150. löggjafarþing — 134. fundur.
húsnæðismál , frh. 2. umræðu.
stjfrv., 926. mál (hlutdeildarlán). — Þskj. 1662, nál. 2064, 2067 og 2068, breytingartillaga 2065.

[19:47]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, hlutdeildarlán. Þegar þetta frumvarp kom fyrst fram fagnaði ég vel og innilega. Ég hugsaði með mér: Loksins erum við að fara að taka á málefnum þeirra sem helst þurfa á húsnæði að halda. Ég hugsaði með mér að þetta væri gott mál sem vel væri hægt að styðja. En því miður fæ ég enn og aftur óbragð í munninn vegna galla á máli. Hin gífurlega flýtimeðferð á þessu máli gerir það að verkum að málið er illa unnið. Það er af mörgu að taka. Ég var hugsi yfir því hvort ég ætti að vera á nefndarálitinu með fyrirvara, samþykkja það með fyrirvara, vegna þess að ég vildi gera það. En ég þurfti að hugsa mig vel og vendilega um og sá að ég þyrfti að setja svo marga fyrirvara að það væri ekki víst að það kæmist fyrir í þessu blessaða nefndaráliti.

Hvað er það sem er svona skrýtið við þetta frumvarp? Í fyrsta lagi nær þetta úrræði eingöngu til nýrra íbúða nema úti á landi þar sem verður hægt að gera gamla íbúðir upp, taka þær í gegn. Þá telst það í lagi. En við verðum líka að spyrja okkur: Hvað þýðir það á höfuðborgarsvæðinu að við erum eingöngu að lána til nýrra íbúða? Ég þekki það af eigin reynslu eftir að hafa átt bæði gamla og nýja íbúð og af nákvæmlega sömu stærð að verðmunurinn þar á milli er svakalegur, hann getur verið 20–40%. Sá sem ætlar að fara inn í þetta kerfi þarf að leggja fram 5% af eigin fé og síðan fær hann sennilega 20% hlutdeildarlán í flestum tilfellum, getur fengið allt að 30% hlutdeildarlán. Það sem ég óttast er að hlutdeildarlánið dekki ekki einu sinni verðmuninn á gamalli og nýrri íbúð ef þessi einstaklingur keypti sér hreinlega, ef hann gæti, gamla íbúð frekar en nýja. Og hvað segir það okkur líka? Það segir sig sjálft að ef maður er að kaupa gamla íbúð sem kostar 40 milljónir þá hefði hún sem ný íbúð kostað 55–60 milljónir. Þá er það gífurleg skuldsetning, mun meiri skuldsetning sem viðkomandi þarf að taka á sig.

Síðan er annað í þessu sem er eiginlega það furðulegasta. Í upphafi var í frumvarpinu gert ráð fyrir 25 ára lánstíma á hlutdeildarláninu en hann er kominn niður í 10 ár, með framlengingu um fimm ár, í 15 ár, og svo þarf aftur að fara í framlengingu, frá 15 árum í 20 ár og jafnvel aftur um fimm ár, úr 20 í 25 ár. Einfalt kerfi? Nei. Samt var einmitt krafa um að hafa kerfið eins einfalt og hægt væri. Það voru skilaboðin sem þeir sem kynntu sér kerfið í Bretlandi og Skotlandi fengu: Gerið kerfið eins einfalt og hægt er. En því meira sem maður skoðar frumvarpið, þeim mun betur sér maður hversu flókið kerfið er.

En fyrir hverja er þetta kerfi? Hvaða hópur er líklegastur til að komast inn í kerfið? Því miður er þetta kerfi ekki fyrir stóran hóp öryrkja og ekki fyrir ákveðinn hóp fólks á lágmarkslaunum. Það er algjörlega staðreynd. Tökum dæmi sem er í frumvarpinu sjálfu. Gert er ráð fyrir að 70 m2 íbúð sé keypt á 35 millj. kr. Það sem er eiginlega best við það er að þetta er íbúð fyrir tvo fullorðna og tvö börn, þannig að þröngt mega sáttir sitja en látum það vera. Þetta er 35 millj. kr. íbúð og til þess að geta staðið sæmilega undir lánum nokkurn veginn er gefið upp að ráðstöfunartekjur viðkomandi þurfi að vera 525.916 kr. Þegar búið er að draga frá grunnframfærsluviðmið, rekstrarkostnað húsnæðis og námslán er greiðslugetan komin í 206.796 kr., það sem þessir einstaklingar þurfa til að geta vel staðið undir láninu.

En hvernig stæðu þessi einstaklingar undir því ef allt færi á versta veg, ef vextir færu á fleygiferð? Sýnt hefur verið fram á það að þegar vaxtaprósenta fer af stað þá hækka lánin. Það kemur fram hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem lét reikna það út, að árið 2016 var greiðslubyrði 130.000 kr. af 21 millj. kr. óverðtryggðu láni með breytilegum vöxtum upp á 7,2% — 70% lánshlutfall á 30 millj. kr. íbúð, spáið í það — en hún var komin niður í 80.000 kr. miðað við 3,5% vexti. Þarna munar 50.000 kr. Ef lánstaki í þessum aðstæðum lenti í því að versta mögulega dæmið kæmi upp þá segi ég bara guð hjálpi honum.

Í dæminu sem er tekið í frumvarpinu er gert ráð fyrir rúmum 525.000 kr. í ráðstöfunartekjur. Segjum að öryrki ætli að reyna að komast inn í þetta kerfi, einstaklingur sem er með útborgaðar 220.000 kr. Við getum gleymt því, hann á ekki séns. Í fyrsta lagi myndi hann ekki fá greiðslumat og í öðru lagi er það skilyrði að ekki megi fara yfir 40% af ráðstöfunartekjum við kaup á íbúðinni. Hann á því ekki séns og þetta á líka við um þá sem eru á lægstu laununum, þeir komast ekki inn í þetta kerfi.

Það verður að segjast alveg eins og er að þetta kerfi er svolítið furðulegt. Við þyrftum og hefðum átt, ef við ætluðum að búa til einfalt kerfi, sem hefði þá verið algjörlega nýtt kerfi frá grunni, að ræða hvernig við getum byggt upp kerfi og tekið lánin og allt sem varðar íbúðir út úr neysluvísitölu þannig að verðtrygging væri ekki til staðar þar inni. Þannig værum við í sömu stöðu og flestar nágrannaþjóðir okkar, að vita vextina frá upphafi til enda. Það væri lágir fastir vextir og engar áhyggjur þyrfti að hafa af verðbólgu. En við lifum ekki við þann munað og samkvæmt þessu er það ekki á döfinni.

