152. löggjafarþing — 23. fundur.
hjúskaparlög, 1. umræða.
stjfrv., 163. mál (aldur hjónaefna, könnunarmenn o.fl.). — Þskj. 165.

[15:53]
innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á hjúskaparlögum. Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju. Frumvarpið er efnislega óbreytt að því undanskildu að gerðar hafa verið breytingar á gildistíma frumvarpsins að því er varðar ákvæði um könnun hjónavígsluskilyrða ásamt því að umfjöllun um fjárhagsleg áhrif og samráð vegna frumvarpsins hefur verið uppfærð. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem varða undanþáguheimild vegna lágmarksaldurs til þess að stofna til hjúskapar, könnun hjónavígsluskilyrða, lögsögu í hjónaskilnaðarmálum auk þess sem lagt er til að færa verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanna.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að afnumin verði undanþáguheimild frá því að einstaklingar yngri en 18 ára megi ganga í hjúskap og er tilgangurinn að samræma hjúskaparlögin alþjóðlegum tilmælum og viðhorfum varðandi lágmarksaldur til að ganga í hjúskap. Samkvæmt núgildandi lögum mega tveir einstaklingar stofna til hjúskapar þegar þeir hafa náð 18 ára aldri. Ráðuneytið getur hins vegar veitt yngra fólki leyfi til að ganga í hjúskap, enda liggi fyrir afstaða forsjárforeldra til hjúskaparstofnunarinnar.

Þá er í frumvarpinu lagt til að lögfest verði meginregla um viðurkenningu hjónavígslu sem stofnað er til erlendis. Lagt er til að lögin beri með sér að hjónavígslur einstaklinga yngri en 18 ára sem fara fram erlendis verði ekki viðurkenndar hér á landi nema samkvæmt ströngum undanþágum. Er miðað við að þetta eigi við óháð því hvort hjónin séu enn yngri en 18 ára þegar þau koma hingað til lands og óska viðurkenningar. Heimilt verður þó að gera undanþágu frá þessu þegar sérstaklega stendur á og ótvíræðir hagsmunir þess sem var yngri en 18 ára krefjast þess. Viðkomandi skal þó hafa náð 16 ára aldri þegar hjónavígsla fór fram og hjúskapurinn vera viðurkenndur í því landi sem hjónavígsla var framkvæmd. Með tilliti til réttinda er fylgja því að ganga í hjúskap, meðalhófs og hagsmuna barna við sérstakar aðstæður þykir nauðsynlegt að heimilt verði að viðurkenna hjúskap í undantekningartilvikum.

Í frumvarpinu er í öðru lagi lagt til að könnun hjónavígsluskilyrða fari einungis fram hjá sýslumönnum, hvort sem hjónaefni eigi lögheimili hér á landi eða ekki. Þá er lagt til að ráðuneytið geti með reglugerð ákveðið að fela einu sýslumannsembætti umrætt verkefni. Með því að fela einu sýslumannsembætti umrætt verkefni verði unnt að samræma framkvæmd varðandi þær kröfur sem sýslumenn gera til þeirra gagna sem krafist er frá erlendum ríkisborgurum sem ætla að ganga í hjúskap hér á landi. Þá er gert ráð fyrir að jafnframt verði lögð áhersla á að einfalda ferlið með rafrænum lausnum.

Þess ber að geta að vígsluheimildir presta og forstöðumanna trú- og lífsskoðunarfélaga og umboðsmanna þeirra verða óbreyttar samkvæmt lögunum.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum hjúskaparlaga varðandi lögsögu íslenskra stjórnvalda og dómstóla til þess að veita lögskilnað hér á landi í tilteknum tilvikum ef hvorugur aðili býr hér á landi og viðkomandi eru ekki íslenskir ríkisborgarar.

Hjúskapur einstaklinga af sama kyni er ekki viðurkenndur í öllum ríkjum og þeir sem ganga í hjúskap hér á landi eiga ekki beinan rétt né kröfu til að hjúskapur þeirra verði viðurkenndur í öðrum ríkjum, t.d. ríkjum þar sem annar eða báðir eiga ríkisborgararétt eða hafa fasta búsetu. Pör af sama kyni sem gifta sig hér á landi og fá hjúskap sinn ekki viðurkenndan í heimalandi sínu geta ekki óskað eftir lögskilnaði hér á landi samkvæmt gildandi lögum nema þegar viðkomandi einstaklingar eru búsettir hér eða eru íslenskir ríkisborgarar.

