151. löggjafarþing — 85. fundur.
aukið samstarf Grænlands og Íslands, fyrri umræða.
stjtill., 751. mál. — Þskj. 1274.

[18:00]
utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu sem ég hitaði aðeins upp fyrir áðan með því að byrja að flytja framsöguræðu í máli sem er svo sannarlega tengt en er ekki sama mál. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um aukið samstarf Grænlands og Íslands. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að ganga til viðræðna við grænlensk stjórnvöld um tvíhliða rammasamning um aukin samskipti landanna, byggt á tillögum Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Ég hef í starfi mínu sem utanríkisráðherra lagt mikla áherslu á norðurslóðir og að efla samskipti við önnur norðurslóðaríki. Síðustu misseri hefur sérstök áhersla verið á norðurslóðamálefni, aukin samskipti milli ríkja og viðskiptatækifæri á þessu gríðarlega viðkvæma svæði og ég hef þegar sett af stað vinnu til að greina þessi mál og hagsmuni Íslands enn betur.

Virðulegi forseti. Grænland spilar lykilhlutverk á norðurslóðum og er auk þess landfræðilega næsti nágranni Íslands. Tvíhliða samskipti landanna hafa eflst mikið á undanförnum árum, ekki síst með opnun sendiskrifstofu Íslands í Nuuk árið 2013 og opnun grænlenskrar sendiskrifstofu í Reykjavík árið 2018. Samskipti landanna á sviði menningar, lista og íþrótta hafa verið nokkuð mikil í gegnum tíðina og félagasamtök eins og Hrókurinn og Rauði krossinn hafa unnið stórvirki. Ég tel mikilvægt að efla samstarfið enn frekar.

Löndin eiga nú þegar mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta, m.a. á sviði sjávarútvegs, flugþjónustu, stjórnar flugumferðar, ferðaþjónustu, loftslagsmála og málefna norðurslóða. Eins og áður hefur verið kynnt þá skipaði ég í apríl 2019 nefnd um gerð tillagna um aukið samstarf Grænlands og Íslands á nýjum norðurslóðum. Nefndin skilaði mér í janúar á þessu ári ítarlegri skýrslu með tillögum sínum um aukið samstarf landanna. Að baki tillögum nefndarinnar er umfangsmikil og ítarleg greining á stöðu tvíhliða samskipta landanna, í raun umfangsmesta greining sem nokkurn tíma hefur verið gerð á samskiptum landanna. Nefndin forgangsraðaði tíu tillögum til stefnumörkunar af samtals 99 tillögum hennar. Jafnframt lagði nefndin áherslu á að Grænland og Ísland gerðu með sér rammasamning um samstarf í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Sú tillaga til þingsályktunar sem hér er lögð fram ásamt greinargerð byggir á megintillögum Grænlandsnefndar. Skýrsla nefndarinnar og útdráttur eru í fylgiskjölum með þingsályktunartillögunni, en skýrslunni hefur áður verið dreift á prentuðu formi á Alþingi. Í ljósi þess að málefni norðurslóða og aukin samskipti við okkar næstu nágranna og ekki síst Grænland eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu er mikilvægt að hefja sem fyrst samráð við grænlensk stjórnvöld um tillögur Grænlandsnefndarinnar. Nú þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við stjórnartaumunum á Grænlandi þá höfum við tækifæri til að hefja aftur samtal og samráð við Grænland. Af Íslands hálfu verður byggt á þeim málaflokkum og tillögum sem fjallað er um í Grænlandsskýrslunni og það er mikilvægt að taka fram að tekið verður fullt tillit til grænlensku sjálfsstjórnarlaganna.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.



[18:03]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsöguna um þessa merku þingsályktunartillögu um aukið samstarf Grænlands og Íslands. Ég mun koma inn á nokkur atriði í stuttri ræðu á eftir, en mig langaði til að spyrja hæstv. utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hvort og þá hvernig samtali og samvinnu við dönsk stjórnvöld hefur verið háttað við vinnu við tillögu þingsályktunartillögunnar um aukið samstarf Grænlands og Íslands. Við vitum að sumt í málefnum Grænlands er á forræði Grænlendinga sjálfra en annað ekki og ég velti því fyrir mér hvort íslensk stjórnvöld hafi átt eitthvert samtal við dönsk stjórnvöld og þá um hvað, sem tengist þessari þingsályktunartillögu.



[18:04]
utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, að höfðu samráði við Alþingi, að fylgja eftir tillögum í skýrslu Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um aukin samskipti Grænlands og Íslands á sviðum þar sem hagsmunir landanna fara saman. Gerður verði rammasamningur milli landanna þar sem lýst verði markmiðum á tilgreindum samstarfssviðum, að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila. Af Íslands hálfu verði lögð áhersla á þá málaflokka og tillögur sem fjallað er um í skýrslu Grænlandsnefndar. Rammasamningurinn taki einnig fullt tillit til grænlensku sjálfstjórnarlaganna.“

Varðandi dönsk stjórnvöld þá hafa þau fylgst með þessari vinnu og ég hef rætt þessi mál við sendiherra Dana hér á landi. Þeir hafa verið meðvitaðir um þetta starf alveg frá upphafi en fyrst og fremst, þegar kom að tillögum og öðru slíku, var það á hendi viðkomandi nefndar sem hefur nú kynnt það, ef ég þekki það rétt, fyrir hv. utanríkismálanefnd hvernig sú vinna fór fram. Það voru fundir með ýmsum aðilum enda eru tilgreindir í þessum 99 tillögum hugsanlegir aðilar sem skipta tugum. Eins og kemur fram í tillögunni þá er tekið fullt tillit til grænlensku sjálfsstjórnarlaganna en dönsk stjórnvöld hafa frá fyrsta degi verið meðvituð um vinnuna og sömuleiðis kynnt sér efni skýrslunnar.



