151. löggjafarþing — 112. fundur
 11. júní 2021.
sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga , 2. umræða.
stjfrv., 378. mál (lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags). — Þskj. 470, nál. 1622 og 1639, breytingartillaga 1623.

[22:58]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga, lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags. Þetta er nefndarálit frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og það liggur fyrir á þskj. 1622 og er mál nr. 378. Nefndinni bárust allmargar umsagnir, samtals yfir 30 talsins, um málið og fékk til sín gesti sem fjölluðu um málið. Auk þess hefur nefndin fjallað töluvert um sveitarstjórnarmál á þessu kjörtímabili og nýtti m.a. þá umfjöllun við vinnu við þetta mál.

En um frumvarpið sjálft: Með frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði reglur sem mæla fyrir um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum, aðlögun sveitarfélaga að slíku markmiði og reglur um málsmeðferð. Eins og frumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir málsmeðferð sem á við þegar ráðherra sveitarstjórnarmála á frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga. Þá hefur frumvarpið að geyma ákvæði sem tengjast sameiningu sveitarfélaga, svo sem um heimildir sveitarfélaga til að nýta fjarfundarbúnað við fundahöld. Lagt er til að sveitarfélög þurfi að móta stefnu um þjónustustig byggða sem eru fjarri stærri byggðarkjörnum auk þess sem lagðar eru til ýmsar aðrar breytingar í þeim tilgangi að draga úr lagahindrunum við sameiningu sveitarfélaga. Frumvarpið er liður í því að framfylgja ályktun Alþingis nr. 21/150 um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033, einkum 1. tölulið aðgerðaáætlunarinnar þar sem segir að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga skuli vera 250 frá sveitarstjórnarkosningum 2022 og 1.000 frá sveitarstjórnarkosningum 2026.

Þá ætla ég að fara aðeins yfir vinnu nefndarinnar en niðurstaðan úr þeirri vinnu er að að mati meiri hlutans er ágæt sátt um það meginmarkmið frumvarpsins að auka sjálfbærni sveitarfélaga og efla sveitarstjórnarstigið í heild. Hins vegar hefur þónokkur hluti sveitarfélaga lýst mikilli andstöðu við þau ákvæði frumvarpsins sem kveða á um að ráðherra hafi frumkvæði að sameiningum sveitarfélaga í þeim tilvikum þar sem sveitarfélag nær ekki lágmarksstærð. Starfshópur minni sveitarfélaga sendi nefndinni tillögu að breytingu á 1. gr. frumvarpsins og vísuðu mörg, og raunar meiri hluti, sveitarfélaganna til hennar í sinni umsögn.

Eftir að frumvarpið var lagt fram á Alþingi 30. nóvember 2020 var landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga haldið hinn 18. desember sama ár og kom þar í ljós að stuðningur við þann þátt þingsályktunarinnar sem lýtur að lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga var minni en verið hafði á landsþingi sambandsins í september 2019. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vísaði til þessa í ræðu sinni við 1. umr. um málið og tók þar fram að hann væri opinn fyrir umræðu um málamiðlanir ef það gæti verið til þess fallið að tryggja breiðari samstöðu um málið.

Meiri hlutinn telur afar mikilvægt að unnið verði að þessu máli með áherslu á breiða samstöðu um þær leiðir sem fara skuli til að efla sveitarstjórnarstigið. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að mikilvæg forsenda fyrir kerfisbreytingu af þeim toga sem boðuð er í frumvarpinu er almenn sátt og samstaða. Í ljósi þessa vann nefndin drög að breytingartillögum við frumvarpið í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og sendi þær til allra sveitarfélaga þannig að þeim gæfist tækifæri til að koma að athugasemdum áður en nefndin lyki umfjöllun um málið. Bárust nefndinni fjórar viðbótarumsagnir þar sem almennt var tekið vel í tillögurnar en bent á nokkur atriði sem nefndin var hvött til að skoða betur. Þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til og útskýrðar eru nánar í nefndarálitinu byggjast á framangreindum tillögum. Yfir þær fer ég á eftir en fyrst ætla ég að koma aðeins inn á það sem gert er í nefndarálitinu.

Það komu allmargar umsagnir inn á mikilvægi fjárhagslegs stuðnings við sameiningu sveitarfélaga. Meiri hlutinn tekur undir það og leggur áherslu á að ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga vinni sameiginlega að því að tryggja fjármögnun sameiningar sveitarfélaga. Meiri hlutinn vísar einnig til 2. töluliðar aðgerðaáætlunar í ályktun Alþingis nr. 21/150 um að stuðningur við sameiningu sveitarfélaga verði stóraukinn.

Þá að breytingartillögunum: Eins og áður segir hafa miklar athugasemdir verið gerðar við 1. og 5. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn valdi þá leið að leita leiða til samstöðu um þær breytingar og leggur til að þau ákvæði falli brott en þeirra í stað komi nýtt ákvæði sem verði 1. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur til að í stað þess að kveða á um að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags skuli vera 1.000 íbúar verði í 1. mgr. 1. gr. kveðið á um þá almennu stefnumörkun að stefna skuli að því að lágmarksstærð sveitarfélags verði 1.000 íbúar. Þannig verði stuðlað að aukinni sjálfbærni sveitarfélaga og geta þeirra til að annast lögbundin verkefni tryggð. Meiri hlutinn bendir á að sú stefnumörkun er í samræmi við þau grundvallarviðmið sem fjallað er um í áætluninni um málefni sveitarfélaga.

