151. löggjafarþing — 13. fundur.
stjórnarskipunarlög, 1. umræða.
frv. ÞSÆ o.fl., 26. mál. — Þskj. 26.

[17:53]
Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Frumvarpið er nú flutt í þriðja sinn en það byggir á frumvarpi stjórnlagaráðs sem tveir þriðju hlutar kjósenda samþykktu að leggja ætti til grundvallar nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Frumvarpið er flutt af þingflokkum Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins ásamt hv. þingmönnum utan flokka, Andrési Inga Jónssyni og Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Með frumvarpinu vilja flutningsmenn taka upp þráðinn þar sem frá var horfið árið 2013 þegar nýju stjórnarskránni var stungið ofan í skúffu.

Segja mætti að frumvarpið sé eins konar stöðuskjal en það sýnir hvar málið var statt þegar þingið hætti afskiptum af málinu á sínum tíma, fellir t.d. inn í textann breytingartillögur úr framhaldsnefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá þeirri tíð. Markmið frumvarpsins er að taka saman í eitt heildstætt skjal alla þá vinnu sem farið hefur í nýju stjórnarskrána inni á Alþingi. Það er að okkar mati æskileg nálgun til þess að halda áfram meðferð málsins á lýðræðislegan hátt. Því kynnum við þetta myndarlega skjal til leiks.

Virðulegur forseti. Ísland er lýðræðisríki eða Ísland ætti a.m.k. að vera lýðræðisríki. En hvers konar lýðræði er það að þing og ríkisstjórn virði að vettugi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu? Svarið er að við getum ekki með góðri samvisku sagt að við búum í lýðræðisríki þegar stjórnvöld neita að fylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú heyrast oft í andstæðingum nýju stjórnarskrárinnar einhver rök á þá leið að þetta hafi nú bara verið ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég vil minna þessa sömu andstæðinga á að Brexit var líka ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla en ekki datt breskum þingheimi í hug að virða niðurstöðu hennar að vettugi þótt niðurstaðan væri þeim mörgum þvert um geð enda er Bretland lýðræðisríki, nema hvað. Rithöfundurinn Halldór Armand Ásgeirsson lýsti þessu brenglaða viðhorfi andstæðinganna til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu mjög vel í nýlegum pistli á RÚV en þar sagði hann, með leyfi forseta:

„Þingið leitaði þar eftir ráðgjöf þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá en gleymdi að láta hana vita að hugmyndin væri sú að ráðgjöfin væri negatíf — það ætti einmitt að gera hið andstæða við ráðgjöfina. Þjóðaratkvæðagreiðslan var einstök á heimsvísu að því leyti að tilgangurinn með henni var að komast að því hvað þjóðin vildi en gera síðan hið gagnstæða. Ef þjóðin lýsti því yfir í ráðgjöf sinni að hún vildi nýja stjórnarskrá byggða á tillögum sem voru til staðar, þá yrði það einmitt ekki gert.“

Virðulegi forseti. Það sér það auðvitað hver heilvita manneskja að þessi rök standast enga skoðun. Það er bara ekki í boði að hunsa ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í lýðræðisríki, punktur.

Forseti. Því hefur stundum verið haldið fram að nýja stjórnarskráin sem hér um ræðir sé á einhvern hátt umbylting gildandi stjórnarskrár. Svo er ekki. Hún er tímabær og viðeigandi uppfærsla. Þess má geta að tæplega 80% af gömlu stjórnarskránni er áfram að finna í þeirri nýju. Þessi stjórnarskrá felur í sér margvíslegar réttarbætur fyrir Ísland, m.a. betri mannréttindavernd en mannréttindavernd er eitt mikilvægasta hlutverk stjórnarskrár. Þess vegna ákvað stjórnlagaráð á einum af sínum fyrstu fundum að endurskoðun mannréttindakafla stjórnarskrárinnar væri eitt af þeim meginverkefnum sem ráðið vildi taka sér fyrir hendur. Áherslan á mannréttindi í nýju stjórnarskránni sést kannski best í því að mannréttindakaflinn er færður úr VII. kafla yfir í II. kafla og er þannig fremst í nýju stjórnarskránni, á eftir undirstöðukaflanum.

Mannréttindakafli núgildandi stjórnarskrár var uppfærður á sama tíma og mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur hér á landi enda var nauðsynlegt að uppfæra íslensk mannréttindaákvæði samhliða lögfestingu sáttmálans. Þetta voru stjórnarskipunarlög nr. 97/1995 en þau fólu í sér mikla réttarbót hvað varðar vernd mannréttinda á Íslandi. Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar hefur staðið óhreyfður síðan þrátt fyrir þá miklu og öru þróun sem hefur orðið í samfélaginu í kjölfarið. Internetið og samfélagsmiðlar hafa gjörbreytt samfélagsgerðinni og því hvernig við eigum samskipti og hvaða réttindi við teljum að stjórnvöld eigi að tryggja borgurum sínum. Hrunið breytti sýn okkar á samfélagið og neyddi þjóðina til að endurmeta gildi sín eins og sést vel í aðfaraorðum nýju stjórnarskrárinnar.

Allar mannréttindagreinarnar í núgildandi stjórnarskrá voru uppfærðar að einhverju leyti í nýju stjórnarskránni en hún felur einnig í sér ýmis mikilvæg nýmæli í mannréttindavernd. Í fyrsta lagi má nefna 5. gr. um vernd mannréttinda. Samkvæmt greininni ber handhöfum ríkisvalds að virða mannréttindi og tryggja að allir fái notið þeirra réttinda og þess frelsis sem í stjórnarskránni felst. Í 7. gr. segir að allir hafi meðfæddan rétt til lífs. Þetta er nýtt ákvæði sem byggir á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum eins og 2. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem tryggir þennan mikilvæga og meðfædda rétt. Þá má nefna 8. gr. um mannlega reisn. Um nýtt ákvæði er að ræða sem hefur það að markmiði að festa í sessi hugmyndafræðilegan grunn mannréttindaverndar sem felst í virðingu fyrir mannlegri reisn og fyrir margbreytileika mannlífs. Ákvæðið byggir á 1. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Sambærilegt ákvæði má einnig finna í 1. gr. þýsku stjórnarskrárinnar, Grundgesetz, með leyfi forseta:

„Die Würde des Menschen ist unantastbar. Sie zu achten und zu schützen ist Verpflichtung aller staatlichen Gewalt.“ Eða á íslensku: Mannleg reisn er ósnertanleg. Að virða hana og vernda er skylda alls ríkisvalds.

Þetta er mikilvæg grundvallarforsenda þýsku stjórnarskrárinnar. Skyldi engan undra. Það er mikilvægt að hafa það í stjórnarskrá að það sé hlutverk okkar allra að vernda mannlega reisn.

En áfram um nýmæli, virðulegi forseti. 10. gr. nýju stjórnarskrárinnar fjallar um vernd gegn ofbeldi. Í greininni segir að allir skuli njóta verndar gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi innan heimilis og utan. Mörgum andstæðingum hefur fundist þetta ákvæði vera óþarfi, m.a. þar sem vernd gegn ofbeldi er að finna í almennum hegningarlögum — og það er rétt. Ég hef veitt því athygli að þessir úrtölumenn eru alla jafna karlmenn og kann það mögulega að hafa áhrif á afstöðu þeirra að nóg sé gert í vernd ríkisins gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi eða heimilisofbeldi. En ég og margar konur, veit ég, erum ósammála þessum óþurftarrökum vegna þess að vissulega er þörf og nauðsyn að festa þessa mikilvægu vernd gegn ofbeldi í stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. 17. gr. frumvarpsins fjallar um upplýsinga- og þátttökurétt og um möguleika almennings og fjölmiðla til að fá upplýsingar og gögn frá stjórnvöldum. Hann er hér lögfestur í stjórnarskrá. Það er gríðarlega mikilvægt ákvæði sem felur í sér upplýsingarétt almennings í fyrsta sinn í stjórnarskrá. Þetta á líka við um 18. gr. um frelsi fjölmiðla og 24. gr. um frelsi menningar og mennta ásamt nýju ákvæði sem tryggir menningarleg réttindi, t.d. akademískt frelsi og frelsi listamanna til listsköpunar. Við höfum nú nýlega séð dæmi þess að ráðherra þessarar ríkisstjórnar lítilsvirði akademískt frelsi, brjóti á því og valti yfir fræðimenn með hroka og yfirgangi. Við hefðum gott af ákvæði sem þessu í stjórnarskrá.

Þá er í frumvarpinu að finna mikilvæg ákvæði um rétt til bestu mögulegu heilsu, þ.e. í 26. gr. frumvarpsins. Ég hef heyrt ýmsa andstæðinga, oft lögfræðimenntaða menn, spyrja í forundran hvað þessi réttur til heilsu sé eiginlega, hvað hann þýði nú eiginlega. Auðvitað nær það engri átt, virðulegi forseti, að lögfróðir menn láti eins og þeir hafi aldrei heyrt um ein af mikilvægustu félagslegu réttindunum sem Ísland hefur undirgengist að virða. Auðvitað þekkja þeir réttinn til bestu mögulegu heilsu, en kunni þeir ekki inn á þessi mikilvægu félagslegu réttindi get ég bent þeim á vefsíðuna rettindagatt.is þar sem rétturinn til bestu mögulegu heilsu er útskýrður á auðlesnu og aðgengilegu máli þeim til glöggvunar. Þetta eru mikilvæg réttindi. Þetta eru réttindi sem oft hafa komið til tals undanfarið. Skyldi engan undra enda er forsenda þess að við beitum jafn ríkum takmörkunum og við erum að gera akkúrat núna að til standi að vernda líf og heilsu manna með þeim takmörkunum sem settar eru á frelsi fólks. Loks má nefna önnur mikilvæg félagsleg réttindi eins og rétt til menntunar, réttindi barna og ákvæðið um í hvaða tilfellum megi takmarka mannréttindi, á hvaða hátt það skuli gert og hvaða mannréttindi sæti engum takmörkunum. Þar erum við t.d. að tala um bann við pyndingum sem má bara aldrei standa að.

Virðulegur forseti. Eins og sést og heyrist á þessari löngu upptalningu felur þetta frumvarp í sér margvíslegar úrbætur á gildandi stjórnarskrá. Staða mannréttindaverndar og vernd borgararéttinda væri miklu traustari og öflugri hér á landi ef þetta frumvarp tæki gildi sem hin nýja íslenska stjórnarskrá.

Snúum okkur nú að þeim kafla frumvarpsins sem inniheldur, að mínu mati og margra annarra, helstu ástæður þess að þjóðarviljinn hefur verið virtur að vettugi hingað til, kaflanum sem inniheldur auðlindaákvæðið góða. Þetta er III. kafli frumvarpsins sem nefnist Samfélag og náttúra. Þar er að finna ákvæði um samfélag og náttúru og ýmis nýmæli, t.d. um dýravernd og menningarverðmæti. En einna mikilvægust eru ákvæði um náttúru Íslands og nýtingu náttúrugæða og áðurnefndar náttúruauðlindir. Í 34. gr. segir að náttúra Íslands sé undirstaða lífs í landinu, öllum beri að virða hana og vernda. Í því felist að fjölbreytni lands og lífríkis sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skuli bætt eftir föngum og með lögum skuli tryggja að allir hafi aðgang að óspilltri náttúru og að nýtingu náttúrugæða skuli haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og að gildi náttúrunnar og hagsmunir komandi kynslóða séu virt.

Í 35. gr. er svo þetta mikilvæga og erfiða ákvæði um náttúruauðlindir, það ákvæði sem mest hefur verið rætt um undanfarin misseri. Samkvæmt greininni eru auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru háðar einkaeignarrétti sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Auðlindaákvæðið festir í stjórnarskrá þá meginreglu að þjóðin, sem er eigandi auðlindarinnar, eigi rétt á því að hún sjálf fái að haga nýtingu hennar og þegar kemur að fiskveiðiauðlindinni sitji hagnaðurinn ekki eftir hjá útgerðarrisum heldur skili sér til eigandans, þjóðarinnar. Þetta er það nýja sem stjórnarskráin tryggir. Og hér, virðulegi forseti, stendur hnífurinn rækilega í kúnni vegna þess að þeir sem ráða ríkjum, þeim finnst þjóðin ekki geta átt neitt og að hún eigi alls ekki að fá þessa peninga sem örfáir útvaldir vinir fá fyrir auðlindirnar.

