131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:55]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það sem hæstv. ráðherra las hér upp fól það í sér að stjórnandi þáttarins rekur það að allir flokkar nema einn eru með því að lækka matarskattinn og hann spyr hæstv. ráðherra hvort það sé Framsóknarflokkurinn sem sé á móti. Hann svarar að það sé ekki rétt að orða það þannig, það sé verið að reyna að komast til botns í málinu.

Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu en þá að verið sé að reyna að kanna með hvaða hætti sé hægt að draga Framsóknarflokkinn til réttar í þessu máli, til réttrar niðurstöðu. Það er með engu móti hægt að segja annað en að Framsóknarflokkurinn sé fyrirstaðan í málinu, það er ekki hægt að draga aðra ályktun af máli hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er reyndar í annað skipti sem hæstv. ráðherra hefur orðað þetta með þessum hætti. Auðvitað vita allir í þessum sal að eini flokkurinn sem er á móti því að matarskatturinn verði lækkaður um helming er Framsóknarflokkurinn.

Af hverju verður mér svo tíðrætt um þetta? Vegna þess að þetta var eitt aðalkeppikefli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni.