131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[14:02]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það verður að segjast alveg eins og er að það er býsna erfitt að koma í þennan ræðustól og fjalla um frumvarp til laga um kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum, þ.e. frumvarp sem setur lög á hinn helga verkfallsrétt. Það er mér sérstaklega erfitt vegna þess að ég er bæði fyrrverandi kennari og fyrrverandi sveitarstjórnarmaður.

Það er einnig athyglisvert að báðir deiluaðilar hafa talað gegn því að lög verði sett á deiluna. Hæstv. menntamálaráðherra hefur sagt það fullum fetum að lagasetning sé ekki lausn á vandanum heldur sé aðeins verið að fresta vandanum og það er skylda deiluaðila í slíkum deilum að ná niðurstöðu, leysa málið.

Stjórnarherrarnir hafa að vísu komið hér hver af öðrum og sagt að málið sé grafalvarlegt sem er hárrétt, að málefni 45 þúsund barna séu svo alvarleg að ekki verði hjá því komist að skipta sér af deilunni og hefur margur sagt þó fyrr hafi verið. En hæstvirtir ráðherrar hafa ekki viljað á undanförnum missirum skipta sér á neinn hátt af þessari deilu þrátt fyrir að bent hafi verið á það ítrekað að vissulega beri ríkisvaldið ábyrgð. Ábyrgð ríkisvaldsins er að sjálfsögðu mjög mikil. Það hafa margir komið inn á það hér í dag. Það er t.d. vegna þess að tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga hefur þróast á þann hátt að sveitarfélögin eru ekki í þeirri stöðu að geta leyft sér það sem þau hugsanlega vildu. Það hefði að sjálfsögðu liðkað fyrir lausn deilunnar ef fjárhagur sveitarfélaganna væri betri. Það þarf ekkert að deila um þessi atriði. Það liggur ljóst fyrir að það hallar á sveitarfélögin í þessu máli. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, flokksbróðir margra ráðherranna, hefur sagt fullum fetum: „Það er vitlaust gefið.“ Ráðherrar fjármála og félagsmála hafa skrifað undir yfirlýsingu um að vitlaust sé gefið, það eigi að fara yfir þessi mál. Nefnd hefur starfað mánuðum saman við að skoða þessi mál til að rétta við hlut sveitarfélaganna. En nefndin er líklega á fundi núna og búin að starfa, eins og ég sagði, nokkurn veginn frá því í byrjun árs. En það hefur ekkert gengið. Það er eðlilegt að við horfum til þeirra verka þegar við skoðum þessi mál í samhengi.

Það er líka eðlilegt að við skoðum samsetningu tekjustofnanefndarinnar vegna þess að það segir kannski ýmislegt um hvaða hug menn höfðu þegar þeir settu þetta mál af stað. Það starfa nefnilega fleiri nefndir varðandi þessi samskipti. Til er líka svokölluð sameiningarnefnd. Hún er að vinna að því að sameina sveitarfélög til að styrkja sveitarfélögin og þar eru við borðið, má segja, allir aðilar. Þar eru ekki bara fulltrúar ríkisstjórnar og fulltrúar sveitarfélaga heldur líka fulltrúar þingflokka. Í tekjustofnanefndinni er ekki slíkt borð. Nei, þar sitja eingöngu fulltrúar sveitarfélaga og síðan embættismenn hinum megin. Engir fulltrúar hins pólitíska valds í landinu sitja þar við borðið. Búast menn við því að slíkt verk gangi hratt þegar þannig er staðið að verki? Ég segi því miður, frú forseti, það er eins og hugur fylgi ekki máli í þeim efnum.

Fleira kemur til þegar við horfum til ábyrgðar ríkisvaldsins. Í þessari umræðu hefur margoft verið nefnt og það hefur margoft komið fram á undanförnum vikum og mánuðum að ríkisvaldið gerði kjarasamning við framhaldsskólakennara. Ekki ætla ég að halda því fram að framhaldsskólakennarar séu ofaldir af þeim samningi. En ríkisvaldinu hlýtur að hafa verið ljóst þegar undir þann samning var ritað að þeir væru að gefa fordæmi m.a. fyrir grunnskólakennara. Það er eðlilegt að grunnskólakennarar horfi til þess samnings vegna þess að kjarasamningar, eins og við hljótum flest að vita, eru fyrst og fremst samanburðarfræði. Það er alltaf verið að bera sig saman við einhverja aðra. Það er náttúrlega eðlilegasti hlutur af öllum að grunnskólakennarar beri sig saman við framhaldsskólakennara. Þetta hlýtur ríkisvaldið að hafa vitað þegar það gekk frá kjarasamningnum. Ef ekki þá er kominn tími til. Það segir einnig reyndar í því frumvarpi sem hér liggur fyrir að gerðardómur eigi að taka viðmið af ákveðnum hópum, hópum sem hafa sambærilega menntun, sambærilega ábyrgð og sambærilegan vinnutíma. Hvaða hópar geta þetta verið? Jú, þetta eru líklega framhaldsskólakennarar og leikskólakennarar trúi ég. Þetta eru þeir hópar sem næstir standa grunnskólakennurum. Því liggur alveg ljóst fyrir að gerðardómur hlýtur að þurfa að gera þetta. Þá er ljóst að samanburðurinn hlýtur að vera á þann hátt að kjör grunnskólakennara verði að bæta verulega svipað og gert var við framhaldsskólakennara síðast.

