152. löggjafarþing — 80. fundur
 24. maí 2022.
almenn hegningarlög, 2. umræða.
stjfrv., 318. mál (erlend mútubrot). — Þskj. 453, nál. m. brtt. 781.

[23:16]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum en nú varðandi mútubrot. Með frumvarpinu er brugðist við tilmælum sem koma fram í skýrslu vinnuhóps Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, frá desember 2020 vegna fjórðu úttektar um framkvæmd Íslands á samningi um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti sem greint er frá í nefndarálitinu sem liggur fyrir.

Helstu efnisatriði frumvarpsins lúta að breytingum á 264. gr. almennra hegningarlaga í því skyni að taka af allan vafa um að ákvæðið nái einnig til mútubrota er beinast að starfsmönnum erlendra fyrirtækja í opinberri eigu með sama hætti og 2. mgr. 109. gr. laganna er almennt til erlendra opinberra starfsmanna. Jafnframt er kveðið á um breytingu á refsihámarki vegna brota gegn 109. og 264. gr. a almennra hegningarlaga. Er það annars vegar til að bregðast við tilmælum um að refsingar fyrir erlend mútubrot skuli vera sambærilegar og fyrir mútuþágur samkvæmt 128. gr. laganna, þ.e. að hámarki sex ára fangelsi, og hins vegar er kveðið á um hækkun refsihámarks til að unnt verði að beita upptökuheimild í 69. gr. b laganna þegar sakfellt er fyrir erlend mútubrot.

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til minni háttar lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með minni háttar lagatæknilegum breytingum sem lagðar eru til í nefndarálitinu.

Undir álitið skrifa auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Iða Marsibil Jónsdóttir, Birgir Þórarinsson, Jódís Skúladóttir, Hilda Jana Gísladóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson. Bergþór Ólason og Eyjólfur Ármannsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Birgir Þórarinsson var fjarverandi en nýtti sér heimildarákvæði til að skrifa undir nefndarálitið.

Ég tel þetta skýra sig sjálft og er framhald af því sem við höfum verið að fást við núna í einhvern tíma hér á þingi.