Við verðum að átta okkur á því að það var stór hópur fólks sem missti íbúðirnar sínar í hruninu. Og hver er staða þess fólks í dag? Eins og hefur komið fram í ræðum dag er það á vanskilaskrá. Ef maður er á vanskilaskrá kemst maður ekki inn í þetta kerfi, er á svörtum lista, hundeltur. Þetta er hópur sem getur á furðulegan hátt, ef við hugsum út í það, verið á leigumarkaði og leigt fyrir 80–90% af ráðstöfunartekjum sínum en þarf síðan að leita til hjálparstofnana til að fá mat, til að lifa af. Á sama tíma kemur fram í frumvarpinu að í þessu kerfi megi ekki lána nema óverðtryggt lán til 25 ára. Verðtryggt lán til 40 ára hefur verið kallað eiturpilla, og ég veit um ýmis fleiri nöfn á því en hvað hefur 40 ára verðtryggt lán gefið þeim sem hafa tekið það? Það hefur gefið þeim möguleika á að kaupa íbúð með lágmarksgreiðslubyrði. Eignamyndunin verður mun minni en öryggið er til staðar, það öryggi að ráða við greiðslubyrðina og vita að hún rýkur ekki upp úr öllu valdi bara við einhverjar vaxtabreytingar. Með verðtryggt lán veistu nokkurn veginn vextina og ef verðbólgan fer af stað fer hún aftast á lánið. Eignahlutfallið minnkar kannski en greiðslubyrðin eykst ekki í sama hlutfalli.

Eitt af því sem ég tók eftir í þessu frumvarpi er svolítið furðulegt, og það kom einmitt inn spurning í nefndinni í sambandi við þetta og ég spurði líka að því. Eins og við vitum er því miður mikið um skilnaði hjá hjónum. Þegar spurt var hvernig staðan yrði þá var svarið að annar aðilinn yfirtæki íbúðina. En hvað verður um hinn? Hann dettur út úr kerfinu, honum er vísað út á guð og gaddinn. Ég óttast að þetta þýði að það verði barátta um að halda íbúðinni. Hvaða afleiðingar hefur það ef börn eru á heimilinu? Hvorugur aðilinn sér fram á að geta farið út úr kerfinu og lifað af. Það sem hefði verið einfalt að gera í sambandi við þetta er að sá aðili sem færi út fengi tækifæri til að fara inn í kerfið aftur. Þessir einstaklingar eru inni í kerfinu vegna þess að þeir eru í þeirri aðstöðu að komast ekki inn í neitt annað kerfi. Þetta er mjög einfalt mál og eiginlega óskiljanlegt að ekki hafi verið hægt að gera þetta. Í sjálfu sér hefði það ekki kostað eitt né neitt að gefa bara viðkomandi þetta tækifæri og ekki breytt neinu í sambandi við málið í heild sinni.

Annað í þessu sem mér hugnast ekki er sú krafa sem verður gerð um að lækka vaxtabætur um 1 milljarð. Kannski er skýringin sú að verið sé að lækka þær hjá þeim tekjuhæstu. En hvaða tekjuháa fólk fær vaxtabætur? Mér þætti gaman að vita það. Þegar ég var ekki á þingi og var að borga af íbúð þá þurfti maður nú ekki að vera mjög tekjuhár til að vaxtabæturnar færu að skerðast.

Ég fór líka í gegnum reglugerðina. Það er mynd af reglugerðinni, og hvað segir hún okkur? Hvað er í gangi þar? Þetta er stórfurðulegt vegna þess að ráðherrann fær ótrúlega víðtækar heimildir. Hann getur gert alls konar útfærslur og getur veitt undanþágur. Einnig eru ýmis skilyrði þarna sem valda áhyggjum. Til þess að komast inn í þetta kerfi, eins og ég hef áður komið að, þarf maður að standast greiðslumat frá lánastofnun, sem er hægara sagt en gert. Síðan þarf viðkomandi að gefa upplýsingar um hagi sína og framtíðarhorfur. Framtíðarhorfur? Kannski setur maður upp bjartsýnisgleraugu, kannski svartsýnisgleraugu eða fer bara til spákonu. Ég veit ekki hvernig menn ætla að útfæra þetta. Ég skil ekki svona hluti vegna þess að auðvitað er það staða viðkomandi akkúrat á þeim tíma sem hann sækir um sem skiptir máli. Það er búið að setja inn framtíðarhorfurnar með því að stytta lánstímann úr 25 árum niður í 10, síðan hægt að framlengja í 15, svo 20 og 25. (Gripið fram í.) Það er búið að setja þetta inn og þannig verða framtíðarhorfurnar.

Þetta er líka spurning um verðlagningu á íbúðinni, sem ég sé hérna í reglugerð. Það er einstaklingsíbúð á 30 milljónir, tveggja herbergja íbúð á 35 milljónir, þriggja herbergja íbúð á 38 milljónir, fjögurra herbergja íbúðir á 42 milljónir og fimm herbergja og plús íbúðir á 50 milljónir. Þetta er hámark bjartsýninnar. Ég held að það hefði verið mjög þarft að skoða fasteignamarkaðinn nema það sé ætlunin að einhver byggi þessar íbúðir á mjög ódýrri lóð, einhvers staðar yst á bæjarmörkunum og án alls hagnaðar. En það er ekki raunhæft. Það er ekki gott til afspurnar að hafa hlutina í algjörri óreiðu

Annað hér er að viðkomandi má eiga allt að 1,5% af kaupverði íbúðarinnar í peningum. Við verðum að átta okkur á að þinglýsingarkostnaður á íbúðum er mikill, flutningskostnaður er mikill. Það er dýrt að flytja í nýja íbúð og það þarf að tryggja að fólk eigi líka fyrir þeim hlutum. Þetta má ekki vera of þröngt. Síðan er hér sagt „hófleg bifreið“. Ég set spurningarmerki við það. Hvað er hófleg bifreið?

Öryrkjabandalagið hefur gert ýmsar athugasemdir og bent á að lánstími annarra lána í veðröðinni gæti verið 30–40 ár og hlutdeildarlánin þurfi lengri tíma. Þetta er of stutt, þetta er of knappt. Ég hefði viljað hafa 25 ár og þá hefði verið hægt að endurskoða málið. Miðað við það sem hefur komið frá verkalýðshreyfingunni í Bretlandi þá þurfti ekkert að hafa svona fyrirvara. Fólk vill fara út úr þessu kerfi um leið og það getur vegna þess að það hentar miklu betur að fara inn í annað kerfi. Það getur hentað betur upp á ýmsa þætti; vinnu, skóla, alls konar hluti.

Við verðum að átta okkur á því að við erum að segja við fólk að þetta séu ákveðnar íbúðir á ákveðnum stöðum sem fólk getur keypt, en við vitum ekki hvaða staðir þetta eru. Við höfum ekki hugmynd um það í dag hvar þetta verður, hvar þessar íbúðir verða byggðar eða hvort þær verði yfir höfuð byggðar vegna þess að við eigum eftir að fá vita hvernig í ósköpunum eigi að byggja þessar nýju rosalega hagkvæmu íbúðir á þessum verðgrundvelli.