[18:06]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að heyra, eins og hæstv. ráðherra fór yfir, að það hafi verið upplýsandi samtöl á milli íslenskra stjórnvalda og þeirra dönsku um skýrsluna og þá væntanlega um tillögur sem kæmu síðan fram og færu inn á borð Alþingis. Í seinna andsvari mínu langar mig til þess að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um samskiptin við Bandaríkin í tengslum við þessa þingsályktunartillögu vegna þess að í skýrslunni um samskipti Grænlands og Íslands er minnst alls 15 sinnum á fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, og á bls. 31, með leyfi forseta, segir:

„Ísland hefur því risið úr þoku langvarandi áhugaleysis Bandaríkjanna á Norðurslóðum og öðlast nýja þýðingu með endurmati ríkisstjórnar Donalds Trump á vægi þeirra í heimsmynd aldarinnar.“

Þetta eru ekki léttvæg og lítil orð. Þarna er verið, hvað á ég að segja, að þakka Donald Trump fyrir að hafa loksins sýnt okkur áhuga og norðurslóðum líka og það er rétt að áhugi ríkisstjórnar hans varð mikill og nokkuð gassalegur og fyrirferðarmikill.

Mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. utanríkisráðherra hvort hann sjái fyrir sér stefnubreytingu, áherslubreytingar hjá nýrri ríkisstjórn Joes Bidens. Sömuleiðis langar mig að fá fram frá hæstv. utanríkisráðherra hvort í tengslum við þessa merku skýrslu og tillögurnar sem hingað eru komnar á borð Alþingis hafi eitthvert samtal hafi átt sér stað við Evrópusambandið og önnur Evrópuríki heldur en Danmörku. Þau fylgjast væntanlega grannt með þessari vinnu og þingsályktunartillögunum og þeirri umræðu sem fram fer hér á íslenska þjóðþinginu. Hefur hæstv. utanríkisráðherra með einhverjum hætti átt samtöl (Forseti hringir.) við fulltrúa Evrópusambandsins eða Evrópusambandsríkja? Og svo náttúrlega fyrri hluti spurningar minnar um breyttar áherslur Bandaríkjastjórnar.



[18:09]
utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Bara svo það sé sagt til að byrja með þá ákvað ég það, ekki bara í þessu máli heldur líka þegar kemur að t.d. EES-skýrslunni og ég get nefnt fleira, að nýta mér í báðum tilfellum þekkingu og reynslu fyrrverandi stjórnmálamanna sem hafa djúpa þekkingu á málinu og þeir skrifa sínar skýrslur með sínum starfshópum. Mörg önnur þjóðríki sem eru stærri en við eru með alveg sér deildir innan sinna ráðuneyta sem gera slíka hluti og þó svo að sannarlega væru deildir sem tengjast þessu í utanríkisráðuneytinu mönnum til halds og trausts þá eru þetta skýrslur sem bera þess merki að vera frá sjálfstæðum vinnuhópum, ef þannig má að orði komast. Það er ekki þannig að utanríkisráðuneytið hafi samið þessa skýrslu. En hins vegar er þar lagt til að tillögurnar verði grunnurinn að samskiptunum milli Íslands og Grænlands.

Varðandi það hvort sé einhver áherslubreyting með nýjum stjórnvöldum í Bandaríkjunum þá er alveg ljóst að þar er mikill áhugi á norðurslóðum og þar af leiðandi Grænlandi og Bandaríkjamenn eru t.d. að opna ræðismannsskrifstofu og ég veit ekki til þess að nein breyting verði á því. Við sjáum það til að mynda núna með fundinn í Norðurslóðaráðinu að utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur tilkynnt komu sína á þann fund. Varðandi aðrar þjóðir þá hafa þessir hlutir verið ræddir í Norðurlandasamstarfinu og iðulega erum við að ræða um norðurslóðamálin og þar af leiðandi Grænland líka. Ég kynnti þessa skýrslu fyrir öllum sendiráðum Íslands og það var mjög fjölmennur fundur, að vísu veffundur, og ég held ég fari rétt með að um 100 aðilar hafi tekið þátt í honum sem voru búnir að lesa ekki bara þessa skýrslu heldur líka skýrsluna Áfram gakk! um fríverslunarmálin. (Forseti hringir.) Það er mjög ánægjulegt að finna það hvað vinir okkar bæði nær og fjær höfðu kynnt sér þessi mál og þóttu þessar skýrslur báðar vera mjög athyglisverðar og ekki síst þessi Grænlandsskýrsla.



[18:12]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Tillaga til þingsályktunar um aukið samstarf Grænlands og Íslands er hér á dagskrá. Sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins þá fagna ég vitaskuld þessum yfirlýsta vilja utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og þeim markmiðum sem tillagan endurspeglar.

Gænlendingar eru okkar næstu grannar en aðeins 300 kílómetrar skilja okkur að þar sem styst er frá strönd til strandar. Engu að síður er það ótrúlega margt sem okkur er framandi varðandi hagi okkar góðu granna þrátt fyrir allnokkur samskipti við Grænlendinga frá alda öðli. Við þekkjum þannig miklu meira til aðstæðna í Færeyjum og ég hef á tilfinningunni og er samkvæmt minni reynslu að Færeyingar þekki talsvert til á Grænlandi umfram okkur. Það skýrist líklega af sjósókn þeirra og útilegum á þessum slóðum í langa tíð.

Við eigum fjölmargt sameiginlegt með nágrönnum okkar í vestri, Grænlendingum. Höfuðatvinnuvegur beggja landanna hefur verið hinn sami í ljósi sögunnar en lengst af var þó lítið samband milli ríkjanna á sjávarútvegssviðinu. Á því hefur orðið breyting á síðustu árum, bæði með þátttöku Íslendinga í grænlenskum sjávarútvegi og eins auknu samráði og samvinnu ríkjanna vegna nýtingar sameiginlegra fiskstofna. Íslendingar eru reyndar engir nýgræðingar á Grænlandsmiðum. Um miðja síðustu öld sóttu íslenskir togarar stíft í bæði þorsk og karfa undan ströndum Grænlands enda var sókn á þessi mið öllum frjáls á þeim tíma og eftir miklu að slægjast. Síðan dró úr fiskgengd á þessum miðum og seinna kom að því að strandríki fóru að færa fiskveiðilögsögu sína út og reka erlend fiskiskip af höndum sér.

