151. löggjafarþing — 47. fundur.
horfur í ferðaþjónustu.

[10:31]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að skýr upplýsingagjöf verður seint talin einn af hornsteinum ríkisstjórnarinnar. Nú er ár liðið frá því að kórónuveirufaraldurinn fór að láta á sér kræla, faraldur sem hefur haft gríðarleg áhrif á stöðu þúsunda heimila og fyrirtækja. Róðurinn hefur verið þungur og nú liggur fyrir, að því er virðist, að sumarið verður ekki jafn bjart og vonir stóðu til, sérstaklega fyrir ferðaþjónustuna.

Viðreisn hefur lagt til ótal tillögur með það fyrir augum að auka fyrirsjáanleika til lengri tíma vegna þess að þetta er tímabundið ástand og það er mikilvægt fyrir landsmenn að fá skýr svör, að sjá fram úr kófinu. Samkvæmt bestu spá Samtaka ferðaþjónustunnar gera þau ráð fyrir um 600.000–700.000 ferðamönnum á árinu — samkvæmt bestu spá. Þeir voru 2 milljónir árið 2019. Þetta byggir á því að ytri landamæri Schengen opni fyrir vorið þannig að við getum tekið á móti ferðamönnum frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Hér er mikil óvissa á ferð.

Samkvæmt forsvarsmönnum ferðaþjónustunnar fer viðspyrnukraftur greinarinnar þverrandi og næstu mánuðir geta hreinlega ráðið úrslitum um stöðu hennar á þessu ári, um fjölda fyrirtækja í þessari mikilvægu atvinnugrein. Fari svo að bólusetningar verði ekki klárar fyrir sumarbyrjun, hver eru skilaboð hæstv. ráðherra til ferðaþjónustufyrirtækja og til fyrirtækja í veitingahúsa- og öldurhúsarekstri? Hver eru skilaboð ríkisstjórnarinnar fyrir næstu mánuði út frá þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir núna og hefur verið fyrirséð eða a.m.k. ástæða til að óttast um nokkurt skeið? Hvert er plan ríkisstjórnarinnar þegar kemur að rekstri þessara fyrirtækja og þeim raunhæfum væntingum sem þau geta haft til næstu mánaða?



[10:33]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það er alveg rétt, óvissan er enn til staðar. Það á bæði við um okkur hér innan lands en ekki síður og jafnvel enn frekar löndin í kringum okkur. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega Bretland og Bandaríkin og það flokkast undir hina svokölluðu ytri aðstæður, þ.e. við erum mjög háð því hver staðan er og verður þar næstu misseri en líka hvaða reglur þau lönd setja gagnvart sínum borgurum. Ákvarðanir þeirra á landamærum hafa mikil áhrif á okkur hér og ákvarðanir þeirra um það hvort fólk þurfi að fara í sóttkví þegar það kemur til baka hefur áhrif á ákvarðanatöku þess um hvort það komi hingað til lands eða ekki og ferðavilja almennt. Mín skilaboð til ferðaþjónustunnar og afleiddra starfsgreina innan hennar eru einfaldlega: Við stöndum með ykkur, það höfum við sýnt í verki. Við erum með augun á boltanum. Við erum tilbúin að hlusta, við erum að taka ákvarðanir. Við erum að styðja við ykkur af því að við höfum tröllatrú á íslenskri ferðaþjónustu til framtíðar og ég efast ekki um það í hálfa mínútu að framtíð ferðaþjónustu á Íslandi er mjög björt.

Við erum með skýran stefnuramma til ársins 2030 sem við unnum einmitt með greininni á sveitarstjórnarstiginu og það er ákveðinn gæðastimpill á þann stefnuramma að hann stendur í raun óhaggaður eftir Covid. Við erum með skýra sýn um að við ætlum að vera leiðandi í sjálfbærri þróun. Við ætlum að horfa áfram og það er t.d. verkefni sem ég held að verði áskorun þegar við förum aftur að taka á móti fólki, að við erum að horfa á gæði umfram magn. Við erum ekki að horfa á fjölda ferðamanna heldur hvað ferðamaðurinn skilur eftir sig og hvaða verðmæti verða til í greininni og hver arðsemin er innan hennar. Það eru ýmsar áskoranir fram undan. Við horfum fram á fjárhagslega endurskipulagningu ýmissa fyrirtækja en skilaboðin eru: Við stöndum með ykkur. Ég hef tröllatrú á þeim og þau hafa það líka. Tímarnir verða ekki sársaukalausir eða auðveldir en ég hef mikla trú á framtíð þessarar greinar (Forseti hringir.) og um leið og við getum dregið úr óvissu og aukið fyrirsjáanleika þá gerum við það. (Forseti hringir.) Núna er staðan skýr varðandi næstu skref, hvort hægt er að flýta því kemur í ljós og ég vona það.



[10:35]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þau voru góð svo langt sem þau náðu en þau lutu samt frekar að hugmyndum og sýn ráðherrans til lengri tíma og ég get að mörgu leyti tekið undir þá sýn. En ég er að spyrja um næstu skref. Nú hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar til aðstoðar fyrirtækjum verið í formi tekjufallsstyrkja, lokunarstyrkja, hlutabóta og annars slíks. Við erum að tala um það í sambandi við ferðaþjónustuna að ef erlendir ferðamenn koma ekki verða hér innlendir ferðamenn. Við afgreiðslu fjárlaga 2021 lagði Viðreisn til að ferðagjöfin yrði útvíkkuð og stækkuð. Þessi ferðagjöf, sem var hluti af björgunaraðgerðum, þótti takast vel en er ekki ástæða til að líta til skemmri tíma og leita frekari leiða til að örva ferðaþjónustu með innlendum ferðamönnum í stað þess að fara í enn frekari aðgerðir fyrirtækja sem eru að loka, hjálpa þeim að loka, hjálpa þeim að segja upp, hjálpa þeim að lifa af engin viðskipti? Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er ekki ástæða til að taka undir — hefur afstaða hennar eitthvað breyst — tillögu Viðreisnar (Forseti hringir.) um að hækka gjöfina til að verja peningunum frekar í viðskiptin þannig að ferðaþjónustan á Íslandi njóti þó (Forseti hringir.) þeirra viðskipta sem innlendir ferðamenn geta skapað?



[10:37]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi næstu skref: Það er auðvitað þannig að þau úrræði sem við höfum farið í eru í fullri virkni. Við erum nú þegar með þau úrræði í gangi og það fram eftir vori hið minnsta. Ferðagjöfin er enn í gangi. Við framlengjum gildistíma hennar til að fólk geti nýtt hana, enda vorum við á sama tíma og hún var í virkni með þannig takmarkanir að það hafði áhrif. Við höfum lengt tímann og ég er að sjálfsögðu opin fyrir slíkum hugmyndum, það er lítill tilkostnaður fyrir töluvert mikil umsvif. Ef við sjáum fram á að taka á móti fáum ferðamönnum og ef Íslendingar munu frekar ferðast hér en fara utan þá er það lítill tilkostnaður fyrir ríkið að hvetja enn frekar til ferðalaga. Við sáum það í sumar að það skipti mjög miklu máli. En fyrir stóru myndina í íslenskri ferðaþjónustu þá eru áhrifin mjög lítil í heildina vegna þess að okkar innlendi markaður er bara svo ofboðslega lítill. Ég veit ekki hvort til er annað land sem er með jafn lítinn innanlandsmarkað og jafn háð ferðaþjónustu og þar af leiðandi jafn háð erlendum ferðamönnum og Ísland.