152. löggjafarþing — 90. fundur.
hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. , 2. umræða.
frv. meiri hl. um.- og samgn., 699. mál (geymsla koldíoxíðs). — Þskj. 1050, nál. m. brtt. 1207.

[21:25]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti sem inniheldur einnig breytingartillögu frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Nefndin fjallaði að nýju um málið en þetta er mál sem nefndin flytur og meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar lagði fram. Tvær umsagnir bárust við málið, önnur frá Carbfix ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur saman og hin frá Landsvirkjun.

Með frumvarpinu er brugðist við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA til að tryggja fullnægjandi innleiðingu á tilskipun 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jörðu. Þannig er lagt til að í staðinn fyrir hugtakið „niðurdælingu“ sem kveðið er á um í lögunum komi „geymsla“ til að orðalag sé til samræmis við tilskipunina.

Nefndin hefur fjallað um málið, á ný eins og ég kom inn á, og áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að samræma orðalag við tilskipun ESB og tryggja fullnægjandi innleiðingu tilskipunarinnar. Það tryggir tengingu við viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir og skapar fjárhagslegan hvata til niðurdælingar og geymslu koldíoxíðs með þeim umhverfislega ábata sem af því hlýst.

Meiri hlutinn leggur til fáeinar viðbótarbreytingar sem eru þá allar í samræmi við þær breytingar sem við erum að leggja til í frumvarpinu. Það kom í ljós í yfirlestri að það átti eftir að breyta orðalaginu á fleiri stöðum. Því eru þessar breytingar til að tryggja samræmi og leggur meiri hlutinn til að málið verði samþykkt með þeim breytingum. Þær breytingar liggja fyrir í nefndaráliti þessu.

Undir nefndarálit þetta skrifa, ásamt þeim sem hér stendur, Bjarni Jónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Njáll Trausti Friðbertsson, Orri Páll Jóhannsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.



[21:27]
Daði Már Kristófersson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Hér er um mjög jákvæða hluti og mikilvæga að ræða og það er mjög ánægjulegt að það sé þannig tilviljunum háð að ég standi hér til að geta tjáð mig í tengslum við þessa lagasetningu. Þetta fyrirtæki, Carbfix, sprettur út úr rannsóknum og samstarfi Jarðvísindadeildar Háskóla Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur og er með nokkuð nýstárlegum hætti að stíga skref til að draga úr þeim mikla vanda sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna hækkunar styrks koltvísýrings í andrúmsloftinu. Þetta flokkast undir það sem við getum kallað mótvægisaðgerð. Hugmyndin gengur út á að fanga með einum eða öðrum hætti koltvísýring og koma honum fyrir — í frumvarpinu er notað hugtakið geymsla en þeir sem þekkja til verkefnisins vilja frekar nota hugtakið förgun vegna þess að ólíkt lausnum sem sumar af okkar nágrannaþjóðum bjóða upp á, þar með talið Norðmenn, þá er hér ekki um geymslu að ræða í neinum skilningi þess orðs heldur er þeim koltvísýringi, sem veitt er í gegnum það ferli sem þróað hefur verið í þessu samstarfsverkefni, dælt ofan í jarðlög þar sem hann umbreytist í steindir og er geymdur, ef við viljum nota það orð, á jarðsögulegum tíma, sem ég hygg að séu svo löng tímabil að við myndum ekki flokka það sem geymslu í neinum eðlilegum skilningi heldur miklu frekar förgun. Ef við kæmum bílnum okkar fyrir í geymslu og hefðum aðgang að honum eftir milljón ár þá er ég hræddur um að það væri förgun í okkar huga.

Í þessari framsæknu lagasetningu Alþingis felast gríðarleg tækifæri fyrir Ísland. Þannig vill til að Ísland er einkar heppilegur staður af jarðfræðilegum ástæðum til að stunda þá starfsemi sem hér er verið að liðka fyrir og gera það með hætti sem gagnast mannkyninu öllu en líka íslensku atvinnulífi. Hér skapast þá tækifæri til þess að nýta náttúruleg ferli til að skapa verðmæti og þá verðmæti með aðferðum sem hvergi annars staðar eru í boði. Ég nefndi aðeins áðan að nágrannaþjóðir okkar, eins og t.d. Norðmenn, hafa verið að bjóða sambærilega þjónustu. Í þeirra tilfelli er raunverulega um geymslu að ræða þar sem koltvísýringnum er dælt niður í olíulindir, svona svolítið eins og að blása honum ofan í stóra flösku, skrúfa tappann á og vona það besta, á meðan í tilfelli Íslands er, eins og ég vék áður að, beinlínis verið að taka þennan koltvísýring úr umferð og losun hans mun ekki geta átt sér stað, ekki sömu atómanna, nema á jarðsögulegum tíma, sem í öllum eðlilegum skilningi okkar á tíma er hreinlega varanleg lausn.

