150. löggjafarþing — 113. fundur
 3. júní 2020.
störf þingsins.

[15:02]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Samtök félaga í velferðarþjónustu, sem halda úti þjónustu hjúkrunar- og dvalarheimila, hafa lyft grettistaki í því að halda sýkingum frá hjúkrunarheimilum í Covid-fárinu. Því hefur fylgt mikill kostnaður. Þau hafa þurft að gera tvíbýli að einbýli út af tveggja metra reglunni og þar af leiðandi orðið af tekjum frá ríkinu vegna minni nýtingar dvalarrýma. Ríkið greiðir ekki fyrir þjónustu dvalarrýma nema þau séu nýtt þannig að minni nýting rýma vegna Covid hefur rýrt tekjur hjúkrunarheimila sem því nemur og hefur starfsfólk lagt á sig mikla aukavinnu.

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur orðið raunlækkun á daggjöldum til hjúkrunarheimila þrátt fyrir skýr fyrirheit í stjórnarsáttmálanum um annað. Ítrekað hefur verið leitað eftir leiðréttingu, að á því fengist breyting. Hrópandi er sá munur sem er á daggjöldum sem heimilin fá til móts við það sem það kostar ríkið, Landspítala, að reka Vífilsstaði, og hafa Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu ítrekað bent á þann mismun. Hjúkrunarheimili á Íslandi og starfsmenn þeirra hafa sýnt það og sannað á tímum Covid-19 hvers lags úrvalsstarfsemi fer fram á hjúkrunarheimilum á Íslandi.

Staðan á hjúkrunarheimilum hér á landi í samanburði við ýmis nágrannalönd er sláandi. Starfsfólki hjúkrunarheimila ber að þakka. Er rétt að taka fram að heimilin sáu til þess með framgöngu sinni að álag á sjúkrahúsum, sérstaklega á Landspítala, varð minna en reikna mátti með. Rekstrarform það sem mörg heimili starfa innan, svokallað sjálfseignarstofnunarform, hefur sannað gildi sitt í gegnum árin og áratugina. Ríkið á ekki að standa í slíkum rekstri þó að það greiði að sjálfsögðu fyrir þjónustuna. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa sannað tilverurétt sinn með framgöngu sinni og hagsmunabaráttu fyrir hjúkrunarheimili, burt séð frá baklandi og rekstrarformi. Samskipti ríkisvaldsins við heimilin ætti að formfesta enn frekar þannig að samráð og samvinna verði tryggð með sem bestum og skýrustum hætti til framtíðar.



[15:04]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með ástandinu í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn hafa lengi haldið á lofti möntrunni um ameríska drauminn sem byggi á traustum stoðum lýðræðis, mannréttinda, frelsis og jafnréttis. Einstaklingar geti með eljusemi unnið sig upp úr fátækt og skapað sér og sínum velsæld. Staðreyndin er hins vegar sú að veikt velferðarkerfi, ómanneskjulegt heilbrigðiskerfi, misskipting auðs og djúpstætt misrétti setur stóra hópa fólks í vonlausa stöðu sem er erfitt að komast úr. Ein birtingarmynd þessa misréttis er endurtekið lögregluofbeldi, nú síðast morð lögreglu á George Floyd. Vissulega einskorðast kynþáttafordómar ekki við Bandaríkin heldur þrífast líka hér eins og dæmin sýna og við þurfum auðvitað að skera upp herör til að eyða þeirri óværu sem rasismi er úti um allt, líka á Íslandi. En alþjóðasamfélagið verður líka að þora að láta Bandaríkjamenn heyra það þegar við á. Þó að við Íslendingar séum fá höfum við rödd sem tekið er eftir og við eigum að nota hana þegar mikið liggur við. Það höfum við t.d. gert í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þar sem við höfum gagnrýnt mannréttindabrot einstakra ríkja víða um heim. Nú ríður einfaldlega á að við höfum bein í nefinu til að tala við Bandaríkjamenn með tveimur hrútshornum. Þess vegna hvet ég stjórnvöld til að gagnrýna það rótgróna misrétti sem viðgengist hefur í Bandaríkjunum í 400 ár og ekki síður gagnrýna viðbrögð núverandi forseta sem kyndir undir sundrung og gerir hlutina enn verri en ella.



