131. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[18:17]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er nýbúið að ræða skattalækkunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjármálaráðherra virtist vera óskaplega sár í viðtölum við Morgunblaðið og í ræðum sínum á fundum með sjálfstæðismönnum um helgina yfir því að þetta mál hafi ekki fengið verðuga athygli. Að byltingin hafi verið þögguð niður var fyrirsögnin í Morgunblaðinu og nú er byltingin farin að éta börnin sín hjá hæstv. ráðherra. Nú er hann kominn inn með skattahækkunarfrumvörp í röðum, a.m.k. 660 millj. kr. bara í dag. Hvað verður á morgun? Hæstv. ráðherra virðist telja að peninga vanti í ríkissjóð. Það var ekki svo fyrir nokkrum dögum þegar skattalækkunarfrumvörpin voru til umræðu.

Það er hægt að velta þessu máli fyrir sér út frá ýmsum sjónarhornum. Við höfðum fréttir af því að heilbrigðisráðherrar Norðurlanda hefðu hist og rætt um þá stefnu sem ætti að hafa í sköttum á áfengi og þar eru menn þeirrar skoðunar að það eigi að hafa þá eins háa og mögulegt er. En þar er við ramman reip að draga því að í Evrópusambandinu eru skattar á áfengi almennt miklu lægri en hér og við höfum séð kvartanir ferðaþjónustunnar á Íslandi yfir því að hér séu skattar á áfengi allt of háir.

Ég er á þeirri skoðun að allar breytingar í áfengismálum eigi að vera hægar og tel þess vegna að ekki sé ástæða til að koma að fullu til móts við hugmyndir ferðaþjónustunnar um hvað áfengi eigi að kosta á Íslandi. Það er hins vegar umhugsunarefni hvort menn eiga að hlaupa til með hækkanir núna á áfengi. Ég sé ástæðu til þess að menn skoði það í nefndinni og hlusti á röksemdir ferðaþjónustumanna t.d. hvað þessi málefni varðar.

Það er náttúrlega greinilegt að þær álögur sem verið er að ákveða í dag koma út hjá almenningi í landinu með meiri þunga en bara sem svarar hækkunum á áfenginu, á bifreiðagjöldunum sem voru til umræðu í dag og á þeim aukatekjum sem ríkissjóður er að innheimta. Þess vegna er ljóst að við erum í raun að tala um álögur sem eru sennilega ekkert langt frá því að skipta milljarði fyrir almenning í landinu ef allt er saman reiknað vegna hækkana á skuldum því að allt hefur þetta áhrif á vísitöluna og vísitalan er undarleg skepna á Íslandi. Þar skal allt reiknað til verðs og skuldir fólks skulu hækka í samræmi við það. Þetta er mikið umhugsunarefni og hefur verið lengi, þ.e. spurningin um hvort ekki sé kominn tími til að menn fari að skoða þessi mál aftur, hvort virkilega sé ástæða til þess að skuldir heimilanna hækki þó hér sé breytt áfengisgjaldi. Ég tel alla vega að setja eigi við það nokkur spurningarmerki og fara yfir það að nýju hvort það eigi að hafa þessa stefnu til framtíðar.

Svo getum við líka velt því fyrir okkur hvort við eigum í raun að fara svona að með mál á hv. Alþingi. Hér hefur orðið til sú venja að þegar fara á að breyta álögum á áfengi þá skuli það gert með einhverjum extra hraði í sölum Alþingis. Það er kastað fram frumvarpi. Því er dreift og tekið til umræðu á auga lifandi bragð. Nefnd skal koma að störfum, setjast yfir málið og klára það og Alþingi skal bíða á meðan, taka síðan málið fyrir og klára það. Er þetta nú svona óskaplega nauðsynlegt að fara svona að í opnu lýðræðissamfélagi? Ég held ekki. Og ég held ekki að 7% breytingar á einhverjum vörum kalli menn til þess að fara að hamstra viðkomandi vörur. Mér hefur a.m.k. sýnst að þegar kaupmenn vilja laða að sér fólk þá séu prósentutölurnar töluvert hærri sem eru þá veittar í afslætti eða með öðrum hætti komið til móts við kaupendurna. Ég hef enga trú á því að menn muni raða sér í langar biðraðir við áfengisverslanir þó að von sé á hækkun upp á 7%. Ég vil beina því til hæstv. fjármálaráðherra að hann velti því fyrir sér a.m.k. næst hvort ekki megi bara fara með breytingar á áfengisverði eins og hver önnur mál sem sem koma til Alþingis. Það er ábyggilegt að ýmsum finnst þetta ekki vera neitt nauðsynleg aðferð. Þetta er kannski skiljanlegra í ljósi tímans. Þetta var nefnilega öðruvísi meðan verðbólgan geisaði á Íslandi. Þá var verið að taka hér afstöðu til þess að hækka áfengi um miklu hærri prósentutölur en hér er um að ræða og þá hefur kannski verið ástæða til að halda að einhverjir mundu leggja land undir fót og fara í áfengisverslun til að ná sér í áfengi á lága verðinu eins og hefði mátt kalla það þá. En þessi breyting er nú ekki svo mikil að ástæða sé til þess að fara svona að. Ég alla vega kann ekki afskaplega vel við að mál séu tekin með slíkum hraða í gegnum hv. Alþingi.

Auðvitað er þetta mál ekki flókið þannig að sjálfsagt er svo sem hægt að afgreiða það með hraða í hv. nefnd. En ég vil hafa þessi orð uppi einfaldlega vegna þess að ég tel að engin þörf sé á því að afgreiða þetta mál með þeim aðferðum sem hér er beitt.