Síðan er farið hér yfir skyldu sveitarfélaga sem ná ekki lágmarksstærð. Eins og fram hefur komið leggur meiri hlutinn til þá breytingu að fallið verði frá því að ráðherra hafi frumkvæði að því að sameina sveitarfélag, sem ekki nær lágmarksstærð, öðru eða öðrum nágrannasveitarfélögum. Í stað þess er lagt til í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins að kveðið verði á um að sveitarstjórn sveitarfélags sem ekki nær lágmarksstærð beri að leitast við að ná markmiðum um aukna sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þess til að annast lögbundin verkefni. Til þess hafi sveitarstjórnin í rauninni tvær leiðir, annaðhvort að hefja formlegar sameiningarviðræður á grundvelli 119. gr. sveitarstjórnarlaga eða láta vinna álit um stöðu sveitarfélagsins og sameiningarkosti þess.

Álitið skuli sent ráðuneytinu til umsagnar og síðan kynnt íbúum sveitarfélagsins ásamt umsögn ráðuneytisins. Eftir að álitsgerðin liggur fyrir beri sveitarstjórn að taka formlega afstöðu til þess hvort rétt sé að hefja sameiningarviðræður og hafa um sameininguna tvær umræður samkvæmt 18. gr. sveitarstjórnarlaga. Ákveði sveitarstjórn að hefja ekki sameiningarviðræður geti 10% þeirra íbúa sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi farið fram á almenna og bindandi atkvæðagreiðslu um ákvörðunina.

Skylda samkvæmt ákvæðinu virkjast við hverjar sveitarstjórnarkosningar og ber því sveitarstjórn sveitarfélags sem hefur færri en 1.000 íbúa við kosningar að hefja sameiningarviðræður eða láta vinna álitsgerð eftir kosningar óháð því hvort fyrir liggi eldri álitsgerð af sama meiði eða hvort slíkar viðræður hafi áður farið fram.

Hér er fjallað nánar um álitsgerðina og hvað þarf að koma fram í henni og hvernig ákvarðanir eru teknar og hvernig hún er yfirfarin. Ég ætla ekkert að fara nánar í það. Eins er hér kafli í nefndarálitinu um atkvæðagreiðsluna sem mér finnst ekki ástæða til að fara nánar yfir því að aðalatriðin komu fram í þeim kafla sem ég var að fara yfir.

Þá er hér komið inn á aðlögun að markmiði um íbúafjölda. Meiri hlutinn telur rétt að skylda til að hefja samningaviðræður eða vinna álit um stöðu sveitarfélags komi til framkvæmda í skrefum, eins og var raunar gert ráð fyrir í áðurnefndri stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaganna, þannig að skyldan virkist gagnvart sveitarfélögum með færri en 250 íbúa við næstu sveitarstjórnarkosningar á árinu 2022 en komi að fullu til framkvæmda árið 2026. Meiri hlutinn leggur til að við bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis.

Síðan er hér aðeins komið inn á næstu endurskoðun stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga. Þar leggur meiri hlutinn til að við bætist nýtt ákvæði þess efnis að við gerð næstu stefnumótandi áætlunar skuli ráðherra hafa til hliðsjónar greiningu á mismunandi leiðum sem séu til þess fallnar að ná markmiðum um að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi. Með öðrum orðum má segja að það sé verið að leggja til að það verði ígrundað hvort þessi leið sem hér er verið að fara sé heppilegust eða hvort það þurfi að bæta í eða breyta einhverju í þeim efnum.

Þá er hér loks breyting varðandi fjarfundi því að þótt það sé stutt síðan það kom ákvæði í sveitarstjórnarlög um fjarfundi hefur orðið mikil breyting á síðasta ári og ástæða til að uppfæra orðalag án þess að því felist efnislegar breytingar. Helsta breytingin felst í því að það er horfið frá því að nota hugtakið „fjarfundabúnaður“ og frekar talað um þátttöku í fundum með rafrænum hætti.

Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, sem er þskj. 1623, og ég hef gert grein fyrir þeim breytingum hér.

Undir nefndarálitið rita sú sem hér stendur, Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, sem skrifar undir með fyrirvara, Jón Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Vilhjálmur Árnason skrifar undir með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis þar sem hann var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þá skrifar Hanna Katrín Friðriksson undir álitið með fyrirvara sem hún hyggst gera grein fyrir í ræðu.

Þá hefur verið gerð grein fyrir álitinu. Ég vil þakka nefndarmönnum í umhverfis- og samgöngunefnd fyrir samstarfið við vinnslu þessa máls því að þetta er í sjálfu sér ekki einfalt mál sem var búinn að vera mikill ágreiningur um. En ég held að okkur hafi tekist að finna nokkuð farsæla lendingu vitandi það að málefni sveitarfélaga verða stöðugt til endurskoðunar í tengslum við áætlunargerð og stefnumörkun sem nú er orðin regluleg eftir að við samþykktum hér fyrstu stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrr á þessu kjörtímabili.