[15:06]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í andsvörum í 1. umr. um fjáraukalög hér um daginn sagði fjármálaráðherra að menn treystu sér ekki til að koma með áætlun fyrir næsta ár og árin þar á eftir fyrr en í haust. Þetta sagði fjármálaráðherra eftir að ég spurði hverjar væru málefnalegar ástæður þess að fresta framlagningu fjármálastefnu og fjármálaáætlunar þangað til í haust. Það er eitthvað verulega bjagað við það að óvissuástand skuli vera kallað málefnaleg ástæða fyrir því að leggja ekki fram fjármálastefnu og -áætlun þegar tilgangur fjármálastefnu og fjármálaáætlunar er að minnka óvissu. Nánar tiltekið eiga opinber fjármál að grundvallast á sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi. Og hvernig getur það verið málefnaleg ástæða að fresta því að leggja fram stefnu og áætlun sem er ætlað að ná þessum markmiðum?

Menn treystu sér ekki til að koma með áætlun, segir fjármálaráðherra í ríkisstjórn sem á að efla traust á stjórnmálum eða eins og segir u.þ.b. í ríkisstjórnarsáttmálanum: Ríkisstjórn þar sem flokkar sem spanna hið pólitíska íhald allt frá vinstri til hægri freista þess að slá nýjan tón, einhenda sér í þau lykilverkefni sem koma Íslandi í fremstu röð og búa þannig um hnútana að hér verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna.

Þarna skipti ég út orðinu „litróf“ fyrir orðið „íhald“, vegna þess að það er nákvæmara, eini liturinn í þessu litrófi ríkisstjórnarinnar er kolsvart íhald sem skilar engri stefnu fram á við, treystir sér ekki til þess. Íhald er pólitík stöðnunar, pólitík þess að gera ekki neitt nema það allra nauðsynlegasta og helst ekki fyrr en seint og síðar meir. Hvers vegna ættum við að vera með stjórnmálamenn sem eru með það markmið að gera ekki neitt? Hvers vegna ættum við að vera með stjórnmálamenn sem treysta sér ekki til að mæta óvissu með stefnu fram á við?



[15:08]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Sjálfbærni er hugtak sem við notum mikið og er mikilvægt viðmið þegar við tökum ákvarðanir sem óhjákvæmilega hafa afleiðingar til mislangs tíma. Í grunninn má segja að við höfum þann grundvallarskilning að ákvarðanir okkar í dag valdi ekki þannig skaða að skerði nýtingarmöguleika komandi kynslóða. Þetta á sannarlega við um nýtingu auðlinda en á einnig við um ríkisfjármálin, um þær ákvarðanir sem við höfum verið að taka undanfarnar vikur, hratt, fjárfrekar, við mikla óvissu, bæði til að bregðast við Covid-19 og til að veita viðspyrnu út úr því ástandi. Í nýlegum pappír frá OECD sem fjallar um aðgerðir stjórnvalda víðs vegar með gríðarmikilli innspýtingu fjármuna til þess að verja velferð, afkomu heimila og fyrirtækja, er ekki deilt á nauðsyn þessara aðgerða en áhersla og hvatning á að gætt sé að gagnsæi og yfirsýn, auk þess sem mikilvægt er þegar við komum okkur út úr þessu ástandi að tryggja að ríkisfjármálin fari hratt sem kostur er til baka í sjálfbæran farveg.

Við búum, virðulegur forseti, að ábyrgri fjármálastjórn undanfarinna missera, skuldléttum ríkissjóði og traustri umgjörð ríkisfjármála með stefnumótandi grunngildamiðuð lög um opinber fjármál þar sem eitt af lykilgildunum er sjálfbærni. Í samhengi ríkisfjármála felst sjálfbærni í því að opinberar skuldbindingar séu viðráðanlegar til skemmri og lengri tíma og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir. Það er enn fremur skrifað í lögin skilyrði um að heildarskuldir séu lægri en 30% af vergri landsframleiðslu og sá hluti sem þar er umfram skuli lækka að meðaltali á hverju þriggja ára tímabili um a.m.k. 5% á ári.

