152. löggjafarþing — 23. fundur.
jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, 1. umræða.
stjfrv., 168. mál (fjölgun mismununarþátta). — Þskj. 170.

[14:54]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ákvæði laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, lúta að jafnri meðferð fólks á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar, óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Með frumvarpi þessu er lagt til að við framangreind lög verði bætt mismununarþáttunum trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Verði frumvarpið samþykkt koma lögin til með að samræmast betur lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, en þau fjalla um alla framangreinda mismununarþætti en ekki einungis kynþátt og þjóðernisuppruna. Þá munu báðir lagabálkar ná til sömu mismununarþátta. Þessu til samræmis er lagt til nýtt heiti á lögunum þar sem núverandi heiti takmarkast við þá mismununarþætti sem eru í gildandi lögum. Lagt er til að nýtt heiti verði: Lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.

Við gerð frumvarpsins var höfð hliðsjón af norsku, sænsku og finnsku lögunum um bann við mismunun og enn fremur var gætt samræmis við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, lög um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020, og lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019.

Rétt er að geta þess að frumvarp þetta er liður í innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi sem Ísland undirritaði 30. mars 2007 og var fullgiltur 23. september 2016.

Herra forseti. Almennt bann við mismunun á grundvelli framangreindra þátta í almennum lögum verður að teljast nýmæli enda þótt öðrum ákvæðum innlendra laga sé einnig ætlað að tryggja jafna meðferð og stuðla að virkri þátttöku fólks á tilteknum sviðum samfélagsins. Nærtækt er að vísa til 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, 233. gr. a og 1. mgr. 180. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Engin breyting er lögð til varðandi þau svið samfélagsins sem lögin ná þegar til en einstök svið eru sérstaklega tilgreind til áherslu. Eiga lögin m.a. við um félagslega vernd, þar á meðal í tengslum við almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu, félagsleg gæði, menntun og aðgang að vörukaupum og þjónustu. Sérstaklega er tekið fram að frumvarpið eigi við um húsnæði sem er í boði fyrir almenning.

Með félagslegum gæðum er m.a. átt við tækifæri til að njóta tiltekinna gæða á vegum opinberra aðila eða einkaaðila, svo sem aðgangs að stöðum sem ætlaðir eru almenningi þar sem unnt er að njóta frístunda — er þá átt við sundstaði, skíðasvæði, skautasvell, skipulögð leiksvæði, fjölskyldugarða og bókasöfn, listasöfn, leikhús og ýmsa aðra menningar- og listviðburði. Miðað er við að framangreint eigi við um alla staði sem ætlaðir eru almenningi, hvort sem viðkomandi staður telst vera opinber eða í einkaeigu, en stundum er einfaldlega talað um almannarými í þessu samhengi.

Mikilvægt er að hafa í huga að mismunandi meðferð kann að vera réttlætanleg við vissar aðstæður og ef unnt er að rökstyðja slíka meðferð á málefnalegan hátt með lögmætum markmiðum er ekki um mismunun samkvæmt frumvarpinu að ræða og hvert tilvik þarf að meta fyrir sig.

Virðulegi forseti. Nauðsynlegt er að taka tillit til þess að þeir mismununarþættir sem lagt er til að verði bætt við lögin með frumvarpi þessu eru ólíkir innbyrðis og getur verið þörf á sérreglum hvað einstaka mismununarþætti varðar. Því er lagt til að bætt verði við lögin tveimur nýjum ákvæðum, annars vegar nýju ákvæði um viðeigandi aðlögun vegna fötlunar, sem er þá 7. gr. a, og hins vegar nýju ákvæði um frávik vegna aldurs, 7. gr. b. Sambærilegar sérreglur eru til staðar í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Mismununarþáttunum aldri, trú og lífsskoðun í frumvarpinu er ekki ætlað að hafa áhrif á skipulag skólakerfis eða starfsemi skóla, þar með talið á efni aðalnámskrár á öllum skólastigum. Því er ekki heldur ætlað að hafa áhrif á trúarbragðakennslu eða viðburði á vegum skóla tengdum trúarhátíðum eða lífsskoðunum eða á aldursskiptingu eftir árgöngum eða aðra aldurs- og hópaskiptingu sem tíðkast í menntakerfinu eða íþrótta- og æskulýðsstarfi eða tilteknar skipulagðar vettvangsferðir sem einungis eru í boði fyrir nemendur í tilteknum aldurshópum, svo að dæmi séu nefnd. Það skiptir máli, þegar við ræðum þessar almennu reglur, að muna að við horfum alltaf til þess að það eru málefnalegar ástæður fyrir ýmissi skiptingu í kerfinu okkar og þær munu áfram eiga við.

Frú forseti. Lagt er til að lögin taki þegar gildi verði frumvarpið samþykkt. Þó er lagt til að ákvæði laganna skuli ekki gilda um mismunandi meðferð á grundvelli aldurs, samanber 1. mgr. 1. gr., fyrr en 1. júlí 2024. Það er gert til að tími gefist til að fara yfir aldurstengd ákvæði í öðrum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og samningum og gera breytingar á þeim ef þörf krefur til samræmis við ákvæði frumvarpsins.

Lagt er til ákvæði til bráðabirgða og það fjallar um skipan starfshóps sem skal fjalla sérstaklega um mismunun vegna tengsla og mögulegar tillögur til breytinga á þessum lögum og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, í tengslum við þess háttar mismunun. Hvað er átt við með því? Jú, þegar einstaklingi er mismunað vegna þess að einhver honum tengdur hefur einhver þau persónueinkenni að bera sem lögin taka til, til að mynda ef hæfasti umsækjandinn í störf fær ekki starf vegna þess að hann á fatlað barn eða maka af erlendum uppruna og það eru engar aðrar málefnalegar forsendur fyrir því viðkomandi aðili fái ekki starfið.

