Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, lögum um viðspyrnustyrki og lögum um tekjuskatt, framhald úrræða og viðbætur. Frumvarpið er á þskj. 1340 og er mál nr. 769. Frumvarpið er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr efnahagslegum áhrifum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar hans. Í því er fjallað um þrenns konar úrræði sem eru: lokunarstyrkir, viðspyrnustyrkir og barnabótaauki.
Í fyrsta lagi er lagt er til að umsóknarfrestur um lokunarstyrki verði framlengdur til 30. september 2021 en hann hefði að óbreyttu fallið úr gildi 30. júní nk. Nú má spyrja sig hvort þetta sé nauðsynlegt en ég vil meina að það sé útgjaldalítið að framlengja þessa tímaviðmiðun og hér er ég að sjálfsögðu að vísa til þess að við vonumst til þess að ekki þurfi að koma til lokana. En það er sjálfsagt að taka það fram að komi til frekari lokana á þessu tímabili þá gilda áfram sömu reglur um lokunarstyrki.
Jafnframt er lagt til að hámarksfjárhæðir styrkjanna verði hækkaðar úr 120 milljónum kr. í 260 milljónir. Hámarkið gildir ekki aðeins fyrir einstakar tegundir styrkja eða einstaka rekstraraðila heldur ber að leggja saman lokunarstyrki frá miðjum september 2020, tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki og ferðagjafir til að finna út hámarkið. Þá gildir einnig sama hámark fyrir tengda aðila í rekstri, þannig að þeir deila saman einni hámarksfjárhæð. Lagt er til að gildistakan á þessu breytta hámarki verði 1. febrúar 2021 og hún taki þannig mið af því tímamarki þegar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hækkaði viðmiðið í tímabundnum ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna heimsfaraldursins.
Í öðru lagi er lagt til að gildistími viðspyrnustyrkjaúrræðisins verði framlengdur út nóvember 2021 og að heimilt verði að sækja um styrkina út árið 2021.
Jafnframt er lagt til að viðspyrnustyrkjaúrræðið verði útvíkkað á þann hátt að nýtt þrep um tekjufall bætist við lögin. Í því er gerð krafa um 40% tekjufall að lágmarki. Þannig er lagt til að vegna tekjufalls á bilinu 40–60% verði greiddur styrkur að fjárhæð 300.000 kr. fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila en að styrkurinn verði ekki hærri en 1,5 milljónir á mánuði. Lagt er til að ákvæði um þetta nýja þrep gildi afturvirkt frá því lögin um viðspyrnustyrki tóku gildi í nóvember 2020. Einnig er lagt til að fengnir viðspyrnustyrkir, sem eru vegna annarra mánaða en greiðast út í umsóknarmánuði, teljist ekki til tekna við útreikning á hlutfalli tekjufalls í umsóknarmánuði. Þetta er nú svona tæknilegt atriði sem við megum ekki misreikna okkur með. Það er mikilvægt að þetta sé alveg skýrt við tekjuviðmiðið, að fengnir viðspyrnustyrkir vegna eldra tímabils reiknist ekki sem tekjur í þeim mánuði sem er undir, en þetta er til samræmis við að tekjufallsstyrkir teljist ekki til tekna við sama útreikning.
Loks er lagt til að hámarksfjárhæðir styrkjanna verði hækkaðar úr 120 millj. kr. í 260 millj. kr. Sömu viðmið eiga við um útreikning á hámarkinu og gilda í tilviki lokunarstyrkja.
Í þriðja lagi er lagt er til að við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, bætist ákvæði til bráðabirgða. Þar verður kveðið á um að við álagningu opinberra gjalda árið 2021 skuli, til viðbótar almennum barnabótum, greiða sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 30.000 kr. með hverju barni til þeirra sem fá ákvarðaðar barnabætur, tekjutengdar. Sérstakur barnabótaauki telst ekki til skattskyldra tekna og leiðir ekki til skerðingar annarra tekna, svo sem bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá verður hinum sérstaka barnabótaauka ekki skuldajafnað á móti vangreiddum opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga eða vangreiddum meðlögum. Ég verð að láta þess getið um barnabótaaukann að þessi tillaga er að koma mjög seint fram og það er stutt í álagningu. Vegna framkvæmdarinnar, útgreiðslunnar á þessum barnabótaauka, mun örugglega reyna á það hvort þingið getur verið snart í snúningum.
