153. löggjafarþing — 63. fundur
 8. feb. 2023.
sérstök umræða.

sjávarútvegsmál.

[15:44]
Inga Sæland (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki, þótt þörf væri á, að ræða um þessa kolsvörtu skýrslu Ríkisendurskoðunar um laxeldið, enda veit ég að hæstv. ráðherra mun verða í Kastljósi í kvöld og segja okkur allt frá því. En ég vil byrja á því að þakka hæstv. sjávarútvegs- og matvælaráðherra fyrir að vera hér með okkur í dag og taka þátt í þessari umræðu. Mig langar að byrja á því að hefja hana á smá yfirsýn og vangaveltum um byggðakvótann svokallaða. Mér finnst ekki úr vegi að tala um hann þar sem ég veit að 5.400 tonnum hefur verið úthlutað sérstaklega til þess og markmiðið var að tryggja í rauninni afkomu veikbyggðra sjávarbyggða í kringum landið. Þá liggur næst við að spyrja: Hvað er SFS, gamla góða LÍÚ, að landa miklu af byggðakvótanum annars staðar en þar sem honum var ætlað að styðja við viðkvæmar sjávarbyggðir? Blóðtakan er slík að byggðunum er hreinlega að blæða út. Stórútgerð samþjöppunar sem kinnroðalaust sölsar undir sig allt lífsviðurværi þessara viðkvæmu sjávarbyggða, sem á árum áður voru fullkomlega sjálfbærar í rekstri sínum þar sem þeim var ekki meinaður aðgangur að nálægum auðugum fiskimiðum. Það er orðið ansi hart, virðulegi forseti, þegar þessi fiskigarkar stórútgerðarinnar stjórna hreinlega búsetuþróun hringinn í kringum landið. Þess vegna væri ekki úr vegi að hæstv. ráðherra upplýsti okkur um það hve stóran hluta byggðakvótans SFS er raunverulega að taka til sín.

Sem dæmi: Byggðakvóta var úthlutað til Þingeyrar sem Bergey átti að veiða, en raunin er sú að stórir togarar hirtu megnið af byggðakvótanum sem að megninu til hefur síðan verið unninn í Kópavogi. Byggðakvótinn á Suðureyri fer að stærstum hluta á skip, Gunnvöru, sem gert er út frá Ísafirði. Byggðakvótinn frá Djúpavogi fór á norska auðmenn sem eru í fiskeldi. Hvernig má það vera að byggðakvóta sé úthlutað til fyrirtækja í eigu erlendra aðila? Þetta var gert þvert á lög, en þegar loks komst upp um lögbrotið þá var kvótinn færður yfir til fyrirtækis í eigu innlendra aðila sem gerði í kjölfarið verktakasamning við fyrirtæki sem áður hafði ólöglega fengið úthlutað téðum kvóta. Sem sagt: leppun, eins og þar stendur. Telur ráðherra forsvaranlegt að byggðakvóti renni í jafn miklu magni og raun ber vitni til stórútgerðar? Er slíkt verklag ekki beinlínis að grafa undan markmiði byggðakvótans, þ.e. að vernda sjávarbyggðirnar?

Í öðru lagi vil ég tala um mikilvægi strandveiða fyrir viðkvæma sjávarbyggðir. Það vita allir sem vita vilja hversu nauðsynlegar strandveiðar eru fyrir hinar viðkvæmu byggðir. Hávært ákall hefur verið eftir því að tryggja þótt ekki væru nema þessa margumtöluðu 48 daga sem við höfum verið að berjast við núna allt síðasta kjörtímabil að reyna að tryggja í sessi, 12 daga á mánuði — 12 daga á mánuði í þrjá mánuði. En þeir fá ekki einu sinni að velja tímann sjálfir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað veldur? Og í raun og veru, þar sem hæstv. ráðherra ber náttúrlega höfuð og herðar yfir nákvæmlega málaflokkinn akkúrat núna: Hvað er því til fyrirstöðu? Í stað þess, eins og virðist vera samkvæmt þessum hópi sem hæstv. ráðherra skipaði, samkvæmt svokölluðum drögum sem snúa meira og minna að einhverju félagslegu, þá virðist eiga að tryggja nákvæmlega — hlutdrægir aðilar sem voru þarna, talsmenn stórútgerðarinnar í meiri hluta, gerðu lítið annað en að reyna að telja okkur trú um það í þessum drögum sínum hversu glæsilegt það væri nú hreinlega að stórútgerðin fengi að hirða til sín þessi 5,3% af heildarúthlutun aflaheimildanna.

Af því að tíminn flýgur nú svo hratt og ég er samt að reyna að tala mjög hratt en ég er verða búin með tímann þá skulum við tala líka um togveiðarnar. Það var í áraraðir sem verið var að berjast fyrir því að ná dragnót og stórum togurum með mikla aflagetu og stórum vélum og stórum trollum og öðru slíku út fyrir 12 mílur. Nú hins vegar á með einu pennastriki að henda þessu öllu haugana. Nú á hvorki meira né minna en að heimila þessum stærri aflmeiri skipun að draga hreinlega, eins og ég sagði hérna á dögunum, upp í hjónarúm, en ég meinti náttúrlega bara hreinlega upp í kálgarð, en það er nú allt í lagi.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er eiginlega alveg búinn. Ég get ekki einu sinni farið í vigtunina sem ég ætlaði að tala um, sem er nú eins ósanngjörn eins og hún mögulega getur verið. Þar er þrískipt kerfi. Það má segja í rauninni að útgerð sem stendur bæði að veiðum og vinnslu vigtar fyrir sig sjálf. Hún selur sjálfri sér, kaupir af sér aflann og kemur honum svo fyrir einhvers staðar erlendis og stór hluti af gjaldeyrinum fær ekki að koma til okkar og nýtast okkur að einu eða neinu leyti, fyrir utan það að núna … (Forseti hringir.) — Þarna var ég hálfnuð, hæstv. ráðherra. Við verðum bara að endurtaka þetta eftir hálftíma. (Matvrh.: Eða bara stöðugt.) — Stuð.