Að lokum eru lagðar til breytingar á lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, til samræmis við frumvarp þetta.

Frú forseti. Sú breyting sem hér er lögð til mun leiða til aukinnar réttarverndar fyrir fólk sem telur sér mismunað utan vinnumarkaðar á grundvelli framangreindra mismununarþátta og veitir þeim einstaklingum í fyrsta skipti heimild til að leita réttar síns til úrskurðarnefndar innan stjórnsýslunnar hér á landi. Það er mikilvægt til þess að við getum stuðlað að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi, óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu, og komið í veg fyrir félagslega einangrun fólks. Hugsanlegt er að stofnanir eða fyrirtæki kunni að verða fyrir kostnaði ef bæta þarf aðgengi eða gera breytingar á húsnæði og búnaði vegna fatlaðs einstaklings en samkvæmt frumvarpinu ættu slíkar ráðstafanir ekki að vera of íþyngjandi, m.a. að teknu tilliti til fjárhagslegs bolmagns viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis. Hvert tilvik þarf að meta fyrir sig en ég held að við hv. þingmenn getum flest verið sammála um að það er mikil þörf á því að bæta aðgengi í samfélaginu, hvort sem er hjá hinu opinbera eða hjá einkaaðilum. Í raun og veru á það að vera sjálfsagt mál að aðgengismál séu í lagi en þarna er þetta áréttað, bara svo að dæmi sé nefnt, um hugsanlegar orsakir kostnaðaraukningar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram það sem leiðir af gildandi löggjöf í jafnréttismálum.

Frú forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins hér og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.



[15:02]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra framsöguna. Hæstv. ráðherra lá nokkuð lágt rómur hér í dag þannig að ekki er útilokað að ég hafi misst af því sem hér verður spurt um. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða réttindi það eru sem ekki eru varin samkvæmt gildandi rétti sem bætast við samkvæmt því frumvarpi sem hér er mælt fyrir?



[15:02]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kom fram í ræðu minni hér áðan er lagt til að mismununarþáttunum trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu sé bætt við þessi lög sem breytingin er lögð til við, sem eru lög nr. 85/2018. Það þýðir að þau lög verða þá til samræmis við lög nr. 86/2018 sem gilda um jafna meðferð á vinnumarkaði. Það eru sömu mismununarþættir sem gilda innan og utan vinnumarkaðar.



[15:03]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra. Það eru kannski ekki sérstaklega góð rök með þessari lagasetningu að hún sé eingöngu til samræmis við lögin frá 2018. En er það skoðun hæstv. forsætisráðherra að 65. gr. stjórnarskrár verji ekki þá þætti sem hæstv. ráðherra taldi upp hér í svari sínu? Og af því að ég heyrði að hæstv. ráðherra kom inn á mismunun á grundvelli tengsla leikur mér forvitni á að spyrja hæstv. ráðherra hvort það eigi við um mismunun á grundvelli skoðunar maka.



[15:04]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svo að ég taki síðari punktinn fyrst þá er það svo, eins og ég sagði áðan, að hér er ekki verið að leggja til breytingar á mismunun á grundvelli tengsla. Hins vegar er ákvæði til bráðabirgða þar sem lagt er til að það verði skoðað sérstaklega. Ég nefndi sem dæmi ef einstaklingi er mismunað á grundvelli þess að eiga fatlað barn. Stjórnmálaskoðanir eru ekki taldar upp sem sérstakur mismununarþáttur í þessu frumvarpi, af því hv. þingmaður nefnir það.

Hv. þingmaður spyr: Veitir þetta frumvarp, verði það að lögum, aukna réttarvernd umfram 65. gr. stjórnarskrárinnar? — sem ég nefndi hér sem grundvöllinn að því sem við erum að gera, þar sem kveðið er á um jafnan rétt okkar allra. En ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um að eigi að síður höfum við talið mikilvægt að setja til að mynda lög um jafna stöðu kynjanna. Við höfum með margháttuðum réttarbótum í löggjöf verið að tryggja jafna meðferð, t.d. gagnvart fötluðu fólki. Og þetta frumvarp er liður í því að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi. Þó að við séum með hina almennu reglu algjörlega kristaltæra í okkar stjórnarskrá, og í besta heimi allra heima ætti það að vera nægjanlegt til að tryggja að enginn yrði fyrir mismunun út frá þessum þáttum, hefur reynslan verið sú að það skiptir máli að við gerum grein fyrir þeim mismununarþáttum sem við lítum til í almennri löggjöf og að við tryggjum réttarvernd þeirra sem á er brotið út frá þessum mismununarþáttum.



[15:06]
Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Það er ánægjulegt að sjá að verið sé að auka við mismununarþættina. Það kom mér í raun á óvart að margir af þessum þáttum væru ekki þegar í núgildandi lögum. Við miðaldra, hvítir og gagnkynhneigðir karlmenn verðum kannski ekki fyrir öllum þessum fordómum og þessari mismunun nema kannski þegar kemur að aldri og við verðum ekkert alltaf varir við það. En undanfarna mánuði og undanfarin ár hefur mér þótt mikið ráðist á fólk sökum þessara þátta. Það er nokkuð sem ég hef miklar áhyggjur af, þ.e. sú aukna hatursorðræða sem í raun er hér á landi. Hún fyrirfinnst sér í lagi á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum fjölmiðlanna.

Í tengslum við það vil ég nefna að það er stutt síðan við í þingflokki Pírata vöktum einmitt athygli á slíkri hatursorðræðu sem hv. varaþingmaður okkar, Lenya Rún Taha Karim, hefur orðið fyrir sökum aldurs, sökum lífsskoðunar og sökum þjóðernisuppruna. Það er nokkuð sem hvorki þingmenn né aðrir eiga að þurfa að verða fyrir og ég tel mjög mikilvægt að við sem þingheimur berjumst gegn slíkri hatursorðræðu. Í yfirlýsingu okkar hvöttum við reyndar aðrar stjórnmálahreyfingar til að fordæma alla hatursorðræðu og rasisma í pólitískri orðræðu og ég sakna þess dálítið að sjá undirtektir annarra flokka við þeirri beiðni að fordæma slíkt.