Til að bregðast við gagnrýni sem hefur komið fram á gildandi löggjöf er varðar ákveðinn hóp, sem og að samræma lögin þeim reglum sem um þetta gilda annars staðar á Norðurlöndunum eru lagðar til breytingar á ákvæðum hjúskaparlaga sem snúa að lögsögu þannig að unnt sé að óska eftir hjónaskilnaði hér á landi ef leitt er í ljós að stefnandi geti ekki höfðað mál til skilnaðar í því landi þar sem hann á ríkisfang eða er búsettur. Eiga breytingarnar jafnt við um hjónaskilnaðarmál fyrir dómstólum og stjórnvöldum að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.

Í fjórða lagi eru lagðar til ýmsar breytingar sem snúa að því að færa verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanna sem talin eru samræmast hlutverki sýslumanna betur en ráðuneytisins. Ber þar fyrst að nefna synjun á samþykki lögráðamanns fyrir því að ólögráða einstaklingur geti stofnað til hjúskapar, sem yrði þá borinn undir sýslumann í stað ráðuneytis. Þá er um að ræða undanþágu frá hjónavígsluskilyrðinu um tiltekna stöðu fjárskipta milli hjónaefnis og fyrri maka sem sýslumanni yrði heimilt að veita í stað ráðuneytisins. Því næst er um að ræða heimild ráðuneytis til að veita undanþágu frá því að tveir svaramenn ábyrgist að enginn lagatálmi sé á fyrirhuguðum hjúskap og að einn svaramaður undirriti vottorð. Það mundi þá vera undir sýslumanni komið að veita undanþáguna eftir atvikum. Ákvörðunum sýslumanna verður unnt að skjóta til ráðuneytisins.

Að lokum má nefna að frumvarpið gerir ráð fyrir að varanlegur kostnaður hjá sýslumönnum vegna færslu verkefna til þeirra sem snúa að könnun hjónavígsluskilyrði geti numið um 18 millj. kr. á ári. Er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði að taka ákveðið gjald fyrir útgáfu könnunarvottorðs.

Fjármögnun er lýtur að auknum varanlegum kostnaði hjá sýslumönnum hefur því verið tryggð með breytingum á lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Í frumvarpinu er lagt til að lögin öðlist þegar gildi að undanskilinni 4. gr. frumvarpsins sem lagt er til að taki gildi 1. september 2022. Ákvæðið snýr að því að einungis sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra annist könnun á hjónavígsluskilyrðum og að heimilt verði að taka gjald fyrir útgáfu könnunarvottorðs.

Í frumvarpinu kemur fram að nauðsynlegt sé að gefa svigrúm til að undirbúa breytingarnar þar sem um er að ræða fjölda mála sem mun færast til sýslumanna og mögulega til eins sýslumannsembættis. Undirbúa þarf þær breytingar í samvinnu við sýslumannsembættin til að gera þeim kleift að taka við fleiri verkefnum.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.



[16:00]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma með þetta mál svona tímanlega til þingsins. Ég vona að það verði til þess að allsherjar- og menntamálanefnd nái að vinna úr því tímanlega svo að við náum að gera þetta að lögum fyrir vorið, vegna þess að undanþáguheimild sem leyfir barnahjónabönd er alveg ótrúlega mikil tímaskekkja í íslensku lagasafni. Það er gott að fá hæstv. ráðherra með okkur í baráttuna gegn þeirri tímaskekkju.