Virðulegi forseti. Við förum yfir skuldaviðmiðið, það er ljóst, líklega yfir 40% fyrir hið opinbera í heild, (Forseti hringir.) en sjálfbærnifarvegurinn verður vel fær og viðráðanlegur.



[15:10]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er vor fyrir vestan og Vestfirðingar héldu nýlega vorlegt fjórðungsþing. Ein þeirra tillagna sem samþykktar voru vekur athygli og varðar miklu um hagsmuni svæðisins. Þar gætir gríðarlegrar bjartsýni. Skorað er á sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir breytingum á lögum um stjórn fiskveiða og vísað er í tillögur starfshóps frá því í febrúar sl. um endurskoðun á meðferð og ráðstöfun á ákveðnum prósentuhluta aflaheimilda, sem nemur um 5,3%. Meðal tillagna starfshópsins er að ónýttri línuívilnun verði úthlutað sem almennum byggðakvóta í samræmi við hlutdeild einstakra byggðarlaga á undangengnum árum. Liðlega 6.000 tonn hafa í mörg ár runnið til útgerða sem veitt hafa með handbeitta línu og hefur það gert þeim kleift að veiða 20% meira en kvótinn segir til um.

Nú hefur orðið mikil breyting á útgerð línubáta og vilja Vestfirðingar að þessum 6.000 tonnum verði útdeilt til þeirra byggðarlaga sem nýttu sér línuívilnun til uppbyggingar og eflingar á ýmsum sviðum, ekki endilega í sjávarútvegi. Áætlað verðmæti þessara aflaheimilda er á bilinu 5–7,5 milljarðar kr. Það verður fróðlegt að sjá hvernig sjávarútvegsráðherra bregst við þessum tillögum en hann hefur, eins og við þekkjum, varið með kjafti og klóm óbreytt kerfi í þágu stórútgerðarinnar. Það er hneisa og sjálfstætt umhugsunarefni.

Það sem þó hvílir þyngst á Vestfirðingum nú er staða Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en boðaðar skerðingar munu hafa mjög slæm áhrif á vestfirsk sveitarfélög og raunar öll minni sveitarfélög í landinu. Ég tek undir þessar áhyggjur um leið og ég vek athygli á þingsályktunartillögu okkar í Samfylkingunni um aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna faraldurs kórónuveiru sem þegar hefur verið lögð fram. Þar eru áréttaðar ríkar kröfur sem gerðar eru til sveitarfélaga og hlutverks þeirra í nærþjónustu og lagðar til úrlausnir.

Það má undrum sæta, virðulegur forseti, ef þessari tillögu verður ekki tekið fagnandi og hún samþykkt í heilu lagi.



[15:13]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Heilsa þjóðarinnar og efnahagur fara alla jafna hönd í hönd og kórónuveiran hafði, eins og við þekkjum öll, dramatísk áhrif á hvort tveggja. Daglega settist þjóðin niður fyrir framan skjáinn þar sem við fengum upplýsingar um stöðu mála og ráð um næstu skref. Þessir fundir og upplýsingagjöf hafði gríðarlega mikið um góðan árangur að segja, þetta skipti sköpum. Samhliða aðgerðum til að verja og tryggja heilbrigði þjóðarinnar hefur nú verið farið í efnahagsaðgerðir til að vernda heilbrigði atvinnulífsins. Tugum og hundruðum milljarða hefur verið varið í það. Þetta eru stjarnfræðilegar tölur fyrir almenning og fyrirtæki í landinu. En hér hefur upplýsingarnar og ráðin vantað, að almenningur sé upplýstur um hver staðan er og hvers sé að vænta. Alveg eins og við fengum úttekt úr leiðsögn sérfræðinganna okkar, þremenninganna þriggja, þarf þjóðin núna á því að halda að hópur óháðra sérfræðinga upplýsi hana um efnahagslegar afleiðingar aðgerða stjórnvalda, bæði til langs og skamms tíma. Nágrannaþjóðir okkar hafa sumar þegar gert þetta. Á það benti Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði, á Rás 2 í morgun að í Noregi sé t.d. starfandi hópur hagfræðinga á vegum stjórnvalda til að vega og meta efnahagslegar afleiðingar aðgerðanna og til að upplýsa þjóðina um stöðuna eins og hún er.