Aðeins að tæknilegum atriðum þessa mikilvæga ákvæðis, virðulegi forseti. Talsvert hefur verið rætt um orðalag 5. mgr. 35. gr. í þessu frumvarpi þar sem kveðið er á um leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda og að það megi aðeins veita gegn eðlilegu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Eins og allir sem nokkurn tímann hafa komið að þessu máli vita var orðalaginu breytt í meðförum þingsins á sínum tíma en í tillögum stjórnlagaráðs var kveðið á um að greiða skyldi fullt gjald fyrir afnotin. Ég vil því koma aðeins inn á þann skilning sem við leggjum í fullt gjald og sanngjarnt og eðlilegt gjald. Þegar kemur að auðlind á markaði, eins og fiskveiðiauðlindinni, á þjóðin auðvitað rétt á því að fá fyrir hana fullt gjald. Við sem flutningsmenn málsins hér á þingi teljum okkur þó ekki hafa umboð til að breyta frekar og eftir eigin hentisemi frumvarpstextanum eins og hann lá fyrir í lok þings árið 2013. Ef gera á frekari breytingar á ákvæðinu verður að gera það annaðhvort með þinglegri meðferð eða jafnvel með aðkomu almennings. Það sem við gerðum þó við framlagningu málsins að þessu sinni var að skýra enn betur hvernig túlka beri þessa grein með því að bæta nýjum kafla við greinarskýringar 35. gr. sem fjallar um hvernig túlka beri þessi orð, „gegn eðlilegu gjaldi“. Eins og segir í greinargerð, með leyfi forseta:

„Orðalagið „gegn eðlilegu gjaldi“ ber að túlka með hliðsjón af 4. mgr. greinarinnar þar sem áskilið er að við nýtingu auðlindanna skuli hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Með orðinu almannahagur er m.a. vísað til þess að þjóðin eigi auðlindirnar og geri sem eigandi þeirra tilkall til arðsins af þeim. Í samræmi við eignarréttarleg sjónarmið er því að meginreglu eðlilegt að tekið sé fullt gjald af nýtingu auðlinda í þjóðareigu. Með fullu gjaldi er átt við markaðsverð, þ.e. hæsta gjald sem nokkur er fús að greiða, t.d. á markaði eða uppboði eða í samningum við ríkið sem umboðsmann rétts eiganda, þjóðarinnar. Sem fyrr greinir er fullt gjald meginreglan og á við í þeim tilvikum þar sem auðlindarenta myndast á annað borð. Ef auðlindanýting er á hinn bóginn með þeim hætti að ekki er um auðlindarentu til einkaaðila að ræða, svo sem vegna samfélagslegra verkefna, rannsókna eða hefðbundinnar nýtingar einstaklinga án verulegrar tekjusköpunar, getur löggjafinn kveðið á um að eðlilegt gjald sé eftir atvikum ekkert eða ákveðið með öðrum hætti en á markaði eða uppboði, svo sem með fastri gjaldskrá. Almennt er gert ráð fyrir að löggjafinn leitist við að ákvarða hlutdeild þjóðarinnar hvorki svo lága að hún verði af tekjum sem henni tilheyra með réttu sem eiganda auðlindanna né svo háa að það hamli nýtingunni og eðlilegri arðsemi af henni sem slíkri að teknu tilliti til fjárbindingar og áhættu.“

Ég vona að þetta skýri aðeins okkar nálgun gagnvart þessu mikilvæga ákvæði og gagnvart þessu orðalagi sem hefur svo lengi verið bitbein í umræðunni þegar kemur að auðlindaákvæðinu.

Snúum okkur nú að IV. kafla frumvarpsins, virðulegi forseti, kaflanum sem snýr að Alþingi. Í frumvarpi stjórnlagaráðs var umfjöllun um Alþingi í III. kafla en vegna breytinga á II. kafla frumvarpsins færist númer kaflans ofar. IV. kaflinn fjallar um verkefni og störf Alþingis og alþingismanna, kosningar til Alþingis og lýðræðislega þátttöku almennings. Þessi kafli frumvarpsins felur í sér viðamestu umbæturnar á gildandi stjórnarskrá. Núgildandi stjórnarskrá byggir að miklu leyti á fyrstu stjórnarskrá Íslands sem við fengum árið 1874 frá Danmörku. Nefnist hún Stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands. Á þeim tíma var Ísland undir konungsveldi Danmerkur og stjórnarskráin endurspeglaði það eðlilega. Þegar Ísland varð svo fullvalda og sjálfstætt lýðræði árið 1944 fengum við nýja stjórnarskrá sem er í gildi enn þann dag í dag. Sú stjórnarskrá byggðist að miklu leyti á grunni gildandi stjórnarskrár. Það má því segja að ekki hafi farið fram raunveruleg heildarendurskoðun heldur hafi einungis verið gerðar nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni við það tækifæri og raunverulega heildarendurskoðunin geymd. Hlutverk og stjórnskipuleg staða Alþingis gagnvart öðrum örmum ríkisvaldsins er því á mörgum stöðum óljós í núgildandi stjórnarskrá og byggir jafnvel frekar á túlkun og hefð en raunverulegum og skýrum lagaákvæðum. Nýja stjórnarskráin kveður með skýrum hætti á um skipulag og starfshætti Alþingis. Þremur meginverkefnum Alþingis, löggjafarstarfi, þingeftirliti og fjárstjórnarvaldi, er sérstaklega lýst í grein um hlutverk þingsins, reglum um meðferð þingmála er breytt talsvert auk þess sem sérstakri grein um meðferð þingsályktunartillagna og annarra þingmála er bætt við. Eftirlitshlutverk þingsins er styrkt og staða stjórnarandstöðunnar og minni hlutans er efld. Skilyrði til greiðslna úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er þrengd og heimild til að veita ríkisábyrgð á einkaskuldum þarf að helgast af almannahagsmunum. Þá er sett á fót nefnd sem nefnist lögrétta sem kosin er af Alþingi og gefur álit um stjórnskipunarlegt gildi lagafrumvarpa.

Það blasti við okkur, virðulegi forseti, í efnahagshruninu sem reið yfir árið 2008 að ýmsir þættir í stjórnskipun Íslands virkuðu alls ekki sem skyldi. Það var nauðsynlegt að gera úrbætur. Þetta kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna sem og á þjóðfundunum 2009 og 2010. Meðal þeirra niðurstaðna sem komu fram á þjóðfundinum 6. nóvember 2010 var krafa um temprun valds í stjórnskipun landsins, að skerpa yrði á aðgreiningu löggjafar- og framkvæmdarvalds, að styrkja þyrfti stöðu Alþingis og að efla þyrfti stjórnsýsluna. Nýja stjórnarskráin gerir einmitt það. Hún nefnir líka sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu. Nýja stjórnarskráin eykur á sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, m.a. með því að skýra og skerpa á eftirlitshlutverki þingsins og leggja áherslu á að auka fagmennsku við undirbúning löggjafar. Til að ná fram þessari styrkingu löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu er í frumvarpinu að finna víðtækar breytingar sem ég ætla að fara yfir nú.

Í fyrsta lagi felur hún í sér að Alþingi kjósi forsætisráðherra í beinni opinni kosningu. Þannig er það skýrt enn betur að forsætisráðherra og ríkisstjórn ráðherra situr í skjóli meiri hluta þingsins og er það ítrekað með samspili við skýrt ákvæði um vantraust. Í öðru lagi er löggjafarhlutverk þingsins bætt. Alþingi verður eini handhafi löggjafarvaldsins og forseti kemur ekki lengur að því enda kemur hann ekki að framlagningu mála frá ríkisstjórn. Áskilið er að frumvörpum skuli fylgja mat á áhrifum og möguleikinn er opnaður á að frumvörp fari í tvær umræður frekar en þrjár. Þá mun fjórðungur þingmanna geta vísað frumvarpi til Lögréttu. Forseti mun þó áfram hafa synjunarvald og geta sent mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þriðja lagi verður Alþingi aðeins rofið með ályktun þingsins sjálfs en ekki samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra eins og nú er. Þá er afnumin heimild forsætisráðherra til að gefa út bráðabirgðalög. Löggjafarvaldið er Alþingis og það á eitt að fara með það vald. Þá sitja ráðherrar ekki lengur á þingi og verða þingmenn sem verða ráðherrar að víkja úr þingsæti sínu. Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt skref í átt að aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdarvalds og eykur sjálfstæði þingsins til muna. Eftirlit fjárlaganefndar þingsins með greiðslum úr ríkissjóði utan fjárlaga er stóreflt. Þá eru mikilvægar sjálfstæðar eftirlitsstofnanir þingsins festar í stjórnarskrá, þ.e. umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun. Loks eru Alþingi fengin ýmis önnur og aukin verkefni til eftirlits með framkvæmdarvaldinu. Meðal þeirra má nefna að kveðið er á um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í stjórnarskrá.

Þá kveður frumvarpið á um ýmsar breytingar sem styrkja stöðu minni hlutans og munu koma til með að auka samráð á milli stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi. Forseti Alþingis verður kjörinn með tveimur þriðju hluta atkvæða og víkur hann frá almennum þingstörfum og hefur ekki atkvæðisrétt. Þetta er til þess fallið að efla traust alls þingsins til forseta og tryggja að hann starfi raunverulega í umboði allra þingmanna en ekki bara meiri hlutans. Loks munu ýmis mál sem krefjast þinglegrar meðferðar og samþykktar þurfa kosningu frá auknum meiri hluta, þ.e. atkvæði aukins meiri hluta þingmanna, tveggja þriðju hluta.

Þegar kemur að alþingiskosningum, virðulegi forseti, er í frumvarpinu að finna talsverðar breytingar frá gildandi stjórnarskrá. Í frumvarpinu, eins og það er lagt fram hér, er kveðið á um að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu skuli vega jafnt eftir því sem unnt er. Þá er í frumvarpi stjórnlagaráðs kveðið á um heimild til að skipta landinu upp í kjördæmi, flest átta. Þessi takmörkun hefur síðan verið fjarlægð eftir meðferð þingsins. Kveðið er á um heimild kjósenda til að velja annaðhvort lista eða kjósa einstaka frambjóðendur í persónukjöri. Það sem stendur hér sérstaklega upp úr er að nýja stjórnarskráin tryggir lýðræðið miklu betur þar sem atkvæðavægi verður jafnt, öfugt við það sem nú er. Rödd allra mun hafa sama vægi, óháð því hvort viðkomandi býr í miðbæ Reykjavíkur, Breiðholtinu, Skagafirðinum, á Akureyri eða Egilsstöðum. Í kaflanum er einnig að finna frekari umbætur sem eru fallnar til þess að tryggja gagnsæi í störfum Alþingis og alþingismanna. Til dæmis fjallar 51. gr. um hagsmunaskráningu þingmanna og hvenær þeir eru vanhæfir til að fjalla um þingmál. Þá er enn fremur kveðið á um styrki til frambjóðenda og samtaka þeirra í 52. gr.

