150. löggjafarþing — 129. fundur.
breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna , 2. umræða.
stjfrv., 715. mál (aðilar utan EES, landeignaskrá, ráðstöfun landeigna, aukið gagnsæi). — Þskj. 1223, nál. m. brtt. 1763.

[12:32]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna. Nefndarálitið er mjög ítarlegt, ég ætla þó að fara dálítið vel yfir sérstaklega 8. gr. sem var kannski mest til umfjöllunar hjá okkur en þó ætla ég að stikla aðeins á stóru í öðru, reyna að stytta mál mitt í ljósi aðstæðna. En fyrst er til að taka breytingar á lögum um eignar- og afnotarétt fasteigna þar sem er verið að tala um undanþáguheimild ráðherra.

Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á undanþáguheimild ráðherra vegna laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Þær snúa m.a. að því að íslensk fjármálafyrirtæki, sem eru skráð á almennan markað, fái undanþágu frá 1. gr. eins og einstaklingar og lögaðilar á EES-svæðinu en líka reglugerð um rétt útlendinga, sem falla undir samninginn um EES eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu til að öðlast eignar- eða afnotarétt yfir fasteignum.

Varðandi breytingar á þinglýsingalögum þá telur meiri hlutinn, um það sem gagnrýnt var, að afsali yrði ekki þinglýst sem eignarheimild ef það geymdi ekki upplýsingar um kaupverð, nema það komi fram berum orðum í skjali að ekkert endurgjald komi fyrir eign, mikilvægt að upplýsingar um kaupverð komi fram í þinglýstum eignarheimildum á grundvelli sjónarmiða um gagnsæi sem og til að styðja við varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, eins og kom m.a. fram í umsögn ríkisskattstjóra.

Í 4. gr. þar sem talað er um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna komu fram sjónarmið um að fela Þjóðskrá Íslands að úrskurða um skráningu eignarmarka, landamerkja og örnefna jarða. Það stendur til að endurskoða löggjöf um landamerki og skráningu merkja lands og færa til nútímalegra horfs og er frumvarpinu ætlað að styðja við slíka endurskoðun.

Í 5. gr. eru lagðar til breytingar á markmiðsákvæði 1. gr. jarðalaga. Við meðferð málsins var talið skorta greiningu á því hvernig breytingin hefði áhrif á önnur ákvæði jarðalaga og túlkun þeirra. Enn fremur voru gerðar athugasemdir þess efnis að svo virtist sem frumvarpinu væri ekki ætlað að styðja við ferðaþjónustu sem framtíðargrein á landsbyggðinni. Markmiðsákvæði frumvarpsins væri of opið og óljóst og matskennt um hvers konar áformuð nýting önnur en matvælaframleiðsla og hefðbundinn landbúnaður teldist forsvaranleg. Í grunninn er um að ræða orðalagsbreytingar á ákvæðinu til að draga skýrar fram þá hagsmuni sem lögunum er ætlað að vernda. Breytingin sem slík hefur ekki teljandi áhrif á önnur gildandi ákvæði jarðalaga að mati forsætisráðuneytisins. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi ferðaþjónustunnar og breytingarnar sem lagðar eru til í 5. gr. felast m.a. í því að stefnumiðum á borð við byggðaþróun, náttúruvernd og sjálfbæra landnýtingu verður gert hærra undir höfði í markmiðsákvæðinu og skýra það enn frekar.

Hér er ekki verið að fjalla sérstaklega um einstakar atvinnugreinar nema það sem snýr að landbúnaði, enda eðlilegt af því að mörg ákvæði jarðalaga snúa jú sérstaklega að landbúnaðarlandi og ræktuðu landi eða ræktanlegu landi. Og hér endurspeglast sú áhersla að langtímahagsmunir ríkis og almennings verði hafðir að leiðarljósi við túlkun og framkvæmd ákvæða jarðalaga sem og að ríkir þjóðfélagslegir hagsmunir séu bundnir við það hvernig nýtingu á landi og landgæðum er háttað á hverjum tíma. Meiri hlutinn leggur þó til að styrkja orðalag ákvæðisins eins og m.a. Bændasamtökin óskuðu eftir og það er fært aftur til fyrra horfs eins og var kynnt í drögum í samráðsgátt.

Í 7. gr. er fjallað um lausn úr landbúnaðarnotum og í þeirri grein er lagt til að kveðið verði nánar á um hvaða kröfur beiðni sveitarfélags til ráðherra til að land verði leyst úr landbúnaðarnotum þurfi að uppfylla þannig að hún teljist tæk til meðferðar. Með hliðsjón af minnisblaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins leggur meiri hlutinn til að 7. gr. falli brott og vísar í þeim efnum til umfjöllunar um 15. gr. frumvarpsins.

Í a-lið 8. gr. frumvarpsins, sem var kannski fyrirferðarmest, er kveðið á um skyldu til að afla samþykkis ráðherra fyrir ráðstöfun á fasteignum sem falla undir gildissvið jarðalaga í nánar greindum tilvikum. Fyrirkomulagið var dálítið gagnrýnt og þar m.a. horft til stærðarmarka. Sjónarmið voru uppi um að ríkisvaldið ætti að hafa forkaupsrétt fremur en að ráðherra fengi svo víðtækt vald til að hlutast til um fasteignaviðskipti á grundvelli frjáls mats. Það voru gerðar athugasemdir við að ráðherra væri heimilt að binda samþykki sitt skilyrðum þar sem áhvílandi kvaðir á jörðum væru líklegar til að takmarka notkun þeirra og draga úr verðmæti þeirra og þar með veðsetningarhæfi. Það gæti haft neikvæð áhrif gagnvart fjárfestingarvilja erlendra aðila í ferðaþjónustu á Íslandi.

Áhyggjur komu fram um að afgreiðsla af hálfu ráðuneytis gæti dregist og leitt til tjóns hagsmunaaðila og fælt kaupendur frá. Um væri að ræða íþyngjandi skerðingar á ráðstöfunarrétti lands og gæti falið í sér takmörkun á eignarrétti og atvinnufrelsi út frá stjórnarskrá. Einnig komu fram sjónarmið um að ákvæðið samræmdist ekki meginreglum EES um meðalhóf, lagavissu og banni við mismunun.

Í minnisblaði forsætisráðuneytis til nefndarinnar kemur fram að talið sé að ákvæðið hafi óveruleg ef einhver áhrif á markaðsverð fasteigna og gerir mat um umfangið ráð fyrir að árlega sé um 40–50 tilvik að ræða sem ákvæðið næði til, enda sé gildissvið ákvæðisins vel afmarkað. Ítarlega er rakið til hvaða sjónarmiða ráðherra sé m.a. ætlað að líta við mat á umsóknum. Í ljósi umræðunnar í samfélaginu undanfarin misseri er eitt af stærstu markmiðum þessa ákvæðis að hægt verði að sporna gegn spákaupmennsku um land og samþjöppun á eignarhaldi þess og að nægur aðgangur að landi sé forsenda uppbyggingar og nýliðunar í landbúnaði. Á sama hátt geti takmarkað framboð á landi á viðráðanlegum kjörum bitnað á hagsmunum landbúnaðarins. Gildissvið ákvæðisins er þröngt og mun frekar styðja við framþróun fjölbreytts og samkeppnishæfs landbúnaðar, eins og ég segi, og ásamt nýliðun í atvinnugreininni til framtíðar litið frekar en hitt.

Ákvæðið samræmist viðeigandi reglum stjórnarskrárinnar og EES-samningsins að mati ráðuneytisins og í leiðbeiningum framkvæmdastjórnar ESB um kaup á landbúnaðarlandi frá því 2017 er ráðgert að ríkið geti í lögum kveðið á um samþykkisskyldu á borð við þá sem felst í a-lið 8. gr.

Meiri hlutinn áréttar að samkvæmt 125. gr. EES-samningsins hefur samningurinn engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar. Slíkar reglur í lögum samningsríkja falla því í grunninn utan gildissviðs þessa samnings. Meiri hlutinn fær ekki annað séð en að a-liður 8. gr. samrýmist meginreglum EES-réttar og rúmist innan þess svigrúms sem EES-samningurinn veitir ríkjum til lagasetningar um skipan eignarréttar, m.a. um jarðir, auðlindir í jörðu og önnur fasteignaréttindi, að því marki sem þessi viðfangsefni falla á annað borð undir gildissvið EES-samningsins. Þá tekur meiri hlutinn undir að samþykkisregla a-liðar 8. gr. sé best fallin til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að og gangi ekki lengra en nauðsynlegt þykir. Þá telur meiri hlutinn að ákvæðið samræmist stjórnarskrá og helgist af málefnalegum sjónarmiðum sem og feli í sér almenna takmörkun á ráðstöfunarheimild í ákveðnum tilvikum. Þá telur meiri hlutinn að valdheimild ráðherra sé nægilega afmörkuð enda er ráðherra bundinn af sjónarmiðum samkvæmt 9. og 10. mgr. a-liðar 8. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem rakin eru í greinargerð með frumvarpinu, m.a. í kafla 4.5.3.

Þá var bent á að í ákvæðinu virtist ekki gerður greinarmunur á lögbýlum eftir því hvort þar væri stundaður landbúnaður eða ekki. Æskilegt væri að miða samþykkisskyldu ráðherra við land sem væri vel fallið til búvöruframleiðslu en ekki hvers kyns lögbýli óháð skilyrðum landsins.

Með 6. og 11. gr. frumvarpsins er lagt til að hugtakið lögbýli í jarðalögum verði afmarkað við starfsemi sem telst til landbúnaðar. Hugtakið landbúnaður er skilgreint rúmt í lögunum og takmarkast það ekki við búskap eða búvöruframleiðslu. Meiri hlutinn telur ekki ástæðu til að einskorða samþykki ráðherra við það land sem sé vel fallið til búvöruframleiðslu og áréttar að verndarhagsmunir ákvæða frumvarpsins einskorðast ekki við landbúnaðarland eða ræktanlegt land heldur lúta þeir ekki síður að náttúruauðlindum undir og á yfirborði jarðar. Enn fremur komu fram athugasemdir við þau stærðarmörk sem eru tilgreind í ákvæðinu, en fram komu bæði sjónarmið um lægri eða hærri viðmið.

Ég vil árétta það að frumvarpinu er m.a., eins og ég sagði hér áðan, ætlað að vinna gegn spákaupmennsku með land og náttúruauðlindir á og undir yfirborði jarðar og samþjöppun eignarhalds á þessum gæðum. Meiri hlutinn telur stærðarmörk frumvarpsins vera málefnaleg miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um stærð jarða sem raktar eru í kafla 2.2.1. í greinargerð. Ekkert er þó því til fyrirstöðu að stærðarmörkin verði endurskoðuð þegar frekari upplýsingar liggja fyrir og ef reynsla og forsendur gefa tilefni til þess. Þá var bent á samspil þinglýsingar og nauðungarsölu við ákvæði frumvarpsins. Þannig geti skortur á yfirsýn leitt til þess að sýslumönnum verði illfært að gæta að skilyrðum ákvæðisins við þinglýsingu. Hvað varðar samspil við nauðungarsölu geti það leitt til þess að hafa áhrif á fullnusturétt veðhafa og þannig skert lánshæfi eigenda fasteigna.

Í minnisblaði ráðuneytisins er tekið fram að skortur á yfirsýn yfir upplýsingar um eignarhald á landi og stærð landeigna sé birtingarmynd víðtækari vanda. Ákvæðum frumvarpsins sé m.a. ætlað að ráða bót á þessu. Þá sé sýslumönnum, samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, ekki ætlað að gegna eftirlitshlutverki varðandi önnur atriði en þau sem þeim er unnt að staðreyna með einföldum hætti við þinglýsingu eins og verið hefur.

Hvað varðar nauðungarsölu telur ráðuneytið ekki fært að nauðungarsala verði almennt undanþegin gildissviði samþykkisreglu ákvæðisins. Að auki megi reikna með því að afgreiðslu umsókna um samþykki fyrir ráðstöfun í kjölfar nauðungarsölu yrði almennt hraðað að teknu tilliti til aðstæðna. Frumvarpið er hluti af endurskoðun sem á sér nú stað á jarðalögum og samspili þeirra við önnur lög. Hins vegar er hér áréttað mikilvægi þess að sýslumönnum verði gert kleift að sinna hlutverki sínu og embættunum veitt nauðsynleg tæki og tól til þess.

Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á það að brugðist verði við ábendingum sýslumanna í þessum efnum eftir því sem þörf er á, enda er kveðið á um, í 54. gr. jarðalaga, að óheimilt sé að þinglýsa skjölum um aðilaskipti að fasteignum sem lögin gilda um, nema fyrir liggi að ákvæða laganna hafi verið gætt. Þá telur meiri hlutinn sig hafa komið að einhverju leyti til móts við sjónarmiðin, um öflun samþykkis vegna nauðungarsölu eignar, í þeim tilvikum þegar um er að ræða viðskiptabanka, sparisjóði og lánafyrirtæki og vísar í þeim efnum til umfjöllunar um 4. mgr. a-liðar 8. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir komu fram um að afla þyrfti samþykkis ef afnotaréttur væri til lengri tíma en fimm ára í senn, m.a. frá Bændasamtökunum o.fl., sem og að skylt yrði að þinglýsa skjölum um stofnun eða yfirfærslu afnotaréttinda yfir eign til lengri tíma en fimm ára. Talið var að skilyrði um fimm ár væri of stuttur tími og veitti ekki nægilegt svigrúm, t.d. ef leigutaki þyrfti eða ætlaði að ráðast í fjárfestingar.

Meiri hlutinn leggur til breytingu þannig að leigutíminn verði miðaður við sjö ár í stað fimm. Ítarlega er fjallað um óskipta sameign þar sem miðað er við ákveðin atriði og getur verið örðugt að mati meiri hlutans að styðjast við önnur viðmið en hér koma fram þar sem sameigendur lands eiga ekki endilega ákveðinn hektarafjölda eða afmarkaðar spildur innan sameignarlands hver um sig heldur er þetta alla jafna í eignarhlutföllum og tekur hagnýtingarrétturinn til þess í heild. Og það er vert að árétta að gildissvið þessa ákvæðis er tiltölulega þröngt og ekki áætlað að um mörg tilvik sé að ræða á hverju ári.

Í 4. mgr. a-liðar 8. gr. komu fram sjónarmið um að ráðstöfun fasteigna milli samstæðufélaga ætti að vera almennt undanþegin samþykkisskyldu ráðherra. Í minnisblaði forsætisráðuneytis kemur fram að slík undanþága myndi fela í sér fullmikla útvíkkun og gæti t.d. falið í sér að ráðstöfun fasteigna milli félaga með gjörólíkan tilgang og starfsemi yrði undanþegin samkeppnisskyldu. Í ljósi þess telur meiri hlutinn ekki ástæðu til að kveða á um undanþágu samstæðufélaga í þessum efnum.