Lykillinn að árangri er og verður að upplýsa um það hver staðan er og hverjar horfurnar séu, að eyða óvissu og leggja línur. Almenningur og atvinnulíf fá of litlar upplýsingar um þessar efnahagsaðgerðir. Þetta þarf að kynna á sama hátt og gert var með sóttvarnaraðgerðirnar svo almenningur og fyrirtæki fái fullnægjandi upplýsingar um stöðuna, horfurnar og framtíðarmyndina. Gylfi leggur til, og ég tek heils hugar undir það, að haldnir verði vikulegir fundir þar sem fram kemur hvað stjórnvöld eru að gera fyrir fyrirtækin, atvinnulífið og heimili landsins. Óvissunni þarf að eyða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:15]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Með því að halda fjarfundi á Covid-tímum hefur þingnefndum verið gert mögulegt að starfa nær óslitið. Hið sama gildir um alþjóðanefndir Alþingis. Hnökrar hafa þó verið á einstökum fundum. Stundum má rekja orsök hnökranna til kerfisins sem notað er en oftar en ekki má rekja það til þess að búnaður notenda er ekki nægilega góður, menn nota ekki heyrnartól, eru ekki í réttum vafra, netsamband er lélegt o.s.frv. Það hefur einnig komið fyrir að einstök þjóðþing eða ráðuneyti megi ekki af öryggisástæðum nota ákveðin kerfi, sem veldur vandkvæðum.

Niðurstaðan er því að við þurfum að gera betur hvað varðar leiðbeiningar og þjálfun þingmanna og starfsmanna Alþingis og Stjórnarráðsins í notkun fjarfundabúnaðar og að samræma enn betur á milli a.m.k. ráðuneyta og Alþingis hvaða kerfi eru notuð. Með fjarfundum má spara tíma, mikla fjármuni og fækka kolefnasporum, en ekki síst gera stjórnsýsluna aðgengilegri fyrir þá sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu.

Sú sem hér stendur lagði fram þingsályktunartillögu á haustþingi 2017 um að forsætisráðherra yrði falið að innleiða verklagsreglur um fjarfundi fyrir ráðuneyti Stjórnarráðsins. Samkvæmt skýrslu forsætisráðherra, sem lögð var fram á þessu þingi, um ályktanir Alþingis, kemur fram að gert er ráð fyrir átaki í fjárfestingu á fjarfundabúnaði í ráðuneytum, þjálfun starfsmanna í notkun hans og að verklag verði þróað þar sem ráðuneytin setji sér m.a. markmið um aukið hlutfall fjarfunda. Í skýrslunni kemur einnig fram að fjarfundabúnaður sé í öllum ráðuneytum sem og leiðbeiningar. Loftslagsfulltrúar ráðuneyta eigi að tryggja innleiðingu og að undirstofnanir taki upp sama verklag.

Heyra má að margt hefur verið gert á vettvangi Stjórnarráðsins í þessum efnum og á Alþingi. Ég veit að forsætisnefnd er með málið til umfjöllunar og frekari skoðunar. En það eru svo sannarlega tækifæri til að gera enn betur. Fjarfundir eru örugglega komnir til að vera og verða að vera valkostur áfram þegar þörf krefur, ekki síst fyrir þá þingmenn sem langt hafa sækja og þurfa að komast heim til sín um helgar, eða reyna það alla vega, þannig að þetta sé raunhæfur valkostur og lítið mál að framkvæma.



[15:17]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Nú er fyrirhugað að skima ferðamenn við komuna til Keflavíkur og er merkilegt að fleiri gáttir séu ekki undir, eins og kom fram í umfjöllun í Morgunblaðinu í morgun. Þar voru Akureyrar- og Reykjavíkurflugvöllur nefndir og jafnvel væri hægt að bæta fleiri völlum við. Einnig er gott að hafa í huga að Norræna kemur til Seyðisfjarðar í hverri viku og nú þegar hefur verið tilkynnt að ráðstafanir verði gerðar til að hægt verði að skima ferðamenn sem þangað koma. Það er því enn furðulegra, þar sem ferðamönnum þar í gegn mun fjölga, að lesa um uppsagnir aðstoðarmanna tollvarða á Seyðisfirði.

