151. löggjafarþing — 70. fundur
 18. mars 2021.
tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar, 2. umræða.
frv. meiri hl. allsh.- og menntmn., 590. mál (framlenging á umsóknarfresti). — Þskj. 1001, nál. 1063.

[13:52]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar í þessu máli. Meiri hluti nefndarinnar lagði fram þetta frumvarp í síðustu viku og hefur haft það til meðferðar. Hér er í raun og veru aðeins gert ráð fyrir þeirri breytingu á lögum um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar sem við samþykktum á síðasta vori, að tímabilið þar sem hægt er að sækja um þetta úrræði framlengist til næstu áramóta. Það gilti til síðustu áramóta og var ekki framlengt þá en við myndum með samþykkt þessa frumvarps opna á möguleikann til ársloka.

Ástæðan fyrir því að frumvarpið er flutt er auðvitað fyrst og fremst sú að kórónuveirufaraldurinn hefur varað mun lengur en við gerðum okkur grein fyrir síðasta vor þegar málið var hér til umfjöllunar. Nefndin, með því að leggja frumvarpið fram og í afgreiðslu sinni á málinu nú milli umræðna, gerir í rauninni ekki aðrar breytingar en sem varða þessar dagsetningar og síðan viðmiðunartímabilið sem breytist í ljósi þess að við erum komin með viðmiðun lengra aftur í tímann en var þegar málið var afgreitt í upphafi.

Athugasemdir sem komu fram af hálfu gesta í meðförum nefndarinnar vörðuðu fyrst og fremst tvö atriði. Annars vegar það atriði að það væri viss hætta og hefði verið dæmi um það að fyrirtæki sem hefðu staðið verulega illa fyrir tíma kórónuveirufaraldursins, eða áður en áhrifa hans tók að gæta, hefðu getað nýtt sér þetta úrræði sem kannski var ekki ætlunin. Um þetta atriði er það að segja að við verðum auðvitað, í sambandi við úrræði af þessu tagi, að hafa þetta nægilega opið og aðgengilegt til að úrræðið nái tilgangi sínum. Um það er að ræða að í einhverjum tilvikum geta einhverjir „óverðugir“ notið þess, en hins vegar má ekki hafa skilmálana of stífa eða þrönga þannig að það verði fyrirtækjum sem verið hafa í eðlilegum rekstri ógerlegt að leita sér aðstoðar á þeim grundvelli. Það á við um þetta eins og fjölmargar aðrar af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Hitt atriðið sem við víkjum að nokkrum orðum í nefndaráliti varðar samspil þessara laga, laga um tímabundnar heimildir og laga um Ábyrgðasjóð launa. Það komu ákveðnar ábendingar fram hjá Landssambandi lífeyrissjóða sem nefndin telur vissulega að gefi tilefni til frekari skoðunar. En þar sem nefndin var við afgreiðslu þessa máls eingöngu að horfa á dagsetningarnar en hvorki á efnisleg skilyrði fjárhagslegrar endurskipulagningar né réttaráhrifin — við ákváðum að fara ekki út í það í þessari lotu — látum við nægja, ef svo má segja, í nefndaráliti að vísa til þess og hvetja til að þetta verði tekið til skoðunar í framhaldi af afgreiðslu þessa máls, þ.e. að hugað verði að samspili þessara heimilda um fjárhagslega endurskipulagningu og þeirra reglna sem gilda um Ábyrgðasjóð launa, þá einkum varðandi tímafresti.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta, herra forseti, en ég vísa til þess sem segir í nefndarálitinu.

Undir nefndarálitið rita auk þess sem hér talar hv. þingmenn Páll Magnússon, Guðmundur Andri Thorsson, með fyrirvara, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson.



[13:56]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem er mjög brýnt, eitt af þeim málum sem var tekið til með fyrri aðgerðum sem gerðar voru vegna Covid-faraldursins. Gildistími þeirra aðgerða hefur reynst heldur tæpur, stuttur, vegna þess að teygst hefur úr þessum faraldri. Því var gripið á það ráð að leggja þetta mál fram og hefur mikill einhugur ríkt um það í allsherjar- og menntamálanefnd sem er rétt að vekja athygli á. Það hafa allir unnið að því samhentir að málið yrði afgreitt á þinginu hratt og örugglega, enda eru ríkir hagsmunir undir. Það eru fyrirtæki sem hafa barist um á hæl og hnakka og sjá fram á að án framlengingar slíks ákvæðis, eins og hér kemur fram, gæti rekstur þeirra verið í uppnámi. Auðvitað viljum við, herra forseti, koma í veg fyrir að fyrirtæki flosni upp meira en orðið er af völdum faraldursins. Ég vildi bara taka það fram, verandi meðflutningsmaður á nefndarálitinu og stuðningsmaður þessa máls, að það ríður á að við afgreiðum það mjög fljótt og mjög vel. Ég styð það eindregið.



