151. löggjafarþing — 94. fundur.
fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru o.fl., 2. umræða.
stjfrv., 769. mál (framhald úrræða og viðbætur). — Þskj. 1340, nál. m. brtt. 1398.

[14:48]
Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, lögum um viðspyrnustyrki og lögum um tekjuskatt. Eins og kemur fram í nefndarálitinu fékk nefndin á sinn fund fulltrúa frá fjármálaráðuneytinu, Skattinum, Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands. Auk þess bárust nokkrar umsagnir. Umsagnarfrestur var óvenjustuttur, eins og þingmenn þekkja.

Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda til að mæta fjárhagstjóni einstaklinga og lögaðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Í frumvarpinu er kveðið á um framlengingu gildistíma lokunar- og viðspyrnustyrkja. Lagt er til að hámark heildarfjárhæðar lokunarstyrkja verði hækkað í 260 millj. kr. og að rekstraraðilar sem hafi orðið fyrir 40% tekjufalli geti sótt um viðspyrnustyrk, að öðrum skilyrðum uppfylltum, og það aftur í tímann. Það er sem sagt verið að búa til nýtt þrep, 40–60% þrep.

Ég ætla síðan að vísa í skriflegt nefndarálit varðandi umfjöllun nefndarinnar en vil þó vekja athygli á því að nefndin er einhuga um að þegar fram líða stundir sé nauðsynlegt að gerð verði úttekt á þeim árangri sem þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, og þingheimur hefur verið einhuga um, hafa skilað, að þær verði metnar og skýrsla þess efnis verði kynnt þinginu. Um það fjöllum við kannski síðar. Ég vil þó benda á að það er ein breytingartillaga sem nefndin flytur og hún varðar þinglýsingar þar sem nefndinni barst ábending um að hluti þeirra kröfuhafa sem tóku þátt í samstilltum aðgerðum um að fresta greiðslum á skuldum einstaklinga og fyrirtækja muni ekki ná að þinglýsa viðaukum sem gerðir voru fyrir þann tímaramma sem var í gildi, þ.e. 16. maí, og í samráði við dómsmálaráðuneytið leggur nefndin til að frestur til að þinglýsa viðaukanum samkvæmt ákvæðinu verði framlengdur til loka þessa árs.

Síðan eru tæknilegar breytingar lagðar til. Hv. þingmenn Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Smári McCarthy skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara sem ég geri ráð fyrir að þau geri grein fyrir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita ásamt þeim sem hér stendur, Óla Birni Kárasyni, hv. þingmenn Jón Steindór Valdimarsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Hjálmar Bogi Hafliðason, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Smári McCarthy, þau tvö síðastnefndu með fyrirvara.

Hæstv. forseti. Ég kemst hins vegar ekki hjá því að þakka nefndarmönnum alveg sérstaklega fyrir hvernig brugðist var við og hvernig unnið var í þessu máli. Það var gert með snaggaralegum hætti en ég hygg að við höfum líka um leið náð að vanda til verka.[14:52]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Óli Björn Kárason minntist á skrifaði ég undir nefndarálitið með fyrirvara. Ég ætla aðeins að gera grein fyrir honum eða þeim vegna þess að þeir eru nokkrir en þeir snúa ekki að málinu sem slíku. Málið sem slíkt er ágætt enda hefði ég annars ekki undirritað nefndarálitið. Atriði sem mér finnst vanta og kalla á fyrirvara er í fyrst lagi: Nú hafa staðið yfir töluvert umfangsmiklar og í mörgum tilfellum dýrar efnahagslegar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins og það er fullkomlega eðlilegt í ljósi aðstæðna. En ekki hefur farið fram nein greining, alla vega ekki nægilega ítarleg greining, svo að maður sé sanngjarn, á því hverjir hafa notið góðs af þeim aðgerðum sem farið hefur verið í og hverjir hafa ekki notið góðs af þeim. Eins og hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi hér áðan stendur til að koma með tillögur frá nefndinni um að farið verði í slíka greiningu og ég þakka honum fyrir að taka vel í þá tillögu að gera slíkt. Það er mikilvægt í þessu árferði að við pössum að enginn verði út undan.