Gagnrýnt var að ákvæði um samþykki ráðherra væru of matskennd og óljós og samrýmdust ekki kröfum EES-réttar um lagavissu. Meiri hlutinn telur sjónarmiðin nægjanlega hlutlæg og skýr þótt eðli málsins samkvæmt myndi ráðherra þurfa að heimfæra þau á atvik einstakra mála. Til samanburðar má benda á að í ákvæði norsku sérleyfalaganna, nr. 98/2003, er það lagt í hendur viðkomandi stjórnvalds að taka afstöðu til umsókna um leyfi til framsals á fasteign með vísan til hlutlægra og sumpart matskenndra sjónarmiða. Það fæst ekki annað séð en að það kerfi hafi verið talið standast EES-samninginn að þessu leyti og þá kemur fram í 10. mgr. a-liðar 8. gr. að ráðherra skuli að jafnaði ekki veita samþykki ef viðtakandi réttar og tengdir aðilar eiga fyrir fasteign eða fasteignir sem séu samanlagt 10.000 hektarar eða meira að stærð nema umsækjandi sýni fram á að hann hafi sérstaka þörf fyrir meira landrými vegna fyrirhugaðra nota fasteignar. Þettafelur í rauninniekki í sér þak eins og rætt var um.

Skyldan virkjast ef viðtakandi eignarréttinda yfir fasteign og tengdir aðilar eiga fyrir land sem er samanlagt, eins og ég sagði, yfir ákveðnum stærðarmörkum. Þannig að ákvæðið felur sem slíkt ekki í sér afdráttarlaust þak heldur áskilnað um samþykki ráðherra fyrir ráðstöfun eignar í tilvikum sem ákvæðið tekur til. Í leiðbeiningum framkvæmdastjórnar ESB frá 2017, um kaup á landbúnaðarlandi, er gert ráð fyrir að ríkið geti gripið til tvenns konar takmarkana í jarðalögum, m.a. í því skyni að sporna gegn spákaupmennsku með land og samþjöppun eignarhalds. Annars vegar má setja afdráttarlaust hámark á það hversu stórt landsvæði einn eða tengdir aðilar geti átt og hins vegar áskilja leyfi stjórnvalda fyrir kaupum á landi umfram ákveðin stærðarviðmið. Síðari og jafnframt vægari leiðin var lögð hér til grundvallar í þessari grein. Enn fremur er litið svo á að annars konar úrræði en felist í samþykkisreglu frumvarpsins, t.d. búsetu- eða ábúðarskylda, forkaupsréttur sveitarfélaga, lágmarkstími eignarhalds og nýtingarkvaðir geti ekki talist nægjanleg til að markmiðum frumvarpsins verði náð með viðhlítandi hætti.

Í b-lið 8. gr. er lagt til að tilteknum lögaðilum sem eiga bein eignarréttindi yfir fasteign eða fasteignaréttindum sem falla undir gildissvið jarðalaga verði skylt að tilkynna fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra m.a. um beint og óbeint eignarhald sitt, svo og um raunverulegan eiganda eða eigendur í skilningi laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Það kom fram við meðferð málsins sjónarmið um mikilvægi þess að upplýsingaskyldum aðilum sé gert að upplýsa um raunverulegan eiganda óháð því hvort á fyrri stigum hafi verið tilkynnt um það til fyrirtækjaskrár á grundvelli þessara laga og undir það tökum við í meiri hlutanum og leggjum til breytingar þess efnis.

Varðandi landskipti kemur fram í minnisblaði forsætisráðuneytisins að á síðari stigum verði ráðist í, og sú vinna er hafin, að skoða bæði jarðalögin í heild og ákvæði þeirra við önnur lög, m.a. skipulagslög, og leiðarljósið þar verði að auka samþættingu á skipulagsákvörðunum sveitarfélaga og hlutverki ráðuneytis landbúnaðarmála í því ferli og ráðuneytið tekur undir það að mikilvægt sé að koma á löggjöf um óskipta sameign á landi.

Í 13. gr. er lagt til að rétthafa verði ávallt skylt að láta þinglýsa skjölum sem fela í sér stofnun eða yfirfærslu tiltekinna réttinda yfir fasteignum eða réttindum sem falla undir gildissvið jarðalaga. Meiri hlutinn leggur því til að breytingar verði gerðar á þeirri grein þannig að það gildi ekki um samninga veiðifélaga um afnot af veiðiréttindum og bendir á að slíkir afnotasamningar eru þó eftir almennum reglum háðir þinglýsingu til að þeir njóti réttarverndar, svo sem gagnvart grandalausum þriðja manni.

Ítarlega er fjallað um kröfu um úrbætur á nauðungarsölu í 14. gr. og ætla ég ekki að fara yfir hana hér. Í 15. gr. er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilað að gefa út reglugerð þar sem kveðið verði á um þau sjónarmið sem sveitarstjórn og eftir atvikum landeiganda verði gert skylt að greina, lýsa og meta, með tilliti til áhrifa á landbúnað, við beiðni um lausn lands úr landbúnaðarnotum, landskipti og sameiningu lands samkvæmt II. og IV. kafla jarðalaga. Einnig er um að ræða viðmiðanir um hvernig skuli flokka landbúnaðarland. Og það kemur fram í minnisblaði frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu til nefndarinnar að fallið hafi verið frá því að gefa út þessa reglugerð en sannarlega eigi að halda áfram að móta leiðbeiningar um flokkunina í samráði við tiltekna aðila og við leggjum til breytingar út frá því.

Í 16. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilt verði að beita refsiábyrgð gagnvart lögaðilum vegna brota gegn lögunum en ekki aðeins gegn einstaklingum og í dæmaskyni talið upp hvaða brot eru refsiverð á grundvelli 56. gr. jarðalaga. Þá komu fram sjónarmið um skýrleika refsiheimilda frá héraðssaksóknara sem við tökum hér undir og teljum rétt að gæta innra samræmis og að um sé að ræða opna refsiheimild. Og með hliðsjón af skilyrði 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar um skýrleika refsiheimilda er að mati nefndarinnar ekki fullnægjandi að í 16. gr. verði í dæmaskyni talin upp tilgreind brot gegn ákvæðum laganna ef ekki er um tæmandi talningu að ræða og þess vegna leggjum við til breytingar á því.

Að lokum, virðulegi forseti, komu fyrir nefndinni fram sjónarmið um að æskilegt væri að veittur sé sanngjarn aðlögunartími og þá þurfi að veita stofnunum, einna helst ríkisskattstjóra, tíma til að undirbúa framkvæmdina samkvæmt frumvarpinu. Meiri hlutinn telur því ekkert til fyrirstöðu að lögin taki þegar gildi en til að koma til móts við ríkjandi annir hjá ríkisskattstjóra leggur meiri hlutinn til að breyta tímamarki upplýsingagjafar til ríkisskattstjóra í 1. málslið 3. mgr. b-liðar 8. gr. þannig að upplýsingar samkvæmt ákvæðinu yrðu veittar fyrir 1. febrúar ár hvert. Þannig yrðu upplýsingarnar fyrst veittar um mánaðamótin janúar/febrúar 2021. Að lokum leggur meiri hlutinn til minni háttar orðalagsbreytingar til leiðréttingar og lagfæringar.

Virðulegi forseti. Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem raktar eru í nefndarálitinu. Undir þetta skrifar sú sem hér stendur, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, og hv. þingmenn Páll Magnússon, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson og Steinunn Þóra Árnadóttir.



[12:53]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er margt við þetta mál að athuga. Þetta er risamál sem ég tel að hefði átt að fara í betri meðferð, fá fleiri að borðinu og vinna með tilliti til þeirra gagna sem hafa komið fram hjá ýmsum nefndum sem hafa verið skipaðar einmitt til þess að taka á eignarhaldi á jörðum, hversu stórar þær geta orðið og umfangsmiklar í eigu eins aðila. Síðan hafa aðrir aðilar viljað nálgast þetta út frá þjóðerni. Við erum mótfallin því í Viðreisn að jarðamálum sé þannig háttað að það skipti máli hvaðan vegabréfið kemur. Það er ekki spurning mín hér.

Spurning mín hér er um breytingartillöguna. Ég er að reyna að átta mig á henni. Það er rétt að draga það fram að ég er ekki í allsherjar- og menntamálanefnd. Eitt af þessum gölnu ákvæðum í frumvarpinu frá ríkisstjórn er að verið er að stofna hér biðlistamenningu að nýju. Fyrir nokkru var þessi biðlistamenning í ráðuneytunum þar sem menn komu inn í ráðuneyti, í stjórnarráðið, forsætisráðuneytið eða fjármálaráðuneytið og núna landbúnaðarráðuneytið, til að fá greiða. Og greiðinn fólst í því að það þurfti að fá samþykki ráðherra fyrir því að kaupa eignir. Ég hefði talið skynsamlegast að setja almennar heimildir um eignarhald á jörðum, almennar reglur, almennar heimildir. Það sem ég óttast, eins og uppleggið var hjá ríkisstjórninni, er að það verði háð geðþóttavaldi og, eins og við höfum séð síðustu misseri hjá þessari ríkisstjórn, að það verði háð því hversu sterk tengslin eru við ráðherra hverju sinni hvort fyrirgreiðsla sé í málum eða ekki. Þess vegna vil ég gjarnan fá betri skýringu á því frá hv. þingmanni og framsögumanni nefndarinnar hvort nefndin hafi gert breytingu á nákvæmlega þessu og hvort ákvæðin um það að málið þurfi að fara fyrir ráðherra (Forseti hringir.) til samþykkis eða synjunar, hvort þau (Forseti hringir.) hafi raunverulega verið tekin út eða hvaða nákvæmu breytingar í praktík er verið að leggja til af hálfu nefndarinnar.



[12:55]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta áhugaverð nálgun hjá hv. þingmanni. Í fyrsta lagi verð ég að segja að búið er að vinna þetta mál í dágóðan tíma. Við þekkjum öll umræðuna. Við þekkjum að það hefur verið ósk og krafa, sérstaklega bænda, til langs tíma að utan um þetta verði náð. Hér er ekki verið að velta fyrir sér jarðamálunum og hvaðan fólk kemur. Það skiptir engu máli hvort við erum að tala um íslenska auðmenn, ef við getum orðað það sem svo, sem ætla að safna að sér jörðum eða fólk sem kemur erlendis frá. Hins vegar þarf þetta að standast allan rétt sem við lútum hér á landi eins og í Evrópu. Ég kann ekki að meta þessar aðdróttanir um að viðkomandi þurfi að hafa tengsl við ráðherra til að fá málum sínum framgengt og að hér sé einhver biðlistamenning. Það er ekkert óalgengt að innan ráðuneyta eins og annars staðar sé tiltekinn afgreiðslufrestur. Hér eru lagðar til að hámarki fjórar vikur í afgreiðslufrest ef mál þarf að koma til ráðherra. Þetta eru almennar reglur og það er verið að tala um örfá atvik á hverju ári. Það má alveg búast við að það séu í kringum 40, kannski 50, mál á ári eins og rakið er í frumvarpinu. Ég held, virðulegi forseti, að ég þurfi ekkert að útlista neitt nánar hér hvernig þetta er. Það er mjög vel útskýrt. Það er mjög vel farið yfir þetta enda held ég að í litlu landi eins og Íslandi sjáum við ekki fyrir okkur að ráðherra kæmist upp með eitthvað slíkt og ég hef enga ástæðu til að ætla það. Ef hins vegar einhverjir aðrir komast að því einhvern tímann seinna að önnur leið sé betri og færari þá verða væntanlegagerðar breytingar í því efni. En þetta er lagt til hér og það er vegna þess að við þurfum að auka yfirsýn yfir jarðaviðskipti og við þurfum að auka gagnsæi, eins og hv. þingmaður veit. Hér erum við að veita stjórnvöldum ákveðið stýritæki til þess. Þannig að mér finnst við vera að gera vel og ég held að þessu frumvarpi verði vel tekið hjá allflestum aðilum, alla vega geri ég ráð fyrir því. Eflaust verða einhverjir minna sáttir eins og gengur og gerist með alla lagasetningu.



[12:57]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki endilega viss um að allir bændur á Íslandi séu sáttir við þetta því að oft og tíðum snýst þetta líka um möguleika þeirra til að selja jarðir sínar, jarðir sem þeir hafa ekki átt möguleika á að fá einhverja fjármuni fyrir áður. Alla vega hafa ýmsir bændur, bæði á Suðurlandi og Austurlandi, tjáð mér að þeir óttist að einhverjar girðingar verði settar sem minnki möguleika þeirra á að fá andvirði jarða sinna í fasteignakaupum og jarðakaupum. En gott og vel.

Það kemur ekkert á óvart að Vinstri græn skuli beita sér fyrir því að málið skuli tekið inn í ráðuneyti. Það kemur mér ekkert á óvart og ég bara virði það við hv. þingmann, sem er þingflokksformaður Vinstri grænna. Það sem kemur mér á óvart er að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ljá máls á þessu enda er það svo að fáir þingmenn þess flokks hafa tjáð sig um málið af því að þessi þáttur er eitthvað sem flokkurinn hefur barist gegn, þ.e. þessi biðlistamenning, að setja inn að það þurfi að auka umsvif ráðuneyta í eðlilegum fasteignaviðskiptum á milli einstaklinga og lögaðila. Hvers konar vitleysa er þetta? Að almennar reglur geti ekki dugað um það heldur þurfi að fara einhverja fjallabaksleið inn í ráðuneytin til að fá vilyrði ráðherra. Auðvitað mun það verða þannig. Það mun á endanum sýna sig að það skiptir máli í hvaða flokki ráðherrann er og með hvaða tengsl. Það er bara hinn íslenski veruleiki sem hefur mjög vel kristallast á þessu kjörtímabili, hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Og ég vara við því. Ég vil sjá einfaldar reglur hér. Það sem mér finnst gott í málinu er að það er verið að reyna að setja einhver stærðartakmörk og ég mun koma að því í ræðu minni á eftir. En ég vil vara við þessari biðlistamenningu sem ríkisstjórnin, undir forystu Vinstri grænna og með fullum stuðningi Sjálfstæðisflokksins, er að koma upp hér í tengslum við jarðakaup á landinu.



