152. löggjafarþing — 46. fundur.
leit að olíu og gasi í lögsögu Íslands.

[10:48]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Helsti veikleiki Vesturlanda í viðbrögðum við innrás Rússa í Úkraínu og þeim afleiðingum sem menn sjá fyrir sér á alþjóðasamfélagið af þeim sökum, hefur verið hversu háð sérstaklega Evrópa er orku frá Rússlandi, ekki hvað síst gasi. Það hefur því verið bent á mikilvægi þess að Vesturlönd verði sjálfum sér nóg um orkuframleiðslu. Það er ljóst að það mun ekki bara gerast með því að setja upp vindmyllur um allar trissur. Það er hins vegar mikilvægt að þessi lönd nái að færast í auknum mæli úr kolabruna yfir í olíu og þó sérstaklega gas. Þess vegna er mikil umræða um það í Bandaríkjunum og mörgum Evrópulöndum núna að þau lönd sem geta, þurfi að auka orkuframleiðslu sína. Forseti Bandaríkjanna lýsti því yfir í fyrradag að hann myndi losa um verulegar varabirgðir landsins af olíu. Menn ræða nú aftur gas- og olíuvinnslu í Alaska. Í Bretlandi er mikil umræða um nauðsyn þess að nýta þær auðlindir sem þar eru, ekki hvað síst í formi gass. Norðmenn hafa nú fyrir fáeinum vikum gefið út 53 ný leitar- og vinnsluleyfi fyrir olíu og gas í norskri lögsögu. Kemur ekki til greina að mati hæstv. ráðherra að hverfa frá áformum um að leggja bann við rannsóknum og vinnslu olíu og gass í íslenskri lögsögu? Þessi áform ríkisstjórnarinnar voru aldrei skynsamleg, þau hafa ekki gert neitt fyrir umhverfið en nú er þetta líka orðin spurning um stöðu Vesturlanda í breyttum heimi.[10:50]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar segir að ekki verði farið út í olíuleit á kjörtímabilinu, en það er ekki lagt varanleg bann við því að nýta slíka möguleika í framtíðinni — sem væri annars konar ákvörðun í mínum huga. Ég tek undir það að þessa hluti þarf m.a. að skoða í samhengi við öryggismál og í því samhengi mögulega fullveldismál. En eigum við ekki að líta aðeins inn á við hérna í þinginu og horfast í augu við að það gengur ekki að Alþingi Íslendinga ljúki ekki rammaáætlun í núna að verða níu ár? Það er verið að ræða hlutina í öfugri röð ef við, án þess að ná einhverri framvindu í þeirri umræðu, erum farin að snúa okkur að olíu og gasi. Það sem blasir við okkur núna, m.a. vegna efnahagslegra áhrifa af stríðsátökunum, eru þessi ofboðslegu tækifæri sem við getum sótt innan lands, hér heima fyrir, til að nýta sjálfbæra orku til að mæta okkar orkuþörf inn í framtíðina.

Það sem snýr að möguleikanum á því að í framtíðinni verði hugsanlega hægt að nýta það sem mögulega eru olíulindir í íslenskri efnahagslögsögu ætti að koma aftar í forgangsröðinni. Það sem þessi ríkisstjórn hefur sagt er að þetta sé ekki á dagskrá. Nú hefur ríkisstjórnin lagt fyrir þingið rammaáætlun og ég held að við verðum að taka höndum saman og finna leið til að ljúka afgreiðslu hennar þannig að við getum þá farið í beinu framhaldi af því að snúa okkur að fjórða áfanganum og nýta þá kosti sem eru til staðar í landinu til sjálfbærrar orkuvinnslu.[10:52]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég er tiltölulega sáttur við þetta svar því að mér fannst hæstv. ráðherra vera svona frekar að færa sig frá því frumvarpi sem liggur nú fyrir frá ríkisstjórninni í samráðsgátt stjórnvalda, um bann við leit og vinnslu olíu og gass í íslenskri lögsögu. Þannig að við höldum úti von um að það verði þá að einhverju leyti endurskoðað. Ég get líka svo sannarlega tekið undir með hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að nýta betur umhverfisvæna, endurnýjanlega, innlenda orkugjafa, en mér finnst eiginlega ekki hægt hjá hæstv. ráðherra að skella skuldinni á þingið. Það er ekki eins og ríkisstjórnin hafi gert mikið af því að leita til þingsins og lúta stjórn þess hvað varðar það að setja mál á dagskrá og klára þau. Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki náð að klára rammaáætlun? Það er miklu frekar spurningin. Getur ekki verið að það sé vegna innbyrðis vanda í ríkisstjórninni? Önnur spurning fyrir hæstv. ráðherra varðandi viðbrögð við ástandinu nú: Kemur ekki til greina að lækka, þótt ekki væri nema tímabundið, álögur á eldsneyti til að draga úr þeim miklu verðhækkunum sem eru fyrirsjáanlegar þar hér innan lands?[10:53]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að ég legg áherslu á að við náum niðurstöðu í þinginu um rammaáætlun er kannski tilurð laganna um þetta efni, sem var í eðli sínu þverpólitísk sátt um að finna nýtt verklag til að ná utan um meðhöndlun og afgreiðslu á þeim orkunýtingarkostum sem við hefðum í landinu, hvernig við vildum flokka þá, hvaða kosti við vildum vernda til framtíðar, hverja vil vildum nýta og hverja við ætluðum að skoða betur. Ef þingleg meðferð þessara mála verður áfram í átakafarvegi þá tel ég að sjálfur grundvöllurinn fyrir löggjöfinni sé að bresta og þá er orðið stutt í að það sé eins gott að afnema þá löggjöf og snúa sér bara aftur að gamla laginu og taka einn kost fyrir í einu. Ef þingleg meðferð rammaáætlunar er áfram í pólitískum átakafarvegi er grunnhugsunin á bak við lögin ekki lengur til staðar. Þá er ekki sáttin sem lagt var upp með um að fylgja þessum farvegi. Það er þess vegna sem ég segi: (Forseti hringir.) Nú reynir á þingið. Þetta getur ekki eingöngu byggt á vilja meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna (Forseti hringir.) hverju sinni.