131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[11:07]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er eðlilegt að hv. þingmaður frjósi í ræðustólnum þegar hann þarf að verja andstöðu við frumvarp sem er svona stórkostleg breyting á íslensku þjóðfélagi. Hann nefnir hækkun á krónutölusköttum sem hafa verið hækkaðir. Það er ekki skattahækkun og ég er margbúinn að spyrja hv. þingmenn Samfylkingarinnar hvort það sé skattalækkun eða skattahækkun þegar krónutölugjald sem er búið að vera óbreytt í mörg ár er hækkað í takt við verðbólguna. Ég hef ekki fengið svar við því. Auðvitað er þetta raunlækkun sem við erum að tala um, oft og tíðum.

Nei, hér erum við að byggja upp og rækta stóran grænan skóg, iðjagrænan, og hv. þingmaður gengur um niðurlútur og horfir niður í svörðinn og sér ekkert annað en fölnuð laufblöð.