[20:08]
Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og umfjöllun um málið, sem er náttúrulega sýn hans á það, að þetta sé allt ómögulegt og erfitt að komast inn í úrræðið. Auðvitað er það ekki fyrir hvern sem er að kaupa sér eign, alveg sama hvert úrræðið er. Það þarf alltaf að standast greiðslumat og við vitum að það getur verið svolítið erfitt. En þarna er komið til móts við fólk. Hlutdeildarlánið kemur í staðinn fyrir eigið fé sem kaupandi þarf annars að eiga.

Enn og aftur kemur fram sá misskilningur fram að þetta séu bara tíu ár. Við erum búin að heyra það svolítið oft í dag. Í breytingartillögunni segir:

„Hlutdeildarlán skulu endurgreidd við sölu íbúðarhúsnæðis eða að liðnum 10 árum frá lánveitingu. Þó er heimilt að framlengja lánstímann um fimm ár í senn, þó þannig að lán verði aldrei veitt til meira en 25 ára samtals. Skilyrði fyrir framlengingu lánstíma er að lántaki hafi sótt ráðgjöf Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um endurfjármögnunarmöguleika og framlengingu lánsins áður en lánstíma lýkur.“

Þetta er nokkuð skýrt. Þetta er eina skilyrðið. Og allar löngu ræðurnar sem búið er að halda í dag um að það sé ekki leyfilegt, að það sé bara háð einhverjum duttlungum lánveitandans, eru bara ekki á rökum reistar. Þannig að ég vil spyrja aftur: Er ekki nógu skýrt að þetta séu 25 ár? Ég kem kannski betur inn á það í seinni ræðu.



[20:10]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir spurninguna. Hún segir að það verði heimild til að framlengja lánið. Ef við hefðum hugsað þetta raunhæft hefði kannski eftir helminginn af lánstímanum, tólf og hálft ár, farið fram bara ein endurskoðun. Þá hefði lánþegi getað fengið að halda áfram. Bara eitthvað svona einfalt. En þarna erum við að tala um endurmat eftir 10, 15, 20, 25 ár. Fólk þarf að ganga í gegnum þetta fjórum sinnum. Við vitum að það er streituvaldandi. Það getur valdið fólki töluverðum erfiðleikum að fara í gegnum svona ferli. Þetta flækir kerfið alveg ótrúlega mikið. Það væri miklu einfaldara að segja hreinlega: Lánið er til 25 ára, en það setjast allir niður og skoða stöðuna eftir kannski tólf og hálft ár.



[20:11]
Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að í Bretlandi væri reynslan sú að fólk vildi fara fyrr úr úrræðinu en áætlað var að það gerði. Ég tel tíu ár þokkalegan tíma. Ég vil þá spyrja hv. þingmann: Hvaða meðaltíma telur hann raunhæft að miða við þar til fólk fer út úr úrræðinu? Eru það ekki svona tíu ár eða tólf og hálft ár? Skiptir það einhverju máli að það komi að þeim tímapunkti að farið verði yfir málið?

Í öðru lagi, þetta eru hagkvæmar íbúðir. Hvað telur hv. þingmaður því til fyrirstöðu að hægt verði að byggja hagkvæmar íbúðir um allt land, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni? Mikið hefur verið kallað eftir þessu úrræði. Er það ekki hvati fyrir verktaka til að byggja hagkvæmar íbúðir? Það hefur vissulega verið reyndin, alla vega í Bretlandi, að hægt var að gera það.



[20:13]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég svara því strax að ég yrði ofboðslega ánægður með það og myndi sætta mig fullkomlega við að lánið væri til 25 ára og að sest væri niður til að skoða hlutina einu sinni eftir 12 og hálft til 13 ár.

Við verðum að átta okkur á að til þess að byggja ódýrar íbúðir — ég hef nú komið að smíði og lærði smíði, þannig að ég veit að við gætum gert ýmislegt. Ég sá að í Svíþjóð var verið að byggja gámaíbúðir, hver gámurinn var bara settur ofan á annan. Það er örugglega mjög hagkvæmt. Og við vitum að það er líka hagkvæmt að byggja íbúðir þar sem er enginn óþarfi, ekki bílskúr og bílastæðin takmörkuð. Það er hægt að gera hlutina á ódýran hátt. Það er hægt að hafa innréttingar hræódýrar og gera allt á eins ódýran hátt og hægt er. Hvað þýðir það? Það þýðir að þegar fólk hefur það betra vill það fara út úr kerfinu vegna þess að kannski vill það bílskúr, kannski vill það búa annars staðar og hafa hlutina betri. Hvatinn er að fara út úr þessu.

Við verðum að gefa fólki tækifæri til að kaupa ódýrar íbúðir. En við verðum líka að átta okkur á því, ég segi það sjálfur og ég held að við getum öll sagt, að maður vill ekki vera í kerfinu endalaust. Þetta er nákvæmlega eins og að ætla að verða öryrki. Maður vill ekki verða öryrki. Maður vill komast út úr því kerfi. Ég tel að hvatinn til að fólk fari út verði alveg nægur. Þess vegna þurfum við ekki að setja upp allar þessar girðingar.

Til að koma í veg fyrir misskilning mun ég styðja þetta mál. Það verður jafn erfitt fyrir mig að styðja það og búsetuskerðingarnar, en ég mun gera það vegna þess að ég stend með þessu. En það eru bara öll þessi (Forseti hringir.) smáatriði. Ég vil hafa þetta einfalt, (Forseti hringir.) svo einfalt að það verði ekkert vandamál fyrir þá sem vilja fara inn í þetta kerfi að komast inn í það.



[20:15]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það er nú líklega að æra óstöðugan að reyna að þrátta meira um lánstímann en þó held ég að ég neyðist til að gera það. Í nefndaráliti meiri hlutans stendur skýrt að endurgreiða skuli sölu íbúðarhúsnæðis að liðnum tíu árum frá lánveitingu. Síðan stendur reyndar: „Heimilt er að framlengja lánstímann um fimm ár í senn, þrívegis …“, en það er gert á grundvelli umsókna og þar verður farið yfir veðstöðu eigna, greiðslugetu lántaka og endurfjármögnunarmöguleika. Það má með öðrum orðum skilja það þannig að ríkur vilji sé til þess að hægt verði að framlengja. En ef flutningsmenn þessa nefndarálits hefðu ætlað að gera það skýlausan rétt lántakandans hefði orðið „skal“ þurft að standa í staðinn fyrir orðið „heimilt“, þ.e. heimilt að framlengja. Það verður auðvitað ekki skýrara.

