151. löggjafarþing — 97. fundur
 18. maí 2021.
sérstök umræða.

skipulögð glæpastarfsemi.

[13:37]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ástæða er til að óttast að Íslendingar séu að missa tökin á skipulagðri glæpastarfsemi og raunar búnir að því að umtalsverðu leyti. Skýrslur greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá 2017 og 2019 sýna þetta á sláandi hátt. En hvernig hefur verið brugðist við? Hvað hefur verið gert?

Hæstv. ráðherra skrifaði grein um málið nýverið og fjallaði fyrst og fremst um aukna áherslu á samskipti, samstarf, samráð, samræmingu milli lögregluembætta á Íslandi, m.a. með stofnun sérstaks stýrihóps. Það er auðvitað gott og blessað að efla samstarf milli lögregluembætta á Íslandi, hafi verið skortur á því. Auk þess fylgdi almennt tal um alþjóðlegt samstarf, m.a. í gegnum Europol sem hefur raunar verið til staðar lengi. Lögreglunni áskotnaðist fé vegna árangurs í aðgerðum gegn sölu fíkniefna sem hefur nýst henni að nokkru og auk þess hefur verið talað um í þessu samhengi aukna áherslu á fræðslu og endurmenntun lögreglunnar. En í hverju felst þessi fræðsla, þessa aukna áhersla á endurmenntun lögreglunnar? Af umfjöllun fjölmiðla að dæma virðist þetta einkum vera fræðsla um leyfilega orðræðu og táknfræði. Lögreglumenn hafa kvartað við mig yfir því að verið sé að kenna þeim orðræðu og setja þá á alls konar rétttrúnaðarnámskeið fremur en að búa þá undir verkefni sem verður sífellt erfiðara viðfangs. Engin ástæða er til að ætla að lögreglan á Íslandi sé haldin einhverjum sérstökum fordómum en samt er talað eins og hún þurfi sérstaka endurmenntun á því sviði. Fyrrverandi dómsmálaráðherra, hv. þm. Sigríður Á. Andersen, leitaðist við að rétta kúrsinn hvað þetta varðaði en það virðist lítið hafa gerst síðan þá.

Hvað með úrræðin sem lögreglan kallar eftir, tækjabúnað, þekkingu, mannafla, heimildir til að takast á við þennan breytta veruleika? Hvað með að laga kerfið, t.d. með því að gera okkur kleift að vísa glæpamönnum umsvifalaust úr landi? Og hvað með að bregðast við út frá því hvernig hlutirnir eru, ekki hvernig þeir ættu að vera? Skýrslur greiningardeildarinnar eru góðar vegna þess að þær lýsa vandanum eins og hann er í raun. Þær lýsa fjölgun erlendra glæpagengja og hvernig þau eru að breyta afbrotaheiminum á Íslandi með aukinni hörku, með meira framboði sterkra fíkniefna, kókaíni ekki hvað síst, með mansali, með farandafbrotahópum og skýrslurnar gera líka ítarlega grein fyrir því hvernig þessir hópar misnota hælisleitendakerfið og velferðarkerfið á Íslandi. Hælisleitendakerfið er bæði notað til að koma inn glæpamönnum og fórnarlömbum þeirra, auk þess að selja fólki væntingar en leggja það í hættu og hafa jafnvel af því aleiguna eða hneppa það í ánauð.

Er verið að taka á vandanum eins og hann er í raun? Það sýnist mér ekki, þvert á móti. Hvað leggur ríkisstjórnin til við þessar aðstæður? Annars vegar lögleiðingu fíkniefna og hins vegar breytingar á hælisleitendakerfinu sem ganga þvert á það sem önnur Norðurlönd eru að gera til að koma í veg fyrir að kerfið sé misnotað af glæpagengjum, ekki hvað síst. Hér verður misnotkun kerfisins gerð enn meira aðlaðandi. Það verður auðveldara að tæla fólk hingað, selja því aðgang að kerfinu. Þessar breytingar ríkisstjórnarinnar eru gjöf til glæpagengja sem munu eiga auðveldara með að selja fíkniefnin og lögreglan erfiðara með að grípa inn í.

Má ekki nefna að kerfið sé misnotað? Jú, við hljótum að þurfa að gera það, rétt eins og gert er í skýrslu greiningardeildarinnar því það gerir okkur kleift að takast á við hinn raunverulega vanda. Starfsemi erlendra glæpagengja bitnar iðulega fyrst og fremst á erlendum ríkisborgurum eða fólki af erlendum uppruna og hælisleitendum sem eiga raunverulega rétt á að fá hér hæli. Í Svíþjóð fóru menn þá leið að ræða þetta ekki, lögðu í rauninni bann við því. Hver var afleiðingin? Svíar misstu gersamlega stjórn á ástandinu, öll tök. Á árinu 2019 reyndist Svíþjóð vera mesta glæpaland Evrópu í alþjóðlegum samanburði. Það ár voru gerðar 257 sprengjuárásir í Svíþjóð. Umfang skipulagðrar glæpastarfsemi er þegar orðið umtalsvert á Íslandi. Íslensk stjórnvöld verða að bregðast við með afgerandi hætti, veita lögreglunni þau úrræði sem hún þarf á að halda. Við megum ekki við því að gera ástandið verra með breytingum sem auðvelda skipulagða glæpastarfsemi.



[13:42]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir frumkvæðið að þessari umræðu. Staðan er sú að skipulögð brotastarfsemi hefur því miður verið að færast í aukana hér á landi á undanförnum árum. Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur ítrekað varað við þessari þróun og ég hef í störfum mínum í ráðuneytinu lagt áherslu á viðbúnað og aðgerðir til að bregðast við henni.