[13:00]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum auðvitað lagt af stað út frá því að allir séu spilltir, allir innan ráðuneyta séu spilltir, ef við viljum fara þá leið. Ég kýs að gera það ekki og ég kýs að treysta því að þeir sem gegni slíkri stöðu á hverjum tíma, sem í þessu tilfelli fellur undir landbúnaðarráðuneytið því að þetta fer jú þangað, séu fólk sem vill stunda vinnu sína af heilindum eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður telji sjálfa sig vera að gera. Við höfum heyrt það í samfélaginu að fólk er ekki sátt við þau risaviðskipti sem hafa átt sér stað með jarðir hér á Íslandi. Það er bara ekki almenn sátt um það í samfélaginu. (ÞGK: Ertu að tala um það?) Við erum m.a. að reyna að ná utan um það hér, það er eitt af því. En það getur vel verið að það sé miður þóknanlegt að vera ekki sammála því óhefta markaðslögmáli sem á að gilda um allt þetta, m.a. samþjöppun jarða. Ég hef t.d. haft áhyggjur af því. Það er eitt að segja: Við erum svo almennileg að við erum með ábúð á öllum þessum jörðum. Við erum með leiguliðamenningu, við erum að búa hana til, að búa til leiguliðamenningu með því að einhverjir stórlaxar kaupi gríðarlega margar jarðir, eins og gerst hefur hér á landi, en eru svo glaðir yfir því að þeir séu með fólk í ábúð þar. Það kom m.a. fram við umfjöllun nefndarinnar um Streng, sem hefur t.d. keypt gríðarlega mikið af landi í Vopnafirði, að það hefði ekki haft nein sérstök áhrif til hækkunar á verði að þeir kæmu þar inn. Ég hef ekki hugmynd um hvort það er satt og rétt en það fullyrtu menn. Þannig að sannarlega þarf að horfa til þess að bændur geti fengið sanngjarnt verð fyrir jarðir sínar, að sjálfsögðu. En það á ekki að setja hinum almenna bónda einhverjar skorður þó að þessi lög verði sett, alls ekki.



[13:02]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Það hefur lengi verið ljóst að Alþingi þyrfti að endurbæta lagaumgjörð jarðamála á Íslandi. Í þeim efnum er að mörgu að hyggja. Það mál sem við ræðum nú er lagt fram af hæstv. forsætisráðherra og hefur fengið ágæta umfjöllun í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór yfir álit meiri hlutans og tók þar sérstaklega fyrir 8. gr., sem var einn af stærri liðunum í þessu umfangsmikla og mikilvæga máli. Ég hef engu við það að bæta í sjálfu sér, eins og þingmaðurinn nefndi er ég á nefndarálitinu og tek því undir það.

Markmið frumvarpsins er að styrkja löggjöf um jarðir, land og aðrar fasteignir með breytingum á lagaákvæðum um eignarráð og nýtingu fasteigna, þar með talið jarða, og um opinbera skráningu á atriðum á viðkomandi landi og fasteignum. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a. í kaflanum um byggðamál, með leyfi forseta: „Kannaðar verði leiðir til að setja skilyrði við kaup á landi sem taka mið af stefnu stjórnvalda um þróun byggðar, landnýtingu og umgengni um auðlindir.“ Markmið ríkisstjórnarinnar í þessum efnum hafa því legið fyrir frá upphafi.

Í núverandi lagaumhverfi geta rúmlega 500 milljón manns keypt land og aðrar fasteignir á Íslandi með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar. Nágrannaþjóðir okkar hafa sett mun meiri hömlur á ráðstöfun fasteigna og aðilaskipti en Ísland. Í Danmörku þurfa t.d. einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir í landinu eða hafa búið þar í tiltekinn tíma að fá leyfi dómsmálaráðuneytisins til að öðlast fasteignaréttindi. Með því að gera jarðakaup leyfisskyld er hægt að tryggja nauðsynlega aðkomu ríkis og sveitarfélaga að eigendaskiptum jarða til að fylgja eftir lögum, reglum og ákvæðum aðalskipulags, svæðis- og deiliskipulags.

Framsóknarflokkurinn vill að gerð sé krafa um að kaupandi lands búi á Íslandi, að kaupandi hafi búið á Íslandi í a.m.k. fimm ár eða hafi starfsemi í landinu, þ.e. hafi bein tengsl við landið. Að mati okkar Framsóknarmanna þarf tilgangur jarðakaupa að vera skýr. Margs konar markmið sem styrkja búsetu og samfélög gætu fallið þar undir, svo sem búfjárrækt, uppbygging gróðurauðlindar, landfrek atvinnustarfsemi eða nýsköpun byggð á sérstöðu viðkomandi jarðar eins og menningarverðmætum eða náttúru. Aðalatriði er, eins og fyrr segir, að tilgangur jarðnýtingar liggi fyrir. Það er einnig algert lykilatriði að sveitarfélög og ríkisvald fái aðkomu að ráðstöfun landsins. Regluverkið þarf að vera það sveigjanlegt að hægt sé að bregðast við ólíkum aðstæðum í byggðarlögum og landshlutum.

Herra forseti. Mig langar til að fara stuttlega yfir helstu breytingar á gildandi lögum og þær viðbætur sem birtast í framlögðu frumvarpi hæstv. forsætisráðherra. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á gildandi lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, þinglýsingalögum, lögum um skráningu og mat fasteigna og á jarðalögum. Meðal þess sem lagt er til er að ráðherra fái heimild til að veita aðilum frá ríkjum utan EES leyfi til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign ef þeir uppfylla ekki skilyrði laganna um íslenskan ríkisborgararétt eða skilyrði um lögheimili hér á landi. Þá gæti ráðherra veitt einstaklingi eða lögaðila utan EES heimild til að öðlast eignar- eða afnotarétt yfir fasteign til beinna nota í atvinnustarfsemi.

Verði þetta frumvarp að lögum fær ráðherra einnig heimild til að veita einstaklingi, sem hefur sterk tengsl við Ísland, svo sem vegna hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, leyfi til að eignast hér fasteign.

Lögð er til breyting á þinglýsingalögum þess efnis að upplýsingar um kaupverð eignar verði meðal skilyrða fyrir þinglýsingu afsals nema skýrt komi fram að ekkert endurgjald komi fyrir hina seldu eign. Þá er lagt til að í lög um skráningu og mat fasteigna komi ákvæði um landeignaskrá, sem er hluti af fasteignaskrá og inniheldur m.a. upplýsingar um eignarmörk lands í samræmdum kortagrunni. Ákvæðinu er ætlað að ryðja úr vegi hindrunum fyrir frekari uppbyggingu landeignaskrár Þjóðskrár Íslands.

Það sem snýr að breytingum á jarðalögum í frumvarpinu er m.a. að markmiðsákvæði laganna verði fyllra og ítarlegra en nú og innihaldi markmið um landnýtingu í samræmi við skilgreind markmið, þar á meðal um að land sem vel er fallið til búvöruframleiðslu verði nýtt í því skyni. Lagðar eru til breytingar á ákvæðum um lögbýli þannig að þau verði einungis stofnuð til starfsemi á sviði landbúnaðar eins og hann er skilgreindur í lögum.

Þá er lagt til ákvæði um skyldu til að afla samþykkis ráðherra fyrir ráðstöfun beins eignarréttar eða afnotaréttar til lengri tíma en fimm ára yfir fasteign, en meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar taldi rétt að koma með breytingartillögu varðandi tímalengd afnotaréttar og lengja hann í sjö ár. Þetta ákvæði gildir í fyrsta lagi um að ráðstöfunin taki til lögbýlis og viðtakandi réttar og tengdir aðilar eiga fyrir fimm eða fleiri fasteignir, séu skráðar í lögbýlaskrá, og samanlögð stærð þeirra sé yfir 50 hekturum og í öðru lagi ef sömu aðilar eiga fyrir fasteignir sem heyra undir jarðalög og eru samtals 1.500 hektarar eða meira að stærð. Ofangreindum aðilum verði jafnframt skylt að að veita stjórnvöldum upplýsingar um eignarhald sitt. Upplýsingaskylda samkvæmt ákvæðinu mun taka til erlendra lögaðila annars vegar og hins vegar íslenskra lögaðila sem eru að 1/3 hluta eða meira í beinni eða óbeinni eigu erlends lögaðila, fjárvörslusjóðs eða sambærilegs aðila.

Herra forseti. Ofantalin atriði eru auðvitað aðgerðir sem þarf nauðsynlega að fara í sem allra fyrst. Gerð landeignaskrár er algert lykilatriði. Ef skráningu á jörðum er ábótavant og gögn vegna sölu eigna eru ófullnægjandi og ógagnsæ, verður okkur auðvitað erfitt um vik að bæta og skerpa þá umgjörð sem við viljum láta gilda um eignarhald og viðskipti með jarðir hér á landi. Landeignaskrá er einnig forsenda þess að hægt sé að uppfæra fasteignamat í dreifbýli, sem er í algjörum ólestri. Það er því mjög brýnt að við samþykkjum ný lög er snúa að þessum atriðum.

Snúum okkur þá að þeim ákvæðum er fjalla um skipulagsmál en lagt er til að beiðnum um landskipti fylgi ávallt staðfesting á því að breytingin samrýmist gildandi skipulagsáætlun. Þetta er að sjálfsögðu mjög mikilvægt atriði. Einnig eru lagðar til breytingar á ákvæðum um niðurfellingu lögbýlisréttar, þess efnis að ráðherra verði ekki lengur skylt að fella lögbýlisrétt niður að ósk eiganda og að lögbýlisréttur skuli ekki felldur niður gegn rökstuddum andmælum sveitarstjórnar.

Herra forseti. Að sjálfsögðu eiga sveitastjórnir að hafa aðkomu að því þegar óskað er eftir að fella niður lögbýlisrétt. Fyrir byrjendur eins og mig í jarðamálum, ef svo má að orði komast, er svo margt í þessu frumvarpi sem maður hefði haldið að væri hreinlega þegar til staðar í lögum. En svo er því miður ekki.

En svo ég klári nú umfjöllun um helstu breytingar sem felast í frumvarpi ráðherra þá yrði rétthöfum gert skylt að láta þinglýsa skjölum um tiltekin eignarréttindi yfir fasteignum sem falla undir gildissvið jarðalaga, þar á meðal afsölum.

Herra forseti. Það er enn og aftur eðlileg krafa sem hefði fyrir löngu átt að vera orðin að lögum.

Eitt af því sem þarf að styrkja er viðurlagaákvæði jarðalaga. Lagt er til að ráðherra fái heimild til að bregðast við brotum á ákvæðum laganna, m.a. með því að krefjast nauðungarsölu eða virkja innlausnarrétt ríkissjóðs. Það er allt gott og blessað.

Fyrir fáum árum síðan var lítil eftirspurn eftir bújörðum. Framsýnir fjárfestar sáu sér leik á borði og keyptu upp fjölmargar jarðir. Sumir eiga orðið umtalsverð jarðasöfn og margir hafa áhyggjur af þeirri þróun, eins og sjá má í almennri umræðu síðustu ár. Góðar bújarðir eru ekki endilegar nýttar sem slíkar og það er ekki í lagi þar sem við hljótum að vera sammála um að Ísland eigi að stefna í átt að aukinni sjálfbærni hvað varðar matvælaframleiðslu. Sá veruleiki hefur blasað við okkur lengi og sérstaklega undanfarið í umræðu um Covid-19 faraldurinn og þjóðaröryggi almennt. Það að vera sjálfbær að mestu hvað varðar matvælaframleiðslu og tryggja þannig fæðuöryggi þjóðarinnar er markmið sem við eigum að stefna að og gera allt sem í okkar valdi stendur til að ná því. Að halda góðum bújörðum í rækt og tryggja ábúð á þeim eru tvímælalaust okkar sameiginlegu hagsmunir.

Nú rennur upp ferðasumarið mikla. Sumarið sem Íslendingar ætla að nota til að kanna landið sitt og njóta alls þess sem okkar fallega náttúra hefur upp á að bjóða. Í þeirri alsælu gætu ferðamenn rekið sig á það, rétt eins og bændur hafa nú þegar gert á tilteknum svæðum, að aðgengi almennings hefur verið takmarkað mjög um ákveðnar jarðir, þar sem umfangsmikil jarðasöfnun hefur átt sér stað. Slíkt dæmi má finna í Mýrdalnum. Segja má að það sé ömurlegt að rekast á slíkt.

Herra forseti. Meðferð og notkun alls lands skiptir alla landsmenn máli, bæði nú og til framtíðar. Við erum með einna frjálslegustu löggjöf innan EES um þessi mál og gætum litið til annarra landa, hvort sem er Danmerkur, Noregs eða Írlands, eftir skýrari ramma. Það er tími til kominn að löggjafinn setji skýrari ramma um landakaup og ræði jafnframt hvort það sé eðlilegt að vatnsréttindi fylgi landsréttindum. Hér eru erlendir fjárfestar að fjárfesta fyrir á fimmta milljarð í vatnsverksmiðjum. Þeir eru að fjárfesta í vatnsréttindum og vatnsauðlindinni. Ég er ekki viss um að það þjóni hagsmunum Íslands til lengri tíma.

Við höfum ekki enn sett regluverk um kaup á landi og endurskoðað þar með þá löggjöf sem sett var fyrir 16 árum. Þá voru allar gáttir opnaðar, sem var ekki til bóta. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign.

Herra forseti. Það frumvarp sem við ræðum nú tekur ekki á öllum þeim þáttum í jarðamálum, sem gera þarf breytingar á. En það er tvímælalaust skref í rétta átt, eins og ég hef þegar farið yfir.

Hv. þingmaður Líneik Anna Sævarsdóttir lagði fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðaætlun í jarðamálum á liðnu haustþingi, ásamt þingflokki Framsóknar. Sú aðgerðaáætlun er yfirgripsmikil en hefur því miður ekki hlotið afgreiðslu hér á Alþingi á þessum þingvetri sem senn verður um garð genginn. Í umræddri þingsályktunartillögu hv. þingmanns er ríkisstjórn falið að gera aðgerðaáætlun sem hafi það að markmiði að tryggja eignarhald landsmanna á jörðum á Íslandi, ásamt því að skapa frekari tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli og fjölbreyttrar sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu í landinu. Meðal verkefna sem aðgerðaáætlunin tæki til væri að lögfestar yrðu reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi og um takmarkanir á fjölda jarðeigna í eigu sama aðila.