Fram kom í minnisblaði frá sóttvarnalækni fyrir nokkrum dögum að skimun á Keflavíkurflugvelli eigi að standa næstu sex mánuði. Það segir mér þá að ekki sé ætlast til þess að aðrar fluggáttir verði nýttar fyrir ferðamenn. Annað sem skapar óvissu er sú tilkynning forsætisráðherra að staðan verði metin á tveggja vikna fresti. Ég er ekki viss um að sú tilkynning gagnist vel þegar upp er staðið. Mér finnst enn merkilegra að ekki sé farin sú leið að ferðamenn verði skimaðir á brottfararstað þar sem þeir eru sjúkratryggðir í heimalandi og ekki síst í ljósi þess að erlendir ferðamenn án sjúkratrygginga skulda Landspítala 282 milljónir. Samtök alþjóðaflugvalla hafa bent á þessa leið og eru dæmi þess að einhver flugfélög hafi nú þegar hafið flugferðir sínar á því að skima ferðamenn áður en þeir stíga um borð.



[15:19]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Raforka framleidd með stórum vindmyllum er með grænan plús þegar búið er að reikna út kolefnisspor frá vöggu til grafar, eins og við köllum það gjarnan, og raforkunni sem það skilar stillt upp á móti raforku sem er unnin með ósjálfbærum hætti. Könnun Landsvirkjunar á orkuframleiðslu tveggja mylla hjá Búrfelli bendir til þess að vindorka sé nothæfur viðbótarkostur á Íslandi. Það er einn myllulundur í nýtingarflokki rammaáætlunar og annar í biðflokki en utan rammaáætlunar eru margir stórir myllulundir í skoðun, t.d. í Dalasýslu á vegum erlendra aðila með íslenska samverkamenn og svo er hið norska Zephyr með tíu staði víða um land. Stórfellt erlent eignarhald er umhugsunarvert, svo ekki sé meira sagt.

Öll orkuver yfir 10 MW eiga að falla undir rammaáætlun. Annað merkir fullkominn skort á heildarskipulagi og utanumhaldi orkuframleiðslunnar. Samvinna innlendra og erlendra fyrirtækja við sveitarfélög heimilar skipulagsvinnu og það er hægt að fá rannsóknarleyfi vegna mælinga og annarra kannana. Dæmigerður vindmyllulundur með 20–30 myllum er með afl svipað og t.d. Hrauneyjafossvirkjun en nýjar myllur eru orðnar stærri en myllurnar við Búrfell og eru allt að 150–200 metra háar, tveir til þrír Hallgrímskirkjuturnar. Bara könnun Zephyr nær til lunda sem myndu framleiða álíka afl og öll stærri orkuver landsins.

Nú er brýnt að tryggja sem fyrst það heildarskipulag sem þarf og koma gerlegum myllulundum inn í rammaáætlun og halda fast við þá stefnu að framleiða orku í samræmi við þarfir og orkufrek verkefni í landinu. Svo minni ég á að annað regluverk, svo sem formleg virkjunarleyfi, mat á umhverfisáhrifum, málefni raforkuflutnings og annað sem fylgir, gildir um vindorkulundi. En hvað sem öllu líður þarf að hraða undirbúningi, hafa hraðar hendur, ekki við að beisla vindinn heldur ólmra hesta samkeppni frammi fyrir ófullnægjandi skipulagi í þessum efnum. Þetta eru skilaboð mín eftir umræður í óundirbúnum fyrirspurnum í gær.



[15:22]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í fréttum 9. maí sl. segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Hreyfihamlað fólk sem pantaði sérútbúin bíl um áramót situr nú uppi með eina og hálfa milljón í aukakostnað eftir fall krónunnar. Einn þeirra segist vera í vonlausri stöðu þar sem ekki er hægt að hætta við kaupin. Landssamband hreyfihamlaðra vill að ríkið aðstoði hópinn.