Í nýju stjórnarskránni er líka að finna ákvæði um forseta Íslands, í V. kafla. Samkvæmt frumvarpinu skal forseti ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil. Lagðar eru til breytingar á kosningu til embættis forseta. Munu kjósendur geta raðað frambjóðendum í forgangsröð og mun sá sem best uppfyllir forgangsröðun kjósenda vera réttkjörinn forseti. Lagðar eru til töluverðar og mikilvægar og nauðsynlegar breytingar á valdheimildum forseta. Í núgildandi stjórnarskrá er á nokkrum stöðum kveðið á um tiltekin hlutverk forseta á meðan aðkoma hans er í raun einungis formlegs eðlis þar sem hann lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Samkvæmt frumvarpinu mun forseti ekki lengur hafa valdheimildir til framlagningar stjórnarfrumvarpa, útgáfu stjórnvaldsfyrirmæla né gerðar þjóðréttarsamninga. Þá mun forseti heldur ekki lengur hafa vald til þess að rjúfa þing. Þess skal þó getið að forseti hefur áfram heimild til að synja frumvörpum um undirskrift og senda mál til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í sjötta kafla nýju stjórnarskrárinnar er fjallað um ríkisstjórn og ráðherra. Þar er fjallað um ríkisstjórn og myndun hennar, verksvið ráðherra og ábyrgð, vantraust á ráðherra, starfsstjórnir og önnur tengd atriði. Greinarnar eru mun ítarlegri en þær sem eru í núgildandi stjórnarskrá. Þá er fjallað nánar um ráðherra, hlutverk þeirra, ábyrgð og skyldur. Ákvæði núgildandi stjórnarskrár um framkvæmdarvaldið, ráðherra og ríkisstjórn standa nánast óbreytt frá árinu 1874. Með nýju stjórnarskránni þurfa þingmenn að víkja úr þingsæti á meðan þeir gegna embætti ráðherra og hafa ekki atkvæðisrétt í þinginu þó að þeir geti enn mælt fyrir málum, svarað fyrirspurnum og flutt skýrslur. Það nýmæli er í frumvarpinu að ráðherrar bera sannleiksskyldu gagnvart þinginu. Og ráðherraábyrgð er loks miklu skýrari en í gildandi stjórnarskrá. Í 97. gr. er kveðið á um lagalega ábyrgð ráðherra vegna embættisverka og um málsmeðferð til að koma slíkri ábyrgð fram.

Forseti. Samantekið eru þetta gríðarlegar réttarbætur sem ný stjórnarskrá, grundvölluð á tillögum stjórnlagaráðs, felur í sér fyrir lýðveldið Ísland. Við erum að tala um betri mannréttindavernd. Við erum að tala um miklu meiri ábyrgð valdhafa gagnvart kjósendum sínum. Við erum að tala um upplýsingarétt almennings, tryggðan í stjórnarskrá. Við erum að tala um auknar kröfur á gagnsæi um ákvarðanir valdhafa. Og við erum að tala um auðlindir í þjóðareign. Þetta ætti ekki að vera flókin umræða. Þetta ætti ekki að vera mál sem er búið að fljóta um í einhverjum ótrúlegum rangala hér á Alþingi í átta ár frá því að þjóðin samþykkti að leggja skyldi þessi drög til grundvallar nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland fyrir átta árum.

Eins og ég kom að í upphafsorðum mínum, virðulegi forseti, getum við ekki með góðu móti kallað okkur lýðræðisríki. Ísland og íslenska ríkisstjórnin getur ekki sagst standa fyrir lýðræði og vera ríkisstjórn í lýðræðisríki ef hún hunsar vilja þjóðaratkvæðagreiðslu, ef hún hunsar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Samþykkt nýju stjórnarskrárinnar er grundvallarspurning um að auka traust á Alþingi, um að auka traust á stjórnmálum. Hvers vegna ætti þjóðin að treysta ríkisstjórn sem hlustar ekki á hana? Hvers vegna ætti þjóðin nokkru sinni að taka aftur þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu ef niðurstöður þjóðarinnar eru síðan hunsaðar? Mér finnst ótrúlega dapurt að búa í landi þar sem átta ár hafa liðið frá því að þjóðin, stjórnarskrárgjafinn, komst að þeirri niðurstöðu að hún vildi nýjan samfélagssáttmála fyrir Ísland, að hún vildi nýjan samning, að hún vildi nýtt regluverk um hvernig hinir kjörnu fulltrúar, valdhafar á Íslandi, fengju að haga sér, hvaða leikreglur gildi á Íslandi. Það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn. Það er þjóðin sem hefur það umboð að setja okkur sem hér stöndum leikreglur. Það er ekki einstakra stjórnmálamanna, það er ekki formanna flokkanna, það er ekki forsætisráðherra að leika sér með það.



[18:23]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna í þessu mikilvæga máli. Aftur og enn erum við hér stödd, þingmenn, að mæla fyrir og mæla með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, frumvarpinu óbreyttu eins og það stóð þegar lýðræðislegasta starfi að ritun stjórnarskrár sem þekkist hafði staðið yfir um missera skeið vegna baráttu Jóhönnu Sigurðardóttur sem alla tíð stóð með þeirri sannfæringu sinni í störfum sínum hér í þinginu að ný stjórnarskrá myndi færa íslenska þjóð fram á veginn og til betra samfélags. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs. Nefnd um málið mun hefja störf í upphafi nýs þings og leggur ríkisstjórnin áherslu á að samstaða náist um feril vinnunnar.“

Já, nefndin hefur vissulega verið að störfum. Þar sem samstaða er engin, hvorki innan ríkisstjórnar né utan, mun hæstv. forsætisráðherra flytja nokkur frumvörp til breytinga á stjórnarskipunarlögum sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, ekki sem leiðtogi þeirrar samstöðu sem hún kallaði eftir, en ríkisstjórnin lagði við upphaf kjörtímabilsins áherslu á, ég endurtek, með leyfi forseta, „að samstaða náist um feril vinnunnar“. Það er kannski þarna sem lykilorðið er, „feril vinnunnar“, að samstaða næðist um ferlið sjálft en ekki málið sjálft greinilega. Kannski var aldrei um það að ræða af hálfu stjórnarflokkanna þriggja, þeirrar breiðu stjórnar, að samstaða yrði um efnið. Kannski var þetta samstaða um ferlið á kjörtímabilunum en ekki neitt annað og það er kannski það sem er að birtast okkur núna.

Við í Samfylkingunni höfum ítrekað bent á mikilvægi þess að Alþingi Íslendinga virði vilja þjóðarinnar í þessu máli. Þrátt fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla sem átti átta ára afmæli í gær hafi verið ráðgefandi þá var niðurstaðan skýr. Við megum aldrei gleyma að stjórnarskrárgjafinn er íslenska þjóðin. Þjóðin skal kjósa um stjórnarskrá en löggjafinn er Alþingi og það er okkar hér að vinna frumvörp til stjórnarskipunarlaga og klára málið. Hér gefst almenningi og félagasamtökum kostur á að senda inn umsagnir og mæta fyrir fastanefndir Alþingis. Hæstv. forsætisráðherra hefur talað um að mikilvægast sé að um þetta mál náist sem breiðust sátt og þess vegna spyr ég hér: Sátt hverra og um hvað? Er nóg að sátt náist um ferlið? Er nóg að sátt náist um það að hæstv. forsætisráðherra leggi fram frumvarp í eigin nafni? Mér þykir það harla lítill metnaður hjá hæstv. ríkisstjórn, verð ég að segja.

Barátta jafnaðarmanna fyrir nýrri stjórnarskrá hefur staðið áratugum saman. Vilmundur Gylfason og Jóhanna Sigurðardóttir voru lengi vel í fararbroddi þeirra sem töluðu ítrekað fyrir nýrri stjórnarskrá en á undan þeim höfðu forverar þeirra á þingi, í ýmsum flokkum, lagt til stöku breytingar á þeirri bráðabirgðastjórnarskrá sem danski kóngurinn færði nýlenduþjóð sinni. Ákallið eftir nýrri og breyttri stjórnarskrá jókst mjög eftir bankahrunið 2008. Jóhanna Sigurðardóttir setti málið á dagskrá þegar hún tók við lyklunum í Stjórnarráðinu og hófst þá, svo ég leyfi mér að vitna í orð frú Vigdísar Finnbogadóttur, víðfeðmasta og lýðræðislegasta starf að stjórnarskrárritun sem sagan kann frá að greina.

Ég er sammála frú Vigdísi. Stjórnlaganefnd var sett á fót, 1.000 manna þjóðfundur fólks af öllu landinu sem valinn var með slembiúrtaki, sat á rökstólum um þau gildi og markmið sem ættu að vera í samfélagssáttmála íslenskrar þjóðar. Stjórnlagaþing var kjörið og síðan stjórnlagaráð skipað af Alþingi, þar sem raddir ólíkra afla úr samfélaginu fengu hver sitt sæti. Ráðið vann um nokkurra mánaða skeið og afhenti Alþingi drög að nýrri stjórnarskrá sem borin var undir þjóðina með þjóðaratkvæðagreiðslu. Yfirgnæfandi meiri hluti vildi að á því verki yrði byggt. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis lauk vinnu við frumvarp til nýrra stjórnarskipunarlaga, byggt á verki stjórnlagaráðs, að vilja þjóðarinnar. Það er það mál sem við erum að fjalla um hér, herra forseti. Það er nákvæmlega þetta plagg sem við erum hér að fjalla um, þetta plagg sem var gert í lýðræðislegasta ferli sem þekkist á byggðu bóli en enn hefur ný stjórnarskrá ekki verið lögfest. Aftur leyfi ég mér að vitna í orð frú Vigdísar Finnbogadóttur, með leyfi forseta, en hún hefur sagt að íslenska þjóðin hafi beðið nógu lengi og ég er henni aftur innilega sammála.

Hið lýðræðislega ferli sem hófst árið 2009 er ekki ónýtt, alls ekki, langt því frá. Því hefur ekki verið hafnað eins og haldið hefur verið fram í umræðunni hér að undanförnu, langt því frá. Það þarf að bera virðingu því og endurvekja. Það þarf að bera virðingu fyrir þeim kröftum sem þar bjuggu að baki, þeim samtakamætti þjóðarinnar sem kom saman á þjóðfundi, þeim rúmlega 500 einstaklingum sem buðu fram krafta sína á stjórnlagaþing, öllum þeim sem komu saman til að kjósa fulltrúa á þingið, vinnu fulltrúanna sjálfra og loks þjóðarinnar sem kaus í atkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Það er svo mikilvægt fyrir áframhaldandi samstöðu þessarar fámennu þjóðar að láta ekki eins og þetta lýðræðislegasta ferli við stjórnarskrárgerð hafi ekki átt sér stað og það er því miður verið að gera í dag. Margir láta eins og þetta hafi ekki átt sér stað. En við sem stöndum hér í dag og erum flutningsmenn þessa máls ætlum að bera virðingu fyrir þessu ferli. Við höfum gert það áður. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við erum að flytja þetta mál og við eigum að bera virðingu fyrir allri þeirri vinnu sem þúsundir einstaklinga hafa innt af hendi. Með því að hunsa allt þetta mikilvæga ferli og búa til sitt eigið er hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin öll að gera lítið úr þeim þúsundum sem lögðu sig fram í fallegu og heiðarlegu samtali við fjölda fólks.

Á þessu kjörtímabili var gerð tilraun til einhvers konar samráðs, fyrst með rökræðukönnun og svo fundi í Laugardalshöll þar sem rúmlega 200 manns sátu og fengu efni til umræðu sem afmarkað hafði verið af stjórnvöldum. Nú ætla ég alls ekki að gera lítið úr því framtaki sem þar var eða framlagi þeirra sem þangað mættu en við getum ekki horft fram hjá því að nýja stjórnarskráin, sú sem við fjöllum um hér í dag, var þar hvergi nærri. Þeir sem óskuðu eftir því að fá að ræða efni hennar á fundinum voru vinsamlegast beðnir að halda sig við hið afmarkaða efni.

