um viðkomandi dagskrármál. Forseti er reyndar þeirrar skoðunar að þetta ákvæði þingskapa hafi ekki verið hugsað þannig á sinni tíð og ekki var það þannig framkvæmt mjög lengi vel heldur til að gera eiginlegar athugasemdir um sjálfa atkvæðagreiðsluna, eitthvað sem sneri tæknilega að atkvæðagreiðslunni. En þróunin hefur orðið sú á síðari árum að þetta ákvæði er æ meir nýtt til að hefja einhvers konar viðbótarefnisumræðu áður en að atkvæðagreiðslu kemur og getur það tekið sinn tíma.

Að sjálfsögðu eru skoðanaskipti jafnan þörf en þetta er eitthvað sem er rétt að hafa í huga og við núverandi aðstæður verður forseti að segja í fullri einlægni að honum þætti gott að menn færu sparlega með þetta ákvæði því að það vill stundum lengja atkvæðagreiðslur mjög. Um tíma var þessu ákvæði aðallega beitt þannig að talsmenn þingflokka, einn frá hverjum þingflokki, gerðu athugasemdir fyrir hönd síns þingflokks. Það færi vel á því að menn sammæltust um að hafa þetta einhvern veginn þannig nú á tíma þegar það er enn þá viðkvæmt hversu lengi við stöndum eða sitjum þétt saman. — Nú er sjálfsagt að veita mönnum orðið um fundarstjórn forseta. Menn mega vera eins ósáttir við ummæli forseta og þeir vilja. Þeir hafa sinn rétt.



[12:23]
Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er flott að forseti hugsi til þess að fólk sitji ekki lengi þétt saman. Það er bara sjálfsagt mál. Það þarf þá að vera ljóst að forseti sé ekki að beita því í öðrum tilgangi en að hugsa um heilsu og hag þingheims. Hver eru þá þessi tímamörk? Þau þurfa þá að liggja fyrir og það þurfa að vera einhvers konar málefnalegar forsendur fyrir því. Eins og við heyrðum í ræðu forseta er þetta hans hugðarefni; hann er ekki hrifinn af að umræða sé um atkvæðagreiðslu um málið. En það er bara mjög gott mál, það eru einmitt bestu umræðurnar sem eiga sér stað þá, upplýstustu umræðurnar, og langflestir eru til staðar.

Það að forseti taki tíma hér til að viðra þetta hugðarefni sitt í tengslum við Covid-nálgun — mér finnst ekki sómi að því, skulum við segja. Það er sjálfsagt að gera bara hlé á fundinum en forseti þarf þá að upplýsa okkur um það hvernig sú tímasetning lítur út þannig að þeirri heimild forseta sé ekki beitt í einhverju gerræði.



[12:24]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Alþingi er málstofa. Í þessari málstofu sitja lýðræðislega kjörnir fulltrúar ýmissa flokka sem samkvæmt sínum skyldum eiga að stíga í pontu Alþingis og gera grein fyrir skoðunum sínum og atkvæðum. Það að forseti leggi til að þingmenn skerði á einhvern hátt tjáningarfrelsi sitt, taki tillit til þeirra aðstæðna sem hann sjálfur hefur skapað — með því að neita að fara með atkvæðagreiðslu út úr þinghúsi, koma þingsal í betra rými til að við séum ekki að skapa óþarfa hættu — að hann beini því til þingmanna að takmarka orð sín hefur valdið mér gríðarlegum vonbrigðum. (Forseti hringir.) Ég get ekki sagt annað.



[12:26]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek til máls til að taka undir með hæstv. forseta sem hvorki var að takmarka málfrelsi eins eða neins né beita nokkurn ofríki í þessu sambandi, heldur einfaldlega benda á ákveðnar staðreyndir og koma með afar vinsamleg tilmæli til þingmanna um að fara sparlega með möguleikann til þess að taka til máls um atkvæðagreiðslu eins og sagt er. Staðreyndin er auðvitað sú að tækifæri þingmanna til að taka efnislega þátt í umræðum um einstök þingmál eru ótalmörg. Það er 1. umr., 2. umr., 3. umr. og þar að auki geta þingmenn gert grein fyrir atkvæði sínu. Jafnvel þó að þingsköpum yrði breytt á þann veg að liðnum um atkvæðagreiðslu væri einfaldlega sleppt, bara strikaður út, hefðu þingmenn ótal lýðræðislega möguleika á því að taka þátt í umræðum um einstök mál.