Þeir sem eru mikið hreyfihamlaðir þurfa sérhannaðan sendibíl til að geta keyrt sjálfir. Þetta fólk fær styrk frá Tryggingastofnun til að kaupa slíkan bíl. Þá eru tollar og aðflutningsgjöld felld niður. Fólkið greiðir svo mismuninn sem hefur hingað til verið um ein milljón.“

Það er með ólíkindum að þessi ríkisstjórn skuli leyfa sér það, á sama tíma og verið er að bjarga öllum í Covid, að hunsa þetta Covid-mál. Þessi hækkun í hafi upp á 1,5 milljónir er Covid-mál, vegna gengis. Hæstv. ráðherra þessa málaflokks, ég veit ekki hvort hann er úti á túni eða bara hreinlega í sauðburði, lofar að svara en svarar engu. Þetta eru ekki háar upphæðir sem um er að ræða. Þetta eru ekki margir einstaklingar sem um er að ræða. Á sama tíma er verið að reyna að búa til starfsgetumat fyrir öryrkja. Það á að vera einhver lausn, en þeir þurfa þá bifreiðina til að geta komist á leiðarenda. Nei, það á bara að taka hana af þeim líka.

Ég er með einfalda lausn vegna kostnaðarins sem af þessu hlýst. Það á að senda út ferðagjöf að fjárhæð 5.000 kr. Það átti að kosta 1,5 milljarða en kemur svo í ljós að þetta kostar ekki nema 375 milljónir vegna þess að það var vitlaust reiknað eins og flest hjá þessari ríkisstjórn. Þarna eru peningarnir til að redda þessu einn, tveir og þrír, núna.



[15:24]
Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Fyrirspurnir þingmanna til ráðherra geta verið mjög gagnlegar, sé vel á haldið, m.a. til að draga fram upplýsingar og vekja athygli á málum. Dæmi um tiltölulega skjótt svar sem mér hefur borist er svar iðnaðarráðherra um mat á gerðum fjórða orkupakkans. Hann liggur fyrir. Þetta eru samtals átta reglugerðir og tilskipanir. Svarið er vandað og gott en ég verð að nota tækifærið og lýsa því að það er eins og menn hafi ekkert lært af þriðja orkupakkanum í því að ekkert er minnst á það í svarinu að í undirbúningi séu lögfræðilegar álitsgerðir sem reyndust mjög þýðingarmiklar í þriðja orkupakkanum. Við getum rifjað það upp að til að mynda sú þeirra sem hvað mest var rædd hér var dagsett 19. mars 2019 og var til umræðu þá um vorið. Hér þarf að draga lærdóm af reynslunni og efna til slíkra álitsgerða hið brýnasta.

Dæmi um svar við fyrirspurn þar sem fram komu nýjar og mjög mikilvægar upplýsingar er svar hæstv. félagsmálaráðherra við fyrirspurn um skerðingar á lífeyri almannatrygginga þar sem fram kemur að nánast allir eru skertir sem til næst. Ýmis gangur er á viðbrögðum ráðuneyta við fyrirspurnum. Ýmist er það svo að óskað er eftir fresti eða að það heyrist ekki neitt frá ráðuneytum og jafnvel ekki einu sinni svo að kvittað sé fyrir móttöku.

Ég vil beina því til hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því eftir föngum að svör fáist við ósvöruðum fyrirspurnum á þessu löggjafarþingi, nú og í framtíðinni, og að þau berist innan áskilinna tímamarka.



[15:26]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Að þessu sinni ætla ég að leyfa mér að sleppa því að tala um Covid eða aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. Ég ætla frekar að tala um kíví, bláber, banana og avókadó. Um daginn var ég að skoða ávaxtakörfuna heima hjá mér — ekki söngleikinn, enda hefur hann fengið áhorf á mínu heimili fyrir lífstíð. En það sem ávaxtakarfa heimilisins sýndi var hins vegar mjög fróðlegt. Bananinn var frá Ekvador, bláberin voru frá Marokkó, avókadóið var frá Perú og kívíið var frá Bandaríkjunum.

