131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[17:26]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hér er á ferðinni mikilvægt mál sem nauðsynlegt er að Alþingi gefist tími og ráðrúm til að athuga vel og það þarf að vanda þessa löggjöf sem auðvitað er tímabær. En það vill svo heppilega til að það er á hinn bóginn engin þörf á að kasta hér til höndunum og hraða þessu verki á nokkurn hátt því það er engin slík vá fyrir dyrum varðandi það að gefa út rannsóknar- eða leitarleyfi eins og frumvarpið gengur út á að gert verði og sett í farveg. Þvert á móti standa öll rök til þess að vanda nú grundvallarlöggjöfina sem um þetta gildir og fara í þá vinnu sem í raun og veru á að skjóta á frest og setja í nefnd samkvæmt bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu, þannig að á grundvelli þess fyrirkomulags sem síðan verður niðurstaðan að viðhafa verði hægt að standa faglega og vel að málum. Það er ýmislegt að breytast í þessum efnum og þar kemur auðvitað sérstaklega markaðsvæðing orkugeirans við sögu sem mun hafa heilmikil áhrif á rannsóknarumhverfið á þessu sviði hvað varðar orkunýtinguna og að mínu mati mjög líklega leiða til þess að hlutur ríkisvaldsins eða hins opinbera verður að aukast verulega á nýjan leik í grunnrannsóknum vegna þess að einkafyrirtæki í samkeppni á þessum markaði eru í annarri stöðu til að taka áhættu og leggja fé í rannsóknir þegar samkeppni er komin á um framleiðsluna og þau hafa ekki sömu lögvernduðu stöðuna til að selja framleiðslu sína og verið hefur.

En ég held ég neyðist fyrst til þess að víkja nokkrum orðum að hæstv. ráðherra og þeim orðaleppum sem hæstv. ráðherra hefur viðhaft hér í garð flokkssystra minna sem hér töluðu á undan mér, Kolbrúnar Halldórsdóttur og Álfheiðar Ingadóttur. Ég hygg að það hafi verið lærdómsríkt fyrir hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, tiltölulega nýlega manneskju í þingstörfum, að kynnast kynsystur sinni og viðhorfum og hlýjunni sem stafaði frá hæstv. ráðherra í garð þingmannsins í ýmsum ummælum. Satt best að segja er leitun að öðrum eins ómerkilegheitum og komu fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur þegar hún vék að stöðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur sem stjórnarmanns í Landsvirkjun. Lengi getur vont versnað, verð ég að segja.

Við erum auðvitað orðin því alvön hér sum að taka við orðaleppunum frá Framsókn og þjóðin er að verða þessu býsna vön líka. Það vill svo til að á undanförnum dögum hef ég verið stöðvaður á götu og í mig hafa hringt menn eða sent mér tölvupóst, algerlega gáttaðir t.d. á hæstv. forsætisráðherra Halldóri Ásgrímssyni, þegar hann í ræðusölum Alþingis ber það beinlínis á menn, á þingmenn á löggjafarsamkomunni, að þeir séu á móti því að bæta lífskjör þjóðarinnar og finnst bara sjálfsagt mál að koma með slíka leppa.

Svipaða spurningu fékk ég frá hv. þm. Jónínu Bjartmarz í sjónvarpsþætti. Ég var spurður hvort ég væri á móti því að bæta lífskjör þjóðarinnar. Hv. þingmanni Jónínu Bjartmarz fannst ekkert óeðlilegt við þessa spurningu að því er virtist, eins og það gætu verið til stjórnmálamenn og jafnvel heilir stjórnmálaflokkar sem væru bara beinlínis á móti því að bæta lífskjör í landi sínu. Kemur svo ekki hæstv. iðnaðarráðherra í sama framsóknarstílnum og telur ekkert að því að bera á menn hluti af því tagi sem hún gerði hér áðan. Ég tel það argasta áburð að bera það á stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokka að menn séu á móti því að nýta auðlindir þjóðar henni til velsældar. Dettur einhverjum heilvita manni virkilega í hug að það geti verið þannig? Að einhverjir tækju sig til og stofnuðu stjórnmálaflokk sem hefði það á stefnuskrá sinni að vera á móti því að skapa velsæld í landinu?

