153. löggjafarþing — 122. fundur.
tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, 2. umræða.
stjfrv., 939. mál (geymsla og nýting fósturvísa og kynfrumna). — Þskj. 1469, nál. m. brtt. 1977.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[14:30]

[14:24]
Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Í dag er ég þakklát fyrir að okkur lánist að greiða atkvæði um þetta mikilvæga mál. Í dag er ég þakklát að okkur lánist að einfalda ósanngjarnar og í senn stundum sársaukafullar reglur til að hjálpa þeim sem aðstoð tæknifrjóvgunar þurfa til að eignast barn. Í dag er ég þakklát fyrir að við veitum von. Ég vil þakka nefndinni sérstaklega fyrir að hafa tekið inn í málið sjónarmið máls hv. þingkonu Hildar Sverrisdóttur til að fækka þröskuldum í lögunum. En þótt við séum hér að taka mikilvæg skref í rétta átt þá lít ég svo á að við séum einungis að hefja þá vegferð að einfalda kerfið og nefni ég hér sérstaklega kostnaðarþátttöku einstaklinga og þá staðreynd að við þurfum að heimila gjöf fósturvísa, sem getur reynst einstaklingum dýrmæt gjöf. Okkur ber skylda að móta sanngjarna löggjöf sem þvælist ekki fyrir einstaklingunum sem þurfa á aðstoð að halda til að búa til nýtt líf. Fjölskyldan er það mikilvægasta sem við eignumst.[14:26]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég vil fagna því að við erum komin á þennan stað í þessu mikilvæga, brýna máli. Hér erum við að veita einstaklingum ríkara ákvörðunarvald yfir eigin kynfrumum og fósturvísum. Við erum að draga úr þeirri mismunun sem er í gildandi lögum út frá fjölskylduaðstæðum. Ég fagna líka þeim breytingum sem birtast hér í meðförum nefndarinnar og hv. velferðarnefndar og samstöðunni um þessar mikilvægu breytingar. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur hennar málflutning og baráttu í þessu máli, en frumvarp hv. þingkonu var rætt samhliða því frumvarpi sem ég fór með fyrir þingið. Að lokum þá styð ég þessar breytingar heils hugar og þakka hv. velferðarnefnd og þinginu fyrir samstöðu í þessu gríðarlega mikilvæga máli.[14:27]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi stígum við mikilvæg skref fyrir fjölda foreldra hér á landi. Mig langar að óska þeim foreldrum til hamingju og mig langar að óska okkur til hamingju með að vera tilbúin að skoða lög og hlusta, sérstaklega á þingkonur hér inni sem hafa talað af eigin reynslu og verið óhræddar við að berjast.[14:28]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Þetta er að mörgu leyti mjög gott mál. Enn hefur þó ríkisstjórninni ekki tekist að útskýra hvað hún á við með orðinu leghafi sem birtist ítrekað í þessu máli. En í trausti þess að þegar ríkisstjórnin talar um leghafa eigi hún við konur ætla ég að styðja þetta mál. Ég er ósáttur með þessa orðnotkun en styð markmið málsins. Ég styð frumvarpið en hvað orðnotkunina varðar þá fordæmi ég þetta fordæmi.[14:29]
Friðjón R. Friðjónsson (S) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka fyrir að hér sé verið að samþykkja þetta litla mál sem skiptir samt sumt fólk svo miklu máli. Mig langar til að vitna til orða hv. þm. Jódísar Skúladóttir sem féllu í þessu máli í gær, með leyfi forseta:

„… það snýst samt um það að við séum ekki með okkar löggjöf, með okkar regluverki, sem við setjum af góðum hug, að mismuna fólki, jaðarsetja hópa, fylgjast betur með einum einstaklingi en öðrum, setja þyngri kröfur, fjárhagslegar, andlegar, líkamlegar, á einn einstakling umfram annan, því að það er ekki samfélag sem við viljum búa í.“

Við frjálshyggjufólk gætum varla orðað þetta betur og er sama hvaðan gott kemur. [Hlátur í þingsal.] Þessi góðu orð mætti þingið hafa í huga í öllum sínum verkum.

Að lokum vona ég að þingmaðurinn sem ég leysi hér af, Hildur Sverrisdóttir, leggi aftur fram sitt góða frumvarp, og betra frumvarp að mínu mati, um sama efni að teknu tilliti til þeirra góðu skrefa sem stigin eru hér nú og að þingið beri gæfu til að styðja frelsið og rétt fólks til yfirráða yfir eigin líkama. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)Brtt. í nál. 1977,1 (ný 1. gr.) samþ. með 56 shlj. atkv.

Brtt. í nál. 1977,2–4 samþ. með 54 shlj. atkv.

 2.–5. gr.,svo breyttar, samþ. með 56 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.