[12:27]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Afstaða forseta gagnvart dagskrárliðnum um atkvæðagreiðslu hefur verið til umræðu í þingskapanefnd og á vettvangi þingflokksformanna og þetta er viðfangsefni sem stjórnmálin eru að takast á við. Þegar kemur að sóttvarnaráðstöfunum er það hins vegar á ábyrgð forseta að búa þannig um hnútana að vilji hann að við tökum okkur pásu eða sitjum ekki of lengi saman þá sé bara hægt að gera hlé á atkvæðagreiðslu. Það er meira að segja atkvæðagreiðslunni til bóta vegna þess að oft er auðvelt að missa sjónar á því nákvæmlega hvað er að ske þegar langar atkvæðagreiðslur eiga sér stað, burt séð frá dagskrárliðnum um atkvæðagreiðslu eða ekki. Það má hafa hvaða skoðun sem er á þeim dagskrárlið, en mér fyndist réttara ef forseti Alþingis hefði lagt það fyrir þingmenn að við myndum taka pásur inn á milli, að það hefði legið fyrir í upphafi, en ekki vera að taka það fram hér í kjölfar þess að þingmenn nýta sér þann rétt sem þó er til staðar núna. Þetta er ekki rétti tíminn til að ákveða að reyna að hagræða dagskrárlið sem forseta Alþingis er illa við.



[12:28]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég er almennt farinn að hafa áhyggjur af orðræðunni sem virðulegur forseti hefur hér uppi, og hefur haft uppi þetta kjörtímabil almennt. Ávallt eru þingmenn einhvern veginn að segja of mikið hér um þetta eða of mikið þar um hitt. Ég átta mig alveg á því að virðulegur forseti og meiri hlutinn, þ.e. ríkisstjórnin og þingflokkar hennar, vilja halda umræðum sem skemmstum til að koma málunum í gegn. Ég skil það mætavel. Ég skil alveg það sjónarmið. En virðulegur forseti, sem er forseti alls þingsins, þarf líka að átta sig á því að þetta er staðurinn þar sem þingmenn minni hlutans geta tjáð skoðanir sínar á hinum og þessum málum og verða að geta gert það án þess að virðulegur forseti sé sífellt að gefa áheyrendum þá tilfinningu að hér séu þingmenn alltaf að tala allt of mikið. Það er ekki þannig, virðulegi forseti. Ef semja á um skertan ræðutíma skal það gert á forsendum samninga. Best væri að komast hjá því ef mögulegt væri. En ég kann bara ekki við þessa orðræðu, sem virðulegur forseti hefur greinilega verið að reyna að gera að venju á þessu kjörtímabili.



[12:29]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp vegna orða hv. þm. Birgis Ármannssonar sem sagði að hér væri ekki verið að skerða málfrelsi þingmanna að nokkru leyti því að þingmenn hefðu ýmis tækifæri til að tjá sig. Hv. þm. Birgir Ármannsson þekkir þingsköpin eins og lófann á sér og veit að þar er gert ráð fyrir að þingmenn megi tjá sig undir liðnum um atkvæðagreiðslu. Með því að beina því til þingmanna að gera það ekki eða stilla því í hóf er verið að gera tilraun til að takmarka málfrelsi þingmanna sem eiga án hafta, hafi ekki verið samið um annað fyrir umræðu, líka að geta tjáð sig um mál undir þeim dagskrárlið. Það er einfaldlega þess vegna sem ég kom hingað upp til að benda á að þetta er líka pláss fyrir þingmenn til að tjá skoðanir sínar og afstöðu.



