152. löggjafarþing — 92. fundur.
tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 692. mál (hækkun hlutfalls endurgreiðslu). — Þskj. 1314.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[22:31]

[22:28]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka þinginu kærlega fyrir góð vinnubrögð við afgreiðslu þessa frumvarps. Þetta frumvarp þýðir að kvikmyndagerð á Íslandi er orðin samkeppnishæf aftur þegar við berum okkur saman við önnur ríki. Ríkisstjórnin stefnir að því að fjölga störfum í hinum skapandi greinum og er þetta risastór aðgerð í þeirri vegferð. Að auki vil ég kærlega þakka atvinnuveganefnd sem brást hratt og örugglega við frumvarpinu og mér heyrist að þetta sé að verða einhver svona uppáhaldsnefnd ráðherra. Ég vil líka segja að nefndin hefur staðið sig vel en ég á mjög erfitt með að gera upp á milli nefnda. Kærar þakkir.



[22:29]
Hildur Sverrisdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við megum vera stolt af þróun kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi. Endurgreiðslukerfið hefur farið stigvaxandi undanfarin ár og kerfið þykir almennt gott og samkeppnishæft í stuðningshlutfalli, einfaldleika og áreiðanleika. Með þessu frumvarpi vill ráðherra gera enn betur og freista þess að fá mun stærri verkefni hingað en hafa komið áður. Það er bæði verðugt og mjög spennandi. Nefndin öll og ráðuneytið áttu mjög gott samstarf í slípingu á nokkrum atriðum sem ég tel að hafi gert gott mál enn betra og þá kannski ekki síst að gerð verði greining á áhrifum þess þannig að þegar við stígum næstu skref í þágu þessa stuðningsumhverfis þá gerum við það af enn meira öryggi í þágu kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi. Þetta er gott mál.



[22:30]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vildi koma hingað upp og lýsa einfaldlega yfir mikilli ánægju með þetta frumvarp og þetta skref sem er verið að taka. Þetta er mjög þýðingarmikið skref og ég vil hrósa bæði ríkisstjórn og ekki síður nefndinni fyrir að fara vel yfir þetta og kortleggja ákveðna þætti sem vissulega þarf að fara yfir. Það þarf að skoða ákveðna þætti til að styrkja enn betur stoðirnar undir þessa mikilvægu atvinnugrein sem kvikmyndalistin og kvikmyndaiðnaðurinn er. Ég styð þetta eindregið og vil hrósa þeim sem hafa komið að þessu máli og hlakka til að sjá hvernig eftirfylgnin og framvindan verður hvað þetta mál varðar. Auðvitað verður áhugavert að sjá m.a. hvernig þetta mál verður fjármagnað. Það verður að taka alvarlega.



Frv.  samþ. með 54 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ArnG,  ÁBG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁLÞ,  BGuðm,  BergÓ,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BJóh,  BLG,  BHar,  DME,  GRÓ,  GuðmG,  GIK,  GBG,  GHaf,  HHH,  HallM,  HVH,  HJG,  HildS,  IÓI,  JFF,  JPJ,  JónG,  JSV,  KJak,  KGaut,  LA,  LRS,  LínS,  NTF,  OPJ,  ÓBK,  RBB,  SGuðm,  SDG,  SES,  SIJ,  SVS,  SvanbH,  SSv,  TBE,  TAT,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞKG,  ÞSÆ,  ÞSv.
2 þm. (DMK,  GE) greiddu ekki atkv.
7 þm. (BjarnJ,  EÁ,  GÞÞ,  HSK,  JFM,  SÞÁ,  ÞórP) fjarstaddir.