[15:49]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæðið að þessari umræðu. Eins og kemur fram í inngangi hennar verðskuldar þessi umræða alveg örugglega margar sérstakar umræður og ég treysti því að hv. þingmaður muni gefa mér tækifæri til að ræða þessi mál hér oftar. En svo ég haldi mig við efni umræðunnar, í fyrsta lagi varðandi byggðakvótann og þá umræðu, þá er mjög mikilvægt að sá hluti leyfilegs heildarafla, þ.e. þessi 5,3% sem tekin eru frá fyrir verkefni af þessu tagi, nýtist sem allra best til þess að gera það sem í upphafi stóð til; að styrkja minnstu sjávarbyggðirnar sem hafa átt hvað erfiðast með að aðlagast breytingum í sjávarútvegi og þá ekki bara þeim breytingum sem stafa af fiskveiðistjórnarkerfinu sjálfu heldur líka vegna tækniþróunar, vegna stærðarhagkvæmni og annarra slíkra þátta. Þetta eru allt saman áskoranir. Það hafa auðvitað orðið margvíslegar breytingar á smærri sjávarbyggðunum frá því að núverandi kerfi var komið á fót og það þarf að gæta að þeim breytingum og meta með hvaða hætti þessar ráðstafanir uppfylla þær væntingar sem lagt var upp með til að byrja með.

Ég vil nefna strandveiðar, af því að hv. þingmaður nefnir þær. Þeim var komið á í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna árið 2009 og aldrei hefur verið ráðstafað stærri hluta leyfilegs heildarafla í þorski til strandveiða eins og á síðasta fiskveiðiári. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir að verð væri afbragðsgott þá þurfti Fiskistofa að stöðva veiðarnar í júlí þar sem potturinn var tómur, þ.e. sá afli sem hafði verið ráðstafað þar til. En ég vil halda því til haga, af því að það hafa verið brögð að því að ekki hafi verið gætt að nákvæmni í þessari umræðu, að enginn sjávarútvegsráðherra síðustu 14 ár hefur forgangsraðað strandveiðum eins hátt eins og gert var á síðasta ári og það er töluleg staðreynd. Ég legg áherslu á að við vöndum okkur í því að fara rétt með staðreyndir í þessari umræðu.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um vigtun sjávarafla og enn og aftur er það algerlega efni í sérstaklega sérstaka umræðu að tala um mikilvægi þess að eftirlit sé samræmt í landinu hvað þetta varðar. Ég verð að segja það, ég hef ekki mikla reynslu af sjósókn, að það kom mér á óvart hversu lítið samræmi er á milli svæða og á milli sveitarfélaga hvað þetta varðar. Það leiðir auðvitað af sér alls konar vandræði ef vigtun er með einum hætti í einu sveitarfélaginu en með allt öðrum hætti í öðru sveitarfélagi. Þetta er erfitt fyrir atvinnulífið. Þetta er erfitt fyrir þær stofnanir ríkisins sem eiga að samhæfa eftirlit og þessi áskorun, svo það sé líka nefnt, er ekki bara í vigtun sjávarafla heldur líka í nánast öllu eftirliti sem bútað er niður í mismunandi sveitarfélögum, við getum nefnt heilbrigðiseftirlit, byggingareftirlit og margt mætti hér áfram telja. Það er á hendi Fiskistofu að hafa eftirlit með þessari vigtun. En þessi tillaga sem lýtur að því að samræma vigtunina er ein af þeim sem er vikið að í bráðabirgðatillögum Auðlindarinnar okkar, sem hv. þingmaður vék aðeins að. Það er rétt að geta þess að þær tillögur eru bráðabirgðatillögur og ég hef lagt á það áherslu að þær séu til umræðu og opinnar umfjöllunar og að þar hefur ekki verið tekin afstaða til efnis eða innihalds einstakra tillagna, enda eru þær sumar þannig að þær eru ekki samrýmanlegar, þ.e. ef ein er samþykkt þá er ekki hægt að samþykkja hina.

Hv. þingmaður víkur líka sérstaklega að veiðarfærum og við vitum auðvitað að áhrif veiðarfæra eru mjög misjöfn og við vitum að stór botndregin veiðarfæri eru þung og það þarf mikið afl til að draga þau og við vitum að netalínur geta skorið þara og í net geta fest sig fuglar og selir og við vitum að meiri hlutinn af plastrusli á botninum er gömul veiðarfæri. Við vitum af þessu öllu saman. En við vitum líka að við þurfum verulega á auknum rannsóknum að halda hvað þetta varðar og jafnframt að það er mikil nýsköpun og þróun í gangi í þróun veiðarfæra. Við vitum að við þurfum að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar varðandi vernd viðkvæmra vistkerfa og viðkvæmra hafsvæða en við vitum líka að okkur skortir upplýsingar hvað þetta varðar og að þar er mikilvægt að efla verulega rannsóknir.