Greinargerð málsins er mjög vönduð og upplýsandi og, með leyfi forseta, langar mig til að lesa stuttan kafla úr henni, en þar segir m.a. um eignarhald ríkisins á jörðum:

„Skoða þarf forsendur eignarhalds ríkisins á jörðum og skýra markmið með ríkiseign, svo sem hvort æskilegt sé að ríkið eigi landbúnaðarland, land sem hlunnindi og vatnsréttindi fylgja eða fyrst og fremst land sem nýtur verndar fyrir einhverri eða allri nýtingu. Þá þarf að endurskoða forsendur fyrir sölu ríkisjarða, þar með talið til núverandi ábúenda í ljósi breytinga á landnýtingu og búskaparháttum.“

Svo segir hér um ábyrgð og skyldur sem fylgja eignarhaldi á landi:

„Yfirfara þarf ábyrgð og skyldur sem fylgja eignarhaldi á landi og endurskoða og fylgja eftir lögum um fyrirsvar jarða. Mikilvægt er að stjórnvöld og nágrannar geti á öllum tímum náð í eiganda lands eða fyrirsvarsmann eiganda vegna samfélagslegra verkefna svo sem innviðauppbyggingar eða skipulagsvinnu. Fyrirsvarsmenn eiga að hafa umboð til að koma fram fyrir hönd annarra eigenda jarða við úrlausn mála sem lúta að réttindum og skyldum eigenda, taka ákvarðanir um daglegan rekstur og hagsmunagæslu og minni háttar viðhald og bráðnauðsynlegar og brýnar ráðstafanir sem ekki þola bið. Í því ljósi væri rétt að skoða hvort ekki væri skylt að fyrirsvarsmaður væri búsettur í því sveitarfélagi þar sem jörðin er.“

Þá um skyldu til að stofna félög um jarðir þegar eigendur eru fleiri en þrír:

„Þá telja flutningsmenn rétt að skoða hvort setja eigi í lög skyldu um að stofna félög um jarðir þegar eigendur eru fleiri en þrír, en slíkt ákvæði var fellt brott úr frumvarpi því sem varð að jarðalögum nr. 81/2004. Algengt er að eignaraðild að jörðum sé mjög dreifð og því erfitt að ná til þeirra sem eiga þær. Á það sérstaklega við þegar jarðir eru ekki lengur í ábúð. Það gæti orðið til einföldunar og hagræðis fyrir eigendur jarða sem og þá sem þurfa að eiga í lögskiptum við þá, svo sem opinbera aðila, sérstaklega varðandi brýnar ráðstafanir sem ekki þola bið.“

Um hlunnindi og tekjur segja flutningsmenn:

„Hlunnindi eru grundvöllur búsetu á mörgum jörðum í landinu og hafa verið það um aldir. Hlunnindi eru enn mikilvæg stoð undir byggð í dreifbýli og ein stoðanna í landbúnaði. Það er mikilvægt að tekjur af landi skili sér til þeirra sem velja að búa í dreifbýli og til dreifbýlissamfélaganna. Tryggja þarf með lögum að hlunnindi skili tekjum til samfélagsins í kring og því mikilvægt að hlunnindi og tekjur af þeim verði ekki aðskilin frá ábúð á jörðum.“

Herra forseti. Í nefndaráliti meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar kemur fram að meiri hlutinn leggur til, með hliðsjón af minnisblaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, að 7. gr. falli brott og vísar í þeim efnum til umfjöllunar um 15. gr. frumvarpsins. 7. gr. fjallar um lausn úr landbúnaðarnotum. Um þetta vil ég segja að í aðalskipulagi sveitarfélaga er sett stefna um hvar og hvernig þörfum landbúnaðarstarfsemi verði mætt, hvernig landnotkun skuli háttað á einstaka reitum innan landbúnaðarsvæða. Sveitarfélögum ber einnig að setja stefnu um hvaða atvinnustarfsemi önnur en landbúnaður er heimil á bújörðum. Í 5. gr. gildandi jarðalaga, nr. 81/2004, segir:

„Land sem skipulagt er sem landbúnaðarsvæði eða land sem nýtanlegt er eða nýtt til landbúnaðar, þ.m.t. afréttir, og hvort heldur er þjóðlenda eða eignarland, má ekki taka til annarra nota, nema heimild sé til þess í lögum, sbr. þó 6. gr.“

Í minnisblaði ráðuneytisins er farið vandlega yfir heimildir sveitarfélaga og þá vinnu sem hefur átt sér stað í ráðuneytum síðustu ár sem snýr að því að ná enn betur utan um skipulagsmál sem snúa landnýtingu. Árið 2010 gaf atvinnuvegaráðuneytið út skýrslu um notkun og varðveislu ræktanlegs lands. Í skýrslunni var lagt til að mörkuð yrði stefna á landsvísu um skipulagningu landbúnaðarlands, sem sveitastjórnir gætu stuðst við samhliða aðalskipulagsgerð. Árið 2015 voru gerðar breytingar á jarðalögum sem fela í sér ákveðnar skyldur sveitarfélaga ef þau óska eftir breyttri landnotkun. Í skýringum með frumvarpinu kemur fram að til standi að ráðherra beiti í frekara mæli efnislegu mati um breytta landnotkun, en úr því hefur ekki orðið. Því hefur lengi verið talin þörf á endurskoðun þessara lagaákvæða.

Núverandi landsskipulagsstefna var samþykkt 2016. Eitt af markmiðum hennar er sjálfbær nýting landbúnaðarlands og meðal aðgerða er mælt fyrir um flokkun landbúnaðarlands. Þá er kveðið á um að land sem hentar vel til ræktunar verði almennt ekki ráðstafað til annarra nota með óafturkræfum hætti.

Í tengslum við endurskoðun löggjafar um fasteignamál og jarðir undir forystu forsætisráðuneytisins í tíð núverandi ríkisstjórnar komu umrædd ákvæði jarðalaga fljótlega til umræðu og það á einnig við um gerð þskj. 1223, sem hófst sl. haust. Á þeim tíma kynnti ráðuneytið drög að reglugerð um vernd landbúnaðarlands á samráðsvef Stjórnarráðsins. Alls bárust sjö umsagnir um reglugerðina, m.a. frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bændasamtökunum og Skógræktinni. Í framhaldi voru haldnir nokkrir samráðsfundir. Út úr þeirri vinnu kom sú niðurstaða að efni 15. gr. frumvarpsins yrði viðbót við núgildandi 55. gr. jarðalaga. Í ljósi athugasemda sem komu fram var fallið frá að gefa út reglugerðina. Í umsögn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir um þetta atriði, herra forseti:

„Ráðuneytið útilokar ekki að einhverra leiðbeininga um stjórnarframkvæmd á þessu sviði geti verið þörf sem móta mætti á grunni reglugerðardraga, en telur rétt að horfa fremur til heildrænnar endurskoðunar ákvæða um landnotkun og landskipta. Stefnt er að því að slíkar tillögur komi fram á 151. löggjafarþingi. Verði þar ekki síst horft til þess hvernig flétta megi betur sjónarmið um vernd landbúnaðarlegra hagsmuna inn í ferli skipulagsgerðar.“

Í umsögninni kemur einnig fram að ákveðið hefur verið, óháð þessu, að halda áfram að móta leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands í samráði við opinbera aðila og til stendur að leiðbeiningarnar liggi fyrir í haust. Ráðuneytið hefur því ekki lengur í hyggju að gefa út reglugerð um vernd landbúnaðarlands í átt til þess sem gert er ráð fyrir í 15. gr. frumvarpsins sem og í 7. gr. og b-lið 9. gr., en telur rétt að starfa með öðrum hætti að málefninu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að þessu sinni en ítreka vilja Framsóknarflokksins um að þetta mál verði afgreitt á þessu vorþingi með jákvæðum hætti. Við teljum einnig afar mikilvægt að farið verði í þær aðgerðir í jarðamálum, sem tilgreindar eru sérstaklega í þingsályktunartillögu hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur.



[13:21]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar öflugu ræðu. Ég er að velta fyrir mér, í rauninni ekki bara mikilvægi þess að við komum með almennilega löggjöf utan um jarðirnar okkar, heldur langar mig að spyrja hv. þingmann um þá heimild sem verið er að koma á fót þarna, að heimila aðilum utan EES jafnvel að kaupa upp jarðir. Þá dettur manni náttúrlega í hug sá moldríki milljarðamæringur, Ratcliffe. Ég veit ekki hvað hann á orðið mörg prósent af Íslandi, kannski veit hv. þingmaður það. Munu Bretar þurfa að sækja um undanþágu í kjölfarið á Brexit til að kaupa jarðir hér á landi eða er það bara áfram inni samkvæmt undanþágunni í EES?



[13:23]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður getum verið sammála um að þörf á bættri umgjörð um jarðamál á Íslandi er mikil. Það kemur manni á óvart þegar maður setur sig aðeins inn í þessi mál hvað við höfum í raun verið kærulaus varðandi þennan málaflokk miðað við hve mikið er undir. Auðlindir okkar eru undir og afkoma okkar til framtíðar einnig, þannig að það er mjög mikilvægt að við bætum lagaumgjörðina um málaflokkinn. Þetta frumvarp er skref í þá átt að ná betur utan um taumlausa jarðasöfnun. Hv. þm. Inga Sæland nefndi auðmanninn Ratcliffe, sem verið hefur mikið í fréttum, en hann er ekki sá eini sem hefur verið að safna jörðum hér. Sú samfélagslega umræða sem átt hefur sér stað um jarðamál á Íslandi um langa tíð hefur speglað það svolítið að fólk hefur almennt áhyggjur af þessu. Hluti af þessu máli felur einmitt í sér að sett verði takmörk á það hversu mikið land einstaklingar geta átt, hversu marga hektara lands, og einnig er tekið tillit til auðlinda. Svo er líka mál í hv. atvinnuveganefnd varðandi veiðiréttindi, vatnsréttindi og annað sem við þurfum að huga að, hvað þar er undir.

Varðandi Brexit og breska ríkisborgara er það náttúrlega í skoðun vegna þess að útganga Breta er nýorðin að veruleika. Það er nokkuð sem haldið verður áfram að vinna með varðandi stöðu þeirra gagnvart EES almennt, ekki bara þessu máli.



[13:25]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég ætlaði nú ekki að koma upp en maður kveikir á perunni þegar maður veltir því fyrir sér að þessi ágæti breski auðmaður kemur hingað inn vegna EES-samningsins okkar og við vorum ekki búin að girða fyrir eitt eða neitt. Eins og ég skil hv. þingmann þá er verið að reyna, ég veit það ekki, að setja ákveðið þak á það hvað viðkomandi auðmaður eða hver sem er má eiga mikið af landi. Það er mikilvægt og ég vil sannarlega taka undir það með hv. þingmanni, ég skil ekki alveg af hverju við komum ekki með löggjöf sem gerir það að verkum að Íslendingar eigi allar þær auðlindir sem á þessum jörðum eru þannig að við þurfum ekki sí og æ að horfa upp á það að fólk sé hreinlega að safna að sér jörðum, hvort sem það eru jarðir með laxveiðiréttindi eða jarðir sem hafa hugsanlega vatnsréttindi. Við höfum í rauninni flotið sofandi að feigðarósi hvað varðar það að halda verndarhendi yfir eigin auðlindum. Þannig að þetta frumvarp er sannarlega skref í rétta átt. En mér finnst vanta þó nokkuð mikið inn í það.

Ég átta mig heldur ekki á því hvort t.d. ágætur breskur auðmaður getur haldið áfram að safna jörðum þrátt fyrir að Bretar hafi gengið úr Evrópusambandinu. Ég veit eiginlega ekki hver tilgangurinn er með þeirri heimild sem hæstv. forsætisráðherra er að sækjast eftir núna, að geta jafnvel rýmkað frekar sölu jarða til aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég skil það vel með einstaklinga sem eru giftir hér heima og annað slíkt og ætla jafnvel að eiga heima hér, auðvitað eiga þeir að hafa fullan rétt á því eins og hver annar að koma sér upp jörð, hvað svo sem um það má segja. En ég er enn þá mikið að spá í hvort það séu engin takmörk fyrir því hvað t.d. breskir auðmenn geta keypt mikið af Íslandi nú eftir að þeir eru gengnir úr Evrópusambandinu.



[13:27]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál. Það er mikið undir varðandi þennan málaflokk. Framtíðin er hreinlega undir. Þingmaðurinn var m.a. að velta fyrir hvort það væru takmarkanir á jarðasöfnun breskra ríkisborgara eða einungis þeirra sem væru innan Evrópusambandsins eða innan EES eða hvernig sem það er. En við erum að tala um að það verði takmarkanir á jarðasöfnun allra. Þetta frumvarp felur það í sér að skilyrði eru sett um hversu mikið land má vera á einni hendi. Það er skýrt. Eins og ég reyndi að rekja í ræðu minni áðan, ég veit ekki hvort það hefur skilað sér almennilega, þá eru einnig aðrir hlutir í þessu frumvarpi sem eru mjög mikilvægir og þarf að gera, t.d. landeignaskráin. Við Framsóknarmenn höfum lagt mjög mikla áherslu á að jarðir séu rétt skráðar. Það er náttúrlega grunnurinn að öllu utanumhaldi um jarðamálin að við getum gengið að því vísu að jarðir séu rétt skráðar. Það þarf t.d. að uppfæra fasteignamat í dreifbýli. Það er allur gangur á því. Fasteignamatið á sumum eignum er kannski 30 ára gamalt eða svo, það er ekkert að marka það. Þetta þarf að vera í lagi hjá okkur, allar þessar skráningar, en þær eru ekki í lagi. Þegar viðskipti eru höfð með jarðir þarf einnig að koma fram á afsalinu hvert kaupverðið er. Það þarf allt að vera uppi á borðinu þannig að menn geti ekki verið að leika sér eitthvað með þessa hluti. Eins og ég segi: Þarna erum við með allt undir. Það er Ísland sem er undir, landið okkar, þannig að við þurfum að gæta vel að okkur og vanda þetta betur, byrja á þessari skráningu strax og ná betur utan um þennan málaflokk með sterkri löggjöf. Við erum langt á eftir okkar nágrönnum hvað þetta varðar, því miður.



[13:29]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða þetta gríðarlega mikilvæga jarðamál, sem við köllum oft svo í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég verð að segja að ég hef ýmsar spurningar um það. Sérstaklega finnst mér þurfa að vinna betur það sem snýr að landbúnaði og hvernig bændur munu fara út úr þessu. Þó virðist líka vera nokkuð margt gott, t.d. breytingar á upplýsingaskyldu um eignarhald og ákvæði um landeignaskrá, það virðist vera gott og er sérstaklega nefnt í nefndaráliti meiri hlutans. En mér finnst liggja of mikið á og mér finnst þetta of stórt og mikilvægt mál sem má ekki flýta um of.

