152. löggjafarþing — 23. fundur.
loftferðir, 1. umræða.
stjfrv., 186. mál. — Þskj. 188.

[17:34]
innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um loftferðir. Frumvarpið var áður lagt fram á 151. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Er það hér lagt fram með fáeinum breytingum og uppfærslu. Í nýlega samþykktri flugstefnu, sem er hluti samgönguáætlunar, er áhersla lögð á að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur á sviði flugöryggis og styðja við frekari vöxt og framgang flugsamgangna hér á landi. Er því vel við hæfi að leggja fram frumvarp sem skapar flugsamgöngum nýja og uppfærða lagaumgjörð sem tekur mark af nútímakröfum og alþjóðlegum skuldbindingum á þessu sviði.

Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að tryggja hátt öryggisstig í almenningsflugi og frekari vöxt og framgang samkeppnishæfrar flugstarfsemi hér á landi með umhverfisvænum hætti. Frumvarpið hefur að geyma veigamiklar breytingar frá núgildandi lögum auk þess sem það felur í sér breytingar á öðrum lögum. Í hnotskurn lúta þær breytingar sem lagðar eru til að þremur þáttum. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar er varða stjórn flugmála og eftirlit. Helgast þær fyrst og fremst af breytingum sem orðið hafa á síðastliðnum árum í tengslum við aðild Íslands að Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, EASA. Er því með skýrari hætti kveðið á um verkaskiptingu Samgöngustofu og EASA í frumvarpinu. Þessi verkaskipting á rót sína að rekja til reglugerðar Evrópusambandsins 2018/1139, um almenningsflug, og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins o.fl. sem og forvera hennar.

Gerðin, sem er þriðja kynslóð svokallaðrar móðurgerðar á sviði flugöryggis hefur ekki enn verið tekin upp í EES-samninginn en drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar liggja fyrir og hafa verið send framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til umsagnar. Umfang þessarar móðurgerðar er mikið, spannar hún svo til alla þætti flugstarfsemi og tekur til bæði einstaklinga og lögaðila í almenningsflugi sem og verkefna og eftirlitsyfirvalda. Stjórnskipuleg álitaefni vegna fyrirhugaðrar upptöku og innleiðingar þessarar gerðar eru þau sömu og áður hafa komið til kasta Alþingis vegna upptöku og innleiðingar forvera hennar, þ.e. reglugerðar Evrópubandalagsins nr. 216/2008. Snúa álitaefnin fyrst og fremst að framsali tiltekins framkvæmdarvalds til EASA, sem ekki má rugla við ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA og framsali dómsvalds til dómstóls Evrópusambandsins og EFTA-dómstólsins í ákveðnum málum.

Í öðru lagi er um að ræða uppfærslu efnisákvæða loftferðalaga til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands. Á ég þá bæði við alþjóðlega samninga á sviði flugmála sem og EES-gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn eða bíða upptöku. Hér gætir fjölbreyttrar flóru skuldbindinga sem sumar hverjar taka örum breytingum. Því eru í frumvarpinu jafnframt styrktar heimildir til setningar reglugerða á þessu sviði. Í frumvarpinu er tekið tillit til samnings um sameiginlega evrópska flugsvæðið sem Ísland gerðist aðili að árið 2006 og tók gildi hvaða afmarkaða þætti varðar í desember 2017. Þessi samningur kveður á um frjálsan markaðsaðgang, staðfesturétt, jöfn skilyrði til samkeppni og sameiginlegt regluverk. Það má geta þess að auk Íslands og Noregs eru aðildarríki Evrópusambandsins aðilar að samningnum; Albanía, Bosnía-Hersegóvína, Makedónía, fyrrverandi lýðveldi Júgóslavíu, nú Norður-Makedónía, Svartfjallaland, Serbía og borgaraleg stjórnsýsla Sameinuðu þjóðanna í Kósóvó. Það er eins og hér sé verið að telja upp handboltaþjóðir. En þetta var nú útúrdúr.

