131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[13:54]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir varnaðarorð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um að launaþróun opinberra starfsmanna sé langt umfram launaþróun á almennum markaði. Laun opinberra starfsmanna, sérstaklega lífeyrisréttindi, eru greidd af öðrum landsmönnum og valda þenslu ekki síður en önnur útgjöld opinberra aðila. Ég treysti því eftir ræðu hv. framsögumanns að hann og allur flokkur hans styðji aðhald við fjárlagagerð sem við stöndum núna fyrir, þar sem á að skera niður framkvæmdir og hafa mikinn afgang eða þá að hann dragi slíkar hugmyndir til baka. Enn fremur að hann styðji okkur í því að lækka skatta á laun því þannig heldur launþeginn sem hefur gert kjarasamninga stærri hluta af launum sínum eftir og getur þar af leiðandi ráðið betur við þá verðbólgu sem hugsanlega myndast vegna þeirra framkvæmda sem allir vissu að mundi valda ákveðinni þenslu.

Frú forseti. Eitt orð um áhrif skattalækkana. Hv. framsögumaður stendur að tillögu um lækkun virðisaukaskatts í stað tekjuskattslækkana ríkisstjórnarinnar um sömu upphæð. Áhrif slíkrar skattalækkunar á þenslu eru örugglega ekki minni. Ég legg því til að hv. þm. styðji ríkisstjórnina í skattalækkunum á tekjur. Hafi menn áhyggjur af tekjuskattslækkuninni verður að hafa í huga að þeir skattar hafa hækkað sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, vegna þess hvernig tekjuskattskerfið er uppbyggt. Þess vegna er skattalækkunin eingöngu leiðrétting og menn ættu ekki að hafa áhyggjur af henni. Enginn. (Gripið fram í.)