Á seinni árum hafa íslenskir iðnaðarmenn og verktakar tekið að sér umsvifamikil verkefni á Grænlandi og það ríkir traust á milli þjóðanna sem endurspeglast í margvíslegum samningum, m.a. á sviði sjávarútvegs, en á Grænlandi eru starfrækt öflug fyrirtæki á þessu sviði í eigu Íslendinga og Grænlendinga sameiginlega. Og í samgöngumálum, bæði í lofti og á sjó, á sér stað umtalsvert samstarf.

Menningarleg og félagsleg samskipti hafa verið talsverð um árabil. Ungmenni koma til Íslands og kynnast skólastarfi og stunda íþróttir, m.a. sundiðkun. Þá er um þessar mundir starfandi vestnorænn menntaskóli sem hýstur er í Verslunarskóla Íslands þar sem ungmenni taka áfanga í hverju landanna um sig, Danmörku, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi. Þetta er mjög jákvætt. Auk þess má vísa til þess að vinabæjartengsl við grænlenska bæi eru við lýði á Íslandi, við íslenska kaupstaði.

Herra forseti. Þótt aðeins örfáir Grænlendingar séu búsettir á Íslandi — þeir munu ekki vera fleiri en ríflega 70, kannski 75, mun færri en Færeyingar sem eru hér ríflega 300 — þá eru þeir jafnan aufúsugestir á Íslandi og hafa alla tíð verið. Ég get ekki stillt mig um það, herra forseti, að horfa nú um öxl örfá ár og greina frá einni gestakomu af því að það tengist nú mínum kæra fyrrum heimabæ, Ísafirði. Það eru ríflega 95 ár síðan að danska skipið Gustav Holm lagði að bryggju 25. ágúst 1925. Um borð voru 89 Grænlendingar auk danskrar áhafnar. Það var svo sem ekkert óvenjulegt að skip legðust að bryggju á Ísafirði en grænlenskir gestir voru sjaldséðari og sennilega var þetta einstakt. En þessi för hafði raunar átakanlegan og raunalegan undirtón sem heimamenn höfðu ekki nokkra vitneskju um að öllum líkindum. Á vesturhluta Grænlands höfðu Danir verið í um 200 ár og haft mikil áhrif á samfélagið en öðru máli gegndi um austurhluta Grænlands þar sem eingöngu um nokkur hundruð manna bjuggu í grennd við Ammassalik. Þessi heimsókn var stórviðburður á Ísafirði, og stórviðburður á Íslandi líka því að kynni Ínúíta og Íslendinga höfðu nánast engin verið fram að þessu. Einu undantekningar höfðu verið að Íslendingar höfðu ratað í störf á Grænlandi, íslenskir trúboðar höfðu verið þar á átjándu öld, handverksmenn áttu leið þar um eins og t.d. Sigurður Breiðfjörð, sem skrifaði síðar bók um veru sína þar.

Fólkið um borð í Gustav Holm var á leið til Scoresbysunds og ástæðu þess að það kom við á Ísafirði voru í grunninn pólitísk átök Dana og Norðmanna. Dönsk og norsk stjórnvöld höfðu deilt um landsvæði á Austur-Grænlandi, Norðmenn höfðu um tíma nýtt auðlindir á þessum slóðum og veitt um strendur Austur-Grænlands. Norðmenn höfðu áhuga á því af sögulegum ástæðum að fá viðurkenndan rétt sinn á hluta Austur-Grænlands. Þeir kölluðu það land Eiríks rauða. Dönsk stjórnvöld brugðust við á ýmsa vegu, m.a. með því að hvetja íbúa á Ammassalik-svæðinu til þess að flytjast búferlum til Scoresbysunds, en það er talsverð vegalengd þar á milli. Norðmenn gerðu tilkall til þess svæðis en með þessu vildu Danir staðfesta rétt sinn til svæðisins. Og þetta eru í hnotskurn ömurleg örlög þessarar þjóðar að mörgu leyti. Þetta voru 70 manns frá Ammassalik og 20 manns frá Vestur-Grænlandi sem heimsóttu Ísafjörð þessa daga í ágúst en þeir töldu þrjá daga. Grænlendingunum var tekið með kostum og kynjum og mikið lagt í móttökur Íslendinga sem báru þá á höndum sér en ísfirsk bæjaryfirvöld höfðu mikið fyrir því að móttökur yrðu sem bestar og skipuðu nefnd til undirbúnings. Þegar skipið hafði lagt að ætluðu yfirmenn um borð ekki að hleypa fólki frá borði en eftir talsverðar fortölur fékkst leyfi fyrir skipverja að fara í land en þó ekki fyrir alla. Vestur-Grænlendingar fengu allir landgönguleyfi en aðeins hluti Austur-Grænlendinganna. Ástæðan var sú að yfirmönnum skipsins þótti fólkið vera of illa til fara. Þau sem fengu að fara frá borði nutu hins vegar mikillar gestrisni frá bæjarbúum, sóttu vígsluathöfn í kirkjunni, var boðið í bíltúra, bíósýningu og loks til veislu við útivistarsvæði heimamanna í Tunguskógi.

Herra forseti. Hér var kíkt örstutt inn um glugga fortíðar en heimildir um þessa heimsókn eru vel varðveittar í máli og myndum, ljósmyndum Martins Simsons, og nefna má að efnt var til sýninga, bæði í Reykjavík og á Ísafirði, í tilefni þess að 95 ár voru liðin frá þessum atburði 2019. Þetta segir átakanlega sögu undirokaðrar, fátækrar þjóðar sem una mátti við harða kosti og nöturleg örlög, en sem er nú að brjótast til velmegunar og sjálfstæðis.