Jafnframt er í frumvarpinu tekið tillit til nýs viðauka um öryggisstjórnunarkerfi við Chicago-samninginn um alþjóðaflugmál og er lagt til að komið verði á landsáætlun og aðgerðaáætlun á sviði flugöryggis sem taki mið af flugöryggisáætlun Evrópu. Þá eiga fjölmörg efnisákvæði frumvarpsins sér beina skírskotun til efnisreglna EES-gerða, bæði nýrra gerða og þeirra sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn.

Í þriðja lagi mælir frumvarpið fyrir um lögfestingu alþjóðasamnings um skaðabótaábyrgð flugrekanda, svonefnds Montreal-samnings frá 1999. Að auki er lagt til að gerðar verði ýmsar breytingar á öðrum lögum. Meginþorri þeirra breytinga varðar leiðréttingu hugtaka og tilvísana en einnig eru fáeinar efnisbreytingar. Veigamestu breytingarnar á lögum um rannsókn samgönguslysa varða skyldur nefndarinnar til að rannsaka flugslys og alvarleg flugatvik. Þá eru afmarkaðar breytingar lagðar til á tekjuskattslögum og lögum um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana, m.a. í því skyni að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA.

Virðulegi forseti. Ég mun nú gera grein fyrir meginefni frumvarpsins. Lagt er til að gildissvið loftferðalaga verði útvíkkað frá því sem nú er. Er það í samræmi við víðtækt gildissvið reglna Evrópusambandsins á sviði flugsamgangna, svo sem með tilliti til eftirlitshlutverks Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins með loftförum, aðilum og starfsemi í þriðju ríkjum og veitendum samevrópskrar þjónustu á sviði flugleiðsögu. Einnig er lagt til að lögin taki til annarra tækja og hluta sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför og sem ógnað geta öryggi loftferða. Sem dæmi um slíkt má nefna geimför og eldflaugar.

Frumvarpið fjallar einnig um ómönnuð loftför og starfrækslu þeirra. Kveðið er á um skyldu til skráningar ómannaðra loftfara að tilteknum skilyrðum uppfylltum og skráningarskyldu flugrekanda og umráðanda ómannaðra loftfara. Uppfærð hafa verið ákvæði er varða aðgang að íslensku yfirráðasvæði, m.a. með tilliti til ómannaðra loftfara, ríkisloftfara og flugréttinda, þ.e. réttar til flugs í ábataskyni um íslenskt yfirráðasvæði. Einnig er kveðið á um skyldu flugrekanda frá þriðju ríkjum til að afla sér flugöryggisvottunar Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins sem forsendu til flugs til, frá og innan Íslands.

Í kafla um stjórnun, verkefni og eftirlit á sviði flugmála er leitast við að skýra nánar og afmarka verkefni og eftirlit annars vegar Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins og hins vegar Samgöngustofu, samstarf þessara tveggja stofnana og möguleika á tilfærslu eftirlits. Jafnframt eru settar fram almennar kröfur til stjórnsýslu Samgöngustofu með vísan til fyrirliggjandi krafna sem þegar hafa verið innleiddar. Lagt er til að Samgöngustofa haldi tvær nýjar skrár, auk fyrirliggjandi skrár um íslensk loftför, annars vegar skrá um þá einstaklinga og fyrirtæki hér á landi sem starfrækja ómönnuð loftför og hins vegar skrá um tæki og hluti sem geta ferðast um loftið en eru ekki loftför.

Á sviði lofthæfis kveður frumvarpið á um nokkur nýmæli varðandi starfsemi sem háð er vottun á sviði hönnunar og framleiðslu framleiðsluvara á þessu sviði. Allt eru þetta efnisatriði sem þegar er fjallað um í fjölda EES-gerða sem þegar eru hluti EES-samningsins og hafa verið innleiddar í landsrétt.

Í VIII. kafla um flugrekstrarleyfi er lagt til að kröfur um eignarhald færist úr lögum um fjárfestingu erlendra aðila í flugrekstri yfir í lög um loftferðir. Þá er jafnframt lagt til að í stað tæmandi upptalningar á þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem varða staðfesturétt komi almennra orðalag sem vísi almennt til þeirra samninga sem Ísland hefur undirgengist.