Niðurstaða þessa meinta samráðs virðist svo að einhverju leyti hafa lent ofan í skúffu í Stjórnarráðinu ef marka má umsögn Jóns Ólafssonar sem var einn þeirra sem fóru fyrir rökræðukönnuninni. Í umsögn sinni um frumvarpsdrög, um forsetakaflann, sem var lagður fram í samráðsgátt stjórnvalda, kemst Jón svo að orði, með leyfi forseta, að í frumvarpinu sé nánast ekkert reynt að tengja tillögur, röksemdir og útskýringar í frumvarpinu við almenningssamráðið, eða skulum við segja hið meinta almenningssamráð. Hann segir að vísanir til einstakra þátta samráðsins séu tilviljanakenndar og á stöku stað villandi. Ekki sé reynt með neinum kerfisbundnum hætti að byggja á samráðinu þegar svo vill til að niðurstöður almenningssamráðsins séu í samræmi við frumvarpsdrögin og engin tilraun heldur gerð til að skýra frávik í frumvarpsdrögunum frá því samráði sem átti að hafa átt sér stað, frávikin eins og þau koma fram í þessum frumvarpsdrögum. Jón segir, með leyfi forseta:

„Þannig er almenningssamráðið að sumu leyti vannýtt í greinargerðinni og frumvarpinu sjálfu, en að öðru leyti sniðgengið.“

Þannig virðist sem hið svokallaða samráð ríkisstjórnarinnar í þessu máli sé eingöngu í orði en sjáist ekki á borði. Það er svo sem kunnuglegt stef fyrir okkur í stjórnarandstöðunni, samráðið er meira í orði en á borði. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með fulltrúum stjórnarflokkanna réttlæta ferlið sem átt hefur sér stað á kjörtímabilinu sem senn lýkur. Réttlætingin fyrir þeim bútasaumi sem þjóðinni er boðið upp á er ávallt sú að reynt sé að skapa sem breiðasta samstöðu um breytingar á stjórnarskránni en það blasir við að bútasaumstilraun hæstv. forsætisráðherra mun líkast til ekki einu sinni nást í gegnum ríkisstjórnarflokkana þannig að það er spurning hvar hin breiða samstaða á þá að liggja. Þessi tilraun, þar sem farin er sú leið að gera sem minnst til að styggja ekki þann stjórnarflokk sem grimmilega hefur um áratugaskeið barist gegn nauðsynlegum lýðræðisbreytingum, virðist vera strönduð á skeri og þá er helst hrópað að þau sem vilja byggja á fyrra ferli séu ekki nógu dugleg í málamiðlunum.

Aðeins aftur að þessu skjali sem við erum að fjalla um hér í dag, af því að þetta er óbreytt skjal frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hafði verið ritrýnt af Feneyjanefndinni. Það er afar mikilvægt að flutningsmenn þessa frumvarps hafa ekki hróflað við því sem stóð í frumvarpinu. Hvers vegna? Vegna þess að við erum að leggja þetta fyrir Alþingi eins og það stóð eftir hið lýðræðislega ferli. Hér inni gefst flutningsmönnum og öllum þingmönnum tækifæri til þess að koma með sínar hugmyndir að breytingum á þessu plaggi. Þetta er frumvarp og frumvörp taka breytingum inni á Alþingi eftir umræðu. Sú sem hér stendur er ekkert sammála öllu sem stendur þarna en vill standa með því lýðræðislega ferli sem hefur átt sér stað. Takist slíkt ekki, að standa með því, er hætta á að traust almennings til Alþingis nái ekki að rísa á meðan við leysum ekki þetta verkefni.

Ef ekki tekst að fá meiri hluta fyrir því að afgreiða þetta mál tel ég blasa við að endurvekja verði bráðabirgðaákvæði það sem fallist var á að setja í stjórnarskrána árið 2013 eftir langt málþóf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Bráðabirgðaákvæðið er þess efnis að hægt væri að gera breytingar á stjórnarskrá án tveggja þingkosninga á milli.

Ferlið er löngu byrjað. Það er ekki ónýtt, alls ekki. Við þurfum bara að bera virðingu fyrir því og ljúka því með sóma. Í því er skýr vilji meiri hluta þjóðarinnar og hann ber að virða.



[18:38]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Það er óhugsandi að tæma umræðuna núna. Ég vildi óska þess að þetta mál kæmist til 2. umr. þannig að við gætum rætt það almennilega, kannski ekki að eilífu eins og gerðist á sínum tíma en hins vegar meira en verður hægt í 1. umr. Ég vona að það komist út úr nefnd þegar það hefur farið til hennar og fengið þar umfjöllun og væntanlega einhverjar breytingartillögur gerðar því samhliða. En í því skyni langar mig aðeins að fara yfir breytingar og aðkomu sérfræðinga að málinu. Það er í mínum huga augljóst, og vissulega í hugum margra sérfræðinga, að eftir hrun var í samfélaginu almennt mikið vantraust gagnvart sérfræðingum, lögfræðingum, stjórnmálamönnum, hagfræðingum og meira og minna öllum fræðingum sem á hafði verið hlustað á árunum þar á undan. Það vantraust var mjög skiljanlegt í ljósi þess áfalls sem hafði dunið yfir þjóðina. Þessu fylgdi þó því miður sú óheppilega nálgun margra að útiloka einfaldlega allt sem sérfræðingar sögðu. Þetta hefur því miður haft þau áhrif á sérfræðinga síðan þá að þeir telja sig ekki velkomna inn í umræðuna og líta svo á að ekkert sé á þá hlustað. Að hluta til er það því miður rétt. Það er fólk sem berst fyrir nýrri stjórnarskrá sem hlustar ekki á sérfræðinga vegna þess að þeir eru sérfræðingar. Það hefur verið þannig í gegnum tíðina og er því miður enn að einhverju leyti en sem betur fer, að mínu mati, sífellt minna og minna.

Í öðru lagi verður að taka fram að víst hefur verið hlustað á sérfræðinga. Hlustað var á sérfræðinga þegar stjórnlagaráð kom saman. Það var hlustað á þá þegar frumvarpið var lagt fram á Alþingi. Það var hlustað á þá þegar það fór fyrir þingnefnd Alþingis, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og sömuleiðis erlenda sérfræðinga í Feneyjanefndinni o.s.frv. Hlustað hefur verið á fullt af sérfræðingum. Margar athugasemdir hafa verið innleiddar í plaggið og sjást í því eins og það birtist okkur hér og nú.

Aftur á móti er málið ekki enn klárað, eins og við vitum, og eflaust er meira sem má breyta. Eðli málsins samkvæmt er fólk ekki sammála um nákvæmlega hvað það eigi vera eða á hvaða forsendum það skuli gert. Það sem við ættum þó að geta sagt okkur er að þegar við gerum breytingar á Alþingi eigum við ekki, megum ekki og eigum ekki að dirfast að draga úr biti aðhaldsákvæða eða draga úr getu ákvæða sem eru hugsuð til þess að verja réttindi borgaranna. Það er hlutverk okkar hér að reyna að fínpússa málið aðeins, en hvað svo? Það er ekki alveg ljóst, virðulegi forseti. Það er ekki alveg ljóst hvað svo, þannig að ég lýsi því hér með yfir, einhverju sem ætti reyndar að vera augljóst, að það er í sjálfu sér allt opið um það hvernig við komum á frekari breytingum í samráði við sérfræðinga og almenning. Þar kemur margt til greina og að mínu mati ekkert heilagt. Það er ekki sjálfgefið að hér fari frumvarpið einfaldlega í gegn og aftur á næsta kjörtímabili og málið verði klárað. Hvers vegna ekki nýtt stjórnlagaþing, eða ríkari aðkomu almennings að breytingunum? Ég teldi það mjög eðlilegt. Ég tel algerlega nauðsynlegt að lokaplaggið fari fyrir dóm kjósenda með bindandi hætti á einhvern hátt en ég hef ekki útfærsluna hér því að við erum ekki alveg komin þangað. Ástæðan fyrir því að við erum ekki komin þangað er sú að það er fólk sem stendur í vegi fyrir starfinu í sjálfu sér, ekki bara vegna þess að það hefur efnislegar athugasemdir sem gæti verið þess virði að taka tillit til heldur vegna þess að það er á móti nýrri stjórnarskrá, það er á móti því að breyta stjórnarskrá að einhverju verulegu leyti og hefur fyrir því fjölbreyttar ástæður. Sumar eru einföld íhaldssemi og ekkert annað.

Hvað sem því líður verður grundvallarhugsun okkar gagnvart nýrri stjórnarskrá að vera lýðræðið, aðkoma almennings. Það er almenningur sem á þessa stjórnarskrá. Við verðum að bera virðingu fyrir því á Alþingi við meðferð málsins og það kemur fólki við hvernig við breytum málinu efnislega, á hvaða hátt. Við getum ekki gert það bara hvernig sem er, ef það á að vera með siðferðilegum hætti. Þegar búið er að segja að 10% kjósenda geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál þá eigum við að halda okkur við þau 10%. Við eigum ekki að hækka hlutfallið bara af því að okkur finnist það óþægilega lágt. Það væri ekki málefnalegt, virðulegur forseti, og að mínu viti ekki siðferðilega réttlætanlegt. Svo mætti fjalla um nokkur ákvæði sem hafa verið til umræðu.

Sömuleiðis virðist aldrei alveg síast inn sá punktur sem er þó hamrað svo mikið á: Hver er stjórnarskrárgjafinn? Virðulegi forseti. Það er þjóðin. Við hérna inni verðum að trúa því. Í því felst að þegar kjósendur ákveða með mjög afgerandi hætti árið 2012 að sett skuli ný stjórnarskrá á grundvelli vinnu stjórnlagaráðs þá eigum við að fylgja því hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ef við höfum athugasemdir er fínt að koma fram með þær athugasemdir og breytingartillögur, til þess að ná því fram. Ef okkur finnst eitthvert ákvæði hættulegt eigum við að koma með tillögu að því að breyta því þannig að það sé ekki hættulegt, til þess að ná málinu fram, ekki til þess að stöðva það og ekki til að tefja fyrir. En það var gert og það er ólíðandi. Það er algjörlega ólíðandi í lýðræðisríki.

Hér reyni ég ekki að græða neina kjósendur, virðulegur forseti. Hér reyni ég að höfða til samvisku hv. þingmanna og stjórnmálamanna á Íslandi. Ég er sjálfur ekki sammála öllu í þessu frumvarpi. Ég efast um að það sé sála á Íslandi sem er sammála öllu í frumvarpinu, eða þá gildandi stjórnarskrá. Það er eðlilegt. En það er samt skylda okkar að fylgja þjóðarviljanum og koma á þeim breytingum sem við viljum koma á, og sannfæra almenning. Það ætti ekki að vera svo ógurlega mikið vandamál fyrir stjórnmálamann, myndi ég halda.

Þetta mál er lagt fram í þeirri mynd sem það er í dag óbreytt efnislega, þ.e. efnistextinn sjálfur er óbreyttur frá framhaldsnefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá 2013. Ástæðan er sú að það þarf að vera eitthvert skýrt ferli í kringum það hvernig því er breytt. Vinnan var komin á þann stað þegar henni lauk 2013 og þess vegna höldum við áfram með hana þaðan í dag, með framlagningu þessa frumvarps.

Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fór ágætlega yfir það hvernig greinargerðin er gerð aðeins skýrari núna með tilliti til 35. gr. um auðlindir, þ.e. fullt gjald á móti eðlilegu gjaldi. Eða eins og ég myndi orða það: Fullt gjald er í frumvarpinu. Eðlilegt er að taka fullt gjald að meginreglu, samanber greinargerð og vísa ég til hennar til nánari umræðu um það. Ég vona vissulega að málið komi til 2. umr. á þingi þannig að við getum rætt það atriði í lengra máli. Það er sjálfsagt að mínu mati að skýra efnisákvæðið sjálft betur með tilliti til þess sem kemur fram í greinargerðinni í dag.