[15:54]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Mikið ósætti ríkir meðal þjóðarinnar um eina mikilvægustu atvinnugrein okkar, sjávarútveginn. Stór hluti almennings er á þeirri skoðun að arðinum af auðlindinni okkar, fiskinum í sjónum, sé ekki skipt á réttlátan hátt. Stórútgerðin græðir og græðir og nýliðun er nær ómöguleg í hinu harðlæsta kvótakerfi. Ljóst er að þrátt fyrir að sjávarútvegurinn sé mikilvæg atvinnugrein sem skilar þjóðarbúinu miklum verðmætum þá eru verulegar úrbætur á kerfinu nauðsynlegar.

Ég er því miður ekkert sérstaklega bjartsýn á að verkefnið Auðlindin okkar muni skila raunverulegum árangri. Í besta falli verður stoppað í einstaka göt einhvern veginn til að róa okkur en stóru álitaefnin skilin eftir. Það er nefnilega svo að þau eiga að fara í umræðu á meðan minni mál, sem eru auðvitað mikilvæg líka, á að taka til framkvæmda.

Eitt af því sem bent hefur verið á er að framkvæmd við vigtun sé ekki samræmd hér á landi auk þess sem eftirlit með vigtun sé verulega ábótavant. Engin ákvæði eru í íslenskum lögum um samræmda vigtun og er útgerðinni það í sjálfsvald sett hvaða aðferð hún beitir við vigtun aflans. Grunur leikur á að svindl við vigtun viðgangist jafnvel, enda er endurvigtun á afla í höndum útgerðarinnar sjálfrar. Ég skil ekki alveg hvernig það gerðist að útgerðunum sjálfum er sýnt það traust að segja til um hversu mikið veiðist. Sú tækni sem nú þegar er um borð í nær öllum bátum og skipum sem og á vinnslustöðvum gefur nákvæmar upplýsingar um magn og þyngd afla en einhverra hluta vegna er þessi tækni ekki nýtt til eftirlits og almenningur tapar. Almenningur tapar á því að stjórnvöld taki ekki á þessu.



[15:57]
Hildur Sverrisdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Íslenskur sjávarútvegur er burðarás í atvinnulífi um land allt og leiðandi í heiminum hvað varðar sjálfbærni, þróun og arðsemi, en hann er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg. Það er því mikilvægt að gjaldheimta í sjávarútvegi dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni. Það er einnig mikilvægt að tryggja stöðugleika í rekstrarumhverfi íslensks sjávarútvegs svo greinin haldi áfram að vaxa á grundvelli sjálfbærrar nýtingar fiskstofna.

Í ljósi minnkandi fyrirsjáanleika í heimsmálum, eins og við höfum upplifað undanfarin ár, er enn mikilvægara en áður að sjávarútvegurinn hafi sveigjanleika í tilhögun veiða. Með öflugum sjávarútvegi vex einnig nauðsynleg nýsköpun og vöruþróun. Grundvöllur arðsemi sjávarútvegs mun byggja á samþættingu veiða, vinnslu og markaðar. Þessi ákjósanlega staða er þó eilífðarverkefni. Það verður að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnarkerfisins. Við verðum að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar í ljósi þess hver gæði íslenskrar fiskvöru eru fyrir stöðu greinarinnar á heimsmarkaði. Fyrir utan mikilvægi ákveðinnar festu í regluumgjörðinni verður að meta árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum.

Forseti. Á undanförnum áratugum hefur verið gripið til ýmiss konar aðgerða til að gera íslenskan sjávarútveg sjálfbæran og arðbæran þannig að óvíða í heiminum er sjávarútvegur rekinn á eins hagkvæman hátt. Þessi eftirsóknarverða staða varð ekki til úr engu heldur byggir hún á rannsóknum og ákvörðunum út frá staðreyndum þeirra. Allar breytingar á kerfinu sem til umræðu eru verða að skoðast með þetta til hliðsjónar.



[15:59]
Indriði Ingi Stefánsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Sé raunverulegur vilji fyrir hendi að styrkja byggð hjá þeim sveitarfélögum sem búa við fólksflótta vegna þess að kvótinn hefur horfið þá er lykilatriði að þær aðgerðir sem gripið er til stuðli að því að byggðirnar verði í því samhengi sjálfbærar. Tímabundnar aðgerðir eins og byggðakvóti eru í eðli sínu það, tímabundnar. Til að við getum náð árangri er lykilatriði að fólk geti gert áætlanir til lengri tíma frekar en skemmri. Þær aðgerðir sem við grípum til þurfa að stuðla að því frekar en að draga úr stöðugleika. Allt of oft hefur það gerst með lausnir eins og byggðakvóta að hann hverfur frá bæjarfélaginu og nýtist því ekki sem skyldi. Miklu frekar væri að skoða lausnir eins og frjálsar handfæraveiðar.

Við höfum líka ekki efni á því lengur að skoða ekki hvaða áhrif þær aðgerðir sem við grípum til hafa á umhverfi og loftslag. Við verðum að tryggja það, enda hefur skammsýn nálgun á togveiðar á viðkvæmu lífríki fjarða haft skelfilegar afleiðingar. Það hefur sýnt sig að afleiðingarnar af því að hafa ekki í huga umhverfi og loftslag hafa komið niður á möguleikum byggða til sjálfbærni.

Ég vil því nota tækifærið og spyrja ráðherra: Er ekki tryggt að þær aðgerðir sem gripið verður til muni stuðla að stöðugleika hjá þeim sem búa á umræddum svæðum og verða hagsmunir hvað varðar umhverfi og loftslag hafðir í huga þegar kemur að útfærslu þeirra aðgerða?



