151. löggjafarþing — 24. fundur.
Tækniþróunarsjóður, 1. umræða.
stjfrv., 321. mál. — Þskj. 361.

[18:30]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Tækniþróunarsjóð. Í frumvarpi þessu felast sérlög um Tækniþróunarsjóð en frumvarpið tengist frumvarpi því sem ég mælti fyrir hér áðan um opinberan stuðning við nýsköpun.

Í frumvarpinu er lagt til að lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, falli brott. Lagaákvæði sem skjóta stoðum undir starfsemi Tækniþróunarsjóðs er að finna í þeim lögum sem munu falla brott og því er nauðsynlegt að setja um sjóðinn sérlög til að tryggja lagagrundvöll undir áframhaldandi starfsemi hans.

Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á ákvæðum II. kafla laga nr. 75/2007, sem nú fjalla um sjóðinn, að undanskilinni viðbót í ákvæði a-liðar 2. mgr. 1. gr. Í viðbótinni er tiltekið að Tækniþróunarsjóði sé heimilt að styrkja rannsóknir og tækniþróun í samstarfi við erlenda sjóði einnig en í núgildandi ákvæði er aðeins fjallað um tilteknar stofnanir, háskóla og fyrirtæki sem samstarfsaðila. Þannig er í raun verið að flytja ákvæði um Tækniþróunarsjóð sem er að finna í lögum nr. 75/2007, yfir í sérlög og tryggja þannig fulla samfellu í starfseminni.

Í athugasemdum við frumvarpið, sem bárust ráðuneytinu eftir opið samráðsferli, komu fram ábendingar um að rétt væri að endurskoða og útvíkka hlutverk og verksvið Tækniþróunarsjóðs ásamt því að bent var á að nafn sjóðsins endurspeglaði ekki þann stuðning sem sjóðurinn veitir og nær til fleiri sviða en einungis tækniþróunar. Nú stendur fyrir dyrum endurskoðun á lagaumhverfi Vísinda- og tækniráðs og það er markmið mitt og ráðuneytisins að af því tilefni verði hugað nánar að framtíðarskipulagi samkeppnissjóðsins sem og metin þörf á breytingum á hlutverki, skipulagi og aðkomu aðila að stjórn Tækniþróunarsjóðs. Umræðan um heiti sjóðsins hefur einnig komið upp reglulega og mun verða unnið að því í framtíðarstefnumótun að finna sjóðnum mögulega annað heiti.

Aðaltilgangur þessa frumvarps sem ég mæli fyrir nú er að flytja ákvæði um sjóðinn í sérlöggjöf svo tryggður sé lagagrundvöllur fyrir starfseminni. Hér er sem sagt ekki um að ræða heildarendurskoðun á Tækniþróunarsjóði eða lagaumgjörðinni í kringum hann.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.



[18:32]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú er stefnt að því að setja sérlög um Tækniþróunarsjóð og þá er náttúrlega nauðsynlegt að gæta samræmis í allri lagasetningu er varðar nýsköpun. Það sem ég vildi aðeins ræða við hæstv. ráðherra er nokkuð sem mér finnst vera svolítið óljóst og gæti hugsanlega valdið hagsmunaárekstrum. Við vitum að Tækniþróunarsjóður gegnir lykilhlutverki í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. En hann getur hins vegar ekki verið óháður burðaraðili styrkveitinga, ef svo má að orði komast, til nýsköpunar í landinu á sama tíma og hann er eignaraðili að einstaka sprotaverkefnum. Það er það sem ég skil, alla vega þegar ég fór yfir þetta.

Ef ég fer aðeins yfir 1. gr. þar sem fjallað er um hlutverk sjóðsins, er ýmislegt sem mætti fara aðeins betur, finnst mér, varðandi orðalagið sem þar er. Þar segir að hlutverk Tækniþróunarsjóðs sé að virkja uppbyggingu sprotafyrirtækja og eiga aðild að þeim á frumstigi. Það var það sem ég hnaut svolítið um, hvort eðlilegt sé að þetta fari saman. Tækniþróunarsjóður er samkeppnissjóður og sem slíkur þarf hann náttúrlega að vera óháður og hlutlaus matsaðili umsókna í sjóðinn. Og þá spyr maður: Er hann þá hlutlaus þegar hann er um leið aðili, eins og segir í greininni, á frumstigi nýsköpunar? Ef hæstv. ráðherra væri tilbúinn að skýra þetta svolítið betur út og reyna þá að taka af allan vafa um vangaveltur mínar, hvort þetta sé þá ekki eins og ég sé þetta fyrir mér.