Virðulegi forseti. Gangi þau áform eftir að ekki komi til frekari samkomutakmarkana innan lands munu áhrifin af því að framlengja umsóknarfrest vegna lokunarstyrkja verða mjög lítil ef nokkur og a.m.k. ekki umfram það sem þegar hefur verið gert ráð fyrir. Áætlað er að kostnaðurinn við framhald og útvíkkun á viðspyrnustyrkjaúrræðinu geti numið 7,4 milljörðum kr. en sú fjárhæð er engu að síður innan fyrri áætlana um kostnað af úrræðinu. Hér verð ég að láta þess getið að gert var ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði með úrræðinu að við myndum meta árangurinn af því og við erum að gera það og bregðast við með þessari tillögu. Við sjáum að greiddir viðspyrnustyrkir eru undir því sem við áætluðum og við bregðumst við með því að fara í endurmat á aðgerðinni líkt og kveðið er á um í bráðabirgðaákvæðinu og útvíkkum það nú. Þetta snýst í grunninn um það að margir hafa ekki komist yfir 60% tekjufallið sem viðspyrnustyrkirnir kveða á um, eins og þeir eru í lögum í dag, og við erum þess vegna að lækka þennan þröskuld. Loks er áætlað að kostnaður við einskiptis barnabótaauka verði um 1,6 milljarðar kr.
Með framlengingu lokunar- og viðspyrnustyrkja geta fyrirtæki áfram fengið nauðsynlegan stuðning ef þörf krefur nú þegar við erum á lokametrunum í baráttu okkar við faraldurinn og efnahagsleg áhrif hans. Með þessu aukum við fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja sem mun gera þeim enn betur kleift að taka af krafti þátt í öflugri viðspyrnu íslensks efnahagslífs á komandi misserum. Með breyttum tekjufallsviðmiðum erum við að hlusta á þær ábendingar sem komið hafa fram hjá hagsmunaaðilum, lærum af reynslunni og náum þannig til fleiri aðila sem sannarlega hafa orðið fyrir tekjufalli vegna faraldursins. Þá er með sérstökum barnabótaauka tryggður áframhaldandi stuðningur við fjölskyldur. Það hefur verið leiðarstef ríkisstjórnarinnar að með kröftugum aðgerðum verði lífskjör varin og stuðlað að skjótum og öflugum efnahagsbata. Úrræðin hafa virkað vel. Okkur hefur tekist að verja kjör heimila og veita fyrirtækjum skjól síðustu mánuði og með þessum breytingum ætlum við að standa áfram með fólki og fyrirtækjum á lokametrunum.
Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.
Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og fyrir að flytja þetta mál hér, þetta er greinilega mál sem getur komið mörgum vel. Það er hins vegar þannig, herra forseti, að sá sem hér stendur hefur fengið fullt af ábendingum frá fólki sem telur sig hafa borið skarðan hlut frá núverandi kerfi. Þar er mest um að ræða einyrkja, fólk sem er í rekstri á eigin kennitölu, slf.-formi. Spurningin er hvort fjármálaráðherra telji að þetta mál og þær breytingar sem hér verða séu með þeim hætti að þær eigi að tryggja réttindi þessa hóps betur en verið hefur undanfarið. Eins og ég segi, herra forseti: Þetta er ekki úr lausu lofti gripið. Það eru allnokkrir sem hafa borið sig upp við mann og sagt að þeir falli milli skips og bryggju og þess vegna verður að spyrja hvort þeirra hlutur sé hafður í hávegum þarna.
Ég hef líka fengið spurningar sem snúa að því að fólki sem er á atvinnuleysisskrá með börn á framfæri hefur oft og tíðum gengið erfiðlega, að mér hefur skilist, að fá barnabætur útgreiddar og ég tala ekki um konur sem eru vanfærar og eru á atvinnuleysisbótum og sjá fram á að við fæðingu detti atvinnuleysisbæturnar niður en þær fari á svokallaðan fæðingarstyrk sem er náttúrlega svo lágur að hann dugar ekki fyrir málungi matar.
Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort gripið sé á þeim atriðum sem ég hef nefnt í þessu frumvarpi.
Virðulegi forseti. Nú er dálítið erfitt að geta í eyðurnar sem hv. þingmaður skilur eftir þegar hann talar um einyrkjana og hvað það er í núverandi stuðningskerfi sem veldur því að viðkomandi teljist ekki uppfylla skilyrði. Ég get þó a.m.k. bent á nokkra hluti sem ég held að skipti máli. Í fyrsta lagi að áður en þetta kerfi viðspyrnustyrkja tók gildi og fram að þeim tíma hafði gilt svokallað kerfi fyrir tekjufall. Tekjufallsstyrkir voru greiddir út fram að viðspyrnustyrkjum. Tekjufallsstyrkirnir voru með lægri þröskulda hvað varðar tekjufallið sjálft þannig að það kann að vera að einyrkjar eða aðrir rekstraraðilar yfir höfuð, sem nutu stuðnings á grundvelli tekjufalls, segjum á bilinu 40–60% í eldra kerfi, hafi rekið sig á þennan 60% þröskuld í viðspyrnustyrkjunum og þannig upplifað að þeir nytu ekki áfram sama stuðnings og áður var, a.m.k. hvað þetta stuðningskerfi snertir.
Nú erum við að breyta þessu. Við erum þá í raun og veru að spegla tekjufallsstyrkjakerfið með nýjum styrkjaflokki fyrir tekjufall upp á 40–60% og við látum það gilda afturvirkt. Vonandi náum við til fleiri aðila og ef við horfum til kostnaðarmatsins sem er hér undir eru auðvitað væntingar um að við náum til mun fleiri aðila. Í þessu máli er hins vegar ekki verið að gera breytingar á fæðingarorlofsréttindum.
Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þetta svar. Í þessu svari sínu lýsti hann ágætlega hvernig skortur ríkisstjórnarinnar á langtímasýn hefur speglast í þeim aðgerðum sem farið hefur verið í vegna þess að það er í sífellu verið að framlengja, breyta, búa til nýja þröskulda. Í staðinn fyrir að tekið hafi verið rösklega á strax, eins og bent var á á sínum tíma, m.a. af þingfólki Miðflokksins, og farið í dugandi langtímaaðgerðir var einmitt farið í það sem hæstv. ráðherra var að lýsa núna, það var farið í bútasaum. Víst hefur sumt gagnast fólki og fyrirtækjum vel. En ég hlýt að spyrja hvort ekki hefði verið nær að hlusta á þær raddir sem sögðu strax í upphafi að taka þyrfti virkilega vel á og til langs tíma og þetta væri fyrirsjáanlegt o.s.frv. Ég hlýt líka að spyrja eftir mjög góðri yfirlýsingu, sem féll akkúrat þegar þessi vegferð hófst, þar sem þess var getið að æskilegra væri og líklegra til árangurs og vænlegra að gera meira en minna. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að ríkisstjórnin hafi uppfyllt það sem hann lagði sjálfur til í upphafi þessarar vegferðar, að ríkisstjórnin myndi gera meira en minna.
Virðulegi forseti. Já, ég verð að svara því afdráttarlaust að ég tel að við höfum staðið við þau stóru orð sem féllu hér strax í upphafi, að nú væri rétt að gera meira en minna. Það er sjálfsagt hægt að hafa ólíka sýn á það hversu mikið er nóg en við höfum mælingar. Við getum mælt ánægju með aðgerðirnar. Við getum skoðað, í nýjustu skýrslunni sem fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf út um virkni úrræðanna og nýtingu þeirra, hvernig dreifingin hefur verið, hversu margir hafa notið góðs af úrræðunum, hversu mikil dreifing er á milli stærðar fyrirtækja, hvaða greinar atvinnulífsins njóta helst stuðnings. Þegar við speglum þá niðurstöðu við þær greinar sem eru í mestum vanda sjáum við að það er alger samsvörun þar á milli. Við erum sem sagt að ná til þeirra fyrirtækja sem eru í mestum vanda. Við erum ekki bara að standa með stórum fyrirtækjum heldur líka með litlum og einyrkjum. Það er ágætisdreifing í útgreiðslu styrkjanna. Í því máli sem við ræðum hér erum við að hækka hámarksfjárhæðirnar til samræmis við svigrúmið sem gilt hefur á Evrópska efnahagssvæðinu um ríkisstyrkjareglur og ég tel að við séum að gera rétt í því. Ég tel sömuleiðis að það sé ekki til vitnis um að við séum í einhvers konar bútasaumi þó að við leyfum okkur að gera aðlaganir og breytingar á úrræðunum eftir því sem aðstæður kalla á hverju sinni. Þvert á móti finn ég ekki annað en að því sé fagnað mjög að við ákváðum að stíga þetta skref núna. Þetta hefur mælst vel fyrir og ég er algerlega sannfærður um að þetta mál er jákvætt og mun stuðla að því sem að er stefnt, bæði skjóli og sterkari viðspyrnu.
