131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Forvarnir í fíkniefnum.

102. mál
[12:44]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mikið áhyggjuefni að á sama tíma og ríkisstjórnin mokar út fjármunum til skattalækkana skuli neyðarópin koma daglega utan úr samfélaginu vegna vandamála, vegna fíkniefna og vanda sem þær stofnanir sem hafa verið að berjast við þann vágest standa frammi fyrir.

Ég held að það væri ástæða til að hæstv. heilbrigðisráðherra upplýsti í þessari umræðu hvort hann ætlar sér t.d. að tryggja að hægt verði að halda áfram þeirri þjónustu hjá SÁÁ sem þar hefur verið eða hvort hann vill heldur standa frammi fyrir því að kostnaðurinn af vandamálunum lendi á Landspítalanum, eins og mun auðvitað gerast ef ekki verður hægt að sinna áfram þeim verkefnum sem sinnt hefur verið hjá SÁÁ. Það er kvíðvænlegt að menn skuli sífellt lenda í þessum vanda og ekki geta litið yfir hann heildrænt og leyst hann.