152. löggjafarþing — 92. fundur.
loftferðir, 2. umræða.
stjfrv., 186. mál. — Þskj. 188, nál. 1288, nál. m. brtt. 1290, breytingartillaga 1289.

[00:04]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um loftferðir. Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög um loftferðir taki gildi. Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að tryggja reglugerð (ESB) nr. 2018/1139 lagastoð, auk afleiddra gerða, sem á að setja lög sem taka mið af þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. Þá lýtur meginefni frumvarpsins að öryggi í flugsamgöngum.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og barst fjöldi umsagna. Greint er frá því í nefndaráliti en það liggur frammi. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hlutinn árétta sérstaklega að nefndin fjallaði um nauðsyn þess að veita grunnreglugerð ESB á sviði flugöryggis lagastoð og hvort slíkt væri annmörkum háð með tilliti til ákvæða stjórnarskrárinnar í ljósi þeirrar aðkomu erlendra aðila að framkvæmdarvaldi og dómsvaldi sem reglugerðin felur í sér. Með hliðsjón af því svigrúmi sem löggjafinn hefur til mats á túlkun stjórnarskrárinnar var það hins vegar mat meiri hluta nefndarinnar að frumvarpið væri í samræmi við hana.

Með auknu umfangi grunnreglugerða ESB á sviði flugöryggis er ljóst að breytingar á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, eru mikilvægar í ljósi skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum. Við umfjöllun nefndarinnar vöktu nýir efnisþættir frumvarpsins spurningar sem tengdust framsali valdheimilda á sviði framkvæmdarvalds og dómsvalds.

Líkt og fram kemur í niðurstöðu álitsgerðar sem barst nefndinni liggur þó fyrir að á grundvelli núgildandi laga um loftferðir, nr. 60/1998, hafa nú þegar verið innleiddar Evrópureglugerðir sem geyma að mörgu leyti valdheimildir sem eru sambærilegar við þær sem frumvarpi þessu er ætlað að veita frekari lagastoð fyrir. Um er að ræða afmarkaða aðkomu erlends aðila að mjög afmörkuðu sviði og í stað þess að vera íþyngjandi fyrir íslenska aðila er það mat meiri hlutans að innleiðing reglugerðar (ESB) 2018/1139 sé mikilvæg forsenda fyrir samkeppnishæfni íslenskra flugfélaga, rekstri flugvalla, flugleiðsögu og annarra aðila sem starfa á markaðnum. Í því sambandi áréttar meiri hlutinn að virk samkeppni í flugi og afleiddri þjónustustarfsemi sem tengist henni er ein forsenda efnahagslegrar velsældar og samkeppnishæfni nútímasamfélags.

Að teknu tilliti til framangreinds leggur meiri hlutinn áherslu á svigrúm löggjafans til að leggja mat á það hvernig þátttöku Íslands í alþjóðlegri samvinnu skuli háttað ef hún er til hagsbóta fyrir land og þjóð.

Þá fjallaði nefndin um athugasemdir sem bárust og lutu að starfskjörum flugverja. Mat meiri hlutans var hins vegar að ekki væri um að ræða vandkvæði sem leyst yrðu með breytingum á frumvarpinu þar sem umfjöllun um efni þess varðar fyrst og fremst öryggismál. Þó vekur meiri hlutinn athygli á mikilvægi þess að leiða sé leitað til að bregðast við ábendingum umsagnaraðila er varða ráðningarkjör og eftirlit með skráningu heimahafnar.

Jafnframt fjallaði nefndin ítarlega um 159. gr. þar sem kveðið er á um bakgrunnsskoðun einstaklinga til að komast inn á haftasvæði. Meiri hlutinn taldi hins vegar ekki tilefni til að gera breytingu á ákvæði frumvarpsins hvað þetta varðar, að frátalinni breytingu í 6. mgr. ákvæðisins er varðar synjun bráðabirgðaákvæðis. Meiri hlutinn leggur áherslu á að ákvæðið er mikilvægt, t.d. til að koma í veg fyrir hvers kyns hryðjuverk og aðrar ólögmætar aðgerðir.

Nefndin fjallaði að auki um stöðvun loftfars vegna ógreiddra gjalda á grundvelli 198. gr. frumvarpsins vegna gagnrýni sem barst nefndinni með umsögnum. Að mati meiri hlutans er hins vegar ekki ástæða til að bregðast við henni í ljósi þeirra hagsmuna sem ákvæðinu er ætlað að tryggja. Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn til breytingu á 198. gr. frumvarpsins þannig að gjöld til rekstraraðila flugvalla vegna þjónustu og flugleiðsögu verði áfram tryggð með lögveði í loftförum eða loftfarshlutum eiganda eða umráðanda loftfars sem skráð er hér á landi.

