150. löggjafarþing — 133. fundur.
hertar aðgerðir ríkisstjórnarinnar við landamærin.

[13:45]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Já, þær eru margar, ákvarðanirnar sem eru erfiðar og snúnar vegna heimsfaraldurs sem enginn hér inni ber ábyrgð á. Við sjáum fram á mikla kreppu, mikinn bráðavanda og mikið atvinnuleysi. Ég er hrædd um að það verði meiri og dýpri kreppa vegna pólitískra ákvarðana ríkisstjórnarinnar. Við sáum mikla samstöðu fyrri part ársins, allt var gert til að koma böndum á veiruna og það tókst með ágætum. Það var árangur sem við getum öll verið stolt af. En afleiðingar þeirra hörðu aðgerða voru líka gríðarlegar, sérstaklega fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem fótunum var kippt undan.

Í maí var síðan tekin ákvörðun, vel að merkja af hálfu ríkisstjórnarinnar, af því að ekkert samráð hefur verið, um að liðka fyrir því að fólk gæti komið til landsins. Við í Viðreisn báðum ítrekað um sviðsmyndir og plan á þeim tíma en fengum engin svör. Sumarið gekk síðan ágætlega en svo fór veiran að láta á sér kræla að nýju. Við báðum aftur um sviðsmyndir og plan, einhverjar upplýsingar á þeim tímapunkti, en fengum engin svör.

Um miðjan ágúst varð svo kúvending í stefnu ríkisstjórnarinnar. Landinu var hér um bil lokað fyrirvaralaust og aftur höfum við beðið um sviðsmyndir og plan. Okkur er ekki svarað en mér sýnist atvinnuvegaráðherra í raun hafa svarað þeim spurningum okkar. Undirbúningurinn er ónægur. Kallað er eftir auknum greiningum. Við getum því sagt: Á meðan veiran er sjálfri sér samkvæm er ríkisstjórnin það ekki.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það sé raunverulega svo að litlar sem engar greiningar hafi legið á bak við þær ákvarðanir sem voru teknar bæði í sumar og nú í ágúst. Hvar eru þær greiningar? Í öðru lagi, og ég ítreka að ég vil fá svar við þeirri spurningu, spyr ég: (Forseti hringir.) Var samstaða um þessar ákvarðanir meðal allra ráðherra í ríkisstjórninni, og þá ekki síst um hertar aðgerðir á landamærunum? (Forseti hringir.)



[13:48]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég ætla þó að gera athugasemd við þau orð hv. þingmanns að hér hafi orðið kúvending í stefnu stjórnvalda því að það er ekki rétt með farið. Þann 15. júní, þegar ráðist var í það verkefni að taka upp skimun á landamærum, var það byggt á ákveðinni aðferðafræði, að við vildum greiða fyrir umferð um landamærin samhliða því að gæta ýtrustu varúðar. Það gerðum við með því að taka upp skimun, sem var í raun og veru nokkuð sem mjög fáar aðrar þjóðir treystu sér í, en fannst það áhugaverð aðferðafræði. Ég tel, eins og ég sagði í svari mínu áðan við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson, að það hafi gefist vel. Ég er ekki í nokkrum vafa, og gögnin sýna það, og við höfum byggt ákvarðanir okkar á gögnum fyrst og fremst, um að sú aðferðafræði kom í veg fyrir að fjöldi smita bærist inn til landsins. Eigi að síður var það svo að það komu inn smit. Og byggt á þeim gögnum og þeirri reynslu var tekin upp heimkomusmitgát 13. júlí, þ.e. fyrir Íslendinga og þá sem búsettir eru hérlendis voru teknar upp sérstakar reglur um tvær skimanir og heimkomusmitgát. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem tók gildi þann 19. ágúst, byggði að sjálfsögðu á þeirri reynslu og er algerlega ótækt að tala um kúvendingu í því efni því að þar má segja að við höfum tekið kerfið um heimkomusmitgátina og hert á þeim reglum með því að leggja til sóttkví og létum það ná til allra.