Þegar ég kenndi rekstrarhagfræði við Háskóla Íslands fór ég m.a. yfir það að kostnaður réði því hvar vörur væru framleiddar og síðan seldar. Sérhvert land og fyrirtæki ætti að framleiða og flytja út þá vöru sem það hefði hlutfallslega minnstan fórnarkostnað af að framleiða og það lögmál á enn við. Hins vegar virtist, í þessum kennslubókum sem maður studdist við, sem ekki væri alltaf miðað við allan kostnaðinn þótt slíkt ætti í raun að gera þegar unnið er með hugtakið fórnarkostnað. Hér á ég við hinn svokallaða loftslagskostnað eða kostnað vegna umhverfisáhrifa eða kolefnisfótsporið. Fyrirtæki eru þó farin að líta í æ meira mæli til umhverfiskostnaðarins en oft er það ekki fyrr en stjórnvöld setja kröfur og lög um slíkt.

Kostnaður vegna mengunar snertir annað hugtak í hagfræðinni sem eru neikvæð ytri áhrif en þá verður annar aðili fyrir kostnaði en sá sem veldur kostnaðinum. Þess vegna eru mengunarskattar góð hagfræðileg hugmynd því að þeir færa kostnaðinn vegna mengunar á þann sem mengar.

Herra forseti. Ég er viss um að ávaxtakarfa framtíðarinnar mun líta talsvert öðruvísi út þegar fyrirtækin þurfa að taka með í reikninginn allan umhverfiskostnaðinn sem hlýst af framleiðslunni og flutningunum milli hinna fjarlægu heimshorna.



[15:29]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Morðið á George Floyd var enn einn dropinn í barmafullan bikar kynþáttamisréttis og lögregluofbeldis gagnvart svörtum Bandaríkjamönnum. Mótmæli og reiði almennings í kjölfar þessa voðaverks eru bæði skiljanleg viðbrögð við óréttlæti og ofbeldismenningu. Viðbrögð Bandaríkjaforseta, Donalds Trumps, þar sem hann hótar skotárásum á mótmælendur, þar sem hann hótar beitingu bandaríska hersins gegn bandarískum borgurum, eru ekki sæmandi forseta í lýðræðisríki og bera raunar merki um djúpa andstöðu forsetans við rétt borgaranna til að mótmæla.

Virðulegi forseti. Stuttu eftir að Donald Trump tók við embætti sagði ég í þessum ræðustól, með leyfi forseta:

„Ég hef áhyggjur af því að forseti Bandaríkjanna sé fasisti, kvenhatari og rasisti …“

Þessi ummæli vöktu athygli á sínum tíma og þótti hæstv. utanríkisráðherra t.d. tilefni til að segja þau óviðeigandi í kjölfarið.

Í millitíðinni hefur mikið vatn runnið til sjávar og núna hef ég ekki bara áhyggjur heldur tel ég mig vita að forseti Bandaríkjanna er fasisti, kvenhatari og rasisti. Og þó að ég viti að hæstv. utanríkisráðherra finnist óviðeigandi að kalla hlutina réttum nöfnum, og þó að ég viti líka að mögulega sé ekki heppileg utanríkisstefna að gera það nákvæmlega þá sakna ég þess að sjá ráðherrann og ríkisstjórnina gagnrýna Bandaríkjaforseta fyrir aðfarir sínar að lýðræðinu vestan hafs. Ég kalla eftir því að rödd Íslands á alþjóðavettvangi heyrist; gegn misrétti og gegn aðförum Bandaríkjaforseta að lýðræðinu þar í landi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:31]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Í síðustu viku skrifuðu Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, undir þjónustusamning sem undirstrikar enn frekar mikilvægi Akureyrar sem miðstöðvar norðurslóðamála á Íslandi. Áhugi á norðurslóðum hefur aukist mjög síðustu ár, m.a. í tengslum við rannsóknir á nýtingu auðlinda og á sviði vöruflutninga. Mikilvægt er að Ísland skapi sér sérstöðu sem norðurslóðaríki, en sérstaða Íslands felst m.a. í þeim áherslum sem verið hafa hér á landi á uppbyggingu á endurnýjanlegum orkugjöfum og sérfræðiþekkingu þar að lútandi.