[23:12]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar í þessu máli. Ég vil fyrst af öllu segja að Miðflokkurinn hefur barist gegn þessu máli, bæði á síðasta þingi og núna í vetur, þeirri vegferð sem hæstv. ráðherra hefur leitt gegn hluta sveitarfélaga landsins. Niðurstaðan er hér í formi breytingartillögu meiri hlutans sem hv. framsögumaður meiri hluta hefur greint okkur frá hér í ræðu sinni. Niðurstaðan er ásættanleg og við fögnum því auðvitað fyrst og fremst. Fyrst og fremst fögnum við því í 1. minni hluta að horfið sé frá lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaganna. Það er stórsigur, herra forseti.

Aðferðin sem meiri hluti nefndarinnar ákveður að fara, og er, held ég, gerð í ágætri sátt, er sú sem lýst er í breytingartillögunni sem er mjög flókin, herra forseti, og íþyngjandi. Gert er ráð fyrir því að eftir kosningar, ef sveitarfélag er undir þessu 1.000 íbúa marki, sem ansi mörg sveitarfélög eru, eigi að taka við ákveðið ferli. Það ferli er flókið og íþyngjandi og innan árs á sveitarfélagið að hefja formlegar sameiningarviðræður eða láta vinna álit. Vinnan við þetta álit er ekki einföld vegna þess að þar eru ótal skilyrði og einnig er sett í lögin að ráðherra eigi að koma með leiðbeiningar um þau atriði sem þar eiga að koma fram. Þar er auðvitað hægt að hafa kröfurnar mjög ítarlegar og íþyngjandi fyrir lítil sveitarfélög. Sum sveitarfélög eru mjög lítil, það er alveg rétt, og hafa kannski ekki mikið afl til að vera í skrifstofuvinnu fyrir ráðuneytið til að uppfylla þetta. Ég mæli fyrir því að þetta verði ekki svo gífurlega íþyngjandi að heilt stöðugildi verði kannski bara fyrir þetta. Álitið á að innihalda ýmis atriði. Þar á að meta getu sveitarfélagsins til að sinna lögbundnum verkefnum o.s.frv. og tækifærin sem felast í mögulegum kostum sameiningar. Það er ekkert minnst á kostina við að sameinast ekki, heldur einungis tækifæri sem felast í því að sameinast. En það geta líka verið kostir á hinn veginn o.s.frv.

Síðan á að senda ráðuneytinu það þegar þessi vinna er búin og ráðuneytið á að gefa umsögn, þar er nú einhver vinna. Síðan á að kynna íbúum þetta með einhverjum ákveðnum fullnægjandi hætti, eins og það er orðað í greininni, hvernig sem það verður, það er kannski í reglugerð ráðherra hvernig það verður kynnt. Ef sveitarstjórn ákveður ekki í framhaldi af því að hefja samningaviðræður geta 10% kosningarbærra íbúa óskað eftir atkvæðagreiðslu. Þá fer hún fram innan sex mánaða og ef hún er á þann veg að fara eigi í viðræður þá er niðurstaðan bindandi. Þetta er mjög íþyngjandi ferli fyrir mjög lítil sveitarfélög. Ég bendi á það, herra forseti, að lagðar eru óheyrilegar kröfur á þessi sveitarfélög um málsmeðferð, mikla skýrslugerð, formlegar kröfur um ferlið, sendingar og samráð á margvíslegan hátt. Ég bendi á að þarna eru lagðar miklar kröfur á þessi litlu sveitarfélög við að greina sinn rekstur, greina kosti og galla o.s.frv. Þetta eru ekki kröfur, herra forseti, sem gerðar eru á stærri sveitarfélögin og þó er þar oft víða pottur brotinn eins og dæmin sanna. Þau eiga ekki að fara í þetta ferli en gott og vel, minni sveitarfélögin hafa fallist á að fara þessa leið, skilst mér, og er það vel. En ég er bara að benda á þessa staðreynd.

Þessi fyrirhyggjulausa vegferð hæstv. ráðherra hófst fyrir margt löngu og byggðist á, herra forseti, einhverri ályktun eða samþykkt á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, þar sem fulltrúafjöldinn fer auðvitað eftir stærð sveitarfélaganna. Í krafti fjöldans gátu stærri sveitarfélögin samþykkt ályktun um að það ætti að sameina og engin sveitarfélög ættu að vera með færri íbúa en 1.000 eða eitthvað slíkt. Í krafti fjöldans átti að þvinga þessi minni sveitarfélög, félaga þeirra á landsþinginu, til að sameinast, gegn þeirra vilja, kannski gegn þörfum þeirra og nauðsyn. Þetta er ankannalegt og það var strax í upphafi, þess vegna nota ég orðið fyrirhyggjulaust, mjög augljóst að það var mjög ósanngjarnt að byggja á því að í krafti fjöldans yrði samþykkt einhvers konar svona ályktun sem ráðherra hlypi á eftir. Þarna birtist fyrirhyggjuleysið, herra forseti. Undanhald hæstv. sveitarstjórnarráðherra í málinu hefur verið viðstöðulítið frá upphafi, frá framlagningu þessa máls á síðasta þingi. Loks með þessari breytingu, sem ég fagna, þegar búið er að reka hæstv. ráðherra út í horn í málinu, eru vopnin lögð niður og niðurstaðan er þessi. Ég vara bara við því að gera of miklar kröfur í þessum málum þegar um þetta er að ræða. Sjálfsákvörðunarrétt minni sveitarfélaga þarf að virða. Þetta er annað af tveimur stjórnsýslustigum í landinu og við verðum að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna.

