131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

321. mál
[01:52]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það hefur gilt á íslenskum vinnumarkaði að kjarasamningar sem verkalýðshreyfingin gerir við Samtök atvinnurekenda hafa gilt sem lágmarkskjör. Þetta var sama fyrirkomulag og var við lýði í Bretlandi á sínum tíma áður en skoðanasystir hv. þm. Péturs H. Blöndals, Margrét Thatcher, komst þar til valda. Hún sagði að það mikilvægasta verk sem Íhaldsflokkurinn þyrfti að vinna væri að brjóta niður alvarlegasta eða versta einokunarhringinn, sem hún kallaði svo, í bresku efnahagskerfi, þ.e. verkalýðshreyfinguna sem einokaði ákvörðun um kaup og kjör. Henni tókst að gera þetta. Um þetta takast menn núna á í Evrópu og menn takast á um þetta á Íslandi. Þetta er angi af þeirri umræðu. Þjónustutilskipun Evrópusambandsins sem nú er mjög til umræðu gengur að hluta til út á þetta vegna þess að samkvæmt henni á að innleiða svokallaða upprunalandsreglu sem byggir á því að kjarasamningar og reglur sem gildi í atvinnufyrirtækinu eigi að taka mið af því sem gerist í því landi sem fyrirtækið er upprunnið í. Fyrirtæki í Póllandi sem starfar í Þýskalandi eða Frakklandi, Bretlandi, flytur með sér sína kjarasamninga. Menn takast á um þetta annars vegar og hins vegar hitt, að lágmarkskjör í viðkomandi landi skuli gilda og almennir kjarasamningar þar. Það sem verktakarnir hafa verið að gera hér er einmitt þetta, að fara undir þau kjör sem tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Þessu hefur verkalýðshreyfingin verið að andæfa. Þess vegna þarf hún líka að fá innsýn í þessa samninga. Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um það, og það veit ég frá fyrstu hendi, að verkafólkið t.d. við Kárahnjúka tekur því ekki illa þegar fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar koma og vilja fá upplýsingar um þeirra kjör. Ég get líka fullvissað hv. þingmann um það að þeir sjómenn sem hingað hafa komið á skipum sem flaggað hefur verið út eða eru með áhafnir frá fátækum ríkjum taka því ekki illa heldur (Gripið fram í: Og missa vinnuna.) þegar fulltrúar ... Ég veit það já. (PHB: Missi vinnuna.) Ég veit að þeir taka því ekki illa (PHB: Að þeir missi vinnuna?) þegar fulltrúar íslenskrar verkalýðshreyfingar koma og vilja rýna í þeirra kjör vegna þess að þetta er alþjóðleg viðleitni verkalýðshreyfingarinnar til að tryggja og treysta kjör fólksins.