Tækifærin eru mjög umfangsmikil og það verkefni sem þarf kannski sérstaklega á því að halda að þessi lagabreyting eigi sér stað heitir Coda og er samstarfsverkefni allnokkurra aðila. Það snýst um að flytja koltvísýring frá þeim uppsprettum sem er að finna annars staðar, dæla honum á land á Íslandi og farga honum með þeim hætti sem ég hef áður lýst, og koma upp nauðsynlegum innviðum sem þarf til að þessi starfsemi geti átt sér stað. Þetta verkefni er staðsett í Straumsvík og mun verða lyftistöng fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum. Það er hluti af þeirri nýsköpun sem er þar að eiga sér stað og er jákvætt fyrir atvinnulífið þar.

Coda mun út af fyrir sig sem verkefni ná umfangi sem slagar í heildarkolefnislosun Íslands. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því, í alþjóðlegu samhengi er losun Íslands ekki umfangsmikil, en þetta verkefni er gríðarstórt á íslenskan mælikvarða. Það er mjög mikilvægt að íslensk nýsköpunarfyrirtæki njóti þess að stundum eru boðferlar og ákvarðanatökuferlar á Íslandi stuttir. Ég vil því sérstaklega mæra þá sem að þessu máli hafa komið hér í þinginu fyrir að afgreiða það hratt og örugglega og tryggja þannig að það tæknilega forskot sem þetta fyrirtæki hefur nýtist fyrirtækinu í uppbyggingu á grænni atvinnustarfsemi eins og hún verður best.

Það er líka ástæða til að nefna að það er mjög mikilvægt fyrir fyrirtæki eins og Carbfix og verkefnið Coda að kolefnisspor verkefnisins sjálfs sé sem minnst. Það er þess vegna, veit ég, í bígerð að finna lausnir á því að haga flutningum á koltvísýringnum með eins vistvænum hætti og mögulegt er, sem þýðir að verkefnið getur líka nýst sem hluti af þróunarvinnu við orkuskipti í sjávarútvegi. Það eru stór flutningaskip á vegum dansks flutningafélags sem verða notuð í þetta verkefni og hugmyndin er sú að breyta gamaldags aflvélum þeirra skipa með þeim hætti að þau geti nýtt endurnýjanlega orku. Auðvitað væri best að sú orka væri framleidd á Íslandi eða úr íslensku hráefni og þá íslenskri raforku sem væri umbreytt í efnaorku. Það er umhugsunarefni, þó að þetta tengist ekki þessu verkefni með beinum hætti, að kanna með hvaða hætti Alþingi getur stutt við þá þróun vegna þess að það mun ekki einungis nýtast þessu verkefni, sem ég tel að sé, eins og ég hef margítrekað nefnt hér, gríðarlegt framfaraskref, heldur líka í orkuskiptum í sjávarútvegi þar sem við sitjum raunverulega uppi með umtalsverðan kostnað eða umtalsverða fjárfestingu í þeim skipaflota sem þegar er til staðar. Og ef hægt er að finna lausnir í tengslum við nýsköpunarverkefni eins og Coda þar sem sú tækni sem þar er þróuð nýtist þá í gömul skip með gamlar aflvélar til að keyra þær á eldsneyti sem hægt er að búa til úr sjálfbærri, endurnýjanlegri orku, væru það auðvitað mjög miklar fréttir og myndi styðja mjög við áform Íslands í losunarmálum almennt. Við vitum að sú tækni mun einnig mögulega geta nýst í þeim hluta flutningskerfisins á landi sem ekki er hægt að rafvæða með núverandi tækni.

Þess vegna er full ástæða til að blása þingheimi eldmóð í brjóst eftir að hafa fjallað um þau tækifæri sem hér eru og ítreka að mikilvægt er að Ísland viðhaldi þessu frumkvæði sínu, bæði einfaldlega vegna vilja okkar til að búa komandi kynslóðum ásættanleg skilyrði á jörðinni, en líka til þess að skapa Íslandi tækifæri sem uppsprettu að leiðum til lausnar þessum umfangsmikla vanda sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir. Til að draga þetta saman þá er mjög ánægjulegt að fá að vera í þessum sal og fá að taka þátt í ákvörðunum varðandi þetta mikla þjóðþrifamál sem ég er sannfærður um að þeir þingmenn sem það munu styðja geti verið stoltir af að hafa tekið þátt í á komandi árum.