[16:01]
Halldóra K. Hauksdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Sjávarútvegurinn og þau störf sem hann skapar hafa skipt sköpum fyrir byggðir um allt land í marga áratugi. Ýmsar byggðir hér á landi hafa reitt sig á sjávarútveginn til að halda sér gangandi. Iðnaðurinn útvegar störf sem er meginstoð þess að fólk vilji og geti lifað í hverju samfélagi fyrir sig. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram að það sé markmið hennar að viðhalda og fjölga störfum í fámennari byggðum og ekki veitir af því. Flutningur sjávarútvegsiðnaðar frá smærri byggðarlögum eða mikill samdráttur getur skilið þau eftir í lamasessi sem við verðum að forðast. Við ætlum að standa vörð um fámennar byggðir, efla þær og stuðla að jafnvægi milli byggða í sveiflukenndum iðnaði. Mikilvægasta verkfæri okkar í þessum verkefnum er byggðakvótinn. Byggðakvóti styður við byggðarlög sem hafa lent í áföllum vegna breytinga á aflamarki eða samdráttar í sjávarútvegi. Einnig heldur hann heimildum í byggð og kemur í veg fyrir að iðnaðurinn hverfi úr samfélögunum. Markmiðið er að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að ítreka mikilvægi byggðakvótans nógu oft. Kvótinn hefur reynst fámennari byggðum á landsbyggðinni lífsnauðsynlegur í mörgum tilvikum, byggðum sem geta vart verið samkeppnishæfar við stærri samfélög, t.d. á höfuðborgarsvæðinu eins og staðan er í dag og þá sérstaklega varðandi atvinnutækifæri. Það er ljóst að allir eiga að njóta góðs af sjávarauðlindum okkar og það hefur lengi átt við um byggðir utan höfuðborgarsvæðisins. Með byggðakvóta getum við tryggt atvinnutækifæri á sviði sjávarútvegs í fámennari byggðum, haldið þeim í byggð og tryggt fjölbreytt störf með tilkomu mikillar grósku í nýsköpun í sjávarútvegi.



[16:03]
Hanna Katrín Friðriksson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda hv. þm. Ingu Sæland fyrir að opna á þessa umræðu og ég verð að segja að mér þykir fagnaðarefni að fleiri flokkar en Viðreisn láti sig málið varða, umbætur í sjávarútvegskerfinu. Það er ekkert launungarmál að umgjörð þessarar mikilvægu atvinnugreinar hefur verið grundvöllur ósættis og deilna áratugum saman og það kemur ekki síst niður á viðkvæmum sjávarbyggðum. Þetta er stórmál. Við byggjum lífsgæði okkar að stórum hluta á fiskveiði og sölu afurða, bæði hér á landi og á erlendum mörkuðum. Þess vegna er lífsspursmál að eyða pólitískri óvissu og ósætti sem ríkir um nýtingu þjóðarauðlindarinnar. Lausn okkar í Viðreisn er í rauninni einföld: Við viljum að nýtingarrétturinn sé tímabundinn og að markaðsgjald sé greitt fyrir aðgang að auðlindinni.

Tímabindingin er nauðsynleg til að tryggja að hér ríki ekki varanlegur einkaréttur á nýtingu auðlindar sem tilheyrir allri þjóðinni og markaðsgjaldið tryggir að afgjaldið sé gegnsætt, skýrt og í samræmi við verðmæti auðlindarinnar hverju sinni. Við náum báðum þessum markmiðum og sláum tvær flugur í einu höggi með því að setja 5% af heildarkvótanum á markað á hverju ári, boðinn upp með nýtingarrétti til 20 ára í senn. Markaðurinn sér um að greitt sé hóflegt gjald fyrir aðgang að auðlindinni. Allir eru jafnir fyrir kerfinu og öllum heimill aðgangur að uppboðinu sem uppfylla á annað borð þau skilyrði að geta gert út á Íslandsmiðum. Flest ár myndi þetta skapa ríkissjóði auknar tekjur og þess vegna leggjum við til að settur sé á fót sérstakur uppbyggingarsjóður til að efla byggð utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig tryggjum við að byggðir landsins sem standa að baki verðmætasköpun sjávarútvegsins og íbúar þeirra byggða njóti ágóðans.



[16:05]
Bergþór Ólason (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil fyrst þakka hv. málshefjanda fyrir að opna á þessa umræðu hér og ráðherra sömuleiðis fyrir þátttöku í henni. Það var tiltölulega mikil hryggðarmynd, að mér þótti, sem var dregin upp af hv. þm. Ingu Sæland hér áðan varðandi byggðakvótann og með hvaða hætti hann er hanteraður heilt yfir. Ég held að það sé nauðsynlegt að við skoðum það með opnum augum hvort ekki sé hægt að ná betri árangri með sanngjarnari og gegnsærri hætti hvað ráðstöfun 5,3% pottsins varðar. Í þessum tillögum sem nú liggja fyrir í þessu milliuppleggi nefndar hæstv. ráðherra þá er ein tillaga sem mig langar sérstaklega að nefna sem snýr að því að innan úr þessum 5,3% potti verði afnumdar svokallaðar skelbætur. Skelbætur er hugtak sem kannski ekki margir þekkja. En þetta nær aftur til ársins 2003, ef ég man rétt, þegar skelin hrynur í Breiðafirði vegna sýkingar sem þá kom upp. Síðan hafa verið rannsóknaveiðar um langa hríð sem hafa því miður ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir. En upphafið að þessu er það að 1984, hefur það væntanlega verið, voru þau fyrirtæki sem stunduðu skelveiðar þvinguð, raunverulega þvinguð, til að gefa eftir 35% af því sem í dag væru kallað þorskígildisréttindi þeirra, til að fá réttindin í skelinni. Það dytti engum til hugar að vinna mál með þeim hætti í dag. Í þessu samhengi, þó að þetta sé ekki eitt af atriðunum sem hv. þm. Inga Sæland nefndi, er nauðsynlegt að halda þessu til haga og að við skoðum 5,3% pottinn heilt yfir, út frá öllu sviðinu og reynum að forma mál þannig að hann geri sem mest gagn og sé um leið sanngjarn.