Málshefjandi bendir á að í skýrslu greiningardeildar árið 2019 komi fram að geta íslensku lögreglunnar til að sporna gegn þessari starfsemi teljist lítil, en ég hef ástæðu til að ætla að sú staða hafi breyst í kjölfar þeirrar vinnu sem ég fól nýjum ríkislögreglustjóra að hrinda af stað í fyrrasumar. Ég mun lýsa því starfi nánar í máli mínu hér á eftir.

Að mati embættis ríkislögreglustjóra eru skattundanskot talin nema a.m.k. 4% af vergri þjóðarframleiðslu, eða um 100 milljörðum á ári. Skaðsemi peningaþvættis og skattsvika er því gífurleg og nátengd skipulagðri brotastarfsemi. Þessum málum hefur fjölgað mikið og ávinningur margvíslegrar brotastarfsemi er falinn með því að þvætta hann í gegnum rekstur fyrirtækja. Það er erfitt að meta veltu en ljóst er að skipulagðir glæpahópar eru í umfangsmikilli glæpastarfsemi; fíkniefnasölu, skattsvikum, tryggingasvikum, bótasvikum og peningaþvætti í gegnum rekstur fyrirtækja. Og það er ekki síst þess vegna, til að takast á við þennan flókna veruleika brotanna, að það þarf að auka samráð og samhæfingu stofnana, sem var eitt af því sem lögreglumenn töluðu hvað mest um að þyrfti að laga til þess að geta tekið almennilega á þessum málum. Og þó að málshefjandi og hv. þingmaður tali niður samráð og samhæfingu og þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í þetta þá er það eitt af lykilatriðunum til að ná árangri í þessum efnum.

Talið er öruggt að hér á landi starfi a.m.k. 15 hópar sem skilgreindir eru sem skipulagðir brotahópar og brotaflokkarnir eru fjölmargir. Þeir falla undir stafrænt kynferðisofbeldi gagnvart börnum, mansal, misnotkun, fíkniefnainnflutning, vændi, peningaþvætti, skattsvik, önnur svik, netglæpi og spillingu. Varðandi það sem við höfum gripið til til að koma til móts við ábendingar greiningardeildarinnar þá eru þar fjölmargar aðgerðir í gangi og ég vonast til að þær muni áfram skila árangri á næstu misserum og árum. Eitt er stofnun lögregluráðs, sem er formlegur samráðsvettvangur, sem var í fyrsta skipti komið á fót og byrjaði að starfa í ársbyrjun 2020. Í framhaldi var sett reglugerð um embætti ríkislögreglustjóra. Í 23 ára sögu embættisins hafði slík reglugerð aldrei verið sett, en þar er skýrt hlutverk embættisins sem forystuafls í lögreglumálum og þá ekki síst til að efla samstarf embættanna og gera þau skilvirkari, m.a. í þessari baráttu. Það var þörf á því þegar ég kom inn í ráðuneytið.

Þá ber í öðru lagi að nefna sérstakt samstarf ríkislögreglustjóra til að samnýta mannafla og búnað lögreglu og auka skilvirkni til að vinna gegn þessum aðgerðum og brotastarfsemi. Lögð var áhersla á að allt það svigrúm sem skapaðist vegna fækkunar ferðamanna yrði nýtt í aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi. Þar eru sett í algeran forgang mannafli og fjármunir í rannsóknarhópa og annað. Þá voru settar verklagsreglur um þetta, stofnaður stýrihópur sem hefur skilað til mín tillögum og ég hef brugðist við þeim, m.a. með nýrri reglugerð sem eykur heimildir þeirra á ákveðnum sviðum, en aðrar tillögur eru nú í vinnslu í ráðuneytinu. Þá höfum við lagt fjármagn í baráttuna. Brot af þessu tagi eru gjarnan þaulskipulögð og flókin þannig að það þarf búnað til að takast á við þau, og hv. þingmaður nefndi það og kom inn á sérstaka löggæslusjóðinn, og þessi búnaður hefur nú þegar komið að góðum notum. Lagt var til varanlegt 80 millj. kr. framlag til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í þessar aðgerðir. Síðan það var gert hefur verðmæti haldlagðra og kyrrsettra fjármuna aukist til muna. Síðan hafa löggæslustofnanir verið efldar til að taka á peningaþvætti og efla landamæraeftirlit. Lögreglan hefur brugðist við því með því að fjölga menntuðum lögreglumönnum og ekki síður sérfræðingum til að sinna greiningum og upplýsingavinnu. Síðan má nefna heimildir í útlendingalögum til að vísa brott erlendum brotamönnum. Þær eru skýrar og víðtækar. En það er nauðsynlegt að samræma verklagið milli lögreglu og Útlendingastofnunar í slíkum málum. Auknar heimildir í lögum fyrir lögreglu til að skiptast á upplýsingum við önnur stjórnvöld og eins starfsemi lögregluráðs hafa auðveldað slíka samræmingu. Við áttum okkur auðvitað á því að í slíkri brotastarfsemi geta önnur kerfi verið misnotuð, eins og útlendingalöggjöfin en við höfum m.a. hraðað málsmeðferð Útlendingastofnunar og þar er ekkert mál eldra í dag en 110 daga gamalt.

Ég kemst ekki yfir öll þau mál, verkefni eða lagabreytingar sem ég hef gert í þessum málaflokki en mun kannski nefna þau hér á eftir ef ég kemst í það, ásamt því að svara öðrum spurningum sem koma upp í umræðunni.



[13:48]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er ágætisumræða hér þó að mér hafi þótt málshefjandi vera með ögn sérstaka útgangspunkta, talaði um rétttrúnaðarnámskeið, kerfið misnotað og þess háttar í staðinn fyrir að tala um þann vanda sem við erum að glíma við, sem er skipulögð glæpastarfsemi sem er unnin þvert á landamæri, óháð uppruna, óháð rétttrúnaði eða kerfum, er stunduð um allan heim. Þannig er það nú.