Þessu til viðbótar eru helstu breytingar meiri hlutans tvær. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á reglugerð um flutning hergagna með loftförum, þ.e. 112. og 115. gr. frumvarpsins. Að mati meiri hlutans er mikilvægt að bregðast við umsögn utanríkisráðuneytis er varðar 4. mgr. 112. gr. og tryggja að reglugerð um flutning hergagna með loftförum, nr. 464/2019, haldi gildi sínu. Með hliðsjón af því leggur meiri hlutinn til breytingu á ákvæðinu. Þá leggur meiri hlutinn til að s-liður 115. gr. frumvarpsins falli brott svo að samræmis sé gætt í frumvarpinu og skýrt verði að það sé ráðherra varnarmála sem hafi heimild til setja reglugerð er varðar hergagnaflutning.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar skipulagsreglur flugvallar, 146. gr. og 147. gr., til að koma til móts við gagnrýni er laut að því að frumvarpið tæki ekki mið af sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga í ljósi lítillar aðkomu þeirra að setningu reglnanna. Í þágu öryggis flugsamgangna er í 146. gr. frumvarpsins lagt til að ráðherra sé heimilt að setja sérstakar skipulagsreglur fyrir flugvöll sem opinn er almenningi en sambærileg ákvæði eru í gildandi lögum. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að tryggja að loftrými umhverfis flugvallarsvæði sé án hindrana, auk þess sem áréttað er að skipulagsreglur flugvalla séu rétthærri skipulagsáætlunum sveitarfélaga þegar tryggja skal flugöryggi á flugvöllum og við þá.

Við umfjöllun málsins í nefndinni kom fram nokkur gagnrýni á framangreint fyrirkomulag og var því m.a. haldið fram að skipulagsreglur flugvalla sem gengju framar skipulagsáætlunum sveitarfélaga samrýmdust ekki stjórnarskrárbundnum sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga, samanber 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Þá væri um ólýðræðislegt fyrirkomulag að ræða með hliðsjón af því að þannig væri ákvörðunarvald í skipulagsmálum fært fjær þeim sem málið varðar.

Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að sveitarfélög ráði málefnum sínum sjálf en leggur jafnframt áherslu á nauðsyn þess að í öllum flugsamgöngum séu öryggissjónarmið í hávegum höfð. Af því leiðir að við gerð skipulagsreglna flugvalla þarf að vera skýrt ferli sem bæði tryggir öryggi í flugi og veitir sveitarfélögum skýra aðkomu að mótun þeirra.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat meiri hlutans að rétt sé að fella brott 2. málslið 1. mgr. 146. gr. þar sem ákvæði 1. málsliðar taki bæði til nýrra flugvalla og þeirra sem fyrir eru og ljóst að ákvörðun um staðsetningu nýs flugvallar verði ekki tekin með setningu skipulagsreglna. Samhengisins vegna er talið rétt að flytja efni 3. mgr. 146. gr. í 147. gr. frumvarpsins.

Í 147. gr. frumvarpsins leggur meiri hlutinn til að sérstakur starfshópur ráðherra, með þátttöku Samgöngustofu, rekstraraðila flugvallar og viðkomandi sveitarfélaga, skuli vinna tillögu að skipulagsreglum flugvallar og annast samráð vegna þeirra. Telur meiri hlutinn eðlilegt að í reglugerð verði kveðið nánar á um hlutverk slíkra starfshópa og að jafnræðis verði gætt við skipan þeirra þannig að í þeim eigi sæti að lágmarki einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi sem málið varðar en þó aldrei færri en tveir fulltrúar sveitarfélaga. Þá er lagt til að skýrt sé kveðið á um að markmið skipulagsreglna flugvalla sé að tryggja flugöryggi með fullnægjandi hætti með sem minnstum takmörkunum á skipulagi þeirra svæða kringum flugvöllinn sem reglurnar taka til. Telur meiri hlutinn að með þessum hætti megi tryggja sveitarfélögum beina þátttöku í undirbúningi og gerð skipulagsreglnanna og að skipulagsreglurnar feli ekki í sér meiri takmarkanir á skipulagi svæða í nágrenni flugvalla en nauðsynlegt er vegna flugöryggissjónarmiða.

Einnig er tekið fram með skýrum hætti að sveitarfélögum beri að gæta þess að skipulagsáætlanir þeirra og aðrar ákvarðanir á grundvelli skipulagslaga samræmist skipulagsreglum flugvalla eftir að þær hafa verið settar og að skipulagsreglurnar gangi þannig framar skipulagsáætlunum sveitarfélaga á sviði flugöryggis.

Þá eru lagðar til minniháttar eða lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Vísast að öðru leyti til ítarlegrar umfjöllunar um breytingartillögur í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar hafa verið sem gert hefur verið grein fyrir og lagðar eru til á þingskjali 1289.

Undir álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Bjarni Jónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Helga Vala Helgadóttir, Ingibjörg Ísaksen, Orri Páll Jóhannsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Jafnframt hafa Jakob Frímann Magnússon og Bergþór Ólafsson, áheyrnarfulltrúar í nefndinni, lýst sig samþykka áliti þessu.

Frú forseti. Frumvarp þetta um loftferðir telur hátt í 300 síður og 286 gr. Þetta er umfangsmikið og varðar grundvallarhagsmuni í íslensku samfélagi. Hér er um svokallaða móðurlöggjöf að ræða. Markmið laganna er að stuðla að og tryggja öruggar, greiðar og skilvirkar flugsamgöngur að teknu tilliti til neytendaverndar, umhverfissjónarmiða og þjóðréttarlegra skuldbindinga.

Frú forseti. Ég hef lokið máli mínu.