Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Málshefjandi var .
Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Frú forseti. Mig langar til að byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að samþykkja þessa umræðu um stöðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Staðan þar hefur verið mikið í umræðunni undanfarið, þá helst löng og oft á tíðum óboðleg bið eftir tíma hjá lækni annars vegar og síðan óhóflegt álag á heimilislækna hins vegar. Á sama tíma og Íslendingum fjölgar og þjóðin eldist með tilheyrandi vaxandi þörf á heilbrigðisþjónustu er mönnun heimilislækna í sögulegu lágmarki. Það þyrfti að þrefalda fjöldann í fullu starfi enda er nú mjög stór hluti íbúa höfuðborgarsvæðisins án heimilislæknis. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvað hefur verið gert til að mæta þessari áskorun?
Það hefur komið fram að aukin sókn er í sérnám í heimilislækningum en ekki allir skila sér á heilsugæslurnar heldur fara annað til starfa og sumir stoppa þar stutt við. Á sama tíma og þeim fjölgar sem eru án heimilislæknis er almennt viðurkennt hversu góð áhrif það hefur á heilsu fólks að eiga eigin heimilislækni þar sem samband læknis og skjólstæðings til lengri tíma er mjög fyrirbyggjandi, fækkar innlögnum á sjúkrahús, dregur úr sjúkdómum, dregur úr álagi og lengir líf. Áhrifamesta leiðin til að uppfylla þetta mikilvæga markmið er að fjölga læknum.
Önnur leið og auðvitað nátengd er að gefa læknum færi á að sinna læknisverkum frekar. Við hæstv. heilbrigðisráðherra höfum ítrekað rætt vottorða- og tilvísanafargan sem íþyngir heimilislæknum og í morgun sá ég auglýsingu frá hæstv. ráðherra á samfélagsmiðlum um hann ætli að einfalda fyrirkomulag tilvísana fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu. Þetta er jákvætt en samt bara eitt lítið skref í rétta átt, skref sem hefur tekið allt of langan tíma að stíga. Ég minni á að þessi ríkisstjórn hefur verið við völd í sex og hálft ár. Eftir sitja tilvísanir til iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga svo dæmi sé tekið. Svo eru það vottorðaskrif vegna framfærslumála, sjúkradagpeninga, endurhæfingarlífeyris örorku, hjálpartækja vegna ferðalaga með súrefni, vegna ferðalaga með hjólastóla, vegna íþrótta og leikfimi, vegna biðlista, vegna endurgreiðslu ferðakostnaðar, vegna dvalar á sjúkrahóteli, vegna barna sem þurfa sérfæði í skóla vegna ónæmis o.fl. Þetta er auðvitað ekki allt á forræði heilbrigðisráðherra en ríkisstjórn hans fær hér með enn eina áminninguna um mikilvægi þess að einfalda íþyngjandi og óþarflega þungt regluverk.
Frú forseti. Í samræmi við stefnu stjórnvalda hefur verkefnum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fjölgað jafnt og þétt síðustu ár. Borið hefur á réttmætri gagnrýni á að þetta hafi veikt kjarnastarfsemi heilsugæslunnar, sjálfa læknisþjónustuna. Í þessu samhengi er áhugavert að skoða nýja fjármálaáætlun, stefnuplagg ríkisstjórnarinnar til næstu ára. Þar er texti um framtíðarsýn og meginmarkmið fyrir heilsugæsluna og framtíðarsýnin er, með leyfi forseta, að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir sé sérstaklega hluti af þjónustu heilsugæslunnar og að heilsugæslan verði leiðandi þátttakandi í heilsueflingu og aðgerðaáætlun um lýðheilsu og forvarnir. Orðið læknir eða læknisþjónusta kemur ekki fyrir í textanum þó að við vitum að sambandið við lækni er besta forvörnin. Mér finnst ástæða til að spyrja ráðherra beint út: Er markmiðið að endurskrifa hefðbundna kjarnastarfsemi heilsugæslunnar á þann hátt að draga úr vægi heimilislækna þar?
Frú forseti. Heilsugæslan hefur ekki frekar en aðrir farið á mis við áhrif örrar tækniþróunar síðustu ára og áratuga og þar eru miklir möguleikar, en til þessa hefur gengið hægt að nýta tækifærið til að einfalda verkferla og auka skilvirkni. Rafræn samskipti hafa jafnvel frekar aukið álag á heimilislækna. Ég spyr ráðherra: Hvaða tækifæri liggja þar helst og hverjar eru helstu áskoranir?
Að lokum langar mig að beina sjónum að fjármögnunarlíkani Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem var tekið í notkun árið 2016. Markmiðið var að auka afköst, bæta þjónustu og auka nýliðun og til þess voru byggðir hvatar inn í kerfið. Allar heilsugæslur höfuðborgarsvæðisins, jafnt ríkisreknar sem einkareknar, voru fjármagnaðar á sama hátt. Fyrstu tvö árin var töluverð afkastaaukning í heilsugæslunni og hvatarnir sem voru byggðir inn í kerfið virtust virka. En þá tóku heilbrigðisyfirvöld til sinna ráða, bjuggu t.d. til sérstakan miðlægan pott utan við fjármögnunarkerfið sem var helst nýttur til að greiða niður sérstök ný verkefni sem ríkisreknu stöðvarnar tóku að sér. Afleiðingin var kerfi sem hefur færst nær flatri fjármögnun án skilgreindra markmiða og án afkastahvata. Ég spyr: Er hæstv. ráðherra sáttur við hvernig fjármögnunarkerfið hefur verið nýtt og hvernig afköst hafa verið og hvernig hvatarnir hafa nýst? Ef ekki, hvaða leiðir vill hann fara til úrbóta með fjármögnunarkerfið?
Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að taka þetta mikilvæga mál hér á dagskrá. Henni tókst að fara yfir mjög margt sem dregur fram þetta mikilvæga hlutverk sem heilsugæslan hefur, víðtæka hlutverk, og hvernig það hefur verið að breytast mjög hratt og áskoranirnar hafa stækkað.
Mönnun í heilbrigðisþjónustu, það var fyrsta spurningin. Það er eitthvað sem er alltaf með okkur, er alltaf áskorun, er alltaf viðvarandi. Það verður ekki tekið með einhverju átaki eða sparki eða á einhverjum spretti. Þetta er viðvarandi verkefni stjórnvalda og verður það áfram um ókomna tíð. Þannig er það hér á landi og það er það alls staðar annars staðar. Þegar við förum hins vegar í samanburðinn, sem við þurfum að gera, bæði yfir tíma, hvernig þetta hefur þróast í takti við verkefnin, eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir, og það hvernig staðan er alþjóðlega, þá stöndum við nokkuð vel. En þetta er jú allt spurning um viðmið.
Ég vil draga það sérstaklega fram, af því að hv. þingmaður spyr hvað sé búið að gera, að það stærsta í mínum huga sem hefur verið gert er sú vinna sem hefur verið lögð í að efla sérnám í læknisfræði hér á landi og ber að þakka og hrósa fyrir. Ég held að það hafi verið mjög mikil forsjálni þegar kemur að aðgerðum til að styrkja mönnun sem skila raunverulegum árangri og það eru sannarlega jákvæð teikn á lofti. Sú vinna hefur markvisst farið fram hér undanfarin misseri. Ég ætla að vísa í nýja reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Þar er miklu betri og skýrari umgjörð um sérnám lækna. Þetta er algjört lykilatriði til framtíðar. Þá hefur samhliða þessu verið lögð sérstök áhersla á að efla sérnám í heimilislækningum til að gera heilsugæsluna betur í stakk búna að standa undir sínu mikilvæga hlutverki.
Hv. þingmaður fór hér yfir kjarnastarfsemi heilsugæslu og þetta hlutverk hefur sannarlega víkkað eins og hv. þingmaður kom að hluta til inn á. Um leið verður auðvitað mikilvægi lækna í þessu samhengi bara meira. En sannarlega eru aðrar fagstéttir mikilvægar og koma að heilsugæslu og kjarnaheilsugæslu eins og hún hefur þróast — mjög hratt. Út frá þeim áskorunum sem hv. þingmaður fór hér yfir, hækkandi lífaldur og áskoranir sem því fylgja, lífsstílssjúkdómar o.s.frv., heilsueflandi hlutverk, verndandi hlutverk heilsugæslunnar, forvarnahlutverk heilsugæslunnar, ungbarnaverndin, mæðraverndin, þá hefur þetta allt þróast með mjög öflugum, jákvæðum hætti. En áskorunum fjölgar. Sem fyrsti viðkomustaður, mjög nákvæmlega tilgreint í heilbrigðisstefnu, þá kalla bæði kröfurnar og þetta hlutverk á mjög aukið aðgengi og það eru áskoranir í að mæta vaxandi eftirspurn til að sinna því hlutverki vel.
Aðeins varðandi stöðugildin, af því að hlutverkið hefur þróast eins og ég er að fara yfir hérna, þá getum við til að mynda talað um stöðugildi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem er með 15 af 19 stöðvum hér á höfuðborgarsvæðinu. Bara til að gefa til kynna hvernig þróunin er þá hefur þeim fjölgað um 30%, bara á síðustu fimm árum. Þannig er þetta bara. Þannig sjáum við eftirspurnina vaxa og við erum að reyna að mæta þessu með auknu aðgengi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við drögum fram kjarnastarfsemina. Hver er hún þegar við erum að ræða þetta í þessu samhengi? Hv. þingmaður kom hér inn á að tæknin skipti þar miklu máli.
Svo í fjórða lagi, sem ég þarf að svara hér í seinni umferð, er fjármögnunarlíkanið. Ég hef alveg mjög sterkar skoðanir á því og við erum sannarlega að vinna með það (Forseti hringir.) og hvata sem skipta þar miklu máli.
Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að hafa forgöngu um þessa sérstöku umræðu. Hæstv. heilbrigðisráðherra var hér rétt í þessu að fjalla um eflingu sérnáms í heimilislækningum og talaði um þetta sem sérstakt áherslumál. Ég vil af þessu tilefni vitna hér í bréf sem ég veit að hæstv. ráðherra barst frá Félagi íslenskra heimilislækna þann 8. apríl sl., með leyfi forseta:
„Það er skýrt að efling sérnáms í heimilislækningum er einvörðungu vegna þeirra aðila sem koma að sérnáminu, velvilja viðeigandi stofnanna og FÍH. Það fylgir sérnáminu lítill sem enginn stuðningur frá ráðuneytinu og engin aukin fjárveiting hefur verið veitt til þess frá 2018. Þær stöður sem eru að hluta kostaðar af ráðuneytinu eru 15 í mesta lagi. Stjórn FÍH finnst mikilvægt að ráðuneytið átti sig á þessum þætti og skorti á raunverulegri stefnu ráðuneytisins í fjármögnun sérnáms.“
Það er skýrt að efling sérnáms í heimilislækningum er einvörðungu vegna þeirra aðila sem koma að sérnáminu, velvilja viðeigandi stofnana og er því háð. Það fylgir sérnáminu lítill sem enginn stuðningur frá ráðuneytinu og engin aukin fjárveiting hefur verið veitt til þess frá 2018. Þær stöður sem eru að hluta kostaðar af ráðuneytinu eru 15 í mesta lagi. Stjórn FÍH finnst mikilvægt að ráðuneytið átti sig á þessum þætti og skorti á raunverulegri stefnu ráðuneytisins í fjármögnun sérnáms.“
Svo mörg voru þau orð í þessu bréfi sem hæstv. ráðherra barst frá Félagi heimilislækna þann 8. apríl sl.
Við ræðum hér almennt um heilsugæsluþjónustu og sérstaklega um Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þetta er auðvitað grunnþjónusta. Stjórnvöld og löggjafinn sem fer með fjárveitingavaldið bera ábyrgð á því að tryggja að þessi grunnþjónusta sé í lagi. Staða heilsugæslunnar um allt land hefur þyngst verulega á undanförnum árum eftir því sem hún hefur fengið fleiri og flóknari verkefni í fangið án þess að þjónustan sé fjármögnuð almennilega, án þess að það takist að laða fólk til starfa með góðum launum og góðum starfsaðstæðum. Hér á höfuðborgarsvæðinu birtist þetta m.a. í manneklu og flótta starfsfólks sem bara getur ekki meir vegna álags. (Forseti hringir.) Mér skilst að álagið hafi bara stökkbreyst frá því í Covid. En svo eru það auðvitað líka húsnæðismálin (Forseti hringir.) sem eru í ólestri og ég veit að margir sem starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (Forseti hringir.) klóra sér í kollinum yfir því hve hægt hefur gengið að koma þeim í betra horf, svo ég vil hvetja ráðherra til dáða.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að hefja þessa þörfu umræðu. Það er full ástæða til að ræða áskoranir heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Meðal annars er spurt að því hvað stjórnvöld aðhafist til að létta undir með stöðunni, bæta hana. En það hefur verið merkilegt að fylgjast með því hvernig ólík rekstrarform heilsugæslu á svæðinu hafa mætt þessum áskorunum. Þannig bera einkareknu stöðvarnar af í samanburði þegar kemur að viðhorfi notenda til þjónustunnar. Ánægja og traust notenda einkarekinna heilsugæslustöðva mælist ítrekað meira en þeirra sem eru reknar af hinu opinbera þótt þróunin heilt yfir sé áhyggjuefni. Þetta undirstrikar engu að síður hversu mikilvægt það er að fólk hafi valfrelsi í heilbrigðisþjónustu eins og annarri þjónustu. Við þurfum að nýta okkur fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðiskerfinu til að bæta aðgengi og styrkja þjónustu í nærumhverfi.
Hv. málshefjandi vekur athygli á tækniþróun í þessari umræðu og spyr um tækifæri og áskoranir. Þar hef ég mestar áhyggjur af viðhorfum hins opinbera til tækninýjunga. Það virðist nefnilega ganga mun hægar hjá hinu opinbera að brjóta niður þá veggi sem stjórnvöld segja að séu uppi á milli heilbrigðisþjónustu og þeirrar tækni sem er til staðar. Áhyggjur mínar snúa að því að gamaldags hugsun komi í veg fyrir skynsamlega uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu, en ég hef viðrað þær áður hér í þessum þingsal. Íslenskir frumkvöðlar lýsa því að heilbrigðiskerfið hér sé ekki móttækilegt fyrir tæknilausnum sem eru þegar til staðar og gætu vel mætt ýmiss konar vanda og áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Ég vil því hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að greiða fyrir tækninýjungum og nýsköpunarsamstarfi í heilbrigðiskerfinu og láta ekki gamaldags hugsun og fordóma halda aftur af eðlilegri og nauðsynlegri þróun.
Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir þessa þörfu umræðu og hæstv. heilbrigðisráðherra einnig. Hvernig er staðan á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu? Hvað er til ráða? Hvað eru stjórnvöld að gera? Jú, staðan er þannig að maður hringir í heimilislækninn og biður um tíma og ef maður er nú í andarslitrunum þá er eins gott að drífa sig bara niður á slysó vegna þess að maður fær tíma ýmist tíu dögum síðar eða jafnvel einhvern tímann í næsta mánuði. Hins vegar liggur það algjörlega ljóst fyrir að álagið er gífurlegt á þá heilsugæslulækna sem eru að störfum vegna þess, eins og hér hefur komið fram, þá er alltaf fjölgun og frekari áskoranir hvað lýtur að fólksfjölda, hvað lýtur að ferðamönnum og okkur íbúum landsins sem fjölgar stöðugt og við verðum eldri og þurfum meira á heilsugæslunni að halda. Ég velti sérstaklega fyrir mér hvað stjórnvöld eru raunverulega að gera til að taka þennan tappa úr flöskuhálsinum. Hvað erum við að gera til þess að koma með aukið flæði af læknum inn í þessi sérhæfðu störf? Við erum með öfluga flöskuhálsa inn í háskólann, inn í menntunina. Það er bara erfitt að komast að til að fá að nema hér. Í raun og veru má segja að stór hluti af nemum sem vilja mennta sig fari jafnvel erlendis. Ég velti því fyrir mér hvort það væri ekki hagur okkar allra og það langbesta sem við mögulega getum gert, að reyna að byggja upp örvandi kerfi og taka utan um þá einstaklinga sem raunverulega hafa áhuga á því að mennta sig á sviði heimilislækninga og auðvelda þeim það á allan hátt þannig að við fjölgum læknum í takti við þörfina. Ég ætla ekki að tala um landsbyggðina, þar sem við erum sérstaklega að tala um höfuðborgarsvæðið hér, (Forseti hringir.) því að þar ríkir náttúrlega, eins og allir vita, algjört ófremdarástand.
Forseti. Þetta er ekkert flókið. Það sem fólk fer fram á fyrst og fremst er að geta pantað tíma hjá lækni þegar það þarf að hitta lækni. Hljómar nokkuð augljóst og er augljóst. Það hefur verið mín tilfinning á þeim stutta tíma sem ég hef verið hér á þingi og átt samskiptum við stjórnvöld varðandi heilsugæsluna, að það þyki ásættanlegt af hálfu þessara stjórnvalda að fólk bíði í þrjá mánuði, sem sagt 90 daga, eftir tíma hjá heimilislækni. Um daginn fór ég í vinnuferð til Evrópu yfir á meginlandið, vitandi það að í Frakklandi, þar sem ég bjó fyrir nokkrum árum síðan, get ég pantað tíma hjá lækni. Ég panta tíma hjá heimilislækni og ekki nóg með það heldur fékk ég tíma hjá heimilislækni daginn eftir, morguninn eftir. Ég gat valið um tíma klukkan átta, hálfníu, níu, tíu eða ellefu. Ég fékk tíma hjá heimilislækni og læknirinn sendi mig til sérfræðings. Því miður þurfti ég að bíða dálítið eftir tíma hjá sérfræðingnum því að það var enginn tími laus hjá sérfræðingi af þessu tagi fyrr en á fimmtudeginum.
Forseti. Það er lágmarkskrafa að fólk geti hitt heimilislækni þegar það þarf að hitta lækni og þá er þriggja mánaða bið ekki ásættanleg. Ekki nóg með það að hún sé óásættanleg vegna þess þjónustustigs sem við förum fram á heldur getur sú bið einfaldlega verið lífshættuleg. Ég tala nú ekki um þegar búið er að gera heimilislækna að skiptiborði allrar heilbrigðisþjónustu á Íslandi nokkurn veginn.
Virðulegi forseti. Að geta notið þjónustu heimilislæknis er ein af grunnþörfum okkar allra hvar sem við búum á landinu. Það er ekki síður mikilvægt að fólk hafi aðgang að föstum heimilislækni til að tryggja samfellu í þjónustunni, þurfi ekki sífellt að bera sig upp við nýja lækna með mein sín, áhyggjur eða við heilsufarseftirlit. Það er því óásættanlegt að víða tekur mjög langan tíma að komast að hjá heimilislækni, látum þá vera föstum heimilislækni, og sum virðast falla alveg á milli og mæta afgangi ef fast heimilisfesti þeirra er annað en aðsetur. Það er til að mynda staða sem margir námsmenn af landsbyggðinni finna sig í sem hafa sótt í nám á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru ótaldir þeir staðir á landinu, eins og á Snæfellsnesi, þar sem ekki er tryggt að læknir sé til staðar alla daga vikunnar eða vetrarfærð hamlar farandþjónustu.
Í grunninn er staðan sú að það er skortur á heimilislæknum og fáir leggja fyrir sig sérnám í heimilislækningum. Til að auka áhuga læknanema og nýliðun í heimilislækningum á Íslandi er brýnt að bjóða upp á gott starfsumhverfi. Atriði sem heimilislæknir þarf að hafa þekkingu á er að greina og þekkja viðeigandi úrræði, svo sem veita úrlausn á staðnum eða vísa áfram til frekara mats og taka þátt í eftirliti og áframhaldandi meðferð eftir það. Á mörgum stöðum á landsbyggðinni þarf heimilislæknir auk þess stundum að meðhöndla sjúklinga sem við aðrar aðstæður eru lagðir inn á sjúkrahús eða vísað til sérgreinalæknis. Að sinna heimilislækningum á landsbyggðinni getur verið sérstaklega krefjandi og við það bætist lítt fjölskylduvænt vaktakerfi og stífar bakvaktir.