Ég ætla ekki að fara yfir þessa sögu meira en ég hef þegar gert en 1. minni hluti bendir á að burðir sveitarfélaga til þjónustu eru ekki bundnir við fjölda íbúa. Ef litið er til þeirrar lögbundnu þjónustu sem stendur íbúum hvað næst, t.d. leikskólaþjónustu, má sjá að leikskólavist hefur staðið börnum til boða frá 12 mánaða aldri í fjölmörgum af minni sveitarfélögum landsins. Stærri sveitarfélög á sama svæði hafa alla jafna ekki náð sama þjónustustigi hvað þá þjónustu varðar. Þá eru mörg dæmi þess að minni sveitarfélög sinni félagsþjónustu aldraðra betur en stærri sveitarfélög. Hvert er vandamálið? Lögþvingun? Að mati 1. minni hluta eiga því fullyrðingar um að stækka þurfi sveitarfélög svo að íbúarnir fái viðunandi þjónustu alls ekki við og alls ekki í öllum tilvikum, langt í frá. Því miður má finna einstaka brotalamir í þjónustu sveitarfélaga. Það má finna þær en þær brotalamir eru ekki bundnar eingöngu við smærri sveitarfélög, langt í frá, og það vitum við fullvel, hv. þingheimur.

Fyrsti minni hluti bendir einnig á að almennt er fjárhagsleg staða stærri sveitarfélaga verri en hinna minni þegar miðað er við mælikvarða sveitarstjórnarlaga, þ.e. jafnvægisreglu og skuldareglu sem kveðið er á um í lögunum. Staða sveitarfélaga samkvæmt þeim viðmiðum segir nokkuð um sjálfbærni viðkomandi sveitarfélags. 1. minni hluti telur því að sjálfbærni sveitarfélags verði ekki bundin við stærð þess og nægir í því efni að bera saman fjárhagsstöðu ýmissa sveitarfélaga og t.d. Reykjavíkurborgar.

Í breytingartillögu meiri hlutans er gert ráð fyrir því að ef íbúafjöldi sveitarfélags er undir 1.000 við almennar sveitarstjórnarkosningar skuli sveitarstjórn þess innan árs frá þeim kosningum leitast við að ná markmiðum laganna með aukinni sjálfbærni og tryggja getu sveitarfélags til að annast lögbundin verkefni. Ég hef farið yfir þetta og ætla kannski ekki að lesa þetta álit mikið lengra en vil bara ítreka að þessi fyrirhyggjulausa vegferð hæstv. ráðherra endar loks með þeirri niðurstöðu sem hér er, sem ég fagna mjög, að fallið sé frá lögþvingaðri sameiningu minni sveitarfélaga. Þessari aðför að sveitarstjórnarstiginu er að ljúka. Henni hefur verið hrundið, herra forseti. Það er okkar krafa að minni sveitarfélög hafi sjálfdæmi um sín sameiningarmál og ríkisvaldið hvetji þau og bjóði í þeim tilgangi fjárhagslega aðstoð til sameiningar, það er sjálfsagt. Það er sjálfsagt að hvetja og ýta undir það en þau eiga að hafa sjálfdæmi um sín sameiningarmál. Ég vil ítreka það, herra forseti, hér í lokin að andstaða Miðflokksins í þessu máli hefur orðið til þess að þessi niðurstaða sem ég fagna er að raungerast hér í þingsal.



[23:23]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga, með öðrum orðum lágmarksíbúafjölda sveitarfélaganna. Með þessu frumvarpi, sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur haft til meðferðar í töluverðan tíma, er lagt til að lögfestar verði reglur sem mæla fyrir um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum, og er það töluverð breyting frá því sem áður var ætlað, þar sem átti að lögbinda lágmarksfjölda sveitarfélaga.

Framsögumaður málsins, hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, fór hér ítarlega yfir vinnu nefndarinnar og þau skref sem tekin voru í þeirri vinnu í átt að breytingartillögum sem lúta að því að horfið er frá þessari lögþvingun og þess í stað lagt til að kveðið verði á um að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga skuli vera 1.000 íbúar. Síðan er farið býsna nákvæmlega yfir það hvernig verður með reglugerð, með skýrum reglum, reynt að tryggja getu sveitarfélaga til að sinna lögbundnum verkefnum þó svo að þau samþykki ekki sameiningu.

Það er fagnaðarefni að það skuli hafa náðst þessi samstaða og komið var til móts við þær tillögur sem starfshópur minni sveitarfélaga sendi nefndinni, þ.e. breytingu á 1. gr. frumvarpsins, sem laut upphaflega að því að lögþvinga lágmarksíbúafjölda sveitarfélag, en það er mjög jákvætt að horfið verði frá því.