Að öðru leyti er maður búinn að bíða talsvert lengi eftir því að fá að tala um mál er varðar úrræði af þessu tagi því að í stjórnarsáttmálanum stendur beinlínis að það sé eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. Nú er ráðherra búinn að ganga með þetta frumvarp í maganum lengur en fílskýr gengur með fílskálf, sem eru um tvö ár, þannig að það er í sjálfu sér orðið tímabært. Við í Samfylkingunni fögnum því vegna þess að húsnæðismál hafa alltaf verið eitt af meginviðfangsefnum okkar. Við teljum að húsnæðisöryggi, óháð efnahag og félagslegri stöðu, sé forsenda jafnra tækifæra og almennrar velferðar. Öruggt húsnæði stendur nefnilega ekki og fellur með steinsteypu og bárujárni eða uppbyggingu og frágangi heldur er íbúðarhúsnæði fyrst og fremst rammi utan um heimili og einn af þeim hlutum sem eru nauðsynlegir til að fjölskyldur, í hvaða formi sem þær eru, geti upplifað öryggi og búið við heilbrigt heimilislíf.

Ég ætla ekki að fara ítarlega í einstök efnisatriði frumvarpsins. Það hefur hv. þm. Helga Vala Helgadóttir gert með ítarlegu nefndaráliti og afbragðsræðu. Ég ætla þó að fjalla aðeins um húsnæðismál vegna þess að þau hafa setið allt of lengi á hakanum og aðgerðir stjórnvalda í málaflokknum hafa einfaldlega ekki skilað nægilega góðum árangri. Ungt og efnalítið fólk hefur átt erfitt með að komast inn á húsnæðismarkaðinn og hefur þurft að velkjast um á ótryggum rándýrum leigumarkaði. Það er sérstakt áhyggjuefni hversu margar barnafjölskyldur eru í þeirri stöðu. Þær hafa gjarnan verið á hrakhólum, neyðst til að flytja, rífa börnin sín upp á milli skólahverfa og það eykur álag á börn og hjálpar þeim síður en svo á erfiðum þroskaferli. Það hefur heldur ekki verið nóg af félagslegum íbúðum hjá allt of mörgum sveitarfélögum fyrir þá allra efnaminnstu og það er hlutur sem þarf líka að taka á. Það þarf með einhverjum hætti að skilyrða lágmark félagslegra íbúða í hverju sveitarfélagi.

Sá hópur sem hefur lægstar tekjurnar í okkar samfélagi, en þó ekki nægilega lágar til að fá úthlutað félagslegu húsnæði, hefur þess vegna átt býsna erfitt með að fóta sig á þessum markaði. Þetta fólk var að stærstum hluta algjörlega yfirgefið af stjórnvöldum þegar verkamannabústaðakerfið var lagt niður af þáverandi ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Það er ekki einu sinni nægilegt framboð af leiguhúsnæði eða hagkvæmum íbúðum fyrir fólk með meðaltekjur, hvað þá þessa hópa sem eru í veikustu stöðunni. Því er ljóst að okkar bíður feikilega stórt verkefni. Þrátt fyrir mjög góð skref við byggingu almennra leiguíbúða, sem hefur verið gert í samvinnu launþegahreyfinga og sveitarfélaga, hafa skrefin verið allt of stutt og allt of fá. Þess vegna fögnum við að sjálfsögðu hverju skrefi sem þó er stigið í átt að heilbrigðari húsnæðismarkaði og hverju tækifæri sem gefst til að fjalla um þetta brýna hagsmunamál hér á þingi. Því það er orðið, eins og ég sagði áðan, löngu tímabært að ráðast í markvissar aðgerðir til að aðstoða tekjulágt fólk til að kaupa sitt fyrsta húsnæði eða leigja eða að a.m.k. að tryggja betur húsnæðisöryggi viðkvæmra hópa. Það er hins vegar, frú forseti, hálfhjákátlegt að klæða þetta úrræði í búning sérstakra aðgerða vegna Covid. Húsnæðisvandi tekjulágra er ekki nýtilkominn og stafar ekki af þeim faraldri og var til kominn löngu áður en þær efnahagsþrengingar sem við nú erum að reyna skullu á. En ég giska á að frekar sé reynt að smella þessu inn með þessum hætti til að beina sjónum frá seinagangi ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Þetta hefur tekið tæplega þrjú ár.

Það eru u.þ.b. tvö ár síðan Samfylkingin lagði fram aðgerðaáætlun í húsnæðismálum. Það var m.a. gert til að hvetja ráðherra til þess að vinna með hana eða a.m.k. að ýta á hann að klára sína. Við lögðum fram nokkur úrræði og eitt af þeim voru svokölluð startlán að norskri fyrirmynd. Þau eiga sérstaklega að aðstoða ungt fólk og fólk í viðkvæmum hópum. Þetta úrræði hafa Norðmenn notað til að bregðast við vanda þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði og fá ekki úrræði á almennum lánamarkaði. En þau eru líka sérstaklega miðuð við að tryggja húsnæðisöryggi mjög afmarkaðra og viðkvæmra hópa á markaði og það er afar mikilvægt, þegar við erum að láta mikla peninga í úrræði af þessu tagi, að þetta beinist að rétta hópnum. Við lögðum einnig til að ráðist yrði í stórfellda uppbyggingu leiguíbúða á næstu árum þannig að fólk á leigumarkaði gæti komið fótunum undir sig á markaði sem væri rekinn af öðrum sjónarmiðum en hagnaðarsjónarmiðum. Við lögðum til að skyldur yrðu settar á sveitarfélög þegar kemur að félagslegu húsnæði með það að markmiði að útvega fólki um allt land íbúðir en einnig að jafna byrðar sveitarfélaga. Við lögðum til að húsnæðis- og vaxtabætur verði hækkaðar í samræmi við launaþróun og skerðingar yrðu minnkaðar og loks að byggingarreglugerðin yrði einfölduð og samræmd á við reglugerðirnar eins og þær eru annars staðar á Norðurlöndum. Það er eiginlega ótrúlegt, frú forseti, í umhverfi þar sem við erum meira og meira að ráðast í lausnir sem ganga út á að nota tilbúnar einingar, þegar annaðhvort er ekki hægt, eða það er 20–25% dýrara, að fá þær hingað, vegna þess að hurðarhæð er önnur og lofthæð önnur en kröfur eru gerðar um annars staðar á Norðurlöndum, það er beinlínis bjánalegt.

En við skulum snúa okkur að tillögu ráðherra um hlutdeildarlánin. Þau eru að enskri fyrirmynd. Ráðherra fór víða um álfuna, fyrst voru það norsk lán og svo voru það svissnesk lán og svo finnsk lán, en hann virðist hafa endað á enskum lánum. Auðvitað er frumvarpinu ætlað að auðvelda ungu og tekjulágu fólki íbúðakaup með veitingu hlutdeildarlána, eins og þau heita, til að geta klofið útborgun. Þetta er hluti af svokölluðum lífskjarasamningum og er mjög brýnt að við afgreiðum það hér og ég tek það fram að þrátt fyrir seinaganginn og þrátt fyrir að ég telji að ýmislegt sé að frumvarpinu held ég að það sé mikilvægt að afgreiða málið. En þetta er alls ekki neitt Covid-mál eins og látið hefur verið í veðri vaka. Það er eingöngu gert til að breiða yfir seinagang í málinu.