Síðan fylgir þeirri sögu, eins og ég kom sömuleiðis að í mínu fyrra svari, að við viljum meta stöðuna með reglubundnum hætti, á tveggja vikna fresti, hvort ástæða sé til að færa lönd af hááhættusvæðum yfir á lágáhættusvæði, sem er sömuleiðis sú aðferðafræði sem við höfum byggt á og einnig aðrar þjóðir, en er líka vandkvæðum háð. Hvernig ætla stjórnvöld að meta áhættuna af faraldrinum? Er það eingöngu út frá nýgengi smita? Er það út frá spítalainnlögnum, gjörgæsluinnlögnum og afleiðingum smita? Þetta er það mat sem (Forseti hringir.) við erum að vinna að núna eins og við höfum verið að vinna að hingað til. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður spyr um sviðsmyndir: Já, vissulega eru margir valkostir undir og meta þarf kosti og galla hvers og eins.



[13:50]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það varð kúvending. Það er ekkert að því. Reynið bara að útskýra fyrir okkur af hverju var kúvent. Það er það sem við erum að biðja um. Af hverju var kúvent í ákvarðanatöku stjórnvalda? Af hverju var það gert? Og enn og aftur svarar forsætisráðherra ekki spurningunni: Var samstaða í ríkisstjórninni meðal allra ráðherra um að fara þessa leið? Ég vil minna á það að hæstv. forsætisráðherra var sammála mér í vor um að það þyrfti að rökstyðja ákvarðanir, bæði efnahagslegar en ekki síst þær sem skerða frelsi fólks. Þær röksemdir hafa ekki komið á mitt borð a.m.k. Dýrmæt samstaða myndast ef fólk fær upplýsingar og skilur forsendur á bak við stórar ákvarðanir. Fólk þarf ekki að vera sammála ákvörðuninni en fólkið okkar þarf að vita, skynja og skilja að á bak við ákvörðunina var nægur undirbúningur og góðar greiningar. Það er það sem fólk er að kalla eftir í mestu vinsemd. Við þurfum meiri upplýsingar. Við þurfum að skilja (Forseti hringir.) hvað býr að baki kúvendingum ríkisstjórnarinnar.



[13:52]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Svo að ég svari nú fyrirspurn hennar, sem hún hefur tvisvar borið upp, þá var samstaða í ríkisstjórninni um þessar aðgerðir. Og af hverju er samstaða? Jú, það er af því að við byggjum á gögnum og hv. þingmaður þekkir þau gögn vafalaust jafn vel og sú sem hér stendur. Þess vegna er rangt að tala um kúvendingu af því að við byggðum á þeirri aðferðafræði sem við lögðum upp með þann 15. júní þegar við ákváðum að fara í skimun á landamærum og höfum verið nokkuð einstök í alþjóðasamfélaginu hvað það varðar. Við höfum byggt á reynslunni sem skapaðist með þeirri skimun, með upptöku heimkomusmitgátar og þeirri reynslu sem skapaðist af upptöku heimkomusmitgátar sem leiðir okkur inn í tvöfalda skimun og sóttkví. Á hvaða gögnum byggjum við? Augljóslega þeim staðreyndum sem sýna okkur og benda til þess að ný afbrigði veirunnar hafi einmitt borist inn í landið þrátt fyrir allar varúðarráðstafanir okkar. Þess vegna geri ég athugasemd við orðanotkun hv. þingmanns en segi það (Forseti hringir.) líka að ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál hér á Alþingi því að þetta eru allt stórar ákvarðanir og það skiptir máli að það liggi fyrir nákvæmlega hvar (Forseti hringir.) stjórnmálamenn og hreyfingar standa og hvernig þær vilja forgangsraða. (Gripið fram í.) Mér finnst (Forseti hringir.) það mjög mikilvæg umræða.