Hér er einnig rétt að benda á mikilvægi þess að byggja upp leit og björgun sem er stórt og mikilvægt málefni í ljósi landfræðilegrar stöðu Íslands. Í gegnum norðurslóðastefnu Íslands geta aukin efnahagsleg umsvif á norðurslóðum veitt íslenskum fyrirtækjum aukin sóknartækifæri og nýja vaxtarmöguleika. Þannig er líklegt að uppbygging og fjárfestingar, t.d. vegna samgangna, þjónustu við auðlindanýtingu og ferðaþjónustu, muni skapa sóknarfæri á Akureyri og víða annars staðar. Í því samhengi er mikilvægt að samskipti okkar Íslendinga við Grænlendinga og Færeyinga séu góð og byggð á traustum stoðum, enda deila þessi þrjú lönd ábyrgð á stóru og dreifbýlu svæði í Norður-Atlantshafi. Hagsmunir þessara landa eru nátengdir í viðskiptum, samgöngum og auðlindanýtingu á svæðinu. Þannig fellur uppbygging sjávarútvegs og innviða mjög vel að starfsemi íslenskra fyrirtækja.

Ég vil að lokum benda á nauðsyn þess að gerður sé loftferðasamningur á milli Íslands og Grænlands, en á hverju ári, allt frá árinu 1976, hefur t.d. Norlandair og forverar þess, ásamt öðrum íslenskum flugrekstraraðilum, þurft að óska eftir leyfi frá grænlenskum stjórnvöldum til að fljúga þangað. Slíkur samningur myndi styrkja efnahagslega samvinnu Íslands og Grænlands til langrar framtíðar og brýnt er að árangur náist hið fyrsta í því mikilvæga máli sem loftferðasamningur milli Íslands og Grænlands er svo sannarlega.



[15:33]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Á síðustu vikum hafa orðið umtalsverðar framfarir í þekkingu og hæfni fólks við notkun fjarfunda og í fjarvinnu hvers konar víðast hvar í samfélaginu, líka hér á þingi. Í framhaldinu þarf að taka meðvitaða ákvörðun um að viðhalda og auka enn frekar færni í notkun fjarvinnu og nota sveigjanlegt vinnufyrirkomulag þar sem það á við. Bæði þarf að viðhalda og auka tæknilega þekkingu og færni, en einnig þarf að þjálfa ýmsa hæfni sem nýtist í fjarvinnu. En það er ekki nóg. Það þarf líka að tryggja að reglur á vinnumarkaði og opinber kerfi, lög og reglur, verði ekki hindrun í þróuninni. Það er að mörgu að hyggja þegar fjarlægðir hætta að vera hindrun og fólk býr t.d. í öðru landi en því sem það starfar í. Þá geta komið upp spurningar eins og: Hvar greiðir sá skatt sem vinnur þvert á landamæri? Hvernig og hvar öðlast hann rétt til opinberrar þjónustu? Hvernig verður vinnumarkaðsréttindum hans háttað, t.d. varðandi fæðingarorlof, atvinnuleysisbætur og aðgang að símenntun?

Fjórða iðnbyltingin, rafræn stjórnsýsla, fjarvinna og fjarnám, gefa okkur frábær verkfæri og tækifæri. Til að nýta þau tækifæri þurfum við að setja af stað formlega vinnu til að tryggja að búseta á Íslandi verði valkostur fyrir fólk sem vill eiga kost á störfum hvar sem er í heiminum, óháð búsetu.

Innan lands getum við líka oftar spurt okkur hvernig hægt sé að nýta tækifærin í fjarvinnunni til þess að styrkja starfsemi þar sem ekki er þörf á fjölda fólks í nærþjónustu. Nærþjónusta er samt mikilvæg en skapar t.d. ekki fullt starf. Þar mætti með meðvitaðri stýringu nota rafræna stjórnsýslu og fjarvinnslu til að dreifa störfum um landið, efla starfsstöðvar og heilu stofnanirnar, kerfin eða keðjurnar.