Herra forseti. Nútíminn og framtíðin er á dagskrá. Við höfum handa á milli ágæta og myndarlega Grænlandsskýrslu svokallaða eða skýrslu Grænlandsnefndar og fjöllum nú um tillögu til þingsályktunar í framhaldi af henni sem byggir á þessari skýrslu, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra. Skýrslan er glæsileg hið ytra og fróðleg á marga lund og bitastæð hið innra að mörgu leyti. Hún er afar aðgengileg. Hér eru spennandi tíu tillögur til stefnumörkunar sem allar eru gagnlegar og uppbyggilegar þótt þær séu misjafnlega umfangsmiklar en skipta allar máli. Þær eru samtals 99 tillögurnar sem er að finna í þessari skýrslu og skiptast í nokkra flokka. Lögð er á það áhersla að lagt sé upp í samstarf við Grænlendinga á forsendum þeirra og/eða á forsendum beggja, á jafnræðisgrundvelli þar sem báðar þjóðir njóti góðs af. Samstarf og tengsl við Grænlendinga er mikilvægt fyrir Ísland, ekki síður en fyrir Grænland.

Að baki tillögum skýrslunnar er greining á stöðu tvíhliða samskipta landanna auk þess sem litið er til breyttrar stöðu landanna vegna aukins áhuga stórveldanna á norðurslóðum. Einnig er viðamikil skoðun á helstu atvinnugreinum, svo sem sjávarútvegi, ferðaþjónustu og námuvinnslu. Tillögurnar fjalla um möguleika á auknu samstarfi stjórnvalda, sveitarfélaga og stofnana, einkageirans, frjálsra félagasamtaka, íþrótta, lista og menningar. Ýmis mál sem nefnd eru hafa raunar verið á borði Vestnorræna ráðsins fyrr og síðar, t.d. nám í fisktækni og áhersluatriði gagnvart ungu fólki á norðurslóðum.

Herra forseti. Í heild er ástæða til að fagna skýrslunni og því ljósi sem brugðið er upp af þeim ýmsu málefnum sem drepið er á og ástæða til að þakka utanríkisráðherra fyrir það frumkvæði að fara í þetta tímabæra og góða verkefni. (Forseti hringir.) Mikilvægt er að hrinda áformum í framkvæmd. Grænland upplifir eins og þjóðirnar á norðurslóðum umbreytingartíma, (Forseti hringir.) þeir sigla á sínum hraða og markvisst í átt að fullu sjálfstæði og aukin velsæld er innan seilingar. Þar getum við verið stoð ef Grænlendingar sjálfir kjósa svo.



[18:23]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Við erum hér með í höndunum ansi merkilega þingsályktunartillögu sem er afrakstur merkilegrar vinnu svokallaðrar Grænlandsnefndar sem hafði umsjón með því að kortleggja samstarf Grænlands og Íslands og kortleggja þau tækifæri sem væru í auknu samstarfi landanna á milli. Eins og segir í bréfi sem fylgdi þessari merku og góðu og stóru og þykku skýrslu frá hæstv. utanríkisráðherra er um að ræða umfangsmestu greiningu sem gerð hefur verið á vegum utanríkisráðuneytisins á samskiptum landanna tveggja. Ég ætla að nota tækifærið til þess að þakka höfundum skýrslunnar, fyrrverandi utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, fyrrverandi forseta Alþingis, Unni Brá Konráðsdóttur, og sömuleiðis Óttari Guðlaugssyni fyrir þeirra vinnu og öllu því starfsfólki sem kom að vinnu við skýrsluna.

Í þessari þingsályktunartillögu er um að ræða forgangsröðun Grænlandsnefndarinnar á tíu tillögum til stefnumörkunar varðandi framtíð samstarfsins og sömuleiðis, eins og nefndin leggur til, að Grænland og Ísland geri með sér rammasamning um samstarf í framtíðinni. Það er gott og það er vel að hér sé verið að kortleggja samstarf þessara tveggja ríkja í framtíðinni og þótt fyrr hefði verið, í ljósi allra þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað á norðurslóðum í tengslum við hraðari loftslagsbreytingar sem hafa áhrif á öll svið, hvort sem um er að ræða fiskveiðar eða samfélagsleg mál og breytingar á byggðamálum o.s.frv. Þetta er því mjög kærkomið tækifæri til að kortleggja samstarf þessara tveggja landa.

Hins vegar verð ég að nefna að þessar tíu tillögur til stefnumörkunar eru flestar, ef ég leyfi mér að orða það svo, herra forseti, nokkuð mjúkar tillögur. Það er tillaga um frístundaheimili í Tasiilaq, falleg tillaga um stuðning við berskjaldaða með stuðningi grænlenska Rauða krossins og samstarfi við Rauða krossinn og það er gerð tillaga um að samsstarfssamningur landanna á heilbrigðissviði verði uppfærður. En það sem er að mínu viti kannski merkilegast í þessum tillögum til stefnumörkunar er tvíhliða viðskiptasamningur milli landanna tveggja, nýr alhliða fiskveiðisamningur og sömuleiðis samstarf á milli Íslands og Grænlands um smávirkjanir á Austur-Grænlandi sem miðar að því að skipta út olíu sem orkugjafa við húshitun og rafmagnsframleiðslu. Í þeirri tillögu er lagt til að Austur-Grænland verði tekið inn í smávirkjanaáætlun Orkustofnunar. Þetta eru kannski að mínu viti, herra forseti, þær tillögur sem eru stærstar og umfangsmestar og snerta alþjóðlegt samstarf með skýrari hætti heldur en hinar, þó að hinar tillögurnar séu að sjálfsögðu góðar og þær eru, eins og hv. þingmaður hér á undan mér, Guðjón Brjánsson, nefndi, líka í takt við það menningarlega og félagslega samstarf sem átt hefur sér stað á vettvangi Vestnorræna ráðsins.