Það er fínt að Framsókn segi sem mest af þessu. Í raun afhjúpast hin fullkomna málefnafátækt Framsóknarflokksins mjög rækilega í gegnum það hvernig Framsókn gengur hér fram. Það var auðvitað voðalega fyndið að vera með þá frasa að við værum á móti öllu í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði af því að við stóðum í hörðum slag gegn ýmsum umdeildum málum ríkisstjórnarinnar, t.d. á síðasta kjörtímabili. Ætli það fari ekki að fá ýmsa til að hugsa og velta hlutunum fyrir sér þegar mönnum finnst ekkert að því að bera hluti af þessu tagi á menn, að þeir séu á móti framförum, þeir séu á móti velsæld, þeir séu á móti bættum lífskjörum í einu landi?

Má ég þá biðja um umræðuna upp á aðeins hærra plan, eins og Nóbelsskáldið sagði forðum.

Ætli það sé ekki frekar þannig, frú forseti, að okkur greini stundum á um þær leiðir sem bestar séu og vænlegastar til að bæta lífskjörin? Í þessum málum er ósköp einfaldlega á köflum um grundvallarágreining að ræða. Í hverju felst hann? Jú, hann felst í því að við sem erum í umhverfisverndarsinnuðum grænum stjórnmálaflokki höfum önnur viðmið þegar kemur að því hvað sé réttlætanlegt gagnvart náttúru og umhverfi landsins. Það er alveg deginum ljósara. Það er ósköp einfaldlega það sem þessi ágreiningur snýst um, að stjórnarflokkarnir, og alveg sérstaklega Framsóknarflokkurinn, hafa ítrekað sýnt það með verkum sínum að þeir sjá ekkert athugavert við að ganga miklu nær náttúru og umhverfi landsins en aðrir flokkar og miklu nær en Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Það er alveg ljóst.

Framsóknarflokkurinn segir að vísu stundum á fundum þegar hann er í góðu skapi að það eigi ekki að snerta friðuð svæði. Það mun hafa verið ályktað um það hjá Framsókn að friðlýst svæði ættu alltaf að vera í friði. Hvað gerir svo Framsókn? Berst með kjafti og klóm fyrir Kárahnjúkavirkjun sem eyðileggur um 40% af löngu friðlýstu svæði, Kringilsárrananum. Það átti ekki að snerta ferþumlung af Þjórsárverum, ekki fersentímetra, sagði Guðni Ágústsson. Svo kemur Framsókn og berst fyrir Norðlingaölduveitu sem réttara væri að kalla Þjórsárveraveitu og telur ekkert athugavert við það að sökkva þar hluta af Þjórsárverum. (BJJ: Þetta er bara ekki málefnalegt, Steingrímur.) Þetta er fullkomlega málefnalegt, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, vegna þess að þetta eru staðreyndir. Er það kannski ekki staðreynd að Framsóknarflokkurinn hafi barist fyrir Kárahnjúkavirkjun? Er það ekki staðreynd að undir Hálslón fari 40% af Kringilsárrana? Er það ekki staðreynd að Kringilsárrani var friðlýstur fyrir meira en 20 árum? Jú, þetta eru allt staðreyndir. (BJJ: … svæði.) Allt staðreyndir. Hið landfræðilega hugtak Þjórsárvera nær langt út yfir friðlýsta svæðið. Það hefur verið baráttumál umhverfisverndarsinna um áratuga skeið að færa út þessi friðlandsmörk vegna þess að þau voru sett á kort með beinum línum sem afleiðing af málamiðlun fyrir löngu síðan. Þetta á hv. þm. að kynna sér áður en hann fer að gjamma hér fram í og tala um að þetta sé ekki málefnalegt. Ég er að rekja staðreyndir.

Eru það ekki staðreyndir að Framsóknarflokkurinn sé uppi um leið og við mælum varnaðarorð gagnvart því að menn fari ekki offari og gangi ekki á hinar náttúrulegu auðlindir landsins? Um leið og við förum fram á að þær séu nýttar á sjálfbæran hátt kemur m.a. hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir og dregur af því þá ályktun að þar með sé leyfilegt að fullyrða að við séum á móti allri nýtingu auðlinda, við séum á móti öllum virkjunum og svo allt hitt sem á eftir fylgir. Þetta er svo barnalegur málflutningur, svo neðan við allar hellur, að ég vona að Framsóknarflokkurinn haldi honum sem lengst uppi. Það gefur okkur tækifæri til að svara honum og ég er ekki feiminn við þá umræðu. Ég er ekki hræddur við hana. Ég spái því að við munum hafa betri hlutinn í því svo lengi sem við höfum málfrelsi til að ræða hlutina og koma rökum okkar á framfæri.