[16:08]
Hermann Jónsson Bragason (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ingu Sæland, fyrir þessa þörfu umræðu. Jafnframt vil ég þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að vera með okkur hér í dag. Ég starfaði sem sjómaður til 40 ára. Ég upplifði á ferli mínum áhrif kvótakerfisins og hvernig það færði eigendum kvótans mikil auðæfi en af þeim skilaði sér ekkert til okkar sjómanna. Ég kem frá Stykkishólmi. Þar störfuðu áður fjórar útgerðir en í dag er aðeins ein eftir. Svipaða sögu er að segja um fjölmargar sjávarbyggðir víðs vegar um land. Kvótinn er hverfull og ákvörðun útgerðareigenda um hvort kvótinn skuli seldur, leigður eða skipin flutt getur haft mikilvæg áhrif á atvinnulíf í sjávarbyggðum. Svarið við þessu ástandi liggur í augum uppi: Við þurfum að efla strandveiðar og stuðla að því að fólk fái að stunda sjálfbærar handfæraveiðar. Strandveiðar ógna ekki lífríki sjávar eða stærð fiskstofnanna. Það á að bæta við strandveiðar og byggðakvóta, ekki taka þær af.



[16:10]
Bjarni Jónsson (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Aftur og aftur blasir við okkur sá kaldi veruleiki að stórútgerðin heldur áfram að raka til sín meginþorra veiðiheimilda í landinu og grafa undan tilvist smærri fjölskyldufyrirtækja og einyrkja sem halda uppi búsetu á stöðum sem stórútgerðin hefur skilið eftir í sárum. Aftur og aftur erum við minnt á mikilvægi þess að virða rétt sjávarbyggðanna og tryggja betur byggðafestu aflaheimilda og koma í veg fyrir að smærri sjávarbyggðir séu rúnar lífsbjörginni við uppsveiflu fárra auðmanna og fyrirtækja á veiðirétti.

Ég hef áður sagt það í þessum ræðustól að það verði að grípa til aðgerða til að snúa ofan af samþjöppun veiðiheimilda. Ég hef lengi lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að svæðisskipta veiðum á grásleppu. Þær rannsóknir og sú þekking sem aflað hefur verið undanfarin ár hefur undirstrikað þýðingu þess að taka upp svæðisskipta veiðistjórn á hrognkelsum til að tryggja sjálfbæra nýtingu stofna en einnig tryggja hagsmuni viðkomandi byggðarlaga og fjölskyldna sem byggja lífsviðurværi sitt á grásleppuveiðum. Ég fagna skrefum í þá veru.

Strandveiðarnar sem komið var á í sjávarútvegsráðherratíð Jóns Bjarnasonar, ráðherra Vinstri grænna, skiptu sköpum fyrir endurreisn margra smærri sjávarbyggða vítt og breitt um landið. Vinstri græn hafa lagt á það mikla áherslu að auka frekar hlutdeild smábáta og fyrir Alþingi liggur tillaga sem ég mælti fyrir í haust, og þingflokkur Vinstri grænna stendur að, um að festa strandveiðar betur í sessi, m.a. með því að stækka í áföngum félagslegan hluta kerfisins úr 5,3% upp í 8,3%.

Ástæða er til að endurskoða úthlutun og meðhöndlun aðgerða innan kerfisins og hvernig þær veiðiheimildir nýtast sem best smærri byggðarlögum og færa stærri hluta þeirra til smærri útgerða og inn í strandveiðikerfið. Koma þarf í veg fyrir að stór hluti þeirra endi hjá stærstu útgerðarfélögum landsins sem nú þegar halda á stærstum hluta allra veiðiheimilda við Íslandsstrendur.



[16:12]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. matvælaráðherra fyrir að hefja vinnuna sem nefnist Auðlindin okkar og fyrir að hafa skipað starfshópa til að finna ásættanlegar lausnir á einu stærsta deilumáli í íslensku þjóðfélagi um áratugaskeið. Yfirráð fárra yfir fiskveiðiauðlindinni færir útgerðarrisum mikil völd eins og alþjóð veit og hefur deilt um. Vaxandi umsvif útgerðarrisa í atvinnulífinu er áhyggjuefni út af fákeppni og áhrifum þeirra á ákvarðanir í stjórnkerfinu og stjórnmálamenn, sem geta auðveldlega unnið gegn almannahag — að ekki sé talað um hótanir gegn fjölmiðlum og fjölmiðlafólki sem vega að lýðræðislegri umræðu.

Finna þarf leiðir sem vinna gegn því að kvóti safnist á fárra hendur og tryggja jafnræði milli þeirra sem treysta á fiskmarkaði og hinna sem stunda bæði veiðar og vinnslu. Þetta er fíllinn í herberginu og nauðsynlegt að tekið sé á þessu. Breytingunum til að taka á þessu ójafnvægi má ekki ýta á undan sér þar til tíminn rennur út og ekki mega heldur koma fram útvatnaðar tillögur.