Við þurfum að gera meira en bara að bæta mismununarþáttum inn í lög. Við þurfum einnig að tryggja að þegar það er mismunað, þegar fólk lendir í hatursorðræðu og öðru, þá séu sektir, séu hegningarlög sem taka á því. Að lokum þurfum við ekki bara að setja lög heldur að vinna saman í því að búa til viðhorfsbreytingu þegar kemur að þessum málum í öllu samfélaginu.



[15:09]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þetta mál er dæmi um mál sem einkenna að talsverðu leyti þessa ríkisstjórn og ekki hvað síst frumvörp frá hæstv. forsætisráðherra, að því leyti að maður veltir fyrir sér hvort það snúist fyrst og fremst um umbúðir og yfirlýst markmið frumvarpsins fremur en hið raunverulega innihald og raunveruleg áhrif þess. Yfirlýst markmið er eitthvað sem ég held að allir hljóti að geta tekið undir en svo hefur raunin ekki alltaf orðið sú sama eða áhrifin hafa ekki alltaf orðið þau sömu og frumvörpin eða lögin eiga að ná.

Ég hef áður, í umræðu um forvera þessa máls, lýst áhyggjum af þeirri tilhneigingu til að telja upp sífellt fleiri persónueinkenni sem njóti verndar. Ástæðan fyrir því að ég hef áhyggjur af því er sú að það gefur tilefni til gagnályktunar, þ.e. að þau persónueinkenni sem ekki eru sérstaklega nefnd njóti ekki sambærilegrar verndar á við önnur. Þetta er að mínu mati, frú forseti, mjög vafasamt fordæmi til að setja. Ég sé að í greinargerð með frumvarpinu er því einfaldlega ranglega haldið fram að ýmsir þeir þættir sem þar eru taldir upp njóti ekki sambærilegrar verndar á við önnur persónueinkenni eins og sakir standa. En afleiðingin, gagnályktunin, er þá sú að þeir þættir sem eru ekki taldir upp í þessu frumvarpi eða fyrri frumvörpum njóti ekki verndar. En þeir gera það. Stjórnarskrá og lög á Íslandi heimila ekki mismunun á grundvelli persónueinkenna og hafa ekki gert. Því þarf maður að velta því fyrir sér hvort þetta frumvarp snúist fyrst og fremst um það sem stundum er kallað dyggðaflöggun eða dyggðamont eða hvort í því felist raunverulegar lögbætur.

Það sem veldur mér þó ekki síður áhyggjum varðandi frumvarpið og tilhneigingu til þess að telja upp sífellt fleiri þætti er að hér er farið út fyrir það sem kalla mætti persónueinkenni, meðfædd eða áunnin persónueinkenni, og sérstaklega fjallað um lífsskoðun. Að mínu mati er það verulega umhugsunarvert, kallar a.m.k. á frekari skoðun en virðist hafa farið fram við undirbúning þessa frumvarps, hvort það sé réttlætanlegt í frjálslyndu lýðræðisríki að setja inn ákvæði sem að einhverju leyti a.m.k. virðist koma í veg fyrir gagnrýni á ólíkar lífsskoðanir fólks. Það verður að vera heimilt að gagnrýna skoðanir fólks, lífsskoðanir eins og það er kallað hér, og jafnvel trúarbrögð. Að mínu mati á að vera heimilt að gagnrýna trúarbrögð, jafnvel að gera grín að þeim þótt mönnum þyki það ekki endilega alltaf viðeigandi. En að leiða það í lög að móðgun á grundvelli skoðana sé ekki ásættanleg og sé ólögleg er mjög stórt og varasamt skref að stíga og ástæða til að taka það til ítarlegrar umræðu.

Um hugtakið lífsskoðun segir í 3. gr. frumvarpsins:

„Lífsskoðun: Skoðun sem byggist á veraldlegum viðhorfum til lífsins, ákveðnum siðferðisgildum og siðferði ásamt skilgreindri siðfræði og þekkingarfræði.“

Og hverjir voru umfram marga aðra eða flesta aðra áhugasamir um svokallaða þekkingarfræði? Það voru marxistar og Marx skrifaði mikið um þekkingarfræði, sambandið milli raunveruleikans og þekkingar eins og hann sá það, eins og það féll að hans lífsskoðun. Við getum ekki hætt á það að leiða í lög bann við gagnrýni á marxisma eða aðra lífsskoðun.

Svo er eitt og annað í frumvarpinu sem vekur athygli og bendir kannski til þess að það sé ekki samið af lögfræðingum eða sérfræðingum á sviði lagasetningar heldur fremur af áhugamönnum um þetta svið. Það er t.d. tekið sérstaklega fram í frumvarpinu að fjölþætt mismunun verði einnig óheimil. Mismunun er óheimil en fjölþætt mismunun verður líka óheimil. Það er sem sagt bannað að mismuna en það er líka bannað að mismuna oft. Það segir sig sjálft, frú forseti, og hefur gert um áratugaskeið eða lengur, frá því að menn fundu upp lög líklega, að ef það er bannað að brjóta lög í einum skilningi er líka bannað að brjóta þau oft. En þarna er það sérstaklega tekið fram, leitt í lög, að það að brjóta lögin oft sé líka ólöglegt. Það er e.t.v. vísbending um hvað lagt er upp með hér, hver tilgangur þessa er.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni hér áðan að það væru ákveðnar undanþágur, praktískar undanþágur, t.d. hvað varðar aldur. Ég gat ekki skilið það öðruvísi en svo að 89 ára maður gæti ekki gert kröfu um að skrá sig í 4. bekk í grunnskóla. Það er ágætt að hæstv. ráðherra taki slík praktísk atriði með í reikninginn. Ef umræddur maður hefur misst af grunnskólanámi þætti mér þó eðlilegt að hann hefði tækifæri til að bæta þar úr. En það er þó óljósara með þennan þátt sem ég nefndi hér áðan, aðaláhyggjuefni mitt, þetta með skoðanirnar, lífsskoðun, að það er sérstaklega nefnt í 7. gr. — ég vitna bara beint í greinina, með leyfi forseta:

„Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að ekki sé mismunað á grundvelli þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. og þau séu ekki til minnkunar eða lítilsvirðingar þeim sem hafa ákveðna lífsskoðun eða trú, eru á vissum aldri, af tilteknum kynþætti eða þjóðernisuppruna eða í ljósi fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar viðkomandi.“

Sams konar ákvæði er að finna víðar í þessu frumvarpi, m.a. varðandi lífsskoðun. Þá veltir maður fyrir sér praktískum áhrifum þess því að þó að hæstv. forsætisráðherra hafi nefnt þetta atriði að nokkru leyti áðan þá sér þess ekki stað í þessu frumvarpi sem einkennist umfram annað, þessar 23 bls. með greinargerð, af endurtekningum, það er sífellt verið að endurtaka sömu hlutina. Við svona lagasetningu þarf að hafa í huga þau álitamál sem geta komið upp. Það eru til að mynda rekin hér á landi ýmis félagasamtök sem byggja á ákveðinni lífsskoðun, KFUM og KFUK og Hjálpræðisherinn til að nefna dæmi. Þessi félög hljóta áfram að þurfa að hafa frelsi til að vinna að framgangi sinnar lífsskoðunar.

Svo er það nú nokkurt áhyggjuefni að mínu mati að sjá að í 8. gr. er að vissu leyti gert ráð fyrir því að ríkið fari að ritstýra auglýsingum. Það er sérstök grein um auglýsingar. Þær mega ekki vega að lífsskoðun í þeim skilningi að það má ekki móðga fólk með ákveðna lífsskoðun eða trú og það sama á við um þjóðernisuppruna. Ég man eftir mörgum auglýsingum þar sem gert hefur verið góðlátlegt grín að öðrum þjóðum, ekki hvað síst nágrönnum okkar, Norðmönnum, Dönum, Þjóðverjum, Ítölum, jafnvel Færeyingum — en allt góðlátlegt og oft og tíðum til að auglýsa einhverjar vörur frá þessum löndum. Hvaða áhrif hefur frumvarpið á slíkt? Einhverjir gætu haldið því fram að hér sé verið að velta upp óþarfaáhyggjum en reynslan af svona lögum, lögum sem eru sett á þessum forsendum, án lögfræðilegrar íhugunar, hefur því miður oft og tíðum verið sú víða um lönd að þau eru túlkuð mjög frjálslega og nýtt til þess að auka á vald ríkisins yfir miðlum, umræðu og jafnvel auglýsingum eins og hér er lagt upp með. Því tel ég mikilvægt að í meðferð þessa máls sé betur skýrt hver raunveruleg áhrif þessa frumvarps verði.

Áfram er talað um lífsskoðun, ítrekað. Þetta er mikil endurtekning eins og ég nefndi áðan, forseti. Það skortir á það að útskýrðar séu málefnalegar ástæður fyrir því að víkja frá því að heimila gagnrýni eða umræðu, jafnvel háð, varðandi ólíkar lífsskoðanir. Slíkt er alger forsenda frjálslyndrar lýðræðislegrar umræðu, að hægt sé að gagnrýna ólíkar skoðanir. Lífsskoðun getur verið mjög röng, að mínu mati og væntanlega flestra, a.m.k. kalla slíkar skoðanir á umræðu, skoðun, mat en ekki það að ríkið grípi inn í og komi í veg fyrir slíka umræðu.

Í greinargerð frumvarpsins sem, eins og ég nefndi áðan, einkennist umfram annað af endurtekningum, er eitt og annað nefnt sem ég hefði viljað fara yfir en ég sé að tíminn er óðum að fljúga frá mér, frú forseti. Ég ætla þó að gefa mér tíma til að lesa upp nokkrar línur úr í 2. kafla greinargerðarinnar en þar segir:

„Einstaklingar eru hins vegar ekki verndaðir á sama hátt gegn mismunun á grundvelli trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar, utan vinnumarkaðar, samkvæmt framangreindri löggjöf um jafnréttismál. Það þýðir að þau sem telja sér mismunað á grundvelli þeirra þátta njóta ekki jafn ríkrar réttarverndar utan vinnumarkaðar og þau sem telja sér mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernisuppruna. Ef ekkert er aðhafst munu þau áfram búa við lakari réttarvernd hvað það varðar en fólk sem telur sér mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar og þjóðernisuppruna.“

Þetta er einfaldlega ekki rétt, frú forseti, í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi er þetta ekki rétt vegna þess að flest þessi persónueinkenni, eða öll persónueinkennin, njóta nú þegar verndar í lögum. Þá vekur þetta spurningar sem ég nefndi í byrjun, áhyggjur af því að menn gagnálykti um að það sem ekki er nefnt sérstaklega njóti ekki sambærilegrar verndar. En þetta er líka málfræðilega rangt. Hver eru þessi þau sem alltaf er verið að tala um? Líklega er þetta bara enn eitt einkennið um að þetta frumvarp er að verulegu leyti ekki byggt á lögfræði heldur frekar á hugmyndafræði og því að sýna ákveðna skoðun.