Frú forseti. Við skulum ekki gleyma því að samningar framhaldsskólakennara eru lausir. Samningstíminn er útrunninn. Það stendur til að gera nýjan samning við framhaldsskólakennara. Það er auðvitað eðlilegt að líka sé horft til þess. Þannig ganga þessi mál fyrir sig að það er alltaf verið að bera saman hópa, bera saman samninga. Þannig ganga þessi mál í þessum heimi.

Frú forseti. Ríkisvaldið ber ábyrgð á fleiri þáttum sem koma inn í þessa mynd líka. Það er alveg augljóst að stöðugleikinn, sem einnig er nefndur í þessu frumvarpi og er ætíð hampað þegar virðist henta, kemur að sjálfsögðu hér við sögu. Það er augljóst að verðbólguspá fyrir þann tíma sem talað er um að kjarasamningur gildi hlýtur eðlilega að vera viðmið þegar samið er til lengri tíma. Það er einnig ljóst að ríkisvaldið ber þar verulega ábyrgð. Síðasta fjárlagafrumvarp er að sjálfsögðu slíkt að það gefur byr undir báða vængi um að fram undan sé verðbólguþróun sem ekki er hagstæð þrátt fyrir að orðin séu fögur um að reynt skuli og stefnt að hinu og þessu í þessum efnum. Því er eðlilegt að fólk horfi til þess þegar komið er að kjarasamningi.

Frú forseti. Það er auðvitað fleira sem tengist þessu máli heldur en að verið sé að taka hinn helga rétt, verkfallsréttinn, af hópi manna. Sú staða sem uppi er segir, því miður, allt of mikið um viðhorf hinnar íslensku þjóðar til menntunar, til starfa þeirra sem sinna uppeldi, til starfa þeirra sem hugsa um fólk, til starfa þeirra sem ekki bara velta fyrir sér peningum. Staðan væri ekki svona ef viðhorfið væri á þann hátt að það skipti meira máli hvernig við hugsum um börnin okkar en hvernig við förum með peningana hverju sinni. Það er grátleg staðreynd að grunnskólakennarar eins og ýmsar fleiri uppeldisstéttir hafa stöðugt horft upp á þá þróun að þeir hafa verið að dragast aftur úr og með reglulegu millibili þurft að nálgast samningaborðið til þess að vinna upp þann halla sem orðið hefur á undanförnum missirum. Það er líka ein skýringin á því hversu hörð sú deila hefur verið sem hér er um rætt. Það þarf alltaf að vera að vinna upp hluti.

Síðan gerist það, frú forseti, í þessari umræðu að a.m.k. tveir hæstv. ráðherrar vitna til orða minna um hvað gerðist árið 1996. Ég get haldið áfram að halda því fram, og er keikur til þess, að samningurinn sem gerður var 1996 milli ríkis og sveitarfélaga hafi verið einn besti samningur sem sveitarfélögin hafa nokkurn tíma gert og það er vegna þess að sveitarfélögin settu sér ákveðin samningsmarkmið sem þau náðu að mestu leyti fram í samningunum. En það að það skuli gerast árið 2004 að fólk tali eins og ekkert hafi gerst síðan 1996 er að sjálfsögðu ekki boðlegt. Það er allt gjörbreytt. Hvernig er hægt að ætlast til þess að einhver hafi 1996 séð allt fyrir sem mundi gerast á næstu átta árum. Það er að sjálfsögðu ekki hægt og það er þess vegna m.a. sem sveitarfélögin eru stöðugt að reyna að bæta hag sinn. Það er vegna þess að hlutirnir hafa gjörbreyst og það er búið að fara yfir það í ýmsum þáttum í umræðunni að m.a. tekjuþróun ríkis og sveitarfélaga hefur verið gerólík á því tímabili. Einnig er ljóst að lagðar hafa verið ýmsar kvaðir á sveitarfélögin sem hafa aukið útgjöld þeirra og sett hafa verið ýmis lög, m.a. um húsaleigubætur, sem hafa aukið útgjöld sveitarfélaga frá þessum tíma. Eins og ég vitnaði í áðan hefur það verið upplýst af öllum þeim sem hafa skoðað þetta að vitlaust er gefið. Þess vegna situr nefnd að störfum, nefnd sem ætti í raun að vera fyrir löngu búin að ljúka störfum og skila af sér. Það ætti að vera búið að gera samning um breytingu á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég er sannfærður um að sú deila sem hér er verið að gera tillögu um að ýta inn í framtíðina væri þá leyst vegna þess að þá stæðu menn miklu betur að vígi til þess að leysa deiluna. Það er ábyrgðarhluti líka sem snýr að sveitarstjórnarmönnum að þeir gera ekki samning sem þeir eiga ekki fyrir.