Herra forseti. Það er auðvitað jákvætt að aðgerðir sem eiga að koma til móts við þetta óvenjulega efnahagsástand séu lagfærðar, uppfærðar til samræmis við þróunina. Menn geta svo velt fyrir sér að hversu miklu leyti var fyrirsjáanlegt að hlutirnir hefðu þurft að vera öðruvísi. Það voru auðvitað álitamál eins og sú mikla krafa sem var uppi um gríðarlegt tekjufall til að menn ættu rétt á styrk og auðvitað spurningar um hvaða hvata slíkt felur í sér. Raunar er áhugavert að velta fyrir sér ýmsum þeim hvötum sem orðið hafa til í tengslum við aðgerðir stjórnvalda. Engu að síður höfum við stutt allar þessar aðgerðir, eins og við sögðumst gera frá upphafi, þó að ríkisstjórnin hafi ekki viljað fara okkar leið. Reyndar ætla ég að nota tækifærið og gera athugasemd við það að hún hafi fellt allar tillögur stjórnarandstöðuflokkanna um hvað mætti gera til að bregðast við þessu ástandi. Í ljósi alls tals um samstarfsvilja við erfiðar aðstæður þótti mér svolítið skrýtið að stjórnin færi þá leið að fella allt sem frá stjórnarandstöðu kæmi. En látum það þó liggja á milli hluta.
Þessar aðgerðir, sem margar hverjar hafa auðvitað skipt miklu máli, eiga það þó flestar sameiginlegt að snúast um að fleyta mönnum áfram í gegnum erfitt ástand. Þetta eru skammtímaaðgerðir og í mörgum tilvikum jafnvel nokkurs konar deyfilyf sem tekur fyrirtækin að einhverju leyti úr sambandi við efnahagsþrengingarnar. Auk þess skapast sú hætta að fyrirtækin detti úr sambandi við eðlilega hagþróun þegar hún kemst aftur af stað. Ég velti fyrir mér hvort ekki hefði mátt gera meira af því að huga að framtíðaráhrifum aðgerðanna.
Það sem mér finnst þó vera miklu stærri spurningar er hvers vegna ekki er hugað í meira mæli að því ástandi sem fyrirtækin bjuggu jafnvel við áður en þessi faraldur hófst og efnahagsþrengingarnar sem honum hafa fylgt. Hvers vegna er ekki litið meira til framtíðar í aðgerðum stjórnvalda? Er ástæðan sú að í rauninni hefur allt verið á pásu, það hefur verið hlé á meðan á faraldrinum hefur staðið og þar af leiðandi ekki komið fram neinar umbætur sem, að mínu mati a.m.k., voru orðnar mjög aðkallandi áður en faraldurinn hófst? Eða er ástæðan sú að aldrei stóð til að ráðast í slíkar umbætur? Það finnst mér vera áhyggjuefni því að eins og ég nefndi höfðu íslensk fyrirtæki, ekki hvað síst litlu og meðalstóru fyrirtækin, mjög mörg lent í talsverðum erfiðleikum fyrir upphaf faraldursins. Nú þegar honum er svo að segja að ljúka hér á Íslandi hljótum við líka að vilja líta til framtíðar. Stjórnvöld hljóta að vilja gefa til kynna með lagasetningu hvers sé að vænta í rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja þegar þau fara í það að vinna sig upp aftur. Þegar þau fara út úr þessu hléi, daglegt líf tekur við aftur og þau þurfa að fara að vinna sig upp þarf auðvitað að vera hægt að gera einhverjar áætlanir eins og kostur er.