Ég verð að fjalla aðeins um stjórnarskrárformannanefnd hæstv. forsætisráðherra sem hefur verið starfandi á þessu kjörtímabili og ég hef tekið þátt í fyrir hönd Pírata. Þar sem við höfum ekki formann var ég fenginn af þingflokki Pírata til þess að vera í þeirri nefnd. Ég verð að segja að frá upphafi fór ég inn í það starf, og ég vil meina allir sem komu að því, alla vega svo ég viti, með fullan hug á því að leiða starfið til lykta. Við vorum kannski ekki öll voðalega vongóð um að niðurstaðan yrði sú sem við vildum sjálf en unnum vissulega með þeim hug að reyna það í það minnsta og gera það af heilindum og heilum hug, með því markmiði. Lýsti ég því markmiði margoft, að ég liti svo á að starfið fæli í sér heildarendurskoðun, á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs m.a. Því miður er reynslan sú á þeim tíma sem er liðinn, þessum þremur árum eða svo, að það er ekki verið að því, virðulegi forseti. Við stungum upp á því í upphafi að í stað þess að taka fyrir kafla gildandi stjórnarskrár og vinna með þá myndum við vinna með kafla frumvarps stjórnlagaráðs. Við stungum upp á þessu en því var hafnað. Ég vil meina að ef við hefðum farið slíka leið þá værum við með önnur frumvörp í dag. Við hefðum beitt öðrum vinnubrögðum. Það er nálgunin sem okkur ber skylda til að fara eftir sem stjórnmálamönnum eftir 2012, að byggja vinnuna á frumvarpi stjórnlagaráðs. Við þurfum ekki að vera sammála. Þetta er ekki trúarrit og það má breyta hlutum þegar það er nauðsynlegt eða skynsamlegt með tilliti til og að gefnu almenningssamráði og því að það sé til að auka frekar en draga úr lýðræðisvinklum eins og aðhaldi með stjórnvöldum eða réttindum borgaranna.

Ég er vanur því eftir þessa fundi, verð ég því miður að segja, að tillögur mínar og annarra sem hafa verið þarna hafa verið hunsaðar. Mér líður eins og við höfum verið boðuð á fundi til þess eins að það hafi verið boðað til fundar. Svo býr hæstv. ráðherra, væntanlega í slagtogi við sérfræðinga og aðra aðila sem ég veit ekki hverjir eru nákvæmlega, til þessi frumvörp, kemur með einhverjar tillögur, ég segi mitt á fundunum og svo kemur tillagan ýmist óbreytt eða algerlega án tillits til athugasemda minna eftir á. Ég veit að fleiri í þessari nefnd eru sama sinnis. Ég tala bara fyrir sjálfan mig og þess vegna nota ég fyrstu persónu eintölu.

Eins og var farið yfir áðan er ekki að sjá í frumvörpunum sem hæstv. forsætisráðherra hyggst leggja fram að byggt hafi verið á almenningssamráði, sem þó var farið í. Það er margt gott að segja um það almenningssamráð en rétt eins og með almenningssamráðið frá 2012 er það alltaf háð því hvað stjórnmálamönnunum sýnist. Mér finnst svo leiðinlegt við íslenska stjórnmálamenningu að það þyki einhvern veginn í lagi.

Nú er Brexit ekki eitthvað sem ég hefði greitt atkvæði með hefði ég búið í Bretlandi á þeim tíma en það verður að nefna að þar datt varla neinum í hug að stinga upp á því að svíkja kjósendur um það sem búið var að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um. Þvert á móti lögðu stjórnmálamenn sem voru á móti Brexit, á móti því að yfirgefa Evrópusambandið, sig alla fram við að gera það besta sem var hægt úr stöðunni. Það er ábyrgð, virðulegi forseti. Við þurfum ekki að vera sammála því en við þurfum að hafa á hreinu hver það er sem ræður í þessu landi og hver það er sem er stjórnarskrárgjafinn. Í tilfelli Íslands fullyrði ég að það sé þjóðin en ekki við á Alþingi.

Hvað verður í framhaldinu? Sérfræðingar hafa lagt fram ýmsar athugasemdir. Ég hef ekki komist í að kryfja þær allar til mergjar. Ég vona að það takist í þessari umferð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, milli 1 og 2. umr. Ég geri fastlega ráð fyrir því að málið fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. Ég geri fastlega ráð fyrir blaðaskrifum, rökræðum, meiri aðkomu sérfræðinga og meiri aðkomu almennings. Ég geri fastlega ráð fyrir því. Það er ekkert meitlað í stein. Á sínum tíma var það líka opið, nánara samráð við almenning, en ekki varð úr því vegna þess að málið stöðvaðist í þingsal sökum málþófs.

Hugmyndum um nýtt stjórnlagaþing hefur verið varpað fram í ýmsum samtölum. Hægt væri að greiða úr ýmsum athugasemdum sem komu fram á sínum tíma um það hvernig að því var staðið en þá þarf að leggja það til og þá þurfa stjórnmálamenn að nálgast málið með því hugarfari að það eigi að klára það. Ekki með því að stöðva það eða tefja það heldur með því að bæta það. Því að andstætt því sem sumir íhaldssamari andstæðingar stjórnarskrármálsins vilja meina er þetta stjórnarskrá fyrir okkur öll, til að vernda réttindi okkar allra, fyrir lýðveldið allt.

Virðulegur forseti. Það var svo falleg saga sem var sögð af Íslandi eftir hrun að sumu leyti. Það var svo margt að gerast sem var flott og til fyrirmyndar. Því miður var meira af því en maður myndi vilja byggt á von og væntingum frekar en orðnum hlut. Stjórnarskrármálið er einn af þessum hlutum. Við ætluðum að verða best í tjáningar- og upplýsingafrelsi og við hefðum alveg getað orðið það og getum það hugsanlega enn. Og við ætluðum að gera þetta, klára lýðveldisstofnunina, virðulegi forseti, og við getum það víst saman.



[18:52]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna. Ég vil fyrst spyrja hann, ef hann getur aðeins frætt mig um þetta mikla málþóf sem stöðvaði málið veturinn 2012–2013, hvort tölfræðirannsóknir Pírata hafi leitt í ljós að um málþóf hafi verið að ræða sem stöðvað hafi málið. Gögnin um þetta mál eru til á vef Alþingis þar sem ferill málsins er rakinn, m.a. út frá þeim breytingum sem þáverandi meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði á málinu á sínum tíma og hve miklar umræður urðu um hvern part þess ferils alls. Staðan er nú sú, alla vega samkvæmt minni tölfræði, að hið meinta málþóf hafi ekki náð inn á topp tíu yfir málþóf sem átt höfðu sér stað á þinginu á þeim tíma og mörg hafa átt sér stað síðar sem hafa slegið þau met verulega. Þessi mýta, sem menn hafa rakið til þessara ára, er kannski meira mýta en veruleiki sem á sér stoð í tölfræðilegum gögnum. Þetta var nú samt ekki aðalefni mitt heldur vildi ég kannski setja fram aðra spurningu, af því að ég heyri á hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að hann vill annars vegar halda tryggð eða trúnað við tillögur stjórnlagaráðs frá sínum tíma en telur samt að svigrúm sé til breytinga. Ég átta mig ekki á því hvar mörkin liggja í þeim efnum. Er hann fyrst og fremst að hugsa um rammann, en má ekki breyta einstökum greinum? Ég skildi hann þannig að það mætti breyta einstökum greinum en svo sagði hann í hinu orðinu að 10% í tillögum stjórnlagaráðs séu heilög og ekki megi hreyfa við þeim, bara svo að dæmi sé tekið.



[18:54]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Örstutt um málþófsspurninguna. Ekki er einfaldlega hægt að mæla málþóf í tíma vegna þess að hversu vel þau virka byggir alltaf á því hversu mikill tími er eftir. Nú er málþóf þess eðlis að alltaf er hægt að karpa um það hvað sé málþóf og hvað séu bara langar umræður. Við höfum átt þau samtöl milljón sinnum og hv. þingmaður er jafn mikill sérfræðingur og ég í því, hann getur svarað þessum spurningum sjálfur, með allri þeirri virðingu sem því fylgir. En ég læt það liggja milli hluta. Ég get bara sæst á það. Það kemur málinu ekki endilega við hvort það hafi verið málþóf eða ekki, ég skal bara að sættast á það og sleppa því að ræða það í framhaldinu ef það kemur okkur áfram í umræðunni.

Hv. þingmaður spyr þessarar góðu spurningar: Hvar liggja mörkin í því hvar megi breyta frumvarpi stjórnlagaráðs og hvar ekki? Stjórnlagaráð skilaði drögum, ekki fullbúnu plaggi. Það var ekki verkefnið að skila fullbúnu plaggi og ég hygg að stjórnlagaráð sjálft hefði viljað gera meira ef það hefði verið markmiðið upprunalega. Það stóð til að breyta málinu eitthvað. Á hvaða hátt, spyr hv. þingmaður. Það er til ágætispróf, stundum kallað Ragnarsprófið, eftir hæstv. lögfræðingi, mjög þekktum, og það felur í sér að ef breyting er til þess fallin að efla réttindi borgaranna, í það minnsta ekki draga úr þeim, þá stenst það það próf. Það að hækka þröskuldinn úr 10% í 15%, um þann fjölda kjósenda sem getur kallað eftir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um mál er að draga úr rétti kjósenda til að hafa áhrif. Að því leyti myndi ég segja: Það er rangt. Við eigum ekki að gera það. Að breyta þeim 10% í 5%, ég man ekki til þess að neinn hafi endilega stungið upp á því, myndi standast prófið vegna þess að það eykur réttindi almennings. Það er í sjálfu sér engin algerlega skýr lína í þessu. En markmiðið er að auka réttindi borgaranna, lýðræðisleg réttindi sem og einstaklingsréttindi, og það er inntakið sem ekki má breytast. Svo eru dæmi úr drögum stjórnlagaráðs sem hefur verið breytt til að bæta réttindi borgaranna eða verja þá betur gegn ofurvaldi ríkisins. Mér endist því miður ekki tími til að fara í það núna en vænti þess að hv. þingmaður hafi annað andsvar.



[18:57]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef heyrt einhverjar útgáfur af þessu svokallaða Ragnarsprófi, m.a. að ef breytingin er í samræmi við almannahagsmuni sé hún í lagi annars ekki. Ég verð hins vegar að segja að það er og hefur löngum verið grundvallarágreiningur í stjórnmálum um það hvernig eigi að túlka svona hugtök eins og almannahagsmuni eða hvernig réttindi borgaranna eru aukin. Oft eru mjög skiptar skoðanir um það einmitt hvort tilteknar breytingar eru til þess fallnar að bæta réttindi, einkaréttindi eða annað þess háttar. Hvort breytingar eru í almannaþágu eða ekki getur einmitt verið viðfangsefni stjórnmálabaráttunnar. Þó að þetta próf hljómi ágætlega þá er það ónothæft sem mælikvarði. Það getur hver skoðað það með sínum gleraugum þannig að það er ekki neinn sameiginlegur mælikvarði sem menn geta notað til að meta hverju megi breyta og hverju megi ekki breyta.

Ég segi bara sem svo: Ferlið sem var í gangi á kjörtímabilinu 2009–2013 byggði á ákveðnum forsendum. Úr því urðu til einhverjar tillögur sem seinna urðu í breyttri mynd að frumvarpi á Alþingi. Það frumvarp lent úti í skurði, ferlið stöðvaðist. Tillögurnar eru til og menn geta fjallað um þær, lagt þær fram eins og verið er að gera hér í dag og rætt þær á grundvelli þess hvernig við breytum stjórnarskrá í landinu. En við höfum fullt frelsi til að taka hverja tillögu, samþykkja hana eða hafna henni eftir því sem sannfæring okkar býður.