Skoðunin er góð, frú forseti, að langmestu leyti. Ég held, eins og ég sagði áðan, að allir geti tekið undir það nema hvað varðar skoðanir, lífsskoðun eða hvað menn vilja kalla það. Þar erum við komin inn á hættulega braut. Hvað hina þættina varðar snýst þetta fyrst og fremst um þörfina, að hvaða leyti hún sé til staðar. Ég sé t.d. annars staðar í greinargerð að verið er að tala um hluti eins og að ekki megi meina fólki inngöngu á veitingastað eða koma í veg fyrir að það fái að leigja hús vegna t.d. þjóðernisuppruna. Hér er líklega verið að taka slag sem er meira en 100 ára gamall þegar sett voru upp skilti um að Írar eða aðrir þjóðflokkar í Bandaríkjunum eða á Bretlandi fengju ekki að leigja húsnæði. En á móti má segja: Jú, kannski hefur þetta lagast verulega en þurfum við ekki að vernda þetta í lögum? Jú, við þurfum að vernda þetta í lögum, en við gerum það nú þegar. Og aftur kemur upp þetta áhyggjuefni mitt með gagnályktun, þ.e. að nefna þurfi sérstaklega öll persónueinkenni sem njóti verndar. Það er ekki þannig. Öll persónueinkenni njóta verndar. Allir einstaklingar eiga að njóta jafnræðis og jafnréttis óháð persónueinkennum.

Ég var búinn að skrifa hjá mér punkta við eitt og annað í greinargerðinni sem mér þykir orka tvímælis eða þarfnast skýringa. Ég næ ekki að klára það í þessari ræðu, frú forseti. Það bíður væntanlega 2. umr. Ég vona að þetta frumvarp taki breytingum og við fáum betri skýringar á því hverju á að ná fram með því áður en 2. umr. fer fram.



[15:24]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir kynninguna á frumvarpinu og þakka henni fyrir að leggja það fram. Það er mikilvægt öllum stundum að berjast gegn hvers kyns mismunun. Það er magnað, í jafn upplýstu samfélagi og við lifum í, bæði hér og víða í nágrannalöndum okkar, að það virðist sem ákveðið bakslag sé að verða í jafnréttismálum, hvort sem um er að ræða jafnrétti vegna kyns, kynhneigðar, þjóðernisuppruna eða jafnvel vegna heilsufars. Örlað hefur á meiri hörku gegn minnihlutahópum, ofsóknir víða um heim og í nágrannalöndum okkar. Við höfum líka heyrt það hér í þingsal að efast er um réttmæti þess að berjast gegn hvers kyns mismunun. Það er verið að efast um réttmæti þess á grundvelli tjáningarfrelsis, eins og það sé á einhvern hátt samtvinnað að mega mismuna fólki, að mega ráðast að minnihlutahópum og fá að njóta tjáningarfrelsis. Það er ekki á neinn hátt verið að segja að fólk megi ekki tjá skoðanir sínar þegar verið er að vernda ákveðna minnihlutahópa gegn mismunun, þvert á móti. En einhvern veginn hefur í umræðunni örlað á þessu, jafnvel hjá hv. þingmanni sem flutti hér ræðu á undan mér.

Hvers vegna er svona mikilvægt að taka þetta til? Jú, af því að það skiptir máli að löggjafinn og stjórnvöld sendi mjög skýr og eindregin skilaboð öllum stundum og á öllum tímum um að mismunun sé ekki í boði, að það séu bara skýr skilaboð. Við tökum ekki þátt í því.

Þá langar mig aðeins, varðandi lagatæknilega útfærslu, að velta fyrir mér hvort — þetta eru bara vangaveltur — við erum mögulega á villigötum þegar við aukum alltaf við upptalninguna á þáttum sem ekki má brjóta gegn, hvort við lendum þá í því að við þrengjum þetta alltaf þannig að við séum í rauninni farin að útiloka ákveðna hópa sem ekki komast inn í upptalninguna, eru ekki taldir upp. Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum alltaf að hugsa um við lagasetningu, að reyna eins og við getum að hafa lög nógu almenn til að grípa alla mögulega hópa sem málið á að varða.

Ég held að ég geti fullyrt, af því að hér er t.d. talað um fötlun, að víða eru undirliggjandi í íslensku samfélagi fordómar og mismunun gagnvart þeim sem glíma við geðrænar áskoranir. Þetta er það undirliggjandi að við áttum okkur ekki á því, þessi þjóðfélagshópur mætir einhverra hluta vegna afgangi þegar kemur að ýmsum þáttum sem verið er að bæta. Nærtækasta dæmið er t.d. bara húsnæðisbygging, bygging nýs meðferðarkjarna Landspítala við Hringbraut, þar sem löngu úr sér gengið húsnæði fyrir þennan sjúklingahóp er bara látið standa, hundrað ára gamalt húsnæði við Klepp og áratugagamalt og algerlega ófullnægjandi húsnæði við Hringbraut. Þessi sjúklingahópur á ekki að fá að komast inn í nýjan meðferðarkjarna. Þetta er ekki sagt af mannvonsku og ég ætla ekki að mannvonska búi þarna að baki eða að þetta sé meðvituð ákvörðun. Ég velti fyrir mér hvort við ættum kannski að hugleiða þetta alltaf, hvort það geti verið að þetta sé svona rótgróið, að við hugsum svona lítið um þetta.

Frumvarpið er mjög gott. Það tekur á mjög mörgu sem við erum að glíma við og það verður gaman að fylgjast með starfinu sem mun eiga sér stað í allsherjar- og menntamálanefnd. En ég vona að við munum tala meira um það hér í þingsal, þennan misskilning þegar kemur að því að halda að þetta snúist um tjáningarfrelsi fólks og skoðanir fólks á annarra manna skoðunum. Það er ekkert verið að fjalla um það. Það er verið að fjalla um það að vega að öðru fólki og mismuna því á einhvern hátt. Það er ekki skoðun fólks að vera með fötlun, vera á ákveðnum aldri, hafa ákveðna kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni — þetta er ekki skoðun. Auðvitað eigum við að fagna allri umræðu, en hér erum við að tala um mismunun og að fjölga þeim mismununarþáttum sem taka á í þau lög sem eru í gildi nú þegar.