Við þurfum að breyta áherslum í læknanámi þar sem aukin áhersla verður á heimilislækningar og þær fjölbreyttu áskoranir sem læknisþjónusta á landsbyggðinni býður upp á. Hér þarf Landspítali, háskólasjúkrahús, að taka frumkvæði og Sjúkrahúsið á Akureyri að fá aukið hlutverk. Lausnin er ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi og aukinn einkarekstur. Við þurfum að gera það eftirsóknarverðara að sækja sérfræðinám í heimilislækningum og starfa sem heimilislæknir.
Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu. Mér finnst skipta máli hér sem þingmaður Reykvíkinga að setja þetta í samhengi við stöðuna á höfuðborgarsvæðinu alveg sérstaklega þar sem borgarbúum er að fjölga mjög mikið og hratt. Íbúar eru að eldast en á sama tíma er mönnun heimilislækna í algeru sögulegu lágmarki og það þyrfti að þrefalda fjölda heimilislækna í fullu starfi. Það sárvantar einfaldlega heimilislækna og þeim fjölgar og fjölgar sem eru án heimilislæknis. Það er áhugavert að við vorum að hlusta á hæstv. forsætisráðherra hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma rétt áðan þar sem hann talaði um hvað Íslendingar væru í öfundsverðri stöðu en eftir sjö ára samstarf þessarar ríkisstjórnar þá blasir samt við sú mynd þegar við horfum á grunnþjónustuna að við búum ekki við mikið öryggi. Hér var talað um heimilislækna á landsbyggðinni og þannig mætti horfa á heilsugæsluna yfir landið allt. Aðgengi fólks að heimilislæknum er ófullnægjandi. Hið sama á við um grunnskólana, stöðuna þar, samgöngur, löggæslu. Grunnþjónusta í landinu öllu stendur veikt eftir sjö ára samstarf þessara flokka þriggja.
Tvennt blasir við. Það þarf að fjölga heimilislæknum og það þarf að gefa þeim færi á að gera það sem þeir gera best, sem er að fá að vera læknar en ekki að drekkja þeim í alls konar aukastörfum öðrum. Verkefnum heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað jafnt og þétt en sjálf læknaþjónustan er nánast komin í aukahlutverk. Fólk fer í nám til að sinna læknisþjónustu og er drekkt í pappírsstörfum og alls konar verkefnum mögulegum og ómögulegum öðrum en læknisþjónustu. Læknar eru að biðja um tíma til að fá að vera læknar.
Það er líka áhugavert að skoða nýja fjármálaáætlun, stefnuplagg ríkisstjórnarinnar til næstu ára, þegar við skoðum meginmarkmiðin um heilsugæsluna. Orðið læknir kemur ekki fyrir. Það sést ekki. Ótrúlega lýsandi um þetta samhengi hlutanna. (Forseti hringir.) Ég vil bara fá að endurtaka spurningu Hönnu Katrínar Friðriksson frá því hér áðan þar sem hún spyr að því hvort það sé sjálfstætt markmið að draga úr vægi heimilislækna í heilbrigðisþjónustunni.
Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu. Heilsugæslan hefur auðvitað mjög víðtækt hlutverk og það sést bara vel þegar stefna hennar er skoðuð, til að mynda þegar kemur að fyrsta vali fólks þegar þörf er á almennri heilbrigðisþjónustu. Það eru ýmsar áskoranir eðli málsins samkvæmt sem þessu fylgja og við getum nefnt það þegar sveitarfélög stækka og þenjast út að heilsugæslan þarf auðvitað að geta verið á hreyfingu. Það er ýmislegt hægt að gera þegar unnið er fyrir fólk og með fólki.
Hér er talað um langa bið og þá vil ég sérstaklega ræða breytingu sem hæstv. ráðherra er að gera á gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn þar sem áskilið hefur verið að heilsugæslulæknar skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára að 18 ára aldri þurfi þau á þjónustu sérgreinalæknis að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalæknis sé gjaldfrjáls. Þessu stendur nú til að breyta með reglugerðarbreytingum sem hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda og létta undir með notendum og heilsugæslulæknum. Það verður m.a. gert með ýmsum aðgerðum. Við getum nefnt hér að sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis getur vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein, telji hann þörf á því, án aðkomu heilsugæslunnar. Ákvæði gildandi reglugerðar um að barn þurfi nýja tilvísun frá heilsugæslulækni verður felld á brott. Hér er auðvitað hægt að taka á ýmsum öðrum breytingum sem verið er að gera í þessari reglugerð en punkturinn minn er kannski sá að þegar unnið er með fólki og fyrir fólk, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið að gera í sinni tíð, þá er hægt að gera betur og það erum við að gera. Við hæstv. heilbrigðisráðherra vil ég segja: Höldum áfram á þessari vegferð. Höldum áfram að vinna með fólki og með læknum og heilbrigðisstarfsfólki hér á landi.