Varðandi vottun einstaklinga eru lagðar til breytingar á lágmarks- og hámarksaldri flugmanna vissra tegunda loftfara og vottun aðila sem annast þjálfun og sem hafa staðfestu í þriðju ríkjum.

Á sviði neytendaverndar eru lagðar til breytingar á afgreiðslu kvartana neytenda og kæruréttur til ráðherra er felldur niður. Þess í stað verða úrskurðir Samgöngustofu bindandi með aðfararheimild nema sá flugrekandi eða rekstraraðili flugvallar sem kvörtun beinist gegn tilkynni innan 30 daga að hann hyggist ekki vera bundinn við úrskurð stofnunarinnar. Með lögfestingu Montreal-samningsins frá 1999 um bótaábyrgð flugrekanda er jafnframt leitast við að skapa samningsákvæðum hans traustari grundvöll.

Ákvæði um vinnuvernd flugverja í áhöfn hafa verið endurskoðuð, einkum hvað varðar vinnu- og hvíldartíma og almenna umgjörð eftirlits.

Í kafla um flugvelli eru nokkur nýmæli. Kveðið er á um vottun öryggistengds flugvallarbúnaðar og veitanda flugafgreiðslu og hlaðstjórnarþjónustu. Lögð eru til ný ákvæði um samráðsskyldu sveitarfélaga og rekstraraðila flugvallar um vöktun flugvallarumhverfis. Þá eru ákvæði um skipulagsreglur yfirfarin og uppfærð og kveðið er á um tilkynningarskyldu vegna hindrana og merkingar hindrana.

Á sviði flugleiðsögu er lagt til að nánar verði kveðið á um vottun starfsemi sem veitir flugumferð þjónustu. Gætir þar ýmissa nýmæla, svo sem svonefnda u-rýmisþjónustu og samræmda upplýsingaþjónustu sem veitt er ómönnuðum loftförum. Einnig er nánar kveðið á um vottun kerfa og kerfishluta sem miðla upplýsingum til loftfara og frá þeim og bætt er við efnisákvæðum er varða þá þjónustuþætti sem falla þar undir. Jafnframt eru ný ákvæði um skipulag og hönnun loftrýmisins, m.a. til að tryggja víðtækt samráð um þau atriði er varða nýtingu loftrýmisins sem ætlað er að gilda ótímabundið og tryggja miðlun upplýsinga um loftrýmismál.

Í kaflanum um eftirlits- og valdheimildir, þvingunarúrræði og refsingar eru almennar eftirlits- og valdheimildir styrktar og Samgöngustofu fengið vald til að leggja á stjórnvaldssektir. Kveðið er á um víðtækt bann við neyslu geðvirkra efna og Samgöngustofu veittar heimildir til eftirlits með því. Einnig er Samgöngustofu falið opinbert markaðseftirlit með vörum sem undir lögin falla, þar með talið ómönnuðum loftförum.

Virðulegi forseti. Ég hef nefnt hér helstu nýmæli frumvarpsins. Ekki gefst tími til að greina frá öllum þeim breytingum sem í því felast en ítarlega er gerð grein fyrir þeim í almennri greinargerð sem fylgir frumvarpinu. Verði frumvarpið að lögum er ekki gert ráð fyrir því að það hafi teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs. Ráðuneytið mun veita allar nánari upplýsingar um einstaka liði frumvarpsins eftir því sem óskað verður eftir.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem og 2. umr.



[17:45]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra framsöguna, að hafa náð að koma nokkuð skilmerkilega til skila 276 greina frumvarpi í stuttri og skýrri framsöguræðu. Þetta er væntanlega með umfangsmeiri frumvörpum sem þingið fær til sín og umhverfis- og samgöngunefnd á ærið verk fyrir höndum að rýna það ofan í kjölinn. En það einfaldar okkur kannski verkið að frumvarpið var lagt fram fyrir ári og við eigum því nú þegar nokkrar umsagnir sem vert er að líta til. Mig langar að spyrja ráðherra sérstaklega út í tvær þeirra, eða tvenn sjónarmið sem komu fram í fyrra sem mér sýnist ekki hafa orðið til þess að breytingar hafi verið gerðar á frumvarpinu nú á milli ára

Í fyrra andsvarinu vil ég nefna umsögn Flugfreyjufélags Íslands sem hvetur þingið eindregið til að fella flugliða undir hin almennu vinnuverndarlög, að svo miklu leyti sem unnt er miðað við þann óvenjulega vinnustað sem loftför eru. Ég sé að þetta hefur ekki verið gert í þessari annarri umferð ráðuneytisins á málinu.