Mig langar að spyrja varðandi tvennt, sýnist mér, sem snertir þann hluta frumvarpsins sérstaklega. Annars vegar þá undanþáguheimild sem bætt er inn. Það á að fella út stóru undanþáguna en það á að bæta inn heimild til að viðurkenna í undantekningartilvikum hjúskap sem stofnað hefur verið til erlendis þar sem annar aðilinn hið minnsta hefur verið undir 18 ára aldri. Það kom nefnilega fram í umsögnum á síðasta þingi að umsagnaraðilum þætti mjög mikilvægt að þessar undanþáguheimildir væru ofboðslega skýrt afmarkaðar og skilgreindar. Og ég sé ekki að það hafi verið gerðar neinar stórar breytingar á greinargerð eða efni frumvarpsins sem komi til móts við þessar ábendingar. Þannig að mig langar að spyrja ráðherrann hvort þetta sé ekki eitthvað sem nefndin þurfi að skoða sérstaklega vel og jafnvel fá sérfræðinga ráðuneytisins með sér í lið til þess að þrengja það litla nálarauga sem eftir verður, eins mikið og hægt er svo að ekki opnist þarna ný glufa sem mögulegt verður að misnota.



[16:02]
innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Eins og kom fram í máli mínu er í raun verið að setja mjög þröng skilyrði við þessu þó að við sérstakar aðstæður þyki nauðsynlegt að heimilt verði að viðurkenna hjúskap í einhverjum undantekningartilfellum. Þannig að ég tek bara undir það að ég held að nefndin eigi að skoða þetta mál mjög vel. Sérfræðingar ráðuneytisins og annarra eru auðvitað boðnir og búnir til að leggja nefndinni allt það lið sem til þarf og þá þekkingu sem myndast hefur sérstaklega við gerð frumvarpsins þar sem þetta hefur verið skoðað vel.



[16:03]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hitt atriðið sem mig langaði að spyrja um snertir kannski hjúskaparlögin í heild sinni. Ég boraði mig dálítið ofan í forsögu hjúskaparlaganna og þessarar undanþáguheimildar fyrir einum tveimur árum þegar ég sjálfur lagði fram frumvarp stuttu áður en þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra gerði slíkt hið sama. Það sló mig dálítið að frumvarp sem varð að lögum nr. 31/1993 — eru þetta ekki 29 ár, næstum 30 ár? — byggði mjög mikið á stöðunni á hinum Norðurlöndunum í þessum málum. Eðlilega berum við okkur saman við nágrannalöndin sem hafa svipað lagaumhverfi. Á þeim tíma voru t.d. undanþáguákvæði sambærileg því sem hæstv. ráðherra leggur til að hér sé fellt úr gildi, það voru slík undanþáguákvæði í flestum hjúskaparlögum Norðurlandanna. Svo leið tíminn og þau voru felld úr gildi á öllum hinum Norðurlöndunum. Eftir stendur þessi litli hortittur á Íslandi sem á nú loksins að fella úr gildi. En þetta vekur spurninguna um hvort kannski sé kominn tími á almenna endurskoðun hjúskaparlaga, hvort það séu kannski blettir hér og þar í lögunum sem eru farnir að úldna pínu eins og þessi, sem kalli á það að lögin í heild sinni séu tekin upp, hvort það sé verkefni sem ráðherra hafi eitthvað skoðað innan ráðuneytisins og hvort það væri eitthvað sem væri kannski vert að setja af stað á kjörtímabilinu.



[16:06]
innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur skal fúslega viðurkenna að út af sinni forvinnu þekkir hv. þingmaður þetta örugglega betur en ég, enda nýkominn í þetta ráðuneyti og ekki verið í amen-nefndinni hér í þinginu á þeim 14 árum sem ég hef verið hér. Ég get alveg tekið undir það að þegar lög eru orðin 30 ára gömul, og ég tala nú ekki um lög sem snúa að þessum málaflokki þar sem gjörbreyting hefur orðið í okkar samfélagi og öllum þeim samfélögum sem við berum okkur saman við, vestrænum samfélögum, geti verið full ástæða til að skoða það. En þá er líka bara full ástæða fyrir nefndina í yfirferð sinni um málið að tækifærið verði notað ef það eru einhver augljós atriði sem nefndarmenn vilja skoða samhliða því sem hér er lagt til, nú þegar þessi lög eru opin, og ná um það einhverri samstöðu. En ég get fyllilega tekið undir það og mun kanna hvort við förum í það að skoða almenna endurskoðun á hjúskaparlögum. Það getur verið fullt tilefni til þess.



[16:07]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna flestu því sem kemur fram í þessu frumvarpi. Það er ein breyting sem vekur upp ákveðnar áhyggjur í mínum huga og mig langaði að spyrja ráðherra hæstv. ráðherra aðeins út í það. Í frumvarpinu kemur fram að varðandi hjónaband sem stofnað er til erlendis sé möguleiki á að gera undanþágu, hafi einstaklingar báðir verið orðnir 16 ára þegar til hjónabandsins var stofnað, ef það var löglegt í því ríki þar sem hjónavígslan fór fram. Markmiðið með þessum breytingum er göfugt, sem er baráttan gegn barnahjónaböndum og því ofbeldi og útsetningu fyrir ofbeldi sem í þeim felst. En ég óttast að þarna sé að gerast það sem því miður gerist oft þegar lausnir eru lagðar til gegn kúgun og misnotkun, sem er að þær missa marks og bitna í raun fyrst og fremst á þolanda. Þarna hef ég í huga konur sem hafa verið giftar mönnum, ef við búum til dæmi, í Sýrlandi og konan hefur verið barnung að aldri þegar til hjónabandsins var stofnað. Svo brýst út styrjöld, hjónin eiga kannski börn saman en eiginmaðurinn leggur land undir fót og nær alla leið til Íslands, fær hér stöðu flóttamanns, en konan og börnin eru eftir einhvers staðar á landamærum og bíða fjölskyldusameiningar hér á landi.

Spurningin sem mig langar að beina til hæstv. ráðherra er: Telur hann það ekki vera vandamál að þarna er sú staða komin upp að hjónaband þeirra er ekki viðurkennt og þar með uppfyllir konan ekki skilyrði til fjölskyldusameiningar, jafnvel þótt hún sé orðin fullorðin og allir sáttir? Telur hæstv. ráðherra þetta ekki vera vandamál sem þörf er á að leysa? Og ef svo er, hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að slík mál verði leyst?



[16:09]
innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á í framsögu minni er lagt til að lögfest verði sú meginregla um viðurkenningu hjónavígslu sem stofnað var til erlendis, að hjónavígslur fólks yngra en 18 ára sem þar hafa farið fram verða ekki viðurkenndar hér á landi nema samkvæmt ströngum undanþágum. En gert er ráð fyrir undanþágum kannski í þeim tilfellum þar sem hv. þingmaður vitnar hér til. Er þá, eins og ég sagði áðan, miðað við að þetta eigi við óháð því hvort hjónin séu enn yngri en 18 ára þegar þau koma hingað til lands og óska viðurkenningar. Heimilt verður þó að gera undanþágu frá þessu þegar sérstaklega stendur á og ótvíræðir hagsmunir þess sem yngri var en 18 ára krefjast þess. Þannig að ég held að þetta sé mál sem yrði væntanlega skoðað alveg sérstaklega og metið út frá hagsmunum þeirra sem hér eiga undir.



[16:10]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og biðst afsökunar á að hafa kannski ekki verið alveg nógu skýr í upphafi erindis míns. Ég er hér að tala um dæmi þar sem viðkomandi einstaklingur var yngri en 16 ára þegar til hjónabandsins var stofnað. Sannarlega er það svo að því yngri sem viðkomandi var, því alvarlegra er brotið, við skulum bara kalla það það, en kannski er neyð viðkomandi þeim mun alvarlegri. Þannig að ég ætla að endurtaka spurninguna en útfæra hana þannig: Telur hæstv. ráðherra það ekki vandamál sem þarf að leysa, sú staða sem einstaklingar, sem giftust áður en þeir urðu 16 ára, yrðu í við þær aðstæður sem ég nefndi hér áðan? Og hvað telur ráðherra rétt að gera til þess að leysa þann vanda?



[16:11]
innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að slík staða yrði leyst með hagsmuni þeirra sem ættu undir eftir að farið hefði farið fram ítarleg skoðun á því og aðstæður þeirra metnar og hagsmunir metnir. Ég tel að við getum reiknað með því að í þeirri meðferð eigi að nást slíkur árangur sem hér er kveðið á um. Það er sjálfsagt fyrir nefndina að skoða í þaula hvort þetta geti orðið álitaefni sem þarf þá einhvern veginn að bregðast við í löggjöfinni, ef menn telja svo hér á þinginu.