Þegar um er að ræða inngrip og stýringu stjórnvalda á húsnæðismarkaði af þessari stærðargráðu getur það einfaldlega haft miklar afleiðingar. Þess vegna skiptir sérstaklega miklu máli að lagasetningin öll sé mjög vönduð. Við í Samfylkingunni, eins og ég sagði áðan, styðjum frumvarpið en við teljum hins vegar að það sé einfaldlega ekki nógu vel unnið. Það er allt of mikið af þokukenndum útfærslum og ráðherra eru veittar allt of víðtækar heimildir til að útfæra skilyrði og undanþágur og aðra matskennda þætti sem ákjósanlegast væri að festa niður í frumvarpið sjálft. Það er, frú forseti, reyndar orðinn ótrúlegur plagsiður Alþingis að gefa eftir ákvörðunarvald sitt í máli eftir máli með lögum sem eru allt of einföld og þar sem allt er sett í hendurnar á ráðherranum, en það er efni í aðra umræðu. Það er bara erfitt að átta sig á því hvernig framkvæmdin verður með lánveitingunni vegna þess að það er margt svo óljóst í þessu. Dæmi um það hversu þokukennt þetta allt er er að einhver nefnd, eða væntanlega Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, á að byggja á reglugerð ráðherra og ákveða hvað telst til hagkvæmrar íbúðar án þess að skilgreining á því sé skrifuð inn í greinargerð í frumvarpinu svo nokkru nemi. Ég spyr þá, frú forseti: Er átt við að íbúðin sé hagkvæm fyrir viðkomandi fjölskyldu sem langar í hana? Er hún hagkvæm fyrir ríkissjóð? Verður lagt sérstakt mat á uppbyggingu húsnæðisins, gæði efna og annað slík með tilliti til viðhaldsþarfar yfir lánstímann? Verður horft til þess að hún sé miðsvæðis þannig að fólk þurfi ekki að eiga bíl? Það er fullt af svona hlutum sem ekki er hægt að leggja óskrifaða í hendurnar á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þetta hefði þurft að koma miklu skýrar fram í frumvarpinu.

Forsendur um röðun umsækjenda, ef umsóknir eru umfram fjárveitingar hverju sinni, eru allt of óljósar. Ég veit ekki upp á hvað það getur boðið. Það getur boðið upp á alls konar kapphlaup og skrýtið fyrirkomulag. Ég hef líka mínar efasemdir um að tilgreindur sé svona hár hluti, 20% lánanna, til landsbyggðarinnar. Það er reyndar dálítið merkilegt að það orð sé notað. Hvar byrjar landsbyggðin og hvar endar hún? Tilheyra Akranes, Reykjanesbær, Selfoss, sem eru allt gríðarleg vaxtarsvæði, svæði þar sem markaðsvirði er enn töluvert hærra en framkvæmdakostnaður, landsbyggð eða höfuðborg? Og ef það telst höfuðborg þá get ég bent á Akureyri. Þar er markaðurinn að mörgu leyti eðlilegur. Þar getur verktaki haft eitthvað fyrir sinn snúð fyrir að byggja og selja íbúð sem ekki er hægt á minni stöðum. Hér hefði verið miklu heppilegra að tala um svæði þar sem markaðsbrestur er eða vaxtarsvæði og köld svæði eða eitthvað slíkt en ekki að tala bara um landsbyggð.

Þá tek ég undir með þeim sem hafa gagnrýnt tekjuviðmið frumvarpsins og er full ástæða til þess. Við teljum einnig að það sé ótækt að kostnaðurinn við úrræðið skuli vera fjármagnaður með lækkun vaxtabóta upp á milljarð á ári án þess að það liggi nokkuð fyrir hver áhrifin af þeirri lækkun verða á kerfið sjálft eða aðra lántakendur. Það hefði verið miklu nærtækara að ráðast í greiningu á húsnæðisstuðningi stjórnvalda og endurskoðanir á vaxtabótakerfinu svo að það þjóni betur markmiði sínu og styðji raunverulega við þá hópa sem á þurfa að halda.

Þrátt fyrir allt þetta og meira til, sem hefur komið fram í ræðum fjölmargra þingmanna, munum við í Samfylkingunni styðja frumvarpið því að það skiptir máli að berjast fyrir og styðja allar aðgerðir sem lúta að því að auka húsnæðisöryggi fólks. Ég held að spurningin í þessum sal sé miklu frekar hvort allir þingmenn stjórnarflokkanna styðji málið en það er líka efni í aðra umræðu.

Rétt að lokum, frú forseti, varðandi breytingar meiri hlutans. Þar er ýmislegt forvitnilegt. Ég var búinn að nefna þetta með landsbyggð og hvernig það orð er notað án þess að það sé skilgreint nánar. Þar, á landsbyggðinni, er nefnilega heimild til að kaupa eldri byggingar til endurgerðar. Það tel ég vera gott ef það er fyrst og fremst hugsað á þeim svæðum þar sem ekki borgar sig fjárhagslega fyrir neinn að byggja nýja íbúð vegna þess að minna fæst fyrir hana en sem nemur framleiðslukostnaði. En þar sem þetta er ekki skilgreint nánar spyr maður sig: Hvað býr þarna undir? Getum við átt von á því að í nágrannasveitarfélögum hér, þar sem er blússandi uppgangur, ég nefni Reykjanesbæ, Akranes eða Selfoss, dúkki upp einhverjir sem eiga gömul fjölbýlishús, gamlar íbúðir, og flikki aðeins upp á þessar eignir og selji undir þessi úrræði? Ég held að það sé ástæða til að tekin verði smáumræða um það.



[20:32]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Forseti. Þau lán sem við fjöllum um eru mjög mikilvæg og hluti af lífskjarasamningnum, eins og margoft hefur komið fram í dag. Við í Miðflokknum munum styðja álit meiri hluta, en þó með fyrirvara og ég vil aðeins gera grein fyrir þeim fyrirvara í þessari ræðu. Margt er óljóst, t.d. eru reglugerðarheimildir ráðherra víðtækar í þessu máli. Fram kom í umfjöllun nefndarinnar að erfitt gæti reynst að ætla að binda öll þau ákvæði sem þurfa að fylgja í lagatextann sjálfan og þess vegna væri ráðherra falið þetta leyfi til reglugerða. Hugtakanotkun er einnig mjög óljós. Að tala um hagkvæmt húsnæði er eitt af því sem hefði mátt alveg skýra í lagatextanum í stað þess að setja reglugerðarákvæði. Eins eru settar ýmsar kvaðir á lántakendur sem geta orðið til þess að fólk mun ekki sækja um þessi lán.