Málshefjandi kom inn á vigtun afla. Við verðum í þeim efnum að efla Fiskistofu sem á að hafa eftirlit með nýtingu og meðferð auðlindarinnar en hefur því miður verið undirfjármögnuð árum saman. Ekki nóg með það, þá eru heimildir Fiskistofu ekki nægar og lög óskýr. Það skortir, frú forseti, jafnræði á milli þeirra sem treysta á fiskmarkaði til að kaupa fisk til vinnslu og hinna sem stunda bæði veiðar og vinnslu, og sjómenn sjá erlendar útgerðir selja aflann sinn á hærra verði en þær íslensku.

Við vitum að svindl hefur verið upplýst þegar ísprósenta í körum er áætluð við hafnarvog og ósamræmi er á milli endurvigtunar afla í vinnslustöðvum og vigtunar á hafnarvog. Þetta er eitt af stóru málunum í sjávarútveginum sem þarf að taka á í vinnu starfshópanna. Ég vona að þeir nái að taka líka á stóru málunum í sjávarútvegi og út úr vinnunni komi vel útfærðar tillögur til þingsins, tillögur sem breyta raunverulega valdaójafnvæginu í sjávarútveginum og tryggja meira jafnræði fyrir alla.



[16:14]
Haraldur Benediktsson (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil sömuleiðis þakka fyrir málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. matvælaráðherra að mæta hér og bregðast við. Það er flókið verkefni að fást við mótaðar leikreglur sjávarútvegs en ég sat í því verki fyrir nokkrum vikum síðan að þurfa að leita í gömlum gögnum, fletta gömlum blöðum og lesa mér til um þróun ákveðinna mála og það er ótrúlega stutt síðan við vorum með sjávarútveg sem var í fanginu á, hvort sem var ríkisstjórn eða sveitarstjórnum og bæjarstjórnum víða um landið, til að bregðast við vanda hans. Það er önnur birtingarmynd á sjávarútvegi sem blasir við úr þessum ræðustól í dag. Við höfum gripið til fjölmargra aðgerða til að efla byggðir, sjávarbyggðir í landinu. Þar hefur byggðakvótinn spilað stórt hlutverk og ég ætla ekki að gera lítið úr honum. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Bergþóri Ólasyni, sem hér ræddi um skelbætur sem er ein útgáfan af úrræðum sem voru stunduð á þessum árum. Okkur er sannarlega ekki til setunnar boðið að leysa úr þeim málum með þeim hætti og ég styð málflutning hv. þm. Bergþórs Ólasonar í þeim efnum. En hitt vildi ég líka draga fram sem hv. þm. Hildur Sverrisdóttir ræddi hér, verðmætasköpunina. Við getum í sjálfu sér farið tvær leiðir í þessu. Við getum haft hér útgerð sem einblínir fyrst og fremst á hagkvæmni veiðanna. Við höfum ekki farið þá leið. Við höfum farið þá leið að gera mikil verðmæti úr þeim afla sem við drögum að landi með því að hagræða, með því að byggja hátæknifiskvinnslu, með því að efla störfin í landi og vinna verðmæta vöru úr þessum fiski. Það leiðir síðan af sér ýmsa aðra jákvæða hvata eins og nýsköpun þar sem framleitt er fæðubótarefni úr aukaafurðum eða jafnvel lækningavörur.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég aðeins hnykkja á áliti meiri hluta fjárlaganefndar við afgreiðslu fjárlaga fyrir jólin og ræða um málefni Hafrannsóknastofnunar, (Forseti hringir.) tími minn er útrunninn, en ég hvet eindregið til þess að við grípum þar til aðgerða í tíma svo nýtt hafrannsóknaskip verði ekki bryggjuskraut í Hafnarfirði.



[16:17]
Indriði Ingi Stefánsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Sjávarútvegurinn er einn af lykilatvinnuvegum þjóðarinnar en jafnframt hefur lengi verið mikið ósætti meðal almennings hvað það varðar hvernig við rekum hann og hversu ógagnsætt eignarhaldið er. Ítrekað hefur verið kallað eftir aðgerðum eins og að fá allan afla á markað og að gefa handfæraveiðar frjálsar. Eftir því hafa margir aðilar, sérstaklega í minni byggðum, kallað. Þannig myndum við stuðla að því að fleiri fengju tækifæri til að stunda sjávarútveg og strandveiðar eru líklegri til að skapa afleidd störf í byggðum en togveiðar. Þannig yrðu samlegðaráhrifin mun meiri og líklegri til að verða gagnleg. Við þurfum líka að gæta þess að aðgerðir sem gripið er til nái til sem flestra en ekki örlítils hóps eins og blasir við þegar við skoðum gríðarlega samþjöppun eignarhalds í sjávarútvegi. Það eru líka gríðarlega mikil tækifæri sem felast í rafvæðingu hafna og því fylgja mikil tækifæri að endurnýja flotann á umhverfisvænni hátt. Því myndi líka fylgja mun meiri sjálfbærni með því að minnka þörfina fyrir innflutt eldsneyti sem gæti á sama tíma orðið mikilvægt skref í fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er líka mjög mikilvægt að við gleymum ekki að huga að eftirliti og sjáum til þess að engin þeirra aðgerða sem gripið verður til gangi með ósjálfbærum hætti á sjávarauðlindina til framtíðar.

Ég hvet ráðherra til að hafa þetta í huga við útfærslu á aðgerðum í sjávarútvegi og stuðla þannig að betri og víðtækari sátt um auðlindina ásamt því að styrkja búsetu í sjávarbyggðum með fjölbreytni að leiðarljósi. Ég hvet ráðherra til að flýta rafvæðingu hafna. Og: Allan afla á markað og gefa handfæraveiðar frjálsar.