Ég skrifa undir þetta meirihlutaálit með fyrirvara. Annar þeirra lýtur að því að mér finnst útfærslan á skyldum sveitarfélaga sem ekki ná lágmarksstærð býsna flókin í framkvæmd. Það hefur svo sem verið farið yfir það hér, þ.e. sveitarstjórn eða sveitarfélagi sem ekki nær lágmarksstærð ber að leitast við að ná markmiðum um aukna sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu sína til að annast lögbundin verkefni. Til að ná þeim markmiðum getur sveitarstjórn gert annaðhvort; hafið formlegar sameiningarviðræður eða látið vinna álit um stöðu sveitarfélagsins og sameiningarkosti þess. Síðan er það þessi vegferð sem farið var í með álitið, þ.e. að senda þarf ráðuneyti það til umsagnar, kynna það íbúum sveitarfélagsins, taka síðan formlega afstöðu í sveitarstjórn til þess hvort rétt sé að hefja samningaviðræður, hafa um það tvær umræður. Ef sveitarstjórn ákveður að hafa ekki samningaviðræðurnar geta 10% íbúa sem kosningarrétt hafa í sveitarfélaginu farið fram á almenna bindandi atkvæðagreiðslu. Þetta er sem sagt skylda samkvæmt ákvæðinu sem virkjast við hverjar sveitarstjórnarkosningar.

Nú er það ekki þannig að ég hafi sérstakar áhyggjur af því að þetta sé of flókið í framkvæmd þannig séð. En ég hef ákveðnar áhyggjur af eftirfylgninni. Við erum enn að tala um mjög mikinn fjölda sveitarfélaga og það getur orðið býsna umfangsmikið fyrir ráðuneytið að fylgjast með þessu. Ég vildi bara leggja áherslu á að það þarf að tryggja að þessu verði fylgt eftir og það verði endurskoðað hvort framkvæmdin á þessu virki. Af því að þó svo að horfið hafi verið frá þessari lögþvingun, sem betur fer — og aftur er það jákvætt að þarna var tekið tillit til þeirra niðurstaðna sem starfshópur minni sveitarfélaga komst að og þessi breyting, þetta meirihlutaálit er lagt fram í sátt þar að lútandi og er eins og best verður á kosið — þá breytir það ekki þeirri stóru mynd að hún er sú framtíðarsýn sem lagt er af stað með hér. Ég er fyllilega sammála því að við þurfum að fækka sveitarfélögum og efla þannig þau sveitarfélög sem eru til staðar og þar með sveitarstjórnarstigið í heild. Það er a.m.k. mín sýn og hún endurspeglast í þessu áliti meiri hlutans. Fyrirvari minn lýtur sem sagt að því að ég hef ákveðnar áhyggjur af því að við höfum gert þetta svo flókið að eftirfylgnin, og yfirsýnin þar af leiðandi, verði of erfið. Það er þá okkar að fylgja því eftir.

Síðan var ég líka með fyrirvara um annað sem er í stóru myndinni í þessu máli en er töluvert umfangsminna. Það er það ákvæði sem er að finna í 2. gr. frumvarpsins, um notkun fjarfundabúnaðar á fundum sveitarfélaga. Meiri hlutinn leggur þar vissulega til jákvæða breytingu þannig að mælt sé fyrir um heimild sveitarstjórnarmanna til að taka þátt með rafrænum hætti í fundum sveitarstjórnar og nefnda og ráða á vegum sveitarfélagsins. En það er sem sagt gengið út frá því í frumvarpinu að þetta leyfi til fjarfunda sé þess eðlis að almenna reglan sé sú að sveitarstjórnarmenn séu innan viðkomandi sveitarfélags ef þeir eiga að fá leyfi til að taka þátt í fundum í gegnum fjarfundabúnað eða með rafrænum hætti eða vera staddir á vegum sveitarfélagsins utan þess.

Þetta þykir mér óþarfa forsjárhyggja, verð ég að segja. Fram hefur komið í umfjöllun nefndarinnar að þarna vegast á sjónarmið um að nýta tæknina til hins ýtrasta og hins vegar þau að sveitarstjórnarfulltrúar fái frí í fríi, og síðan mögulega aðkoma varamanna og annarra að vinnunni. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti þessum sjónarmiðum, sannarlega ekki. En ég hefði talið að lausnin væri sú að sleppa því að njörva þetta svona niður í lögin sjálf, að negla þessa forsjárhyggju niður þar, og skilja það síðan eftir hjá einstökum sveitarfélögum að setja sér vinnureglur. Mér finnst allt að því skondið í þessari umræðu hér, þar sem gengið hefur verið býsna langt í að breyta frumvarpi þrátt fyrir að a.m.k. meiri hlutinn sé sammála um endamarkmiðið, að sveitarfélög sameinist þar sem kostur er — farin er sú leið að hætta við lögþvingunina og láta það í hendur þeirra, allt byggt á eðlilegum sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga — að við skulum síðan negla niður í lög hvernig hvert einasta sveitarfélag eigi að haga sínum fjarfundum. Það er eitthvað sérkennilegt við þessa nálgun að mínu mati. Það er hinn fyrirvarinn sem ég set við þetta mál, en hvorugur er það stór að ég hafni því að vera með á álitinu. Ég er sannarlega þar, en ég vildi koma báðum þessum fyrirvörum á framfæri.