Við fengum senda tillögu að reglugerð ráðherra. Þar er ansi langur kafli sem fjallar um hvaða skilyrði lántakendur þurfa að uppfylla, en það er minna um skilyrði þeirra sem veita lánin, alla vega enn sem komið er. Það getur vel verið að þar verði bætt úr, en listinn yfir skilyrði sem lántakendur þurfa að uppfylla er töluvert langur og getur virkað þannig að fólk sæki ekki um. Töluvert skortir á upplýsingar um þörfina fyrir húsnæði af þessu tagi eða öllu heldur það húsnæði sem kæmi til móts við þann tekjuhóp sem hér um ræðir. Ég er nokkuð viss um að þörfin er meiri en hér er kynnt til sögunnar. Ég óskaði eftir upplýsingum um það til að geta metið nokkurn veginn þann byrjunarpunkt sem við stæðum á gagnvart lagasetningunni og við fengum ágæta skýrslu í velferðarnefnd frá Íbúðalánasjóði, sem þá hét svo, um íbúðaþörf árin 2019–2040, sem við höfum reyndar fengið kynningu á áður, en það var ágætt fyrir okkur að rifja hana upp núna, sérstaklega í ljósi þeirrar óvissu sem við stöndum frammi fyrir. Ég er viss um að væri sú skýrsla skrifuð í dag væri kaflinn um óvissuþætti mun lengri en hann er í núverandi skýrslu, þannig að kannski er ráð að uppfæra hann.

Í skýrslunni eru vissar vísbendingar um að ungt fólk búi lengur í foreldrahúsum en það kýs þar sem skortur hefur verið á íbúðum sem henta þessum aldurshópi. Ég tek það fram að skýrslan er unnin sérstaklega með annars vegar höfuðborgarsvæðið og hins vegar landsbyggðina í huga, og svo er velt upp alls konar áhrifum á hina ýmsu aldurshópa, allt frá ungum og upp í eldri aldurshópa, þannig að ekki er verið að horfa til þeirra tekna sem fólk aflar sér á hverju æviskeiði.

Hér verður líka að nefna að það er vel hægt að segja að lánin séu til tíu ára en ekki 25 ára, alla vega skil ég það þannig, þegar lántakendur eru jafnvel metnir inn í úrræði á ný, sem talað er um sem virka ráðgjöf. Það er eitt af þeim hugtökum sem mér finnst óskýr. Það er óskýrt hvað átt er við þegar talað er um virka ráðgjöf. Ég velti því fyrir mér hvað óvirk ráðgjöf er í því sambandi.

Í frumvarpinu er skilyrt að 20% hlutdeildarlána fari til landsbyggðarinnar. Þá er spurning hvað flokkast sem landsbyggð. Ýmsir hafa komið inn á það í dag hvort Akureyri sé landsbyggð. Og ef ég lít aftur í mitt kjördæmi, er þá Raufarhöfn landsbyggð eða Egilsstaðir eða Seyðisfjörður? Það er nokkuð óskýrt og ég hefði jafnvel kosið að við settum skurðpunktinn þannig að það héti annaðhvort höfuðborgarsvæði eða allt það sem er utan við höfuðborgarsvæðið.

Ýmsir hafa gagnrýnt að ekki sé heppilegt að halda inni tekjuviðmiðunum sem eru í frumvarpinu og lesa má eftirfarandi í umsögn VR, með leyfi forseta:

„Sé litið til félagsmanna VR á aldrinum 25–30 ára þýðir ákvæðið um tekjuviðmið að yfir 70% þeirra geta ekki nýtt sér þetta úrræði til að eignast eigið húsnæði. Almenn skilyrði lánanna, sem eru tölusett í sex liðum, samanber 29. gr. b, munu leiða til þess að lánin verða aðeins veitt þeim sem þurfa á þeim að halda, á meðan lögbundin tekjuviðmið tekna útiloka marga sem þó þurfa á úrræðinu að halda, einkum þegar tekið er tillit til örrar þróunar verðs á fasteignamarkaði, eins og verið hefur, jafnvel þegar verð á öðrum mörkuðum hefur staðið í stað, eða [það hefur] lækkað. Þá kalla lögfest tekjuviðmið á aukna stjórnsýslu, heimild ráðherra til að veita undanþágu frá viðmiðum, árlega endurskoðun og fleira sem leiðir til óskilvirkni úrræðisins.“

Ég ætla að leyfa mér að taka undir þetta. Og þar sem við fengum þessa umsögn, sem mér fannst ágæt eða alla vega þess virði að skoða betur, þá óskaði ég eftir því í velferðarnefnd að við fengjum svokallaðar sviðsmyndir af áhrifum af hækkun tekjumarka í skilyrðum hlutdeildarlána. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sendi nefndinni því minnisblað. Í því kemur fram, með leyfi forseta:

„Hagdeild HMS, þá ÍLS, framkvæmdi mat á mögulegri eftirspurn hlutdeildarlána og framboð hagkvæmra íbúða miðað við ákveðnar, líklegar forsendur haustið 2019.“

Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að hafa í huga þá dagsetningu eða tímabil sem þessi skýrsla er unnin út frá, þ.e. haustið 2019.

„Niðurstaða matsins varð sú að miðað við þau tekjumörk sem lögð voru til grundvallar yrði eftirspurn hlutdeildarlána að öllum líkindum töluvert meiri en mögulegt framboð á hagkvæmu húsnæði, sem fellur undir skilyrði um veitingu slíkra lána.“

Og áfram er haldið:

„Ef tekjumörk í skilyrðum um hlutdeildarlán yrðu hækkuð myndi það leiða til þess að fleiri einstaklingar og heimili myndu uppfylla skilyrðin um veitingu slíkra lána og því yrði eftirspurn meiri en ella. Framboð á hagkvæmu húsnæði breytist ekki til skamms tíma vegna þess tíma sem tekur að byggja húsnæði, eða að meðaltali um 18–24 mánuði. Metið framboð var töluvert minna heldur en líkleg eftirspurn, magn hlutdeildarlána. Samkvæmt matinu er áætlað að framboð hagkvæmra íbúða gæti legið á bilinu 340–710 íbúðir á ári. Mat á líklegri eftirspurn leiddi í ljós að hún gæti legið á bilinu 3.800–8.600 einstaklingar og fjölskyldur. Af þeim sökum er ljóst að framboðið er takmarkandi þáttur í umfangi lánanna. Því er ekki viðbúið að umfang hlutdeildarlána aukist til skamms eða meðallangs tíma, fari svo að tekjumörk yrðu hækkuð. Við hækkun tekjumarka myndu fleiri einstaklingar með meiri greiðslugetu falla undir skilyrðin. Hins vegar er óvissa hvort tekjuhærri einstaklingar myndu kjósa að taka hlutdeildarlán í sama mæli og þeir tekjulægri, en það fer eftir aðstæðum hvers og eins, svo sem sparnaðargetu, núverandi greiðslubyrði og væntingum á markaði. Hækkun tekjumarka myndi leiða til þess að fleiri einstaklingar og fjölskyldur myndu bítast um sömu eignirnar þar sem framboð er hæg, breytanleg stærð og afleiðing af því yrði líklega sú að verð myndi hækka upp hámarksverð hvers íbúðarflokks fyrir sig, sem nánar er kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur.

