131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:29]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þingmanns vakti eftirtekt mína vegna þess að hann kemur hér dag eftir dag og hefur sífellt nýja skoðun á hverjum degi. Hv. þm. talaði um nauðsyn þess að draga úr þenslu og að þingmönnum bæri skylda til þess að grípa til aðgerða sem drægju úr þenslu. Hann talaði fyrir nokkrum dögum um nauðsyn þess að lækka skatta í þensluástandi sem samkvæmt ráðleggingum sérfræðinga er óvarlegt vegna þess að það ýtir undir þenslu. Það rekur sig hvað á annars horn í máli hv. þingmanns. Látum það nú vera.

Ég er ekki jafnsvartsýnn og hv. þingmaður um það að þessi þróun á fasteignamarkaði sem Íbúðalánasjóður hefur ýtt af stað leiði til einhvers konar kreppu eða niðursveiflu í verði fasteigna um 15–20%. Menn verða að gæta að því hvað þeir segja, menn sem eru í talsmennsku og forustu eins og hv. þingmaður eiga ekki að koma með svona dómadagsspár. Eða hvað vakti fyrir þingmanninum með því að rekja með svona svartsýnum hætti þá þróun sem hefur verið erlendis? Tæpast getur það verið annað en að nota það til þess að slá varnagla hér.

Að öðru leyti, herra forseti, hefur hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson oft og mörgum sinnum talað gegn Íbúðalánasjóði. Hann hefur talað um að það eigi að leggja sjóðinn af. Þau samtök sem hann hefur tengst helst, Samband ungra sjálfstæðismanna og Heimdallur, hafa talað um að það eigi að leggja af Íbúðalánasjóð. Nú er hv. þingmaður hér með tillögur sem styrkja Íbúðalánasjóð. Hv. þingmaður hefur algjörlega snúist eins og skopparakringla, hann er farinn að styðja það sem hann vildi afnema áður. En ég skil af hverju. Hv. þingmaður sér þessa þróun fyrir, hann lýsir hér mjög uggvænlegri þróun í húsnæðismálum og ef hún gengur eftir þurfum við á stofnun eins og Íbúðalánasjóði að halda til að hreinsa upp eftir hv. þingmann og nóta hans.