[18:59]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar á það er bent að vissulega geti þingmenn lagt fram þær breytingartillögur sem þeim sýnist þá líður mér svolítið eins og það sé verið að segja við mig að ég megi vera dónalegur, að ég megi vera leiðinlegur. Það er alveg rétt, virðulegi forseti, en það þýðir ekki að það sé rétt og það þýðir ekki að það sé eitthvað sem við ættum að reyna að gera. Þegar kemur að því að virða þjóðarviljann, sem aftur er siðferðisleg spurning hvers og eins, þá hljótum við að leitast við að leggja fram breytingar sem eru í samræmi við þjóðarviljann eins og hann birtist 2012, jafnvel þó að við séum ekki persónulega hrifin af því. Ég er t.d. mjög andvígur því að það sé nokkurs konar þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá, mér finnst pælingin fáránleg, algerlega fáránleg, en ég er meðflutningsmaður á þessu máli vegna þess að við klárum þetta mál og förum síðan í hitt debattið. Við þurfum að klára þjóðarviljann eins og hann birtist okkur og leggja okkar af mörkum til að bæta málið frekar en að standa í vegi fyrir því. Þetta er bara siðferðisspurning sem hver þingmaður verður að eiga við sjálfan sig. Hvað varðar Ragnarsprófið þá er það rétt, held ég, hjá hv. þingmanni, að ef maður miðar við almannahagsmuni, það sem auki almannahagsmuni, þá lendir maður fljótt í vandræðum því að við erum í svo miklum grundvallaratriðum ósammála um það. Þess vegna þykir mér þó skárra að miða við réttindi borgaranna, lýðræðisleg réttindi eins og t.d. aðkomu kjósenda að ákvarðanatöku eða einstaklingsfrelsið, þ.e. frelsi borgarans frá ofvaldi. Það er rétt hjá hv. þingmanni að stundum er þetta óljóst en stundum er þetta mjög ljóst og alla vega þegar ljóst er hvort við séum að draga úr lýðræðislegum réttindum eða auka þau þá ætti það að geta liðsinnt okkur að mínu mati nógu vel hvað varðar þær breytingar sem gerðar hafa verið, að mér vitandi.

Síðast en ekki síst vil ég minna á að það er ekki endilega okkar að sníða múrana að valdi okkar og þess vegna finnst mér vel koma til greina, og ágætishugmynd, að vísa málinu aftur á einhverju stigi til einhvers konar stjórnlagaþings eða nánara almenningssamráðs (Forseti hringir.) til að taka ákvarðanir um slíka hluti án þess að okkar eigin pólitísku hagsmunir, sem kjörinna fulltrúa, séu að þvælast fyrir.



[19:01]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Að mínu mati er þetta mál stærsta lýðræðismálið sem þetta þing glímir við, stærsta réttindamálið, stærsta umhverfismálið, stærsta málið, punktur. Hér hefur verið kallað eftir efnislegri umræðu um frumvarp um breytingar á stjórnarskrá. Það gerði hæstv. forsætisráðherra í andsvörum við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson hér fyrr í vikunni. Ég kallaði eftir því að hæstv. forsætisráðherra yrði viðstaddur þessa umræðu til þess að geta átt í efnislegri í umræðu um málið, en hér er enginn forsætisráðherra, merkilegt nokk. Hér hefur líka oft verið nefnt að það þurfi að vera sátt, víðtæk sátt, um breytingarnar. Það virðist hljóma fyrir öllum öðrum en kannski þeim sem segja það, að Sjálfstæðisflokkurinn sé sáttur við breytingarnar.

Ég vil hins vegar snúa þessu við. Það er komin niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem aukinn meiri hluti samþykkti að leggja drög stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Aukinn meiri hluti þýðir í öllum lýðræðislegum skilningi sátt. Það þýðir óhjákvæmilega að mínu mati að það þurfi að vera sátt um það ef breyta á frá þeim tillögum, þ.e. þegar við leggjum til breytingar á því efnisinntaki sem er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs þá þurfum við öll að vera sátt, mjög mikilvægur munur á því hvar sáttin þarf að liggja.

Ástæðan fyrir því er að þetta er þjóðaratkvæðagreiðsla. Hún er æðri því umboði sem ég hef sem kjörinn fulltrúi í almennri kosningu. Þetta er atkvæðagreiðsla um sértækt mál. Lögfræðingarnir hérna ættu að þekkja umræðuna um sérlög og almenn lög, og geta sett ákveðið samasemmerki þar á milli. Þarna er umboð kjósenda, allra kjósenda sem vildu taka þátt, þátttökuprósentan skiptir ekki máli. Það gátu allir tekið þátt. Það eina sem skiptir máli þarna er niðurstaðan. Ef við förum í þá umræðu að fjöldinn skipti máli þurfum við að bera þetta saman við fyrri þjóðaratkvæðagreiðslur sem var farið eftir, eins og t.d. þegar Ísland varð fullveldi. Þá var minna hlutfall kjósenda sem sagði já við þeirri spurningu þó að hlutfallið af þeim sem kusu hafi verið hærra. Það voru samt færri sem tóku þátt. Með þeim rökum hefðum við ekki orðið fullveldi 1918. Ástæðan fyrir lítilli kjörsókn var svipuð og í dag, þá var faraldur í gangi. (BÁ: Ekki 2012.) Ekki 2012. (BÁ: Þá var enginn faraldur.) Nei, þá var enginn faraldur. Það var ýmislegt annað í gangi.(Gripið fram í.)

Óháð því: Þegar það er þjóðaratkvæðagreiðsla sem allir hafa aðgang að, allir hafa möguleika á að taka þátt í, gildir sú niðurstaða. Ef við ætlum að fara í einhverja útúrsnúninga erum við komin út á ansi hálan ís hvað lýðræðisleg rök varðar.

Nú hafa verið nokkrar kosningar síðan þá og önnur rök hafa verið notuð. Það hafi verið kosningar og niðurstaðan í þeim hafi búið til ríkisstjórnir sem hafi bara einfaldlega ekki séð fram á að hafa meiri hluta fyrir málinu á þingi. Það eru mjög áhugaverð rök, sérstaklega þegar við skoðum kjörtímabilið strax eftir 2009–2013, þ.e. 2013–2016. Þá var það stefna eins af ríkisstjórnarflokkunum á því kjörtímabili að klára ferlið. Það var Framsóknarflokkurinn. Það var í ályktun þeirra frá því í febrúar á því ári að klára stjórnarskrármálið með drögum stjórnlagaráðs sem lágu fyrir. Einnig núna fyrir þetta kjörtímabil var það stefna Vinstri grænna að klára málið samkvæmt þeim forsendum sem lágu fyrir eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. En einhvern veginn gerðist þetta ekki. Þannig að sú rök að hér hafi verið kosningar, almennar kosningar, sem einhvern veginn eiga að yfirskrifa sértækar kosningar, sem hafi leitt til þess að það sé ekki meiri hluti fyrir málinu á þingi, standast ekki miðað við þau kosningaloforð sem voru gefin fyrir kosningar. Það gerir það ekki. Þó að raunin geti vissulega verið önnur þá voru væntingar ekki gefnar til þess fyrir kosningar, þ.e. þeir flokkar sviku einfaldlega kosningaloforð. Sú er raunin.

Árið 2016 fór ég aðeins yfir þetta mál og gerði greiningu á því hver væri munurinn á innihaldi núverandi stjórnarskrár og þess frumvarps sem þá lá fyrir. Sú greining sem ég gerði þá, ég ætti kannski að uppfæra hana núna og verður kannski ágætisverkefni á næstu vikum, leiddi í ljós að miðað við núverandi stjórnarskrá og frumvarp stjórnlagaráðs, ekki frumvarpið sem var lagt fram hér, ég myndi uppfæra það með tilliti til þess, eru í texta stjórnarskrár Íslands 203 setningar, frá punkti til punkts. Í frumvarpi stjórnlagaráðs eru 378 setningar. Nýja stjórnarskráin er mun lengri en núgildandi stjórnarskrá. Spurningin sem ég vildi svara með því að bera saman allar setningar í núgildandi stjórnarskrá og allar setningar í frumvarpi stjórnlagaráðs var að sjá hversu mikið af stjórnarskránni er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs af því að það var talað um kúvendingu, algjöra lagaóvissu, öllu væri hent til hliðar o.s.frv. Niðurstaðan var: Nei. Það eru a.m.k. 160 setningar úr stjórnarskránni sem er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs svo til frá orði til orðs. En það eru 43 setningar sem hverfa, setningar sem er ekki að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs eða þeim er breytt með einhverju móti þannig að það er annað fyrirkomulag, t.d. ekki landsdómur, það er bara Hæstiréttur sem sér um svoleiðis o.s.frv. Það eru 43 setningar sem annaðhvort hverfa eða þeim er umbylt svo mikið að það er í raun hægt að segja sem svo að þær séu ekki í frumvarpi stjórnlagaráðs. Það væri gaman að lesa þær allar upp en það tekur tíma með 43 setningar. Ein af þeim er einmitt grein um að forsetinn veiti annaðhvort sjálfur eða með því að fela öðrum stjórnvöldum undanþágur frá lögum samkvæmt reglum sem farið hefur verið eftir hingað til. Þetta hverfur t.d., Alþingi starfar í einni málstofu, það hverfur, það er búið að breyta því og er öðruvísi. Það eru ýmis önnur dæmi. Menn eiga rétt á að safnast saman vopnlausir. Það er fjarlægt og haft öðruvísi. Í staðinn koma 228 nýjar setningar. Ef við tökum núgildandi stjórnarskrá, fjarlægjum 43 setningar og bætum við 228 í viðbót, þá fáum við frumvarp stjórnlagaráðs. Þar eru ýmsar mjög mikilvægar viðbætur en ekki viðbætur sem ættu að koma neinum á óvart. Þetta þýðir að frumvarp stjórnlagaráðs, og í raun það frumvarp sem er um að ræða hérna, er í fyrsta lagi uppfærsla á núgildandi stjórnarskrá, 80% af henni er að finna nánast orðrétt í frumvarpi stjórnlagaráðs og í því frumvarpi sem við ræðum hér. 80%. Síðan eru viðbætur. Þetta, þessi atriði, þessar 43 setningar sem eru að hverfa, er efnislega umræðan sem við ættum að taka. Eru þetta setningar sem ættu að hverfa eða ekki? Ef við förum yfir listann sé ég enga sérstaka ástæðu fyrir því að halda neinum þeirra, sérstaklega ekki miðað við það sem kemur í staðinn.

Hinn hluti efnislegu umræðunnar eru þessar 228 nýju setningar í frumvarpi stjórnlagaráðs. Ég þyrfti að gera þessa greiningu aftur miðað við nýja frumvarpið, það gæti orðið ansi áhugavert líka, það er ekki það mikið breytt. Það eru þó nokkrar breytingar en þær ættu ekki að breyta þessum fjölda mjög mikið. Hingað til hefur ekki verið mikil efnisleg umræða um einstakar greinar frumvarpsins nema í þessari formannanefnd, sem er að öðru leyti mjög áhugavert af því að hæstv. forsætisráðherra kallaði eftir efnislegri umræðu. Á sama tíma og hæstv. forsætisráðherra kallar eftir efnislegri umræðu í þingsal er hún búin að læsa þetta ferli inni í einhverjum formannahópi allt kjörtímabilið og mætir síðan ekki einu sinni til að eiga efnislegu umræðuna sem hún kallaði eftir. Mjög áhugavert, finnst mér alla vega.

Á netinu er að finna áhugaverða vefsíðu sem heitir stjornarskra.com og þar á að vera umræða um staðreyndir. Ef ég ber mína greiningu á muninum á stjórnarskrá og frumvarpi stjórnlagaráðs saman við þann vef kemst ég að þeirri niðurstöðu að við erum ekki alveg sammála um það hvað eru staðreyndir og hvað ekki. Eitt sem er t.d. sagt vera staðreynd er þegar verið að svara spurningunni: Kaus þjóðin nýja stjórnarskrá? Það er enginn að halda því fram að það hafi verið kosin ný stjórnarskrá. Það vita það allir að það var kosið um það hvort gera ætti frumvarp stjórnlagaráðs að grundvelli fyrir nýja stjórnarskrá. (BÁ: Sem frumvarp.) Sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Það var ekki kosið um að það væri komin stjórnarskrá og væri komin í gildi ný stjórnarskrá. Það var ekki kosið um það, það vita allir. En það er alltaf verið að setja fram og snúa út úr umræðunni á þann hátt eins og einhver sé að segja það. Það kallast strámaður. Það er sagt að 64% hafi samþykkt að leggja þetta til grundvallar, eins og það er sett fram þar, þegar hið rétta er að það voru 66,9%. Ég veit ekki af hverju það þurfti endilega að breyta prósentutölunni.