[16:19]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Ingu Sæland, og hæstv. matvælaráðherra fyrir umræðuna. Ég ætla að ræða hér um strandveiðar og mikilvægi þeirra. Strandveiðar voru heimilaðar með lögum árið 2009 og því er komandi sumar það 15. í röðinni. Landinu var skipt upp í fjögur löndunarsvæði og var hverju úthlutað hluta af heildarheimildinni. Á þessum árum frá því að strandveiðar hófust hefur veiðin og útfærslan breyst. Veiðiheimildir hafa farið úr 3.955 tonnum, sem var fyrst, og mest fór veiðin í tæp 11.200 tonn árið 2021. Heimildin var svo lækkuð á síðasta sumri og fór í rúm 10.000 tonn vegna ráðgjafar frá Hafró. Við getum því sagt að kerfið hafi fest sig í sessi og uppfyllt markmið sín. Breytingar voru gerðar á umgjörðinni árið 2019, heildaraflamark var fyrir landið allt og var einn pottur fyrir landið í heild og öllum tryggðir 12 dagar á meðan potturinn dygði. Skýrsla Byggðastofnunar, sem gerði úttekt árið 2020 eftir þessar breytingar, leiddi í ljós að yfirgnæfandi meiri hluti strandveiðimanna var almennt ánægður með þetta nýja kerfi. Vestlendingar og Vestfirðingar voru ánægðastir með breytingarnar sem gerðar voru á strandveiðikerfinu en Norðlendingar og Austfirðingar síður þótt meiri hluti þeirra teldi breytingar á kerfinu til bóta.

Virðulegi forseti. Nú má finna frumvarp hæstv. matvælaráðherra í samráðsgátt þar sem bakka á með hluta af breytingunum og skipta landinu aftur upp í fjögur svæði. Þetta tel ég vera afturför. Þetta veldur í raun meiri misskiptingu milli landsvæða en núverandi kerfi býður upp á. Það verður erfitt að finna út hvaða magn á að fara á hvert svæði. Í gamla kerfinu gat mismunun á milli svæða verið sex veiðidagar á einu svæði en upp í 20 veiðidagar á öðru. Og kapphlaup á miðin hefst með ófyrirséðum afleiðingum. Við þurfum að hugsa þetta betur áður en við tökum skrefið.



[16:21]
Hanna Katrín Friðriksson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Hér hafa átt sér stað fínar umræður og það er fagnaðarefni að athyglinni sé beint sérstaklega að strandveiðum og mikilvægi þeirra. Þar eru að störfum smáir sjálfstæðir atvinnurekendur í afar erfiðum geira. Stefna okkar í Viðreisn samræmist hagsmunum þeirra. Áherslur okkar eru til þess fallnar að styðja við nýliðun í sjávarútvegi. Hlutverk strandveiðikerfisins er einmitt að hluta að byggja upp nýliðun og opna greinina fyrir fleirum en þeim sem eiga kvóta. Hér skipta líka máli hugmyndir Viðreisnar um uppboð 5% aflahlutdeilda til 20 ára á opnum markaði, sú lausn frelsar greinina undan því að stjórnvöld ákveði einn daginn að hækka veiðigjöld verulega og hún frelsar þjóðina undan því að stjórnmálamenn ákveði einn daginn fyrirvaralaust að lækka veiðigjöld. Almennir markaðir þar sem verðmyndun ræðst af framboði og eftirspurn blómstra. Það sama gildir ekki þegar verð eru ákveðin af nefnd embættismanna eða með lagasetningu. Slíkar ráðstafanir takmarka verðmætasköpun og hygla yfirleitt fáum á kostnað heildarinnar. Hvers vegna ætti aðgangur að fiskveiðiauðlindinni að vera verðlagður með þeim hætti? Hvers vegna ætti þjóðin ekki að njóta ágóða af auðlindinni sinni eftir lögmálum framboðs og eftirspurnar? Það er mikilvægt að ná fram sanngjörnu auðlindagjaldi sem byggist á markaðsverði og tryggir eignarhald þjóðarinnar yfir sjávarauðlindinni í stjórnarskrá með því að tímabinda samninga. Þetta er risastórt hagsmunamál sjávarbyggða. Við sjáum fyrir okkur að þessar tekjur renni til þeirra byggðarlaga sem hafa farið halloka í núverandi kerfi, að þau byggðarlög fái aukna tekjustofna til að standa undir nauðsynlegri og eðlilegri þjónustu við íbúa sína.



