151. löggjafarþing — 82. fundur
 21. apríl 2021.
kostnaður og ábati af Covid aðgerðum.

[13:11]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Kannski er tímabært að beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra sem heyrir beint undir hans svið. Það liggur við að maður velti fyrir sér: Hver hefur raunverulegur ábati orðið af því að vera búin að taka í fangið þrjár bylgjur af þessum andstyggðarfaraldri með öllum þeim hörmungum sem hafa fylgt í kjölfarið? Hvaða ábati hefur verið af því? Hvernig er hægt að réttlæta meðalhóf þegar stór hluti þjóðarinnar er í rauninni búinn að vera hnepptur í fjötra frá því að þessi andstyggðarfaraldur hóf göngu sína? Það er löngu orðið tímabært að við fáum að sjá kostnaðinn af því að standa í landamæraskimunum og öllum þeim aðgerðum sem eru til þess fallnar að reyna að taka á móti örfáum ferðamönnum sem eiga að bjarga 10% hagkerfisins sem í raun og veru mega og eiga að vera á ís fyrir þau tæplega 90% sem við höfum getað haldið gangandi sjálf. Er það ekki satt, hæstv. fjármálaráðherra, að engin hagspá gerði ráð fyrir því, miðað við ástandið í fyrrasumar, að við myndum koma eins vel út og raunin varð á með okkar einkaneyslu og styðja eins vel við hagkerfið sjálf? Ég velti því fyrir mér núna þegar talað er um herðingu á landamærum, sem eru þannig herðingar að nánast er ómögulegt að þær nái yfir nokkurn skapaðan hlut: Hvaða þrýstingur er það, hæstv. fjármálaráðherra, sem ríkisstjórnin er að láta undan? Hvar er meðalhófið? Gildir það ekki um samlanda hæstv. fjármálaráðherra? Svo er annað og það er náttúrlega þverlega ekki á hans sviði en hvers vegna er núna verið að kasta fram gjörbreyttri sýn á virði bólusetninga? Allt í einu á bara að opna hér allt þegar búið er að veita fyrri bólusetningu. Maður er í raun algerlega, ef ég á að segja það á góðri íslensku, kjaftstopp.



[13:13]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því þegar spurt er: Hver er kostnaðurinn af öllum aðgerðum stjórnvalda? (Gripið fram í.) — Já, og það er einmitt það sem ég ætlaði að segja að það hefur líka verið gríðarlegur ábati. Ég held að það væri nefnilega nær að tala um hversu mikið skjól, hversu mikla vernd, við höfum náð að byggja upp fyrir hagkerfið allt og líf og heilsu fólks með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til. Þannig er það nú bara, ef menn skoða þetta af einhverri sanngirni, að það er eftir því tekið hvernig tekist hefur til með aðgerðir á Íslandi og bæði ríkisstjórn og ekki síður Alþingi hafa sýnt mikinn sveigjanleika eftir stöðunni hverju sinni til að bregðast við, og við erum enn að því og það er ekki nema eðlilegt.

Eitt af því sem við skulum muna í þessu sambandi er að þegar við fórum í fyrstu aðgerðir okkar lá ekkert fyrir um það hvort bóluefni kæmi yfir höfuð. Menn höfðu spáð því að það gæti mögulega gerst seint á árinu 2021. En eftir því sem tíminn hefur liðið þá hefur ýmislegt fallið með okkur, t.d. það að menn skyldu hafa unnið það kraftaverk að framleiða bóluefni sem geta komið að gagni á skömmum tíma, sett algjört met í þeim efnum. Og já, við ætlum okkur að njóta góðs af því að sækja þau bóluefni og koma þeim til landsmanna. Það er auðvitað á endanum ekkert annað en læknisfræðilegt mat byggt á þekkingu í sóttvörnum sem mun ráða því hvenær óhætt er að fara að draga úr hömlum hér innan lands. Þegar allir viðkvæmir hópar, hóparnir sem sýkjast helst og veikjast, hóparnir sem helst eru lagðir inn á spítala, fólkið sem er í mestri lífshættu — þegar allt þetta fólk hefur fengið fulla bólusetningu og stór hluti þjóðarinnar að öðru leyti er kominn með a.m.k. fyrri skammtinn er samkvæmt bestu upplýsingum, og við munum fara að ráðum sérfræðinga í þessu, mjög lítil áhætta í því fólgin að fara að draga úr hömlum hér innan lands. Svo munum við nota áhættumat fyrir landamærin.



[13:15]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir með ágætum manni sem var í Silfrinu um daginn beint frá Ástralíu, prófessor í ég veit ekki hverju, ég man ekki einu sinni hvað hann heitir, en ég man alla vega hvað hann sagði, hann kallaði þessar aðgerðir fúsk. Ég ætla að taka undir það heils hugar, fúsk.

Hæstv. fjármálaráðherra talar um hvað sé raunverulegur ábati. Stór hluti þeirra sem hafa sýkst af þessari veiru og farið í gegnum hana lifandi glímir við eftirköst sem ekki er fyrirséð hvernig muni fara.

Og ég vil líka vita hvernig hæstv. fjármálaráðherra réttlætir að það skuli vera búið að bjóða landsmönnum upp á þrjár bylgjur af þessum faraldri með öllu tilheyrandi og við séum sennilega að taka þá fjórðu í fangið akkúrat núna.



[13:16]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það séu ekki margir í liði með hv. þingmanni sem kallar þær aðgerðir fúsk sem vakið hafa athygli og skila óumdeilanlega gríðarlega góðum árangri í baráttu við heimsfaraldur. Það eru ekki margir sem deila þeirri skoðun með hv. þingmanni en henni er frjálst að hafa þá skoðun. Árangurinn talar bara sínu máli. Okkur hefur tekist að halda gjörgæsluinnlögnum í algeru lágmarki um margra, margra mánaða skeið. Okkur hefur tekist að halda uppi einkaneyslu langt umfram allar spár í því efni. Umsvif í efnahagslífinu, afkoma ríkissjóðs í fyrra var umfram væntingar og það ríkir bjartsýni í atvinnulífinu og ánægja með efnahagsaðgerðirnar. Það er að fara að birta til og það er engin ástæða til að fara á taugum á lokametrunum, hæstv. forseti. (Gripið fram í.)