Það sem mig langar að ræða hér fyrst og fremst er sá aðbúnaður sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. dómsmálaráðherra býr eftirlitsstofnunum, lögreglu, skattrannsóknarstjóra o.fl., af því það kom fram í mögnuðum þáttum um daginn, Kompásþáttum, að þeir sem gerst þekkja til í þessum málaflokkum og starfa á þessum vettvangi segja að fjármagn, mannafli, aðbúnaður, sem ríkisstjórn Íslands færi lögreglu og öðrum eftirlitsstofnunum, sé í skötulíki, því miður. Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði að lögreglu skorti hvort tveggja mannafla og tíma til að geta sinnt verkefnum sem lúta að skipulagðri glæpastarfsemi. Theodóra Emilsdóttir, settur skattrannsóknarstjóri, sagði í sama þætti að skipulagðir glæpir væru að gerast fyrir framan augun á okkur en embættin hafi án árangurs kallað eftir úrræðum til að geta brugðist hraðar við gruni um að verið sé að misnota skattkerfið. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir að skipulögð brotastarfsemi sé líklega einhver mesta ógn sem samfélagið glími við í dag. Hvernig er því svarað? Nú erum við að fást við verkefnið um styttingu vinnuvikunnar og bara hún ein og sér kallar á 75 nýja lögreglumenn á Íslandi. Við erum enn þá á þeim stað að það eru jafn margir lögreglumenn á Íslandi í dag og 2007, það eru nú öll ósköpin. (Forseti hringir.)

Til þess að geta unnið hratt og örugglega, rannsakað þessi mál og varið borgara hér á landi þarf að fjölga lögreglumönnum. Þetta er ekkert flókið. Það er þar sem vanrækslan hefur átt sér stað.



[13:50]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ólst upp í fámennri sveit á Tröllaskaga, ólst upp í sveit þar sem skipulögð glæpastarfsemi var bara til í bíó og við töldum okkur trú um að það væri bara einn og einn smákrimmi sem slæddist um á höfuðborgarsvæðinu. Við erum líklega mörg hér inni sem ólumst upp við saklausara Ísland en það sem við þekkjum í dag. Það er miður en er að því er virðist óhjákvæmilegur fylgifiskur þeirrar velmegunar sem við njótum og þess að vera þjóð á meðal þjóða. Skipulögð glæpastarfsemi snýst um peninga. Hún snýst um sölu á fíkniefnum, hún snýst um mansal og vændi. Hún snýst um peningaþvætti, skattsvik og tryggingasvindl og ræðst jafnt á fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga. Eins og við þekkjum hefur það komið fram að þjóðarbúið verður líklega af 100 milljörðum árlega vegna skipulagðrar glæpastarfsemi. Þá er ótalin sú ómælda þjáning sem skipulögð glæpastarfsemi veldur í lífi fólks og sá mikli fjöldi fólks, mikið til ungar konur, sem er fórnarlamb mansals og vændis.

Það er gömul saga og ný að til að takast á við ný og flóknari verkefni þurfi aukið fjármagn. Það á ekki síður við þegar stemma á stigu við skipulagðri glæpastarfsemi og hefur ríkisstjórnin látið aukið fjármagn renna til lögreglunnar í því samhengi. En aukið fjármagn er aðeins varða á þeirri vegferð að uppræta og berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi og ég tel að við höfum stigið stór skref í þeirri baráttu hér á þessu kjörtímabili. Ég verð að minnast á nám lögreglumanna sem nú er komið á háskólastig og hefur gengið vel og Háskólinn á Akureyri staðið sig með mikilli prýði. Samstarf á milli deilda innan lögreglunnar hefur verið aukið til muna og þverfaglegt samstarf sem styrkir löggæsluna á fleiri sviðum til þess að ná utan um umfang skipulagðrar glæpastarfsemi. Þá hefur dómskerfið líka náð vopnum sínum í baráttunni og munar um nýja löggjöf sem er fólgin í því að takast á við peningaþvætti, breytingar á mansalsákvæðum hegningarlaga og svo mætti lengi telja. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það er með glæpastarfsemi eins og annað í þessum heimi að allt er breytingum háð. Það er okkar hlutverk að tryggja að löggæsla standist tímans tönn og hver veit, kannski upplifum við einhvern tímann þá tíma að við sjáum glæpamennina eingöngu á hvíta tjaldinu aftur.



[13:53]
Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ótti almennings er sterkt vopn fyrir valdhafandi hópa. Með því að kynda undir ótta geta ríkisstjórnir drifið réttindaskerðingar einstaklinga í gegnum þing. Nú liggur fyrir þinginu frumvarp um breytingar á lögreglulögum sem eiga að gefa lögreglunni auknar rannsóknarheimildir. Engar upplýsingar fást um það hvernig núverandi heimildir gagnast lögreglunni og af hverju hún þarf þessar auknu rannsóknarheimildir núna. Svarið virðist bara alltaf vera: Skipulögð glæpastarfsemi. Rannsóknarheimildir lögreglu fela alltaf í sér takmörkun á friðhelgi einkalífs einstaklinga. Þó að hamrað sé á því að um sé að ræða aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi þá kemur það ekki í veg fyrir að heimildunum sé einnig beitt á aðra borgara. Ef það er ekkert almennilegt eftirlit með því hvernig rannsóknarheimildir gagnast lögreglu og af hverju það þurfi að auka þær þá tel ég að verið sé að feta hættulega braut með því að veita lögreglunni auknar og í einhverjum tilvikum óskoraðar rannsóknarheimildir. Eftir umræðu hér í þinginu í febrúar vegna skotárásar í Rauðagerði var ljóst að dómsmálaráðuneytið eða lögreglan ætla ekki að nýta það til að undirbyggja málflutning um frekari vopnakaup lögreglu heldur virðist málflutningurinn nú frekar snúast um auknar rannsóknarheimildir lögreglunnar. Það er ekki að ástæðulausu að rannsóknarheimildum lögreglu séu settar skorður og ég ítreka það sem ég tók fram í störfum þingsins 17. febrúar síðastliðinn að víðtækum rannsóknarheimildum þarf að fylgja aukið og virkt eftirlit með lögreglunni og fyrirsjáanleiki í því hvernig rannsóknarheimildirnar gagnast lögreglunni.