Ég held að það sé mjög djúprætt í þjóðarsálinni að þrátt fyrir allt vilji menn fara varlega gagnvart náttúrugersemunum okkar. Ég held það. Ég held að það sé mjög auðvelt í raun og veru að ná víðtækri sátt í þjóðfélaginu um að reisa hér stefnu sjálfbærrar þróunar og sjálfbærrar nýtingar, t.d. sjálfbærs orkubúskapar. Þar er aðeins ein hindrun í veginum, stóriðjugræðgin. Ísland hefur stórkostlega möguleika og langt umfram flestar aðrar þjóðir í reynd til að móta hér sjálfbærar áherslur, t.d. í orkumálum. Við erum hins vegar ekki að gera það. Við erum á fullri ferð í burtu frá því. Það er mjög dapurlegt.

Það er nefnilega ekki nokkurt minnsta vandamál fyrir Ísland að sinna öllum þörfum landsmanna sjálfra fyrir orku, almennra borgara og almenns atvinnulífs, almenns iðnaðar í þessu landi. Það er enginn vandi að skaffa blómlegum og blómstrandi almennum iðnaði orku til framtíðar. Það er enginn vandi þegar þar að kemur og í fyllingu tímans að skipta út innfluttu jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda orkugjafa án nokkurra umtalsverðra náttúrufórna. Þetta er nefnilega allt hægt. Það er fyrst þegar kemur að stóriðjugræðginni, orkugræðginni, hömlulausri, sem vandamálin banka á dyrnar. Við höfum meira en nægan orkuforða í jarðvarma og fallvatni sem hægt er að virkja án umhverfisspjalla að heitið getur, a.m.k. alveg örugglega án nokkurra óafturkræfra umhverfisspjalla ef við förum skynsamlega að ráði okkar. Þetta er hægt með gufuaflsvirkjunum sem nýta svæðin hóflega. Í fyllingu tímans munu þær verða lokuð hringrás, þ.e. það verður dælt niður nokkurn veginn sama vökva aftur og upp er tekinn. Með því að draga þá ekki meiri orku upp en nokkurn veginn endurnýjar sig jafnóðum neðan frá getur sú nýting orðið alveg glæsilegt dæmi um fullkomlega sjálfbæran orkubúskap. Þetta vita menn.

Við getum reist mikið af vatnsaflsvirkjunum enn þá, t.d. beinum rennslisvirkjunum, ég tala nú ekki um í bergvatnsám, sem hafa engin stórfelld umhverfisáhrif í för með sér nema þá þá farvegi sem standa tómir á einhverjum kafla, kannski á móti fallinu sem tekið er. Þær eru líka afturkræfar, a.m.k. í þeim skilningi að það er hægt að taka þær niður og skila vatninu aftur í farveginn. Það getur auðvitað haft áhrif á lífríki og annað því um líkt en þau áhrif eru brot af hinu (BJJ: Ertu með dæmi?) sem við sjáum í nýtingu þegar við erum að beisla jökulvötnin. Nú kemur þetta venjulega: Ertu með dæmi? (BJJ: Nei, ég bara …) Já, ég skal fara með dæmin fyrir hv. þm. Birki Jón Jónsson. Ég held að ég kunni þessi fræði ágætlega þótt ég ætli ekki að fara að hæla sjálfum mér. Ég hef hrærst í þessum heimi í næstum 30 ár, frá því að ég fór að læra náttúruvísindi í Háskóla Íslands. Hvers vegna fór ég í jarðfræði? Jú, m.a. vegna þess að ég var mjög spenntur fyrir því að hafa þekkingu á takteinunum um nýtingu auðlinda.