Frú forseti. Í öruggum skrefum, sem Samfylkingin kynnti á síðasta ári, áherslum um heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu á Íslandi, kemur fram að aðeins helmingur íslenskra landsmanna hefur fastan heimilislækni. Hlutfallið er 95% í Noregi. Þetta er mjög mikið áhyggjuefni, ekki síst í ljósi þess að afleiðingin er sú að það er 30% líklegra að þau sem hafa ekki fastan heimilislækni þurfi innlögn á sjúkrahús heldur en hin sem eru svo heppin að hafa fastan lækni sem þau geta leitað til. Í öruggum skrefum leggur Samfylkingin áherslu á aðgengi og auðvitað öryggi. Þetta snýst um það að fyrsta stigs heilbrigðisþjónustan sé opin og biðtíminn sé ekki of langur og hún sé gjaldfrjáls. Það er lykillinn að góðri lýðheilsu þjóðarinnar.
Hér hefur verið rætt um mönnunarvandann og mannekluna. Það er ekki nýtilkominn vandi, hann hefur verið viðvarandi um árabil og stéttarfélög og heilbrigðisstarfsfólk ítrekað vakið athygli á honum. Ég hef ekki orðið vör við að það sé verið að mæta þeim vanda með markmiðsmiðuðum aðgerðum og fjármögnuðum. Við vitum að við þurfum að fjölga læknanemum við HÍ og við þurfum að hleypa fleirum í læknisfræðinám og það á reyndar við um fleiri heilbrigðisstéttir. Við þurfum að efla sérnám í heimilislækningum eins og kom skýrt fram í ræðu hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar og bréfinu frá Félagi íslenskra heimilislækna. Við þurfum að sjá til þess að tæknin vinni með þjónustunni en ekki gegn henni. Við þurfum og verðum að fjárfesta í miðlægri sjúkraskrá og við verðum að minnka vottorðafarganið, eins og komið hefur fram hér ítrekað. Og að síðustu verður einkarekstur í heilbrigðisþjónustu alltaf að vera á forsendum hins opinbera (Forseti hringir.) vegna þess að einkareksturinn er, eins og önnur þjónusta, greiddur með skattfé almennings.
Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Árið 2017 var tekið í gagnið nýtt fjármögnunarkerfi fyrir heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og það var þáverandi heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Kristján Þór Júlíusson, sem ýtti því úr vör. Með breytingunum á fjármögnun heilsugæslunnar var ætlunin að fjármagn til reksturs endurspeglaði þann sjúklingahóp sem viðkomandi heilsugæslustöð þjónaði. Markmiðið var að færa inn í rekstur heilsugæslunnar faglega og fjárhagslega hvata til að stuðla að betri þjónustu, hagkvæmari rekstri og gera heilsugæslunni kleift að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Grundvallarforsendur endurbótanna fólust í gjörbreyttu fyrirkomulagi við fjármögnun þjónustunnar þar sem markmiðið var að umbuna fyrir skilvirka og góða þjónustu í samræmi við þarfir notenda. Fjármögnunin byggir á því að fjármagn til rekstrar hverrar stöðvar endurspegli þann sjúklingahóp sem heilsugæslan þjónar. Þá fylgir fjármagnið sjúklingnum — ef hann færir sig á aðra heilsugæslustöð fylgir fjármagnið með. Breytingarnar hafa þegar skilað árangri þar sem hlutdeild veittrar þjónustu á heilsugæslustöð jókst í heildargrunnheilbrigðisþjónustu og þá fjölgaði skráðum einstaklingum heilsugæslustöðva og þúsundir fluttu sig yfir á aðra heilsugæslustöð sem hentaði þeim betur.
Í reglubundnum ánægjumælingum hefur það sýnt sig að ánægja með þjónustuna hefur farið vaxandi í kjölfar breytinganna og þá sérstaklega hjá einkareknu heilsugæslustöðvunum sem standa fremstar á flestum mælikvörðum. Það er því ákveðið áhyggjuefni að sjá nýjustu þjónustukönnun Sjúkratrygginga Íslands þar sem ánægja og traust til heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu fer minnkandi á flestum ef ekki öllum stöðvunum. Ég geri ráð fyrir að hæstv. heilbrigðisráðherra sé meðvitaður um þessa þróun og vænti þess að hann bregðist við til að snúa henni við á nýjan leik.
.Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra. Í þá gömlu góðu daga, þegar maður þurfti á heimilislækni að halda, þá hringdi maður og fékk tíma, var spurður hvort maður gæti komið jafnvel samdægurs eða á morgun eða hvenær hentaði. En hvað hefur breyst síðan? Ég átta mig ekki alveg nógu vel á því, hvort það er tæknin sem er að þvælast fyrir læknunum eða hvað er í gangi vegna þess að ef ég ætlaði að reyna að ná í heimilislækninn minn í dag þá fengi ég sennilega: Þú ert númer 99 á bið. Og ég get reiknað það út að það er svona einn og hálfur til tveir tímar þangað til ég kæmist að ef ég er heppinn.