Annar gagnrýnispunktur minn er að þessar aðgerðir, og ég hef svo sem haldið ræður um þetta áður, eru í mörgum tilfellum byggðar á handahófskenndri þrepaskiptingu þar sem valin var einhver prósentutala og henni leyft að vera vendipunkturinn sem skilur á milli stuðnings og ekki stuðnings. Ég hefði frekar viljað, og hef svo sem rætt um það margsinnis, að umfang stuðnings væri í réttu hlutfalli við þörfina, að svona þrep væru ekki notuð.

Þriðja atriðið snýr að því hvernig málið varð til og hvernig það var unnið. Það var öllum ljóst, sem voru að fylgjast með þessu, að það þyrfti framlengingu þannig að það er ólíðandi að þetta skyldi hafa komið inn á síðustu stundu og þurft svona hraða meðferð í efnahags- og viðskiptanefnd. Það er hægt að halda langar og alveg merkilega leiðinlegar ræður um það hvernig ríkisstjórnin nær einhvern veginn alltaf að búa til algerlega tilgangslausa tímapressu sem veldur þinginu erfiðleikum, veldur því að málsmeðferð er ekki jafn góð og hún þyrfti helst að vera og í raun er bara merkilegt að efnahags- og viðskiptanefnd hafi náð að sinna þessu máli þokkalega vel. En það á eftir að koma í ljós hvort eitthvað hafi orðið út undan í yfirferðinni, þetta er allt of mikill hraði.

Við þurfum að geta vandað til verka og það er ekki hægt nema fyrir liggi skýr tímalína og málin komi snemma til þingsins, með nægum fyrirvara til að hægt sé að koma hlutum í verk án þess að unnið sé í tímapressu. Í þetta skipti er ég til í að sætta mig við þessa heimatilbúnu tímapressu vegna þess að þetta skiptir máli fyrir þau fyrirtæki og þau heimili sem njóta góðs af þessu. Ég veit ekki hvort hægt er að óska eftir því að breytt verði út af þessum vana, þetta hefur verið svona allan þann tíma sem ég hef verið á þingi. En við hljótum að geta gert betur og ef það þarf eitthvað sérstakt til, t.d. fleira starfsfólk í ráðuneytunum, verðum við bara að gera það til þess að svona lagað verði almennileg unnið. Athugasemdir mínar eru sem sagt ekki um málið sem slíkt. Það er bara í fína lagi, held ég. Vonandi kemur ekkert annað í ljós.[14:57]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í máli framsögumanns, hv. þm. Óla Björns Kárasonar, formanns hv. efnahags- og viðskiptanefndar, erum við tveir þingmenn með fyrirvara á nefndaráliti við frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónaveiru, lögum um viðspyrnustyrki og lögum um tekjuskatt. Fyrir það fyrsta vil ég fagna því að við gátum komið inn setningu á bls. 2 í greinargerð nefndarálits við frumvarpið, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nefndin telur ástæðu til að metinn verði sá árangur og ávinningur sem úrræðin hafa skilað samfélaginu. Nefndin er einhuga um nauðsyn þess að slík úttekt verði gerð.“

Herra forseti. Ég hefði óskað að þarna væri fæti stigið fastar niður varðandi mat á árangri aðgerða. Við erum að framlengja úrræði eins og efnahagsaðgerðir og styrki af þeim toga sem ríkisstjórnin hefur komið með hingað inn í þingið, og Alþingi hefur samþykkt og betrumbætt, aðgerðir sem ráðist er í til að mæta því gríðarlega fjárhagslega tjóni sem einstaklingar, rekstraraðilar og fyrirtæki hafa orðið fyrir vegna heimsfaraldursins og efnahagslegra áhrifa á samfélagið allt, og þetta eru neyðarúrræði, herra forseti, á borð við úttekt á séreignarsparnaði. Þá er gríðarlega mikilvægt að við greinum nákvæmlega hvaða hópum slík úrræði gagnast helst, hvort þau gagnast einhverjum og þá hverjum og sömuleiðis hvernig.

Þetta er, herra forseti, umfangsmikil vinna. Ég geri mér grein fyrir því að það tekur tíma að rannsaka og greina. En tölulegar upplýsingar eru til staðar og það skiptir meira máli, og verður betri ákvörðunartaka fyrir bæði ríkisstjórnina og þingið, löggjafann, að hafa nægjanlegar upplýsingar í höndunum þannig að við getum tekið betri ákvarðanir, skarpari og skýrari og áhrifameiri ákvarðanir er gagnast þeim sem þurfa mest á því að halda að fá styrki eða framlengingu á úrræðinu o.s.frv.