Ég hef alla mína tíð verið því hlynntur að við nýttum hinar náttúrulegu auðlindir landsins okkur til framfara, hvort sem er til lands eða sjávar. En leiðir skilur í því hvað við getum leyft okkur í þeim efnum. Þá skilur sem betur fer leiðir með mér og umhverfissóðum af því tagi sem tóku völdin í Framsóknarflokknum þegar Steingrímur Hermannsson lét þar af formennsku. Það voru dapurleg og sorgleg tímamót að í flokki Eysteins Jónssonar og Steingríms Hermannssonar skyldi komast til valda fólk af tagi Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur sem hafa meira en gjöreyðilagt þann orðstír sem Framsóknarflokkurinn þá átti á sviði umhverfismála. Það var glæsilegt fyrir framsóknarmenn að eiga á einum tíma og sinni tíð forustumann í þeim málum eins og Eystein Jónsson, blessuð sé minning hans. Og Steingrímur Hermannsson átti sér þá drauma að gera Framsóknarflokkinn að grænum flokki í bókstaflegri merkingu þess orðs, að hann yrði hlynntur umhverfisvernd. Hann hefur reynt að róa á það borðið síðan en honum hlýtur að líða illa, og fleirum sem bundu vonir við það að Framsóknarflokkurinn yrði með þessi merki við hún, að sjá hvernig sá flokkur er núna leikinn af þeim sem þar fara með völdin. Og að ungt fólk í þessum flokki sem ætlar sér kannski einhverja framtíð í honum skuli ganga undir þetta jarðarmen og elta forustuna út á þetta berangur, það er dapurlegt til þess að vita.

Framsóknarflokkurinn hefur alls ekki komið því inn í höfuðið á sér hvað sjálfbær þróun er, og ríkisstjórnin yfir höfuð ekki. Það er svo undarlegt með það að ráðherrar í ríkisstjórnum Íslands skrifa iðulega undir plögg og gera ályktanir, t.d. á alþjóðavettvangi og koma svo heim og virðast ekkert vita hvað þeir skrifuðu undir, gera hið gagnstæða, nema tvöfeldnin sé svona ofboðsleg. Það má taka mörg dæmin um þetta. Fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, stóð að því að skrifa undir ágætisbók um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum. Hvað var hún að gera hérna heima? Hún var með stimpilinn á lofti fyrir iðnaðarráðuneytið og Landsvirkjun að berja niður alla andstöðu gagnvart þeim umhverfisspjöllum sem stórframkvæmdir munu hafa í för með sér. Hún var í aðstöðu til að stoppa þau og átti að gera það sem umhverfisráðherra. En hvað gerði hún? Hún tók faglega niðurstöðu stofnunar sem undir hana heyrði um að hafna Kárahnjúkavirkjun sem fékk falleinkunn í mati á umhverfisáhrifum og sneri henni við með málamyndaskilmálum sem engu breyttu um verkið. Það er einhver dapurlegasti bautasteinn sem einn ráðherra hefur í langan tíma reist sér á Íslandi, þetta sem Siv Friðleifsdóttir er ábyrg fyrir í ráðuneytistíð sinni. Menn þykjast svo sem vita það að henni hafi kannski ekki verið vel sjálfrátt, að flokksaginn hafi ráðið, en hún ber ábyrgðina engu að síður.

Hvernig er þetta t.d. með loftslagsmálin? Ég er hér með bækling sem núverandi hæstv. utanríkisráðherra ritar undir. Þar er verið að vara við þessum miklu gróðurhúsaáhrifum sem hlýnun lofthjúpsins mun hafa hér á norðurslóðum. Þar er ekkert verið að skafa utan af því þegar kemur að orsökunum, að mjög sterkar vísbendingar séu orðnar um þátt mannsins í þessu öllu saman. Mengunin er hér á myndum. Við vitum hvernig sami hæstv. ráðherra hefur stundum talað, vefengt þetta allt saman og dregið í efa. Það er eins og ráðherrum finnist ekkert mál að skrifa undir skýrslur, gefa þær jafnvel út, senda frá sér rit þar sem fagmenn hafa reitt fram upplýsingarnar, en gera síðan eitthvað alveg gagnstætt.