Ég bara ítreka að ég fagna frumvarpinu og vona að nefndinni gangi vel við vinnslu þess.



[15:32]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Það verður æ mikilvægara að berjast gegn mismunun í heimi þar sem fjölbreytileiki mannlífsins verður okkur bæði æ ljósari og nálægð okkar hvert við annað verður sífellt meiri. Ég fagna frumvarpinu og leyfi mér að segja: Þó fyrr hefði verið. Að mínu mati munu lög af þessu tagi verða til þess að auka réttarvernd fólks og leiða til aukins jafnréttis í samfélaginu. Þegar tillögur um bann við mismunun á grundvelli ýmissa þátta koma til umræðu er því stundum velt upp að öll ólík meðferð hljóti að vera mismunun og því séu ákvæði af þessu tagi óljós og þeim sé erfitt að framfylgja. Eftir áratugareynslu ef ekki árhundruða af þeirri umræðu erum við þó sem betur fer komin á þann stað að við gerum okkur skýra grein fyrir muninum á ólíkum meðferðum, ef það er réttlætt á málefnalegan hátt með lögmætt markmið fyrir augum með viðeigandi og nauðsynlegum aðferðum.

Jafnrétti snýst nefnilega ekki eingöngu um að farið sé með sams konar tilvik á sama hátt heldur getur það falið í sér að farið sé með ólíkum hætti með ólík tilvik. Það sem ekki má er að mismuna fólki á grundvelli þeirra þátta sem taldir eru upp í lögunum án málefnalegrar réttlætingar og til þess að stefna að lögmætu markmiði með nauðsynlegum og viðeigandi aðferðum. Þetta er ekkert flókið og ekkert sem bendir til annars en að við séum fullfær um að greina þarna á milli með góðu móti.

Hér hefur verið bent á annars konar mismunun sem því miður er útbreidd í samfélaginu og fer vaxandi, og ekki hefur verið gert nóg, að mínu mati og margra annarra, til þess að sporna gegn. Það er hatursorðræða og félagsleg útskúfun fólks á ómálefnalegum grundvelli, svo sem á grundvelli kynþáttar, þjóðernis og jafnvel annarra þátta.

Ísland er í kjöraðstöðu til að vera í fararbroddi í aðgerðum gegn hatursorðræðu og fordómum. Við erum fámenn þjóð sem öll er meira og minna á sama samfélagsmiðlinum að tala um sama hlutinn á sama tíma. Tiltölulega auðvelt er að hafa áhrif á umræðuna í samfélaginu og fyrir vikið verður alls kyns vitundarvakning auðsóttari en e.t.v. í margra milljóna manna samfélagi. Ég vil að við nýtum okkur þau tækifæri sem felast í smæð þjóðarinnar því að að ákveðnu leyti veldur smæðin því, í bland við aðra sérstöðu landsins, að við náum athygli umfram fjöldann og út fyrir þá litlu búblu sem við búum í. Þróunin á Íslandi í átt til kvenfrelsis og aukinna réttinda hinsegin fólks hefur sem dæmi gengið nokkuð vel ef horft er til þess sem gengur og gerist í öðrum löndum þar sem þróunin er e.t.v. hægari.

Í ljósi þessa langar mig að leggja til að í kjölfarið á lagasetningu þessari verði stigið skref enn lengra í þá átt að tryggja hér jafnrétti óháð þeim þáttum sem nefndir eru í frumvarpinu og til að útrýma fordómum og hatri í samfélaginu. Ég legg til að ríkisstjórnin sjálf, stjórnvöld sjálf, hlutist til um það að farið verði í herferð gegn hatursorðræðu og fordómum í samfélaginu. Við erum komin á þann stað að við höfum þau tæki, þá þekkingu og færni sem þarf til þess hreinlega að útrýma slíku meini úr okkar góða samfélagi.



[15:36]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls fyrir góða og málefnalega umræðu. Vegna þeirra þingmanna sem hafa sérstaklega gert að umtalsefni hatursorðræðu þá held ég að það sé málefni sem mjög vert er að taka upp. Í dag var að fara í samráðsgátt Stjórnarráðsins framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks þar sem sérstaklega er fjallað um aðgerðir til að sporna við hatursorðræðu í garð þess hóps. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér að það er þörf á að nálgast það verkefni út frá breiðari grunni, að við séum að horfa á það bæði út frá þessum hópi en líka út frá öðrum hópum. Ég held að þetta sé verðugt verkefni fyrir stjórnvöld en líka Alþingi allt því að það skiptir máli hvaða línur löggjafarsamkundan leggur í þessum málum.

Þetta frumvarp er eitt af mörgum skrefum sem hafa verið stigin á undanförnum misserum og árum í átt að því að styrkja mannréttindi í landinu. Hér hefur eðlilega verið spurt, ég skil það vel, um upptalningu, hvort hættan við upptalningu sé ekki sú að þá verði einhver út undan. Við erum auðvitað með ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti, og því er ætlað að taka utan um þetta. En við verðum líka að viðurkenna að þó að við séum með slík ákvæði í stjórnarskrá og í einstökum lagabálkum þarf oft einmitt að skilgreina betur í lögum hvað felst í mismununinni, hvaða þættir séu þar undir, þannig að við getum fylgt því eftir og brugðist við. Sú réttarvernd sem felst í þessu frumvarpi er auðvitað að við gerum þeim einstaklingum sem verða fyrir mismunun vegna þessara þátta utan vinnumarkaðar kleift að leita réttar síns með því að fara til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar. Það er auðvitað stórmál þegar kemur að réttarvernd þessa fólks.