Stendur til að breyta stjórnarskránni? Það er líka spurt að því á síðunni og farið yfir verkefni núverandi ríkisstjórnar og ríkisstjórnarsáttmálann og ferlið hjá formönnum flokkanna. Vandamálið við þá spurningu er að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar segir okkur að leggja eigi fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá, byggt á drögum stjórnlagaráðs. Það er verkefni okkar samkvæmt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Það má alveg líka koma með tillögur að breytingum á einstökum greinum en það uppfyllir ekki niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Samdi þjóðin nýja stjórnarskrá? er líka ein spurning. Því er svarað með því að þjóðin geti ekki samið texta. Já, tæknilega séð, þá er það ekki satt en eins nálægt og hægt er að komast að því. Þjóðin velur sér fulltrúa til að setja saman drög að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá þar sem víðtækt samráð er haft um hverja eina einustu grein og beðið um tillögur að breytingum eða hvað sé hægt að hafa til viðbótar. Það er ekki hægt að komast nær því að segja að vissulega hafi þjóðin samið sér nýja stjórnarskrá, sérstaklega þegar við endum síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu um nákvæmlega það plagg. Niðurstaðan er að aukinn meiri hluti vill að það sé notað sem drög að nýrri stjórnarskrá. Það er verkefni okkar að skila því. Alþingi hefur ekki getað gert það á átta árum. Mér finnst það vera merki um ákveðið dugleysi Alþingis, skort á getu til að framfylgja lýðræðislegu hlutverki. Hversu ósammála sem einstakir þingmenn eru frumvarpinu eða einstökum greinum eða hvað svo sem það er, ættum við alltaf að geta treyst kjósendum til að taka við frumvarpinu og segja já eða nei. Og það er algerlega nauðsynlegt að það sé gert. Ef við bregðum frá frumvarpi stjórnlagaráðs á einhvern hátt þá eigum við líka að bjóða fólki upp á að velja útgáfu Alþingis eða útgáfu af frumvarpi stjórnlagaráðs. Við eigum að geta treyst lýðræðinu, geta sett þetta mál í hendur á stjórnarskrárgjafanum, þjóðinni. Í staðinn fyrir að segja bara: Mér finnst þetta ómögulegt, ég ætla bara að segja nei, þá er möguleikinn þessi: Uppfyllum niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Látum þjóðina fá þetta aftur til að segja af eða á.



[19:16]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni innblásna ræðu. Mig langar að spyrja hann, því að ég er að reyna að skilja það, um þann texta sem við erum að vinna með og töluvert hefur verið rætt um. Eins og hér hefur komið fram, og í máli hv. þingmanns og fleiri, erum við núna að vinna með textann eins og hann lítur út eftir umfjöllun hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá 2013. Sá texti, eins og liggur í augum uppi, hefur aldrei verið borinn undir þjóðina. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig stendur á því að nákvæmlega sú vinna, sem nákvæmlega þeir þingmenn sem sátu í nákvæmlega þeirri þingnefnd á nákvæmlega þeim tíma unnu, er okkur það heilög að henni megi ekki breyta, en ekki vinnu sem t.d. núverandi þingmenn sem sitja í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd undir forystu hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gætu skilað af sér? Kannski önnur vinna sem liti öðruvísi út af því að ýmislegt hefur breyst á átta árum.

Ég fæ raunverulega ekki skilið hvernig hægt er að tengja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar við það að þjóðin hafi valið þennan texta mörgum mánuðum fyrr en nákvæmlega þessi texti varð til. Ég fæ þetta ekki til að koma heim og saman. Það er búið að breyta drögum stjórnlagaráðs. Við hv. þingmaður erum sammála um að það megi. Hv. þingmaður vill frysta tímann við hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd frá 2013 en ekki stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2020. Af hverju?



[19:18]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég sagði það ekki og hef aldrei haldið því fram. Þetta er ekkert bundið við háalvarlegt og frosið skjal frá 2013, alls ekki. Eins og ég fór yfir í ræðu minni segir niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar að við eigum að leggja fram frumvarp sem byggt sé á drögum stjórnlagaráðs. Það þýðir að mínu mati að ef við ætlum að víkja frá þeirri útgáfu ættum við öll að vera sammála um að það sé eitthvað sem við ættum að geta látið þjóðina velja um. Mér finnst persónulega að þjóðin eigi að fá að velja hvort hún vilji upprunaleg drög eða breytt lög Alþingis. Það er ekkert frosið í þessu sambandi, ekki neitt. Núverandi þing og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd má endilega gera málefnalegar breytingar, tvímælalaust, það er ekkert flókið við það svo lengi sem fólk fær að kjósa um þetta þegar allt kemur til alls. Mér finnst það rosalega mikilvægt og nauðsynlegt. Ég veit ekki alveg hvaðan hv. þingmaður fékk þessa hugmynd, alla vega kom hún ekki frá mér.



[19:20]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hef fengið þessa hugmynd með því að hlusta á umræður um stjórnarskrármál, sérstaklega í tengslum við undirskriftasöfnun nú undanfarið. En látum það vera, við getum rætt það síðar. Hv. þingmaður talar mikið um þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012, í október ef ég man rétt, og mikilvægi þess að virða hana. Mig langar þá að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að við getum almennt valið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni hvað við kjósum að virða. Nú vill svo til að sex spurningar voru bornar undir þjóðina í umræddri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ein af þeim sex spurningum hljóðar eitthvað á þá leið að þjóðin er spurð hvort hún vilji hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá, og nú er þjóðkirkja sérstakt lagalegt hugtak. Meiri hluti kjósenda samþykkti það. Telur hv. þingmaður að við þurfum ekki að virða vilja þjóðarinnar hvað varðar þjóðkirkju í þjóðaratkvæðagreiðslunni? Ástæðan fyrir því að ég spyr, forseti, er sú að hv. þingmaður er einn af flutningsmönnum frumvarps sem gengur einmitt gegn þessari niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem hv. þingmaður vill endilega að við virðum. Hv. þingmaður er einn af flutningsmönnum frumvarps sem gengur út á aðskilnað ríkis og kirkju, án þess að ég taki afstöðu til þess máls, það getur meira en verið að ég sé sammála hv. þingmanni með það. En ég hélt, af því að hlusta á hv. þingmann og fleiri skoðanasystkini hans, að það væri mantra okkar núna að virða þjóðaratkvæðagreiðslu. Á það bara við um ákvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni, forseti, sem hv. þingmanni hugnast? Getur hann valið hvaða ákvæði úr þjóðaratkvæðagreiðslunni, hvaða vilja þjóðarinnar hann ætlar að virða og hvaða vilja hann ætlar að hunsa?



[19:22]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, að sjálfsögðu ekki enda hefur hv. þingmaður þá greinilega ekki náð ekki öllu því sem ég hef talað um þetta mál. Að sjálfsögðu á að vera þjóðkirkjuákvæði samkvæmt niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Ég persónulega legg að sjálfsögðu fram breytingartillögur o.s.frv. og svo er þeim bara hafnað eða ekki, annaðhvort af þingheimi eða þjóðinni. Það er ekkert flókið.

Ég hef meira að segja talað um það í nákvæmlega þessu frumvarpi, sem hv. þingmaður vísaði í, að til að uppfylla ákvæði núverandi stjórnarskrár um þjóðkirkjuna gæti það að styðja hana og styrkja einfaldlega verið uppfyllt með því að halda úti Biskupsstofu eða einhverju slíku. Það uppfyllir ákvæði stjórnarskrárinnar ef það er mat þingsins. Mér finnst þetta ekkert rosalega flókið þegar allt kemur til alls.

Í fyrra andsvari spurði hv. þingmaður einmitt um útgáfuna 2013, af hverju hún væri svona heilög. Ég vil bara ítreka það að hún er ekki heilög. Ástæðan fyrir því að hún liggur fyrir eins og hún gerir núna er að stjórnarskráin, eins og var skilið við hana árið 2013, var sundur slitin. Það voru breytingartillögur hingað og þangað sem var búið að greiða atkvæði um en það var aldrei búið að taka saman skjalið eins og það var orðið í meðhöndlun þingsins. Fyrir tveimur þingum tók þingflokkur Pírata saman og púslaði saman greinargerðunum úr upprunalega frumvarpinu, úr meðhöndlun nefndanna og þingsins og umsagnir o.s.frv., og setti skjalið fram í heild sinni þannig að ekki þyrfti að flækjast fyrir fólki hver væri í raun og veru núverandi útgáfa frumvarpsins eins og þegar Alþingi stakk því ofan í skúffu.

Eins og ég sagði áðan er þetta alls ekki heilagt plagg. Það verður farið með plaggið í öll lýðræðisleg ferli sem hægt er að fara í. Þegar allt kemur til alls horfi ég til niðurstöðu (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslunnar og reyni að uppfylla hana og afhenda þjóðinni aftur heildstætt (Forseti hringir.) frumvarp, byggt á og grundvallað á drögum stjórnlagaráðs.



[19:24]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, sú gerð málsins sem er frá árinu 2013 er ekki heilög, sem þáverandi hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd útbjó. En málið er bara þar statt. Það sem er heilagt, það er að fara að þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar ég var að undirbúa mig undir þessa umræðu í dag skoðaði ég ræðu sem ég flutti um þetta mál á síðasta þingi. Mér fannst kafli í þeirri ræðu eiga fullt erindi hér og ég mun fara með hann aftur. En áður en að því kemur langar mig að hugleiða aðeins orð.

Það orð sem mig langar að nota tækifærið til að hugleiða er orðið „ráð“ sem er stutt, skemmtilegt og merkilegt orð og á sér merkilega sögu í íslenskri stjórnskipan. Þegar Íslendingar voru að fá heimastjórn og hafinn var undirbúningur að því ferli í samráði við dönsk yfirvöld, þá stóð til að íslenska orðið yfir danska orðið „minister“, og alþjóðlega orðið „minister“, yrði „ráðgjafi“. Það var ævinlega talað um hver yrði ráðgjafinn. Síðan breyttist það orð einhvers staðar í ferlinu. Ég veit ekki nákvæmlega hvar og hvernig, ég þekki því miður ekki þá sögu. Kannski eru aðrir hv. þingmenn betur að sér í þeirri sögu en ég. En það orð, ráðgjafi, breyttist yfir í „ráðherra“. Hannes Hafstein, sem var fyrsti ráðherrann okkar, hlaut sem sagt þann titil að vera ráðherra en ekki ráðgjafi. Mér hefur alltaf fundist að þessi breyting segi einhverja sögu um viðhorf íslenskra ráðamanna til valdsins sem þeim er ætlað að framkvæma og þeim er ætlað að hafa. Ráðherra er ekki fallegt orð og það verður æ ljótara með árunum. Ráðgjafi er hins vegar fallegt orð og kem ég þá að þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég vék að í upphafi máls míns.

Hún var sögð vera ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Nú á sú þjóðaratkvæðagreiðsla átta ára afmæli, átti það í gær, og við höfum séð hvernig íslenskir ráðamenn hafa leitað allra leiða til að komast undan því að fara að þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu og eru enn að klóra sér í hausnum yfir því hvernig þeir eigi að komast undan því að fara eftir henni, og þá verður það einhvern veginn fyrir þeim að hún hafi bara verið ráðgefandi, það er ekkert að marka hana, vegna þess að það er mjög lítilsiglt að vera ráðgjafi og er í raun ómark. Annaðhvort er maður ráðherra og maður ræður þessu og hefur þetta bara eins og þetta á að vera eða maður er ráðgjafi og þá er ekkert að marka það sem maður segir. Þetta endurspeglaðist líka dálítið í því hvernig stjórnlagaþing varð að stjórnlagaráði, þó að ég ætli ekki að fara að þræta um niðurstöðu Hæstaréttar sem varð til þess að ógilda kosninguna til stjórnlagaþings og ég ætla ekki að fara frekar út í það. Engu að síður varð þing að ráði og fékk þar með einhvers konar ráðgjafarhlutverk.