[13:55]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og fleiri, þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að hefja máls á þessu, enda mikilvægt og aðkallandi verkefni að koma böndum á skipulagða glæpastarfsemi. Orðaval hv. þingmanns, framsögumanns, og e.t.v. nálgun, þótti mér þó eilítið sérkennilegt, en engu að síður er það mikilvægt efni sem við ræðum hér í dag, og ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóðar upplýsingar. Það var gott að heyra hversu mikið hefur verið gert nú þegar í þessum efnum og hvernig hæstv. ráðherra sér þessi verkefni fyrir sér til lengri tíma, vegna þess að umfangið fer vaxandi. Ég ætla ekki að telja upp tölur og tegundir glæpa, en tegundaflóran er stór og umfangið allt of mikið: 15 skilgreindir skipulagðir glæpahópar, það eru skuggalegar tölur. Ég tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur þegar hún rifjaði upp æskuárin á Tröllaskaga, að sú var tíðin að maður gat skilið eftir ólæst og sá helst einhverja glæpona í bíómyndum. Þetta hefur breyst, en ég hef fulla trú á hæstv. ráðherra, ég held að við séum á réttri leið. Við þurfum að sjálfsögðu að tengja saman ólíkar stofnanir og efla löggæsluna. Samvinna er alltaf af hinu góða, að deila upplýsingum og hjálpast að við að koma böndum á þessa glæpi. Ég ætla að tala hér um netglæpina á eftir (Forseti hringir.) og forvirkar rannsóknarheimildir, en það er af mörgu að taka í þessari umræðu.



[13:57]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Að undanskildum náttúruhamförum telur greiningardeild ríkislögreglustjóra skipulagða glæpastarfsemi vera alvarlegustu ógn við samfélag og einstaklinga á Íslandi. Þetta eru stór orð en þetta er mat ríkislögreglustjóra sem rakið er í skýrslu frá árinu 2019. Það er um leið mat lögreglunnar að hér sé starfsemi sem er skipulögð í eðli sínu sem búi bæði yfir umtalsverðum styrk og fjármagni og eftir því sem starfsemi þessara aðila styrkist og eflist verður erfiðara fyrir lögregluna að sporna gegn henni. Það þarf að ná henni áður en hún nær að festa rætur. Þess vegna er ábyrgðarlaust, vil ég leyfa mér að segja, af hálfu stjórnvalda að það gerist ár eftir ár að út komi skýrslur með niðurstöðum á borð við þessar án þess að brugðist sé við í samræmi við alvöru málsins. Það virðist reyndar vera gegnumgangandi í nálgun stjórnvalda hvað varðar innviði og þær stofnanir sem eiga að verja almenning með því að sinna eftirliti. Í skýrslu greiningardeildarinnar frá 2019 kemur t.d. fram að geta íslensku lögreglunnar til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi teljist að þeirra mati lítil. Ég held að hér megi reyndar ganga svo langt að segja að það sé vanræksla stjórnvalda gagnvart almenningi að gera ekki betur. Lögreglan verður að hafa burði til að nálgast mál þannig að hægt sé að koma í veg fyrir starfsemi sem þessa í stað þess að vera að bregðast við einstaka máli sem ratar upp á yfirborðið. Þetta eru rannsóknir sem krefjast tíma, þær eru kostnaðarsamar, þær fara yfir landamæri, þær krefjast þekkingar. Þetta er nákvæmnis- og þolinmæðisvinna.

Virðulegi forseti. Hér blasir við okkur ákveðin mynd. Myndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur árum saman farið með þetta ráðuneyti og skilaboðin frá ríkislögreglustjóra um stöðu mála gætu ekki verið skýrari. Það vantar verulega upp á það að stjórnvöld standi með almenningi að þessu leyti, tryggi að lögregla sé fjármögnuð í samræmi við þörf og hafi mannafla (Forseti hringir.) í samræmi við þörf. Það er eins og það gleymist stundum hjá ríkisstjórninni, þegar verið er að tala um innviði og uppbyggingu (Forseti hringir.) þeirra, að þar er lögreglan auðvitað fyrst, að verja öryggi borgaranna.



[14:00]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Þetta er þörf umræða og löngu tímabær. Skipulögð glæpastarfsemi hefur færst í aukana á Íslandi síðustu ár. Þetta eru ekkert nýjar fréttir. Greiningardeild ríkislögreglunnar mat það svo árið 2019 að að náttúruhamförum frátöldum væri skipulögð glæpastarfsemi alvarlegasta ógnin við samfélagið og einstaklinga á Íslandi. Í þeirri skýrslu voru endurtekin varnaðarorð frá fyrri skýrslu frá 2017:

„Að öllu þessu virtu verður sú ályktun dregin að núverandi aðstæður séu, að öllu óbreyttu, ekki til þess fallnar að hamla gegn skipulagðri starfsemi í landinu. Að framangreindu má ljóst vera að dregið hafi úr getu lögreglu til að sinna mörgum þeirra málaflokka sem falla undir hugtakið „skipulögð glæpastarfsemi“.“