Margar ástæður voru fyrir því að fyrirtækin voru lent í talsverðum þrengingum. Útgjöld þeirra höfðu aukist mjög verulega og mjög hratt. Auðvitað er hluti af því launakostnaður vegna mikilla launahækkana. En þá þarf að hafa í huga að þegar lítið fyrirtæki þarf að borga 2.000 kr. til að koma þúsundkalli í launaumslagið hjá launþeganum hefur kerfið annars vegar búið til mjög neikvæðan hvata en einnig lagt mjög miklar álögur á fyrirtækin sem skilar sér ekki nema að takmörkuðu leyti til launþegans. Maður hefði viljað sjá núna, eftir þennan faraldur þegar við hljótum að fara að líta til framtíðar, sýn stjórnvalda á hvernig þetta eigi að þróast því að það getur í rauninni ekki þróast áfram með þeim hætti sem það hafði gert.
Annað sem veldur mörgum fyrirtækjum mjög verulegum erfiðleikum, og hefur gert frá því löngu áður en faraldurinn hófst, er viðureignin við kerfið, íþyngjandi regluverk og allar þær flækjur sem jafnt og þétt er verið að leiða í lög. Í rauninni er staðan orðin sú að varla er hægt að reka lítið fyrirtæki á Íslandi án þess að ráða sérfræðing eða sérfræðinga bara í að fást við kerfið. Hvort sem það er starfsmaður eða aðkeypt þjónusta þá hafa mjög fáir þá þekkingu eða þann tíma sem þarf til að uppfylla allar þær kröfur sem kerfið gerir til lítilla atvinnurekenda. Í rauninni er verið að hanna kerfi, byggja upp og þróa kerfi, sem sniðið er að stórfyrirtækjum, en litlu fyrirtækin þurfa engu að síður að uppfylla sömu kröfur. Þetta á ekki hvað síst við um Evrópureglugerðirnar sem streyma til okkar á færibandi. Þær miða að alþjóðlegum stórfyrirtækjum og eru oft og tíðum óhemjuflóknar. Ég treysti mér til að fullyrða, herra forseti, að sumar þeirra eru þess eðlis að enginn þingmaður skilur þær. Við þurfum að reiða okkur á sérfræðinga eða kerfið til að segja okkur hvað snýr upp og niður í sumum þessara Evrópureglugerða. Stundum koma heilu bækurnar til okkar með milligöngu fjármálaráðuneytisins sem stundum gerir sínar sérstöku breytingar og oft, eins og menn hafa nefnt í gegnum tíðina, virðast menn þá vilja verða kaþólskari en páfinn í reglusetningunni. Þetta er það flókið að erfitt er fyrir þingmenn að skilja reglurnar og hvað þá fyrir þá sem þurfa svo að starfa eftir þeim.
Eitt sinn var talið mikið grundvallaratriði í lagasetningu að lög væru skiljanleg svoleiðis að allur almenningur gæti haft skilning á því til hvers væri ætlast, hvað væri leyfilegt og hvað ekki. Það er því miður liðin tíð. Nú eru lög orðin það flókin, og verða sífellt flóknari, að stundum þarf hreinlega aðstoð sérfræðinga til að lifa daglegu lífi, ég tala nú ekki um að stofna eða reka lítil fyrirtæki. Vegna þess að Evrópusambandið sníður sínar reglur — og eins og menn þekkja hefur það alveg einstakan áhuga á að flækja hlutina og búa til ný boð og bönn og gera mönnum erfitt fyrir á mörgum sviðum — að alþjóðlegum stórfyrirtækjum er eitt látið yfir alla ganga. Það skekkir mjög verulega samkeppnisstöðu minni fyrirtækjanna. Stórfyrirtækin hafa auðvitað möguleika á að takast miklu betur á við ástandið en litlu fyrirtækin, eru jafnvel með heilar deildir til að fást við regluverkið og kerfið á meðan litlu fyrirtækin eru annaðhvort rekin af einum aðila, einyrkja eða eiganda með dálítinn hóp með sér, sem getur átt í mesta basli með að fást við þetta og þarf að eyða í viðureignina við kerfið miklum tíma sem betur færi í rekstur fyrirtækisins eða fjármagni sem nýttist betur í fyrirtækinu til að ráða fólk og búa til verðmæti. Það býr til mjög skakka samkeppnisstöðu, enda virðist þróunin vera sú að þeir stóru eru alltaf að stækka á meðan minni fyrirtækjunum er í rauninni haldið í vörn.