[18:35]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Svarið við spurningunni er kannski bæði já og nei. Varðandi það atriði að eiga aðild að sprotafyrirtækjum þá er það ekki þannig í praxís hjá Tækniþróunarsjóði, það er ekki þannig í framkvæmd hjá sjóðnum og hann eignast ekki hlut í fyrirtækjum. Það er ekkert í stefnu stjórnar eða annað í dag sem gerir honum það kleift. Að því leytinu til myndi ég segja að áhyggjurnar væru óþarfar. En það er samt alveg sjálfsagt að skoða hvort taka eigi einfaldlega alfarið fyrir það. Það er kannski eitthvað sem nefndin gæti skoðað í meðferð málsins. Ástæðan fyrir því þetta er svona núna er að þetta var svona í lögunum og við erum ekki að gera neinar breytingar nema þessa litlu breytingu sem ég tiltók sérstaklega. Að öðru leyti er þetta bara yfirfærsla á ákvæðum úr gildandi lögum í þetta frumvarp. Þetta eru mínu mati gild sjónarmið hjá hv. þingmanni. Það er kannski eins og um annað í þeim ákvæðum sem fjalla um Tækniþróunarsjóð, að þar eru atriði sem mætti skoða og nafnið er þar á meðal og það atriði sem hv. þingmaður kemur inn á. En við tókum einfaldlega ákvörðun um að gera það ekki núna af því að verkefnið er Nýsköpunarmiðstöð og að finna þeim verkefnum farveg. Og vegna þess að verið er að endurskoða lagaumhverfi Vísinda- og tækniráðs, þar sem Tækniþróunarsjóður er mjög mikilvægt verkfæri, væri það eitthvað sem kæmi síðan í kjölfarið. En ef hægt er að gera einhverjar frekari breytingar í nefndinni, eins og það að taka alfarið fyrir þetta, þá held ég að það séu bara mjög gild sjónarmið sem nefndin ætti að fara yfir án þess að taka að sér einhverja almenna endurskoðun, sem er það sem tekur við næst.



[18:37]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fagna því að hún mælist til þess að þetta verði skoðað innan nefndarinnar, að alla vega verði tekinn af allur vafi um að hér séu hugsanlegir hagsmunaárekstrar þegar kemur að umsóknum. Sjóðnum berst gríðarlegur fjöldi umsókna og það er hörð samkeppni um styrki. Ef það er eitthvað sem veldur tortryggni er það náttúrlega mjög slæmt og til þess fallið að draga úr trúverðugleika sjóðsins. Það er alls ekki gott og sérstaklega ekki þegar verið er að setja heildarlög um opinberan stuðning við tækniþróun, nýsköpun og atvinnuþróun. Ég fagna því þess vegna ef þetta verður skoðað innan nefndarinnar og þessar vangaveltur mínar séu kannski ekki neitt sem við þurfum að hafa áhyggjur af. En þetta blasti við. Þegar ég las þennan texta á hnaut ég um þetta, að hlutverk sjóðsins sé að styrkja uppbyggingu sprotafyrirtækja og hann eigi aðild að þeim á frumstigi nýsköpunar, eins og segir. Það getur valdið misskilningi. Við þekkjum það öll að lög eiga að vera skýr og greinargóð og það er mjög mikilvægt að þetta mál fái góða umfjöllun og að þeir sem koma fyrir nefndina og hafa áhyggjur af þessu — ég veit að það eru aðilar innan þessa geira sem hafa áhyggjur af þessu — verði fullvissaðir um að áhyggjur þeirra séu óþarfar. Þannig að ég fagna þessu svari hæstv. ráðherra og vona að málið verði skoðað ítarlega í nefndinni.



[18:39]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta. Ég deili þeim sjónarmiðum með hv. þingmanni að það er hin almenna regla að varast það frekar en hitt að vera með of loðið fyrirkomulag hvað varðar eignarhald hins opinbera á þessum stigum. Hlutverk Tækniþróunarsjóðs er skýrt og þar af leiðandi er það þannig í framkvæmd að þetta sé ekki með þessum hætti. En það er eðlilegt að löggjöfin sé skýr með það og spurning hvort orðalagið væri eins ef þetta væri afurð af heildarendurskoðuninni. En af því að við vorum einfaldlega að flytja ákvæði úr gildandi löggjöf í þessi lög þá stendur þetta svona. En eins og ég sagði þá kíkir nefndin á það.