[12:31]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að ég tek það fram að mér finnist mikilvægt að þetta samtal haldi áfram á þeim vettvangi þar sem það á heima og ekki hér inni í þingsal er sú að það er ákveðinn kostur við þennan dagskrárlið um atkvæðagreiðsluna. Það er ákveðin ástæða fyrir því að ég og fleiri viljum halda í þennan dagskrárlið. Hvers vegna er það? Vegna þess að þingmenn eru þá almennt viðstaddir. Þeir neyðast almennt til að hlusta á kollega sína öfugt við það sem oft er í 1., 2. og 3. umr. þar sem nánast enginn er í salnum, þar sem fáir eru að hlusta og þar sem lítil athygli er á því sem þingmenn stjórnarandstöðunnar segja að sé gagnrýnisvert við aðgerðir stjórnvalda. Ég benti á það, í liðnum um atkvæðagreiðsluna við uppsagnarleið ríkisstjórnarinnar, að einungis þrír stjórnarþingmenn hefðu tekið þátt í 1. og 2. umr. um þá leið, þessa risavöxnu 27 milljarða leið sem ríkisstjórnin er að fara — og við höfðum heyrt frá þremur stjórnarliðum. Ég fagnaði því að við heyrðum frá fleirum vegna þess að athyglin er meiri og það er verið að hlusta og þess vegna skiptir þessi dagskrárliður okkur máli.



[12:32]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Bara svo það sé enginn misskilningur á ferðinni þá hefur enginn dregið það í efa að réttur þingmanna til að taka þátt í umræðum um atkvæðagreiðslu er ótvíræður og skýr í þingsköpum. Á því leikur enginn vafi.

Forseti kom með vinsamleg tilmæli um að menn notuðu það kannski aðeins í hófi. Hv. þingmenn átta sig á því að ef 63 þingmenn nýta sér báða möguleika sína til fara í umræður um atkvæðagreiðslur þá erum við að tala um afar langan kafla í þinghaldinu.

Ég benti líka á það í máli mínu áðan að tækifærin til að tjá sig um einstök mál eru ótal mörg önnur í þinginu. Ég held að hv. þingmenn megi ekki vera svo dramatískir, ef ég má orða svo, að álíta að vinsamleg tilmæli forseta um að menn stilli þátttöku sinni aðeins í hóf séu með einhverjum hætti takmörkun á þeim ótvíræða rétti sem þingmenn eiga til að taka þátt í þessari umræðu.



[12:33]
Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég mun standa vörð um þennan lið, um atkvæðagreiðslu, fram í rauðan dauðann. Ástæðan er sú að virkasta umræðan verður akkúrat í þeim dagskrárlið. Eftir að allt annað hefur gerst, fólk er búið að mynda sér skoðanir á málunum, geta þingmenn komið hér upp tvisvar sinnum í eina mínútu og það verða öflug andsvör frá öllum og allir þingmenn sem hafa ekki sett sig inn í mál, sem treysta kannski bara sínum þingflokki, verða að standa frammi fyrir því að heyra samantekna nálgun á málinu. Þetta er gríðarlega mikilvægur liður sem tryggir að þingmenn geta ekki seinna sagt: Ég vissi það ekki, ég var ekki meðvitaður um það. Jú, þú sast við atkvæðagreiðsluna og fylgdist með umræðunni. Þú vissir hvað þú varst að gera. Auðvitað er það óþægilegt þegar maður þarf að greiða atkvæði með flokknum en þau óþægindi þurfa bara að vera þar ef fólk ætlar að greiða atkvæði vitandi vits með einhverju sem er vont mál. Þess vegna er þessi liður svona mikilvægur. Hann er upplýsandi fyrir þingheim, (Forseti hringir.) upplýsandi fyrir almenning og veitir aðhald við það mikilvæga vald sem felst í því að setja lög í landinu.



[12:35]
Andrés Ingi Jónsson (U) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að líta um öxl og rifja upp 6. apríl 2017. Þá sátum við hér í sal og vorum að ræða fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022. Þá tjáðu þingmenn sig um atkvæðagreiðslu og eins og virðulegur forseti vék að komu fyrst fulltrúar allra flokka og gerðu grein fyrir því hvernig hver þingflokkur myndi greiða atkvæði, t.d. Katrín Jakobsdóttir fyrir hönd Vinstri grænna. Allt í allt voru þetta 29 athugasemdir um atkvæðagreiðslu. Eftir þessa einu frá Katrínu Jakobsdóttur komu tíu í viðbót frá hennar þingflokki, þar á meðal tvær frá þeim ágæta þingmanni sem situr í forsetastól núna, sem voru efnislegar, voru um efnisinnihald málsins. Þetta er bara eitt dæmi. Ég ætla ekkert að tiltaka þau fjölmörgu sem væntanlega liggja eftir (Forseti hringir.) hvert og eitt okkar eftir feril hér á þingi. Þetta er einfaldlega hefðin og hana ástundum við öll.