[16:23]
Bergþór Ólason (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Mér komu til hugar orð Gordons Gekkos í myndinni Wall Street eftir Oliver Stone frá 1987 hér áðan þegar ég var að velta fyrir mér mikilvægi arðsemi. Gordon Gekko talaði um mikilvægi græðginnar og að hún væri góð en arðsemin er ekki bara góð, hún er algjörlega nauðsynleg í þessu umhverfi. Við megum ekki gleyma því að sjávarútvegurinn var rekinn mannsöldrum saman með tapi. Það sem hefur gerst á undanförnum áratugum, eftir innleiðingu aflamarkskerfisins, er að í geiranum hefur farið að myndast hagnaður, sem betur fer. Það er enginn rekstur sem stendur undir sér og lifir og blómstrar til lengri tíma án þess að hann skili arðsemi og hagnaði. Það er alveg nauðsynlegt til að sjávarútvegurinn geti áfram fjárfest og stutt við þróun hinna ýmsu tengdu og mögulega við fyrstu sýn ótengdu þátta að þar séu rekstrarskilyrði einnig góð. Ég hef áhyggjur af því að innan 5,3% pottsins og þeirra lausna sem þar eru aðgengilegar sé kerfið að miklu leyti þannig formað að of lítið svigrúm fyrir arðsemi sé að myndast þannig að þeir sem þar starfa, í hvaða þætti þess sem kann að vera, hafi svigrúm til að byggja sig upp, festa sér varanlegar aflaheimildir og þar fram eftir götunum. Það gerist best með því að byggja kerfið þannig upp að svigrúm sé fyrir arðsemi. Þeir sem í þessu starfa verða að hafa borð fyrir báru rekstrarlega til þess að vera ekki alltaf bara eins og hamstur á hjólinu. Ég held að þetta verði að vera algjört lykilatriði í þeirri endurskoðun sem nú er að eiga sér stað og bara að við höfum alltaf í huga að það sé gert ráð fyrir arðsemi og helst góðri þannig að þeir sem starfa innan geirans geti byggt sig upp. Annars er þetta eilífðarslagur sem engu skilar. Höfum það í huga.



[16:25]
Inga Sæland (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. matvælaráðherra og öllum hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Hér hefur margt verið sagt, gagnlegt og gott. Það er eitt sem mig langar að benda á: Þegar hæstv. ráðherra talar um tölulegar staðreyndir og segir að annað eins hafi aldrei nokkurn tímann verið gert í sambandi við strandveiðarnar en í hennar tíð þá vil ég minna hæstv. ráðherra á að hennar fyrsta embættisverk í desember 2021 var að skera af þorskveiðikvótanum 1.500 tonn. Það olli náttúrlega mikilli ólgu og allt ætlaði af göflunum að ganga. Þá bætir ráðherrann ráð sitt að einhverju leyti og bætir við 1.074 tonnum. Út af standa enn þá 426 tonn. Þetta eru tölulegar staðreyndir, hæstv. ráðherra. Það er engum blöðum um það að fletta.

Það er ofboðslega dapurt að heyra að við höfum orðið að setja bremsu og hætta að veiða akkúrat þarna vegna þess að potturinn hafi verið búinn. Ég vil ítreka það hér og nú að aldrei nokkurn tíma munu nokkrir einustu líffræðingar halda því fram að krókaveiði og strandveiði og veiðar á smábátum í kringum landið eigi eftir að ógna lífríkinu í sjónum og eigi eftir að koma niður á aflamagni í sjónum. Aldrei nokkurn tíma. Það skýtur skökku við að við skulum enn vera á þeim stað að vernda arðrán stórútgerðarinnar sem fer með allt of mikið af verðmætunum okkar og gjaldeyrinum okkar úr landi í stað þess að tryggja og byggja undir sjávarplássin okkar viðkvæmu hringinn í kringum landið sem nánast er að blæða út.

Ég minni enn og aftur á Verbúðina, þann góða þátt sem var söguleg staðreynd og frábær heimildarsería, og skilst mér að verið sé að búa til nýja. Ég skora á hæstv. sjávarútvegsráðherra að taka í fangið stefnu síns góða flokks sem er nákvæmlega í þá átt að tryggja sjávarplássunum hringinn í kringum landið lífsviðurværi. Ég bara skora á hana að vera ekki næsti aðalleikari í nýrri Verbúð.



[16:28]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Það er nú verra að þurfa að elta ólar við tölur og meðferð á þeim og ég hvet hv. þingmann líka til að leggja inn skriflega fyrirspurn svo að við getum skipst á skeytum í gegnum þingskjöl. Það er þannig, af því að hv. þingmaður talar um 8.500 tonn, að við þau bættust um vorið 1.500 tonn og síðan 1.074 um sumarið þannig að niðurstaðan varð 11.074 tonn svo að því sé haldið til haga.

Annars vil ég bara þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu og hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í umræðunni sem var sannarlega mjög fjölbreytt. Við fórum allt frá því að ræða um skelbætur og arðsemi og yfir í það að tala um umhverfismál. Svo komu hér sjómenn og ræddu málið út frá sinni miklu og mikilvægu reynslu og þekkingu, út frá bæði reynslunni af byggðakvótanum og af strandveiðunum. Við töluðum um fjármögnun Fiskistofu, við töluðum um mikilvægi hafrannsókna, við töluðum um tímabundna nýtingu sem hv. þm. Viðreisnar nefndi hér. Hv. þm. Pírata nefndi í sinni ræðu mikilvægi þess að halda umhverfismálunum alltaf til haga. Hér var rætt um sjávarbyggðir, byggðafestu og margar aðrar hliðar málsins.

Fyrst og fremst voru hér jákvæð sjónarmið sem lutu að því víðfeðma starfi sem er í gangi á vegum ráðuneytis míns. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þeirri vinnu og þeim sem það hafa verið að gera en minna okkur öll á að þegar við erum að tala um svo stóran atvinnuveg sem hér er annars vegar, svona mikil og stór inngrip í auðlindir hafsins, þá er grundvöllur þessarar nýtingar alltaf þekking á vistkerfum sjávar. Við byrjum alltaf á umhverfissjónarmiðunum, svo þurfum við að gæta að arðseminni og ekki síður samfélagsþáttum. Hinar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar verða að vera þarna að leiðarljósi.

Ég þakka annars hv. þingmönnum fyrir góða umræðu, forseta fyrir góða fundarstjórn og hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu og treysti því að hún muni gera það ítrekað.