[18:40]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Eins og ég nefndi í andsvari við hæstv. ráðherra nýsköpunarmála þá er stefnt að því að setja sérlög um Tækniþróunarsjóð en hann hefur til þessa verið hluti af heildarlögum um opinberan stuðning við tækniþróun, nýsköpun og atvinnuþróun. Ég nefndi það einnig áðan að nauðsynlegt væri að gæta samræmis í allri lagasetningu er varðar nýsköpun og tek því undir það. Tækniþróunarsjóður gegnir lykilhlutverki í því stuðningsumhverfi sem við höfum hérlendis þegar kemur að nýsköpun og er í raun sú grein ríkissjóðs sem styðja skal tækniþróun í landinu. Lagagrundvöllur hans er því forsenda þess að við getum nýtt auðlindir okkar og mannafla og staðið jafnfætis öðrum þjóðum þegar kemur að lífskjörum og byggt grunn undir framleiðsluiðnað sem atvinnugrein og nýtt íslenskt hugvit til að ná markaðsforskoti á heimsvísu í einstökum greinum. Það er náttúrlega hið endanlega markmið.

Tækniþróunarsjóður getur ekki verið óháður burðaraðili styrkveitingar til nýsköpunar á landinu og á sama tíma eignaraðili einstakra sprotaverkefni, eins og ég nefndi í andsvarinu og hafði áhyggjur af því. Ég fagna því að hæstv. ráðherra leggur til að þetta verði skoðað vel innan nefndarinnar, hvort nauðsynlegt sé að breyta þessu orðalagi svo að allur vafi verði tekinn af um hagsmunaárekstra hvað þetta varðar þar sem sjóðurinn er í raun og veru að styrkja og er aðili að um leið. Það þarf að skýra þetta betur. Vonandi næst góð niðurstaða með það mál.

Það sem mér finnst galli við þetta mál er að mér finnst þessi sjóður allt of mikið sniðinn að þörfum háskólasamfélagsins og þessara stóru fyrirtækja. Það er ekki að finna ákvæði um að tiltekinn hluti ráðstöfunarfjár sé ætlaður verkefnum einstaklinga sem eru með verkefni á byrjunarstigi. Það er mjög mikilvægt að sinna þeim hópi en því miður hefur það ekki verið gert nægilega vel. Það virðist vera að áfram sé haldið á þeirri braut að einyrkjar eða fámennur hópur á sviði frumkvöðlastarfs og nýsköpunar þurfi að búa við þetta stóra umhverfi sem er fyrir stór fyrirtæki og svo háskólana. Það virðist því miður vera ætlunin að fela ákvörðunarvaldið, skulum við segja, þessum stærstu sjóðum, fela það í hendur fámenns hóps hagsmunaaðila. Því miður lítur út fyrir að verið sé að sniðganga smærri hagsmunasamtök eins og frumkvöðla og hugvitsfólk, sem ég kem nánar að á eftir.

Áfram er gert ráð fyrir því að Vísinda- og tækniráð skipi fagráð Tækniþróunarsjóðs. Áfram er einnig gert ráð fyrir því að hagsmunasamtök hugvitsfólks, sem er merkilegur félagsskapur, eigi enga aðkomu að þessu ferli sem skiptir meginmáli til að ný verkefni einstakra hugvitsmanna geti orðið að veruleika. Það verður að passa það í þessu ferli að ekki sé verið að útiloka einn né neinn sem starfar á sviði nýsköpunar. Ég hef áður rætt um mikilvægi þess að styðja við bakið á samtökum hugvitsfólks og hef tekið þessa umræðu við hæstv. ráðherra.