Bankarnir yrðu einnig líklegri til að velja tekjuhærri einstaklinga umfram þá tekjulægri við veitingu grunnlána út frá eðlilegu áhættusjónarmiði. Þetta myndi leiða til þess að úrræði næði síður til einstaklinga í neðri hluta tekjudreifingarinnar. Hins vegar gæti hækkun tekjumarka aukið hvata byggingaraðila til að byggja hagkvæmt húsnæði vegna aukinnar eftirspurnar.“

Ég ætla að endurtaka þetta:

„Hins vegar gæti hækkun tekjumarka aukið hvata byggingaraðila til að byggja hagkvæmt húsnæði vegna aukinnar eftirspurnar. Þau áhrif [séu] hins vegar lengur að koma fram.“

Þannig að við samþykkt þessa frumvarps verður enn eftir hópur sem missti allt sitt í bankahruninu og fær hvergi fyrirgreiðslu, stenst ekki greiðslumat o.s.frv. Þess vegna er það athugandi, og nú beini ég orðum mínum sérstaklega til húsnæðismálaráðherra, að væntanlega þarf ekki nema reglugerðarbreytingu, eða með öðrum orðum, að lagfæra reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat. Ég bendi á þetta hér í lokin því að ef það er raunverulegur vilji til að koma til móts við þennan hóp fólks, sem er mjög fjölmennur og hefur beðið mjög lengi, þá er vandalítið fyrir ráðherra að gera það með eins og einu pennastriki. Að því sögðu vil ég segja að Miðflokkurinn styður málið með þeim fyrirvörum sem ég hef farið hér yfir.



[20:43]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, hlutdeildarlán. Búið er að tala um það í sex klukkutíma, virðulegur forseti. Það er nú ekki miklu við það að bæta. Mér finnst merkilegt að hér tala margir illa um frumvarpið, tala það niður, en ætla svo allir að greiða atkvæði með því á eftir. Ég ætla að tala fallega um það og greiða atkvæði með því á eftir.

Það er margt, og nánast allt, mjög gott í frumvarpinu að mínu viti. Þetta er svona frumvarp sem er sjálfseignarstefna Sjálfstæðisflokksins, að hjálpa ungu fólki sem býr við kröpp kjör til að eignast eigið húsnæði. Í því birtist vegurinn í frumvarpinu, virðist mér. Í núverandi fjármálaumhverfi þar sem vextir eru ótrúlega lágir, búið að afnema stimpilgjöld, og landið mun rísa úr sæ, þá er þetta gott innlegg í sjálfseignarstefnu Sjálfstæðisflokksins í húsnæðismálum.

Virðulegi forseti. Það er nánast búið að segja allt það sem ég ætlaði að segja hér og mér finnst óþarfi að ég verði áttundi þingmaðurinn til að endurtaka það sem allir hinir hafa sagt. Ég vona að frumvarpið verði samþykkt og það leiði gott af sér.



[20:45]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka til máls í lok þessarar umræðu um þetta mál sem er mjög mikilvægt, um hlutdeildarlán sem nú standa tekjulágu fólki til boða þegar frumvarpið verður samþykkt. Það er löngu kominn tími til að mæta tekjulágu fólki sem vill eignast sitt eigið húsnæði og byggja upp eign í því til framtíðar en hefur ekki haft möguleika á því að leggja fram þá fjármuni sem hefur þurft til til að geta fjármagnað eigin húsnæði. Eins og við þekkjum getur jafnvel verið dýrara að greiða leigu á opnum leigumarkaði en að borga niður lán og vera þá að eignast í húsnæðinu. Það á að vera val hjá fólki, hvort sem það er tekjulágt eða efnað, hvort það vilji vera á leigumarkaði eða eiga sitt eigið húsnæði.

Hér er farið fram með mjög gott og þarft mál sem verið er að hrinda í framkvæmd á þeim tímum sem við lifum, sem eru vissulega erfiðir og þá sérstaklega fyrir tekjulágt fólk. Það getur keypt sína fyrstu íbúð með þeim stuðningi sem þarna býðst, þ.e. að ríkið fjármagnar hluta af íbúðarhúsnæðinu, og hefur möguleika á að vera þar í öryggi.

Ég talaði hér, þegar hæstv. ráðherra flutti þetta mál, og hafði áhyggjur af því að þetta úrræði næði ekki út á landsbyggðina. Við sem búum á landsbyggðinni og þekkjum til vitum að mjög mikill sogkraftur er af landsbyggðinni hingað á höfuðborgarsvæðið og vitum að þörf er fyrir hagkvæmt húsnæði á allri landsbyggðinni sem standi tekjulágu fólki til boða. Ég talaði hér um það að ef ekki yrðu gerðar breytingar í þá átt að landsbyggðinni yrði tryggður hlutur í þessu mjög svo góða úrræði hefði ég áhyggjur af því að enn fleira fólk myndi sogast hingað þar sem þetta úrræði væri í boði fyrst og fremst. Það er auðvitað á mörgum stöðum um landið sem ekki er verið að byggja hagkvæmt húsnæði. Og hvort kemur á undan, eggið eða hænan? Það er oft spurt að því. Ég tel að það muni styrkja mjög landsbyggðina að í boði séu líka íbúðir og húsnæði fyrir tekjulága þannig að fólk geti haldið áfram að búa á þeim stað sem það vill búa á.