Það er mjög dapurlegt, herra forseti. Þess vegna er full ástæða til að menn hafi varann á sér gagnvart þessu frumvarpi sem kemur úr virkjanaráðuneytinu. Umhverfismálin eru hér nánast hvergi nefnd — það var varla við öðru að búast — og þá kemur hæstv. ráðherra og segir: Já, en þetta er nýtingarfrumvarp. Þetta er nýtingarlöggjöf, nýtingin heyrir undir iðnaðarráðuneytið en svo er bara eitthvert umhverfisráðuneyti með þau mál. Bíddu, á þá ekki að vera neitt samband þarna á milli? Tengist þetta hvergi? Ha? Halda menn að þetta geti gengið þannig, að það sé bara hægt að keyra einhverja nýtingarlínu algerlega ómeðvitaður um hinn þátt málsins, þ.e. áhrifin á umhverfið? Nei, auðvitað ekki. Það heitir samþætting. Ég hélt að hún væri líka í tísku. Það á að vefa umhverfisþættina inn í alla stefnumótun og alla ákvarðanatöku um nýtingu á auðlindum. Það er búið að skrifa undir það líka, hæstv. ráðherra virðist bara ekki vita það. Hér rekur sig algerlega hvað á annars horn.

Ég skal kannski bara í seinni ræðu nefna virkjanirnar fyrir hv. þm. Birki Jón Jónsson af því að tíma mínum er senn lokið. Ég hef svo sem oft gert það áður. Það er svo fáfengilegt að manni finnst það eiginlega hálfgerður brandari að þurfa að fara að telja upp virkjanir sem maður geti stutt og maður telji góðar. En af því að Framsókn skilur ekki umræðuna nema hún sé á því plani er alveg hægt að gera það. Ég hef sagt það úr þessum ræðustóli t.d. að Vatnsfellsvirkjun er algerlega sjálfsögð virkjun til að nýta frekar þær miðlanir og þær framkvæmdir sem hvort sem er eru komnar á Þjórsársvæðinu. Sama má segja um Búðarhálsvirkjun. Það er alveg sjálfsagt mál að taka þessar virkjanir í framhaldi af því sem þegar er búið að gera þarna. Það er miklu betra að fara í þær en að fara inn á ný og ósnortin svæði. Það er alveg sjálfsagt mál að fullnýta Kröflusvæðið úr því sem komið er. Að sjálfsögðu. Það er miklu gáfulegra að gera það en að bera niður á nýjum stað, fara að rassakastast um á Torfajökulssvæðinu o.s.frv. Það er ekkert vandamál að telja upp næga virkjunarkosti í jarðvarma og þess vegna í fallvötnum sem duga Íslendingum sjálfum, þróun almenns iðnaðar hér í landinu í 50, 100, 200 ár, plús það að vetnisvæða okkur ef það verður niðurstaðan eða skipta olíum og öðru slíku út með innlendum orkugjöfum þegar og ef tæknin leyfir okkur það. Ekki nokkurt vandamál.

Það er einmitt það sem við eigum að stefna á að gera. Við þurfum að passa að við eigum orku eftir í það, vera ekki búin að tappa öllu saman í erlendar álbræðslur á útsöluverði til langs tíma. Það er glórulaus stefna, ég tala nú ekki um þegar menn fara í virkjanirnar í algerlega öfugri röð. Hæstv. ríkisstjórn veit vel að þær virkjanir sem hún er að knýja í gegn einmitt núna eru tvær af þremur sem verst komu út í bráðabirgðaniðurstöðum rammaáætlunar, Kárahnjúkavirkjun og Þjórsárveravirkjun eru tvær af þremur verstu virkjununum sem bráðabirgðaniðurstöður rammaáætlunar tóku til. Sú þriðja væri þá Jökulsá á Fjöllum, ef einhverjum dytti það í hug.

Þetta liggur fyrir. Þetta eru líka staðreyndir, hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Ef það er ómálefnalegt að fara með staðreyndir er það ný útgáfa Framsóknarflokksins á því hugtaki, væri svo sem eftir öðru.

Það sem er sérstakt vandamál í sambandi við þetta frumvarp og viðfangsefni þess er það kapphlaup sem er skollið á milli orkufyrirtækjanna um að helga sér land, um að míga utan í allar þúfur og helga sér land vegna þeirra breytinga sem fram undan eru í þessum efnum. Við eigum ekki að láta það hafa áhrif á fagleg og vönduð vinnubrögð að þessu leyti. Þess vegna er að mínu mati gæfulegast að frysta nú um sinn frekari útgáfu rannsóknarleyfa, undirbúa grundvöllinn, setja rammaáætlun í gildi og koma þessu fyrirkomulagi hér á. Þá er hægt að fara að taka einhverjar vitrænar ákvarðanir og þar á meðal að úthluta leitar- og rannsóknarleyfum.