Ég vil segja þetta þrátt fyrir að augljóst sé að farið hefur verið í, hvað á maður að segja, djúpa vinnu í málinu. Þrátt fyrir það verð ég að taka fram að aðeins fimm fundir allsherjar- og menntamálanefndar hafa fjallað um málið, ásamt öðrum málum sem við erum með. Við fengum málið inn til okkar 28. apríl og síðan var nefndarálit tilbúið 23. júní. Umsagnir bárust, t.d. frá Bændasamtökum Íslands sem gagnrýna vald ráðherra í málaflokknum. Það þarf að skoða betur.

Bændasamtökin segja, með leyfi forseta:

„Að mati samtakanna er nauðsynlegt að fram fari sjálfstæð rannsókn á því hvaða áhrif takmarkandi reglur sem þessar geta haft á virði og veðhæfi jarða sem og afleiðingar fyrir þá sem eiga þær með tilliti til skuldbindinga þeirra.“

Mér sýnist í fljótu bragði að Samband íslenskra sveitarfélaga taki nokkuð undir þetta ákall um að mat á áhrifum liggi fyrir. Sambandið bendir einnig á fjölda neikvæðra umsagna og kallar eftir því að málið sé unnið í víðtækari sátt.

Við höfum heyrt það hér að boðuð sé frekari vinna í málaflokknum og það kemur eins fram í minnisblaði frá forsætisráðuneytinu. Ég vil segja að endingu að það hlýtur að undirstrika mikilvægi þess að flýta sér hægt.

Ég læt þetta duga að sinni.



[13:33]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er stórt og mikið mál. Þetta er algjört grundvallarmál sem við ræðum hér. Þetta snýst um pólitík sem varðar eignaryfirráð yfir jörðum og þá samhliða þeim auðlindum sem þeim fylgja. Það er ekki þannig að ekki hafi áður verið fjallað um þessi mál. Það var m.a. gert á sínum tíma í skýrslu nefndar, að mig minnir frá árinu 2012, undir forystu Katrínar Olgu Jóhannesdóttur sem var skipuð af hálfu innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins í þeirri ríkisstjórn. Síðan hafa verið skipaðar nefndir sem hafa fjallað um nákvæmlega þetta, eignasamþjöppun, hvaða áhrif hún hefur á nýtingu jarðanna, almannahagsmuni og fleira. En það hefur í rauninni lítið verið gert nákvæmlega með þær niðurstöður.

Við sjáum það alveg þegar við hlustum á umræður stjórnarþingmanna, m.a. hér, að þó að menn vilji ekki viðurkenna það er auðvitað undirliggjandi óttinn við annars vegar útlendinga, því að hvort sem mönnum líkar það betur eða verr hafa útlendingar verið nefndir til sögunnar, og hins vegar auðmenn. En hvergi er verið að skilgreina nákvæmlega þessa markalínu, hvaða auðmenn nákvæmlega er átt við eða hvers konar þáttum menn vilja leita að til að leysa þetta. Grundvallaratriðin og markmiðin með málinu eru mjög göfug. Það er ekkert hægt að efast um það. En umfjöllunin er ekki nógu mikil. Það er verið að keyra þetta mál í gegn, þetta grundvallarmál sem snertir almannahagsmuni.

Ég er þeirrar skoðunar að gjalda eigi varhuga við öllum reglum sem takmarka meginregluna um frjáls viðskipti eða þjóna ekki almannahagsmunum vegna atvika eða aðstæðna. Við verðum að stíga varlega til jarðar þegar stjórnvöld ætla, eins og núna, að setja ákveðnar takmarkanir á eignarrétt og um leið ráðstöfunarrétt manna yfir jörðum sínum og eignum. Það er ekki þar með sagt að samhliða þessu séu ekki hættur. Samþjöppun eignarhalds fylgja ákveðnar hættur og þær geta verið mjög miklar á sviði landakaupa eins og á öðrum sviðum. Við vitum hvað samþjöppun þýðir. Samþjöppun þýðir að dregið getur úr samkeppni, hún getur hamlað frumkvöðlakrafti og nýsköpunar- og sprotastarfi. Við sjáum það líka á öðrum sviðum. Að mínu mati er þess virði að við getum sett almennar reglur sem verja þá almannahagsmuni sem tengjast samþjöppuninni, sem tengjast því að reyna að verja þjóðina gagnvart neikvæðum áhrifum samþjöppunar á landi. Þá segi ég: Almennar reglur sem þjóna almannahagsmunum. Þess vegna er skynsamlegt að skoða stærðartakmarkanir á því sem einstaklingar og lögaðilar geta safnað. Því að mikil samþjöppun og yfirráð yfir jörðum geta einmitt farið gegn almannahagsmunum eins og ég hef sagt áður.

Hvert getum við litið? Við getum t.d. litið frá landnýtingunni yfir í nýtingu sjávarauðlindarinnar. Ég dreg ekki dul á það og ég hef margítrekað hér að við þurfum að skerpa á gegnsæi í eignarhaldi í sjávarútvegi. Við þurfum að skerpa enn frekar á því hversu mikið eignarhaldið getur verið hjá hverjum og einum einstaklingi og lögaðila í sjávarútvegi. Það sama gildir um jarðirnar. Mér finnst ekki óeðlilegt að taka mark á þessu og hafa hliðsjón af því þegar við skoðum hvað einstakir aðilar geta haft umráð yfir mörgum jörðum, eins og er í raun að einhverju leyti verið að reyna að ná í gegn hér. En að mínu mati vega þær reglur sem verið er að setja í frumvarpinu að almannahagsmunum. Þrátt fyrir að við getum verið sammála um þá almennu reglu að við viljum koma í veg fyrir samþjöppun eignarhalds á jörðum eru aðrar reglur sem fylgja þessu frumvarpi sem að mínu mati ganga í berhögg við þennan megintilgang.

Í fyrsta lagi viljum við í Viðreisn almennar reglur um eignarhald á jörðum og við viljum líka að reglurnar séu þannig að þær mismuni ekki eftir þjóðerni. Hér hafa menn sagt að ég hafi verið að vega að mönnum í stjórnarliðinu, að þeir væru að segja að þessu væri beint að útlendingum. Við vitum alveg hver grunnurinn er, eins og ég sagði áðan áttum við okkur á hver hvatinn er bara við að hlusta á ræðurnar. Hvatinn er sá að of margir útlendingar séu að eignast jarðirnar í staðinn fyrir að hann sé sá að nálgast þetta á almennan hátt. Almenni hátturinn er sá að við getum frekar sett takmörk á eignarhald landareigna og við höfum reynslu af því í sjávarútvegi. En við þurfum þá um leið að setja almennar reglur um það hvernig við takmörkum eignarréttinn og yfirráðaréttinn. Við megum ekki gleyma því að hvort sem útlendingar eða Íslendingar safna að sér jörðum er skipulagsvaldið eftir sem áður hjá Alþingi, umhverfisreglurnar eru settar af Alþingi og ýmsar reglur, eins og varðandi rétt almennings til umferðar um jarðeignirnar, eru enn fremur í höndum þingsins.

Ég vil benda á að fulltrúi okkar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, hefur dregið þetta afar vel saman, bæði í greinum og í athugasemdum við málið. Það er alveg skýrt að við í Viðreisn viljum að settar verði almennar reglur, að málið verði unnið betur og við erum reiðubúin til að skuldbinda okkur til að vinna málið betur, til að taka af mestu agnúana því að málið er svo umfangsmikið, það varðar svo mikla almannahagsmuni. Eins og við setjum það fram núna er frekari áhætta fólgin í því að samþykkja málið og ég vara eindregið við því. Í andsvari áðan varaði ég m.a. við ráðherraræðinu, þessari biðlistamenningu sem að mestu var búið að útrýma á tíunda áratug síðustu aldar og í byrjun þessarar. Þá var reynt að koma út ráðherraræðinu og biðlistamenningunni sem varðar stjórnvaldsákvarðanir. Og mér finnst erfitt að sjá það endurvakið hér.

Þess vegna vil ég draga fram að langflestar umsagnir við málið snúast ekki endilega um að ekki eigi að setja reglur heldur miklu frekar um að málið sé vanbúið. Málið hefur ekki fengið nægilega skoðun eins og það er sett fram hér. Það er merkilegt hversu lítið tillit hefur verið tekið til niðurstaðna annarra nefnda sem hafa verið settar til að fjalla um málið. Það ber keim af einhverju stressi og jafnvel einhverri innansveitarkróniku innan Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þegar kemur að þessu máli.

Þær eru ýmsar athugasemdirnar sem hægt er að draga fram en ég vil fyrst og fremst segja að málið þarf að vinna mun betur. Það þarf að draga fram þær almennu reglur sem ég held að við getum öll verið sammála um. Það er hægt að sameinast um hámark jarða sem hver og einn einstaklingur og lögaðili getur átt. Það má náttúrlega ekki ganga gegn EES-samningnum og ekki mega skilyrði tengjast ríkisborgararéttinum á einhvern hátt. Það má alveg efast um að nægilega skýrt sé að kveðið hér. Mér finnst eins og verið sé að fara fjallabaksleið til að reyna að útiloka að útlendingar eða tiltekinn hópur einstaklinga hér innan lands eignist jarðir.

Meginmálið er auðvitað hvernig við höldum áfram að nýta jarðirnar. Þegar við lesum frumvarpið er verið að tala um nýtingu jarða, landrækt og jarðrækt sem þarf að efla, styrkja og bæta og við tökum undir það. En það er eins og frumvarpshöfundar hafi gleymt mikilvægri atvinnugrein sem er núna í ákveðinni deyfð, þ.e. ferðaþjónustunni. Það er lykilatriði fyrir bændur víða um landið að hafa hana og reyna að byggja hana upp. Í því sambandi vil ég benda á umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar en ekki síður það sem Bændasamtökin hafa sett fram. Þau leggja m.a. til að ákvörðunarvald og rannsókn sé á hendi sveitarfélaga en ekki ráðherra. Mér finnst það mjög skiljanleg athugasemd. Þau segja jafnframt að ráðherra sé falið of víðtækt vald til að ákveða hvort stór hluti viðskipta með jarðir fái að eiga sér stað. Ég held að þetta sé eitthvað sem við hljótum að taka tillit til og fara betur yfir. Þar eru líka settar fram efasemdir um hvort ákvæði í frumvarpinu geti stangast á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, 72. gr. eins og hún hefur verið túlkuð samkvæmt Mannréttindadómstól Evrópu. Athugasemdirnar við frumvarpið eru því margar og þær vega þungt.

Að mínu mati leikur mikill vafi á því hvort eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar séu brotin hér eða ekki. Þegar málið er þannig útbúið finnst mér þess virði að við förum betur yfir það og ekki síður með tilliti til þess hversu mikið vald ráðherra fær hverju sinni. Menn reyna að gera lítið úr því og segja að þetta séu kannski ekki nema nokkur mál. Þetta geta verið allt upp í 50 mál á ári. Það getur komið til kasta ráðherra 40–50 sinnum á ári, eins og kemur fram í sumum umsögnum. Þetta er ekki bara einhver málamyndagjörningur sem ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn, eru að beita sér fyrir. Þetta er ekki einhver málamyndagjörningur heldur stórt og mikið mál sem snýr að því að verið er að auka ráðherraræði og hugsanlega er verið að fara gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Ég biðla því til stjórnarmeirihlutans: Takið ykkur tíma, ekki keyra þetta í gegn. Þetta er ekki eitthvert Covid-mál. Það væri sjálfsagt að reyna að rýmka til ef þetta snerti hagsmuni út af kórónuveirunni. En þetta mál er ekki þess eðlis. Við vitum alveg að það er ákveðinn þrýstingur og það er ákveðin ólga, sérstaklega innan eins stjórnarflokksins, hjá Vinstri grænum. Þau segja að það verði að keyra þetta í gegn því að það sé betra að hafa þetta mál út úr myndinni áður en næsta þing hefst. Fyrir vikið sitjum við hugsanlega uppi með mjög löskuð heildarlög um eignaskipti á jörðum. Það er eiginlega algerlega óboðlegt núna þegar við höfum bæði tækin og tólin. Það er ekkert sem liggur á. Enginn úr stjórnarmeirihlutanum getur bent okkur á hvað það er, hvaða tímasetningar. Hvað er það nákvæmlega sem liggur á annað en að það er þrýstingur og ólga innan eins stjórnarflokksins? Á meðan sitja hinir tveir stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, prúðir hjá og ætla að láta það yfir sig ganga að auka ráðherraræði og fara um leið hugsanlega gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Mér finnst það miður og ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum mínum með þessa keyrslu og þann mikla þrýsting sem verið er að beita Alþingi hér á lokasprettinum.



[13:47]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mjög mikilsvert og mikilvægt mál sem varðar hagsmuni alls samfélagsins og varðar líka hagsmuni þeirra sem munu fylgja okkur, afkomenda okkar sem munu búa hér á landi. Við vitum að land á eftir að verða æ dýrmætara eftir því sem fram líða stundir í kjölfar þess að mannkynið mun æ meira súpa seyðið af loftslagsáhrifum með þeim afleiðingum að fólk mun sækja æ meira á norðurhvel jarðar og þar á meðal á svæði eins og Ísland. Það að eiga landflæmi nú til dags, sem kannski kann að virðast verðlítið, getur skilað miklum ábata eftir langan tíma og hið sama gildir að sjálfsögðu um vatnið og aðrar auðlindir.

Hér er líka verið að bregðast við raunverulegum vanda eða við getum kannski frekar sagt raunverulegri ógn við hagsmuni samfélagsins sem er sú að þá færist land og auðlindir sem því fylgja á of fárra hendur með þeim hugsanlegu afleiðingum að aðgangur verði takmarkaður að þeim gæðum sem landinu fylgja og þeim gæðum sem við höfum vanist öldum saman að líta á sem sjálfsagðan almenning. Einnig er verið að bregðast við því hér að á seinni árum hafa komið fram aðilar sem hafa safnað landi markvisst, keypt jarðir. Þetta hefur svo sem verið þjóðaríþrótt íslenskra höfðingja um aldir, þ.e. jarðabrask, að braska með jarðir, en á seinni árum höfum við séð koma upp félög sem kaupa markvisst upp jarðir og land. Við vitum að samfélagslega getur slíkt verið ákveðin ógn ef eignarhald á landi og öðrum gæðum þjappast of mikið á fárra hendur. Ég held því að við þurfum að huga að þessum málum.