Af hverju erum við að nefna þessa þætti? Það er mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd ræði það af því að eðlilegt er að spyrja þessara spurninga. En það eru bæði sögulegar og félagslegar ástæður fyrir því að nauðsynlegt hefur þótt að nefna þessa þætti sérstaklega.

Ég vil nefna, af því að hér var rætt sérstaklega um meinta ritskoðun á auglýsingum, að slíkt ákvæði á grundvelli þjóðernis er nú þegar í lögum. Nú þegar er bannað að mismuna á grundvelli þjóðernis í auglýsingum með minnkandi eða lítilsvirðandi framkomu. Það er ekki það sama og að gera góðlátlegt grín. Ég held að það sé líka mikilvægt þegar við erum að tala um mismunun að við föllumst á það hvað í því felst. Góðlátlegt grín er auðvitað ekki það sama og mismunun. En við viljum ekki að góðlátlegt grín snúist um lítilsvirðandi eða niðrandi orðræðu um tiltekna hópa. Við erum því miður með allt of mörg dæmi í sögunni þar sem samfélög hafa leyft slíkri orðræðu að viðgangast oft með skelfilegum afleiðingum.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi að þetta frumvarp byggðist ekki á lögfræði heldur hugmyndafræði. Ég hafna því auðvitað að þetta frumvarp sé ekki samið af færum lögfræðingum á sínu sviði í forsætisráðuneytinu. En að sjálfsögðu felur það í sér ákveðið gildismat. Það gildismat snýst um það að við höfnum mismunun og höldum vöku okkar gagnvart því þegar tilteknir hópar eru beittir mismunun á grundvelli einhverra slíkra þátta. Hér má vissulega greina skýran vilja löggjafans, verði þetta frumvarp samþykkt, til að taka skýra afstöðu í þessu máli. Það má kalla það hugmyndafræði, það má kalla það gildismat en það er eitt það mikilvægasta gildismat sem við getum rætt hér á Alþingi Íslendinga því að það snýst um grundvallarmannréttindi fólksins í landinu. Ég skal gangast við því að þetta frumvarp endurspeglar ákveðið gildismat en það dregur ekki úr því að vandað hefur verið til verka og gefinn mikill tími til skoðunar. Að sjálfsögðu erum við að huga að ákveðnu samræmi við önnur lönd, við Evróputilskipanir, við löggjöf á Norðurlöndum og líka samræmi við aðra íslenska löggjöf. Ég get nefnt löggjöfina um kynrænt sjálfræði sem er ekki til staðar í öllum þessum löndum, við horfum til hennar og við erum líka að horfa til samræmis við þá löggjöf sem er í gildi á vinnumarkaði.

Það eru hins vegar þættir í þessu sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd mun þurfa að skoða nánar og ég vænti þess að nefndin ræði það einfaldlega hvenær málefnalegar forsendur eru fyrir hendi. Það eru málefnalegar forsendur fyrir því að 13 ára börn keyri ekki bíl. Það telst ekki aldursmismunun í þeim skilningi þess orðs. Það eru sérstök lög um málefni aldraðra sem eiga ekki við um þau sem eru ekki öldruð. Það er engin mismunun sem felst í því því að það byggir á málefnalegum forsendum. Að sjálfsögðu þarf nefndin að fara vel yfir slíka þætti og þess vegna leggjum við til að lengri tími verði gefinn til aðlögunar því það skiptir máli að samfélagið hafi svigrúm til að bregðast við og laga sig að breyttri hugsun þegar kemur að mismunun, t.d. út frá aldri. Það kunna að vera tilvik þar sem miðað er við aldur í fjármálastarfsemi, svo að dæmi sé tekið, þannig að það skiptir máli að samfélagið hafi ákveðið svigrúm til þess. Þess vegna leggjum við til þetta viðmið, 1. júlí 2024.

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar. Ég vildi bregðast við því sem hér hefur verið sagt en minni á að skilgreiningin á lífsskoðun, sem hér var spurt um, er í raun og veru sú sama og birtist í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði sem hafa verið í gildi frá árinu 2018. Ég reikna hins vegar ekki með því að þeir þingmenn sem voru á móti þeim lögum styðji endilega þetta frumvarp af því að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerði þetta sérstaklega að umtalsefni. Ég minni bara á að þetta ákvæði hefur verið með þessum hætti í lögum frá árinu 2018 án þess að valda nokkrum vandkvæðum. Ég held að hv. þingmaður þurfi því ekki að hafa sérstakar áhyggjur af því. Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja þessa umræðu frekar og vænti þess að nefndin gefi sér góðan tíma til að fara yfir þetta mál.



[15:44]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að halda aðra ræðu við 1. umr. en eftir athugasemdir hæstv. forsætisráðherra, sem svöruðu ekki nema að mjög takmörkuðu leyti þeim athugasemdum sem ég kom með í fyrri ræðu, þá tel ég ástæðu til að ítreka það strax við 1. umr. þessa máls að á því eru ýmsir gallar, ekki endilega gallar sem lúta að markmiðinu heldur raunverulegum væntum áhrifum þess. Ég fagna því þó að hæstv. ráðherra skuli nefna það sérstaklega að málið fái góðan meðferðartíma í nefnd.

Fyrst og fremst hef ég áhyggjur af því sem ég nefndi áðan um það að búa til þetta fordæmi eða þessa gagnályktun um að jafn réttur allra einstaklinga sé í rauninni ekki tryggður nema tilteknir hópar séu nefndir. Þetta tengist þeim áhyggjum sem ég hef af tilhneigingu stjórnvalda hér á landi og erlendis til að skipta fólki í auknum mæli upp í hópa í stað þess að líta á samfélagið sem eitt samfélag jafn rétthárra einstaklinga. Þessi aukna hópamyndun, sem er mjög í tísku í stjórnmálum, sérstaklega á vinstri kantinum nú til dags, er ekki gæfuleg og fyrri dæmi úr sögunni sýna okkur það.

