152. löggjafarþing — 33. fundur
 3. feb. 2022.
um fundarstjórn.

skipan ríkisendurskoðanda í embætti ráðuneytisstjóra.

[14:21]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær birtist á vef Alþingis tilkynning frá forseta og minnisblað frá skrifstofu Alþingis eins konar málsvarnarplagg vegna flutnings ríkisendurskoðanda í embætti ráðuneytisstjóra, ráðstöfun sem felur í sér algerlega fordæmalausa beitingu á 36. gr. starfsmannalaga. Þetta er mál sem ég tók upp á Alþingi á þriðjudag. Í kjölfarið birti umboðsmaður Alþingis fyrirspurnarbréf til ráðherra, en þar koma fram ábendingar mjög áþekkar þeim sjónarmiðum sem ég viðraði hér í þingsal. Í minnisblaði skrifstofunnar er, og hér vitna ég orðrétt í minnisblaðið, „ekki tekin afstaða til þess hvort almennt sé heppilegt að embættismaður sem kjörinn er af Alþingi til þess að gegna trúnaðarstörfum á þess vegum sé fluttur í embætti er heyrir undir ráðherra að skipa í.“

Ég skil ósköp vel að skrifstofan finni sig knúna til að taka þetta fram, forðist að leggja blessun sína yfir það fordæmi sem hér hefur verið sett. Í minnisblaðinu koma fram lagasjónarmið sem ég mun eflaust fjalla ítarlegar um síðar, en ég vil nota tækifærið hér til að benda á að 36. gr. starfsmannalaga er undantekningarákvæði frá þeirri almennu og mikilvægu meginreglu að það skuli auglýsa laus embætti. Ég tel alveg gríðarlega mikilvægt (Forseti hringir.) að Alþingi sendi skýr skilaboð um að túlka beri slíka undanþáguheimild (Forseti hringir.) þröngt. Framkvæmdarvaldið á ekki að leika sér með hana (Forseti hringir.) og löggjafinn á alls ekki að taka þátt í svoleiðis leik.