[13:58]
Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég vildi einungis koma hingað upp til að útskýra af hverju ég var ekki með á nefndarálitinu. Ég vil ekki að það skiljist þannig að Píratar séu mótfallnir því að lítil og millistór fyrirtæki fái aðstoð vegna erfiðleika í kjölfar Covid. Ég vildi bara koma því á framfæri að ég var ekki alveg að ná utan um það akkúrat hvernig þetta fór í gegnum nefndina, það var formlegi þátturinn sem var aðeins að trufla mig. Ég veit að þetta er bara til þess að framlengja þessar tilteknu dagsetningar en það kom líka fram í nefndinni að ekki væru mörg fyrirtæki búin að nýta sér þessar heimildir. Svo voru aðrir gestir sem settu sig kannski ekki endilega upp á móti þessu en voru svona að viðra tilteknar áhyggjur. Ég skil tilganginn með því að framlengja þessa fresti en ég áttaði mig kannski ekki alveg á markmiðinu. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra.



[14:00]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp fyrst og fremst til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál og gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef þó við afgreiðslu þess. Um er að ræða mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir fyrirtæki sem eiga í þessum sérstaka vanda sem við þurfum ekki að hafa mörg orð um og sem okkur er öllum kunnugt um af hverju stafar og er í mörgum tilvikum ærinn og vonandi tímabundinn. Hér er verið að bregðast við tímabundnum vanda sem kemur til af sérstökum ástæðum.

Þær raddir heyrðust vissulega hjá gestum sem komu fyrir nefndina að allt eins og greiðsluskjól mætti í einhverjum tilvikum kalla þetta skálkaskjól, þ.e. að þarna væru líka aðilar sem hefðu verið komnir í alvarleg vanskil löngu fyrir daga Covid og jafnvel áður en erfiðleikar hófust í ferðaþjónustugreinum og að þeir hefðu þarna ómaklegt skjól.

Ég tel það ekki í verkahring hv. allsherjar- og menntamálanefndar að greiða úr því eins og sakir standa og eins og málum er háttað, heldur erum við einvörðungu að framlengja úrræði sem þegar hefur verið fyrir hendi og hefur reynst ýmsum aðilum vel.

Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara og sá fyrirvari lýtur að því að ég tel mikilvægt, og ég hefði talið mikilvægt, að samhliða þessu hefði verið lagt fram frumvarp eins og gert var samhliða sambærilegu frumvarpi í maí sl. og snerist um kennitöluflakk, aðgerðir gegn kennitöluflakki. Það var frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Ég hefði viljað sjá það frumvarp samhliða vegna þess að ég tel að þetta sé nátengt og þarna hefðum við kannski getað tekið á skálkaskjólinu. Í annan stað laut fyrirvari minn að því að ég hefði viljað sjá í tengslum við þetta koma fram tillögur sem væru með svipuð og sambærileg úrræði fyrir heimili og einstaklinga sem eiga nú um sárt að binda og eiga í vanda vegna tekjufalls sem hlotist hefur af Covid og þurfa á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda.

Að svo mæltu lýsi ég yfir stuðningi — og Samfylkingin — við þetta mál.



[14:04]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar, það var einhugur í allsherjar- og menntamálanefnd um mikilvægi þessa máls og að það fengi skjóta afgreiðslu í nefndinni. Þetta er auðvitað brýnt mál, ríkir hagsmunir að baki, og í sjálfu sér sjálfstætt markmið að eyða óvissu rekstraraðila um að í þessu úrræði og þessari aðgerð yrði lengt. Það hefur komið fram áður og er öllum ljóst að um tímabundna heimild er að ræða en í ljósi þess einmitt, óvissunnar að baki, fannst mér gagnrýnisvert hversu skamman tíma nefndin fékk til að vinna úr málinu. Það var í mínum huga og flestra, allra vil ég leyfa mér að segja, ljóst að í þetta þurfti að fara. Það geti ekki við þessar aðstæður verið þannig að stjórnvöld séu a.m.k. óbeint að auka á óvissu fyrirtækja í rekstri þegar aðstæður eru þær sem nú eru.

Ég er á nefndarálitinu í ljósi þess sem ég hef nefnt hér að framan, þ.e. að þessir ríku hagsmunir eru að baki. Ég vek athygli á því sem fram kemur í nefndarálitinu að viðraðar hafa verið áhyggjur af því hvað lenging þessa úrræðis hefur mögulega í för með sér hvað varðar ábyrgðir utan ábyrgðartímabils, þ.e. Ábyrgðasjóðs launa. En það liggur fyrir, eins og rakið er í nefndarálitinu, að nefndin leggur áherslu á að í framhaldi af samþykkt þessa frumvarps verði ákvæði laganna endurskoðuð og framkvæmdin rýnd, m.a. hvað varðar samspil þessara þátta.

Ég fagna því að okkur tókst að vinna hratt og vel úr þessu máli og er ánægð með að sjá það fram komið hér í dag.