Svo er þarna ákvæði um fagráð byggingarrannsókna. Mér finnst þetta svolítið óljóst allt saman og sé ekki beint skyldleika við meginstarfsemi Tækniþróunarsjóðs. Það er mikilvægt fyrir stefnu stjórnvalda að styðja markvisst við uppbyggingu á nýsköpunardrifnum atvinnuvegum, stuðla þannig að vexti sprota og nýsköpunarfyrirtækja auk þess að tryggja að á Íslandi sé aðgengi að fjármagni sem er sérhæft fyrir þessa starfsemi. Það að fjölga sjóðum sem frumkvöðlar geta leitað til er af hinu góða, svo sannarlega, svo framarlega sem þeir eru víðsýnir og setja ekki öll eggin í sömu körfuna, eins og við getum sagt. Það var reyndar það sem gerðist með Nýsköpunarsjóð þegar tæknibólan sprakk á sínum tíma, held ég, í kringum aldamótin.

Það sem vantar mest fyrir frumkvöðla á byrjunarstigi, og það er hópur sem við eigum að sinna vel, er þetta þolinmóða framlag, þolinmóða fjárframlag, og að hvert og eitt verkefni verði metið og í því fjárfest svo lengi sem þurfa þykir, allt þar til frumgerð hefur sannað sig. Ein af dyggðunum þegar kemur að nýsköpun er þolinmótt fjármagn, að menn hafi tíma til að bíða og gefa verkefnum tækifæri til að sanna sig, þótt það taki langan tíma. Það er t.d. ekki nóg að mínu mati að veita fjármagn til þriggja ára ef verkefnið er stórt og umfangsmikið og fyrirséð að það klárist ekki á svo skömmum tíma. Það er því miður þannig, herra forseti, að allt of mörg verkefni á sviði nýsköpunar eru skilin eftir úti í miðri á, ef svo má segja. Það eru verkefni sem þurfa þetta þolinmóða fjármagn og meiri tíma til að sanna sig.

Það er alveg klárt að allur raunverulegur og skilvirkur stuðningur við nýsköpun er af hinu góða en það skiptir miklu máli að fjármunir nýtist vel til nýsköpunar, sem er ekki eins og hver annar rekstur þar sem menn hafa alltaf gróðann í sjónmáli og í fyrirrúmi. Það held ég að hafi verið svolítið gallinn við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, fjárfestingar hans hafa miðast við skjótfenginn arð að mínum dómi og ekki hefur verið nógu mikið hugsað um að leggja áhættufé í nýsköpunarverkefni, því að vissulega er nýsköpun líka áhætta, það hvort verkefnið takist og feli síðan í sér fleiri tækifæri eða hvort það verður ekki meira úr verkefninu. Þegar sjóðurinn hefur haft þetta að leiðarljósi að mínum dómi þá hafa þessi verkefni verið útilokuð frá aðstoð hans.

Heilt yfir litið þá sýnist mér að sá sjóður sem á að stofna með þessum lögum myndi því miður lítið gagna þeim sem eru á frumstigi nýsköpunar. Það eru skynsamleg viðbrögð stjórnvalda við ástandinu núna að setja aukið fé í nýsköpun. Ég tek heils hugar undir það og við í Miðflokknum höfum stutt það. Hins vegar virðist eiga að ráðstafa því mestöllu eftir þessum sama farvegi sem er Tækniþróunarsjóður. Það held ég að ætti að íhuga fara betur yfir, herra forseti, hvort það sé rétta nálgunin. Hefði ekki verið líka eðlilegt að efla fleiri sjóði sem starfa við hliðina á Tækniþróunarsjóði? Ég nefni Orkusjóð sem dæmi.

Tækniþróunarsjóður er að mörgu leyti ágætur sjóður og býður upp á fjölbreytt úrræði. Það er hins vegar alltaf spurning hvort það sé fyllilega rétt að það sé einhver ein stofnun sem ákveður hverjir fá þessa líflínu sem í raun felst í því að veita styrk nýsköpunarverkefni og hverjir fá það ekki.

Mig langar aðeins í lokin að segja, herra forseti, að þegar maður fer yfir stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar 2017 þá eru þjóðinni gefin ýmis fyrirheit um eflingu hugvits og nýsköpunar. Þar segir t.d. þetta:

„Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða …“

Ég tek að sjálfsögðu heils hugar undir þetta. Þetta eru göfug og góð markmið. Það segir líka í stjórnarsáttmálanum að ríkisstjórnin muni vinna að því að skilyrði hér á landi fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki verði framúrskarandi.