Einnig hef ég áhyggjur, eins og ég nefndi áðan, af því að verið sé að blanda hér inn í persónueinkennum á borð við fötlun eða kynhneigð, skoðunum, lífssýn. Mér finnst í rauninni fráleitt að setja þetta í sömu lög, að menn njóti verndar vegna til að mynda fötlunar eða kynhneigðar á sama hátt og menn njóta verndar vegna skoðana eða lífssýnar. Þetta er ekki æskileg þróun og er til þess fallin, eins og við sjáum dæmi um víða erlendis, að upp komi álitamál, matsatriði, því að þó að hæstv. forsætisráðherra hafi nánast gert grín að athugasemdum um nýja ritskoðun á auglýsingum hér þá sýnir reynslan erlendis að menn leggja mjög ólíkt mat á það hvað telst vera viðeigandi grín og hvað ekki. Þess vegna myndi ég vilja að hæstv. ráðherra talaði skýrt um það að með þessu verði ekki opnað á, ef svo má segja, misnotkun laganna til að koma í veg fyrir eðlilega gagnrýna umræðu eða þess vegna eðlilegt skopskyn, því að við höfum svo fjölmörg dæmi um slíka þróun frá öðrum löndum.

Annað viðvörunarljós birtist í þessu frumvarpi hvað þetta varðar á blaðsíðu 11 þar sem menn fikra sig inn á braut þess að tala um kerfislæga mismunun. Jafnvel þegar mismunun virðist ekki vera til staðar og er jafnvel ekki til staðar, þá hafa menn útgönguleið eða inngönguleið, kannski réttara sagt í þessu tilviki, í formi kerfislægrar mismununar. Og hvernig er þessi kerfislæga mismunun skilgreind? Hún er ekki skilgreind í frumvarpinu en dæmin sýna að menn ganga oft býsna langt í því að telja að eitthvað feli í sér kerfislæga mismunun. Í enskumælandi löndum hefur þetta jafnvel gengið svo langt að raunvísindi, stærðfræði, eru af áköfustu aktívistum á ákveðnu sviði sögð vera kerfislega mismunandi, feli í sér kerfislægan rasisma, Evrópumiðaða sýn eða vestræna sýn, sem er í fyrsta lagi rangt en að mínu mati líka lítilsvirðandi gagnvart fólki af öðrum uppruna, að telja að jafnvel raunvísindin feli í sér kerfislæga mismunun, kerfislægan rasisma o.s.frv.

Það er því margt í þessu frumvarpi sem þarfnast frekari skýringa og of óljóst hver raunveruleg áhrif þess verða.

En í ljósi þess að málið snýr að markmiði sem ég tel að allir þingmenn á Alþingi Íslendinga séu sammála um, markmiðinu um að tryggja jafnræði allra, þá næst vonandi skynsamleg niðurstaða um leiðir til að ná þessu markmiði. En þær leiðir sem í gegnum tíðina hafa gefist best fela það í sér að menn líti til einstaklingsins og réttinda hans, jafnræðis allra einstaklinga, fremur en að skipta þjóðum upp í fylkingar.



[15:49]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér á í einhverjum vandræðum með einmitt þá hluti sem ég nefndi í minni ræðu varðandi í rauninni skilgreininguna á mismunun. Ég ætla að einhverju leyti að taka undir orð hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur sem kom hérna áðan og benti á að hugsanlega ætti ómálefnaleg mismunun sem stefnir að ólögmætu markmiði eða þegar notaðar eru óviðeigandi aðferðir almennt að vera ólögmæt og kannski spurning hversu löng upptalningin eigi að vera á eftir eða hvort hana þurfi yfir höfuð. Þar með er ég ósammála hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um að verið sé að skipta fólki upp í hópa með þessu, þvert á móti snýst þetta ekki um hópana heldur um að fólki sé mismunað á ómálefnalegum grunni.

Varðandi grín þá langaði mig að koma með trix sem ég held að sé svolítið gott að nota til þess að átta sig á því hvort grín feli í sér einhvers konar mismunun eða hatursorðræðu eða annað, og það er að velta fyrir sér andlagi grínsins. Stundum er þeirri setningu fleygt: Þetta er bara grín. En ég er á þeirri skoðun, og sérfræðingar í húmor eru sammála mér um það, að það er ekki til neitt sem er bara grín. Ég ætla ekki að segja öllu gríni fylgir alltaf einhver alvara en það er nokkuð til í því. Það sem ég ætla að segja er að allt grín hefur þýðingu. Það er ástæða fyrir því að okkur finnst eitthvað fyndið. Það sem segir okkur hvort grín sé viðeigandi eða ekki er inntakið í brandaranum. Hvað erum við að segja? Það er eitthvað sem við erum að reyna að segja. Ef það sem við erum að reyna að segja (Forseti hringir.) felur í sér einhvers konar fordóma eða niðurlægingu á einhverju eða einhverjum þá er það óviðeigandi grín.



[15:52]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyrði svo sem ekki beina spurningu til mín, bara ágætar vangaveltur. En þetta er einmitt alltaf matsatriði og áhyggjur mínar snúa að því að menn gangi of langt í að meta hlutina upp á nýtt og þá ekkert endilega allir, ekki meiri hlutinn heldur, að einhver afmarkaður hópur geti misnotað lög sem vega að frelsi til umræðu, tjáningar og svo o.s.frv. Þetta er einfaldlega hluti af því sem ég var að vekja máls á að þyrfti að ræða við meðferð þessa máls. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið og tel rétt að það fari inn í þá umræðu sem fram undan er.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.