151. löggjafarþing — 90. fundur.
mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu, síðari umræða.
þáltill. SMc o.fl., 44. mál. — Þskj. 44, nál. 1336, breytingartillaga 1337.

[17:50]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar í máli nr. 44, um tillögu til þingsályktunar um mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu. Ég ætla að bregða út af þeim vana að lesa einfaldlega upp nefndarálitið. Það liggur fyrir í skjölum þingsins og fólk getur skoðað það ef það vill. En þetta er heldur ekki flókið mál. Það vill nefnilega svo undarlega til að á Íslandi er ekki til í sjálfu sér nein iðnaðarstefna, heildstæð almenn iðnaðarstefna, stefna um það hvernig við ætlum að haga iðnaði. Það eru til stefnur í einstaka málaflokkum, atvinnugreinum og þess háttar, en ekki kannski stefna sem fjallar um iðnað á Íslandi til lengri tíma og hvernig við viljum hafa hann og hvaða markmiðum við viljum ná með þeirri stefnu. Þess vegna heitir málið einnig sjálfbær iðnaðarstefna og það er lykilatriði.

Ég vil líka segja það að þeir hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem koma kannski hér upp á eftir, við sjáum til, myndu nefna það með réttu að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem þessi hugmynd kæmi fram, að koma á almennri iðnaðarstefnu. Hún hefur einnig komið úr röðum Framsóknarmanna, enda eru tveir Framsóknarmenn á þingsályktunartillögunni sjálfri, hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Í meðferð nefndarinnar komu þrjár umsagnir og voru þær allar jákvæðar. Mér þykir þó við hæfi að nefna sérstaklega eina sem er frá BSRB. Þau lögðu til að mótuð yrði víðtækari stefna þar sem tengd væru saman atvinnumál, nýsköpun og menntamál, þar á meðal stefna í iðnaði og ferðaþjónustu. Þetta var skoðað aðeins af þeim sem gerðu þetta nefndarálit og við komumst að þeirri niðurstöðu að það væri erfitt að útvíkka málið mjög mikið með þeim hætti. Það er þegar til stefna í einhverju af þessu eins og í menntamálum til að mynda og í nýsköpun, þó að við gætum reyndar alveg talað meira um hversu skýr sú stefna sé. En þær eru til staðar. Að því sögðu þá er það vitaskuld alveg rétt athugasemd hjá BSRB að það ber að skoða iðnaðarstefnu með tilliti til annarra stefnumála. Þau tengjast öll innbyrðis. Það kemur fram í nefndarálitinu sú ósk nefndarinnar að litið verði til þessa við gerð stefnunnar.

Það er í sjálfu sér ekki frá miklu fleiru að segja sem ekki kemur fram í nefndarálitinu. Undir það rita sá sem hér stendur, Helgi Hrafn Gunnarsson, og hv. þingmenn Halla Signý Kristjánsdóttir, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson og María Hjálmarsdóttir.