Frú forseti. Ekki er ástæða til að tefja þessa umræðu mikið meira eða taka lengri tíma í hana í þessum sal vegna þess að þetta mál þarf að sjálfsögðu að fara til nefndar. Ég trúi því ekki, frú forseti, fyrst það varð niðurstaða ríkisstjórnarmeirihlutans á Alþingi að setja lög á þessa deilu, að ekki verði opnað á að bæta frumvarpið sem hér liggur fyrir. Það er ljóst og allir gera sér grein fyrir því að þegar ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að setja lög á deiluna verður líklega ekki komist hjá því að lögin fari í gegnum þingið. Það er hins vegar lágmarkskrafa að nefndin sem um málið fjallar gefi sér tíma til að fara yfir málið nákvæmlega og velta því fyrir sér hvort ekki sé ekki hægt að milda þetta frumvarp einhvern veginn.

Frú forseti. Athyglisvert var að hlusta á hæstv. félagsmálaráðherra fullyrða að hér væri mjög mildilega á málum tekið. Gagnvart hverjum er þessi mildileiki? Hann er sannarlega ekki gagnvart kennurunum vegna þess að í frumvarpstextanum er nákvæmlega ekkert sem kennararnir hafa í hendi. Þeir hafa hér orðalag um að taka eigi viðmið af ýmsum hlutum en síðan kemur orðalagið fræga: „... en jafnframt gæta þess að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga sé ekki raskað.“

Frú forseti. Því miður verðum við að segja að þegar slíkt orðalag er notað af hæstv. ráðherrum þá hefur það í gegnum tíðina ekki þýtt mjög margt. Það hefur yfirleitt þýtt að ekki megi hækka laun upp fyrir ákveðna prósentutölu. Það er með ólíkindum að þessi texti skuli vera lagður svona fram og ekki komið með eitt einasta atriði sem fólkið sem hefur verið í sjö vikur í verkfalli fær út úr því. Ætlast er til þess að grunnskólakennarar komi til starfa aftur á mánudaginn glaðhlakkalegir og kátir og fullbúnir til þess að starfa. Ég þekki það vel að kennarar starfa ekki af fullum mætti nema þeir séu ánægðir í starfi. Hvernig er hægt að ætlast til þess að grunnskólakennarar verði ánægðir í starfi á mánudaginn kemur ef engin breyting verður á þeim frumvarpstexta sem hér liggur fyrir?

Frú forseti. Örlítið að lokum um þann þátt. Hvernig stendur t.d. á því að ekkert er hér úr miðlunartillögunni sem þó var búið að ná að hluta til samkomulagi um? Af hverju eru engin af þeim atriðum inni í þessum texta? Af hverju er ekki á nokkurn hátt komið til móts við kennarastéttina? Hver er skýringin á slíku? Af hverju er ekki t.d. horft til þess tilboðs sem kennarar gerðu rétt áður en verkfallið skall á um ákveðnar prósentuhækkanir til skamms tíma til þess að rýmka aðeins til fyrir samkomulagi? Af hverju er ekkert slíkt inni á þeim tíma meðan gerðardómurinn starfar? Af hverju má gerðardómurinn ekki hefja störf fyrr en 15. desember? Hvernig stendur á því að hann má ekki hefja störf á mánudaginn eins og kennararnir þannig að hægt verði að flýta þessu ferli því að með því er að sjálfsögðu ekki komið í veg fyrir að samningsaðilar geti hugsanlega komið sér saman um einhverja hluti? Það er algjörlega með ólíkindum, frú forseti, hvernig að þessu máli er staðið og mildileikinn sem hæstv. ráðherra nefndi er ekki fyrirfinnanlegur í þeim texta sem ég hef lesið. [Klapp á þingpöllum.]

(Forseti (ÞBack): Ég vil biðja gesti um að sýna þinginu virðingu og vera ekki með ónæði á pöllum.)