153. löggjafarþing — 16. fundur
 13. október 2022.
orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega, fyrri umræða.
þáltill. SÞÁ o.fl., 88. mál. — Þskj. 88.

[14:39]
Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega. Með þessu máli er Alþingi að álykta að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að gera úttekt á kostnaði við að koma upp orlofshúsum fyrir örorkulífeyrisþega á völdum stöðum á Íslandi. Horft verði sérstaklega til orlofshúsa verkalýðshreyfingarinnar sem fyrirmyndar. Úttektin verði unnin í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Lagt verði mat á þörf, umfang, kostnað og mögulegar fjármögnunarleiðir. Svo er lagt til að ráðherra kynni Alþingi niðurstöður úttektarinnar eigi síðar en í janúar 2023. Það gefur hæstv. ráðherra góðan tíma í að fara í þetta verkefni. Meðflutningsmenn mínir á þessu frumvarpi eru allnokkrir. Það eru hv. þingmenn Orri Páll Jóhannsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Inga Sæland, Jóhann Friðrik Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Halldóra Mogensen, Þórarinn Ingi Pétursson, Jóhann Páll Jóhannsson, Oddný G. Harðardóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson, og Jódís Skúladóttir.

Þessi þingsályktunartillaga hefur verið lögð fram nokkrum sinnum áður og er nú lögð fram aftur án breytinga. Ég ætla ekki að lesa greinargerðina frá orði til orðs en mig langar að stikla á stóru í nokkrum atriðum sem skipta máli og ég tel að séu til rökstuðnings fyrir því af hverju eigi að ráðast í úttekt til þess að við vitum hvað þarf til til þess að koma upp orlofshúsnæði fyrir örorkulífeyrisþega. Ég held að við þekkjum það öll og vitum hversu nauðsynlegt það er að brjóta upp hversdaginn og komast í frí. Það þekkja líklega mjög margir að fara í frí í orlofshús eða sumarbústað og mörg hafa inngrip í gegnum sín verkalýðsfélög sem hafa gert mikið átak í því að koma upp orlofshúsnæði fyrir félagsmenn sína. Það var meira að segja þannig í tíð stjórnar Hermanns Jónassonar á ofanverðum sjötta áratugnum að stjórnvöld stigu með ákveðnum hætti inn í orlofshúsamál verkalýðshreyfinganna með beinum framlögum í orlofsheimilasjóð verkalýðshreyfingarinnar og með loforðum um land til uppbyggingar. Niðurstaðan úr því varð myndarleg sumarhúsabyggð í Ölfusi sem var tekin í notkun á árinu 1964.

Það er hins vegar þannig að það eru ekki öll í verkalýðsfélagi. Það er sérlega algengt hjá örorkulífeyrisþegum sem margir hverjir eru ekki á vinnumarkaði og eru þar af leiðandi ekki í verkalýðsfélagi og geta því ekki notað þá leið til þess að leigja sér orlofshúsnæði. En öryrkjar þurfa auðvitað eins og allir aðrir að komast í frí og að breyta til. Þá er það jafnframt þannig að sér í lagi eldri hús, en líka oft bara nýleg hús, eru ekki nægjanlega aðgengileg þannig að það er atriði sem þarf að horfa sérstaklega til í þessari úttekt, þ.e. er að það sé ekki bara byggt heldur að að auki séu byggðir aðgengilegir sumarbústaðir og að þar sé horft til algildrar hönnunar þannig að sú tegund af skerðingu sem örorkulífeyrisþegi kann að hafa eigi ekki að skipta máli, aðgengið eigi alltaf að vera tryggt.

Þá skiptir jafnframt máli að þessi orlofshús séu á góðum kjörum vegna þess að örorkulífeyrisþegar eru margir hverjir ekki með háar tekjur og tilheyra margir hverjir raunar tekjulægri hópum samfélagsins og eiga þar af leiðandi enn erfiðara en almennt gengur og gerist með að leigja sér orlofshús á hinum frjálsa markaði. Nú er það aftur að gerast með vaxandi ferðamannastraumi til Íslands að það er erfiðara að leigja hús á frjálsum markaði og í samhengi við lögmálið um framboð og eftirspurn má vera líklegt að leigan þar hækki.

Ég tel að þetta sé gríðarlega hógvær tillaga sem ég og meðflutningsmenn mínir erum að leggja hérna fram en engu að síður mikilvæg og yrði mjög til bóta því við vitum það öll hversu endurnærandi og gefandi það getur verið að komast í umhverfi þar sem maður getur kúplað sig aðeins í burtu frá hversdeginum og notið þess að vera á nýjum stað, jafnvel nær náttúrunni, auk þess sem þetta getur verið gríðarlega mikilvæg og nauðsynleg samvera fyrir fjölskyldur og á því þurfum við svo sannarlega að halda í okkar hraða þjóðfélagi sem við búum í.

Frú forseti. Líkt og ég sagði hef ég lagt þetta mál nokkrum sinnum áður fram. Með mér núna eru allmargir meðflutningsmenn og þeir eru úr flestum flokkum hér á Alþingi þannig að ég treysti því að þetta mál njóti nokkuð víðtæks stuðnings á Alþingi. Ég vona að málið fái snaggaralega en jafnframt góða umfjöllun í hv. velferðarnefnd og að við fáum það síðar á þessum þingvetri aftur inn í þennan sal til samþykktar.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.