Skýrslan er ansi viðamikil og góð en líka forvitnileg. Þar er til að mynda fjallað nokkuð um samskipti Kína og Grænlands og það er áhugavert og væri kannski efni í aðra umræðu og aðra fyrirspurn um það hvernig það samrýmist áherslum okkar þegar kemur að samskiptum við Kína, hvernig Grænland hefur undanfarin ár leitast eftir nánu og góðu samstarfi við Kína, sem m.a. hefur birst í heimsóknum grænlenskra ráðamanna til Kína og mikilli samvinnu á milli þeirra ríkja. Það verður væntanlega rætt áfram í sölum, þ.e. samstarf landanna beggja við Kína.

Ég minntist áðan á það í minni fyrri ræðu að það er gríðarlega mikið og mikilvægt starf sem unnið er af hálfu íslenskra fræðimanna, bæði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, við öll þau rannsóknasetur sem starfrækt eru hér á landi um norðurslóðir og það er gott og það er vel að við séum að ræða þessi mál hér, annars vegar tillögu til þingsályktunar um stefnumótun varðandi norðurslóðir og sömuleiðis þessa þingsályktunartillögu um aukið samstarf Grænlands og Íslands.

Loftslagsbreytingarnar eru náttúrlega stóra málið og stóra viðfangsefnið okkar hér á komandi árum og áratugum. Það skiptir mjög miklu máli að Ísland komi fram með skýrum og styrkum hætti í því að efla og styrkja samstarf okkar nánustu nágranna og við sem ríki séum partur af samtali vonandi og samvinnu ríkjanna sem eiga aðild að norðurslóðunum þegar kemur að öryggis- og varnarmálum, þegar kemur að siglingaleiðum og nýtingu auðlinda og að sjálfsögðu þegar kemur að loftslagsbreytingum. Eins og hæstv. utanríkisráðherra kom inn á þegar ég spurði hann um áherslubreytingar nýrrar Bandaríkjastjórnar þá er um leið ljóst að ný Bandaríkjastjórn leggur ofuráherslu á loftslagsmálin og hefur gert þau að meginþræði í þjóðaröryggisstefnu sinni. Þá er lag fyrir okkur á Íslandi að styrkja bönd okkar og samvinnu við Bandaríkin einmitt í því markmiði að gera okkur gildandi á norðurslóðum og eiga gott samstarf þegar kemur að áhrifum loftslagsbreytinga.

Það hefði verið gaman að sjá hér jafn digra og þykka og góða og vandaða skýrslu þegar kemur að EES-samningnum eða samstarfi við Evrópuríkin. En ég bíð og vona að við sjáum þess konar doðrant frá hæstv. utanríkisráðherra um Evrópumálin. Það er gríðarlega gott fyrir okkur að kortleggja þessi samskipti okkar í breyttum heimi og ekki síst þegar breytingarnar eru jafn hraðar og raun ber vitni. Ég vil hvetja ráðherra og ríkisstjórnina til dáða við að efla og auka samstarf landanna tveggja í norðurslóðamálunum en ekki síður að eiga líka gott og þétt samstarf við önnur ríki, eins og ég minntist á hér í fyrirspurn minni, þegar kemur að öðrum Evrópuríkjum og sömuleiðis Bandaríkin. Ég minni á þá hugmynd mína, sem gæti verið grunnur að þingsályktunartillögu, um einhvers konar loftslagssamning milli Bandaríkjanna og Íslands sem myndi þá í leiðinni snerta á samskiptum okkar við okkar góðu granna í vestri, á Grænlandi.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili. Ég vil bara tiltaka þessar þrjár tillögur af þeim tíu sem mér þykja vera áhugaverðastar vegna þess að þær snerta kannski meira þá alþjóðapólitík sem undir er. Það væri lag að heyra frá hæstv. utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hvernig hann sér fyrir sér þær þrjár tillögur í komandi samvinnu og samstarfi við bæði Grænland og önnur ríki. En um leið og við klárum þessa umræðu hér þá vil ég ítreka þakkir til allra þeirra sem komu að þessari mikilvægu vinnu við skýrslu Grænlandsnefndarinnar um samstarf Grænlands og Íslands á nýju norðurslóðum og fyrir það ber að þakka.



[18:33]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra ráðherra fyrir þessa skýrslu og fyrir hafa komið málum svo fyrir að hún hafi verið unnin. Hún fellur í safn nokkurra annarra skýrslna sem komið hafa fram í vetur sem hafa verið mjög góðar og mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að eiga þær. Þar má nefna skýrslu eins og Áfram gakk! um viðskipti Íslands við útlönd, skýrslu Björns Bjarnasonar um öryggismálin. Við sjáum að þetta eru efnislega mjög góðar skýrslur og sú sem við ræðum hér, Grænlandsskýrslan, er 250 síðna plagg um mjög mikilvæg málefni sem skipta okkur miklu máli hér á Íslandi.

Það er rétt að þakka fyrrverandi utanríkisráðherra og formanni nefndar og starfshóps um skrif Grænlandsskýrslunnar, Össuri Skarphéðinssyni, og öðrum nefndarmönnum, Unni Brá Konráðsdóttur og Óttari Guðlaugssyni, fyrir þeirra góðu vinnu í tengslum við þessa skýrslu.

Þegar ég las skýrsluna yfir fannst mér margt mjög vel orðað þar og langar mig að vitna, með leyfi forseta, í það sem stendur á bls. 36:

„Landfræðilega liggja löndin steinsnar hvort frá öðru og milli þeirra ríkir gagnkvæmur skilningur, vinátta og virðing. Náið samstarf er því líklegt til að hafa samlegðaráhrif á mörgum sviðum og skila bæði efnahagslegum og pólitískum ávinningi auk þess að styrkja stöðu beggja gagnvart hinum ytri heimi.“

Það sem mér finnst efnislega svo mikilvægt í þessu, og ég held að það sé lykilatriði í öllum samskiptum milli Íslendinga og Grænlendinga, eru þessi þrjú orð; skilningur, vinátta og virðing. Ég hygg að þegar að við Íslendingar heimsækjum Grænland finnum við þennan velvilja Grænlendinga gagnvart Íslendingum og við eigum að passa upp á það mikla traust sem Grænlendingar sýna okkur og byggja samskipti okkar áfram á þeim nótum. Það er gríðarlega mikilvægt vegna þess að þessi góðu samskipti munu skipta okkur gríðarlegu máli á þessari öld og þar er margt undir.