Þetta er alveg sérstakt áhyggjuefni núna, herra forseti. Þess vegna sakna ég þess að ekki skuli vera nein áhersla á þessa hluti í tengslum við þennan faraldur því að faraldurinn hefur enn ýtt undir þessa þróun. Bara til að nefna sem dæmi eru allar litlu búðirnar sem hafa þurft að loka á meðan á þessu hefur staðið á meðan risarnir, erlend stórfyrirtæki, hafa í mörgum tilvikum dafnað. Búið var að veita þeim verulegt forskot. Eiga þau að hafa það forskot áfram? Það sama má segja um fjármálafyrirtæki. Það verður orðið mjög erfitt að reka sparisjóð á Íslandi eftir ekki svo langan tíma með sama áframhaldi. Á meðan stóru bankarnir ráða við að fylla út öll eyðublöðin og vera með fólk í vinnu við að fást við kerfið hafa litlu fyrirtækin einfaldlega ekki burði til þess. Verið er að skekkja samkeppnisstöðu lítilla fyrirtækja á ótal sviðum með íþyngjandi regluverki.
Þessi EES-samningur er auðvitað kominn úr böndunum. Við sjáum það í efnahags- og viðskiptanefnd að þar streymir inn nýtt íþyngjandi regluverk, iðulega sniðið að stórfyrirtækjum, sem bitnar á þeim litlu sem fá ekki nægt svigrúm til að takast á við kerfið. Þannig lenda fyrirtæki í því, og ég hef heyrt af því margar sögur, að allt í einu er komið nýtt regluverk sem mönnum er ætlað að uppfylla en erfitt er að fá upplýsingar um nákvæmlega hvernig eigi að uppfylla regluverkið, hvernig eigi að fylla út eyðublöðin. Menn reyna sitt besta og svo segir tölvan bara nei og sekt, oft himinhárri, er skellt á fyrirtækið, litla fyrirtækið sem var að reyna sitt besta á meðan stóra fyrirtækið, keppinauturinn, siglir bara í gegnum þetta. Nú þegar við erum að losna úr faraldursástandinu hefði maður viljað sjá hvert skuli stefnt með þetta. Eiga litlu og meðalstóru fyrirtækin áfram að fást við þann faraldur sem kerfis- og regluvæðingin er eða stendur til að veita þeim einhverja aðstoð í þeim efnum?
Af því að tíminn er að renna frá mér verð ég að láta nægja að nefna í lokin að hugmyndaauðgi stjórnvalda við að finna upp ný gjöld er auðvitað enn eitt vandamálið sem leggst á fyrirtæki landsins. Í anda nútíma- eða nýaldarstjórnmálanna er þessum gjöldum gjarnan gefið eitthvert jákvætt nafn, eru t.d. kölluð græn gjöld en þau eru gjöld engu að síður. Svo eru þau hækkuð og hækkuð aftur. Það sama má auðvitað segja um gömlu gjaldskrána sem er við hver áramót uppfærð af Alþingi til að leggja línurnar um verðbólguþróun ársins. Alþingi ríður á vaðið með verðhækkunum ár eftir ár, jafnvel í því ástandi sem við höfum verið. Ég vildi nota þetta tækifæri til að minna á og kannski spyrja hvort þetta faraldursár hafi verið alveg glataður tími, menn hafi ekkert unnið í því sem þurfti að laga fyrir eða hvort það hafi einfaldlega ekki verið vilji til að laga þessa hluti.
Frumvarpið gengur til 2. umr.
Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.