Mig langar í þessu samhengi, herra forseti, að benda til að mynda á ferðagjöfina sem nú hefur verið framlengd. Það hefur komið í ljós að hún hefur mest gagnast stórum fyrirtækjum þrátt fyrir að yfirlýstur tilgangur ferðagjafarinnar sé sá að styrkja rekstraraðila í ferðaþjónustu. Maður hefði haldið að því væri þá frekar beint til minni og meðalstórra fyrirtækja í ferðaþjónustu sem eiga um sárast að binda í kjölfar kórónuveirufaraldursins, að þá hefði verið upplagt að greina það áður en ákvörðun hefði verið tekin um framlengingu á því úrræði og hugsanlega taka líka upplýsta ákvörðun um að binda stuðninginn einhverjum skilyrðum svo að hann gagnist þeim sem mest þurfa á að halda.

Ég nefni þetta sem dæmi, herra forseti, um nauðsyn þess að greina og kanna og rannsaka hvernig þessi úrræði virka og fyrir hverja. Þar með tökum við betri ákvarðanir og grípum til áhrifaríkari aðgerða.

Að því sögðu mun ég og þingmenn í þingflokki Samfylkingarinnar styðja þetta mál, líkt og þingið hefur gert við allar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna kórónuveirufaraldursins. Og ég ítreka að þær aðgerðir hafa líka verið bættar í meðförum þingsins og það er vel.[15:02]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vildi koma hér upp til að árétta það, líkt og við fyrri tækifæri þegar svokölluð Covid-mál hafa verið hér til umræðu í þinginu, að Viðreisn hefur lagt sig fram um að greiða götu slíkra mála. Það sama gildir um þetta mál sem hér er til afgreiðslu, við styðjum framgang þess og ég ritaði undir þetta nefndarálit án fyrirvara. Engu að síður er rétt að halda því til haga að það hefur verið nokkuð bagalegt hve mikill hraði hefur verið á þessu máli. Það er í sjálfu sér aldrei gott. En við látum það ekki bitna á afstöðu okkar að þessu sinni þannig að við styðjum málið. Í þessu eru nokkur atriði sem horfa til bóta. Mörg þeirra voru í sjálfu sér fyrirséð þannig að það hefði verið hægt að gefa þessu rýmri tíma. Ríkisstjórnin hefði getað verið heldur fyrr á ferðinni.

Ég vil að síðustu minnast á það hér að eitt af þeim úrræðum sem hefur verið gripið til hefur verið það að heimila úttekt af séreignarsparnaði og hafa umtalsverðir fjármunir runnið út á þessum grundvelli. Þetta eru þá fjármunir sem fólk hefur lagt til hliðar til þess að nýta eftir sextugt. Margir hafa tekið þetta út, greitt af því fullan skatt og þannig hefur ríkissjóður haft umtalsverðar skatttekjur af þessum úttektum. Það er almennt rétt að íhuga mjög vandlega tilfelli eins og þessi, framlengingu þessa úrræðis og síðan vaxandi tilhneigingu til að sækja með einhverjum hætti í lífeyrissparnað landsmanna, séreignarsparnað til að verja til elliáranna. Við erum með ákvæði víða þar sem verið er að veita heimildir til úttektar til að greiða inn á fasteignir og fasteignalán. Allt er þetta í sjálfu sér góðra gjalda vert. En það er spurning hvort það sé ekki orðið meira en tímabært að skoða vandlega hvort nýting þessara fjármuna með þeim hætti sé skynsamleg. Ef niðurstaðan er sú að þetta sé í sjálfu sér skynsamlegt, þetta sé í sjálfu sér eins og hver annar sparnaður sem fólk eigi að hafa ráðstöfunarrétt yfir, þarf líka að huga að því hvort jafnræðis sé gætt við úttekt þessa sparnaðar þar sem menn geta í sumum tilvikum tekið út þennan lífeyrissparnað án skattlagningar en í öðrum með fullri skattlagningu.

Ég taldi rétt að minnast á þetta hér við afgreiðslu þessa máls vegna þess að ég tel að þetta sé stórt mál sem við þurfum í framtíðinni að huga að. Að öðru leyti, eins og áður hefur komið fram, þá styðjum við framgang þessa máls.