Víða er komið við í skýrslunni og kemur fram í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni, sem byggist á Grænlandsskýrslunni, m.a. um aukið samstarf Grænlands og Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Skýrslan markar tímamót enda hefur utanríkisráðuneytið aldrei fyrr ráðist í jafn umfangsmikla greiningu á samskiptum landanna tveggja.“

Þetta er 250 síðna plagg sem við ræðum hér. Ef ég vitna í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Í skýrslunni er fjallað um land og samfélag, stjórnskipulag og stjórnmál í Grænlandi, innviði í uppbyggingu, meðal annars umtalsverða uppbyggingu flugsamgangna og sjóflutninga.“

Síðan er sérstaklega fjallað um Austur-Grænland og þau sérstöku viðfangsefni sem þar eru. Mig langar aðeins í þessari stuttu ræðu að koma inn á einstaka þætti þar, eins og varðandi sjávarútveginn. Við höfum deilistofna og við sjáum að það er gríðarlega mikilvægt að það sé góð samvinna á því sviði. Um er að ræða töluvert samstarf þar sem íslensk fyrirtæki taka þátt í sjávarútveginum á Grænlandi með góðum og jákvæðum hætti.

Síðan er líka rætt í greinargerðinni um flugþjónustuna, sem tengist náttúrlega beint ferðaþjónustunni í framtíðinni. Grænlendingar leggja áherslu á að byggja upp ferðaþjónustuna, skjóta fleiri stoðum undir efnahagslíf sitt, eins og við Íslendingar höfum verið að gera á síðustu áratugum með fjölbreyttari hætti en var fyrir 30–40 árum þegar við vorum kannski í svipaðri stöðu og Grænland í dag varðandi það að vera með tiltölulega einhæfan útflutning sem snýr að sjávarútvegi. En þá kemur flugið sterkt inn, vegna þess að það fljúga meira og minna allir ferðamenn til Grænlands. Það eru jú skemmtiferðaskip, en flugið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki og Grænlendingar sýna það núna að þeir ætla að breyta töluvert samgöngum í fluginu. Þeir eru að fara í uppbyggingu þriggja flugvalla í Ilulissat, Nuuk og á suðurströndinni, í Qaqortoq, þannig að þar verða alþjóðaflugvellir, 2.200 metra brautir í Nuuk og Ilulissat. Og svo á að byggja upp 1.600–1.700 metra braut á Suður-Grænlandi þannig að flogið verður beint inn á þessa velli frá útlöndum í staðinn fyrir að í dag fer allt flugið um Syðri-Straumsvík, eða Kangerlussuaq. Þetta eru því stórar og miklar — og stærstu innviðaframkvæmdir sem farið hafa fram á Grænlandi sem tengjast þessari flugvallargerð. Það er mjög stefnumarkandi fyrir Grænland og framtíð Grænlands að menn taka stórar ákvarðanir sem tengjast þessu. Nú er spurning hvernig samvinna Íslendinga og Grænlendinga verður til framtíðar, þá tengt þessum flugvöllum.

Það kemur líka fram í greinargerðinni að við erum í mikilli samvinnu um stjórn flugumferðar. Annars vegar stýrir Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík flugumferð í háloftunum yfir Grænlandi. Síðan hafa íslenskir flugumferðarstjórar unnið í Syðri-Straumsvík, eða Kangerlussuaq, og sinnt þar flugumferðarstjórn allra síðustu ár og hafa líka verið að þjálfa upp Grænlendinga til að verða flugumferðarstjórar. Í dag eru þeir þrír þar. Það er mjög jákvætt og allt það samstarf hefur gengið mjög vel.

Í fyrri ræðu hér rétt áðan fór ég í gegnum mikilvægi gervihnattaleiðsögunnar. Það vinnst ekki tími til að fara í gegnum það hér, en hún er gríðarlega mikilvæg og eins uppbyggingin varðandi EGNOS eða WAAS. Ég vil rétt minnast á það hér að ég tel að það væri mjög áhugavert að styrkja sambandið sem snýr að því. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir Grænlendinga og líka mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að koma þessu á koppinn hér á Norður-Atlantshafinu.

Síðan er líka mikilvægt atriði í skýrslunni þar sem minnst er á skipaflutningana. Við sjáum núna þetta sameiginlega net sem hefur verið að byggjast upp á milli Royal Arctic Line og Eimskips varðandi skipaflutninga, þannig að nú tengist þetta net um Sundahöfn og stóreykur möguleika Grænlendinga á útflutningi t.d. til Bandaríkjanna.

Það er margt fróðlegt í skýrslunni. Eitt af því sem mér þótti mjög fróðlegt var að útflutningur Grænlendinga er t.d. 13 sinnum meiri til Kína en til Bandaríkjanna. Það er mjög áhugavert og verður spennandi að sjá hvernig þessir nýju skipaflutningar koma inn í það, hvort það verði einhver breyting tengt því þegar það verður auðveldara að nálgast önnur markaðssvæði frá Grænlandi en áður hefur verið.

Víða er komið við í skýrslunni. Og tíminn líður hratt. En það eru mjög áhugaverðar hugmyndir þarna um fjarnám og leitað hefur verið til Íslendinga í því sambandi. Leitað hefur verið til Menntaskólans á Tröllaskaga frá framhaldsskólum á Grænlandi um samvinnu og það hefur verið samvinna þar á milli. Síðan hefur verið bent á hversu langt Háskólinn á Akureyri er kominn í allri fjarkennslu. Þarna gæti verið hægt að bjóða upp á nám á Grænlandi og síðan yfirfæra kannski einhverja þekkingu sem tengist þessu og jafnvel þá í hina áttina líka, að vera með fjarnám frá Grænlandi til Íslands. Þannig að það eru mjög spennandi hlutir í því sambandi.