Við þurfum að leggjast í vinnu við lagasetningu um þessi mál. Ég er alveg sammála því sem hefur komið fram í máli annarra hv. þingmanna um það og er ekki seinna vænna að hefja þá vinnu því að hér hefur alveg áreiðanlega ríkt of mikið andvaraleysi um þessi mál. Engu að síður finnst mér umsagnir um málið og vinnsla málsins innan hv. allsherjar- og menntamálanefndar benda til þess að við séum ekki alveg tilbúin að ljúka þessu máli. Umsagnir hafa sumar hverjar verið afar neikvæðar. Við höfum fengið umsagnir frá þeim sem telja ekki nógu langt gengið í að takmarka jarðasöfnun fárra einstaklinga og svo höfum við fengið umsagnir frá öðrum sem telja að hér sé vegið að eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og að allt of langt sé gengið í því að takmarka kaup á landi. Þarna er, eins og ævinlega, sjálfsagt einhver millivegur og ég er ekki viss um að við séum búin að finna rétta milliveginn og ég er ekki viss um nema að umræðan þurfi að eiga sér stað, þurfi að þroskast eins og sagt er, og þurfi að fara fram á kannski einhverjum öðrum forsendum en þeim sem hún hefur dálítið mikið farið fram á, sem eru þær forsendur að ævinlega er talað um kaup tiltekins bresks auðmanns og þá starfsemi sem þeim kaupum fylgir og talað er um að reisa þurfi rönd við slíkum umsvifum, en síður er kannski talað um þetta á almennari hátt, þannig að við erum ef til vill að bregðast við sértækum vanda á aðeins of almennan hátt, sem nær fullmikið til of margra.

Þetta varðar markaðslögmálin og það hvernig við sjáum fyrir okkur að markaðslögmálin starfi í samfélagi okkar. Ég held að mjög fá okkar séu á þeim stað að vilja alveg afnema markaðslögmálin og að markaðurinn skuli ekki fá að gilda neins staðar, heldur skiptumst við í flokka dálítið eftir því hvernig við lítum á að markaðurinn skuli nýttur. Auðvitað á markaðurinn aldrei, ekki í þessu frekar en öðru, að vera óheftur, óbeislaður og það er ekki rétt leið að gefa öll viðskipti frjáls án nokkurs eftirlits eða nokkurra takmarkana. En ég tel svona almennt talað engu að síður að það hafi staðið uppbyggingu atvinnulífs til sveita og í íslensku dreifbýli fyrir þrifum að fjármagn hefur vantað. Það fjármagn hefur vantað sem fylgir iðulega því þegar markaðslögmálin fá dálítið lausari tauminn. Ég held að það sé varasamt að grípa kannski of mikið inn í það þegar við sjáum viðleitni í þá átt að peningar eru farnir að sjást meira í dreifðum byggðum með þeirri uppbyggingu sem þeim fylgir. Eins og þetta mál horfir við mér sýnist mér að hér sé stefnt að of mikilli miðstýringu og ég held að miðstýring hafi verið ákveðin meinsemd í uppbyggingu atvinnulífs til sveita hér á landi og í dreifðum byggðum landsins og mér finnst eima eftir af þeim hugsunarhætti að það þurfi forsjá aðila sem þekkja betur til. Það eimir eftir af þeim hugsunarhætti í 8. gr. frumvarpsins sem felur ráðherra mikið vald til að skera úr um slík viðskipti.

Mér finnst kannski að aðalatriðið í þessu eigi að snúast um, og ég hygg svo sem að við séum öll sammála um það, nýtingu landsins og að landið sé nýtt á sjálfbæran, uppbyggilegan og fallegan hátt og það sé ræktað og nýtt. Og svo þurfum við líka að gæta þess að ekki verði of mikil samþjöppun eigna. Málið snýst í grunninn um að gæta þess að auðlindir okkar safnist ekki á of fárra hendur, þ.e. vatnsréttindi, veiðiréttindi og þar fram eftir götunum. Ég held að til þess að takast á við þennan vanda væri kannski hugsanlega hægt að dusta rykið af nýju stjórnarskránni. Í gömlu stjórnarskránni, í ríkjandi stjórnarskrá, þeirri sem við fengum úr föðurhendi, eins og segir í kvæðinu, er ekkert að finna nema eignarréttarákvæðin sem sumir hafa talað um. En í frumvarpi að nýju stjórnarskránni eru ákvæði sem gætu dugað okkur í þessu. Þar segir til að mynda, með leyfi forseta:

„Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.“

Í frumvarpi að nýju stjórnarskránni sem við eigum nú eftir að samþykkja en gerum vonandi fyrr en síðar stendur líka, með leyfi forseta:

„Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar.

Óheimilt er að framselja beint eða óbeint með varanlegum hætti til annarra aðila réttindi yfir jarðhita, vatni með virkjanlegu afli og grunnvatni, sem og námaréttindi, í eigu ríkisins eða félaga sem alfarið eru í eigu þess. Sama gildir um réttindi yfir vatni, jarðhita og jarðefnum á ríkisjörðum umfram lágmarksréttindi vegna heimilis- og búsþarfa.“

Þarna virðist mér að sé að finna kannski ramma sem hægt væri að nota til að skapa lagaumhverfi sem gæti verið til þess fallið að standa vörð um það að auðlindir þjóðarinnar, sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, falli ekki í fárra hendur.

Ég tel að um þetta hafi orðið allt of stutt og lítil umræða enn sem komið er og að hún hafi farið fram á of þröngum forsendum. Ég hef áhyggjur af þeim neikvæðu umsögnum sem málið hefur fengið og mér virðist að þarna gæti verið hvatt til of mikillar miðstýringar við að greiða úr þessum málum.

Að þessu öllu sögðu er rétt að það komi fram að ég tel málið að mörgu leyti jákvætt og ég tel að mikilvægt sé að taka á þessu og að við bregðumst við og reynum að skapa lagaumhverfi í kringum þessi viðskipti.



[14:02]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ræðuna. Mig langar að draga fram að ég er eindregið sammála hv. þingmanni varðandi það að í frumvarpinu felist of mikil miðstýring. Það er verið að stefna að allt of mikilli miðstýringu um leið og ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði um að við verðum að spyrna við fótum varðandi samþjöppun á auðlindum, hvort sem það er í sjávarútvegi eða á öðrum sviðum sem tengjast auðlindum og auðlindanýtingu. Þá verða allar slíkar takmarkanir að byggjast á því að þær tengist almannahagsmunum. Þar skiptir náttúrlega mestu máli að koma með skýrt og fortakslaust ákvæði um auðlindir í stjórnarskrá. Að því er nú unnið en því miður er það ákvæði, að mínu mati, sem forsætisráðherra og ríkisstjórnarflokkarnir auk Miðflokksins eru að vinna að ekki þannig úr garði gert að það geti stuðlað að því að vernda almannahagsmuni. En gott og vel.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Fyrir árið 2008, og fyrir hrun, voru tiltekin félög í eigu Íslendinga sem söfnuðu að sér jörðum og þá var ekkert rætt um að takmarka eða setja almennar reglur um það. Síðan komu útlendingar. Það er auðvitað undirliggjandi, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Það sem mér finnst skipta mestu máli og ég reyndi að draga fram áðan er að við þurfum að setja almennar reglur í þágu almannahagsmuna varðandi aðilaskipti á jörðum. Ég vil að þær séu sem frjálsastar en þær er hægt að takmarka á grunni í þágu almannahagsmuna. Telur hv. þingmaður, og er hann sammála mér í því, að hagsmunir almennings felist fyrst og fremst í því hvernig landið er nýtt og að við gætum skilgreint enn betur aðgang almennings að sjálfu landinu? Telur hann þeim hagsmunum vel borgið í þessu frumvarpi eða telur hann í ljósi betri skoðunar á málinu að þar séu tækifæri fyrir okkur til að gera betur?



[14:04]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa ágætu spurningu. Ég tek undir það sem hún segir og hef svo sem kannski ekki miklu við það að bæta. Við erum vön því, held ég, alla vega allir sem eru á mínum aldri, að geta farið nánast hvert á land sem er, stoppa, ganga upp í hlíð og fara í berjamó. Við erum vön því að geta lagst út í skóg og í kjarrið og teygað að okkur ilminn og upplifað þetta sem landið okkar. Við erum vön því að þetta sé landið okkar og að við höfum frjálsa för um það. Þetta er mjög mikilvæg tilfinning sem við þurfum að standa vörð um og þetta eru mikilsverð réttindi sem við þurfum að standa vörð um, að við höfum öll frjálsa för um landið. Auðvitað er þessi aðgangur mikilsverðir hagsmunir almennings.

Hv. þingmaður vék aðeins að því hvort það örli á einhvers konar fordómum í garð útlendinga í þessari lagasetningu. Ég skal ekki segja til um það og ég er alveg sannfærður um að hið mikla jarðabrask sem átti sér stað fyrir hrun hefði haft gott af einhvers konar löggjöf og eftirliti. Það eru ekki öll kurl komin til grafar með það hvernig þeim viðskiptum öllum var háttað og þau þola alveg áreiðanlega ekki öll alveg stífustu kröfur um viðskipti. Ég held því að það megi einu gilda hverrar þjóðar viðkomandi er. Aðalatriðið er að það safnist ekki um of á fárra hendur, auðlindir og land.



[14:07]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Ég held að stóra málið sé einmitt fyrst og fremst hvernig við nýtum jörðina, nýtingin á sjálfu jarðnæðinu er það sem skiptir okkur máli og mér finnst að við eigum eftir að taka nákvæmlega þá umræðu. Ég benti á það í ræðu minni áðan að fókusinn hefur jafnvel ekki verið hafður nægilega mikið á hinum hefðbundna landbúnaði. Það hefði mátt vera betur gert í frumvarpinu. Og ekki síður á hina nýju grein bænda sem er ferðaþjónustan. Það hefði þurft að fara miklu betur yfir það svið til þess að reyna að nýta þennan íslenska raunveruleika sem er núna í dag varðandi landið okkar og svo almannahagsmuni sem felast í almennum reglum um samþjöppun valds og eigna á jörðum, sem við erum öll sammála um. Mér finnst skorta á greiningu á því hvernig við nýtum jarðirnar því að það er í rauninni stóra málið okkar, ekki síst í umhverfisverndarlegu tilliti. Mér finnst vanta umhverfisverndina og umhverfisrökin inn í málið eins og það er lagt upp af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég er ekki í allsherjar- og menntamálanefnd en hv. þingmaður er það og eftir að hafa lesið umsagnir sem eru 80% frekar neikvæðar þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hefði treyst sér til að klára málið, segja við ríkisstjórnina: Við getum klárað málið fyrir jól eða fyrir einhverja tiltekna dagsetningu en á þeim forsendum að fara betur yfir þær athugasemdir sem voru settar fram. Ég hef þá trú að það sé fleira sem sameinar okkur hér í þingsal í þeim málum. Það er ekki verið að leggja sig nægilega fram til að ná samþættum vilja löggjafans. Ég er nokkuð viss um að það væri hægt að gera með örlitlum meiri tíma og örlítið betri og vandaðri vinnu.



[14:09]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er alveg sammála þessu og já, ég held að ég hefði treyst mér til að afgreiða málið, segjum kannski fyrir næstu jól, ég ætla þó ekki að negla niður einhverja dagsetningu með það. En það hefði þurft að nálgast málið úr ótal fleiri áttum. Hv. þingmaður nefnir umhverfisvernd, náttúruvernd, sem á náttúrlega að vera sjálfsögð nálgun í öllum málum og líka út frá hefðbundnum landnytjum, hefðbundnum landbúnaði og ótal hliðum. Málið er það að þetta mál verður til í kringum áhyggjur af því að tiltekinn maður sé að eignast svo mikið land og hann sé útlendingur og má þá einu gilda þó að sá maður hafi í rauninni verið til fyrirmyndar um það hvernig hann ver því landi sem hann hefur keypt og lítið upp á hann að klaga. En hann hefur verið mjög stórtækur í þessum kaupum og það hefur vakið fólk til umhugsunar um hvort þetta sé sniðugt vegna þess að hann muni einn góðan veðurdag falla frá og eigi svo afkomendur og þeir eigi afkomendur og allt í einu sé þetta land í eigu fólks sem hefur engin tengsl við landið og ber engar tilfinningar til þess og veit ekkert hvað það á að gera við það. Kannski er slíkt í gangi nú þegar en í því tilfelli eru það innlendir erfingjar lands, jafnvel 200 manns sem eiga saman einhverja bújörð einhvers staðar og vita ekkert hvað þeir eiga að gera við hana. Í slíkum tilfellum er gott að hægt sé að virkja markaðsöflin til þess að búa til verðmæti úr slíku landi sem kannski er verðlaust nú þegar.



[14:11]
Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég leyfi mér, þrátt fyrir aðstæður hér í þinginu, að blanda mér örlítið í þessa umræðu, en ég átti þess ekki kost að vera við 1. umr. málsins. Það var lagt fram í upphafi Covid-hremminga og ég átti ekki kost á því að taka þátt í þeirri umræðu. En það eru samt nokkrir þættir sem ég vildi gjarnan hnykkja á. Í öllum aðalatriðum vil ég segja, um það þingmál sem hér er til afgreiðslu, að í því felst að koma skikki á upplýsingagjöf um jarðasölu, landstærðir, skipulag og skráningar sem ég held að sé til mikilla bóta. Í öðru lagi er verið að gera tilraun til þess að stíga inn í það umhverfi sem jarðasala er í í dag. Ég er ekkert endilega algerlega sannfærður um að það sé besta leiðin sem þar er reifuð en látum reyna á hvernig til tekst. Ég held að þær hömlur eða þær reglur sem þar eru settar snerti yfir höfuð ekki almenna jarðasölu í landinu, ég hef ekki áhyggjur af því sérstaklega.

Mín skoðun kjarnast um það að sjálfstæðir eignabændur séu besta búsetuformið í sveitum. Það þarf ekki að draga neitt fleiri sannanir fyrir því en bara að skoða söguna. Þegar bændur á Íslandi fara að verða sjálfseignarbændur almennt, hér upp úr 1900, fer búskapur fyrst að eflast í sveitum. Það er bara kjarninn í allri þeirri nálgun sem ég vil að við höfum í huga hvað varðar jarðaviðskipti á Íslandi. Nú háttar þannig til, það er gráglettni örlaganna, að sá sem hér stendur er afkomandi fátæks leiguliða stóreignamanns sem safnaði jörðum á Snæfellsnesi. Það var reyndar mjög góður landsdrottinn og mjög vel talað um hann í minni fjölskyldu, en það er ekki alltaf sjálfgefið. Það versta sem getur komið út úr inngripum í jarðaviðskipti og því ástandi sem nú getur áfram þróast, eins og margt bendir til, er að við eignumst fleiri og fleiri leiguliðabújarðir á Íslandi. Það er versta staða sem hægt er að komast í. Þess vegna hefði ég viljað nálgast þetta inngrip, eða breytingar á reglum um jarðasölu á Íslandi, miklu meira út frá forsendum þeirra sem ætla að búa í sveitinni og byggja hana. Ég held nefnilega að sú nálgun sem hér er sé ekkert endilega eina nálgunin sem við þurfum að beita. Við þurfum miklu frekar og ekkert síður að skoða skattalegt umhverfi bújarðaviðskipta.