Í inngangi nýrrar nýsköpunarstefnu segir nýsköpunarráðherra svo réttilega:

„Hugvit einstaklinga er mikilvægasta uppspretta nýsköpunar. Það er þar sem við getum átt von á að finna lausnirnar og svörin sem munu áfram gera það mögulegt að bjóða upp á framúrskarandi lífsgæði í harðbýlu landi.“

Þetta eru fögur fyrirheit og góð markmið en af þessu mætti ætla að ríkisstjórnin vilji efla starf hugvitsmanna og búa þeim viðunandi starfsumhverfi. Rétt er að nefna, og ég hef nefnt það áður, herra forseti, að hugvitsmenn og frumkvöðlar hafa með sér hagsmunasamtök, SFH, sem stendur fyrir Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna, og KVENN, sem stendur fyrir konur í nýsköpun. Ég hef verið ötull talsmaður þess að styrkja þessi félög. Þetta eru félög sem hafa gert mjög góða hluti en því miður hefur þeim ekki verið sýndur sá skilningur sem þau eiga svo sannarlega skilinn þegar kemur að stuðningi af hálfu hins opinbera. Markvisst hefur verið dregið úr stuðningi við félögin og hann er enginn í dag. Þessi ágætu félög vinna í anda þeirra markmiða sem ríkisstjórn og ráðherra setja í yfirlýsingum sínum, sem ég vitnaði í áðan, og þau starfa náið saman. Því mætti ætla að þau fengju stuðning fyrir verkefni sín og starfsemi en það er öðru nær. Stjórnvöld hafa í tvígang synjað þessum félagasamtökum um styrk. Auðvitað þarf að rökstyðja það en það hefur ekki verið gert. Maður spyr sig hvort það skyldi virkilega verða svo að þeim verði hafnað í þriðja sinn vegna þess að ég veit að þau hafa lagt inn beiðni til fjárlaganefndar um fjárstyrk. Og það er ekki um háar fjárhæðir að ræða þar, alls ekki. Það verður því áhugavert að fylgjast með því hvort þessi félög fái þann styrk sem þau hafa óskað eftir núna í þriðja sinn. Þetta eru einu hagsmunasamtök hugvitsfólk á Íslandi sem nutu framlaga af opinberu fé til þessa mikilvæga starfs, að sinna og vinna að eflingu nýsköpunar, og framlögin voru mest 2013 en fóru síðan minnkandi ár frá ári. Árið 2017 synjaði nýsköpunarráðuneytið þeim um styrki. Það hefur í raun og veru enginn rökstuðningur fylgt því. Ég hef rætt þetta við hæstv. ráðherra.

Ég ætla að vona að ráðherra sýni því skilning að þessi hópur er að gera mjög góða hluti. Hann hefur t.d. sinnt jafningjafræðslu til frumkvöðla. Þetta er félagsskapur sem telur um 400 manns og innan þessa hóps er fjölbreytt menntun og gríðarlega mikil reynsla. Það er dýrmætt fyrir þá sem hyggjast efla nýsköpun að eiga kost á viðtölum við þetta fólk. Þarna eru nýliðar sem hafa fengið ráðgjöf um fyrstu skref við að þróa hugmyndir og vinna að nýsköpun. Það er hægt að leita eftir fræðilegri ráðgjöf, hvernig menn eigi að bera sig að við að sækja um styrki o.s.frv. Það er svo mikilvægt að sú handleiðsla sem fólk fær á þessum fyrstu skrefum fái notið sín. Mikið af þessu hefur verið unnið í sjálfboðavinnu, þ.e. sú ráðgjafarþjónusta sem þessi félög hafa veitt, að miðla verkefnum milli félagsmanna og eftir eðli verkefnanna, á sama tíma og t.d. ráðgjafarþjónusta Nýsköpunarmiðstöðvarinnar er rekin af fólki sem hefur laun frá ríkissjóði. Þessi ráðgjafarþjónusta er ákaflega mikilvæg.

Ég vildi nefna þetta í lokin, herra forseti, vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að við gleymum engum þegar kemur að nýsköpunarmálum. Hér erum við að setja sérlög um sjóð sem er stór og mikill og margt ágætt við hann en við megum ekki gleyma (Forseti hringir.) frumkvöðlum, einyrkjum í þessu mikilvæga verkefni (Forseti hringir.) sem skilar okkur öllum á endanum hagfelldri og góðri niðurstöðu þegar kemur að nýsköpun (Forseti hringir.) og mikilvægi hennar fyrir þjóðina.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.