151. löggjafarþing — 96. fundur.
ástandsskýrslur fasteigna, síðari umræða.
þáltill. BLG o.fl., 98. mál. — Þskj. 99, nál. m. brtt. 1434.

[15:50]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um ástandsskýrslur fasteigna.

„Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Friðrik Ágúst Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins, Herdísi Hallmarsdóttur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Jóhann Þór Magnússon.

Umsagnir bárust frá Félagi fasteignasala, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Jóhanni Þór Magnússyni og Samtökum iðnaðarins.

Málið var áður flutt á 148., 149. og 150. löggjafarþingi. Þá bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bjarnarási ehf., Félagi fasteignasala, Frumherja hf., Íbúðalánasjóði, Matsmannafélagi Íslands, Neytendasamtökunum, Örvari Ingólfssyni og Þjóðskrá Íslands.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og dómsmálaráðherra að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp sem feli í sér endurskoðun á lögum um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, lögum um fasteignakaup, nr. 40/2002, og þinglýsingalögum, nr. 39/1978.

Markmið tillögunnar er að stuðla að bættri neytendavernd í fasteignaviðskiptum og að einfalda samskipti á milli seljanda og kaupanda húsnæðis, sem og leigusala og leigjanda hvað varðar gerð samninga og frágang annarra nauðsynlegra löggerninga. Hafa umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar að mestu lýst yfir stuðningi við þessi markmið tillögunnar og við tillöguna í heild.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið kom fram að kvöð um ástandsskýrslur færi ábyrgðina að einhverju leyti frá seljanda íbúðarinnar, sem getur verið vörn fyrir viðkomandi í ákveðnum tilvikum, en sú þróun hafi átt sér stað á undanförnum árum, t.d. í Noregi, að auka kröfur um athugun og upplýsingagjöf en um leið að auka ábyrgð seljenda á þeim göllum sem síðar koma í ljós. Með því að gera kröfur um ástandsskýrslur þegar fasteignaviðskipti eigi sér stað og skráningu á breytingum og úrbótum eftir atvikum verði til með tímanum nokkurs konar „smurbók“ hvers húsnæðis – viðhaldsdagbók þar sem komi fram helstu atriði sem snúa að húsnæðinu. Þótt slíkar skráningar geti verið kostnaðarsamar geti þær sparað mikla peninga til lengri tíma.

Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að ástandsskýrslur ættu einungis að vera krafa í tilfelli notaðs húsnæðis, en í tilfelli nýbygginga sé nóg að miða við gögn sem gerð eru í eðlilegu ferli byggingarframkvæmda. Einnig kom fram að eðlilegt væri að gera mismunandi kröfur um innihald ástandsskýrslna, sérstaklega hversu ítarlegar þær ættu að vera eftir aldri fasteigna. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið en eftirlætur ráðherra nánari útfærslu þeirra.

Í umsögnum komu einnig fram margvíslegar ábendingar um álitamál varðandi nánari útfærslu á þeim atriðum sem tillagan felur í sér. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að taka þær ábendingar og álitamál til greina við vinnslu frumvarpsins.

Samkvæmt ábendingu dómsmálaráðuneytisins er ólíklegt að endurskoðun á þinglýsingalögum þurfi til þess að ná markmiðum tillögunnar. Er því lagt til að vísun til þeirra laga falli brott, en því beint til ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra að vinna slíkar breytingar í samráði við dómsmálaráðuneytið gerist þess þörf.“

Að teknu tilliti til þess sem að framan segir leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingu sem kemur fram í nefndarálitinu.

Við afgreiðslu málsins var hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fjarverandi en undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sá sem hér stendur, Smári McCarthy, Jón Steindór Valdimarsson, Brynjar Níelsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Hjálmar Bogi Hafliðason.

Herra forseti. Til að gera nánari grein fyrir því hvað í þessu felst er hugmyndin sú að með því að halda betur utan um upplýsingar sem snúa að viðhaldi og ástandi fasteigna og að við sölu á fasteignum sé tekin saman ástandslýsing gætu sparast töluverðir peningar, ekki síst í kostnaði við að reka deilumál hvað varðar ástand húsnæðis. Einnig kæmu þá færri vandamál í ljós, færri faldir gallar og almennt séð væri viðhaldssaga íbúða og fasteigna til staðar þannig að hægt væri að meta ástandið með skýrari hætti. Þá er vonandi hægt að koma í veg fyrir ýmiss konar þrætur sem hafa komið upp í gegnum tíðina, svo að ekki sé talað um að auðveldara væri að takast á við vandamál eins og myglu í húsum.