Það er líka annað orð sem leitaði dálítið á mig í dag og það er orðið flugvöllur. Við eigum tvo merkilega flugvelli í grennd við Reykjavík og inni í miðri Reykjavík, það er annars vegar Reykjavíkurflugvöllur og hins vegar Keflavíkurflugvöllur. Hvort tveggja eru þetta mjög mikilvægar stofnanir í íslenskum samgöngum og gegna mjög mikilsverðu hlutverki en þeir eru ekki gerðir af Íslendingum, þeir eru ekki búnir til af Íslendingum og þeir eru ekki miðaðir við íslenskar aðstæður. Breski herinn bjó til Reykjavíkurflugvöll og svo var það bandaríski herinn sem lagði Keflavíkurflugvöll og gerði það eftir sínum þörfum og eftir sínum forsendum en ekki eftir íslenskum forsendum. Íslendingar hafa ekki enn haft rænu í sér til að búa sér til sjálfir sinn flugvöll.

Stjórnarskrá er náttúrlega ekki flugvöllur en stjórnarskrá líkist engu að síður flugvelli í því að þar er ákveðinn grundvöllur, sem er grundvöllur þess að geta hafið sig til flugs og er grundvöllur allrar hreyfingar í samfélaginu. Sá grundvöllur þarf að vera lagður eftir þeim forsendum sem ríkja í samfélaginu sjálfu. Þess vegna þarf fólkið í samfélaginu sjálfu að koma að því að leggja þann grundvöll. Það þarf að ríkja sátt um það hvernig farið er að því að gera það.

Virðulegur forseti. Þá kem ég að því, svona bráðum, að fara að lesa úr ræðu minni frá því fyrir ári. En áður en ég geri það langar mig þó til að minnast á eitt vegna þess að ég hef haft ánægju af því að hlusta á vel samdar og vel fluttar ræður um þetta mál hér í dag og þar á meðal ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar sem sagði frá rannsóknum sínum og samanburði, sínum nákvæma textasamanburði, á ríkjandi stjórnarskrá og svo þeim tillögum sem við erum að tala um hér. Meðal þeirra tillagna — hann gerði þetta ekki að umtalsefni í ræðu sinni — sem eiga að detta út er 30. gr. núgildandi stjórnarskrár sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.“

Að svo miklu leyti sem þessi grein er skiljanleg þá er hún hættuleg, að mínu mati. Til forsetaembættisins getur valist einstaklingur sem af valdasýki ákveður að virkja þessa grein, rétt eins og 26. gr., sem allir héldu að væri dauður bókstafur, var virkjuð á sínum tíma af þáverandi forseta, og það dettur engum í hug að tala um hana sem dauðan bókstaf lengur. Það væri líka hægt að virkja svona grein og fara að veita undanþágur frá lögum nánast eftir geðþótta og þarf ekki að fara mörgum orðum um hætturnar sem geta skapast af því fyrir lýðræðið í landinu.

En nú ætla ég, virðulegur forseti, að fara með nokkur orð úr ræðu sem ég flutti á síðasta þingi um sambærilegt mál sem lagt var fram af okkur í Samfylkingunni ásamt Pírötum. Hefst þá lesturinn, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin nýja var unnin í löngu og góðu ferli og ég þarf ekki að minna þingheim á hvernig það fór fram. Þar var vandað til verka og unnið af heilindum og sáttfýsi á öllum stigum málsins fram undir það síðasta. En maður hafði engu að síður á tilfinningunni, eins og hefur raunar komið fram í umræðunni hér, að lögmönnum, lögspekingum, stjórnmálafræðingum og sumum alþingismönnum fyndist eins og hér væri kannski verið að hlutast til um þeirra mál. Það væri jafnvel verið að skipta sér af einhverju sem þeim einum kæmi við. Stjórnarskráin væri mál lögspekinga sem fást við að túlka hana og vinna með hana. En það er ekki svo, því miður. Stjórnarskrá verður að sjálfsögðu ekki búin til nema í miklu og nánu samráði við allt það fólk sem kann best til verka og það var líka gert. Hitt er þó algjört grundvallaratriði. Stjórnarskráin er ekki einkamál lögmanna og stjórnmálamanna. Hún varðar okkur öll. Stjórnarskráin snýst ekki bara um grundvöll samfélagsskipanarinnar heldur daglegt líf okkar allra og framtíð barnanna okkar. Þetta snýst um sjálfbærni, mannréttindi, lýðræði, valdið í samfélaginu. Þetta eru grunnlögin okkar allra.

Stjórnarskráin er aldrei alveg útrætt mál og allra síst með greinum eins og 30. gr. sem ég nefndi áðan. Stjórnarskráin er ekki háð náttúrulögmálum eða partur af þeim, hún er ekki eins og veðrið, fjöllin eða hafið. Hún er mannanna verk. Stjórnarskráin er ekki ytri aðstæður sem við höfum ekkert um að segja heldur er stjórnarskráin innri aðstæður samfélagsins sem við sjálf mótum saman. Það gerum við með því að gera sáttmála hvert við annað um ákveðnar grundvallarreglur í samskiptum okkar, grundvallarleikreglur í samfélaginu, grundvallarlög, enda heitir stjórnarskráin í nágrannalöndum okkar grunnlög, grundvallarlög. Hún er grundvöllurinn undir öllu, lifandi plagg.

Hver er nauðsyn á að breyta stjórnarskrá eða fá nýja stjórnarskrá? Margir spyrja sig þeirrar spurningar. Af hverju þurfum við að vera eitthvað að breyta þessu? Er þetta ekki bara ágætt eins og það er? Myndi ekki bara óvissa fylgja þessu? spyrja margir. Þá held ég að því sé til að svara að núgildandi stjórnarskrá fylgir óvissa. Manni finnst stundum þegar maður horfir á íslenskt samfélag í gegnum áratugina eins og það hafi stundum verið spunnið af fingrum fram af löggjafar- og framkvæmdarvaldi, það hafi verið „impróvíserað“ nánast dag frá degi af helstu valdamönnum sem hafa þá gripið til ýmiss konar lagaúrræða. Þessi nýja stjórnarskrá finnst mér vera viðleitni til að koma á meiri formfestu, meiri lögfestu í íslensku samfélagi sem ég tel fagnaðarefni.“



[19:38]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af síðustu orðum hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar get ég verið sammála honum um að það er mikilvægt að auka á stjórnfestu og lögfestu í landinu. Ég er hins vegar ósammála honum um að tillögur stjórnlagaráðs frá 2011 séu til þess fallnar. Reyndar er ég í grundvallaratriðum algjörlega ósammála honum um túlkun á þeim. Ég held að óvissan um túlkun ákvæða muni bara magnast upp og þar sem hún er fyrir munu tillögur stjórnlagaráðs ekki bæta úr heldur auka á óvissuna. Þar má tína margt til.

Í fyrsta lagi er auðvitað um að ræða veigamiklar breytingar sem varða ákvæði um æðstu stjórn ríkisins þar sem fleiri spurningar vakna eftir lesturinn en er svarað, getum við sagt. Sama má segja um þá breytingu sem felst í því að í stað núgildandi ákvæða sem gera ráð fyrir einhvers konar þjóðaratkvæðagreiðslum, sem ég held að séu þrjú, verða mismunandi leiðir til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur sjö, nái tillögur stjórnlagaráðs fram að ganga. Með því er óvissan aukin, bæði um samspil einstakra úrræða og samspil fulltrúalýðræðis og beins lýðræðis. Þetta er nú atriði sem m.a. Feneyjanefnd, sem stundum er vísað til, vakti athygli á á sínum tíma og var ekki breytt í meðförum þingsins. Óvissa varðandi túlkun mannréttindaákvæða mun aukast með því að breyta orðalagi þeirra og bæta þar verulega í. Fleira má nefna þar sem ég held að tillögur stjórnlagaráðs myndu auka óvissu (Forseti hringir.) verulega um stjórnskipun ríkisins og réttindi borgaranna en ekki hið gagnstæða.



[19:41]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, það kann að vera að óvissa kunni að vera um túlkun tiltekinna greina í nýrri stjórnarskrá. Ég skal ekki reyna að draga fjöður yfir það að lögmenn kunna að takast á um það og nýjar hefðir munu eflaust verða til í lagatúlkunum. Ég tel hins vegar að nú þegar ríki óvissa um mjög stór og mikilvæg atriði í okkar stjórnskipan. Ég nefndi sérstaklega eina grein sem varðar forsetann og hans hlutverk. Til allrar hamingju höfum við ekki enn þá fengið forseta sem hafa kosið að beita þeirri grein en við gætum fengið slíka manneskju á forsetastól. Ég tel líka að í íslensku samfélagi sé nú um stundir og hafi verið lengi, alveg frá hruni og alveg frá því fyrir hrun, ekki bara óvissa um ýmsar leikreglur samfélagsins, sem óprúttnir aðilar hafa oft séð sér leik á borði að túlka af mikilli fimi, skulum við segja, heldur líka mikið vantraust meðal almennings. Það er mikil óánægja meðal almennings. Og ég tel að vantraust almennings á æðstu stjórn ríkisins, þar á meðal þeirri stofnun sem hér er og við stöndum fyrir, sé geigvænlegt og ég tel að það að þverskallast við að fara að vilja (Forseti hringir.) þjóðarinnar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sé ein af grundvallarástæðum þess mikla vantrausts.



[19:43]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þingmaður kom víða við í svari sínu ætla ég líka að koma víða við í seinna andsvari mínu. Fyrst vil ég nefna að enginn sérstakur ágreiningur er um það að 30. gr. stjórnarskrárinnar megi víkja. Það er enginn sem vill standa vörð um 30. gr. stjórnarskrárinnar. En það að 30. gr. stjórnarskrárinnar sé asnaleg gefur okkur ekki tilefni til að breyta öllum hinum greinum stjórnarskrárinnar, alls ekki. Það er engin þörf á að endurskrifa allar 80 greinar stjórnarskrárinnar og bæta 35 nýjum við þó að ein grein sé augljóslega úrelt og eigi ekki þar heima. Það er alveg út í hött að álykta sem svo út frá einhverri einni slíkri grein. Og ég get nefnt þrjár, fjórar, fimm aðrar greinar sem ég teldi að væri full ástæða til að endurskoða. Það gefur mér ekki tilefni eða sannfæringu fyrir því að ástæða sé til að breyta öllum hinum, alls ekki. Ég segi því sem svo: Að mínu mati stendur valið ekki milli þess að breyta ekki nokkrum sköpuðum hlut eða breyta öllu. Ég held að það sé alveg hægt að fara milliveg. Ég held að það sé hægt að fara milliveg með því að taka fyrir afmarkaðar breytingar sem hægt er að reyna að ná sem víðtækastri samstöðu um frekar en að ætla að breyta öllu, bæði því sem vel hefur reynst og eins því sem kann að vera úrelt. Ég bara segi sem svo: Ef það þarf að skipta um dekk á bíl þá skiptir maður um dekk, maður skiptir ekkert endilega um bíl.



[19:45]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bendi á ágætar og ítarlegar rannsóknir hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar sem ég tel ekki ástæðu til að draga í efa enda annálaður nákvæmnismaður. (BÁ: Það stendur 80 sinnum „og“ í stjórnarskránni.) Hann hefur leitt í ljós að það er stórlega ofmælt að um sé að ræða einhvers konar allsherjarumbyltingu á stjórnarskrá. Þvert á móti heldur sér obbinn af greinum hennar. Stjórnarskráin nýja líkist ríkjandi stjórnarskrá miklu meira en menn hafa viljað vera láta.

Hv. þingmaður talar mikið um að skipta um dekk og skipta um bíl. En þetta er dálítið eins og að vera á einhverri druslu þar sem jafnvel er sprungið á öllum dekkjum, þrjú hjól undir bílnum og áfram skröltir hann þó. Og þá er bara að láta hann skrölta út í það óendanlega og gera ekki neitt. Það hafa verið haldnir fundir hér og það hafa verið skipaðar nefndir og það hefur gengið nefnd undir nefndar hönd við að reyna að þoka áfram einhverjum breytingum á stjórnarskránni, norskir sérfræðingar hafa verið kallaðir til, hver öðrum snjallari, en ekkert hefur gerst áratugum saman. Það eru bara þrjú hjól undir bílnum og áfram skröltir hann þó — en hann skröltir bara ekkert áfram.