Ég er því mjög ánægð yfir þeim breytingum sem urðu á frumvarpinu í meðförum velferðarnefndar og tek þetta sérstaklega út fyrir sviga. Mér finnst mjög sérstakt þegar þingmenn Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar hafa miklar áhyggjur af að þetta hafi svo mikil áhrif og raski markaði úti á landi. Ég hefði haldið að allir ættu að gleðjast yfir því að hægt væri að bjóða láglaunafólki úti um land allt, hvort sem það býr á Raufarhöfn eða Tálknafirði, að vera þátttakendur í því að komast í hagkvæmt húsnæði og eignast sína fyrstu íbúð á þeim kjörum sem þarna bjóðast. Ég tel að eins og þetta er útfært sé tryggt að það séu að lágmarki 20% á ársgrundvelli sem bjóðist til uppbyggingar úti á landi. Ef það gengur ekki út renni það inn á þau svæði þar sem meiri eftirspurn er eftir úrræðinu. Það séu að lágmarki 20% sem standi til boða og getur verið meira eftir því hvernig eftirspurn er hvar sem er á landinu. Víða úti um land er verið að taka í gegn eldri fjölbýlishús og annað húsnæði og það er þá búið að breyta því að húsnæðið þurfi ekki að vera nýbyggingar heldur geti uppgert húsnæði uppfyllt kröfur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Ég tel að það hljóti allir að vera mjög ánægðir með hvernig þetta mál hefur þróast og þetta sé eitthvað sem hefur verið beðið eftir mjög lengi. Málið er hluti af lífskjarasamningi eins og við þekkjum og vonandi tekur þingheimur allur undir að það er löngu tímabært og við eigum öll að leyfa okkur að gleðjast yfir því að þetta frumvarp sé til meðferðar hér í þinginu og komi til afgreiðslu næstu daga.



[20:51]
Frsm. 1. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur kærlega fyrir yfirferð hennar og ræðu. Ég sem jafnaðarmanneskja fagna því að sjálfsögðu heils hugar að úrræði, sem liðka á til fyrir landsmönnum svo þeir geti keypt sér íbúðir og liðka til fyrir efnaminna fólki svo það geti keypt sér íbúðir um allt land, standi öllum landsmönnum til boða.

Það sem ég hefur örlitlar áhyggjur af er að í breytingartillögum meiri hluta er ekki gerður greinarmunur á stöðum eins og Raufarhöfn og t.d. Selfossi, eins og hv. þingmaður nefndi. Talað er um landsbyggðina annars vegar og svo um allt svæðið utan höfuðborgarsvæðisins, þegar kemur að því að endurnýta eldri íbúðir. Ég hefði haldið að við þyrftum að styðja sérstaklega við köld svæði, þau svæði þar sem ekki hefur verið nein uppbygging íbúða. Það hefur einmitt verið talað um að þetta sé líka til að örva uppbyggingu íbúða á köldum svæðum.

En ég held að við getum verið sammála um það, við hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, að svæðið í kringum höfuðborgarsvæðið, Selfoss, Reykjanesbær, sem og t.d. Akureyri geta varla talist vera svæði þar sem engin uppbygging á fasteignum hefur átt sér stað, eins og reyndin er á þeim svæðum sem flokkast sem hin köldu svæði. Þess vegna þykir mér pínulítið óréttlátt að íbúar á Raufarhöfn sitji við sama borð og íbúar á þessum svæðum, ef það er sérstaklega verið að styðja við (Forseti hringir.) uppbyggingu á landsbyggðinni.



[20:54]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta séu óþarfar áhyggjur hjá hv. þingmanni. Úrræðið er komið til að vera og við þurfum bara að sjá hvernig reynslan af því verður til að meta hvort greina þurfi sérstaklega þau svæði þar sem misvægi er á milli markaðsverðs og byggingarkostnaðar. Komi í ljós að þau svæði, sem við getum kallað köld svæði, verði eftir sem áður út undan þurfum við að taka sérstaklega á því. Ég ætla ekki að gefa mér fyrir fram að svo verði. En ef það verður þá verðum við að taka á því.

Ég held að það séu óþarfa fyrir fram áhyggjur því að auðvitað er þetta úrræði eins og öll önnur, það þarf alltaf að koma reynsla á hvernig það gengur upp. Kannski verður það mjög mismunandi á milli ára. Kannski mettast ákveðin svæði og það verður sveigjanleiki og hreyfanleiki á milli svæða. En ég held að ekki sé hægt að dæma það fyrir fram, ekki fyrr en við erum búin að sjá a.m.k. tvö til þrjú ár af úrræðinu og hvernig það á eftir að þróast.



[20:55]
Frsm. 1. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Það er einmitt það sem getur verið heppilegt, þ.e. að búið er að stytta tímann. Það átti að endurskoða úrræðið að tíu árum liðnum en nú hefur það verið stytt til 1. júlí 2023, þannig að eftir tvö og hálft ár á að endurskoða það. Það er þá kannski einmitt í þeim tilgangi að athuga hvort mögulega hafi verktakar eftir sem áður kosið að byggja íbúðir og húsnæði þar sem byggingarkostnaður fer ekki langt yfir markaðsverð. Það er raunin núna, að markaðsverð á þessum köldu svæðum er því miður það lágt að það stendur ekki undir kostnaði við byggingarnar. Og þegar tekin er ákvörðun um að allt svæðið utan höfuðborgarsvæðisins lúti sömu lögmálum er það tiltölulega einfalt reikningsdæmi fyrir þann sem þekkir lögmálið um framboð og eftirspurn. Og lögmálið um að fari maður í framkvæmd ætli maður sem verktaki a.m.k. ekki að tapa á henni. Ég held að við hljótum að skilja þann hvata sem verið er að búa til fyrir verktaka, að þeir reisi frekar byggingar á svæðum þar sem líklegt er að þeir fái eitthvað fyrir sinn snúð en á köldum svæðum. En við skulum vona að það séu margir miskunnsamir samverjar þarna (Forseti hringir.) einhvers staðar og að þeir séu tilbúnir til að reisa líka byggingar (Forseti hringir.) á köldum svæðum.



[20:58]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held ekki að við eigum að treysta á einhverja miskunnsama samverja til að vinna það verk sem fram undan er. Ég reikna með að allir fái greitt fyrir verk sín, hvort sem verið er að endurgera eldra húsnæði eða annað, og koma því í það horf að það teljist hagkvæmt, sem gæti verið raunin víða um land. Ég held að menn sjái tækifæri til að gera það. Menn vita að þar er verið að kaupa húsnæði á allt öðru verði en raunvirði og geta þá tekið það í gegn og selt það. Byggingarverktakar fara eðlilega ekki út í framkvæmdir ef þeir sjá ekki hag sinn í því.

Ég held að í frumvarpinu felist möguleiki á að efla landsbyggðina og byggja þar upp fyrir lágtekjufólk, að það eignist sína fyrstu íbúð. Ég held að þetta gæti verið mikill hvati fyrir fólk til að setjast að á þessum stöðum og styrki yfir höfuð markaðsverð á húsnæði þar. Það hefur því miður verið allt of lágt og fjarri því að vera raunvirði. Ég held að það sé líka brýnt að lyfta upp verði á húsnæði á landsbyggðinni frá því sem það er svo það sé þokkalega raunverulegt, þó að það verði auðvitað aldrei það sama og á þenslusvæðum, eins og á höfuðborgarsvæðinu. En við skulum sjá hvernig þetta gengur. Ég hef trú á úrræðinu og ef við þurfum að endurskoða það, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, (Forseti hringir.) þá gerum við það.