131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:53]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og eftir atvikum svör að svo miklu leyti sem þau fengust. Ég sakna þess að hæstv. umhverfisráðherra sem sat hér í salnum skyldi ekki sjá sér fært að taka þátt í umræðunni og vonandi ber ekki að túlka það þannig að umhverfisráðherra og umhverfisráðuneytið hafi ekkert um þetta mál að segja eða hafi ekkert skoðað það eða velt því fyrir sér.

Þeim beinu spurningum sem hæstv. dómsmálaráðherra svaraði ekki, ef til vill hefur hann ekki talið sig hafa tíma til þess, get ég sem best beint til hans í formi fyrirspurnar og mun taka það til athugunar eftir umræðuna.

Það er mér vel ljóst og öðrum sem hafa lesið t.d. þetta ágæta plagg hér og aðra viðeigandi alþjóðasamninga að þeir banna ekki heræfingar af þessu tagi inni í sérefnahagslögsögunni. En það er furðulegt að heyra menn túlka þá með þeim hætti sem hér var m.a. gert síðast, að gera stöðu okkar sem veikasta í því sambandi. Það er alveg ljóst að við höfum í alþjóðahafréttarsamningnum, í alþjóðasamningum um varnir gegn mengun frá skipum og í mörgum fleiri samningum stöðu til að beita okkur með ýmsum hætti þegar í hlut á verndun og varðveisla auðlinda innan sérefnahagslögsögunnar. Við eigum auðvitað að túlka þá möguleika okkur í hag.

Ég fullyrði það, m.a. með vísan í 58. gr. hafréttarsáttmálans sem leggur samningsaðilum þær skyldur á herðar að taka tillit til skyldna strandríkjanna að þessu leyti, að við getum með því t.d. að skilgreina dvöl kjarnorkuknúins skips sem umhverfisógnun, beitt okkur í því sambandi. Þó svo væri nú ekki að við teldum okkur hafa beinar lagastoðir, þá ættum við að sjálfsögðu að beina þeim eindregnu tilmælum til Rússa að þeir hefðu sig á brott. Það hefði verið algert lágmark.

Ég hlýt að segja, frú forseti, að mér finnast öll þessi dauflegu viðbrögð íslenskra stjórnvalda bera vott um mikið andvaraleysi, alveg einkennilegt andvaraleysi. Að menn skuli fyrst vakna til meðvitundar eftir tæpan hálfan mánuð, (Forseti hringir.) að ekki skuli heyrast bofs frá umhverfisráðuneytinu og hæstv. dómsmálaráðherra skuli ekki geta svarað einni einustu (Forseti hringir.) efnislegri spurningu um þetta mál.