En hvað skeður ef ég kemst ekki að? Jú, þá á ég að reyna aftur eftir einn mánuð. Ef ég reyni svo aftur eftir mánuð og kemst að, þá fæ ég tíma einum og hálfum til tveimur mánuðum seinna. Þá eru komnir þrír mánuðir án læknis. Það er auðvitað algjörlega óverjandi að við skulum vera í þeirri stöðu að hafa kerfið svona. Ég vorkenni þeim læknum sem þurfa að vinna við svona álag og ég hugsa með mér: Bíddu, ef við erum að útskrifa einhverja tugi lækna og það á að senda þá inn í svona vinnuumhverfi þá hljóta þeir að hugsa sig um ef þeir geta fengið eitthvað annað til að starfa við.
En ég redda mér á Heilsuveru. Hingað til hefur það tekist en það kemur að því að það verður ekki hægt og ég vorkenni eldra fólki sem er númer 99 á bið og þarf kannski að bíða í einn og hálfan til tvo tíma. Fyrir heilbrigðan einstakling er það örugglega pína að þurfa að bíða svo lengi, hvað þá fyrir veikan einstaklinga, aldraðan sem á að reyna — hvað? Hvernig á hann í ósköpunum að fara að þessu? Við verðum að leysa þetta mál. Þetta er auðleysanlegt mál en einhverra hluta vegna virðist þessi ríkisstjórn ekki geta leyst það og ekki hæstv. heilbrigðisráðherra. Þannig að spurningin er bara: Hvers vegna ekki?
Forseti. Þar til fólk getur pantað tíma hjá lækni án vandræða er það ekki svo að heilbrigðiskerfið virki í huga fólks. Í dag er staðan sú að ef einstaklingur veikist eða hefur áhyggjur af heilsu sinni af einhverjum ástæðum tekur við eltingarleikur til að fá svo mikið sem að bóka tíma. Ég sagði frá því áðan að ég hefði verið í stuttri vinnuferð í Frakklandi og fengið bæði tíma hjá heimilislækni og tilvísun til sérfræðings á innan við viku, en þess má til gamans geta að báðir læknarnir voru útlendingar og töluðu frönsku með hreim.
Við Píratar höfum, ásamt nokkrum öðrum þingmönnum úr Flokki fólksins og Samfylkingar, lagt fram frumvarp um umboðsmann sjúklinga. Það er sérstakur talsmaður notenda heilbrigðiskerfisins sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna þeirra og tala þeirra máli. Umsagnir sem borist hafa um málið eru vægast sagt jákvæðar. Nauðsyn þess að setja á fót slíkt embætti er hrópandi. Það er ekki vanþörf á slíkum aðila á meðan við völd eru stjórnarflokkar sem gera fátt annað en að tala um hvaða úrlausnarverkið sé flókið og koma sjaldan með raunverulegar lausnir. Tillögu Pírata um umboðsmann sjúklinga hefur verið haldið á lofti af mannréttindasamtökum og neytendasamtökum, en umboðsmaður sjúklinga er dæmi um raunveruleg aðgerð sem getur fært okkur í átt að heilbrigðiskerfi sem virkar. Það er kannski allt í lagi að taka það fram hér í þessum sal að þetta mál Pírata hefur nú ekki verið í miklum forgangi hjá meiri hlutanum sem fer með dagskrárvaldið. Ég hef nú ítrekað í marga mánuði óskað eftir því að málið verði tekið á dagskrá velferðarnefndar en meiri hlutinn fer með dagskrárvaldið og allt kemur fyrir ekki.
Forseti. Það er ekki vænlegt til árangurs að tala endalaust um hvað verkefnið sé flókið og skila auðu þegar kemur að hinu augljósa.
Frú forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa sagt að þessi umræða hér er mikilvæg. Ég tek einnig undir með þeim sem hafa sagt að það sé mikilvægt að fjölga heimilislæknum og hæstv. ráðherra fór reyndar yfir það sem hefur verið í gangi á því sviði. Þar þarf að halda áfram. Ég er einnig sammála því að við erum líklega komin of langt í því hverju þarf að skila inn vottorðum fyrir. Auðvitað þarf vottorð fyrir sumt en ég held að þarna þyrftum við að fara yfir og sigta út það sem virkilega skiptir máli því læknar hafa bent á að of mikill tími fari í þetta. Markmið Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er m.a. bjóða upp á samfellda, aðgengilega og heildræna þjónustu. Mér finnst mikilvægt að því verði haldið áfram á þessum oft fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðisþjónustu, að sú þjónusta sé þverfagleg. Geðheilsuteymin sem komið hefur verið á fót eru í mínum huga gríðarlega mikilvæg og þau þarf að halda áfram að efla því að það skiptir máli að sú starfsemi sé innan heilsugæslunnar.
Ég vil svo taka undir það að lokum sem sagt hefur verið að einkarekstur í heilbrigðisþjónustu verður alltaf að vera á forsendum hins opinbera, enda er hann fjármagnaður með skattfé. Og ég vil svo að lokum segja að mér finnst skipta máli í allri þessari umræðu að veikindi fólks eiga ekki að verða öðrum að féþúfu og það eigum við að hafa í huga þegar við skipuleggjum heilbrigðismálin í þessu landi.