Heilbrigðismálin. Sjúkraflugi á austurströnd Grænlands hefur verið sinnt frá Akureyri um langa hríð. Um er að ræða í kringum 3.000 íbúa þar, hvort sem er á Ammassalik-svæðinu eða í kringum Scoresbysund. Norlandair á Akureyri hefur sinnt sjúkraflugi á þeim slóðum og raunverulega um allt Grænland í samvinnu við Air Greenland. Það er mikið samstarf og við getum eflt það töluvert mikið.

Ég sé að tíminn styttist og ég er varla byrjaður á atriðunum sem ég var búinn að punkta hjá mér, ég hef t.d. ekkert talað um mögulega námuvinnslu og það mikilvæga hlutverk sem við þurfum að ræða meira um, t.d. samvinnu um námuvinnslu á Grænlandi, einhverja stoðþjónustu. Við höfum ekkert náð að ræða um mikilvæga og sjaldgæfa málma og slíkt í hátækni, sem gnótt er af á Grænlandi og verður örugglega litið til þess að skoða þau mál í framtíðinni. En það gefst greinilega ekki tími hér til að fara í þau mál.



[18:44]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa þingsályktunartillögu sem gengur út á það að fylgja eftir tillögum í Grænlandsskýrslunni margumræddu, en þær eru allmargar, 99 talsins, að ég held, þetta er stór og þykk bók. En það fer ekkert mjög mikið fyrir þingsályktunartillögunni enda er skýrslan bara viðauki. Ég velti því aðeins fyrir mér hvernig haldið verður utan um þetta og hvet hæstv. ráðherra til að finna farvegi fyrir það innan ráðuneytisins hvernig eigi að gera það. Hér er verið að tala um rammasamning milli landanna og ég tel að það sé mikilvægt og tímabært. Mér fannst að mörgu leyti áhugavert það sem dregið var fram í skýrslunni hvað við værum í litlu samstarfi. Ég taldi það vera þó nokkurt. Ég þekki ágætlega til á Grænlandi og í grænlenskum stjórnmálum, hafandi setið í Vestnorræna ráðinu núna í fimm ár. Það kom mér á óvart það sem er dregið þarna fram, það er ekki markvisst samstarf á mörgum vettvöngum þar sem eðlilegt væri að eiga mikið samstarf.

Ég hef fyrir mitt leyti lagt áherslu á viðskiptasambönd og fríverslunarsamninga og finnst það mjög mikilvæg tillaga og ég vona að hún náist í gegn. Á vettvangi Vestnorræna ráðsins var á tímabili rætt um Hoyvíkursamninginn svokallaða, sem er fríverslunarsamningur milli Íslands og Færeyja, og oft og tíðum hef ég viðrað það við grænlenska vini mína, þingmenn þar, hvort þeir vilji ekki vera með okkur í þessu öllu. Það hefur verið rosalega lítill áhugi á því og það hefur í raun kom mér á óvart. Ég trúi því að alþjóðaviðskipti og tækifæri Íslands til að gera fríverslunarsamninga við aðrar þjóðir sé það sem hér skapi hagvöxt og tryggi sjálfstæði okkar sem lands. Ég hefði talið að það félli að sama skapi vel að vilja Grænlendinga til að verða sjálfstæðari, þ.e. að ýta undir alþjóðaviðskipti og gera fríverslunarsamninga við fleiri þjóðir.

Ég ætla líka að viðurkenna það, virðulegur forseti, að maður veltir fyrir sér hver viðbrögðin verði í Danmörku, kannski einmitt í tengslum við það sem ég fór yfir áðan þegar ég var að ræða um þingsályktanir út frá Vestnorræna ráðinu. Við minnumst þess að utanríkisráðherra Danmerkur var ekki par ánægður með samstarfssamning sem gerður var á milli utanríkisráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands á sínum tíma þegar við í Vestnorræna ráðinu lögðum það til og fengum þá í þá vegferð með okkur. Sú sem hér stendur virðist nú vera orðin sérstakur talsmaður sjálfstæðis Grænlendinga þegar kemur að alþjóðavettvangi, hafandi unnið svona mikið með Grænlendingum og átt í samstarfi við þá. En ég hygg að tækifæri Grænlendinga séu gígantísk. Þetta er ofboðslega auðug þjóð, bæði af auðlindum en ekki síður náttúrufegurð. Þetta er einstakt land hvað það varðar. Ég hygg að mikil tækifæri séu fólgin í því að markaðssetja það og selja og leyfa öðrum að njóta. En á sama tíma er það líka mikil jafnvægisvinna þegar kemur að því að ýta undir ferðaþjónustu á Grænlandi þar sem augljóslega eru tækifæri en líka mjög viðkvæm náttúra. Við höfum átt samtal um þetta á vettvangi Vestnorræna ráðsins, héldum sérstaka þemaráðstefnu um ferðaþjónustu, og þá voru þeir mjög áfjáðir í að læra af Íslendingum en líka að læra af mistökum okkar Íslendinga í þessum efnum.

Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu. Ég fagna því að þessi tillaga sé komin fram og vil leggja mína áherslu á mikilvægi þess að við náum fríverslunarsamningi milli landanna og ýtum enn frekar undir viðskiptasambönd á milli íslenskra og grænlenskra fyrirtækja, þó að þau séu einhver nú þegar. Það er auðvitað þannig og maður finnur það, ég hef átt samtöl við aðila á Grænlandi sem hafa verið í viðskiptaráði Grænlands og eru að leita eftir erlendri fjárfestingu og erlendu samstarfi, að þeir vilja líka fara mjög varlega í þeim efnum, sem er alveg skiljanlegt. Það er mikil ásókn erlendra stórríkja á Grænlandi. Það sjá margir þessi tækifæri. Við vitum af bæði Kínverjum og Bandaríkjamönnum og nú er ég ekki bara að tala um einhverja Trump-brandara því að það er áberandi hvað sendiráð Bandaríkjanna í Nuuk er orðið fjölmennt og mikið af sendinefndum sem koma þangað reglulega. Þá er líka gott til þess að hugsa að Grænlendingar líta á okkur sem vini og bandamenn og í því felast ákveðin tækifæri og mikil vinátta sem rétt er að rækta með góðum hætti.