Mig langar að spyrja ráðherra hvaða sjónarmið ráða því helst, hvort ekki sé athugandi að taka þessa stétt, og þá væntanlega fleiri sem tengjast störfum við loftför, undir verndarvæng laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum með því fella út það ákvæði sem undanskilur loftferðalögin þeim vinnuverndarlögum (Forseti hringir.) og sjá hvort við náum ekki þannig traustara og öruggara umhverfi utan um þennan hóp fólks.



[17:48]
innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta er sjálfsagt með umfangsmeiri lagabálkum sem lagðir eru til hér enda um að ræða heildarendurskoðun á loftferðalögum og uppfærslu á þeim til margra ára, gríðarlega umfangsmikil lög. Þegar til kastanna kemur við svona einstök mál munum við hreinlega þurfa að fá að mæta fyrir nefndina og útskýra einstaka hluti í betra tómi.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um umsögn flugliða þá hefur það verið skilningur minn að með þessum lögum sé samt sem áður verið að bæta stöðu áhafna í flugi. Þar á meðal eru verkefni er varða flugatvik sem hafa valdið veikindum hjá tilteknum hópi fólks sem hafa reyndar verið til skoðunar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. En þessi uppfærsla á lögunum, eins og ég hef fengið kynningu á, myndi skýra þá stöðu betur. Það hafa einnig átt sér stað samtöl við hóp starfsmanna, flugáhafna, um slíka hluti. Ég myndi treysta mér til að fara nánar ofan í þetta með ráðuneytinu á fundi nefndarinnar til að við áttum okkur nákvæmlega á því hvar munurinn er og af hverju ekki er komið að fullu til móts við þá umsögn sem hv. þingmaður vísar til.



[17:50]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, mig grunar að starfsfólk ráðuneytisins eigi eftir að dvelja löngum stundum hjá umhverfis- og samgöngunefnd og fara yfir álitamál í þessu máli til að við getum náð almennilega utan um þau. Ég þakka auðsýndan vilja ráðherrans til að leggja sitt af mörkum þar. Mig langar að beina sjónum að XII. kafla frumvarpsins í mínu síðara andsvari en hann varðar m.a. skipulag flugvallarsvæða. Sá kafli var harðlega gagnrýndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem tekið er undir það að mikilvægt sé að draga úr hættu á ágreiningi milli sveitarfélaga sem fara með skipulagsvald í landinu og þeirra aðila sem reka flugvelli og lagt til að úr því verði leyst með því að kveða skýrt á um að sveitarstjórn beri að eiga beint samráð við rekstraraðila flugvalla frekar en að taka beinlínis skipulagsvaldið af sveitarfélögunum, ekki bara í tengslum við flugvelli heldur líka í tengslum við fyrirhuguð flugvallarsvæði. Þetta segir sambandið vera afar misráðið fyrirkomulag og lagði á það áherslu að tillit yrði tekið til þeirra sjónarmiða áður en frumvarpið yrði að lögum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, sem fer reyndar líka með málefni sveitarfélaga, hvers vegna ekki hafi verið tekið tillit til þessara atriða við endurframlagningu málsins.