Svo langar mig aðeins í lokin að fagna því að tvö stór mál sem verið hafa á dagskrá þingsins, með ólíkum hætti þó, töluvert stór mál, annars vegar er það sem fjallar um sameiningu sveitarfélaga og anginn sem við erum að fjalla um núna, og hins vegar er það frumvarp um hálendisþjóðgarð, hafa kallað á miklar umræður um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, sjálfstæði sveitarfélaga, vissulega hvort með sínum hætti og örlög þessara tveggja mála eru ólík. En það breytir því ekki að í báðum þessum málum, í vinnu umhverfis- og samgöngunefndar og í umræðum hér í þingsal, hefur kristallast mjög skýr vilji þingsins til að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga hvar sem er á landinu, m.a. í skipulagsmálum, þannig að ég tel að við höfum slegið ákveðinn tón þar og menn þurfi ekki að velkjast í nokkrum vafa um það lengur hver skýr vilji góðs meiri hluta þingsins er í þeim málum. Ég segi þetta vegna þess að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa komið upp ýmis mál, stór og smá, þar sem ástæða hefur verið til að hafa ákveðnar áhyggjur af því á hvaða vegferð ríkisvaldið eða löggjafinn er þegar kemur að þessum sjálfsákvörðunarrétti. Ég tel að þeim vafa hafi hreinlega verið eytt hér og nú og því hljóta menn að fagna, hvar sem þeir eru.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, herra forseti, og lýk hér máli mínu.



[23:34]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Þetta er ein umfangsmesta breytingartillaga sem við höfum séð á frumvarpi þar sem aðferðafræðinni sem er beitt þegar sveitarfélög uppfylla ekki lágmarksíbúafjölda var kollvarpað frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu. En ég held að þessi aðferð sé til bóta. Ég tek undir með þeim sem hafa lýst ánægju með þá vinnu sem framsögumaður málsins vann í samráði við bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og samband smærri sveitarfélaga, eða hvað það kallar sig aftur, og kannski ágætt að við höfum líka í huga að þessar tölur eru náttúrlega mjög ófullkominn mælikvarði. Íbúafjöldi segir ekki endilega alla söguna varðandi getu sveitarfélags til að sinna þeim verkefnum sem íbúarnir ætlast til að sinnt sé eða getu til að tryggja réttindi íbúa sveitarfélagsins. Hér er línan dregin við 1.000 íbúa sem er bara ákvörðun sem er tekin og gæti allt eins verið 100 eða 2.000 eða 5.000, allt eftir aðstæðum í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Það sem er kannski skemmtilegast við þessa lendingu sem birtist í breytingartillögunni, fyrir utan náttúrlega að þetta er töluvert mýkri aðferð gagnvart sveitarfélögunum heldur en sú harða lögþvingun sem var í fyrri útgáfu af frumvarpinu, er að hér er þess krafist að ef sveitarfélög vilja víkja frá meginsjónarmiði laganna um að sveitarfélag sé af ákveðinni stærð til að geta tryggt getu þeirra til að annast lögbundin verkefni þurfi hún að undirbyggja þá afstöðu sína með faglegum og góðum rökum með því að láta vinna álit þar sem er fjallað um fjárhagslega og félagslega þætti og ýmislegt annað. Þegar sveitarstjórn hefur síðan tekið þetta álit til umræðu og ef hún ákveður í framhaldinu að ganga ekki til sameiningarviðræðna við nágrannasveitarfélög þá er möguleiki fyrir íbúa að krefjast íbúakosningar um þá ákvörðun. Það sem er gert í þessari breytingartillögu er að þröskuldurinn sem íbúar þurfa að komast yfir til að fá þá kosningu fram er nokkuð lágur. Það þarf ekki nema 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélaginu til að knýja slíka atkvæðagreiðslu fram.

Þetta, herra forseti, endurspeglar að mínu mati aftur það sjónarmið að þegar sveitarfélag rökstyður sig frá meginmarkmiði laganna þá þurfi ansi sterk rök hjá sveitarstjórninni til að taka þá ákvörðun. Á móti verði almenningur í sveitarfélaginu, íbúarnir sem þessi ákvörðun snertir, að eiga nokkuð auðvelt með að geta hnekkt þeirri ákvörðun ef þeir eru henni ósammála. Þannig að tekið saman þá held ég að þessi vinna í umhverfis- og samgöngunefnd hafi skilað talsvert betra frumvarpi en til nefndarinnar kom og ég þakka aftur hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir þá vinnu sem hún lagði í þetta.



[23:39]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. framsögumanni umhverfis- og samgöngunefndar, Líneik Önnu Sævarsdóttur, fyrir að flytja okkur þetta og gera ágæta grein fyrir nefndaráliti. Þetta nefndarálit og þetta frumvarp kemur fram í framhaldi af þingsályktun um sama efni, um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023, sem ráðherra mælti fyrir á síðasta þingi, þingsályktun nr. 21. Þetta frumvarp er væntanlega hugsað sem skref til að framfylgja þeim markmiðum sem þingsályktunin felur í sér. Um meginefni frumvarpsins er enginn ágreiningur og reyndar tel ég að um efnið sé góð samstaða í umhverfis- og samgöngunefnd, það að tryggja getu sveitarfélaga til að veita lögbundna og góða, áreiðanlega þjónustu í þágu íbúanna.