[18:50]
utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Aftur þakka ég fyrir afskaplega góða og málefnalega umræðu og það er gott að heyra viðbrögð hv. þingmanna við þingsályktunartillögunni og skýrslunni sem við höfum rætt áður. Við fórum þessa leið, fengum til aðila, í þessu tilfelli fyrrverandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmann, Unni Brá Konráðsdóttur, og Óttarr Guðlaugsson, til að vinna þetta í góðu samstarfi við ráðuneytið, svipað og var gert í annarri stórri skýrslu sem var unnin undir forystu fyrrverandi mennta- og dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar, og Bergþóra Halldórsdóttir og Kristrún Heimisdóttir voru með í þeirri vinnu. Ég vona að þessi vinnubrögð séu komin til að vera því að ég held að það sé bæði hagkvæmara og skynsamlegra og við fáum meira út úr því þegar við nýtum krafta fólks sem hefur áhuga og mikla þekkingu á þessum málum hverju sinni. Og bara svo það sé sagt þá hefur þessi skýrsla sömuleiðis vakið mikla athygli á alþjóðavettvangi, hún hefur verið þýdd og við höfum fengið mikil viðbrögð við henni.

Hér var farið yfir ýmislegt og ég þakka hv. þingmönnum fyrir hlý orð í minn garð og nefndarinnar. Það var spurt um framhaldið, hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir gerði það, varðandi fríverslun, sjávarútvegssamning og samstarf um smávirkjanir. Áætlunin er sú að setjast niður með nýjum stjórnvöldum í Grænlandi og semja rammasamning. Við gerum ekkert nema í samvinnu við Grænlendinga og þá kemur auðvitað í ljós hvar áhugi þeirra liggur í því hvar við eigum að vinna saman. En mér finnst skýrslan hins vegar vera fróðleg og hún er mjög á dýptina og er með tillögur sem eru svona hlaðborð, getum við sagt, þetta eru 99 tillögur í það heila, frá mjög smáum hlutum, þegar kemur að fjármunum og öðru slíku, yfir í mjög stóra hluti. En allt eru þetta mál sem ég vonast til að þeir aðilar sem tilgreindir eru í skýrslunni skoði vel og meti hvort það sé áhugi hjá þessum tveimur löndum að ná saman um samstarf á þessu sviði.

Fyrstu viðbrögð voru þannig að þeir aðilar, nokkurn veginn allir sem tilgreindir eru í skýrslunni, hafa sýnt áhuga á því að fylgja þessum málum eftir, sem mér fannst vera ansi magnað. Eitt af því sem við höfum gert í ráðuneytinu er að skipuleggja okkur þannig að hægt sé að vinna með þessi mál, en aftur — við gerum ekkert nema í samstarfi og í samvinnu við Grænlendinga.

Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson nefndi hér ýmislegt eins og flugið og sömuleiðis það sem kemur vel fram í skýrslunni, hvað samstarfið milli Royal Arctic Line á Grænlandi og Eimskips opnar á mikla möguleika. Ég get líka tekið undir það, bæði hjá hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni og hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, að það er í rauninni svolítið merkilegt hvað hefur verið lítið samstarf miðað við hvað það er stutt á milli, en vonandi sjáum við breytingu hvað það varðar.

Í lokin, virðulegi forseti, þá liggur alveg fyrir að áhuginn er okkar megin. Ég get ekki greint annað en að þverpólitísk samstaða sé um þessar áherslur. Og það sem er ofsalega ánægjulegt er að í skoðanakönnun í Grænlandi þar sem spurt er um aukið samstarf, áhuga á auknu samstarfi við ríki og ríkjabandalög, er áberandi að mestur áhugi er á samstarfi við Ísland. Yfir 90% Grænlendinga líta á það sem vænlegan kost. Ég lít svo á að byggst hafi upp gott traust á milli ríkjanna og vil ég vekja athygli á því svona í lokin að það er erfitt að byggja upp traust en það er auðvelt að brjóta það niður. Við þurfum að hafa það í huga í öllum okkar samskiptum við nágranna okkar og vini og bandamenn og það á ekki síst við hér.

Ég vonast líka til þess, virðulegi forseti, að ekki verði bara aukin samskipti á milli þeirra aðila sem þarna eru tilgreindir, sem er mikilvægt, það eru ýmsir aðilar í atvinnulífinu, frjáls félagasamtök, skólar, heilbrigðisyfirvöld og slíkt, heldur líka á milli stjórnmálamanna. Hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir og Guðjón S. Brjánsson þekkja þau mál mjög vel og hafa sinnt því mjög vel og það þarf auðvitað að gera það áfram. Það verður enginn svikinn af því að heimsækja Grænland. Ég get alveg lofað því. Þarna er ekki bara, eins og hefur komið fram, stórkostleg náttúra heldur sömuleiðis mikill mannauður og við getum mjög mikið lært af Grænlendingum og hvernig þeir vinna sína hluti. Ég lít svo á að aukið samstarf milli Grænlands og Íslands sé eitthvað sem við öll getum notið og munum geta nýtt okkur, ekki bara fyrir okkur sem nú lifum heldur líka komandi kynslóðir. Ég veit að hv. utanríkismálanefnd mun fara vel í þetta mál og ég vonast til þess og er sannfærður um að við munum klára þetta mál nú í vor. Það verður þá grunnur að enn betri og bættum samskiptum milli þjóðanna og það er mikið fagnaðarefni.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.