151. löggjafarþing — 58. fundur.
yfirfærsla reksturs hjúkrunarheimila frá ríki til sveitarfélaga.

[13:17]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram að tala um vandræðagang heilbrigðisráðuneytisins við yfirfærslu á rekstri hjúkrunarheimila frá ríki til sveitarfélaga, eins og hv. þm. Logi Einarsson kom inn á hér áðan. Þá voru nefnd í því sambandi sveitarfélögin Vestmannaeyjabæjar, Hornafjörður og Akureyri. Þau hafa lýst yfir óánægju með framlög ríkisins til rekstursins og fylgdu uppsagnir í kjölfarið eins og komið hefur fram.

Það er athyglisvert að skoða samskipti þessara sveitarfélaga við Sjúkratryggingar Íslands og ég hef hér undir höndum bréf frá Vestmannaeyjabæ til Sjúkratrygginga Íslands. Þar kemur m.a. fram að bærinn sendi uppsögn á samningi í júní 2020 og voru gerðar ítrekaðar tilraunir til að ná tali af forstjóra stofnunarinnar. Loks rúmum þremur mánuðum eftir uppsögnina náði Vestmannaeyjabær tali af fulltrúum frá sjúkratryggingum. Það kom ekkert fram á þeim fundi hver myndi taka við rekstrinum. Sjö mánuðum síðar er ekki enn ljóst hver tekur við rekstrinum. Hinn 17. febrúar barst bréf frá sjúkratryggingum um að enginn hafi lýst yfir áhuga á að taka við rekstri hjúkrunarheimilis í Vestmannaeyjum. Á Hornafirði á nýr rekstraraðili að taka við núna um mánaðamótin og þar liggur enginn samningur fyrir. Á Akureyri var gefin út sameiginleg fréttatilkynning um að Heilbrigðisstofnun Norðurlands myndi taka við rekstrinum og síðan var bakkað með það allt saman nokkrum mánuðum seinna.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að þessi mikilvægi málaflokkur er í fullkominni óvissu og það bitnar ekki síst á heimilisfólkinu á þessum hjúkrunarheimilum og aðstandendum þeirra og þessu fólki er einfaldlega sýnd óvirðing. Við verðum bara að viðurkenna það því að þessi málaflokkur er á ábyrgð ríkisins. Svo snýr þetta að starfsfólkinu. Það veit ekki um framtíð sína. Kemur það til með að halda vinnunni, verður skerðing á launum o.s.frv.? Hvað með réttindi þess almennt? Bæjarstjórar Vestmannaeyjabæjar, Hornafjarðar og Akureyrar funduðu með velferðarnefnd um málið í morgun og var verulega þungt hljóð í þeim.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki séu til neinir verkferlar í ráðuneytinu eða hjá sjúkratryggingum um yfirfærslu hjúkrunarheimila frá sveitarfélagi til ríkisins. (Forseti hringir.) Þetta er þjónusta sem er á ábyrgð ríkisins.



[13:19]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í orðaskiptum mínum við annan hv. þingmann fyrr í þessum fyrirspurnatíma þá bind ég mjög miklar vonir við þá vinnu sem stendur núna yfir. Ég vænti þess að fá skil frá vinnuhópnum annaðhvort síðar í þessari viku eða í næstu viku og ég hef verið nokkuð langeyg eftir skilum þessa hóps, satt að segja. Gylfi Magnússon fer fyrir hópnum og í honum eru allir þeir aðilar sem hv. þingmaður nefnir hér, þ.e. Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaganna, Sjúkratryggingar Íslands og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og auðvitað frá heilbrigðisráðuneytinu. Þessi vinna skiptir mjög miklu máli að því er varðar sameiginlegan skilning, ekki bara á því hver kostnaðurinn er við þjónustuna sem verið er að veita heldur ekki síður hver skilin eru milli annars vegar félagsþjónustu og hins vegar heilbrigðisþjónustu. Það er nokkur einföldun sem hefur verið í umræðunni sem lýtur að því hverjir beri skyldur gagnvart sínum elstu íbúum í þessum efnum og það eru vonbrigði þegar sveitarfélög segja sig frá þjónustu sem lýtur að þeim hluta, sem er þjónusta við þeirra elstu borgara. Það skiptir þess vegna mjög miklu máli að greina þarna á milli, annars vegar þeirrar þjónustu sem er sannarlega félagsþjónusta og hins vegar heilbrigðisþjónustu af því það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að hjúkrunarheimili eru ekki heilbrigðisstofnanir í venjulegum skilningi þess orðs heldur heimili fólks. Fólk er skráð þar með lögheimili en á auðvitað sama rétt og allir aðrir borgarar samfélagsins á því að njóta heilbrigðisþjónustu óháð þeim aldri sem viðkomandi er á. Ég er mjög meðvituð um þau mál sem hv. þingmaður nefnir en ég tel að stjórnvöld og þeir aðilar sem hafa komið að borðinu beri sameiginlegar skyldur gagnvart íbúunum.



[13:21]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og ég heyri að hún er langeyg eftir því að þessi hópur fari að skila einhverri niðurstöðu. Og það eru fleiri sem bíða, þetta eru orðnir margir mánuðir eins og ég rakti. Það er algerlega óviðeigandi að það skuli vera auglýst eftir nýjum rekstraraðila sjö mánuðum eftir að sveitarfélag hefur sagt upp. Það er náttúrlega eitthvað að í kerfinu þegar svo langur tími líður vegna þess að þetta skiptir verulegu máli fyrir, eins og við nefndum, heimilismenn. Svo langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í réttarstöðu starfsfólks almennt þegar þessi óvissa er uppi. Koma þau til með að halda sínu starfi, verður þeim sagt upp, hvað með launakjörin o.s.frv.?

Mig langar sérstaklega að spyrja um tilfelli Vestmannaeyja. Nú hefur enginn lýst yfir áhuga á því að taka við þeim rekstri. Hvernig ætlar ráðuneytið að leysa þá stöðu? Mun ráðuneytið mæta (Forseti hringir.) þeim fjárframlögum sem þarf til þess að sveitarfélagið haldi áfram að reka hjúkrunarheimilið í Vestmannaeyjum?



[13:23]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það sem hv. þingmaður nefnir hér síðast, um það hvort kröfum einstakra sveitarfélaga verði mætt með auknum fjárframlögum, gerir ráð fyrir því að staðan sé þannig að viðkomandi sveitarfélag vilji annast reksturinn áfram. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá hafa þessi sveitarfélög ekki áhuga á því og það er auðvitað sá útgangspunktur sem ráðuneytið og við þurfum að vinna út frá. En mig langar að nefna það hér, þannig að það liggi algjörlega ljóst fyrir, að við þurfum að vera meðvituð um það í greiningarvinnunni, þegar við erum að leggja grunn að endurmati á raunkostnaði þessara hjúkrunarheimila og þar með útgjöldum ríkissjóðs, að það getur verið verulegur munur á litlum hjúkrunarheimilum sem eru rekin víða úti um land og eru samkvæmt einhverjum mælikvörðum ekki eins hagkvæmar rekstrareiningar og miklu stærri hjúkrunarheimili, en í þeim liggja önnur gæði, þ.e. að búa nálægt sínu heimili og sínu fólki. Það skiptir líka verulega miklu máli þegar verið er að greina þennan kostnað og meta þar með útgjöld ríkisins.