Þetta er allt saman, held ég, mjög mikið til bóta og ég hlakka til að sjá frumvarp sem útfærir þetta í lögum koma fram. Mig langar til að þakka efnahags- og viðskiptanefnd fyrir að taka vel til verka í þessu máli. Það hefur verið gaman að vinna þetta og ekki síst í ljósi þess að málið hefur farið nokkrum sinnum í gegnum þingið en ekki komist á leiðarenda. Málið sjálft tók auðvitað breytingum milli þinga og hefur slípast til og orðið, held ég, betra með hverju skiptinu.

Nú er komið að leiðarlokum. Ég vona að þetta verði afgreitt héðan frá þinginu og fari svo í næsta skref sem er þá frumvarpsgerð hjá hæstv. ráðherra.[15:57]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég fagna því að málið sé loksins komið á þennan stað í síðari umræðu. Eins hv. þm. Smári McCarthy komst að orði áðan hefur það farið í gegnum nokkra snúninga í þinginu. Einn af snúningunum er vegna nýbygginga og ástandsskýrslna sem eiga að fylgja. Upprunalega var þingsályktunartillagan í því formi sem hún er núna. Meiri hlutinn leggur til að ástandsskýrslur þurfi ekki að fylgja nýjum íbúðum. Hins vegar komu umsagnir um að nýjar íbúðir og nýjar fasteignir væru oft í slæmu ástandi. Eins og komist er að niðurstöðu um hér væri eðlilegt að gera ráð fyrir að öll gögn myndu fylgja með nýbyggingum sem ættu í raun að gegna hlutverki ástandsskýrslu þar sem það á við. Ég fagna því að málið hafi endað á þessum stað og ég hlakka til að sjá afgreiðslu ráðherra á því. Það kemur fram í máli dómsmálaráðuneytisins að ólíklegt sé að endurskoðun þurfi á þinglýsingalögum til að ná markmiðum tillögunnar og það getur vel verið, breytingar á þinglýsingalögum eru nýbúnar að fara í gegnum þingið, þ.e. um rafrænt ferli þeirra. Hér eru fleiri atriði undir en þau lög ná mögulega yfir eins og kaupsamningar og þess háttar. En ef lögin ná yfir þau skjöl líka og farið er í að gera þau ferli rafræn er það bara hið besta mál.

Ég fagna því að málið sé komið á þennan stað því að þetta hefur verið mjög mikið vandamál. Eins og farið var yfir í þingsályktunartillögunni á hún, frá því hún var fyrst lögð fram og þangað til núna, t.d. að geta hjálpað gríðarlega mikið til við mál sem hafa verið samþykkt á þingi um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna endurbóta á húsnæði og þess háttar. Slíkt væri hægt að skrá í viðhaldsdagbók með kvittunum og því um líku og þá væri sjálfkrafa hægt að endurgreiða virðisaukaskatt í staðinn fyrir að fólk þyrfti að fara í gegnum ansi snúið ferli hjá Skattinum til að fá slíkar endurgreiðslur. Það er ekki endilega gagnsæjasta eða aðgengilegasta tækið til að fá rétt sinn hvað það varðar. Ef einfaldlega væri farið í gegnum þinglýsingarferlið eða ferli gagnvart viðhaldsdagbók sem þarna væri þá myndi það gerast sjálfkrafa að fólk fengi þann rétt ef allt væri aðgengilegt og í viðeigandi ferli. Ef maður segði að húsnæði hefði verið uppfært, það hefði verið gert við eða eitthvað svoleiðis og kvittanir hefðu verið lagðar fram, þá rynni það í gegn og virðisaukaskatturinn væri endurgreiddur.

Það myndi auðvelda svo rosalega margt ef ferlin utan um það að kaupa og selja fasteignir og að halda utan um viðhald á fasteignum, og þær aðgerðir sem þingið er oft að leggja til hjálpa þeim ferlum, að það væri er allt rafrænt og aðgengilegt. Ég held að það myndi bæta til langs tíma húsnæðismarkaðinn á Íslandi alveg gríðarlega mikið og veita okkur hér inni miklu meiri upplýsingar um það hvernig staða fasteignamarkaðarins í heild er.

Það sem hér er komið er síðari umræða og svo atkvæðagreiðsla um þingsályktunartillögu um ástandsskýrslur fasteigna. Næsta skref verður síðan að klára lög í kringum þetta og framkvæmdina á þeim lögum þannig að við getum farið að gera betri hluti hér.