Hins vegar er efi í okkar huga í þingflokki Samfylkingarinnar um það undanhald sem ráðherra hefur lagst í, bæði það sem snýr að ályktun Alþingis um þetta efni, þar sem segir svart á hvítu um markmið og áherslur að ekkert sveitarfélag skuli hafa færri íbúa en 1.000 innan tiltekins tímabils, og að í þessu frumvarpi sé líka slakað á þessum markmiðum og enn gefið eftir þrátt fyrir að landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi áréttað og samþykkt bæði upphaflegt markmið þingsályktunartillögunnar og frumvarpsins í sinni fyrri mynd. Við hefðum kosið að ráðherra sýndi meiri staðfestu og einurð í því að hreyfa við sveitarstjórnarstiginu til eflingar og stækkunar. Ekki er sýnt að af þeim markmiðum verði með öflugum hætti á allra næstu árum en þó eru í deiglunni líklega tvennar sameiningar á landsvæðum.

Herra forseti. Fjöldi sveitarfélaga á Íslandi hefur verið breytilegur og tekið umtalsverðum stakkaskiptum í sögulegu samhengi. Árið 1910 voru 203 sveitarfélög í landinu en urðu flest á árunum 1948–1952, eða 229 talsins. Frá þeim tíma hefur sveitarfélögum fækkað um 160, úr 229 í 69 og líklega 68 eftir síðustu kosningar um nýliðna helgi. Eins og ég nefndi eru í deiglunni tvennar sameiningar á tveimur landsvæðum, sem verða væntanlega á þessu ári, þar sem sameinast annars vegar tvö sveitarfélög og hins vegar fjögur. Ríflega 54% sveitarfélaga, eða 39 sveitarfélög, hafa færri en 1.000 íbúa og fámennustu sveitarfélögin í dag eru með íbúafjölda á bilinu 42–93. Það fjölmennasta er hins vegar með ríflega 133.000 íbúa. Þetta er mikið bil og það er erfitt að hugsa sér að þessir aðilar geti veitt sambærilega þjónustu, jafnvel sambærilega lögbundna þjónustu. Sjö þessara sveitarfélaga hafa undir 100 íbúa og það þarf ekki miklar reiknikúnstir til að átta sig á því að svona lítil og fámenn sveitarfélög eiga í ljósi þeirra breytinga og þeirra krafna sem við gerum til samfélags örðugt með að halda velli og veita ýmislega lögboðna þjónustu, að ekki sé talað um fjölbreytta félagslega þjónustu, til ungra barna, unglinga, fjölskyldna, þeirra sem búa við fötlun og aldraðra. Þetta eru krefjandi verkefni þar sem þarf mikinn mannskap, faglegan kraft og fjármagn.