Ég á góðar vonir um það, virðulegur forseti, að eitt lítið þingmál hér, um meðferð söluhagnaðar og meðferð skuldabréfasölu bújarða, geti jafnvel verið meira inngrip og meira öryggisnet fyrir þá sem vilja sitja og halda bújörðum í rekstri áfram en þær breytingar sem hér eru. Það er ýmislegt í viðskiptaumhverfi bújarða, þar sem ævisparnaður bænda og þeirra fjölskyldna liggur, sem taka mætti betur utan um til þess að tryggja áframhaldandi búsetu og búskap. Fyrir þessu hafa menn verið lokaðir í allt of langan tíma.

Ég ætla ekkert að fara nánar út í það tímans vegna en það er annar þáttur til viðbótar sem ég sakna úr þessari breytingu en var að sönnu ekki í frumvarpinu sem upphaflega var lagt fram. Ég hafði talað fyrir því, þegar menn færu í þessi mál, að menn tækju utan um skyldur jarðeigenda. Okkur þykir það sjálfsagt í lögum um fjölbýlishús, og í annarri löggjöf sem við erum að setja, að þeir sem halda á tilteknum verðmætum hafi ákveðnar skyldur. Það vantar samantekt, ég er ekki að segja að það vanti almennt í löggjöf, það er hægt að lesa slíkt í lögum um girðingar, í lögum um hafréttarmál o.s.frv., að tekið sé utan um skyldur jarðeigenda og þar af leiðandi þeirra sem sitja jarðirnar í þeirra umboði.

Virðulegur forseti. Með minn bakgrunn og mína þekkingu á þessu máli er það í sjálfu sér ekki vandamálið hver er að kaupa þessar jarðir og af hvaða þjóðerni þeir eru heldur hvernig þeir fara með þær og hvernig þeir rækja skyldur sínar í samfélögunum. Halda menn við girðingum? Eru menn að halda við framræslu lands sem hefur áhrif á ræktunarskilyrði annarra bújarða? Sinna menn skyldum sínum sem landeigendur til að hreinsa lönd sín á haustin? Það væri mikið framfaraskref eitt og sér að taka utan um skyldur jarðeigenda í löggjöf um jarðamál. Það stæði þá á einum stað að ef þú átt jörð þá hefurðu ákveðið hlutverk og þér ber að rækja það. Það verður náttúrlega meiri háttar mál fyrir þá sem eru kannski að kaupa jarðir í tugatali að halda utan um það að rækja þessar skyldur sínar, en við eigum ekki að gefa afslátt af því. Þó að menn geti stöðu sinnar vegna safnað bújörðum þá getum við ekki endilega horft með blinda auganu á það að þeir ræki ekki skyldur sínar gagnvart þeirri mikilvægu eign. Á því byggist í raun og veru lím samfélagsins allt.

Það er ekki endilega skilaverð á dilkakjöti sem ræður búsetu fólks, hvort það vill halda áfram búskap í sveitum landsins. Þar eru að sjálfsögðu þættir eins og fjarskipti og samgöngur, og líka fámennið og hvernig er að komast af við þá sem eiga jarðir sem kannski eru fallnar úr búskap, hvernig gengur að smala lönd á haustin, viðhalda girðingum og slíkir þættir sem þurfa að vera í lagi. Það eru skyldur jarðeiganda, það er skattalegt umhverfi bújarðaviðskipta sem mér finnst skipta miklu meira máli en nákvæmlega jarðalögin sjálf og takmörkun á eignarhaldi og fjölda jarða sem menn vilja koma sér saman um.

Menn tala í öðru orðinu um að hér eigi að ríkja sem mest frjálsræði og það hefur ríkt eitt mesta frjálsræði í Evrópu í viðskiptum með bújarðir á Íslandi frá árinu 2004. Það er samt þannig að lánastofnanir á Íslandi telja ekki allar bújarðir vera þess verðugar að taka í þeim veð og menn eru að lenda í vandræðum með að byggja upp jarðir sínar og viðhalda þeim. Það er síðan önnur umræða um starfsumhverfi landbúnaðar o.s.frv., en þetta er samt staðreynd málsins.

Þegar ég hitti kollega mína þá vísa ég til þess að ég sé í bændastétt og þá skilja þeir ekki svar mitt þegar ég segist ekki vita hve jörðin er stór sem ég á. Í menningu landanna í kringum okkur vita menn upp á hár, næstum upp á fermetra, hvað jarðirnar eru stórar. Það vantar bara í okkar menningu. Þess vegna hefur það væntanlega verið látið danka, sem hér er verið að taka á, að skrá þessa hluti. En í því endurspeglast líka bara viðhorf til bújarða sem ég er að lýsa. Íslenskir bændur vita ekki alltaf hve stórar jarðirnar eru en það þykir líka mikið alvörumál í þessum löndum að eiga bújörð og hvernig farið er með hana og það snertir eðlilega hjörtu fólks. Þannig er það líka hér á landi, það eru líka Sjálfstæðismenn sem hafa áhyggjur af því hvernig jarðamál og jarðasölur hafa verið að birtast okkur hér á landi undanfarin ár. Ég er bara að draga það fram að þegar maður ræðir við kollega sína um jarðaviðskipti þá furða menn sig almennt á því að við setjum ekki ríkari kröfur þar um. Er ég þá að tala fyrir höftum og miðstýringu? Nei, ég er ekki að gera það. Ég er að tala um að rekstrarumhverfi landbúnaðar, skyldur landeigenda, skyldur jarðeiganda og umhverfi þeirra sé almennt og gagnsætt.

Þess vegna óttast ég ekki þær breytingar sem hér er verið að leggja til í þessu frumvarpi og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leysir hér úti í sínu nefndaráliti. Ég óttast það ekki en ég held að menn ættu samt að hafa augun á því og halda þessu verki áfram því að ég held að við séum komin af stað í mjög mikilvægan leiðangur að fara aftur ofan í þennan mikilvæga málaflokk. Ég vil taka undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað, ég held að það sé miklu meira sem sameinar okkur í þessum efnum en sundrar okkur. Við megum ekki láta einhvern málflutning um að hér sé verið að búa til einhverja miðstýringu eða að á hinn bóginn sé eitthvað mikið frelsi — þetta eru fyrst og fremst praktísk mál sem við þurfum að leysa og ræða okkur til enda. Þetta er ágætt upphaf á þeirri vegferð.



[14:21]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni ágætisræðu. Hv. þingmaður endaði ræðu sína á því efnislega að segja að þetta væri ágætt fyrsta skref í þeirri vegferð sem fram undan er til að ná með fyllri og betri hætti utan um jarðamál í víðum skilningi. Þegar maður les umsagnir sem borist hafa og það hvernig frumvarpið liggur og nefndarálit, skilur það ekki eftir þá tilfinningu að mönnum hafi tekist sérstaklega vel til hvað það varðar að ná utan um málið.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji vel hafa tekist til hvað þetta fyrsta skref varðar og mig langar jafnframt að spyrja hv. þm. Harald Benediktsson hvort hann telji að skynsamlegt hefði verið að gefa málinu örlítið lengri tíma, fram á haustið t.d., vegna þess að ég held að það sé rétt, sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á áðan, að í flestu samhengi er nú fleira sem sameinar okkur en umræðan hér í málinu gefur til kynna.

Þannig að spurningin er: Telur hv. þingmaður að það hefði mögulega verið skynsamlegt að gefa þinginu eilítið rýmri tíma til að vinna málið áfram, bæði með meiri dýpt og hugsanlega með því að samtvinna þetta frumvarp eða þessa vinnu inn í aðra þá þætti sem verið er að skoða í þessu umhverfi akkúrat núna?



[14:23]
Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans andsvar hér. Ég var að rekja nokkra punkta til viðbótar sem ég vildi að horft yrði til og þar af leiðandi segi ég: Þetta er ágætt fyrsta skref. Ég hef upplýsingar um það að sá starfshópur sem þar er nefndur hefur þegar hafið störf um áframhaldandi vinnu við þetta mál.

Virðulegi forseti. Frá lagabreytingunni 2004, ef ég man rétt, þegar jarðalögum er breytt, ég hafði annað hlutverk þá, var í starfi sem formaður Bændasamtaka Íslands, vorum við ósammála meiri hluta þingsins í þeirri leið sem þá var valin. Okkur fannst verið að losa um of mikið af skrúfum. Ég held að það hafi reynst algerlega rétt.

Núna erum við árið 2020 í fyrsta sinn að reyna að verða sammála um hvaða stilliskrúfur við eigum að hafa. Ég ætla ekkert að segja að málið hefði orðið neitt verra ef lengri tími hefði verið gefinn en á þessum tímapunkti treysti ég algerlega þeim meiri hluta sem leggur nefndarálitið fram til að hafa vegið það og metið. Ég ætla fyrir mitt leyti ekki að gefa út það vottorð að það sé málinu til stórkostlegs batnaðar að það bíði enn um sinn, en vil þó undirstrika þá efnisþætti sem ég taldi upp í ræðu minni og önnur þau atriði og nefna þann starfshóp sem þegar hefur hafið störf. Ég bind miklar vonir við að við komumst áfram í að bæta lagaumgjörð jarðaviðskipta á Íslandi.



[14:24]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég veit að hv. þingmaður er vel inni í þessum málum og ég leyfi mér að fullyrða að þetta sé áhugamál þingmannsins, m.a. með vísan í fyrri störf. Því hefur verið kastað fram í umræðunni í dag að um 80% umsagna um málið séu neikvæðar og mig langar að spyrja: Hvað af umsögnum sem bárust frá umsagnaraðilum þykir hv. þingmanni verst að ekki hafi verið tekið tillit til? Eru það sjónarmið Landssambands landeigenda, Bændasamtakanna eða hvaða sjónarmiða, sem komu fram í umsagnarferli, saknar hv. þingmaður mest miðað við hvernig málið liggur núna?



[14:25]
Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka sömuleiðis seinna andsvar hv. þingmanns. Ég ætla ekki að fella neina dóma um það sem ég sakna mest að ekki hafi verið tekið tillit til í umsögnum sem sendar hafa verið. Ég ætla aðeins að segja að það eru gríðarlega mörg sjónarmið uppi. Ég ætla ekki að segja að ég sé endilega sammála öllum sjónarmiðum Landssamtaka landeigenda eða Bændasamtaka Íslands, sem mér heyrðist hv. þingmaður aðeins vera að vísa til að stæðu mér kannski næst, síður en svo vegna þess að við verðum að hafa getu til þess hér á Alþingi að horfa breiðar yfir sviðið en að tína kannski endilega út með þeim hætti.

Ég ætla aðeins að undirstrika þetta: Mér finnst, virðulegur forseti, að við þurfum að nálgast þetta mál vítt ef við erum sammála um að það sé vandamál að jarðir hverfi úr byggð og eignarhaldið færist fjær. Ég ætla líka að draga það hér inn að mér finnst þurfa að taka á því hvert er fyrirsvar þessara eigna, af því það er líka stórt vandamál þegar eigendur eru orðnir margir. Ef við værum sammála um þetta þá held ég að við getum nálgast það líka út frá því sem ég var að fara yfir í minni ræðu, hvernig viðskiptaumhverfi jarða er til áframhaldandi búskapar og búsetu. Slíkir rammar og slík reglusetning eru mjög algeng í löndum í kringum okkur og alveg þess virði að við tökum einhvern part af því upp hjá okkur.



[14:27]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús. Það er kannski það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég renndi yfir frumvarpið sem hér liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna. Ég held að ég geti fullyrt að menn hafi búist við einhverju meira. Ég held að ég geti fullyrt það, herra forseti. Menn bjuggust við því að landasöfnun auðmanna hér á landi yrðu settar einhverjar skorður. Svo er ekki í þessu frumvarpi, ég held að ég geti fullyrt það. Sérstaklega á það ekki við um aðila innan EES-svæðisins. Að vísu eru settar frekari girðingar og skilgreind betur aðkoma og kaup aðila utan EES, þar eru settar töluverðar takmarkanir, en þegar kemur að EES-borgurum, þar á meðal Íslendingum og ætla ég alls ekki að gera greinarmun á því, þá svíður fólki og hefur áhyggjur af þessari jarðasöfnun einstakra aðila, oft svokallaðra auðmanna, þar sem þeir safna heilu dölunum; ég ætla ekki að segja sýslunum en alla vega dölunum. Það getur komið í veg fyrir eðlileg not, t.d. í landbúnaði eða öðru, og það sem verra er er að með þessum kaupum eignast menn auðvitað öll gæði á viðkomandi landi, eins og fallorkuna, heitt vatn, ef það skyldi finnast, veiðirétt, námarétt o.s.frv., eins og mönnum er kunnugt. Í frumvarpinu eru þessu settar afar takmarkaðar skorður. Og ég sakna þess.

Frumvarpið sjálft er ágætt fyrsta skref eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson orðaði það. En menn hafa ekki kjark til að setja þessu frekari skorður en raun ber vitni í frumvarpinu. Menn sýna ekki djörfung gagnvart Evrópusambandinu, jafnvel þótt fyrir liggi, frú forseti, að mörg hinna Norðurlandanna, t.d. Danmörk, setja jarðasöfnun og jarðakaupum allra aðila, og þá alveg án tillits til þjóðernis, skorður hvað varðar búsetu. Gert er að skilyrði að kaupin séu tengd búsetu fari þau upp fyrir einhver stærðarmörk. Ríkisstjórnin hefur ekki kjark (Gripið fram í.) til að ganga þá leið. Fyrsta skref? Já, vonandi kemur eitthvað frekar um þetta. Ég held að margir óttist það og hv. þm. Haraldur Benediktsson kom aðeins inn á það að með þessu væru menn smám saman að gerast leiguliðar í eigin föðurlandi, eins og ég orða það. Það er auðvitað hætt við því að hér spretti upp einhvers konar lénsherrar, og þá skiptir ekki máli hvort þeir eru innlendir eða erlendir, og eigi heilu og hálfu sýslurnar og að menn séu undir hæl þeirra hvað varðar nýtingu og alla aðkomu. Þetta er þegar farið að raungerast og eru dæmi til um það. Meginefnið er það að ríkisstjórnin hefur ekki djörfung til að ganga þessa leið. Hún hefur ekki djörfung, hana brestur meira að segja kjark til að fara sömu leið og hin Norðurlöndin, sum hver, til að takmarka uppkaup á landi. Ég sakna þess. Ef þetta er fyrsta skref þá er ég auðvitað ánægður með það að eiga von á einhverju meira.