Það er annað sem skiptir máli í allri þessari málsmeðferð af hálfu opinberra aðila og er í raun gríðarlega mikilvægt mál þegar horft er til þeirra breytinga sem hér eru boðaðar, og á við reyndar um fleiri atriði, og það er þegar farið er að fela einu sýslumannsembætti að meðhöndla þessi mál í stað þess að þau skuli vera dreifð um landið eins og sýslumannsembættin eru mörg. Með því fæst miklu samræmdari málsmeðferð og samræmdari vinnubrögð og miklu meiri þekking, sérþekking, á þessum málefnum, sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt, bæði til að auka skilvirknina og eins til þess að bæta málsmeðferð og samræma alla málsmeðferð.



[16:13]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja aðeins á stuttri ferðasögu og vona að mér fyrirgefist egóisminn með því. Þetta er ferðalag sem ég fór í vorið 2018 til New York þar sem ég sat fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna og mætti á fund sem skipulagður var í samstarfi ríkisstjórna Malaví, Sambíu og Íslands og með UN Women og Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna við Háskóla Íslands. Þessi viðburður fjallaði um barnahjónabönd og baráttuna gegn þeim. Staðreynd málsins er sú að Ísland hefur gert sig gildandi í því að berjast gegn því ofbeldi sem felst í barnahjónaböndum víða um heim og samstarfslöndin Malaví og Sambía eru góð dæmi um það þar sem, að mig minnir, yfir helmingur stúlkna eru gefnar í hjónaband áður en þær ná 18 ára aldri, oft mönnum mjög fjarri þeim í aldri, bara afgömlum körlum sem þær eru gefnar og beittar ofbeldi af árum saman. Þarna hefur íslenska ríkisstjórnin lagt af mörkum pening, sérþekkingu og aðstoð við að uppræta samfélagsmein sem nærist á eitruðum kokteil fáfræði, feðraveldis og fátæktar.

Þar sem ég sat þarna í fyrirlestrarsal í kjallara höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna í mars 2018 og hlustaði á frásagnir fólks af baráttunni rann upp fyrir mér að verkfærin sem notuð voru til að hneppa stúlkur í barnahjónabönd voru þau sömu og við erum með í íslenska lagasafninu. Það kom nefnilega fram hjá fulltrúum bæði frá Malaví og Sambíu að þar væri lagaumhverfið í rauninni alveg gott, þar væru bara ágætis hjúskaparlög. Hins vegar væru í þessum löndum ákveðin undanþáguákvæði sem hægt væri að nýta til þess að beita stúlkur þessu ofbeldi og þau eru nýtt í botn í þessum löndum. Þau eru mest nýtt í fátækustu héruðunum. Þau eru nýtt meira þegar verr gengur, þegar verr árar. Við höfum t.d. séð það og UN Women hafa bent á það og sett af stað sérstakt átak á síðustu árum að í Covid t.d. hefur orðið aukning á barnahjónaböndum vegna þess að fjölskyldur stúlkna sem eru gefnar afgömlum körlum í hjónaband fá oft eitthvað fyrir, hvort sem það er peningur eða vörur eða eitthvað annað. Þannig nærist þetta ofbeldi á eymd aðstandenda stúlknanna sem síðan eru seldar inn í þessi ofbeldissambönd.

Þarna sat ég í kjallara Sameinuðu þjóðanna og þá kviknaði hjá mér spurning: Hversu oft hefur þetta undanþáguákvæði í íslensku hjúskaparlögunum, sem er sambærilegt undanþáguákvæðum í löndum þar sem þessi hjónabönd tíðkast í miklum mæli, verið nýtt frá því að Ísland hækkaði sjálfræðisaldur í 18 ár?

Ég lagði fram fyrirspurn á 148. löggjafarþingi sem ég vil meina að sé svona kannski langamma þessa frumvarps sem við ræðum hér í dag vegna þess að þá kom í ljós að þetta var ekkert dauður lagabókstafur á Íslandi. Við vorum ekkert svo hvítþvegin í þessum málum eins og við hefðum viljað trúa, heldur var þetta undanþáguákvæði notað að meðaltali einu sinni á ári á tímabilinu 1998–2018. Síðan fékk ég nánari upplýsingar um þetta frá ráðuneytinu vegna þess að það er eðlilegt að hugsa, gott og vel, hér eru þetta aðallega stúlkur sem hafa fengið þessa undanþágu, allar 16 og 17 ára, og einn drengur, en hvað með makann? Eru þetta kannski nánast jafnaldrar sem fella hugi saman og vilja giftast og þurfa undanþágu til þess? Þá kom í ljós, þegar aldur hjónaefnis kom frá ráðuneytinu, að svo var bara alls ekki alltaf. Árin 2004 og 2005 var t.d. veitt undanþága fyrir eina 17 ára stúlku hvort ár til að giftast 31 árs karlmanni.