Herra forseti. Frumvarpið og kjarninn í innihaldi þess er mikilvægt umfjöllunarefni en það er síður en svo nýtt af nálinni. Það talar skýrri röddu til samtímans og aðstæðna sem við búum þegar við og ekki síður og kannski fyrst og fremst til framtíðarinnar. Það styður þau markmið að sveitarstjórnarstigið skuli vera öflugt, enda er það rauði þráðurinn að efla með öllu móti sveitarstjórnarstigið til að taka við fleiri og fleiri viðameiri verkefnum til úrlausnar í nærsamfélaginu. Það er fráleitt að halda því fram að þetta sé aðför að sveitarstjórnarstiginu. Það má segja, herra forseti, að breyttu breytanda, — svo að maður slái um sig með því orðalagi — að sú sýn sem viðhelst í þessu frumvarpi eins og það er eftir breytingu viðhaldist þó að bitið sé dálítið farið úr því. Enginn ágreiningur er um að ábyrgð, áherslur og mótun samfélagsþjónustu, að þeim þáttum sé best fyrir komið í heimabyggð, í nærsamfélaginu, að þeir séu skipulagðir þar og þróaðir í samræmi við þarfir íbúanna í samfélögunum. Það eru fleiri og fleiri þættir samfara þróun, tækni og kröfum hvarvetna, bæði tæknikröfur, rafrænir þættir og einn ræðumaður í kvöld kom að því að skýrslugerð og upplýsingagjöf væri litlu sveitarfélögunum önugt. Það er alveg rétt því að þessi litlu sveitarfélög þurfa að standa skil á ýmsum gögnum og upplýsingum því að þau styðjast í sínum rekstri að verulegu leyti við stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Þetta eru auðvitað staðreyndir lífsins hvað sem hverjum og einum finnst, hverjar svo sem tilfinningarnar eru sem eru hluti af viðfangsefninu. Þær skil ég vel og virði. Þótt viðhorf víða í sveitarfélögum séu jákvæð til þessa máls, til sameininga, til aukins samstarfs, þó að þau séu jákvæð til þeirra markmiða sem kynnt eru, þá eru vissulega skiptar skoðanir um efni frumvarpsins, einstaka þætti og áherslur. Þessi efi kemur aðallega fram meðal nokkurra minni sveitarfélaga. Stjórnir minni sveitarfélaga benda jafnvel á að almennt sé fjárhagsstaða minni sveitarfélaga betri en hinna stærri. Við heyrum raddir sem segja að vanfjármögnun ríkisins á stórum málaflokkum verði ekki leyst með sameiningu smárra sveitarfélaga, að vandamál á einum stað leysist ekki með sameiningu hér og þar, að 1 kílómetri verði áfram 1.000 metrar þótt sveitarfélög séu sameinuð og að sameiningar leysi ekki þjónustuveitanda eða neikvæða byggðaþróun í dreifbýli einar og sér. Þetta er vissulega rétt. Samgönguþátturinn er gríðarlega mikilvægur þáttur, svo að dæmi sé tekið, og hið opinbera, ríkisvaldið, ætti að mínu áliti að beita sér miklu meira með beinum hætti og hvetja til sameininga í tengslum við stórfelldar samgöngubætur. Nokkur tækifæri hafa gefist til þess en þau hafa verið vannýtt að mínu áliti. Í samtölum við sveitarstjórnarfólk og fjölda aðila, m.a. í gestakomum í umhverfis- og samgöngunefnd, er líka bent á að krafan um 1.000 íbúa lágmark breyti ekki öllu, það sé bitamunur en ekki fjár, miklu nær væri að fjölga úr 250 að lágmarki upp í 1.000. Miklu nær væri þá að hugsa stærra og hugsa í 5.000 íbúa lágmarkinu eða jafnvel 8.000 og að samstarf sveitarfélaga verði að byggjast á fjárhagslegum, félagslegum og landfræðilegum forsendum, að það þurfi að vera á landfræðilegum forsendum en ekki að byggja þetta eingöngu á höfðatölu. Í þessu sambandi er rétt að nefna að víða í sveitarfélögunum er þetta umfjöllunarefnið og því tengjast sterkar tilfinningar. Eins og ég nefndi áðan er það bara þannig að nokkur sveitarfélög haga rekstri sínum með þeim hætti að það næst allvel utan um grunnreksturinn en það tekst hins vegar fyrst og fremst vegna drjúgra framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem er raunar sérstakt áherslumál. Síðan má geta þess líka að minni sveitarfélögin hafa gengið til samstarfs við nágrannasveitarfélög, stærri sveitarfélög, og þau hafa myndað með sér þjónustusamlög um ákveðna þætti en þar er nú víða pottur brotinn. Minni sveitarfélögunum finnst hin stærri fara dálítið geyst og leiða málið og oft á forsendum hinna stærri.

Herra forseti. Hér undir lokin vil ég nefna eitt atriði sem mér finnst þurfa að skýra mun betur og skilgreina í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Í breytingartillögu meiri hlutans sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi að væri viðamikil, og er auðvitað kjarninn í þessu frumvarpi, er lögð til viðbót við 4. gr. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í því skyni að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni skal stefna að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags sé ekki undir 1.000.“

Nú er stefnt að þessu, það er farin hin silkimjúka leið til nálgunar en ekki staðið í lappirnar eins og við hefðum kosið. Þetta hugtak ,sjálfbærni, það er ástæða til að velta fyrir sér innihaldi þess í þessu samhengi. Hver er merking þess að sveitarfélag sé sjálfbært? Við spurðum þeirrar spurningar nokkrum sinnum í umhverfis- og samgöngunefnd með gestum en ég tel að ég hafi ekki fengið svar við því hvenær sveitarfélag er sjálfbært. Er það sjálfbært þegar það fær engar greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða þegar það fær 10, 20, 30 eða 40% af tekjum sínum frá jöfnunarsjóði? Í greinargerð með þingsályktuninni sem nefnd var í upphafi, um stefnumótandi áætlun sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033, er sérstakur kafli um þetta hugtak, sjálfbærni. Við samningu hennar virðist hafa verið gengið út frá því að sjálfbærni segði til um getu sveitarfélagsins til að viðhalda sér á uppbyggilegan hátt, hvort sem er fjárhagslega, félagslega eða umhverfislega. Þetta eru auðvitað kunnugleg hugtök í umræðunni um sjálfbærni. En hvað er uppbyggilegur háttur? Herra forseti. Spurningunni um sjálfbærni sveitarfélaga, skilgreiningu á því hugtaki, virðist kastað á dreif í þessu frumvarpi, t.d. hlutdeild Jöfnunarsjóðs, og það er ekki gott. Umræða um sjálfbærni skiptir auðvitað miklu máli þegar unnið er að mótun stefnu fyrir sveitarstjórnarstigið og það til langs tíma.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra nú en ég vil þó áður en ég lýk máli mínu þakka framsögumanni nefndarálitsins, hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, fyrir að halda utan um málið af sinni mildilegu festu og samnefndarmönnum mínum fyrir gott starf við vinnslu þessa máls. Hér hefði að mínu áliti átt að stíga fastar til jarðar. Hér er þó stikað í áttina en skrefið hefði þurft að vera ákveðnara og stærra.