En ég hef ekki miklar athugasemdir við frumvarpið sjálft, efni þess. Þetta eru aðallega tæknilegar útfærslur og það eina sem ég hef kannski athugasemdir við er að fara þurfi bónleið til ráðherra. Menn þurfa að fara bónleið til ráðherra, aðallega aðilar sem eru utan EES. Ef þeim dettur í hug að kaupa jörð, ef jörð skyldi kalla, sem er stærri en þrír og hálfur hektari þurfa þeir að fara til ráðherra. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa fundið að því að þarna sé verið að búa til einhvers konar ægivald ráðherra og taka það upp að nýju að menn bíði í biðröðum frammi á gangi hjá honum og leiti ásjár. Mér finnst miklu eðlilegra og tek undir það með þeim þingmönnum sem hafa talið að setja ætti almennar takmarkanir og að þær ættu að vera mun þrengri en hér kemur fram, mun þrengri. Ég er kannski ekki búinn að lesa frumvarpið frá orði til orðs en ég held að eina 10.000 hektara þurfi til. Ef sá sem er að kaupa jörð á fyrir jörð eða jarðir upp á 10.000 hektara þá þurfi að skoða það eitthvað sérstaklega. Þarna er komið langt út fyrir allt sem venjulegt fólk skilur og langt út fyrir, held ég, það sem við hér í þessu litla landi viljum sjá, að jarðir safnist í miklum mæli á hendur örfárra. Skiptir þá engu máli hverrar þjóðar þeir eru. Auðvitað á að setja skýr mörk fyrir alla. Ég er talsmaður þess og ég sakna þess að það sé ekki gert.

Þetta frumvarp kemur inn með trommuslætti, frú forseti. Það er ekki eins og það komi úr tómarúmi vegna þess að stjórnarþingmenn, sérstaklega úr Framsóknarflokki, hafa flutt nokkrar ályktanir um að tekið sé á þessum málum. Og hver er árangurinn? Árangurinn er þetta frumvarp. Það er mjög vel unnið, mjög ítarlegt, svo ítarlegt að maður þarf sumarið til að kynna sér það ofan í kjölinn, held ég. Þetta eru um 50 blaðsíður, þéttskrifaðar, mjög ítarlegt. Þarna er sérfræðikunnáttan greinilega fyrir hendi, fengnir eru færustu sérfræðingar til að ráðleggja ríkisstjórninni en kjarkinn brestur. Ríkisstjórnina brestur kjark. Viljaleysið er algjört. Ekki er reynt að sporna við fjárfestingum erlendra auðmanna hér á landi. Ekki með þessu frumvarpi. Hér er ekki um að ræða afgerandi takmörkun á eignarhaldi auðmanna sem mjög margir hafa verið að kalla eftir. Þarna er ekki verið að svara því kalli. Ég held að rétt sé að komia því á framfæri í ræðu.

Af hverju var t.d. ekki farin sú leið að takmarka rétt EES-borgara til fjárfestingar í landi, eins og gert er annars staðar á Norðurlöndum, sem nauðsynlegt væri til að uppfylla skuldbindingar okkar gagnvart EES-samningnum um frjálsa fólksflutninga, staðfesturétt og til að sinna þjónustustarfsemi? Af hverju var ekki farin sú leið sem Danmörk fer og fleiri Norðurlönd? Af því að ríkisstjórnin hafði ekki djörfung til að ganga þá leið. Þetta frumvarp er meinlaust að mörgu leyti. Það er til framfara varðandi tæknileg atriði eins og t.d. að kaupverð eignar þurfi að koma fram í afsali eða kaupsamningi. Það er auðvitað góð breyting og þörf. Landeignaskrá sem hér er fjallað um er til framfara en henni var komið á laggirnar til að tryggja yfirsýn og samræma opinbera skráningu á landi. Ég set spurningarmerki við þetta með samþykki ráðherra, einhvers konar ráðherraræði. En fyrst og fremst, frú forseti, sakna ég þess að menn þori ekki að stíga þetta skref. Þeir halda sig innan dyra, þora ekki út, brestur kjark. Þetta er dæmi um það. Eftir ákall og eftir ályktanir einstakra stjórnarþingmanna er þetta svarið sem ekkert er.

Ég vil aðeins í lokin taka undir með hv. þm. Haraldi Benediktssyni þegar hann ræddi um skyldur jarðeiganda. Ég tek undir það. Ákveðnar skyldur um viðhald hvíla á fasteignaeigendum sem eiga byggingar og kröfur um að þeir sinni því. Það vantar varðandi jarðeignir. Auðvitað þurfa að vera ákvæði um það að jarðeigendur, sem eiga kannski sumir hverjir margar jarðir núorðið, sinni jörðum sínum, þ.e. viðhaldi girðingum sé þess þörf, framræslu, umgengni o.fl. Eins og maður sér víða í sveitum landsins er umgengni sums staðar afar slæm. Auðvitað á að taka meira á þessu og ég tek undir með hv. þingmanni hvað það varðar. Hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði líka að hér á landi væri eitt mesta frjálsræði í Evrópu í viðskiptum með bújarðir. Er þetta svar við því? Er þetta svar við því og er reynt að hamla því að auðmenn geti keypt upp bújarðir í stórum stíl? Nei, þetta er ekki svarið. Þetta er hænuskref í þá átt. Þetta eru hænuskref. Það þarf að senda skýr skilaboð um það hvernig við viljum hafa þetta hér á landi. Þetta er ekki svar við því. Þetta eru ekki skilaboð um það hvernig við viljum hafa þetta. Þetta hamlar afar lítið, frú forseti.

Svona rétt áður en ég lýk máli mínu er það nú þannig að bújarðir hér á landi eru margar hverjar ekki verðmiklar. Fyrir íbúðarholu í Reykjavík má kaupa sæmilega bújörð svolítið fjarri Reykjavík. Auður ríkustu manna í Evrópu, og um heiminn allan, er slíkur að pínulítið land eins og Ísland, þar sem helmingurinn er hálendi eða auðnir, reynist þeim létt í vasa ef þeir þurfa að reiða fram fé til að eignast gæði ef þau eru hér, sem þau svo sannarlega eru. Við erum rétt nýfarin að opna augun fyrir því á hvaða gæðum við sitjum hér í þessu landi, þ.e. hreint vatn, hrein náttúra, fallorkan, heita vatnið. Ég lýsi því vonbrigðum mínum með hversu skammt þetta frumvarp gengur.



[14:41]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Mig langar til að fá að leggja hér orð í belg. Ég sit í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem hafði þetta mál til meðferðar. Ég lít einhvern veginn þannig á að hér sé það að gerast að á síðasta degi þings, eða a.m.k. á lokadögum þess, að fram sé að koma algert grundvallarmál með þessu frumvarpi sem fjallar um kaup og sölu á jörðum og auðlindum sem þeim fylgja. Og mér finnst sérstakt að umræða um svo pólitískt viðamikið mál, eða mál sem er eiginlega stórt í öllum skilningi þess orðs, er stórt pólitískt og hefur í för með sér breytingar á fjórum lagabálkum, komi fram hér í blálokin og að umræða um málið eigi að vera í litlu sem engu samræmi við mikilvægið.

Við erum einfaldlega að fást við auðlindapólitík. Um hana þarf að ríkja sátt. Hér er ætlunin og markmiðið að standa vörð um almannahagsmuni en auðvitað mun útfærslan hafa allt um það að segja hvort það verði í reynd niðurstaðan. Ég hef hlustað á umræðurnar hér í dag og held að ég geti tekið undir þau orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur að það sé kannski í reynd meira sem sameinar okkur hér en sundrar. En mér finnst einhvern veginn að þegar maður skoðar frumvarpið geti maður spurt sig: Hvaða pólitík er hér verið að mæta? Hvaða pólitík er hér verið að smíða? Er þetta frumvarp sem speglar markaðslögmál? Nei, það er ekki þannig. Er þetta frumvarp sem setur afdráttarlaus mörk í þágu almannahagsmuna? Svarið við því er líka nei, það er ekki þannig. Niðurstaðan virðist einhvern veginn vera einhver Framsóknarleið, að menn mæti í viðskiptasamninga inn á kontór til ráðherra. Ég er í hópi þeirra sem velta því fyrir sér hvers vegna málið þurfi að vinnast á þessum hraða. Eru hér einhverjir þeir hagsmunir sem þola ekki bið eða þola ekki samtalið í haust? Ég get ekki séð að það muni hafa í för með sér einhverjar dramatískar afleiðingar að við leyfum málinu að þroskast í umræðunni. Ég held að það muni þvert á móti ekki gera annað en að styrkja þetta mál og auka sáttina um það.

Jú, það hefur auðvitað verið umræða og ákall um einhverjar lagabreytingar í þessa veru en ég held að skorturinn sem verður á umræðu um málið hér í þingsal geti hæglega leitt til þess að þegar frumvarpið er síðan orðið að lögum komi í ljós að málið var einfaldlega ekki fullunnið. Það var a.m.k. ekki fullrætt og er þar af leiðandi ekki líklegt til að ná fram pólitískri sátt sem ég held að þurfi a.m.k. alltaf að vera markmiðið með mál sem lúta að auðlindapólitík. Þetta er mál sem kemur inn á eignarréttinn. Þetta er mál sem kemur inn á tengsl okkar við EES. Sjónarmiðum um það hvort frumvarpið standist stjórnarskrá er flaggað í ákveðnum umsögnum. Mér finnst þessum spurningum einfaldlega ekki skýrt svarað.

Ég er sammála því sem segir í greinargerð frumvarpsins um að rík ástæða sé til að gjalda varhuga við mikilli samþjöppun eignarhalds á landi. Við eigum samfélagsleg og menningarleg verðmæti í náttúrunni okkar og það er almannahagur að tryggja hér aðgang að landi og að það sé gert með því að setja einhver mörk til að sporna við eignasamþjöppuninni. Í greinargerð er fjallað um alls konar sjónarmið sem búa að baki, t.d. þjóðaröryggissjónarmið hvað varðar t.d. neysluvatn og neysluvatnsöryggi. Mörg þessara atriði hafa einfaldlega ekkert verið rædd hérna. Mér finnst við heldur ekki hafa rætt sjónarmið á borð við þau sem koma fram í umsögnum. Það er nú dálítið einkenni á þessu máli að margar umsagnir bárust úr ólíkum áttum og margar þeirra eru ansi neikvæðar.

Samtök ferðaþjónustunnar tala um vanbúið frumvarp. Þar hafa menn áhyggjur af íþyngjandi áhrifum á innlenda fjárfestingu í ferðaþjónustu sem maður hefði nú haldið að væri aldeilis sjónarmið sem menn ættu að líta til eins og staðan er hjá okkur í dag.

Samband íslenskra sveitarfélaga mælti gegn því að frumvarpið yrði samþykkt á þessu þingi enda þótt umsögnin væri í grundvallaratriðum jákvæð og með þeim hætti að frumvarpið væri góður grundvöllur til umræðu. Þar er líka flaggað sjónarmiðum um hvaða áhrif frumvarp sem þetta muni hafa á markaðsvirði lands og að hér þurfi að sýna mikla gát. Það sem stingur mig kannski aftur og aftur við yfirferð málsins er að hraðinn er í engu samræmi við þá hagsmuni sem eru undirliggjandi. Mér finnst það einhvern veginn ekki gefa til kynna að verið sé að taka á málinu af þeim þunga sem það á skilið.

Bændasamtökin gerðu athugasemdir við það að ákvörðunarvaldið og rannsóknin á því hvað menn ætla að gera með tilteknar jarðir og tiltekið land sé á hendi ráðherra. Þau teldu eðlilegra að það væri á hendi sveitarfélaganna að fara með það. Og það er líka stef sem við sjáum aftur og aftur í umsögnum um málið, þetta víðtæka vald sem ráðherra fær til að ákveða hvort viðskipti með jarðir fái að eiga sér stað. Þarna erum við auðvitað að smíða þá umgjörð til langframa að viðskiptin og stjórnmálin gangi hönd í hönd sem hefur nú oft þótt formúla sem er ekki gæfuleg.

Sýslumannafélagið gerði víðtækar athugasemdir. Mér fannst sú umsögn ekki síst þess eðlis að þar hefðum við átt að staldra við. Sýslumenn landsins verða þeir aðilar sem fá það hlutverk að ná fram markmiðum laganna, að fylgjast með því hvað er á bak við tiltekin kaup, hvort um er að ræða tengda aðila o.s.frv. Í umsögn Sýslumannafélagsins kemur berlega í ljós að sýslumenn landsins telja sig einfaldlega ekki hafa verkfærin til að sinna því hlutverki sem þeim er ætlað að sinna, að þeir muni ekki geta gert það sem þetta frumvarp leggur þeim á herðar.

Ég hef bara nefnt örfáar af fjöldamörgum umsögnum en úr ólíkum áttum. Það eru Samtök ferðaþjónustunnar, Samband íslenskra sveitarfélaga, Bændasamtökin og Sýslumannafélagið. Allt eru þetta aðilar sem eru með veigamiklar athugasemdir en athugasemdir sem ég held að hægt væri að ná utan um ef málið fengi eðlilegan meðgöngutíma, ef svo mætti segja. Það er kannski það sem ég staldra fyrst og fremst við. Þetta mál er sett fram með það að leiðarljósi að verja almannahagsmuni með því að setja tiltekin mörk um það hvernig jarðir og land á Íslandi og auðlindir sem fylgja jörðunum ganga kaupum og sölum. Öll umgjörðin í kringum það hvernig frumvarpið á að fara í gegnum þingið vekur upp stórar spurningar. Ég held að málið hafi verið til umræðu á fimm fundum í allsherjarnefnd og það er á dagskrá hér í þinginu í dag og mögulega á morgun. Það er allt og sumt þegar ríkisstjórnin er að leggja af stað með algjört grundvallarmál um eignarrétt og afnot fasteigna. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvað það er sem veldur. Ég var í hópi þeirra þingmanna í nefndinni sem greiddu atkvæði gegn því að málið yrði tekið út, einfaldlega á þeim forsendum að það hefði ekki náð þeim þroska að fara inn í þingsal. Við vorum öll einhuga um það. En engu að síður er þetta niðurstaðan og mér finnst hún, satt best að segja, vond.