131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[14:02]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og eins þeim hv. þm. sem hér hafa lagt orð í belg í þessari umræðu.

Vissulega ber að fagna því sem vel er gert, bæði 42% fjölgun ferða Herjólfs á tiltölulega skömmum tíma og þær aðgerðir sem eiga sér stað hvað varðar aðstöðuna á Bakkaflugvelli.

Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd eins og hér hefur glögglega komið fram í umræðunni að eftir að Mánafoss hætti að sigla og koma við í Vestmannaeyjum 1. desember eru núverandi aðstæður algjörlega ófullnægjandi. Það eru þau skilaboð sem við þingmennirnir fáum, bæði frá atvinnurekendum og almenningi í Vestmannaeyjum. Auðvitað höfum við ákveðnar skyldur gagnvart þessu samfélagi sem telur á fimmta þúsund manns. Þannig hafa atvinnurekendur tjáð mér að miðað við óbreytt ástand um flutninga kunni þeir beinlínis að neyðast til að færa starfsemi sína upp á land vegna samgönguerfiðleika, vegna erfiðleika við að koma vöru sinni á markað. Það þarf ekkert að efast um hvaða afleiðingar það hefði fyrir samfélagið í Eyjum og hver kostnaður samfélagsins af slíku yrði.

Eins og hér hefur komið fram er unnið að langtímalausnum, bæði við Bakkafjöru eða göng, endurútboð á siglingum og hugsanlega nýtt skip. Þær lausnir eru framtíðarlausnir og langtímalausnir og duga Vestmannaeyingum skammt í þeim vanda sem þeir eru að glíma við í dag og þeim vanda sem steðjar að Vestmannaeyingum í dag. Ég treysti því að hæstv. ráðherra muni þá beita sér fyrir því að leysa þennan vanda. Eins og hér hefur skýrt komið fram í umræðunum standa þingmenn Suðurk., og augljóslega langt út fyrir það, að baki því að þessi vandi verði leystur og það hið bráðasta.