[17:52]
innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var spenntur að komast í að tala um þessi mál. Þetta er reyndar mjög áhugavert mál sem hv. þingmaður reifar hér og það er satt best að segja á margan hátt svolítið sérkennilegt hvernig umræðan hefur verið um þetta. Kannski hefur bara skort á djúpa umræðu í nefndinni. Staðreyndin er sú að hér er ekki um eitthvert nýmæli að ræða. Hér er ekki verið að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögum, hér er ekki verið að breyta túlkun eða einhverju slíku heldur er verið að tryggja að ákveðið samhengi sé í hlutunum en menn hafa ýmis breytt skipulagslögum eða lögum um loftferðir. Þetta gildir fyrst og fremst um skipulagsreglur almenningsflugvalla, þ.e. alþjóðaflugvalla hjá okkur. Í raun og veru er bara verið að skerpa á því hvernig þetta er í dag.

Það sem er áhugavert er að það er fullt af öðrum lögum sem hafa að geyma slík ákvæði sem hafa áhrif á vald sveitarfélaga með svipuðum hætti og hér er lagt til, t.d. ákvæði í raforkulögum þar sem sveitarstjórnum ber að samræma skipulagsáætlanir að tíu ára kerfisáætlun. Í vatnalögum er gert ráð fyrir að opinberar áætlanir stjórnvalda séu í samræmi við stefnumörkun um vatnsvernd, eins og kemur fram í vatnaáætlun. Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár er bindandi við gerð skipulagsáætlana samkvæmt náttúruverndarlögum og í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð eru sveitarstjórnir bundnar af efni stjórnunar- og verndaráætlunar við gerð skipulagsáætlana innan þjóðgarðsins. Þannig að setji menn skipulagsreglur sem fjalla um öryggismál, t.d. um það hve mörg háhýsi eigi að vera í nágrenni flugvalla, og þær eru birtar almenningi til að verja flugöryggi þurfa sveitarfélögin að fara eftir því og ég held þetta snúist að mestu leyti um það. Ég er sammála hv. þingmanni að þetta, eins og önnur mál, kallar á svolitla umræðu í nefndinni svo að menn séu algerlega sammála um að þeir skilji lögin rétt.



[17:55]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að ræða hér örstutt um það atriði sem við hæstv. ráðherra lukum andsvörum á sem snýst um skipulagsreglur flugvalla og samband sveitarfélaga sem fara með skipulagsvaldið á þeim svæðum og þess ráðherra sem fer með flugmál. Ég er nefnilega mjög sammála ráðherranum um að þetta sé afskaplega áhugavert mál. Við lendum æ oftar í því að sveitarfélög koma til okkar þegar frumvörp eru lögð fram og benda á að verið sé að ganga nærri skipulagsvaldi þeirra. Á síðasta vetri var það í þessu máli, frumvarpi um loftferðir og vegna frumvarps frá umhverfis- og auðlindaráðherra sem fjallaði um raflínuskipulag. Það eru hvort tveggja frumvörp sem er alveg hægt að skoða sem almenna umræðu um valdmörk stjórnsýslustiganna og skipulagsvald almennt en er auðvitað freistandi að skoða í nákvæmlega því samhengi sem þau eru lögð fram í.

Frumvarp um breytingu á lögum sem gilda m.a. um raflínur var væntanlega sett til höfuðs framkvæmdum norðan lands sem lengi hafa verið deilur um, hugsað sem leið til að komast hjá þeim deilum með því að fjarlægja ákvarðanatökuna frá sveitarfélögunum þar sem ágreiningurinn hefur verið hvað mestur. Þessi hugmynd í frumvarpi til laga um loftferðir hlýtur að skoðast í samhengi við þær viðvarandi deilur sem virðast vera milli núverandi ríkisstjórnar, eða hluta hennar a.m.k., og borgarstjórnar Reykjavíkur um Reykjavíkurflugvöll, enda var það ekki bara Samband íslenskra sveitarfélaga sem gerði athugasemd við 144.–147. gr. frumvarpsins fyrir ári. Þótt ráðherranum hafi tekist að telja upp fjögur eða fimm dæmi þar sem það eru taldir vera ríkari hagsmunir til þess að ríkið eða einhver sameiginlegur hópur sveitarfélaga fari með skipulagsvald á afmörkuðu sviði, þá eru þau dæmi ekki mörg. Í umsögn Reykjavíkurborgar segir að það sé nánast fordæmalaust að ríkið hafi takmarkað eða haft áhrif til að breyta skipulagsvaldi sveitarfélaga. Reykjavíkurborg skoðar sérstaklega dæmið um Keflavíkurflugvöll sem er kannski eðlilegt að líta til í þessu samhengi þar sem sérstakri skipulagsnefnd er falið að hafa umsjón með skipulagi innan Keflavíkurflugvallarsvæðisins. Munurinn á því fyrirkomulagi og fyrirkomulaginu sem hæstv. ráðherra leggur til er hins vegar sá að skipulagsnefndin er í samræmi við lög skipuð sex einstaklingum, þar sem þrír þeirra eru skipaðir á grundvelli tilnefninga frá sveitarfélögunum sem áður fóru með skipulagsvaldið. Þannig að þó að ríkið stígi þarna inn og taki yfir hluta skipulags innan girðingar Keflavíkurflugvallar er sveitarfélögunum haldið þar innan líka. Svo er ekki í þessu frumvarpi til laga um loftferðir.