Þrátt fyrir þessi varnaðarorð gerði ríkisstjórnin lítið til að efla lögreglu í baráttu sinni. Flokkur fólksins taldi stöðuna alvarlega og lagði til auknar fjárveitingar til lögreglu við afgreiðslu fjárlaga haustið 2019, einmitt til þess að gera átak í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi. Ríkisstjórnin greiddi atkvæði gegn þeirri tillögu. Í frétt í Vísi um morðið í Rauðagerði segir, með leyfi forseta, að um þremur vikum fyrir morðið hafi lögreglan fengið upplýsingar um mann vopnaðan skammbyssu:

„Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að brugðist hafi verið við um leið og að leit að byssunni hafi strax hafist. Leitin hafi hins vegar ekki borið árangur. […] Aðspurður segir Margeir að lögreglan hafi að sjálfsögðu viljað vakta ferðir einstaklings sem grunaður er um að bera skammbyssu með hljóðdeyfi, en hvorki mannafli né tími geri lögreglu slíkt kleift.“

Þetta er vægast sagt sláandi. Hvað er að í okkar samfélagi ef við getum ekki einu sinni séð til þess, þegar vitað er um mann á ferð með skammbyssu með hljóðdeyfi, að hægt sé að stöðva hann? Það segir okkur að það vantar fleiri lögreglumenn. Ég sá í nýlegri skýrslu að til þess að ná viðunandi fjölda lögreglumanna á Íslandi þyrfti sennilega að bæta við 180 lögreglumönnum hér á landi. Ég kem áfram að því í seinni ræðu minni.



[14:02]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Maður er skotinn fyrir utan heimili sitt, níu skotum. Heyrst hefur að þetta hafi líkst aftöku. Er þetta saga úr einni af milljónaborgum Norður-Ameríku? Nei, þetta gerðist hér í Reykjavík fyrir nokkrum vikum og var einhvers konar uppgjör glæpahópa. Hér er um einstæðan atburð í samfélagi okkar að ræða, í landi sem talið hefur verið eitt það öruggasta að búa í. Þjóðin vaknaði upp við nýjan veruleika. En átti þetta að koma svo mjög á óvart? Nei. Margoft var búið að vara við þessu. Í skýrslu eftir skýrslu hefur greiningardeild ríkislögreglustjóra bent á hættuna og lagt til leiðir til að spyrna við fótum. Skaðlegum afleiðingum þessarar starfsemi er vel og nákvæmlega lýst í skýrslum greiningardeildarinnar. Geta íslensku lögreglunnar er talin veik þegar kemur að þessari ógn. Fram kom í nýrri og fróðlegri þáttaröð, Kompás á Stöð 2, að aukin harka, þaulskipulögð tryggingasvik og tugmilljarða fíkniefnaviðskipti einkenni nú undirheima Íslands.

En eru stjórnvöld að hlusta? Og hvað hefur verið gert í öll þessi ár? Svarið er: Nánast ekkert. Yfirvöld hafa skellt við skollaeyrum, glæpagengjunum hefur einungis vaxið ásmegin allar götur frá því að fyrst var varað við uppgangi þeirra. Það er ekki nægilegt eða fullnægjandi að hæstv. ráðherra segist ætla að fjölga námskeiðum eða efla fræðslu lögreglumanna. Miklu meira þarf að koma til. Hæstv. ráðherra þarf að vera algjörlega afdráttarlaus í lok þessarar umræðu um til hvaða aðgerða hún hyggst grípa. Skýrslur greiningardeildarinnar liggja fyrir. Ábendingar deildarinnar er þar að finna. Rauðagerðismálið blasir við. Færa verður lögreglunni fleiri vopn í hendur, vopn sem duga til að kveða niður þá óáran sem (Forseti hringir.) skipulagðir glæpahópar eru, fyrir fullt og fast. Ráðherra þarf að fullvissa okkur um að þeirri ógn sem skipulagðir glæpahópar eru verði afstýrt með öllum ráðum. Öllum ráðum.



[14:04]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn held ég að við verðum öll að horfast í augu við að skipulögð glæpastarfsemi er vaxandi vandamál hérna og það þarf að grípa til aðgerða til að bregðast við henni. Það liggur hins vegar fyrir, eins og kom m.a. fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra, að mjög mörg skref hafa verið stigin á undanförnum árum til að bregðast við ábendingum um nauðsyn aðgerða til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi. Hér hafa verið nefndar lagabreytingar sem skipt hafa máli í því sambandi og munu skipta máli, og eins hefur auknum fjármunum verið varið til rannsókna á þessu sviði. Þetta eru raunverulegir hlutir, raunverulegar aðgerðir sem skipta máli í þessu sambandi. Ég held að hv. þingmenn verði að skoða þessi mál í samhengi við það sem gert hefur verið á undanförnum árum, í tíð núverandi hæstv. dómsmálaráðherra og forvera hennar, þar sem raunverulega hafa verið tekin afgerandi og ákveðin skref í þá átt að reyna að bregðast við þessum vanda sem við erum sammála um að bregðast þurfi við.

Þetta held ég að sé mikilvægt í þessu. Maður getur sagt sem svo að sumar fullyrðingar sem flogið hafa í umræðunni í dag eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. En við hljótum hins vegar að taka það jákvæða út úr þessari umræðu og segja að það sé þá alla vega fullur vilji í þinginu til að stíga raunveruleg skref til þess að ná árangri í baráttu við skipulagða glæpastarfsemi. Það mun t.d. reyna á það þegar við förum í umræður hér í þinginu, annaðhvort nú á vordögum eða síðar, um það hvernig hægt er að efla rannsóknarheimildir lögreglu, sem er sennilega það mikilvægasta í þessu sambandi. Við höfum stigið mjög (Forseti hringir.) mikilvæg skref í að efla upplýsingaöflun lögreglu og samstarf á því sviði, en við þurfum að stíga frekari skref í þeim efnum og það eru svoleiðis aðgerðir, auk þess að efla hina almennu löggæslu, sem skila árangri í þessu starfi.