Við höfum ekki söguna á bak við þessi sambönd. Við vitum ekki hvað er þarna að baki en við vitum ekki heldur hvernig ráðuneytið uppfyllti þá skyldu sem á því hvílir þegar svona undanþága er veitt. Hvernig rannsakaði ráðuneytið að þarna væru stúlkurnar að ganga í hjónaband, fullkomlega óþvingað og af heilum hug? Hvernig uppfyllti ráðuneytið þá gríðarlegu ábyrgð sem felst í því að veita undanþágu í jafn mikilvægum málum og þessi eru?

Og að því ætlum við að komast vegna þess að fyrr á þessu þingi var samþykkt beiðni frá mér um skýrslu frá innanríkisráðherra um undanþágurnar og verklag ráðuneytisins í hverju tilviki, hvaða viðmið voru lögð til grundvallar, hvaða gagna var aflað og hvernig ráðuneytið rækti rannsóknarskyldu sína til að ganga úr skugga um að ekki væri um þvingun að ræða.

Það skiptir nefnilega máli núna þegar við erum að fylla í þessa glufu að við gerum upp söguna, að við gerum upp sögu þessa undanþáguákvæðis og sjáum hvort eitthvað sé af því að læra, hvort stjórnvöld hafi mögulega brugðist.

Frú forseti. Ég lagði fram frumvarp um bann við barnahjónaböndum á 151. þingi og í kjölfar þess frumvarps fékk ég skilaboð frá fólki sem þekkti til hjóna sem höfðu fengið þessa undanþágu, sem höfðu jafnvel sjálf fengið slíka undanþágu. Þó að það segi ekkert alla söguna, við erum að tala um þrjú, fjögur sambönd sem ég fékk smá innsýn í í þessum samtölum, þá er ég ekki viss um að þessi saga eigi eftir að koma allt of vel út fyrir ráðuneytið. Þarna spilar oft inn í þrýstingur frá ættingjum, sum þessara dæma eru sambönd þar sem fólk var tekið saman og farið að stunda kynlíf og jafnvel komið til barn og þá vildu foreldrarnir ekki að það barn yrði fætt utan hjónabands vegna þess að það stangaðist á við einhverjar lífsskoðanir innan fjölskyldunnar. Niðurstaðan var sú að stúlkan þurfti að ganga í hjónaband með manni sem hún átti kannski ekkert erindi í samband við til lengri tíma. Ég vona að ráðuneytið taki þessari skýrslubeiðni sem var samþykkt mjög alvarlega og horfist bara heiðarlega í augu við það hvernig þetta var framkvæmt á þessum 20 árum sem undanþágur voru veittar.

Í andsvörum áðan var aðeins rætt um þá heimild sem lagt er til að verði sett inn í lög samkvæmt 5. gr. frumvarpsins um að þegar sérstaklega standi á og ótvíræðir hagsmunir standi til þess að viðurkenna hjúskap fólks sem flytur hingað erlendis frá sé heimilt að viðurkenna þann hjúskap. Það kom ágætlega fram í andsvörum áðan hversu viðkvæmt og flókið þetta getur verið. Allsherjar- og menntamálanefnd á því verk fyrir höndum í því að ná góðri lendingu þar, annars vegar á milli þess að það sé skýrt og auðvelt að fara eftir því hvaða hagsmuna eigi að líta til, eins og bent var á í umsögnum t.d. Barnaheilla og Kvenréttindafélags Íslands þegar þetta frumvarp var lagt fram síðast, og hins vegar að túlkunin verði ekki svo þröng að hún komi niður á þeim aðila sem yngri er sem í þessu samhengi er einhvers slags þolandi og þá má ekki láta kerfið brjóta áfram á viðkomandi með of stífri lagatúlkun. Þarna er ákveðin jafnvægislist sem nefndin þarf að finna út úr.