Frú forseti. Ég þakka góða umræðu hér í dag, umræðu sem vonandi skilar sínu inn í það verkefni sem efling heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu er. Við þurfum að minnka óþarfaálag á lækna. Við þurfum að draga úr sóun í kerfinu. Við þurfum að fækka viðvikum sem hafa ekki skýran tilgang og heyra ekki undir kjarnastarfsemina, stuðla að hóflegu álagi og fjölskylduvænu starfsumhverfi. Þetta eru lykilþættirnir. Það þarf að styrkja kjarnastarfsemina en fyrst þarf að svara því hvaða verkefni við viljum að heilsugæslan sinni. Erum við á réttri leið þar? Ég verð að segja að ég sakna kannski aðeins skýrari svara frá hæstv. ráðherra um þetta. Er ætlunin að draga úr vægi heimilislækna? Ég lýsti hér áðan hvernig orðin læknir, læknastarfsemi eða lækning koma ekki fyrir í fjármálaáætlun. Læknafélagið hefur kvartað undan því að það sé verið, svo ég vitni nú bara í þeirra orð, með leyfi, að útrýma orðinu læknir úr heilbrigðisstefnu stjórnvalda. Þetta segir sína sögu. Spurningin er: Er þetta með vilja gert og hver er þá áætlaður ávinningur af þessu?
Mig langar til að árétta mikilvægi þess að fjármögnunarlíkanið sé nýtt þannig að hvatar séu byggðir upp og þeim sé viðhaldið, hvatar sem endurspegla markmið um afköst, um kennslu sérnámslækna, um heimilislækna, um þjónustu, um gæði og um opnun nýrra heilsugæslna, um nýsköpun og nýliðun. Við þurfum að tryggja heilbrigða skynsemi og ýta þannig undir eflingu heilsugæslunnar.
Hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir ræddi hér kannanir sem sýna góða útkomu einkarekinna stöðva í samanburði við þær ríkisreknu. Þetta er síendurtekin útkoma úr slíkum könnunum. Þetta er mjög mikilvægur þáttur og ég hvet ráðherra til að skoða ástæðurnar sem liggja þar að baki og leita leiða til að nýta þessa krafta sem búa í einkarekstrinum betur. Þetta er aukinn hvati til sköpunar. Það er aukið sjálfstæði. Það eru fjölbreyttari vinnustaðir, það er umhverfi sem býr til hvata til þessara þátta. (Forseti hringir.) Við þurfum að nýta kosti samkeppninnar.
Hæstv. ráðherra sagði hér áðan (Forseti hringir.) að hann væri með skýra sýn á það hvernig við gætum nýtt fjármögnunarkerfið betur og ég hlakka til að heyra meira af þeirri leið.
Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. framsögumanni að taka þetta mál á dagskrá hér og umræðuna. Ég held að við deilum öll sýninni á mikilvægi heilsugæslunnar. Það kom fram hér í máli hv. þingmanna, svo ég dragi það saman, að það er býsna mikill samhljómur um það hver verkefnin eru og hversu brýn þau eru og hversu umfangsmikil þau eru og í hverju þau felast. Ég er alveg skýr með það, hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, framsögumaður, að það er enginn að draga úr vægi lækna. Við áttum okkur alveg á mikilvægi þeirra í kjarnastarfsemi heilsugæslunnar sem kom fram í spurningu hv. þingmanns. En við erum auðvitað að horfa á það að það er miklu fjölþættari, fjölbreyttari þjónusta sem við erum að veita nú til samanburðar fyrir einhverjum 20 árum. Samfélagið hefur bara breyst svo mikið og það er aðkoma fjölmargra og fleiri stétta. Það kallar á þverfaglega samvinnu. Þar er heimilislæknir auðvitað í algjöru kjarnahlutverki en með fjölmörgum öðrum stéttum. Geðheilsuteymin, það var komið inn á þau hér, eru auðvitað mjög mikilvæg viðbót, sálfræðingar í heilsugæslu. Stöðugildum hefur fjölgað verulega. Ég er bara aðeins að draga fram staðreyndir gegn þessum eilífu umræðum um bið og að allt sé í kaldakoli. Við höfum aukið fjármagn hér 2017 til dagsins í dag, á föstu verðlagi, um 40%. Bara til samanburðar við það hvernig heilsugæslan hefur þróast, ef við tökum hlutfall af vergri landsframleiðslu 2008 og núna í dag, þá er aukningin veruleg. Það eru 101 heimilislæknir núna og svona miðað (Forseti hringir.) við þá sem eru að klára sérnám eru um 60 að koma inn á næstu þremur árum. Það hefur aldrei verið eins mikil birta gagnvart því (Forseti hringir.) og akkúrat núna.
Ég gæti auðvitað farið inn á fleiri þætti. Varðandi líkanið, þá vil ég bara taka undir með hv. þingmanni (Forseti hringir.) og framsögumanni að líkanið er mikilvægt. En það á fyrst og fremst að draga fram gagnsæi og jafnræði í útdeilingu (Forseti hringir.) fjármuna og hvatana sem felast í gæðavísunum sem er búið að setja í líkanið.