[14:07]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með öðrum þingmönnum að full ástæða er til að efla löggæsluna í landinu til að takast á við starfsemi glæpahópa og skipulagða glæpastarfsemi sem kemur fram með ýmsu móti, í ofbeldisverkum af ýmsu tagi, mansali, fíkniefnaviðskiptum og skattsvikum. En þess er skemmst að minnast að ríkisstjórnin lagði niður embætti skattrannsóknarstjóra sem hefur einn sinnt því verkefni hér, fyrir utan blaða- og fréttamenn, að rekja upp aflandsflækjur íslenskra auðmanna. Það er sjálfsagt að efla eftirlit á landamærum með því að hingað komi ekki fagmenn í ofbeldi gagngert til að sinna þeirri vinnu sinni á vegum innlendra aðila. En mér segir svo hugur að þar sé ekki endilega að finna stærstu áskorunina sem blasir við okkur á þessu sviði, heldur sé það hitt að ungt fólk hér á landi, og þá alveg sérstaklega ungir karlmenn, sjái ekki leið afbrota og gengjamennsku sem meira aðlaðandi en hitt að gerast nýtir borgarar. Þar gegnir skólakerfið mikilsverðu hlutverki, bæði til að hjálpa öllum til að þroska hæfileika sína og mennta sig til þess sem hugurinn stendur til, en líka til að ná tökum á grundvallaratriðum þess að vera virkur og góður þátttakandi í samfélaginu. Þar er tungumálið stærri þáttur en við gerum okkur grein fyrir. Samfélag sem útilokar fólk á grundvelli uppruna, tungumáls, útlits eða trúar býður hættunni heim á því að undirheimar myndist þangað sem hægt er að sækja sjálfsvirðingu og viðurkenningu sem manni er neitað um í sjálfu samfélaginu. Hæstv. forseti, þarna tel ég vera stærsta verkefnið í baráttunni gegn glæpum og lögleysu.



[14:09]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Skipulögð glæpastarfsemi er ógn sem steðjar að öllum samfélögum. Og þar sem skipulögð glæpastarfsemi er unnin þvert á landamæri er nauðsynlegt að bregðast við henni með samvinnu ríkja, en auðvitað líka með því að taka á henni innan hvers ríkis fyrir sig, þannig að þarna held ég að hvort tveggja þurfi að koma til.

Mig langar aðeins að fjalla um þann part af skipulagðri glæpastarfsemi sem fjallað er um í nýjustu áhættumatsskýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá því í maí 2019, sem áður hefur verið minnst á í umræðunni og snýr að því að á Íslandi séu vísbendingar um að hér sé stundað mansal og þá einkum vinnumansal innan byggingariðnaðar, veitingarekstrar og ferðaþjónustu, svo og að það sé margt sem bendi til að skipulagt vændi hafi aukist hér á landi. Þessu þarf að taka á og þess vegna er fagnaðarefni að nú er til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem varðar mansal.

Herra forseti. Vegna þess að hv. málshefjandi tengdi þessi mál við hælisleitendur þá verð ég að segja að mér finnst málshefjandi vera þar á kolrangri leið. Það er einmitt samvinna ríkja með góðri móttöku fyrir hælisleitendur sem er lausnin, ekki að hvert og eitt ríki þrengi í sífellu hvernig það tekur á móti fólki í neyð (Forseti hringir.) og gerir það þannig enn útsettara fyrir misneytingu og kúgun. Þess vegna skiptir einmitt máli (Forseti hringir.) að taka vel á móti fólki á flótta og tryggja félagslega stöðu þess.



[14:11]
Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Það er nefnilega svo áhugavert með þá glæpi sem okkur er kennt að vera hrædd við. Ég ólst líka upp í öruggu umhverfi íslensks samfélags eins og fleiri hér inni. Ég ólst upp við það að glæpamenn væru vondu karlarnir, þeir sem væru vondir við börn og gamalt fólk. En þessi orð, skipulögð glæpastarfsemi, eru svo gildishlaðin. Það er ítrekað ýjað að því að um sé að ræða erlend glæpasamtök og jafnvel hryðjuverkasamtök, eða jafnvel sagt beint út. En hvað um þá skipulögðu glæpastarfsemi sem á sér stað fyrir opnum tjöldum; skattaundanskot, skipulögð og stórtæk auðgunarbrot og þjófnað á verðmætum? Það eru brot sem hafa einnig gríðarleg áhrif á samfélagið. Það er starfsemi sem dregur úr lífsgæðum barna og rænir eldra fólk ævisparnaðinum. Það er starfsemin sem tekur auðlindir þjóðarinnar og nýtir þær til eigin hagsmuna og afkomenda sinna og skilar engu af auðlindarentunni til þjóðarinnar. Þetta er skipulögð glæpastarfsemi, framkvæmd af mönnum í jakkafötum og fólki sem við erum alin upp við að við eigum að treysta. Ef við ætlum í alvöru að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi og tryggja öryggi og vernd samfélagsins þá þurfum við kannski að líta okkur aðeins nær. Skipulögð glæpastarfsemi felur ekki bara í sér glæpi framda með byssum úti á götu af fólki af erlendum uppruna. Skipulagðir glæpir eru líka framdir hér á landi af íslenskum mönnum í jakkafötum og það er skipulögð glæpastarfsemi sem þarf að takast á við til að tryggja hagsæld samfélagsins.