Annars langar mig rétt að lokum að nefna annað atriði sem kemur fram í þessu frumvarpi sem ég hef nú dálítið gaman af. Það er 4. gr. frumvarpsins og snýst ekkert um barnahjónabönd heldur um það hvaða aðilar það eru sem annast könnun á hjónavígsluskilyrðum. Í dag eru það sýslumenn eða vígslumenn samkvæmt hjúskaparlögum, sem eru þá til þess bærir fulltrúar trúar- og lífsskoðunarfélaga, en í frumvarpinu er lagt til að einungis sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra annist könnun á hjónavígsluskilyrðum. Mér finnst þetta jákvætt skref og eitthvað sem ég hefði jafnvel viljað sjá víkkað dálítið út vegna þess að eins og hæstv. ráðherra nefndi er þetta spurning um gæði. Þetta er spurning um að lögfróður sérfræðingur og hlutlaus kanni það hvort hjónaefni uppfylli nauðsynleg skilyrði.

Ég held að sömu sjónarmið eigi við varðandi hjónavígsluna sjálfa, eins og við þekkjum í ýmsum nágrannalöndum þar sem hjónavígsla eða það að stofna til hjúskapar á sér einkanlega stað á kontór hjá sýslumanni þar sem farið er upp á punkt og prik eftir lagabókstaf en síðan getur fólk fengið blessun síns trúfélags þar að auki. Það gerir það bara daginn eftir eða hvað sem er og það er eitthvað sem kemur ríkinu ekkert við.

Ég held að þetta skipti máli bæði upp á gæði, eins og hæstv. ráðherra nefndi, varðandi hjónavígsluskilyrðin og ég held að sömu gæði skipti máli þegar kemur að hjónavígslunni í heild sinni upp á það að skilja á milli þeirra tengsla sem eru oft á milli trúar- og lífsskoðunarfélaga og löggjafans sem ég held að hafi ekki alltaf verið til góðs eins og við þekkjum úr baráttunni fyrir einum hjúskaparlögum, baráttunni fyrir því að viðurkenndur skyldi réttur einstaklinga af sama kyni til að ganga í hjúskap. Það er bara staðreynd að vegna þess að trúfélög og sérstaklega þjóðkirkjan höfðu svo mikið um (Forseti hringir.) hjúskaparlögin að segja þá tafðist það mál, þær lagaúrbætur, um mörg ár vegna þess að í íslenskum lögum er einstaklingum (Forseti hringir.) hjá trúfélögum gefið eitthvert vald yfir hjónabandinu sem er borgaraleg stofnun, sem er stofnun sem á að heyra undir sýslumenn. (Forseti hringir.) Ég legg til að allsherjar- og menntamálanefnd skoði að útvíkka þetta dálítið frá því sem er í frumvarpinu.



[16:29]
Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Það er mjög ánægjulegt að sjá að verið sé að taka þar á málum um barnahjónabönd sem, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á, eru stórt vandamál víða um heim. En fólki bara til glöggvunar þá er talið að ein af hverjum fimm konum eða stúlkum í heiminum hafi gengið í hjónaband sem skilgreinist sem barnahjónaband, að í dag séu um 650 milljón konur víða um heim sem hafi gifst allt of ungar.

Mig langar líka að þakka hæstv. ráðherra fyrir að opna á það að skoða fleiri atriði sem tengjast hjúskaparlögunum og langar mig sérstaklega að minnast á að hér á dagskrá er þingmannafrumvarp um breytingar á sömu lögum og það er von mín að í meðhöndlun nefndarinnar geti menn kannski fundið tækifæri til að sameina þessi tvö frumvörp í ein lög, enda tekur þingmannafrumvarpið á mikilvægum atriðum sem eru í hjúskaparlögunum sem mikil þörf er á að taka á, en það fjallar um að auðvelda lögskilnað. Það er nokkuð sem er sannarlega komið til ára sinna eins og annað í lögunum.

Mig langar bara að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma snemma fram með þetta frumvarp. Við munum styðja framgang þess hér á þinginu og vonum að allsherjar- og menntamálanefnd taki þær tillögur sem hér koma og vinni fljótt og vel úr þeim svo við getum sett ný lög sem fyrst.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.