Það sem skiptir líka máli um það hvernig fyrirkomulagið á Keflavíkurflugvelli varð til er að þær tillögur byggðu á skýrslu sérfræðinganefndar sem benti á að flugvallarsvæðið í Keflavík ætti sér ekki hliðstæðu á Íslandi, m.a. vegna þess að á flugvellinum hvíla t.d. þjóðréttarlegar skuldbindingar. Þetta er varnar- og öryggissvæði. Það sem greinir Keflavíkurflugvöll reyndar frá Reykjavíkurflugvelli er að landið undir Keflavíkurvelli er alfarið í eigu ríkisins á meðan Reykjavíkurflugvöllur — nú man ég ekki hlutfallið, á ekki Reykjavíkurborg rúman helming og ríkið tæpan helming af vellinum? Sú staðreynd ein og sér hefði maður ætlað að kallaði á náið samstarf þeirra landeigenda sem koma að Reykjavíkurflugvelli eins og birtist í þessari skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar. En reyndin hefur hins vegar verið sú að svo er alls ekki.

Það sem Samband íslenskra sveitarfélaga leggur til er ósköp einfalt fyrirkomulag sem mig undrar að ekki hafi verið litið meira til í meðferð ráðuneytisins milli þinga. Sambandið leggur það til til að draga úr hættu á ágreiningi milli annars vegar rekstraraðila flugvalla og hins vegar skipulagsyfirvalda í viðkomandi sveitarfélaga, draga úr þeim ágreiningi án þess að skerða skipulagshlutverk sveitarfélaga. Ef við lítum sérstaklega og sér í lagi á Keflavíkurflugvöll þar sem ríkið hefur tekið til sín skipulagsvaldið þá er staðan bara allt önnur þar en á öllum öðrum flugvöllum á Íslandi. Það er afstaða sambandsins að það frumvarp sem við fjöllum um hér sé ekki tilefni til fráviks af þeirri stærðargráðu sem hæstv. ráðherra leggur til. Sama er rakið í umsögn Reykjavíkurborgar við frumvarpið.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvers vegna ekki er farin mildari leið frekar en að gefa ráðherra flugmála ansi opinn tékka til þess að geta einfaldlega sett skipulagsreglur, gefið út skipulagsreglur sem gangi framar skipulagsáætlunum sveitarfélaga, þá væntanlega framar skipulagsáætlunum Reykjavíkurborgar fyrst og fremst.

Frú forseti. Ég held að þetta sé ákvæðið sem við þurfum að skoða og breyta í meðferð umhverfis- og samgöngunefndar svo ekki hljótist verra af. Nógu illa hefur gengið að halda friðinn á milli núverandi ríkisstjórnar og borgarstjórnar Reykjavíkur þegar kemur að framtíð Reykjavíkurflugvallar og það að hnýta inn ýmsum lagaheimildum sem flækja þau samskipti enn frekar er ekki því til framdráttar að hér verði sú mikilvæga þróun að flugvöllur flytji úr miðbæ Reykjavíkur og við getum þroskað þar þétta og góða byggð fyrir íbúa Reykjavíkur og landsins alls.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.