[14:13]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þessi umræða er góð og varpar ljósi á margt en kannski ekki endilega nýju ljósi. Við vitum að þetta er vandamál og við þurfum að bregðast við og mér heyrist að fólk, þvert á alla flokka, sé sammála um að við viljum efla löggæslu og bæta umgjörðina enn frekar og til þess að ná árangri þurfum við að vera samstiga. Eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir nefndi gildir samvinnan ekki bara hér innan lands á milli stofnana heldur einnig á milli ríkja.

Hæstv. ráðherra nefndi áðan heimildir varðandi brottvísanir brotafólks á landamærum sem hjálpa vissulega til við að draga úr vexti þessarar glæpastarfsemi. Ég ætla að nefna Schengen í þessu sambandi, vera okkar í Schengen er einnig afar mikilvæg. Þar fer fram mikil samvinna og upplýsingamiðlun. Við höfum t.d. nýlega samþykkt heimildir sem gefa okkur aðgang að mjög öflugu upplýsingakerfi sem mun hjálpa okkur verulega í þessum efnum.

Varðandi rannsóknarheimildirnar þá er ég hlynnt því að þær verði auknar og treysti því að þeir sem stýra þeim stofnunum sem fara með slíkar heimildir geri það að sjálfsögðu vel og örugglega og allir ferlar verði vel tryggðir út frá öryggis- og persónuverndarsjónarmiðum.

Mig langar aðeins að koma að netglæpum en þeir eru orðnir alvarlegt vandamál. Mig langaði að nefna öndvegissetrið í Tallinn sem við eigum aðild að. Þar er mikil gróska og upplýsingar og reynsla í þessum efnum sem við munum nú geta nýtt okkur. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sjái fyrir sér að löggæslan njóti góðs af þátttöku okkar í öndvegissetrinu.



[14:16]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langaði í seinni ræðu að nefna aðeins áhrif skipulagðrar glæpastarfsemi á samfélag. Þrátt fyrir að vera margvísleg eru þau auðvitað öll neikvæð á sinn hátt. Þetta á við um tíðni afbrota, þetta á við um alvarleika brota og þetta á við um neikvæð áhrif á vinnumarkaðinn, viðskiptalífið, t.d. hvað varðar skekkta samkeppnisstöðu. Þetta á síðast en ekki síst við um tekjumissi hins opinbera sem er tjón sem bitnar á almenningi öllum. Ítrekað hefur verið bent á og fjallað um að fjöldi lögreglumanna í landinu hefur ekki haldist í hendur við ný verkefni. Það er áragömul umræða. Lögreglumönnum sem sinna rannsóknum, t.d. í fíkniefnamálum og öðrum birtingarmyndum skipulagðrar brotastarfsemi, hefur meira að segja fækkað á síðastliðnum árum. Staða löggæslumála er með þeim hætti að geta lögreglunnar til að takast á við skipulagða brotastarfsemi er mjög lítil. Þetta eru orð greiningardeildarinnar sjálfrar.

Mig langar líka til að nefna aðeins hverjir það eru sem eru í þessari skipulögðu glæpastarfsemi. Þessir hópar eru jafn fjölbreytilegir og starfsemin sem þeir vinna að, starfsemi sem teygir sig vissulega yfir landamæri. Það er vissulega alþjóðlegt vandamál en ekki sérstakt útlendingavandamál, eins og mér finnst umræðan stundum spegla. Ef við skoðum tölur um gerendur í þessum málum er það hreint ekki svo að Íslendingar séu í minni hluta afbrotamanna hvað þetta varðar, það er hreint ekki þannig. Áhersla hæstv. dómsmálaráðherra núna hefur verið á að setja ný hegningarlagaákvæði. Það er vissulega jákvætt. En á meðan hæstv. ráðherra sýnir ekki stuðning við löggæsluna sjálfa, lögregluna sjálfa, er holur hljómur í slíkri lagasetningu, þ.e. ef lögreglan getur ekki beitt þeim verkfærum sem löggjafinn færir henni. Við þekkjum í því sambandi umræðuna um málsmeðferðartíma, sem er stórt vandamál í efnahagsbrotamálum, t.d. peningaþvætti, og skattsvikin, sem eru umfangsmikill hluti svarta hagkerfisins. Þar myndi ég vilja nefna í lokin að það kemur fram í skýrslu frá 2017 að þau séu 3–7% af landsframleiðslunni, u.þ.b. 10% af heildartekjum hins opinbera. (Forseti hringir.) Ef miðað væri við að undanskot frá árinu 2016 hafi numið 4% af landsframleiðslu myndi þetta samsvara 100 milljörðum kr. Þar með eru ekki öll skattundanskot talin, þar vantar aflandseignirnar inn í.



[14:18]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Lögreglan hefur kallað eftir auknu fjármagni til að sinna betur rannsóknum og aðgerðum gegn skipulagðri glæpastarfsemi, en lítið hefur gerst. Því miður er það svo að gjarnan þurfa slys að verða áður en fjármagn fæst til að fyrirbyggja þau. Við höfum séð margvíslegar birtingarmyndir skipulagðrar glæpastarfsemi að undanförnu, því miður. Ógnin fer vaxandi og því þarf að efla varnir. Við þurfum að veita lögreglu alla þá aðstoð sem hún þarf í baráttunni. Það má ekki gerast að lögreglan þurfi að láta af eftirliti með einstaklingi sem grunaður er um að hafa útvegað sér skammbyssu með hljóðdeyfi, vegna þess að mannafla skortir og fjármagn vantar. Við erum með kerfi, Schengen-kerfi, í útjaðri Evrópu, kerfi sem virðist líka vera byggt upp til að halda glæpamönnum úti, en á sama tíma er frjáls för innan þessa svæðis. Skipulögð glæpastarfsemi viðgengst í Evrópu. Við sjáum mansal, við sjáum börn og fleiri fara þvert yfir alla Evrópu án þess nokkurn tímann að vera stöðvuð. Við þurfum að breyta kerfinu. Ég tel að við þurfum að taka aftur upp landamæraeftirlit og nota jafnvel Schengen-kerfið til þess að stöðva glæpastarfsemi.