(Forseti (SJS): Sem betur fer var ekki heimsfaraldur á þeim tíma.)



[12:36]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem hv. þm. Birgir Ármannsson fór yfir áðan langaði mig að vekja athygli á því að vald forseta snýst ekki bara um það hver hafi valdið, það snýst líka um það hvernig valdinu er beitt. Það snýst ekki bara um formlega valdið heldur líka um kennivald. Það skiptir máli hvernig orðræðan þróast óháð lagatæknilegum atriðum um það hvað þingmenn geti gert eða hvað virðulegur forseti hafi rétt til að stöðva. Þegar virðulegur forseti virðist ítrekað, við þau tækifæri sem gefast, gera athugasemdir við að þingmenn tali hér eða þar um hitt eða þetta festir það í sessi þá röngu nálgun að málfrelsi þingmanna sé nýtt of mikið. Það skiptir máli. Þess vegna, þegar virðulegur forseti nýtir kennivald sitt með þessum hætti, neyðast þingmenn minni hlutans til að bregðast við til að verja sig og sitt málfrelsi hér. Það er engin önnur leið.



[12:37]
Andrés Ingi Jónsson (U) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Rétt örstutt til að bregðast við orðum forseta eftir að ég lauk máli mínu áðan: Ég er ekki að gera athugasemd við að heimsfaraldur kórónuveiru ríki og að störf þingsins þurfi að taka mið af því. Ég er að gera athugasemd við að forseti hafi sagst vera þeirrar skoðunar að ákvæði þingskapa um atkvæðagreiðslu hafi ekki verið hugsað þannig á sinni tíð að það væri fyrir efnislega umræðu um mál sem til umfjöllunar eru. Ég var einfaldlega að benda á dæmi úr fortíð okkar forseta um annað, þar sem sá þingmaður sem nú situr í forsetastóli var ekki að fylgja þeirri hefð sem hann nú segir að sé hinn æskilegi vettvangur skoðanaskipta um efni máls.



[12:38]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill að það komi fram að hann, í bréfi til formanna allra þingflokka, lagði áherslu á það í gær, þegar verið var að fjalla um eða upplýsa um tilhögun fundarhalda í dag, að mikilvægt væri af tveimur ástæðum að reyna að stilla tímalengd atkvæðagreiðslna í hóf. Annars vegar væri okkur þröngur stakkur skorinn í dag vegna mikilvægra verkefna sem þarf að ljúka fyrir mánaðamót og hins vegar væru tilmæli sóttvarnayfirvalda á þá leið að ef fólk sæti eða stæði mjög þétt saman væri æskilegt að hafa á því ákveðin ytri tímamörk, að slíkt ástand varði ekki mjög lengi. Forseti var að vonast til að formenn þingflokka hefðu kannski komið því á framfæri við sína þingflokka að það væri æskilegt af þeim ástæðum að okkur tækist að sameinast um að atkvæðagreiðslur með setu allra inni í þingsalnum tækju ekki mjög langan tíma. Þetta voru vinsamleg tilmæli til formanna þingflokka sem og voru það, af hálfu forseta, vinsamleg tilmæli til þingmanna að þeir hefðu þetta í huga. En að sjálfsögðu er það svo í höndum hvers og eins þingmanns hvað hann gerir eða gerir ekki með vinsamleg tilmæli frá forseta Alþingis.



[12:40]
Þórunn Egilsdóttir (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil bara koma hér upp og lýsa yfir því að ég hafði algjörlega sama skilning og forseti á þessu fyrirkomulagi. Það var lagt fram á fundi þingflokksformanna og mér og mínu fólki var bara ljúft og skylt að fara eftir því. Það lá alveg klárt fyrir. Það var ekki annað.