Á sama tíma og þetta er í gangi er lögreglan á Íslandi svelt. Ég tók eftir því nú um daginn að í heilt ár hef ég ekki orðið var við einn einasta lögreglubíl við radarmælingar, ekki einn einasta. Ég hef aldrei keyrt í heilt ár fram og til baka, sömu vegalengdir í og úr vinnu, án þess að verða var við eina einustu radarmælingu. Það segir okkur að lögreglan er fjársvelt, hún er of fámenn. Það er greinilegt að á meðan lögreglan getur ekki sinnt sínum einföldu skyldum þá getur hún heldur ekki sinnt því að taka mann sem gengur um með byssu með hljóðdeyfi og er tilbúinn til að fremja glæp með henni.



[14:21]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Meðal þess sem hæstv. ráðherra hefur nefnt, hvað varðar viðbrögð við þessu ástandi, er sú staða sem leiddi af færri ferðamönnum, að það hafi nýst lögreglunni, einnig tekjur sem lögreglan fékk af lausn svokallaðs „silk road“-máls frá útlöndum, nýlegar alþjóðlegar reglur um varnir gegn peningaþvætti, og svo það sem ég rakti áðan um samskipti, samstarf, samráð og samræmingu, sem eru auðvitað mjög jákvæðir hlutir, sérstaklega ef skortur hefur verið á þeim. En þetta hljómar samt eins og kerfisviðbrögð við vandanum fremur en lausnir sem byggjast á hinu raunverulega eðli vandans. Samráð og samstarf þarf auðvitað að vera hluti af því en hvað með að bregðast við öllum hinum ábendingunum úr þessum góðu skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra? Hvað með tækjabúnaðinn? Hvað með sérhæfðan mannafla? Hvað með fjármagn? Hvað með heimildir? Hvað með sérþekkingu og tæknibúnað? Hvað með að bregðast við misnotkun hælisleitendakerfisins? Því að í þessum skýrslum er því lýst mjög ítarlega hvernig sú misnotkun fer fram og væri fróðlegt að ræða þau mál, í ljósi þess hversu stór þáttur það er í þessum greiningum. Og hvað með regluverkið? Hvað með heimildir til að senda glæpamenn úr landi, erlenda glæpamenn? Við þessu þarf að bregðast. Það dugar ekki að bregðast við því ástandi sem nú ríkir, og fer versnandi, eingöngu með samráðshópum. Það þarf raunverulegar aðgerðir til að grípa þarna inn í og alls ekki að ráðast í aðgerðir sem auðvelda glæpagengjum starfsemina, aðgerðir á borð við lögleiðingu fíkniefna eða að búa til hælisleitendakerfi sem auðveldar misnotkun þess.



[14:23]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum fyrir þessa umræðu. Hún er mikilvæg. Það hefur einfaldlega verið mjög skýr forgangsröðun hjá mér og ráðuneytinu og lögreglunni í þessum málaflokki og í þessum aðgerðum. Það er auðvitað sérstakt að málshefjandi og hv. þingmaður agnúist út í forgangsröðun fjármuna innan lögreglunnar. Við höfum aukið fjármuni lögreglunnar á nokkrum árum úr 14 í 17 milljarða. Það eru ekki aðeins þeir fjármunir sem fengnir eru úr verkefnum lögreglunnar heldur vegna þess að það er skýr forgangsröðun í bætta löggæslu á öllum sviðum. Því erum við að halda áfram með því að tryggja mannafla til að reyna að tryggja öryggi borgaranna með sem bestum hætti og hafa skýra forgangsröðun í að taka á þeirri skipulögðu brotastarfsemi sem lýst er í skýrslu frá greiningardeild sem ríkislögreglustjóri leiðir. Það er ríkislögreglustjóri sjálfur sem leiðir þessa vinnu. Þar hafa komið fram skýrar ábendingar til mín og m.a. gerðar tillögur í samræmi við 89. gr. sakamálalaga um að breyta reglugerð um rannsókn sakamála með þeim hætti að víkka gildissvið og skilyrði þannig að unnt verði að beita aðferðum á fyrri stigum rannsókna sem getur verið afar mikilvægt í rannsóknum er varða skipulagða brotastarfsemi. Það er verið að setja þessa reglugerð í þágu afbrotavarna sem mun m.a. lúta sérstaklega að heimildum og getu lögreglu til að hafa eftirlit með og afla upplýsinga í því skyni að koma í veg fyrir skipulagða brotastarfsemi, af því að hv. þingmenn spurðu líka hvað væri verið að gera, ekki bara hvað væri búið að gera. Það má líka nefna allan þann fjölda frumvarpa sem hér hafa verið samþykkt á þinginu, hvort sem það er um aðgerðir gegn peningaþvætti, lög um persónuupplýsingar í löggæslutilgangi, mansalsákvæði, breytingar á lögregluákvæðum, breytingar á lögum um framsal sakamanna og þannig mætti áfram telja.

Hér er mikið kapp lagt á að bæta stöðu lögreglunnar og gera okkur kleift að takast á við vandann, en það verður viðvarandi verkefni og við megum ekki hætta. Við þurfum að halda áfram og átta okkur á því að (Forseti hringir.) það er mikið verk fram undan til að lögreglan hafi áfram þá burði, það fjármagn og þann búnað sem þarf til að sinna þessu. (Forseti hringir.) En það hefur verið raunveruleg forgangsröðun í þessi mál.